Hæstiréttur íslands
Mál nr. 483/2006
Lykilorð
- Skaðabætur
- Bifreið
- Búfé
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2007. |
|
Nr. 483/2006. |
Hilmar Lúthersson(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn Gauksmýri ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Skaðabætur. Bifreiðir. Búfé.
H krafðist þess að viðurkennt yrði að G væri bótaskyldur vegna heilsu-og eignatjóns sem hann varð fyrir 15. maí 2004, þegar hross slapp úr girðingu og gæslu á bænum Gauksmýri. Á grundvelli 56. gr. vegalaga var lausaganga búfjár bönnuð við bæinn. Hrossið komst í umrætt sinn í gegnum opið hlið sem lá við vegaslóða frá bænum og þjónaði hagsmunum G. Hliðið uppfyllti ekki kröfur 37. gr. vegalaga. Þar sem þess var eigi gætt af hálfu G að hliðið væri lokað átti hesturinn greiða leið á þjóðveginn umrætt sinn. Af þeim sökum var G talin bera skaðabótaábyrgð á tjóni H. Var H gert að bera þriðjung tjóns síns vegna eigin sakar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé bótaskyldur vegna heilsu- og eignatjóns sem áfrýjandi varð fyrir 15. maí 2004, þegar hross slapp úr girðingu og gæslu á bænum Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. fyrir Hæstarétt til réttargæslu.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi stukku tveir hestar í eigu stefnda yfir tvær rafmagnsgirðingar við bæinn Gauksmýri 15. maí 2004 og þaðan út á tún við þjóðveg nr. 1. Annar hestanna hljóp þvínæst út um opið hlið á girðingu við þjóðveginn og truflaði þannig akstur áfrýjanda, sem kom á vélhjóli eftir veginum, að hann missti stjórn á hjólinu og varð af þeim sökum fyrir tjóni.
Fallist er á með héraðsdómi að skaðabótaábyrgð stefnda verði ekki reist á því að vanbúnaður hafi verið á umræddum rafmagnsgirðingum við bæinn Gauksmýri. Áfrýjandi reisir kröfu sína einnig á að sök stefnda felist í því að umrætt hlið á girðingunni við þjóðveginn hafi verið opið og vísar til ákvæða 56. gr. vegalaga nr. 45/1994 þar segir meðal annars að lausaganga búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum megin vegar sé bönnuð. Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda, Jóhanns Albertssonar, fyrir dómi kom fram að girt sé beggja vegna þjóðvegarins við bæinn Gauksmýri en vegurinn liggur gegnum land stefnda. Í 1. mgr. 37. gr. vegalaga segir meðal annars svo: „Nú er vegur lagður gegnum tún, ræktunarland, engjar eða girt beitiland og skal þá veghaldari girða báðum megin vegarins eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði ef hann telur það hentugra.” Samkvæmt gögnum málsins uppfyllti hlið það sem um ræðir ekki þessar kröfur og máttu forsvarsmenn stefnda vita það. Af því sem fram er komið í málinu verður heldur ekki annað ráðið en að hlið þetta hafi þjónað hagsmunum stefnda, en frá því lá vegarslóði inn á land hans. Þar sem þess var eigi gætt af hálfu stefnda að hliðið væri lokað átti hesturinn greiða leið á þjóðveginn umrætt sinn. Af þeim sökum ber stefndi skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.
Fram er komið að áfrýjandi sá með nokkrum fyrirvara hestinn nálgast þjóðveginn og bar honum því að gæta að sér, sbr. staflið l í 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ekki verður ráðið af framburði vitna að hesturinn hafi farið inn á veginn í veg fyrir áfrýjanda þótt hann hafi gert sig líklegan til þess og þannig truflað akstur áfrýjanda. Þegar litið er til þessa þykir rétt að áfrýjandi beri 1/3 hluta tjóns síns sjálfur.
Það athugast að í dómsorði héraðsdóms var réttargæslustefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda þrátt fyrir að henni hafi ekki verið að honum beint.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði 600.000 krónur upp í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, Gauksmýri ehf., skuli bæta 2/3 hluta þess tjóns er áfrýjandi, Hilmar Lúthersson, varð fyrir 15. maí 2004, þegar hross slapp út á vegsvæði þjóðvegar nr. 1 við bæinn Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu.
Stefndi greiði samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans fyrir báðum dómstigum 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. júní 2006.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi, 11. maí sl., er höfðað 28. og 31. október 2005 af Hilmari Lútherssyni, Vallholti 3, Selfossi, á hendur Gauksmýri ehf., Gauksmýri, Húnaþingi vestra, og Vátryggingafélagi Íslands hf. Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi Gauksmýri ehf. sé bótaskyldur vegna heilsu- og eignatjóns sem stefnandi varð fyrir þegar hross slapp úr girðingu og gæslu á býlinu Gauksmýri, Húnaþingi vestra, og hljóp skyndilega út á þjóðveg nr. 1 fyrir neðan bæinn í gegnu opið hlið með þeim afleiðingum að stefnandi féll í götuna af bifhjóli sínu þegar hann reyndi að forðast árekstur við hrossið. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans að mati dómsins. Til vara krefjast stefndu þess að sök verði skipt og þá verði málskostnaður látinn niður falla.
II
Málavextir
Á bænum Gauksmýri í Húnaþingi vestra reka hjónin Jóhannes Albertsson og Sigríður Lárusdóttir bú en um reksturinn hafa þau stofnað félagið Gauksmýri ehf. Þar er m.a. rekin hestamiðstöð og hafa þau á undanförnum árum tekið hross frá öðrum til tamninga.
Hinn 15. maí 2004 var stefnandi á leið frá Reykjavík til Akureyrar á bifhjóli sínu ásamt nokkrum félögum sínum sem einnig ferðuðust á bifhjólum. Neðan við nefndan bæ, Gauksmýri, hljóp hross af túninu við bæinn út í gegnum opið hlið við þjóðveginn og stefndi í áttina að þjóðveginum. Stefnandi kvaðst í fyrstu hafa haldið að hrossið væri innan girðingar en hann hafi síðan séð að svo var ekki og hann hafi talið að hrossið myndi hlaupa í veg fyrir hann. Hann bremsaði en missti við það stjórn á bifhjólinu og féll í götuna og urðu við það töluverðar skemmdir á bifhjólinu svo og fatnaði stefnanda.
Stefndu halda því fram að í umrætt sinn hafi um 15 til 20 hrossum verið hleypt út úr hesthúsi inn í gerði og þaðan í lokað hólf girt með tveimur rafmagnsgirðingum. Girðingarnar hafi verið tveggja strengja með rafstraum á efri vír. Í þetta sinn hafi tveir hestar komist yfir girðingar þessar og þau hafi hlaupið suður tún sem þar er. Annar hesturinn hafi hlaupið að girðingu sem skilur túnið frá þjóðveginum en hinn hafi beygt til vesturs og inn á skeiðbraut og svo aftur til suðurs í átt að þjóðveginum. Óumdeilt er að þessi hestur fór af túninu í gegnum opið hlið og átti þannig greiðan aðgang að þjóðveginum. Eftir óhappið var lögregla kölluð á vettvang og liggur skýrsla lögreglumanns frammi í málinu svo og framburðarskýrslur aðila og vitna hjá lögreglu.
Stefndu hafa hafnað bótaskyldu vegna tjóns stefnanda. Ágreiningi um bótaskyldu var skotið til tjónanefndar vátryggingafélaganna sem komst að þeirri niðurstöðu 15. júní 2004 að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu. Með bréfi dagsettu 28. febrúar 2005 skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Nefndi komst að þeirri niðurstöðu hinn 5. apríl 2005 að stefnandi ætti rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda Gauksmýrar ehf. hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Hið stefnda vátryggingafélag undi ekki úrskurði þessum og tilkynnti nefndinni um þá ákvörðun með bréfi dags. 14. apríl 2005 en jafnframt var lögmanni stefnanda sent afrit af bréfinu. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta í lok október 2005 eins og áður er getið.
III
Málsástæður og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á sakarreglunni og heldur því fram að stefndi Gauksmýri ehf. beri fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á eigna- og líkamstjóni sem stefnandi varð fyrir í umrætt sinn vegna þess að hestur slapp úr girðingu og gæslu hjá stefnda og hljóp í veg fyrir stefnanda á þjóðvegi nr. 1. Stefnandi vísar einnig til reglna skaðabótaréttar utan samninga um rétt sinn til skaðabóta úr hendi stefnda.
Stefnandi tekur undir álit úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þess efnis að hann eigi rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda, Gauksmýri ehf., hjá réttargæslustefnda.
Stefnandi byggir á því að girðingar sem halda áttu hestunum standist hvorki lög né reglugerðir. Geymsla hestsins, sem olli slysinu, svo og eftirlit með honum hafi verið saknæm. Saknæmur aðbúnaður og saknæm vangeymsla sé ástæða tjónsins og á þessu beri stefndi ábyrgð.
Stefnandi bendir á að þrátt fyrir nefndan úrskurð úrskuðarnefndar í vátryggingamálum hafi réttargæslustefndi alfarið hafnað bótaskyldu og mótmælir stefnandi þessari afstöðu réttargæslustefnda harðlega. Stefnandi bendir á að hann hafi ekki átt annan kost en að höfða mál þetta til að fá bótaskyldu viðurkennda og telur hann að neitun réttargæslustefnda á bótaskyldu sé ástæða þess að hann hafi ekki fengið tjón sitt bætt.
Af hálfu stefndu er á því byggt að slysið verði ekki rakið til saknæms vanbúnaðar á girðingum eða saknæmrar háttsemi umráðamanna hrossins. Stefndu byggja á því að umræddur hestur hafi verið ásamt öðrum hrossum í túni sem umlukið var tvöfaldri rafmagnsgirðingu. Benda stefndu á vottorð sem fyrir liggur í málinu þess efnis að girðingar að Gauksmýri hafi verið reistar í samræmi við ströngustu kröfur. Ekki sé vitað hvernig tveimur hestum tókst að komast yfir tvær rafmagnsgirðingar en þó liggi fyrir að saknæmum vanbúnaði girðinganna sé ekki ástæða þess að hrossin sluppu út og annað þeirra komst eftir það að þjóðveginum.
Stefndu halda því fram að þegar umráðamenn hestsins sáu að hann var kominn út fyrir rafmagnsgirðinguna hafi þeir strax brugðist við og reynt að tálma för hans að þjóðveginum og liggi ekkert fyrir í málinu sem bendi til annars. Því verði sök á óhappi því sem stefnandi varð fyrir þennan dag ekki felld á umráðamenn hestsins.
Stefndu benda á að málið sé höfðað á grundvelli sakarreglunnar og skaðabóta krafist á þeim grundvelli. Af því leiði að um ábyrgð stefndu fari eftir gáleysismati. Almenn skilgreining á gáleysi sé sú að það sé hegðun sem feli í sér umtalsverða hættu á að tjón verði. Við mat á gáleysi beri að líta til skrásettra réttarreglna sem tengjast því sviði sem til umfjöllunar er. Hér séu það lög nr. 103/2002 um búfjárhald og reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum. Einkum verði að horfa til reglugerðar nr. 59/2000 hvað vörslu búfjár varðar. Stefndu bendir á að samkvæmt 3. gr. nefndrar reglugerðar sé gripaheld girðing mannvirki úr ýmiss konar efni sem reist sé til að hindra frjálsa för búfjár. Mannvirkin geti verið mismunandi eftir því hvaða búfénaði þau eigi að halda. Í 3. tl. b-liðar 6. gr. reglugerðarinnar sé að finna skilgreiningu á því hvað sé hrossheld rafgirðing. Þar komi m.a. fram að rafgirðing skuli vera háspennt og varanleg með tveimur vírstrengjum. Hæð girðingarinnar skuli vera 0,95 m. Jarðfastir tréstaurar þar með úr harðviði og plaststaurar skuli vera með mest 10 metra millibili. Stefndu benda einnig á að í reglugerð um girðingar nr. 748/2002 sé kveðið á um staðla og orðskýringar og hvaða lágmarksskilyrði girðing þurfi að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir hverja tegund búfjár. Þar sé ennfremur mælt fyrir um hvernig háttað skuli undirbúningi, uppsetningu, gerð og tæknilegum frágangi girðinga. Ákvæði þessarar reglugerðar um það hvað teljist hrossheld girðing sé samhljóða ákvæði nefndrar reglugerðar nr. 59/2000.
Stefndu helda því fram að girðingarnar sem hesturinn slapp út úr hafi verið í fullu samræmi við áskilnað gildandi réttar um hrossheldar girðingar og vitnar í því sambandi til vottorðs sem liggur frammi í málinu. Þannig hafi vörslur hrossa að Gauksmýri þennan dag verið með þeim hætti að ekki væri umtalsverð hætta á að tjón yrði. Af þessu leiði að gáleysi eigi ekki við í þessu máli og því verði ábyrgð ekki felld á stefnda á grundvelli sakarreglunnar. Þvert á mót hafi umráðamenn hrossins gert allt sem ætlast mátti til af þeim að gert yrði til að tryggja að hross færu ekki yfir vörslulínur á landareigninni.
Stefndu telja að ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að bótaábyrgð hafi skapast á grundvelli sakarreglunnar þá sé gáleysi stefnda Gauksmýrar ehf. svo óverulegt að taka verði tillit til þess við ákvörðun bóta. Benda stefndu á að sveitarstjórn Húnaþings vestra hafi ekki bannað lausagöngu búfjár á þessu svæði fyrr en 1. júlí 2004 og því hafi lausaganga ekki verið bönnuð þegar óhappið átti sér stað. Af þeirri ástæðu hafi stefnandi mátt búast við skepnum í og við akstursleið hans. Honum hafi borið að haga akstri sínum í samræmi við þá staðreynd. Lýsing hans sjálfs á atburðum bendi til þess að hann hafi ekki gert það og því verði að láta hann sjálfan bera stærstan hluta tjóns síns.
Hvað lagarök varðar vísa stefndu til meginreglna skaðabótaréttar, til ákvæða laga nr. 103/2002 um búfjárhald og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, til girðingalaga nr. 135/2001, til auglýsingar um bann við lausagöngu búfjár á tilteknum vegsvæðum í Húnaþingi vestra frá og með 1. júlí 2004. Jafnframt vísar stefndu til fordæma Hæstaréttar Íslands um ábyrgð á tjóni af völdum búfjár. Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Ekki er um það deilt í málinu að hestur sá sem hljóp í áttina að þjóðveginum var ekki graðhestur eins og stefnandi taldi í fyrstu og því koma til ekki skoðunar reglur um vörslu graðpenings. Þá verður ráðið af gögnum málsins að á þeim tíma sem óhappið varð hafði sveitarstjórn Húnaþings vestra ekki bannað lausagöngu búfjár á þessum stað en það var gert frá 1. júlí þetta ár.
Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af aðilum og nokkrum vitnum. Framburður þeirra snéri einkum að því hvaðan hrossið kom og hvað gert var af hálfu stefnda til að reyna að handsama það. Ekki er um það deilt að hrossið kom af túninu sunnan við bæinn Gauksmýri og fór út um hlið á túngirðingunni sem einhverra hluta vegna hafði verið skilið eftir opið.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á sakarreglunni. Við mat á því hvort stefndi Gauksmýri ehf. sýndi af sér saknæmt gáleysi við vörslu hestsins sem átti hlut í að óhappið varð verður fyrst og fremst að horfa til þess hvar hann var geymdur. Stefndu hafa frá upphafi haldið því fram að hesturinn hafi ásamt öðru hrossi sloppið úr girðingu fyrir ofan túnið við Gauksmýri. Hrossin hafi farið yfir tvær rafgirðingar áður en það komst inn á túnið fyrir neðan bæinn en þaðan hafi hesturinn farið út að þjóðveginum eins og áður er lýst en hitt hrossið hafi haldið sig innan girðingarinnar. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til að þessi staðhæfing stefnda sé röng. En ekkert vitnanna sem gaf skýrslu fyrir dóminum taldi að fleiri hross hafi verið á túninu neðan Gauksmýrar en þau tvö sem áður er getið. Þá bar vitnið Haukur Richardsson að honum hafi á vettvangi verið tjáð að viðkomandi hestur væri graðhestur sem hefði farið í gegnum rafgirðingar. Stefnandi hefur heldur ekki sýnt fram á að rafgirðingar þær sem hrossið fór yfir hafi verið vanbúnar en stefndu hafa haldið því fram að vegagerð ríkisins hafi reist þessar girðingar. Þvert á móti liggur frammi í málinu vottorð Júlíusar Guðna Antonssonar, sem unnið hefur við uppsetningu og viðhald girðinga, einkum rafgirðinga, í 25 ár, þess efnis að hann hafi komið að vinnu við girðingar að Gauksmýri og að rafgirðingar þar standist allar kröfur sem gerðar eru til slíkra girðinga. Júlíus Guðni kom fyrir dóminn og staðfesti þetta vottorð sitt.
Þegar framangreint er virt verður stefnda ekki metið til gáleysis að hesturinn slapp úr hólfi sem hann var í ásamt fleiri hrossum en hólfið byggja verður á því að hólfið hafi verið girt hrossheldri girðingu í skilningi 3. tl. b liðar reglugerðar nr. 59/2000. Hross áttu ekki að vera í túninu fyrir neðan bæinn á Gauksmýri og af þeim sökum átti ekki að koma að sök þótt hlið væri opið á girðingunni við þjóðveginn. Þá verður ekki annað séð en að af hálfu stefnda hafi verið brugðist skjótt við þegar ljóst var að hross höfðu sloppið úr girðingunni. Þar sem stefndi Gauksmýri ehf. sýndi ekki af sér gáleysi við vörslur hestsins verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 570.264 krónur, þar með talin þóknun Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Stefnandi hefur krafist þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess kostnaðar sem fallið hefur á málið frá upphafi en hann hafi farið allar þær leiðir með málið sem tækar eru og því hafi farið mikill tími í það. Gjafsóknarleyfi stefnanda takmarkast við rekstur málsins fyrir héraðsdómi og því telst kostnaður sem féll á málið á fyrri stigum ekki til gjafsóknarkostnaðar og verður stefnandi að bera þann kostnað sjálfur.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndu, Gauksmýri ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf. eru sýkn af kröfum stefnanda, Hilmars Lútherssonar.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 570.264 krónur, þar með talin þóknun Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.