Hæstiréttur íslands

Mál nr. 227/2016

Grjótháls ehf. (Gestur Jónsson hrl.)
gegn
Vingþóri ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Með úrskurði héraðsdóms var kröfu G ehf. í aðalsök vísað frá dómi á þeim grundvelli að þegar hefði gengið efnisdómur milli aðila um þá kröfu sem G ehf. hefði uppi í málinu. Í dómi Hæstaréttar var rakið að í fyrra málinu, sbr. dóm réttarins í máli nr. 407/2014, hefði verið fallist á með G ehf. að lán sem V ehf. hafði veitt félaginu væri bundið ólögmætri gengistryggingu og að höfuðstóll þess væri lægri af þeim sökum. Í því máli sem nú væri til úrlausnar krefðist G ehf. þess að V ehf. greiddi sér fjárhæð sem næmi ofgreiðslu vaxta vegna þess láns. Í dóminum var tekið fram að G ehf. hefði fyrir málshöfðun og í stefnu í máli nr. 407/2014 gert áskilnað um rétt sinn til að krefja V ehf. um ofgreidda vexti af því að lánið væri of hátt, ef til þess kæmi að á kröfu hans yrði fallist í málinu. Þótt G ehf. hefði í fyrra málinu getað haft uppi þær fjárkröfur sem hann gerir í þessu máli fái það því ekki breytt að krafa hans um ofgreiðslu vaxta hefði ekki verið dæmd að efni til. Dómur í máli nr. 407/2014 var því ekki talinn hafa þau réttaráhrif að G ehf. gæti ekki leitað dóms um aðalkröfu sína. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2016 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila í aðalsök á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun dómkrafna hans í aðalsök verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði veitti VBS fjárfestingarbanki hf. sóknaraðila lán með samningi 7. desember 2007 að fjárhæð 500.000.000 krónur. Lánið skyldi allt endurgreitt 15. september 2008. Sömu aðilar gerðu með sér tvo lánssamninga 19. desember sama ár, annar þeirra kvað á um lán að fjárhæð 528.036.685 krónur, en hinn að fjárhæð 500.000.000 krónur. Gjalddagi beggja lánanna var 20. janúar 2009. Samanlögð fjárhæð lánanna fór til greiðslu á láninu samkvæmt fyrstnefnda samningnum, en fjárhæð þess láns hafði ríflega tvöfaldast frá þeim tíma, sem það var veitt. Lánssamningarnir frá 19. desember 2008 voru framseldir varnaraðila, sem er í eigu VSB eignasafns hf., og er ekki ágreiningur um að kröfum sóknaraðila í málinu sé réttilega beint að varnaraðila. Loks gerði sóknaraðili samning 26. október 2009 við varnaraðila um lán að fjárhæð 6.156.672 evrur. Lánið, sem ganga skyldi til greiðslu á lánunum samkvæmt lánssamningunum frá 19. desember 2008, átti að endurgreiða með mánaðarlegum greiðslum, 10. hvers mánaðar, á fimm árum og lokagreiðslan skyldi fara fram 10. október 2014. Í lánssamningnum var tekið fram að sóknaraðili hafi sett varnaraðila að veði leigugreiðslur svo sem fyrir var mælt í veðsamningi 26. október 2009, sem er fylgiskjal með honum. Þá kom einnig fram í lánssamningnum að sjö tryggingarbréf, sem voru á þriðja, fjórða og fimmta veðrétti í fasteign sóknaraðila að Grjóthálsi 5 í Reykjavík og hann hafði gefið út til tryggingar lánum frá varnaraðila skyldu einnig standa til tryggingar því láni, sem samningurinn tók til.

Sóknaraðili taldi að lánið samkvæmt fyrsta lánssamningnum, 7. desember 2007, hafi verið veitt í íslenskum krónum, en bundið gengi erlendra gjaldmiðla á þann hátt að í bága hafi farið við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sóknaraðili lét reikna út 29. október 2012 hverjar ættu að vera eftirstöðvar lánsins samkvæmt samningnum 26. október 2009, miðað við að lánið samkvæmt fyrsta samningnum hefði verið ólögmætt gengisbundið lán í íslenskum krónum. Sá útreikningur miðaði við að vextir á upphaflega láninu hefðu verið svonefndir gengistryggðir vextir og var niðurstaða útreikningsins sú að eftirstöðvar lánsins 10. nóvember 2012 ættu að vera 1.134.535 evrur. 

Sóknaraðili höfðaði mál 16. nóvember 2012 til viðurkenningar á því að eftirstöðvar lánssamningsins 26. október 2009 ættu að vera 1.134.535 evrur miðað við 10. nóvember 2012. Við meðferð málsins gerði sóknaraðili varakröfu um að eftirstöðvar lánsins hefðu framangreindan dag átt að vera 1.498.424 evrur. Munur á forsendum aðalkröfu hans og varakröfu fólst í því að í varakröfunni var reiknað með að vextir á lánið frá 7. desember 2007 hefðu verið samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 í stað svonefndra gengistryggðra vaxta, sem aðalkrafan miðaði við. Tilefni varakröfunnar var að sögn sóknaraðila að Hæstiréttur hefði slegið því föstu í nýlegum dómum sínum að miða bæri við vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Með dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttiar 29. janúar 2015 í máli nr. 407/2014, var fallist á varakröfu sóknaraðila í málinu. Í þeirri niðurstöðu fólst að lánið samkvæmt samningnum frá 7. desember 2007 hafi verið í íslenskum krónum, en bundið gengi erlendra gjaldmiðla þannig að í bága hafi farið við áðurnefnd ákvæði laga nr. 38/2001.

Í samskiptum málsaðila áður en sóknaraðili höfðaði mál það, sem lauk með síðastnefndum dómi, sendi sóknaraðili tölvupóst 16. október 2012 til varnaraðila þar sem meðal annars kom fram: ,,Því er hér með komið á framfæri að ... Grjótháls ehf. ... gerir fyrirvara við allar greiðslur, vegna ofangreinds lánasamnings, sem koma til með að eiga sér stað þar til ágreiningur aðila verður leiddur til lykta, og áskilur sér rétt til að krefjast endurgreiðslu og/eða leiðréttingar verði niðurstaða í fyrirhuguðu dómsmáli hans á hendur Vingþóri, honum hagkvæm.“

Í stefnu í málinu var gerður svofelldur áskilnaður: ,,Stefnandi hyggst hér eftir sem hingað til greiða gjaldfallnar afborganir og vexti af láninu frá 26. október 2009, en áskilur sér rétt til að endurkrefja stefnda um ofgreidda vexti frá upphafi fyrrgreinds samnings, verði fallist á kröfur hans í þessu máli“.

II

Aðalkrafa sóknaraðila í því máli sem hér er til úrlausnar, um að varnaraðila verði gert að greiða honum 53.118,8 evrur með tilgreindum vöxtum, er reist á því að þar sem niðurstaða fyrra máls hafi orðið sú, að lánið samkvæmt fyrsta lánssamningnum hafi verið ólögmætt gengistryggt lán hafi fjárhæð þess þegar það var greitt með lánum samkvæmt samningunum tveimur 19. desember 2008 verið til muna of há. Þar með hafi samanlögð lánsfjárhæð samninganna tveggja verið það einnig. Hið sama hafi átt við um fjárhæð samningsins 26. október 2009, sem hefði að réttu lagi átt að vera 3.396.731 evra, en ekki 6.156.672 evrur eins og raun bar vitni. Sóknaraðili reisir aðalkröfu sína á því að hann hafi samkvæmt framansögðu greitt vexti af of hárri lánsfjárhæð. Reiknast honum til að ofgreiðsla vaxta á tímabilinu 10. október 2009 til 10. júní 2014 hafi verið 576.736,2 evrur. Afborganir af höfuðstól hafi verið 2.873.113,6 evrur og séu tvær síðastgreindar fjárhæðir dregnar frá því, sem hann telur hafa átt að vera rétta lánsfjárhæð, 3.396.731 evra, sé ljóst að hann hafi ofgreitt 53.118,8 evrur, sem sé aðalkrafa málsins.

III

Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað um þær kröfur, sem þar eru dæmdar að efni til. Í 2. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um að krafa sem dæmd hafi verið að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segi í lögunum. Nýju máli um slíka kröfu skuli vísa frá dómi.

Þegar lagt er mat á hvort dómur Hæstaréttar í máli nr. 407/2014 eigi að hafa þau réttaráhrif að sóknaraðili geti ekki krafist dóms um aðalkröfu sína í þessu máli verður að skýra dómsorðið með hliðsjón af þeim forsendum sem niðurstaðan er reist á. Eins og fram er komið gerði sóknaraðili í hinu fyrra máli kröfu um viðurkenningu á því að eftirstöðvar lánssamningsins miðað við 10. nóvember 2012 hafi verið að tilgreindri fjárhæð. Að sönnu var sú krafa reist á því að lánið samkvæmt samningnum 7. desember 2007 hefði borið vexti sem miðuðust við 4. gr. laga nr. 38/2001. Hann hafði fyrir málshöfðun og í stefnu í málinu gert áskilnað um rétt sinn til að krefja um ofgreidda vexti af því að lánið væri of hátt, ef til þess kæmi að á kröfu hans yrði fallist í málinu. Þótt ljóst megi vera að sóknaraðili hefði getað haft uppi þær kröfur, sem hann gerir í þessu máli, fær það því ekki breytt að krafa hans um að hann hafi greitt vexti af of háum höfuðstól lánsins frá 26. október 2009 hefur ekki verið dæmd að efni til. Samkvæmt viðtekinni skýringu á reglum 116. gr. laga nr. 91/1991 hefur dómur í fyrra máli aðila því ekki þau réttaráhrif að sóknaraðili geti ekki leitað dóms um kröfur sínar í þessu máli.

Með vísan til alls framagreinds verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varðar frávísun á dómkröfum sóknaraðila í aðalsök, en kröfugerð sóknaraðila lýtur ekki að málskostnaðarákvörðun héraðsdóms. Er lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um frávísun á kröfum sóknaraðila, Grjótháls ehf., í aðalsök og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til löglegrar meðferðar.

Varnaraðili, Vingþór ehf., greiði sóknaraðila 600.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2016.

I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 4. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað í aðalsök með stefnu, áritaðri um birtingu 19. október 2015, af Grjóthálsi ehf., kt. [...], Stórhöfða 34-40, Reykjavík á hendur stefnda Vingþóri ehf., kt. [...], Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.

         Dómkröfur aðalstefnanda eru þær aðallega að aðalstefnda verði gert að greiða aðalstefnanda 53.118,8 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. júní 2014 til greiðsludags. Til vara krefst aðalstefnandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða aðalstefnanda 1.042,8 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. júní 2014 til greiðsludags.

         Aðalstefnandi krefst þess jafnframt að aðalstefnda verði gert að aflýsa eftirfarandi tryggingarbréfum af fasteigninni Grjóthálsi 5 í Reykjavík, með fastanúmerið 204-415

  1. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 55.000.000 með þinglýsingarnr. 411-B-006231/2000, útgefnu af Eykt ehf., kt. [...] til Landsbanka Íslands hf., þann 4.1.1998, upphaflega með veði í fasteigninni Réttarháls 4, Reykjavík, en hvílir nú á 3. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík, til tryggingar á skuld stefnanda við stefnda skv. lánasamningi dagsettum 26.10.2009 að höfuðstólsfjárhæð EUR 6.156.672, samhliða fjórum öðrum tryggingarbréfum hverju að fjárhæð kr. 38.500.000. 

  2. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 38.500.000 með þinglýsingarnr. 411-B-006230/2000, útgefnu af Eykt ehf., kt. [...] til Landsbanka Íslands hf., þann 29.1.1999, upphaflega með veði í fasteigninni Réttarháls 4, Reykjavík, en hvílir nú á 3. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík, til tryggingar á skuld stefnanda við stefnda skv. lánasamningi dagsettum 26.10.2009 að höfuðstólsfjárhæð EUR 6.156.672, samhliða fjórum öðrum tryggingarbréfum þremur að fjárhæð kr. 38.500.000 og einu að fjárhæð kr. 55.000.000.

  3. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 38.500.000 með þinglýsingarnr. 411-B-006229/2000, útgefnu af Eykt ehf., kt. [...] til Landsbanka Íslands hf., þann 4.3.1999, upphaflega með veði í fasteigninni Réttarháls 4, Reykjavík, en hvílir nú á 3. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík, til tryggingar á skuld stefnanda við stefnda skv. lánasamningi dagsettum 26.10.2009 að höfuðstólsfjárhæð EUR 6.156.672, samhliða fjórum öðrum tryggingarbréfum þremur að fjárhæð kr. 38.500.000 og einu að fjárhæð kr. 55.000.000.

  4. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 38.500.000 með þinglýsingarnr. 411-B-006228/2000, útgefnu af Eykt ehf., kt. [...] til Landsbanka Íslands hf., þann 23.3.1999, upphaflega með veði í fasteigninni Réttarháls 4, Reykjavík, en hvílir nú á 3. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík, til tryggingar á skuld stefnanda við stefnda skv. lánasamningi dagsettum 26.10.2009 að höfuðstólsfjárhæð EUR 6.156.672, samhliða fjórum öðrum tryggingarbréfum þremur að fjárhæð kr. 38.500.000 og einu að fjárhæð kr. 55.000.000.. 

  5. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 38.500.000 með þinglýsingarnr. 411-B-006228/2000, útgefnu af Eykt ehf., kt. [...] til Landsbanka Íslands hf., þann 19.4.1999, upphaflega með veði í fasteigninni Réttarháls 4, Reykjavík, en hvílir nú á 3. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík, til tryggingar á skuld stefnanda við stefnda skv. lánasamningi dagsettum 26.10.2009 að höfuðstólsfjárhæð EUR 6.156.672, samhliða fjórum öðrum tryggingarbréfum þremur að fjárhæð kr. 38.500.000 og einu að fjárhæð kr. 55.000.000.

  6. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 275.000.000 með þinglýsingarnr. 411-T-002051/2008, útgefnu af Grjóthálsi ehf., kt. [...] til VBS fjárfestingarbanka, kt. [...] þann 29.2.2008, með veði í fasteigninni Grjótháls 5, veðsett á 5. veðrétti og með uppfærslurétti.  Með skuldskeytingu 26.10.2009 var  bréfið framvegis til tryggingar á skuldum stefnanda við stefnda samkvæmt lánasamningi dagsettum 26.10.2009, að fjárhæð EUR 6.156.672, en ekki til tryggingar á fjárskuldbindingum VBS fjárfestingarbanka.  Það hvílir nú  á 4. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík. 

  7. Tryggingarbréf, að höfuðstólsfjárhæð kr. 350.000.000 með þinglýsingarnr. 411-S-011043/2008, útgefnu af Grjóthálsi ehf., kt. [...] til VBS fjárfestingarbanka, kt. [...] þann 29.2.2008, með veði í fasteigninni Grjótháls 5, veðsett á 5. veðrétti og með uppfærslurétti.  Með skuldskeytingu 26.10.2009 var  bréfið framvegis til tryggingar á skuldum stefnanda við stefnda samkvæmt lánasamningi dagsettum 26.10.2009, að fjárhæð EUR 6.156.672, en ekki til tryggingar á fjárskuldbindingum VBS fjárfestingarbanka.  Það hvílir nú  á 5. veðrétti fasteignarinnar Grjóthálsi 5, Reykjavík. 

         Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefnda að mati réttarins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Dómkröfur aðalstefnda eru þær aðallega að kröfum aðalstefnanda verði vísað frá dómi en til vara að aðalstefndi verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda. Í öllum tilfellum krefst aðalstefndi þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Gagnstefnandi höfðaði gagnsök með gagnstefnu, sem árituð var um birtingu 18. nóvember 2015, og lögð var fram í dómi 19. nóvember 2015. Dómkröfur gagnstefnanda eru þær að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 361.138 evrur ásamt 8,506% dráttarvöxtum frá 10. október 2014 til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefnda að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

         Dómkröfur gagnstefnda eru þær aðallega að kröfum gagnstefnanda í gagnsök verði vísað frá dómi. Til vara krefst gagnstefndi sýknu af kröfum gagnstefnanda. Þá krefst gagnstefndi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.

         Málið var flutt samhliða um frávísunarkröfur annars vegar aðalstefnda í aðalsök og hins vegar gagnstefnda í gagnsök 4. febrúar sl. og eru þær kröfur hér til umfjöllunar. Í þessum þætti málsins krefst aðalstefnandi þess að frávísunarkröfu aðalstefnda verði hafnað og málið verði tekið til efnismeðferðar auk þess sem hann krefst málskostnaðar. Gagnstefnandi krefst þess að frávísunarkröfu gagnstefnda verði hafnað og krefst hann einnig málskostnaðar.

         Verður hér eftir til einföldunar vísað til Grjótháls ehf. sem aðalstefnanda en til Vingþórs ehf. sem gagnstefnanda.

 

II

         Tildrög máls þessa eru þau að hinn 7. desember 2007 gerðu aðalstefnandi og VBS fjárfestingarbanki, nú VBS eignasafn hf., með sér lánssamning nr. 20890 að jafnvirði 500.000.000 króna. Lánið skyldi greiða með einni afborgun hinn 15. september 2008. Hinn 19. desember 2008 gerðu aðalstefnandi og VBS fjárfestingarbanki hf. með sér tvo lánssamninga, nr. 46572 að fjárhæð 528.036.685 krónur og nr. 46573 að fjárhæð 500.000.000 króna, sem báðir eru með gjalddaga 20. janúar 2009. Í 5. mgr. 1. gr. beggja samninganna kom fram að ráðstafa skyldi lánunum til greiðslu lánssamnings nr. 20890. Fyrir liggur að framangreindir lánssamningar voru framseldir gagnstefnanda Vingþóri ehf. sem er félag í eigu VBS eignasafns hf. Hinn 26. október 2009 gerði gagnstefnandi samning við aðalstefnanda til endurfjármögnunar lánssamninganna tveggja. Nýi lánssamningurinn var að fjárhæð 6.156.672 evrur. Samkvæmt 2.2 gr. samningsins skyldi lánstími vera fimm ár og var gjalddagi ákveðinn 10. dagur hvers mánaðar, frá 10. nóvember 2009 til 10. október 2014. Samkvæmt 3. gr. samningsins bar lánið EURIBOR-vexti að viðbættu 3,5% vaxtaálagi.              Í gr. 2.4. í samningnum kemur fram að aðalstefnandi hafi sett gagnstefnanda að veði leigugreiðslur sínar samkvæmt leigusamningi aðalstefnanda, sem leigusala, og Össurar hf., sem leigutaka, dagsettum 1. desember 2007, sbr. handveðsamning frá 26. október 2009. Skyldi Össur hf. beina leigugreiðslum inn á reikning aðalstefnanda nr. 113-38-710159 sem var handveðsettur gagnstefnanda. Í handveðsyfirlýsingunni kemur fram í 7. gr. að væri innstæða hins handveðsetta bankareiknings á gjalddögum lánssamningsins hærri en upphæð skuldfærðar afborgunar samkvæmt lánssamningnum, skyldi veðhafi leggja inn á reikning veðsala eða annan bankareikning, sem veðsali vísaði til, að minnsta kosti jafn háa upphæð og næmi mismuni á upphæð innstæðu bankareikningsins og þeirri upphæð sem veðsala bæri að greiða. Samkvæmt framlögðu yfirliti bankareiknings aðalstefnanda nr. 113-38-710159 voru heildarleigugreiðslur um það bil 208.42 evrur á mánuði.

         Þá segir í 5. gr. lánssamningsins frá 26. október 2009 að gagnstefnandi sé samkvæmt framsali frá VBS veðhafi samkvæmt þeim tryggingarbréfum sem talin eru upp í liðum 1-7 í greininni. Samkvæmt nefndum tryggingarbréfum setti aðalstefnandi að veði með þriðja, fjórða og fimmta veðrétti fasteignina að Grjóthálsi 5, 01-0101, í Reykjavík með fastanúmerið 204-4159. Þá er í greininni tilgreint nánar hver framangreind tryggingarbréf séu. Tryggingarbréfin skyldu standa til tryggingar á fullum og réttum efndum aðalstefnanda á skyldum hans samkvæmt samningnum.

         Aðalstefnandi taldi upphaflega lánssamninginn frá 7. desember 2007 hafa verið bundinn ólögmætri gengistryggingu og höfðaði mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist var lækkunar á eftirstöðvum lánssamningsins. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 12. mars 2014 í máli nr. E-3837/2012 voru eftirstöðvar lánssamnings aðila frá 26. október 2009 lækkaðar í samræmi við varakröfu aðalstefnanda. Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í dómi, uppkveðnum 29. janúar 2015, í máli réttarins nr. 407/2014.

         Hinn 10. júní 2014 greiddi aðalstefnandi í síðasta sinn af lánssamningnum og tilkynnti gagnstefnanda í tölvupósti, dagsettum 9. júlí 2014, að hann hygðist ekki greiða frekari greiðslur af láninu þar sem hann taldi það uppgreitt. Landsbankinn, sem annaðist innheimtu lánssamningsins, hélt þó áfram að innheimta lánið á tímabilinu 1. júlí 2014 – 2. október 2014.

         Hinn 30. september 2014 barst aðalstefnanda tilkynning frá Landsbankanum um að lánssamningurinn væri gjaldfallinn. Með bréfi lögmanns aðalstefnanda, dagsettu 16. október 2014, var farið fram á það við gagnstefnanda að frestað yrði frekari innheimtu þar til dómur félli í Hæstarétti en aðalstefnandi taldi að gagnstefnandi ætti ekki kröfu yrði héraðsdómur í máli E-3837/2012 staðfestur. Hinn 16. október 2014 barst Landsbankanum tölvupóstur frá Þorsteini Ólafssyni, framkvæmdastjóra VBS eignasafns hf., eiganda gagnstefnanda, um að fresta ætti frekari innheimtu samningsins á meðan beðið væri frekari fyrirmæla. Gagnstefnandi gerði í framhaldinu kröfu um að veðsettur reikningur aðalstefnanda nr. 113-38-710159 í Landsbankanum yrði læstur fyrir öllum úttektum veðsala, þ.e. aðalstefnanda. Eftir munnleg samskipti lögmanna aðila sendi lögmaður aðalstefnanda Landsbankanum tölvupóst, dagsettan 24. nóvember 2014, þar sem fram kom að aðilar hefðu komið sér saman um að halda óbreyttu greiðslufyrirkomulagi þar til dómur Hæstaréttar félli. Með tölvupósti sama dag samþykkti lögmaður gagnstefnanda fyrirkomulag sem fólst í því að leigugreiðslum Össurar hf. yrði áfram ráðstafað inn á hinn veðsetta bankareikning aðalstefnanda en því sem væri umfram afborganir af lánssamningnum yrði ráðstafað til aðalstefnanda.

         Eftir að Hæstiréttur Íslands hafði kveðið upp dóm í máli nr. 407/2014 taldi gagnstefnandi að innheimta skyldi eftirstöðvar lánssamningsins með hliðsjón af dómsorði. Aðalstefnandi heldur því hins vegar fram að hann hafi gert skýran fyrirvara við allar greiðslur vegna lánssamningsins og að hann hafi áskilið sér rétt til þess að krefjast endurgreiðslu úr hendi gagnstefnanda vegna ofgreiddra vaxta og leiðréttingar, yrði niðurstaða Hæstaréttar í málinu honum í vil. Þessi fyrirvari hafi verið gerður með tölvupósti, dagsettum 16. október 2012, og í stefnu, þingfestri 20. nóvember 2012.

         Með bréfi, dagsettu 6. febrúar 2015, krafði aðalstefnandi gagnstefnanda um 1.043 evrur, sem er sú fjárhæð sem aðalstefnandi telur sig hafa ofgreitt af lánssamningi aðila frá 26. október 2009. Enn fremur var gagnstefnanda tilkynnt að aðalstefnandi myndi óska eftir því við Landsbankann að bankareikningur nr. 113-38-710159 yrði opnaður fyrir úttektum hans.

         Með bréfi, dagsettu 17. febrúar 2015, hafnaði lögmaður gagnstefnanda ætlaðri uppgreiðslu og meintum fyrirvara um stöðu lánsins samkvæmt lánssamningnum frá 26. október 2009. Jafnframt var því hafnað að hinn handveðsetti reikningur skyldi opnaður og veðsala, þ.e. aðalstefnanda, heimilað að ráðstafa úttektum af honum.

         Gagnstefnandi höfðaði gagnsakarmál á hendur aðalstefnda með gagnstefnu sem lögð var fram í máli þessu 19. nóvember 2015. Er kröfum gagnstefnanda og aðalstefnanda í gagnsök lýst hér að framan.

 

III

         Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að hann hafi ofgreitt vexti af upphaflegum lánssamningi hans og VBS fjárfestingarbanka frá 26. október 2009. Hafi Hæstiréttur Íslands í dómi sínum í máli nr. 407/2014 komist að því að lánssamningurinn hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu og jafnframt að aðalstefnandi hafi ofgreitt samkvæmt samningnum. Kröfur sínar og útreikninga þeirra byggir aðalstefnandi á ákvæðum 5. og 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu oftekins fjár og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Aðalstefnandi vísar jafnframt til fyrirvara, sem hann hafi gert við greiðslur af lánssamningnum. Þá byggir hann jafnframt á því að krafa gagnstefnanda um greiðslu á ætluðum eftirstöðvum upphaflegs lánssamnings úr hendi aðalstefnanda njóti ekki lögverndar samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem sá samningur sé að fullu greiddur og í raun ofgreiddur. Loks byggir aðalstefnandi kröfur sínar á því að eðli málsins samkvæmt muni gagnstefnandi auðgast á kostnað aðalstefnanda með ólögmætum og óréttmætum hætti, nái kröfur aðalstefnanda ekki fram að ganga.

         Til vara byggir aðalstefnandi á því að gagnstefnandi hafi valdið honum tjóni með hinni ólögmætu gengistryggingu þar sem hún hafi leitt til þess að aðalstefnandi hafi greitt vexti af of háum höfuðstól lánsins á tímabilinu 10. október – 10. júní 2014 en enn eigi eftir að leiðrétta þá ofgreiðslu. Byggir aðalstefnandi skaðabótakröfu sína á sakarreglu skaðabótaréttarins.

         Kröfu sína um aflýsingu áðurgreindra sjö tryggingarbréfa byggir aðalstefnandi í fyrsta lagi á því að bréfin hafi verið til tryggingar lánssamningnum frá 26. október 2009 og þar sem hann sé ekki lengur í skuld við gagnstefnanda samkvæmt samningnum beri að aflýsa þeim. Vísar aðalstefnandi til ákvæða 39. gr. laga nr. 39/1978, um þinglýsingu. Verði ekki talið að skuldin sé að fullu greidd, byggir aðalstefnandi á því að gagnstefnandi hafi tryggingu í innstæðu á bankareikningi nr. 113-38-710159 sem nemi hærri fjárhæð en hugsanlegar eftirstöðvar skuldar aðalstefnanda samkvæmt lánssamningnum. 

         Um lagarök vísar aðalstefnandi enn fremur til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og endurgreiðslu ofgreidds fjár og jafnframt til ákvæða 24. gr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sem og til meginreglu samningaréttarins um að samningar skuli standa. Þá er vísað til ákvæða 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 27. gr. sömu laga um heimild til að hafa uppi tvær sjálfstæðar kröfur í málinu og til XXI. kafla laganna um málskostnað. Um dráttarvexti er vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

         Sýknukröfu sína í aðalsök byggir gagnstefnandi á því að sakarefni málsins hafi verið ráðstafað í samræmi við málatilbúnað aðalstefnanda í fyrra máli aðila sem lauk með áðurgreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 407/2014 en málatilbúnaðurinn feli í sér bindandi málflutningsyfirlýsingu aðalstefnanda í skilningi 45. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggir gagnstefnandi á því að umþrættur lánssamningur sé í vanskilum og að aðalstefnandi skuldi gagnstefnanda verulegar fjárhæðir samkvæmt honum. Gagnstefnandi telur jafnframt að fyrirvari aðalstefnanda geti ekki haft áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar og að fyrirvarinn feli ekki í sér betri rétt vegna greiðslna, sem þegar höfðu átt sér stað. Enn fremur byggir gagnstefnandi á því að endurheimturéttur aðalstefnanda sé ekki til staðar, enda hafi gagnstefnandi tekið við greiðslum aðalstefnanda í góðri trú og jafnframt hafi hann haft réttmæta ástæðu til að ætla að um endanlega niðurstöðu væri að ræða. Gagnstefnandi mótmælir því að hann hafi sýnt af sér tómlæti eða að hann hafi með einhverjum hætti samþykkt fyrirvara aðalstefnanda. Auk þess byggir gagnstefnandi á því að skilyrði skaðabóta séu ekki fyrir hendi og mótmælir útreikningi aðalstefnanda á aðal- og varakröfu hans. Loks mótmælir gagnstefnandi kröfu aðalstefnanda um aflýsingu tilgreindra tryggingarbréfa með vísan til þess að aðalstefnandi sé í vanskilum við gagnstefnanda, auk þess sem hann sem kröfuhafi hafi val um það, að hvaða tryggingu hann kjósi að ganga við fullnustu veðs til uppgjörs á vanskilum.

 

         Gagnstefnandi byggir dómkröfur sínar í gagnsök á því, að eftirstöðvar lánssamnings frá 26. október 2009 hafi ekki verið greiddar að fullu og séu því í vanskilum. Þá vísar hann til þess að fyrirvari aðalstefnanda um ofgreidda vexti hafi enga lagalega þýðingu í málinu í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 407/2014. Réttaráhrif dómsins séu bindandi og þá feli málatilbúnaður aðalstefnanda í því máli í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins í þessu máli. Um lagarök vísar gagnstefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Jafnframt er byggt á ákvæðum 45. gr. og 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Vaxtakröfu sína byggir gagnstefnandi á gr. 3.0 í lánssamningnum, sbr. 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001. Um heimild til að höfða gagnsakarmál vísar gagnstefnandi til laga nr. 91/1991, einkum 28. gr. laganna. Málskostnaðarkrafan er byggð á ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

         Sýknukröfu sína í gagnsök byggir aðalstefnandi á því, að lánssamningur frá 26. október 2014 hafi verið að fullu efndur 10. júní 2014 og því sé hann ekki lengur bundinn af honum. Vísar aðalstefnandi til þess að hann hafi í raun ofgreitt vexti samkvæmt samningnum en á þeim ágreiningi hafi ekki verið tekið með efnislegum hætti með áðurnefndum dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 407/2014. Aðalstefnandi mótmælir því í greinargerð sinni í gagnsök að fyrirvari hans um ofgreidda vexti hafi enga þýðingu og jafnframt að hann sé bundinn af málatilbúnaði sínum í fyrra máli aðila. Gagnstefnanda hafi borið skylda til að endurreikna samninginn samkvæmt 5. og 6. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2001 og endurgreiða aðalstefnanda á þeim grundvelli en það hafi hann ekki gert. Byggir aðalstefnandi á því að krafa gagnstefnanda sé ólögmæt og mótmælir jafnframt útreikningi hennar. Með vísan til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar Íslands mótmælir aðalstefnandi fullyrðingu gagnstefnanda um jafna stöðu aðila við samningsgerðina. Loks mótmælir aðalstefnanda sérstaklega dráttarvaxtakröfu gagnstefnanda.

         Aðalstefnandi vísar um lagarök til reglna kröfu- og samningaréttar og jafnframt til 5. og 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV

         Gagnstefnandi reisir kröfu sína um frávísun málsins í aðalsök á því að engar lagaheimildir séu til staðar svo unnt sé að byggja á ætlaðri ofgreiðslu vaxta aðalstefnanda af umþrættum lánssamningi eða að mögulegur endurheimturéttur sé fyrir hendi að fullnaðardómi gengnum varðandi sakarefnið. Efnisdómur hafi þegar fallið í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 407/2014. Með hliðsjón af dóminum liggi fyrir að þegar hafi verið úr skorið um það ágreiningsefni sem aðalstefnandi haldi til streitu í málinu. Í dómi Hæstaréttar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að eftirstöðvar umrædds lánssamnings hafi numið 1.498.424 evrum hinn 10. nóvember 2012. Sé sú niðurstaða bindandi fyrir báða aðila og geti ætlaðir fyrirvarar aðalstefnanda ekki haft áhrif á þá niðurstöðu. Aðalstefnandi geti ekki komið að frekari kröfum um leiðréttingu lánssamningsins umfram það sem felist í dómsorði Hæstaréttar. Hafi aðalstefnandi talið að hann ætti rétt til frekari leiðréttingar vegna ofgreiddra vaxta, hafi honum borið að taka tillit til þess í framlögðum útreikningi sínum sem kröfugerð hans byggði á. Slíkt hafi hann ekki gert og kröfu um leiðréttingu verði ekki komið að og geti ekki haft áhrif á skýrar eftirstöðvar skuldarinnar. Krafan hafi verið dæmd að efni til og verði því ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól og beri því að vísa málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

         Verði ekki á það fallist, byggir gagnstefnandi jafnframt á því að útilokunarregla 5. mgr. 101. gr. sömu laga leiði einnig til frávísunar málsins. Aðalstefnanda hafi verið í lófa lagið að hafa uppi þær málsástæður, sem hafðar séu uppi í þessu máli, í fyrra máli sömu aðila. Með dómkröfum sínum í þessu máli sé aðalstefnandi í reynd að auka við dómkröfur sínar frá fyrra máli með nýjum málsástæðum. Hefði honum verið ókleift að koma þeim að í fyrra máli sökum útilokunarreglunnar og geti aðalstefnandi ekki komist fram hjá henni með höfðun nýs máls til að láta reyna á málsástæðu sem hafi láðst að hafa uppi í fyrra málinu.

         Gagnstefnandi byggir enn fremur á því að málatilbúnaður aðalstefnanda í fyrra máli aðila feli í sér bindandi málflutningsyfirlýsingu í skilningi 45. gr. laga nr. 91/1991. Með kröfugerð sinni hafi aðalstefnandi ráðstafað sakarefninu á þann veg að ekki skyldi taka tillit til ætlaðrar ofgreiðslu á vöxtum við uppgjör lánssamningsins og geti hann ekki vikið sér undan því síðar, enda sé slík ráðstöfun á sakarefninu bindandi eftir reglum um skuldbindingargildi loforða. Krafa aðalstefnanda, að teknu tilliti til hinnar ólögmætu gengistryggingar, hafi kveðið á um að eftirstöðvar lánssamningsins hafi numið 1.498.424 evrum hinn 10. nóvember 2012. Dómur Hæstaréttar hafi ekki verið bundinn fyrirvara líkt og stefnandi haldi fram. Það væri í andstöðu við lög nr. 91/1991 ef dómar gætu almennt verið bundnir fyrirvörum. Niðurstaða réttarins sé því endanleg um sakarefnið.

         Þá telur gagnstefnandi að vísa beri frá dómi kröfum aðalstefnanda um aflýsingu, enda sé aðalstefnandi í verulegri skuld við gagnstefnanda. Vísar gagnstefnandi til sömu raka og fram hafi komið. Jafnframt telur gagnstefnandi ekki lagaheimild til að hafa uppi slíka kröfu um aflýsingu tryggingarbréfa samhliða aðal- og varakröfu aðalstefnanda sem lúti að greiðslu vegna ofgreiddra vaxta.

         Verði því ekki hjá því komist að vísa öllum kröfum aðalstefnanda frá dómi.

 

         Aðalstefnandi mótmælir frávísunarkröfu gagnstefnanda og vísar til þess að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 407/2014 hafi snúist um það hvort lánssamningurinn væri bundinn ólögmætri gengistryggingu og hvort leiðrétta ætti lánssamninginn vegna þess. Mál þetta snúist hins vegar ekki um hinn leiðrétta lánssamning. Aðalstefnandi bendir á að hann hafi ofgreitt rúmar 500.000 evrur á tímabilinu 10. október 2009 - 10. júní 2014 þar sem hann hafi haldið áfram að borga af láninu miðað við rangan höfuðstól. Fyrirvari um ofgreidda vexti hafi verið gerður í stefnu aðalstefnanda í hinu fyrra máli og í tölvupósti, dagsettum 16. október 2012. Hafi því alltaf legið fyrir að aðalstefnandi myndi sækja hina ofgreiddu vexti. Hinn 10. júní 2014 hafi lánssamningurinn verið að fullu greiddur miðað við ofgreidda vexti.

         Aðalstefnandi byggir á því að dómstólar eigi aðeins að dæma um það sakarefni sem liggi fyrir í málinu. Í fyrra máli aðila hafi aðalstefnandi ekki sótt ofgreidda vexti og virðist það óumdeilt. Þótt hann hafi ákveðið að gera ekki kröfu um ofgreidda vexti í fyrra máli aðila, hafi aðalstefnandi gert skýran fyrirvara um að hann áskildi sér rétt til að gera hana, yrði fallist á kröfu hans í því máli. Því hafi fyrrgreindur dómur Hæstaréttar ekki res judicata-áhrif í þessu máli. Þá vísar aðalstefnandi til þess að samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skuli skýra regluna um res judicata þröngt. Þá bendir aðalstefnandi á að útilokunarregla 5. mgr. 101 .gr. laga nr. 91/1991 eigi ekki við hafi dómstóll aldrei áður fjallað efnislega um dómkröfur.

 

V

         Aðalstefnandi byggir kröfu sína um frávísun málsins í gagnsök á 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Svo sem fram komi í gagnstefnu sé óumdeilt í málinu að lánssamningur nr. 20890 hafi verið verðtryggður með ólögmætri gengistryggingu og það hafi orðið til þess að lánssamningur frá 26. október 2009 hafi að höfuðstólsfjárhæð verið um helmingi of hár. Krafa gagnstefnanda í málinu virðist byggja á því að honum sé heimilt að krefjast vaxta á gengistryggðan höfuðstól vegna tímabilsins 10. október 2009 - 10. nóvember 2012, án leiðréttingar, en aðilar séu sammála um að leiðréttur upphaflegur höfuðstóll samningsins hafi átt að vera 3.396.731 evrur hinn 10. október 2009 en ekki 6.156.672 evrur, eins og hann hafi verið í lánssamningnum. Reikni gagnstefnandi lánssamninginn eftir 18. gr. laga nr. 38/2001 og dómafordæmum Hæstaréttar og sé hafið yfir vafa og í raun óumdeilt í málinu að krafa samkvæmt lánssamningnum hafi verið uppgreidd og í raun ofgreidd 10. júní 2014.

         Aðalstefnandi telur að gagnstefnandi geti aldrei að lögum beint að honum kröfu sem beinlínis byggi á því að reikna eigi samninginn í andstöðu við framangreind lög. Slík krafa njóti ekki lögverndar, enda hafi Hæstiréttur tekið af allan vafa um að upphaflegur lánssamningur hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu sem hafi leitt til þess að lánssamningurinn frá 26. október 2009 hafi verið rangur sem hafi valdið því að aðalstefnandi hafi greitt of háa vexti.

         Aðalstefnandi byggir á því að ofgreiddu vextina hafi borið að færa sem innborgun á höfuðstól á hverjum gjalddaga, sem aftur leiði til þess að lánssamningurinn hafi verið að fullu uppgreiddur 10. júní 2014 og reyndar ofgreiddur, sbr. stefnukröfur í aðalsök. Í því samhengi sé jafnframt ítrekað að gagnstefnandi hafi beina lagaskyldu til að endurreikna samninginn, sbr. 5. og 6. mgr. 18. gr. nr. 38/2001, og skipti þar engu máli hvort hinn umdeildi fyrirvari haldi eður ei. Þegar af þeirri ástæðu njóti krafa gagnstefnanda ekki lögverndar þar sem dómur um hana væri í andstöðu við lög, fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 407/2014 og aðra dóma réttarins. Því beri að vísa kröfum gagnstefnanda í gagnsök frá dómi, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

         Gagnstefnandi mótmælir frávísunarkröfu aðalstefnanda og vísar til þess að hann krefjist réttmætra efnda á lánssamningi aðila. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 407/2014 hafi ekkert komið fram um að lánssamningurinn frá 26. október 2009 væri ólögmætur. Óumdeilt sé að staða lánsins hinn 10. nóvember 2012 hafi verið um það til 1,5 milljónir evra og hafi það verið staðfest af Hæstarétti. Gagnstefnandi hafi við útreikning kröfu sinnar miðað við stöðu lánsins þann dag. Gagnstefnandi bendir á að búið sé að endurreikna lánssamninginn og ekki eigi að endurreikna hann á ný. Eftirstöðvar samningsins séu í verulegum vanskilum og aðalstefnandi hafi ekki nýtt sér framlengingarheimild gr. 2.7 í lánssamningnum. Þar sem krafan sé í samræmi við lánssamninginn og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar sé hún lögvarin krafa. Þá mótmælir gagnstefnandi dómatilvísunum aðalstefnanda og telur þær ekki eiga við.

 

VI

         Eins og áður greinir var mál þetta flutt samhliða um frávísunarkröfur aðalstefnanda og gagnstefnanda og eru einungis frávísunarkröfur þeirra til úrlausnar í þessum þætti málsins. Kemur fyrst til úrlausnar krafa gagnstefnanda um frávísun á kröfum aðalstefnanda í málinu en því næst verður leyst úr kröfu aðalstefnanda um frávísun krafna gagnstefnanda í gagnstefnu.

         Eins og áður er rakið gerir aðalstefnandi aðallega þá kröfu að gagnstefnanda verði gert að greiða aðalstefnanda 53.118,8 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. júní 2014 til greiðsludags. Til vara krefst aðalstefnandi þess að gagnstefnanda verði gert að greiða aðalstefnanda 1.042,8 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. júní 2014 til greiðsludags. Aðalstefnandi krefst þess jafnframt að gagnstefnanda verði gert að aflýsa nánar tilgreindum tryggingarbréfum af fasteigninni Grjóthálsi 5 í Reykjavík, með fastanúmerið 204-4159.

         Með stefnu birtri 16. nóvember 2012 höfðaði aðalstefnandi fyrra dómsmál sitt á hendur gagnstefnanda þar sem hann krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði með dómi að eftirstöðvar lánssamningsins frá 26. október 2009 hefðu numið 1.134.535 evrum hinn 10. nóvember 2012 en til vara að viðurkennt yrði að eftirstöðvar sama lánssamnings hefðu numið 1.498.424 evrum hinn 10. nóvember 2012. Auk þess var krafist málskostnaðar. Af hálfu gagnstefnanda var krafist sýknu af kröfum aðalstefnanda.

         Aðalstefnandi byggði viðurkenningarkröfur sínar í fyrra málinu á því að upphaflegt lán hans frá VBS fjárfestingarbanka hf. hinn 7. desember 2007 hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Fyrir liggur að 19. desember 2008 undirritaði aðalstefnandi tvo lánssamninga sem ráðstafa skyldi til greiðslu á upphaflegum lánssamningi. Þá liggur fyrir að hinn 26. október 2009 voru lánin tvö endurfjármögnuð með lánssamningi málsaðila að fjárhæð 6.156.672 evrur. Mun VBS hafa framselt fjárkröfur sínar á grundvelli fyrrgreindra samninga til aðalstefnda, auk allra réttinda og skyldna samkvæmt samningunum og kom síðastgreindur samningur að öllu leyti í stað hinna tveggja fyrri samninga.

         Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 12. mars 2014, var fallist á að ósanngjarnt væri af hálfu gagnstefnanda að byggja á lánssamningi aðila frá 26. október 2009 að því marki sem lánið var of hátt vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar og var því fallist á varakröfu aðalstefnanda og viðurkennt að eftirstöðvar lánssamningsins hafi numið 1.498.424 evrum hinn 10. nóvember 2012. Var sú niðurstaða byggð á endurútreikningi aðalstefnanda á kröfunni sem var grundvöllur varakröfu hans í því máli. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 29. janúar 2015 í máli réttarins nr. 407/2014. 

         Af stefnu í aðalsök í máli því, sem hér er til úrlausnar, verður ráðið að aðalstefnandi krefjist greiðslu þess sem hann kveður vera ofgreiddir vextir af upphaflegum lánssamningi aðila allt til 10. júní 2014.  Í stefnu gerir aðalstefnandi grein fyrir því að í aðalkröfu sé hinum ofgreiddu vöxtum ráðstafað til lækkunar höfuðstóls á hverjum gjalddaga en í varakröfu séu hinir ofgreiddu vextir dregnir frá eftirstöðvum endurreiknaðs höfuðstóls í lok tímabils.

         Þegar litið er til framangreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 407/2014 þar sem fallist var á endurútreikning aðalstefnanda á eftirstöðvum umrædds láns, sem óumdeilt er að liggur til grundvallar dómkröfum aðalstefnanda í þessu máli, verður að líta svo á að endanlegur efnisdómur hafi þegar gengið um aðal- og varakröfu aðalstefnanda í þessu máli að því er varðar kröfur um greiðslu vaxta fram til 10. nóvember 2012. Verður því, þegar af þeirri ástæðu, að fallast á kröfu gagnstefnanda um frávísun þeirra krafna frá dómi með vísan til ákvæða 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í útreikningum aðalstefnanda á aðal- og varakröfu í stefnu er ekki að finna útlistun á því, hvaða fjárhæðir er um að ræða að því er varðar ætlaða ofgreidda vexti á tímabilinu 10. nóvember 2012 - 10. júní 2014. Að mati dómsins telst sá hluti aðal- og varakröfu aðalstefnanda því svo vanreifaður að vísa beri honum frá dómi án kröfu.

         Í ljósi alls framangreinds er það mat dómsins að fyrirvarar aðalstefnanda um að hann áskilji sér rétt til að endurkrefja gagnstefnanda um ofgreidda vexti breyti engu um frávísun málsins. Að þessu virtu er aðal- og varakröfu aðalstefnanda í heild því vísað frá dómi.

         Í stefnu er því lýst að nánar tilgreindum tryggingarbréfum í fasteigninni Grjóthálsi 5 í Reykjavík hafi verið ætlað að tryggja skuld aðalstefnanda samkvæmt lánssamningnum frá 26. október 2009 og því lýst að aðalstefnandi hafi ekki verið í öðru skuldasambandi við gagnstefnanda. Er krafa um aflýsingu tryggingarbréfanna byggð á því að aðalstefnandi sé ekki lengur í skuld við gagnstefnanda og því sé honum nauðsynlegt að fá bréfunum aflýst. Því liggur fyrir að þessi krafa aðalstefnanda er sett fram í órjúfanlegum tengslum við aðal- og varakröfu hans og þær málsástæður, sem þær byggjast á, en kröfunum hefur þegar verið vísað frá dómi. Aðalstefnandi er bundinn af þessum málatilbúnaði sínum. Að þessu virtu og með vísan til sömu raka og þegar hafa verið færð fram fyrir frávísun aðal- og varakröfu aðalstefnanda hér að framan er það niðurstaða dómsins að fallast beri á kröfu gagnstefnanda um frávísun á kröfu aðalstefnanda um aflýsingu tryggingarbréfanna.

 

         Í gagnstefnu gerir gagnstefnandi  þá kröfu að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 361.138 evrur ásamt 8,506% dráttarvöxtum frá 10. október 2014 til greiðsludags, auk málskostnaðar. Gagnstefnandi byggir kröfu sína á því, að óumdeilt sé að hinn 10. nóvember 2012 hafi rétt staða þess láns, sem málið lýtur að, verið 1.498.424 evrur, svo sem Hæstiréttur Íslands hafi staðfest með dómi sínum 29. janúar 2015 í máli réttarins nr. 407/2014. Þessar eftirstöðvar lánsins hafi hins vegar ekki fengist greiddar hjá aðalstefnanda og því sé lánið nú gjaldfallið og ógreitt. Staða lánsins hinn 10. nóvember 2014, þegar lokagreiðsla hafi átt að fara fram, nemi 361.138,8 evrum en aðalstefnanda beri auk þess að greiða umsamda vanskilavexti samkvæmt lánssamningnum. Í gagnstefnu er gerð grein fyrir tölulegum útreikningi kröfu gagnstefnanda.

         Eins og áður er rakið byggir aðalstefnandi frávísunarkröfu sína í gagnsök á ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þegar litið er til þess málatilbúnaðar gagnstefnanda fyrir kröfu sinni um greiðslu á eftirstöðvum lánsins, sem hann kveðst miða við endurútreiknaða stöðu lánssamnings aðila 10. nóvember 2012 í samræmi við margnefndan dóm Hæstaréttar Íslands, verður ekki fallist á það með aðalstefnanda að leitt sé í ljós að ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 standi því í vegi að gagnstefnandi geti borið kröfu sína undir dómstóla. Þá lýtur ágreiningur um það, hvort lánssamningurinn hafi verið uppgreiddur eða ofgreiddur hinn 10. júní 2014 og jafnframt hvort borið hafi að færa vexti inn á höfuðstól, að efnisþætti málsins en ekki formhlið þess. Að þessu virtu verður að hafna frávísunarkröfu aðalstefnanda.         

         Með vísan til alls framangreinds er dómkröfum aðalstefnanda í aðalsök vísað frá dómi en hafnað kröfu aðalstefnanda um frávísun dómkrafna gagnstefnanda í gagnsök.

         Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður aðalstefnanda gert að greiða gagnstefnanda málskostnað í aðalsök sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til kröfu gagnstefnanda um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

         Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar í gagnsök bíði lokaniðurstöðu málsins.

         Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Dómkröfum aðalstefnanda, Grjótháls ehf., í aðalsök er vísað frá dómi.

         Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda, Vingþóri ehf., 350.000 krónur í málskostnað.

         Frávísunarkröfu aðalstefnanda í gagnsök er hafnað.

         Ákvörðun málskostnaðar í gagnsök bíður efnisdóms.