Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Matsgerð
- Þóknun
- Trygging
|
|
Miðvikudaginn 24. apríl 2013. |
|
Nr. 225/2013.
|
Runólfur Oddsson (Reimar Pétursson hrl.) gegn Hjalta Sigmundssyni og Hálfdani Þóri Markússyni (enginn) |
Kærumál. Matsgerð. Þóknun. Trygging.
R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að kveða upp úrskurð um hæfilega þóknun til matsmanna vegna yfirmatsgerðar sem R hafði óskað eftir í tengslum við mál sem hann hafði höfðað gegn V hf. Í málinu lá fyrir að R hafði ekki lagt fram tryggingu fyrir greiðslu á þóknun matsmanna sem héraðsdómari hafði tekið ákvörðun um á grundvelli síðari málsliðar 2. mgr. 63. gr., sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að héraðsdómari hefði að kröfu R átt að leiða ágreining um trygginguna til lykta með úrskurði skv. 1. mgr. og 2. mgr. 112. gr., sbr. c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem það var ekki gert var talið að ákvörðunin væri ekki skuldbindandi fyrir R. Hins vegar þótti ljóst að matsmönnum yrði ekki gert skylt að afhenda R yfirmatsgerðina eða leggja hana fyrir dóm, nema R greiddi þeim það endurgjald sem þeir hefðu áskilið sér eða setti viðhlítandi tryggingu fyrir því. Að öðrum kosti bæri þeim engin skylda til að láta matsgerðina af hendi. Mótmæli R við því endurgjaldi sem matsmenn færu fram á og krafa hans um að héraðsdómari úrskurðaði um hæfilega þóknun á grundvelli 1. mgr. 66. gr. sömu laga væri öðrum þræði á því reist að þeir færu fram á greiðslu fyrir meira vinnuframlag en matsbeiðandi hefði gefið tilefni til. Var fallist á það með héraðsdómara að ekki væri unnt að taka kröfuna um þóknun matsmanna til efnislegrar úrlausnar, nema matsgerðin yrði lögð fyrir dóm, en það væri undir R komið sem matsbeiðanda hvort svo yrði gert. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að úrskurðað yrði um þóknun yfirmatsmanna vegna starfa þeirra. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm „að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila um að úrskurðað verði um þóknun dómkvaddra yfirmatsmanna í málinu.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram ákvað héraðsdómari í þinghaldi 28. febrúar 2013 að kröfu varnaraðila og á grundvelli síðari málsliðar 2. mgr. 63. gr., sbr. 64. gr., laga nr. 91/1991 að sóknaraðila skyldi gert að setja tryggingu að fjárhæð 2.761.000 krónur fyrir greiðslu á þóknun varnaraðila sem yfirmatsmanna. Í þinghaldinu mótmælti sóknaraðili kröfunni og krafðist þess að ágreiningsefnið yrði tekið til úrskurðar, en héraðsdómari hafnaði því þrátt fyrir að honum væri skylt að leiða ágreininginn til lykta með þeim hætti samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 112. gr., sbr. c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Er ákvörðunin því ekki skuldbindandi fyrir sóknaraðila.
Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 á matsmaður rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín og eftir síðari málslið 1. mgr. sömu lagagreinar er honum rétt að krefjast þóknunar úr hendi matsbeiðanda áður en matsgerð er afhent. Markmiðið með síðastnefnda ákvæðinu og reyndar einnig fyrrgreindu úrræði um tryggingu fyrir greiðslu þóknunar er að matsmaður og jafnframt yfirmatsmenn, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991, sem dómkvaddir eru til matsstarfa, geti treyst því að þeir fái greidda sanngjarna þóknun fyrir störfin úr hendi matsbeiðanda.
Vegna hagsmuna varnaraðila af því að fá sanngjarna þóknun fyrir störf sín úr hendi sóknaraðila verður þeim ekki gert skylt að afhenda honum yfirmatsgerðina sem þeir hafa samið að beiðni hans eða leggja hana fyrir dóm, nema hann greiði þeim það endurgjald sem þeir hafa áskilið sér eða setji viðhlítandi tryggingu fyrir því. Að öðrum kosti ber þeim engin skylda til að láta matsgerðina af hendi. Mótmæli sóknaraðila við endurgjaldi varnaraðila og krafa hans um að héraðsdómari úrskurði þeim hæfilega þóknun á grundvelli 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 er öðrum þræði á því reist að varnaraðilar fari fram á greiðslu fyrir meira vinnuframlag en matsbeiðni hafi gefið tilefni til. Af þeirri ástæðu er fallist á með héraðsdómara að ekki sé unnt að taka kröfuna til efnislegrar úrlausnar nema matsgerðin verði lögð fyrir dóm, en það er sem fyrr greinir undir sóknaraðila komið sem matsbeiðanda hvort svo verði gert.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2013.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 29. október 2010. Stefnandi er Runólfur Oddson, Undralandi 4 í Reykjavík. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf. Ármúla 3 í Reykjavík.
Stefnandi gerir kröfu um 70.000.000 kr. greiðslu úr hendi stefnda með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 8. janúar til dómsuppkvaðningar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga eftir það tímamark til greiðsludags auk greiðslu málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málssókn þessi er byggð á því að stefnandi telur að húseign hans að Undralandi 4 hafi orðið fyrir skemmdum vegna lagna í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og/eða Gagnaveitu Reykjavíkur. Kröfum sínum beinir hann að stefnda þar sem bæði félögin voru með með ábyrgðartryggingu hjá stefnda á þeim tíma sem tjónið varð.
Til úrlausnar í úrskurði þessum er krafa stefnanda, sóknaraðila í þessum þætti málsins, um að dómari ákvarði hæfilega þóknun til yfirmatsmanna vegna yfirmatsgerðar.
Í málinu liggur fyrir undirmatsgerð þar sem matsþoli er Orkuveita Reykjavíkur. Í þinghaldi þann 14. janúar 2011 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Í því þinghaldi voru þeir Hjalti Sigmundssons, húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur og Hálfdan Þórir Markússon byggingarverkfræðingur dómkvaddir til að vinna umbeðið yfirmat. Í tölvupósti matsmannsins Hjalta Sigmundssonar þann 11. janúar sl. til lögmanns stefnanda kemur fram að matgerðin sé tilbúin að matmenn séu reiðubúnir að afhenda stefnanda hana gegn greiðslu 1.380.500 kr. þóknunar til yfirmatsmanna, hvors um sig. Í þinghaldi þann 5. febrúar sl. krafðist lögmaður stefnanda þess að dómari úrskurðaði um hæfilega þóknun til yfirmatsmanna með vísan til 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Í kröfugerð stefnanda sem lögð var fram sem dómsskjal 48 kemur fram að stefnandi telji umkrafða þóknun of háa. Annars vegar telur stefnandi að yfirmatsmenn krefjist hærra tímagjalds en eðlilegt sé. Stefnandi telji hæfilegt tímagjald fyrir vinnu matsmanna vera 6.500 kr. en ekki 13.500 kr. svo sem matsmenn miði við, auk virðisaukaskatts. Hins vegar telur stefnandi að yfirmatsmenn krefjist greiðslu fyrir of margar vinnustundir og krefst þess að þóknun þeirra verði lækkuð að álitum um 40% til viðbótar á þeim forsendum. Vísar stefnandi til þess að tímaskýrslur matsmanna einkennist af innbyrðis ósamræmi og að því er virðist óhóflegum tíma sem varið hefur verið til ýmissa verka. Þá bendir stefnandi á að fyrir liggi í málinu trygging að fjárhæð 800.000 kr. vegna matskostnaðar en sú fjárhæð hafi verið niðurstaða verulegrar umræðna um málið og ekkert gefi tilefni til að úrskurða matmönnum hærri þóknun vegna verksins en þar sé getið. Með tryggingu mun vera vísað til tölvupósts Gests Óskars Magnússonar hdl. sem sendur var til Ívars Pálssonar hdl., sem þá gætti hagsmuna stefnanda, þann 9. júní 2011. Í skeytinu kemur fram að stefnandi hafi málskostnaðartryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni. Þar staðfestir Gestur jafnframt að Tryggingamiðstöðin muni greiða allt að 800.000 kr. áður en málið verði til lykta leitt vegna væntanlegs matskostnaðar stefnanda þegar eftir því verði óskað af hálfu lögmanns stefnanda og sú fjárhæð verði lögð inn á þann reikning sem lögmaður stefnanda óski eftir.
Stefndi lætur ekki til sín taka í þessum hluta málsins. Í fyrirtöku um þetta ágreiningsefni þann 28. febrúar sl. gerðu yfirmatsmenn kröfu um að dómari ákvæði yfirmatsmönnum fullnægjandi tryggingu vegna vinnu þeirra við matsgerðina með vísan til 2. mgr. 63. gr. laga nr.91/1991. Kváðu þeir yfirmatsgerðina verða lagða fram þá þegar slík trygging hefði verið sett. Þá gerðu þeir kröfu um að krafa stefnanda um lækkun á þóknun til þeirra yrði hafnað og úrskurður dómara byggði á framkomnum reikningum þeirra, sem studdir væru vinnuskýrslum beggja yfirmatsmanna. Á vinnuskýrslu fyrir tímabilið 1.1. 2011 til 1.1. 2013 séu skráðar 85,5 klukkustundir á verkið en á reikningum sé krafist greiðslu fyrir 82 vinnustundir. Yfirmatmenn kveða vinnustundafjöldann hafi verið þetta mikinn vegna umfangs verksins auk þess sem verkið hafi tafist og orðið seinunnara af ástæðums þeir beri ekki ábyrgð á. Auk þessa gera yfirmatsmenn kröfu um að þeim verði dæmdur málskostnaður vegna þessa málarekstur. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar vegna málarekstur tengdan kröfu stefnanda um að matmenn yrðu leystir frá störfum en úrskurður um það atriði var kveðinn upp 23. mars 2012.
Í þinghaldi 28. febrúar sl. ákvað dómari að stefnanda skyldi gert að setja fram tryggingu að fjárhæð 2.761.000 kr. fyrir greiðslu þóknunar yfirmatmanna svo hægt væri að leggja matsgerð þeirra fram í dómi. Ákvörðun dómara byggir á heimild í 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hefur ekki lagt fram umrædda tryggingu og í þinghaldi í dag upplýsir hann að trygging verði ekki lögð fram. Hann heldur þó fast við kröfu sína um að dómari úrskurði um hæfilega þóknun fyrir matsgerðina. Yfirmatsmenn ítreka framkomnar kröfur.
Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um að dómari úrskurði um hæfilega þóknun til yfirmatsmanna vegna vinnu þeirra við yfirmatsgerð. Um úrskurðarvald dómara í þessu efni er ákvæði í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.
Fyrir liggur að stefnanda sjálfur óskað eftir dómkvaðningu matsmanna, fyrst undirmatsmanns og síðar yfirmatsmanna, og í matsbeiðni hans felst afmörkun á þeim atriðum sem meta skal og þar með umfangi matsgerðar. Matsmenn eiga rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi matsbeiðanda samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laganna. Í 1. mgr. sömu greinar kemur fram að matsmenn geti krafið matsbeiðanda um þá greiðslu áður en þeir afhenda honum matsgerð sína. Matsmenn geta hins vegar ekki skorast undan því að koma fyrir dóm og staðfesta matsgerðir sínar samkvæmt 65. gr. laganna né heldur hafa þeir nokkurt forræði á því byggt sé á matgerðinni í málinu, þótt þeir hafi ekki fengið greitt fyrir gerð hennar.
Af framangreindum ákvæðum laga um meðferð einkamála, og öðrum ákvæðum í IX. kafla laganna, má sjá að með þeim er leitast við að tryggja annars vegar möguleika aðila máls til að afla matsgerðar, og eftir atvikum yfirmats, um atriði sem hann sjálfur telur að hafi þýðingu varðandi sönnunarfærslu í máli og hins vegar rétt matsmanna til greiðslu hæfilegrar þóknunar fyrir vinnu sína.
Sú sérstaka staða er uppi í þessu máli að stefnandi gerir athugasemdir við fjárhæð þóknunar yfirmatsmanna áður en hann hefur séð verk þeirra og án þess að leggja matsgerðina fyrir dómara. Yfirmatsmenn hafa lýst sig reiðubúna að leggja matsgerðina fram í dómi enda leggi stefnandi fram tryggingu fyrir greiðslu þóknunar að þeirri fjárhæð sem reikningar þeirra hljóða upp á. Það var mat dómara að úrræði þessu sé fært að beita allt fram að því að matsgerð er afhent matsbeiðanda og ákvað því í þinghaldi þann 28. febrúar sl., með vísan til 2 mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991, að stefnandi skyldi leggja fram tryggingu jafnháa umkrafðri þóknun matsmanna. Eins og hér háttar til hefði framlagning tryggingar tryggt rétt stefnanda til að fá ágreining um fjárhæð þóknunar borinn undir dómara án þess að yfirmatsmenn misstu misstu nokkuð af rétti sínum. Þannig hefði stefnandi getað fengið þóknun til yfirmatsmanna metna af dómara, og eftir atvikum borið þann úrskurð undir æðri dóm, og yfirmatmenn hefðu haft vissu fyrir því að fá þóknun sína greidda um leið og leyst hefði verið úr ágreiningi um fjárhæð hennar. Svo sem fram er komið hefur stefnandi ekki lagt fram umrædda tryggingu.
Staðan málsins er því sú að stefnandi, sem óskaði sjálfur eftir að yfirmatsgerð yrði unnin, hefur hvorki lagt matsgerðina sjálfur fyrir dóminn né gert reka að því að gera þeim sem hafa matgerðina undir höndum mögulegt að leggja hana fram án þess að missa rétti sinn til greiðslu þóknunar við afhendingu. Það er mat dómara að undir þessum sérstöku kringumstaæðum sé ekki unnt að kveða upp úrskurð um hæfilega þóknun fyrir gerð yfirmats. Matsgerðin sjálf er mikilvægt sönnunargagn um umfang og gæði þess verks sem matmenn unnu og þá um leið hvert sé sanngjarn endurgjald fyrir þá vinnu. Þar sem það er á færi stefnanda eins að koma því til leiðar að matsgerðin verði lögð fyrir dóminn leiðir það einnig til þess að hann getur ekki fengið efnilega leyst úr ágreiningi um fjárhæð þóknunar á meðan hann ekki leggur matgerðina fram. Kröfu stefnanda um að kveðinn verði upp úrskurður um þóknun til yfirmatsmanna er því hafnað.
Matsmenn gera kröfu um málskostnað vegna málareksturs þeirra í þessum hluta málsins. Með hliðsjón af því að hvernig málarekstri þessum er stýrt af hálfu stefnanda sem án þess að öðrum verði um kennt kemur í veg fyrir að krafa hans sjálfs verði tekin til efnislegrar úrlausnar verður að telja efni til að dæma yfirmatmönnum málskostnað með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaður þeirra er hæfilega ákveðinn 30.000 kr. til hvors matsmanns um sig. Ekki er lagaheimild til að taka til greina kröfu matsmanna um greiðslu málskostnaðar vegna málarekstur á fyrri stigum.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu stefnanda, Runólfs Oddsonar, um að úrskurðað verði um þóknun yfirmatsmanna er hafnað.
Stefnandi skal greiða yfirmatsmönnunum Hjalta Sigmundssyni og Hálfdani Þóri Markússyni hvorum um sig 30.000 kr. í málskostnað.