Hæstiréttur íslands

Mál nr. 230/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Lífsgjöf
  • Skuldajöfnuður


Föstudaginn 20

 

Föstudaginn 20. ágúst 2004.

Nr. 230/2004.

A

B

C og

D

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

E

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Lífsgjöf. Skuldajöfnuður.

Ágreiningur reis meðal erfingja X við skipti á dánarbúi hans. Töldu erfingjarnir A, B, C og D að erfinginn E væri í skuld við dánarbúið. Stafaði sú skuld annars vegar af því að hluta af söluandvirði eignarhluta X í þar til greindu landi hafi verið ráðstafað til E og hins vegar af því að E hafi tekið fé af bankareikningi X og nýtt í eigin þágu. Tókst E ekki að sanna að X hafi ráðstafað áðurnefndum hluta söluandvirðisins sem gjöf til hans eða að úttektir af bankareikningi X hafi verið varið í þágu X utan tveggja reikninga vegna sumarbústaðar í eigu dánarbúsins. Var því að stærstum hluta fallist á kröfu A, B, C og D.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2004, þar sem varnaraðila var gert að greiða dánarbúi X 699.942 krónur með dráttarvöxtum frá 7. apríl 2004 til greiðsludags. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt þannig að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúi X 2.762.462 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2003 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Faðir málsaðila, X, lést [...] 2001. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2002 var dánarbú hans tekið til opinberra skipta. Ágreiningur reis meðal erfingja. Krafðist skiptastjóri með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um þann ágreining með bréfi 21. september 2003. Sóknaraðilar telja varnaraðila í skuld við dánarbúið. Stafi sú skuld annars vegar af því að hluta af söluandvirði eignarhluta föður málsaðila í landi [...] í Borgarbyggð, sem seldur var 24. maí 1999, hafi verið ráðstafað til varnaraðila og hins vegar af því að varnaraðili hafi tekið fé af bankareikningum föður þeirra og nýtt í eigin þágu. Með hinum kærða úrskurði var skorið úr þessum ágreiningi.

II.

X seldi 1/6 hluta jarðarinnar [...] í Borgarbyggð með kaupsamningi og afsali 24. maí 1999. Kaupverðið, 3.900.000 krónur að frádregnum 63.322 krónum vegna uppgjörs á veiðileigu fyrir Norðurá, var greitt samdægurs til lögmanns þess, sem gætti hagsmuna X við söluna. Lögmaðurinn gaf 28. sama mánaðar út reikning að fjárhæð 260.960 krónur vegna starfa sinna við söluna. Þann sama dag gaf lögmaðurinn út tékka til X að fjárhæð 3.575.718 krónur, sem nam söluverði eignarhlutans í jörðinni að fádregnum framangreindum fjárhæðum vegna veiðileigu og lögmannsþóknunar. X framseldi tékka þennan eyðuframsali. Meðal gagna málsins er viðskiptakvittun frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 28. maí 1999. Í fyrirsögn hennar er X tilgreindur viðskiptamaður. Í texta kvittunarinnar eru innlegg sundurliðuð í tvennt. Annars vegar 1.300.000 krónur og hins vegar 2.275.718 krónur og er kennitala varnaraðila tilgreind á eftir orðinu greiðandi varðandi þau bæði. Neðst á kvittuninni er síðan textinn „ávísanir 3.575.718,00“ og  „samtals út 3.575.718,00“. Loks er meðal gagna málsins tékki að fjárhæð 1.300.000 krónur útgefinn sama dag af sparisjóðnum til varnaraðila.

 Í hinum kærða úrskurði er rakin frásögn varnaraðila þess efnis að X hafi farið með tékkann í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, innleyst hann og keypt annan tékka að fjárhæð 1.300.000 krónur á nafni varnaraðila fyrir hluta andvirðisins, sem hann hafi afhent varnaraðila að gjöf. Ekki verður talið með hliðsjón af framanrituðu að tilgreining X sem viðskiptamanns á framangreindri viðskiptakvittun renni ein sér nægilegum stoðum undir þessa frásögn varnaraðila. Þar sem engin önnur gögn styðja fullyrðingar hans hefur varnaraðila ekki tekist að sanna að X hafi ráðstafað 1.300.000 krónum af söluverð eignarhlutans í [...] sem gjöf til hans.

III.

Kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er í annan stað reist á því að varnaraðili sé í skuld við dánarbúið um 1.462.462 krónur, sem séu óheimilar úttektir hans af reikningi föður málsaðila umfram innborganir á árunum 1999 til 2001. Er það í samræmi við endanlega kröfugerð sóknaraðila í héraði að öðru leyti en því að þau fallast á niðurstöðu héraðsdóms um að varnaraðili verði ekki endurkrafinn um 100.000 króna úttekt föður málsaðila af reikningi sínum, sem hann greiddi inn á greiðslukortareikning eiginkonu varnaraðila.

 Á skiptafundi í dánarbúi X 12. desember 2002 var tekin sú ákvörðun að láta ekki opna aftur fyrir rafmagn til sumarbústaðar í eigu búsins, en lokað hafði verið fyrir það. Varnaraðili, sem ekki var viðstaddur umræddan skiptafund, lét upp á sitt eindæmi opna aftur fyrir rafmagnið. Gerir hann kröfu um að kostnaður, sem hann greiddi vegna rafmagns og hita í bústaðnum, að fjárhæð 109.650 krónur komi til skuldajöfnuðar á móti endurgreiðslukröfu sóknaraðila. Aðila greinir á um hvort nauðsyn hafi borið til að opna aftur fyrir rafmagnið til að forða bústaðnum frá skemmdum. Hefur varnaraðili engin gögn lagt fram um nauðsyn þess. Getur hann þegar af þeirri ástæðu ekki reist kröfur á hendur búinu á þessum grunni.

Meðal gagna málsins er kvittun fyrir útborgun af bankareikningi X 23. júní 1999 að fjárhæð 350.000 krónur. Varnaraðili kveðst hafa tekið þessa fjárhæð út af reikningi föður málsaðila og keypt fyrir efni, sem notað hafi verið til að smíða geymslu við framangreindan sumarbústað. Varnaraðili hefur enga reikninga lagt fram þessu til stuðnings, en kveðst hafa afhent þá föður sínum. Fyrir Hæstarétt hafa sóknaraðilar lagt útprentun úr skrám Fasteignamats ríkisins þar sem byggingarár umræddrar geymslu er talið vera 1998. Þegar framangreint er virt hefur varnaraðila ekki tekist að sanna að umræddri úttekt hafi verið varið til efniskaupa vegna smíði geymslu við sumarbústað föður málsaðila.

Varnaraðili kveðst hafa greitt 5.170 króna kostnað vegna salernis í margnefndum sumarbústað. Hefur hann lagt fram tvo reikninga vegna efniskaupa í byggingarvöruverslunum, þann 9. júní 2001 að fjárhæð 4.147 krónur og 26. sama mánaðar að fjárhæð 1.023  krónur. Verður að telja að varnaraðili hafi leitt að því nægar líkur að hann hafi greitt þennan kostnað vegna framkvæmda við bústaðinn og kemur framangreind fjárhæð því til lækkunar kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili kveðst hafa greitt níu reikninga vegna útfarar föður málsaðila samtals að fjárhæð 297.700 krónur. Krefst hann þess að þessar greiðslur komi til frádráttar kröfu sóknaraðila á hendur sér. Hefur hann lagt umrædda reikninga fram í málinu. Meðal þeirra er reikningur frá Útfararstofu kirkjugarðanna ehf. að fjárhæð 243.518 krónur, sem ekki ber áritun um greiðslu. Fyrir Hæstarétt hafa sóknaraðilar lagt yfirlit 19. apríl 2004 frá Kaupþingi Búnaðarbanka hf., sem virðist sýna að umræddur reikningur sé enn ógreiddur, svo sem sóknaraðilar halda fram. Getur varnaraðili því ekki reist endurgreiðslukröfu til skuldajafnaðar á móti kröfu sóknaraðila á því að hann hafi greitt þennan hluta útfararkostnaðarins. Sá kostnaður, sem varnaraðili hafði vegna útfararinnar samkvæmt hinum reikningunum átta, kemur hins vegar til frádráttar kröfu sóknaraðila.

Samkvæmt framangreindu verður varnaraðili dæmdur til að greiða dánarbúi X 2.703.110 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Upphafstími dráttarvaxta miðast við 28. nóvember 2003, en þann dag lögðu sóknaraðilar fram í héraði greinargerð með sundurliðaðri kröfu, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

 Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, E, greiði dánarbúi X 2.703.110 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2003 til greiðsludags.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum, A, B, C og D, samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2004.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2002 var ákveðið að fara skyldu fram opinber skipti á dánarbúi X.  Var Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. skipuð skiptastjóri.  Með bréfi er barst dóminum 23. september 2003 skaut skiptastjóri til dómsins ágreiningi er hún sagði vera uppi við skiptin.  Annars vegar var ágreiningur um meintar skuldir E við dánarbúið og hins vegar véfengdu lögerfingjar gildi erfðaskrár sem hinn látni undirritaði 10. desember 2001.  Á síðari stigum málsins var fallið frá síðar greindu ágreiningsefni en áfram rekinn ágreiningur um kröfu dánarbúsins á hendur varnaraðila og var það mál tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 8. mars sl. 

                Sóknaraðilar eru A, B, C, og D.  Þau krefjast þess að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúi X auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 28. nóvember 2003 til greiðsludags.  Að auki er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað óskipt að skaðlausu að mati réttarins.

                Varnaraðili er E.  Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum sóknaraðila.  Til vara krefst hann þess að kröfur sóknaraðila á hendur sér verði stórlega lækkaðar.  Vegna málskostnaðar krefst varnaraðili þess aðallega að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti, en til vara krefst hann þess að málskostnaður falli niður.

 

                Faðir málsaðila, X, lést þann [...] desember 2001.  Hann sat þá í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, og móður málsaðila, Z, sem lést þann [...] mars 1997.  Fljótlega eftir andlát föður síns töldu sóknaraðilar sig verða vara við að eignir dánarbúsins hefðu rýrnað og fóru fram á opinber skipti. 

                Að mati sóknaraðila snýst þetta ágreiningsmál um tvennt.  Annars vegar telja þeir varnaraðila hafa tekið út af bankareikningum hins látna um árabil án þess að sýnt sé að þeim fjármunum hafi verið varið af hinum látna.  Telja þeir varnaraðila hafa nýtt sér þessa fjármuni í eigin þágu.  Hins vegar lýtur ágreiningurinn að því hvernig varnaraðili hafi ráðstafað söluandvirði jarðarparts úr landi, sem var seldur 24. maí 1999, en sá hluti jarðarinnar var í eigu hins látna. 

                Sóknaraðilar kveðast hafa farið yfir bankareikning nr. [...], sem hafi verið á nafni Z og reikning nr. [...], sem hafi verið á nafni X fyrir árabilið 1997 til 2002.  Á árunum 1997 og 1998 hafi verið teknar fjárhæðir út af reikningunum og hafi úttektaraðili þá ávallt verið X.  Á árinu 1999 beri svo við að varnaraðili fari að taka út af reikningunum, en hann hafi haft umboð til að taka út af reikningnum.  Hafi hann þá ýmist tekið út peninga eða látið millifæra yfir á fyrirtæki honum tengt eða þá eiginkonu hans.  Samkvæmt samantekt vegna ársins 1999 hafi fjárhæðin sem sóknaraðili hafi tekið út numið kr. 1.910.000.  Sé þá litið fram hjá þeim úttektum sem séu lægri en kr. 30.000.  Á árinu 2000 hafi úttektir varnaraðila numið kr. 287.000 og á árinu 2001 hafi úttektir varnaraðila numið kr. 252.000.  Samtals nemi þessar úttektir kr. 2.449.000. 

                Endanleg dómkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila er að hann endurgreiði dánarbúi föður þeirra kr. 2.862.462.  Þeir sundurliða kröfuna:

 

             Úttektir varnaraðila árið              1999                        1.910.00

             Innborgað af varnaraðila 1999                   153.616

             Munur innborgana og úttekta                                   1.756.384

             Skuld við dánarbúið í árslok                                             1.756.384

 

             Úttektir varnaraðila árið              2000                        287.000

             Innborgað af varnaraðila 2000                   392.000

             Munur innborgana og úttekta                                    -105.000

             Skuld við dánarbúið í árslok                                             1.651.384

 

             Úttektir varnaraðila árið              2001                        252.000

             Innborgað af varnaraðila 2001                   130.000

             Munur innborgana og úttekta                                      122.000

             Skuld við dánarbúið í árslok                                             1.773.384

 

             Samtala reikninga sem sóknaraðilar fallast á að varnaraðili hafi greitt fyrir föður þeirra

                                                                             210.000

             Útistandandi skuld við dánarbúið                              1.562.462

 

             Rýrnun vegna sölu S                                                      1.300.000

             Samtals skuld varnaraðila við dánarbúið                    2.862.462

 

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að varnaraðili hafi án heimildar hagnýtt sér bankareikning föður síns og gengið í hann sem eigin væri.  Varnaraðili hafi einungis haft heimild til að taka út peninga af reikningum í þágu hins látna en alls ekki í eigin þágu.  Málsskjöl beri ekki með sér að hinn látni hafi ætlað að lána honum eða gefa honum peninga og beri varnaraðili sönnunarbyrðina fyrir slíku.  Ekki liggi annað fyrir en að varnaraðili hafi einungis endurgreitt óverulegan hluta til baka. 

 

Málavextir og málsástæður varnaraðila

Varnaraðili svofellda grein fyrir málavöxtum:

1.                Ráðstöfun söluverðs landspildu úr landi S

X átti, ásamt tveimur öðrum, jörðina S. Meðeigendur X óskuðu eftir að kaupa eignarhluta X í jörðinni. Erfiðlega hafi gengið að ná samningum og hafi meðeigendurnir því fengið Magnús Leópoldsson löggiltan fasteignasala til að gera verðmat á jörðinni.

Varnaraðili hafi haft milligöngu um það að X faðir hans fékk G hdl. til að gæta hagsmuna X vegna jarðarinnar. Umboð X til G sé dags. 12. janúar 1999 og vottað af sóknaraðilum B og C.

Með bréfi dags. 8. mars 1999 hafi Jón Haukur Hauksson hdl. gert X tilboð í hans hluta jarðarinnar, f.h. meðeigendanna. Meðeigendurnir hafi boðið X kr. 200.000 fyrir hans eignarhluta sem yrðu greiddar þannig að við undirritun kaupsamnings yrði greidd kr. 1.000.000 og síðan kr. 1.000.000 með skuldabréfi til 15 ára. Sóknaraðilar B og C hafi lagt að X föður sínum að samþykkja tilboðið. Varnaraðili hafi hinsvegar latt föður sinn til þess og talið að fást ætti mun betra verð fyrir jörðina.  Það hafi svo verið fyrir milligöngu G hdl. að náðst hafi samningar við meðeigendur X um það að þeir keyptu af honum jarðarpartinn á 3.900.000 kr. staðgreitt. 

Frá kaupverði hafi dregist uppgjör á veiðileigu vegna [...] árið 1999, kr. 63.322. Kaupendur hafi þannig staðgreitt 3.836.678 kr. Við kaupverðinu hafi L tekið, eins og kvittunin beri með sér. Lögmannsþóknun G hdl., vegna aðstoðar við sölu á jarðarpartinum, hafi verið samkvæmt reikningi kr. 260.960. Kaupverðið að frádregnum sölukostnaði hafi því numið kr. 3.575.718 og hafi það verið afhent X með ávísun stílaðri á hann. X hafi farið með ávísunina í útibú SPRON, leyst hana út og ráðstafað andvirðinu þannig að hann hafi lagt 2.275.718 kr. inn á sinn eigin bankareikning [...] og keypt ávísun að fjárhæð 1.300.000 kr. sem hann lét skrifa á nafn varnaraðila.  Varnaraðili fullyrðir að X hafi afhent honum ávísuna með þeim orðum að X vildi gefa honum þessa fjárhæð enda væri það varnaraðila að þakka að X hefði selt jarðarpartinn svo vel sem raun bar vitni. Eins og áður var rakið hafi upphaflegt tilboð kaupendanna verið kr. 2.000.000 þar af kr. 1.000.000 á skuldabréfi til 15 ára. Sóknaraðilar B og C hafi eindregið hvatt föður sinn til að samþykkja það tilboð. 

Varnaraðili mótmælir því að hann skuldi dánarbúinu fjármuni vegna sölu X föður hans á landspildu úr jörðinni S.

2.             Úttektir varnaraðila á árinu 1999- 2001 af bankareikningum X

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðilar haldi því fram að hann hafi, án heimildar, hagnýtt sér bankareikning föður þeirra og gengið í hann sem eigin væri. Því sé haldið fram að varnaraðili hafi ekki gert grein fyrir úttektum af bankareikningi X á árinu 1999 að fjárhæð 1.910.000 kr., á árinu 2000 að fjárhæð 287.000 kr. og á árinu 2001 að fjárhæð kr. 252.000, eða samtals að fjárhæð kr. 2.449.000.  Þó viðurkenni sóknaraðilar að innlagnir að fjárhæð 225.216 kr. skuli koma til frádráttar þessum úttektum. Samtals telji sóknaraðilar varnaraðila því skulda búinu vegna úttekta kr. 2.223.784.

Varnaraðili gerir svofelldar athugasemdir við sundurliðun á meintum úttektum hans í eigin þágu á árunum 1999 – 2001:

 

      Úttekt 31. maí 1999:          100.000

X tók fjárhæðina út sjálfur.  Það er varnaraðila óviðkomandi þó faðir hans

hafi ákveðið að borga upp í skuld eiginkonu varnaraðila við Visa Ísland.

 

      Úttekt 23. júní 1999:          350.000

Byggingarefni notað til að reisa vandaða geymslu við sumarhús föður málsaðila

í Q.

 

      Úttektir á árunum 1999-2001:      297.000

      Varnaraðili segist hafa tekið fjármunina út að beiðni föður síns og afhent þá honum.

 

Varnaraðili telur þannig að kr. 747.000 af meintum úttektum hans úr bankabók X hafi verið vegna eigin þarfa X og séu varnaraðila óviðkomandi. Þegar af þeirri ástæðu beri að lækka meinta endurkröfu sóknaraðila um þessa fjárhæð.

Varnaraðili byggir á því að hann hafi greitt fyrir föður sinn á þessu tímabili fjölda reikninga. Þá hafi hann reglulega greitt inn á bankareikning föður síns á þessu tímabili vegna úttekta sinna af reikningi föður.  Samtals nemi þessi útgjöld fyrir föður málsaðila og innlegg á reikning hans kr. 1.189.449 

Varnaraðili vísar ennfremur til þess að hann hafi um alllangt skeið borið allan kostnað af hita- og rafmagni í sumarbústað dánarbúsins. Það hafi komið þannig til að skiptastjóri hafi látið taka rafmagnið af húsinu, samkvæmt ákvörðun á skiptafundi sem varnaraðili hafi ekki setið. Hafi sóknaraðilar samþykkt þessar aðgerðir og hafi greinilega ekki vitað að með þessu hafi sumarhúsinu verið stefnt í hættu. Sem betur fer hafi varnaraðili komist að því að búið væri að taka rafmagnið af húsinu áður en nokkur skaði hafi skeð og hafi hann síðan greitt allan hita- og rafmagnskostnað.  Samtals nemi þessi kostnaður 109.650 kr. fyrir árin 2001-2003 og nú í ársbyrjun 2004 hafi bæst við reikningar að fjárhæð 39.366 kr. Samtals nemi kostnaður vegna hita og rafmagns þannig 149.016 kr. og bætist sú fjárhæð við fjárhæð þeirra reikninga sem varnaraðili hafi greitt fyrir föður sinn á árunum 1999 – 2001. Samtals hafi varnaraðili því greitt fyrir föður sinn og dánarbúið reikninga að fjárhæð kr. 662.849.

Aðalkröfu sína um sýknu styður varnaraðili þeim rökum að margar af þeim úttektum sem sóknaraðilar telji varnaraðila hafa tekið til eigin nota, úr bók föður þeirra, hafi varnaraðili tekið út fyrir X og afhent honum í peningum. Úttektirnar hafi varnaraðili því ekki notað sjálfur og því beri honum ekki að endurgreiða búinu þessar fjárhæðir. Faðir aðila hafi verið, allt fram undir það síðasta, við ágæta heilsu og hafi notið lífsins og þeirra peninga sem hann átti, eftir því sem aðstæður leyfðu. Hann hafi alla tíð rekið bifreið með ærnum tilkostnaði og hafi t.d. ekið á hverju sumri til dóttur sinnar á R. Þá hafi hann öll sumur dvalist í sumarhúsi sínu í Q. Vegna þessara langdvala X í sumarhúsinu hafi varnaraðili oftsinnis tekið peninga út úr bankabók föður síns, að hans beiðni, og hafi farið með til hans í sumarhúsið. Þá hafi varnaraðili fært föður sínum vistir í þessum sumardvölum síðustu tvö árin. Alltaf hafi varnaraðili greitt þau matarkaup sjálfur en hafi eins og eðlilegt sé engar kvittanir fyrir þeim. 

Varnaraðili vísar einnig til þess að X hafi ekki haft nema réttar 13.000 kr. á mánuði í tekjur, þar sem hann bjó á dvalarstofnun fyrir aldraða, og allur hans ellilífeyrir bæði frá almannatryggingum og úr lífeyrissjóði (að þessum 13 þús. kr. frádregnum) hafi runnið til að greiða dvalarkostnað hans þar. Þá hafi X, á því tímabili sem um ræðir, verið í sambandi við konu á H og viti varnaraðili til þess að hún hafi fengið föður hans til ýmissa fjárútláta. Varnaraðili fullyrðir að faðir hans hafi aldrei ætlast til þess að hann endurgreiddi sér þann litla mismun sem er á úttektum hans úr bankabók föður hans og innborgunum hans á bankareikning föður hans og greiðslum hans á reikningum fyrir föður. Það hafi verið gjafir föður til hans með sama hætti og hann gaf öðrum börnum sínum gegnum tíðina ýmislegt. Í því sambandi megi nefna að faðir málsaðila hafi gefið einum syni sínum hlutabréf í [...] fyrir margt löngu. Þá hafi hann látið son sinn hafa verkstæði sitt árið 1972 án þess að fá nokkuð endurgjald fyrir. Einn sóknaraðila fjarlægði sólarrafhlöðu af sumarhúsinu skömmu eftir andlát föður og fullyrt að faðir hefði gefið sér. Þá hafi sóknaraðilar tekið til frjálsrar ráðstöfunar allt innbú foreldra málsaðila, þar á meðal myndir og málverk og trúlega skipt milli sín án þess að deila því með varnaraðila.

Varnaraðili telur að faðir hans hafi viljað styðja hann lítillega og fullyrðir að allar úttektir hans af reikningi föður síns hafi verið með vitund og vilja föður. Varnaraðili mótmælir þeim fullyrðingum sóknaraðila að úttektirnar hafi verið í heimildarleysi og telur þær fullyrðingar lýsa sérkennilegu vantrausti á föður þeirra. Faðir þeirra hafi, eins og læknisvottorð beri með sér, verið fullfær um að stýra eigin fjármunum allt fram til síðustu stundar. Hann hafi fylgst nákvæmlega með fjármálum sínum og vitað allt um fjárhagsleg samskipti hans og sonar síns og hafi samþykkt þau og viljað með þeim styðja yngsta son sinn með sama hætti og hann hafði áður stutt eldri börn sín. Auk þess hafi faðir þeirra viljað með því sýna varnaraðila að hann kunni að meta hversu vel varnaraðili og eiginkona hans sinntu honum, á sama tíma og sóknaraðilar komu þar mun minna að máli. 

Vegna kr. 1.300.000 sem faðir hans hafi afhent honum af andvirði sölu jarðar­partsins telji varnaraðili sig hafa sannað með fullnægjandi hætti að það hafi verið gjöf frá föður hans. Gögn sýni að X hafi sjálfur farið og keypt ávísun á nafni varnaraðila og hafi afhent honum. Það hafi hann gert að eigin frumkvæði og án nokkurs atbeina varnaraðila. Hann hafi gefið varnaraðila skýringu á gjöfinni, þá skýringu að hann vildi leyfa honum að njóta þess að umframverð fékkst fyrir jarðarpartinn, því það hafi verið varnaraðila að þakka. Sóknaraðilar hafi hvatt föður sinn til að taka upphaflegu tilboði sem hafi verið mun lakara en endanlegt kaupverð. Faðir málsaðila hafi gefið eldri börnum sínum stórar gjafir, eins og fram sé komið.

Verði ekki fallist á að sýkna beri varnaraðila af kröfum sóknaraðila þá krefjist varnaraðili þess til vara að endurkröfufjárhæðin verði lækkuð umtalsvert.  Varnaraðili leggi fram gögn sem sýni með ótvíræðum hætti innborganir hans á bankareikning föður. Hann leggi einnig fram gögn sem sýni með ótvíræðum hætti að hann hafi af eigin reikningum eða reikningum fyrirtækis síns og eiginkonu sinnar greitt reikninga fyrir föður sinn. Varnaraðili telji sig þar með hafa sannað með fullnægjandi hætti að hann hafi sjálfur innt þessar greiðslur af hendi. Þá mótmæli varnaraðili því að hann hafi gróflega misnotað sér aðstöðu sína í eigin þágu og þeim aðdróttunum í garð föður sem í þeim ásökunum sóknaraðila felast.

Kröfum sínum til stuðnings vísar varnaraðili á almennar reglur kröfuréttar og samningaréttar. 

Niðurstaða

                Í þessu máli er deilt um það hvort varnaraðili hafi fengið að gjöf frá föður málsaðila kr. 1.300.000 svo og hvort varnaraðili hafi nýtt í eigin þágu fjármuni sem hann tók út af reikningum föður síns, á grundvelli skriflegs umboðs frá honum. 

                Ekki er við nákvæm gögn að styðjast um nefndar 1.300.000 krónur.  Fyrir liggur þó að X heitinn framseldi sjálfur tékkann sem hann fékk sem greiðslu fyrir jarðarpartinn.  Hann er sjálfur skráður viðskiptamaður á kassakvittun Sparisjóðsins er tékkinn var innleystur, en þá var keyptur tékki stílaður á varnaraðila að nefndri fjárhæð.  Frekari gögn liggja ekki fyrir skrifleg, en síðan fullyrðir varnaraðili að faðir hans hafi viljað gefa honum þessa fjármuni.  Gegn þeirri fullyrðingu hans hafa sóknaraðilar ekki fært fram nein sönnunargögn. 

                Að virtum þessum gögnum verður að leggja þessa frásögn varnaraðila til grundvallar og viðurkenna að um gjöf til hans hafi verið að ræða. 

                Vegna úttekta af bankareikningum föður málsaðila fallast sóknaraðilar á að sumar af þeim kvittunum sem varnaraðili hefur lagt fram yfir útgjöld föður síns hafi verið greiddar með úttektum af þessum bankareikningi.  Þrátt fyrir það telja þeir að enn standi eftir óútskýrðar úttektir að fjárhæð kr. 1.562.462.  Inni í þeirri fjárhæð eru kr. 100.000 sem X, faðir málsaðila og eigandi reikninganna, tók út sjálfur og greiddi inn á greiðslukortsreikning eiginkonu varnaraðila.  Sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi átt einhvern óeðlilegan þátt í þeirri ráðstöfun föður málsaðila og verður varnaraðili ekki látinn bera ábyrgð á henni. 

                Á skiptafundi í dánarbúi föður málsaðila, sem varnaraðili sat ekki, ákvað skiptastjóri að taka skyldi rafmagn og hita af sumarbústað föður málsaðila.  Málsaðilar deila um það hvort sú ráðstöfun hefði getað valdið tjóni á sumarbústaðnum.  Sóknaraðilar telja svo ekki vera og fallast ekki á að varnaraðili geti skuldajafnað á móti úttektum af bankareikningi föður málsaðila fjármunum sem hann varði til að greiða fyrir rafmagn og hita af bústaðnum.  Aftur á móti taldi varnaraðili að tjón á bústaðnum vofði yfir ef rafmagn og hiti yrðu tekin af húsinu.  Taldi hann nauðsynlegt að halda gangandi dælu sem keyrði hringrás vatns í húsinu og kæmi þannig í veg fyrir að vatn frysi í leiðslum.  Hann hélt því áfram að greiða rafmagn og hita af bústaðnum til að koma í veg fyrir að verðgildi eignarinnar rýrnaði. Verður því fallist á að varnaraðili geti skuldajafnað kostnaði við hita og rafmagn sem til féll á árunum 2001 – 2003, kr. 109.650, á móti endurgreiðslukröfu sóknaraðila. 

                Þá er ágreiningur um úttekt á kr. 350.000 þann 23. júlí 1999.  Varnaraðili kveðst hafa tekið þetta fé út að beiðni föður síns og keypt efni til að reisa geymslu við sumarhús hans.  Þessari frásögn varnaraðila hefur ekki verið hnekkt.  Verður eins og hér stendur á að telja að varnaraðili hafi skýrt þessa úttekt nægilega. 

                Sóknaraðilar hafna því einnig að varnaraðili geti skuldajafnað á móti úttektum af bankareikningnum greiðslum sem hann innti af hendi vegna andláts og útfarar föður málsaðila.  Vísa þeir meðal annars til þess að af framlögðum gögnum komi ekki fram hver hafi greitt hæsta reikninginn, það er útfararkostnaðinn sjálfan.  Af þeim gögnum sem sóknaraðilar hafa lagt fram sést að varnaraðili tók í síðasta sinn út af bankareikningi föður málsaðila 24. september 2001.  Faðir þeirra lést 24. desember sama ár og gjalddagar reikninga sem tengjast andláti hans og útför eru síðustu dagar þess árs og fyrstu dagar ársins 2002.  Sóknaraðilar hafa ekki haldið því fram að þeir hafi greitt umræddan kostnað og er þá fáum til að dreifa nema varnaraðila, enda eru reikningarnir stílaðir á hann.  Því er fallist á að hann geti skuldajafnað kr. 297.700 á móti endurgreiðslukröfu sóknaraðila.  Á sama hátt ber að viðurkenna úttektir að fjárhæð kr. 4.147 og 1.023 í júní 2001, sem varnaraðili segir að séu til greiðsla fyrir salerni í sumarhúsið. 

                Að öðru leyti en þessu þykir varnaraðili ekki hafa getað tengt úttektir sínar af bankareikningi föður síns við útgjöld vegna föður síns.  Verður honum því gert að endurgreiða til dánarbúsins úttektir sínar í samræmi við kröfugerð sóknaraðila með framangreindum breytingum, þ.e. kr. 699.942 (kr. 1.562.462 að frádregnum kr. 100.000, kr. 350.000, kr. 109.650, kr. 297.700, kr. 4.147 og kr. 1.023). 

                Rétt er að reikna dráttarvexti af fjárhæð þessari frá uppkvaðningu úrskurðar þessa. 

                Kröfur sóknaraðila eru að hluta teknar til greina.  Er rétt að varnaraðila verði gert að greiða nokkurn hluta málskostnaðar þeirra.  Verður sú greiðsla ákveðin kr. 200.000. 

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.  Uppkvaðning hefur tafist vegna anna við dóminn. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Varnaraðili, E, greiði dánarbúi X kr. 699.942 með dráttarvöxtum frá 7. apríl 2004 til greiðsludags og kr. 200.000 í málskostnað.