Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-133

Loðmundur landeigendafélag ehf., Arcanum ferðaþjónusta ehf., Benedikt Bragason, Andrína Guðrún Erlingsdóttir, Þorsteinn Magnússon, Kristín Þorsteinsdóttir, Hildigunnur Þorsteinsdóttir, Sigrún R. Þorsteinsdóttir, Sigríður Þorsteinsdóttir, Ólafur Þorsteinsson, Elín Einarsdóttir og Þröstur Óskarsson (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Tröllaferðum ehf. (Sigmundur Hannesson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Lögbann
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 16. apríl 2019 leita Loðmundur landeigendafélag ehf., Arcanum ferðaþjónusta ehf., Benedikt Bragason, Andrína Guðrún Erlingsdóttir, Þorsteinn Magnússon, Kristín Þorsteinsdóttir, Hildigunnur Þorsteinsdóttir, Sigrún R. Þorsteinsdóttir, Sigríður Þorsteinsdóttir, Ólafur Þorsteinsson, Elín Einarsdóttir og Þröstur Óskarsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 193/2019: Loðmundur landeigendafélag ehf., Arcanum ferðaþjónusta ehf., Benedikt Bragason, Andrína Guðrún Erlingsdóttir, Þorsteinn Magnússon, Kristín Þorsteinsdóttir, Hildigunnur Þorsteinsdóttir, Sigrún R. Þorsteinsdóttir, Sigríður Þorsteinsdóttir, Ólafur Þorsteinsson, Elín Einarsdóttir og Þröstur Óskarsson gegn Tröllaferðum ehf., á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tröllaferðir ehf. leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta á rætur að rekja til þess að sýslumaðurinn á Suðurlandi ákvað 31. ágúst 2018 að hafna kröfu leyfisbeiðenda um að lögbann yrði lagt við því að gagnaðili nýtti land í eigu þeirra undir skipulagðar reiðhjólaferðir fyrir ferðamenn. Leyfisbeiðendur leituðu úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Í úrskurði héraðsdóms var kröfu leyfisbeiðenda hafnað á þeim grunni að þau hafi ekki sannað eða gert sennilegt að fyrrgreind starfsemi gagnaðila bryti eða myndi brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Í úrskurði Landsréttar var á hinn bóginn vísað til þess að því tímabili sem gagnaðili hafi boðið upp á umræddar ferðir hafi lokið 31. október 2018. Hafi hann hvorki selt né auglýst slíkar ferðir eftir þann dag og lægi ekki fyrir að hann hafi tekið ákvörðun um að hefja þær að nýju. Þegar af þeirri ástæðu hafi skilyrðum fyrir lögbanni samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 ekki verið fullnægt og var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Leyfisbeiðendur byggja á að ágreiningsefni í málinu varði mikilsverða almannahagsmuni og hefði úrlausn Hæstaréttar í því fordæmisgildi um inntak lögbundinna takmarkana á eignarrétti sem felist í almannarétti samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá telja leyfisbeiðendur að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur hvað varðar þá niðurstöðu að athöfnin sem þau krefjist lögbanns við sé um garð gengin.

Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að til þess gæti komið að í dómi yrði að taka afstöðu til þeirra álitaefna sem leyfisbeiðendur telja samkvæmt framansögðu að varði mikilsverða almannahagsmuni og haft gætu fordæmisgildi. Ekki er heldur ástæða til ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.