Hæstiréttur íslands
Mál nr. 142/1999
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarlög
- Ölvunarakstur
- Svipting ökuréttar
- Reglugerð
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 18. júní 1999. |
|
Nr. 142/1999. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Hilmari Frey Gunnarssyni (Guðmundur Kristjánsson hrl.) |
Bifreiðir. Umferðarlög. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Reglugerð. Sératkvæði.
H var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Játaði hann brot sitt og var fundinn sekur. H neitaði að gangast undir sektargerð án dómsmeðferðar með greiðslu sektar og sakarkostnaðar og sviptingu ökuréttar. Taldi hann að ökuréttarsvipting yrði ekki byggð á reglugerð nr. 280/1998 um sektir og viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Talið var rétt, með hliðsjón af hættu samfara ölvunarakstri og varnaðaráhrifum ökuréttarsviptinga, að svipta H ökurétti í samræmi við fyrirmæli reglugerðarinnar. Þá var H dæmdur til greiðslu sektar og áfrýjunarkostnaðar málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 1999 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði ók bifreið undir áhrifum áfengis norður Fjarðargötu í Hafnarfirði að kvöldi laugardags 12. desember 1998. Mældist vínandamagn í lofti því, sem ákærði andaði frá sér, 0,507 milligrömm í lítra lofts. Gerðist ákærði því brotlegur við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.
Ákvæði um skyldu til að svipta mann ökurétti eru í 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Almennt er mjög ámælisvert ef maður ekur vélknúnu ökutæki undir áhrifum áfengis. Þegar litið er til þess og að ætla má að svipting ökuréttar hafi veruleg varnaðaráhrif, þykir með vísun til 1. mgr. 102. gr., sbr. 101. gr. umferðarlaga, hæfilegt að svipta ákærða ökurétti í 8 mánuði eins og fyrirmæli eru um í viðauka I við reglugerð nr. 280/1998 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
Að öðru leyti verður héraðsdómur staðfestur um annað en sakarkostnað í héraði, sem ákærða verður gert að greiða auk áfrýjunarkostnaðar málsins, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Hilmar Freyr Gunnarsson, greiði 45.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 10 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í átta mánuði frá 12. desember 1998.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 100.000 krónur.
|
Sératkvæði |
|
|
Gunnlaugs Claessen hæstaréttardómara í hæstaréttarmálinu nr. 142/1999: Ákæruvaldið gegn Hilmari Frey Gunnarssyni |
Með héraðsdómi var ákærði dæmdur til að greiða sekt og sviptur ökurétti í fjóra mánuði fyrir ölvunarakstur. Hvorugur málsaðila krefst endurskoðunar héraðsdóms um ákvörðun sektarinnar. Ákæruvaldið krefst þess hins vegar að ákærði verði sviptur ökurétti í átta mánuði í samræmi við ákvæði viðauka I reglugerðar nr. 280/1998 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Ákærði unir niðurstöðu héraðsdóms um tímalengd ökuréttarsviptingar og hefur frá upphafi lýst sig reiðubúinn til að ljúka málinu án dómsmeðferðar með þeim hætti. Vísar hann til þess að þessi hefði orðið niðurstaðan samkvæmt leiðbeiningum ríkissaksóknara, reglugerð og dómvenju fram að setningu reglugerðar nr. 280/1998. Er það ekki vefengt af hálfu ákæruvalds.
Í 4. grein nefndrar reglugerðar segir, að hún sé sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 57/1997. Með reglugerðinni fylgir sem viðauki „Skrá yfir sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.“ Kemur þessi skrá í stað leiðbeininga ríkissaksóknara og síðar reglugerðar nr. 403/1997, sem lögregluyfirvöld fóru áður eftir við beitingu heimilda sinna til ákvörðunar sekta og annarra viðurlaga. Með áðurnefndum lögum nr. 57/1997 var umferðarlögum breytt á þann hátt, að við 100. gr. þeirra var bætt þrem nýjum málsgreinum, sem urðu 4. - 6. mgr. þeirrar greinar. Í 4. mgr. 100. gr. er ráðherra nú veitt heimild til að ákveða með reglugerð sektir allt að 100.000 krónur fyrir umferðarlagabrot. Skal í reglugerðinni tilgreint hvaða tegunda brota hún taki til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots.
Í tveim fyrri dómum Hæstaréttar hefur sérstaklega verið vikið að nefndri reglugerð, en í þeim málum var dæmt um kröfur ákæruvalds um sviptingu ökuréttar vegna hraðaksturs. Í dómi 14. janúar 1999 í máli nr. 425/1998 var tekið fram, að þótt eðlilegt sé að lögregluyfirvöld beiti stöðluðum skrám við ákvarðanir sínar í þessum efnum, leiði af 2. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar verði ekki bundnir við slíkar skrár. Beri þeim, þegar málum af þessu tagi er skotið til þeirra, að meta viðurlög sjálfstætt á grundvelli umferðarlaga og megi þá meðal annars líta til ákvarðana lögregluyfirvalda á þessu sviði. Í dómi Hæstaréttar 17. desember 1998 í máli nr. 443/1998 var getið um setningu laga nr. 57/1997 og að í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að þeim lögum, hafi lítið verið vikið að öðrum viðurlögum en sektum. Tæpt hafi verið á sviptingu ökuréttar vegna hraðaksturs, en sviptingar ökuréttar vegna ölvunaraksturs í engu getið. Í dóminum er einnig rakið að í athugasemdunum eða öðrum lögskýringargögnum komi ekkert fram um að stefnt sé að því að herða refsingar í formi ökuréttarsviptingar fyrir ölvunarakstur. Þvert á móti segir þar, að í raun sé verið að festa í sessi þær stöðluðu leiðbeiningar, sem ríkissaksóknari hafi látið lögreglustjórum í té og gera þær sýnilegri fyrir borgarana.
Ákvæði viðauka I reglugerðar nr. 280/1998 fela í sér mikla breytingu á venjuhelgaðri lögskýringu dómstóla á ákvæði 102. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993 og lög nr. 23/1998, um beitingu ökuréttarsviptingar vegna ölvunaraksturs. Til þess að stjórnvöldum sé heimilt að breyta dómvenju um beitingu refsikenndra viðurlaga, svo sem þeirri sem hér um ræðir, verður að áskilja skýra heimild í settum lögum. Með 3. gr. laga nr. 57/1997 er dómsmálaráðherra veitt heimild til þess að ákveða í reglugerð sektir allt að 100.000 krónur fyrir brot á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Skal í reglugerðinni tilgreint hvaða tegunda brota hún tekur til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Í athugasemdum við það frumvarp, sem varð að lögum nr. 57/1997, og öðrum tiltækum lögskýringargögnum er hvergi að finna vísbendingu um breytt mat löggjafans á lengd ökuréttarsviptingar vegna ölvunaraksturs. Þegar þetta er virt verður orðalag 3. gr. laga nr. 57/1997 ekki skýrt svo rýmkandi að það veiti stjórnvöldum heimild til þess að raska dómvenju um beitingu 102. gr. umferðarlaga. Ber því að ákveða tímalengd ökuréttarsviptingar án tillits til viðauka reglugerðar nr. 280/1998 og í samræmi við gildandi dómvenju, eins og lagt er til grundvallar niðurstöðu héraðsdóms. Ber samkvæmt þessu að staðfesta héraðsdóm og leggja kostnað við áfrýjun málsins á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 1999.
Ár 1999, mánudaginn 15. febrúar, er á dómþingi Héraðsdómi Reykjaness, sem háð er í dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, í málinu nr. S-0094/1999: Ákæruvaldið gegn Hilmari Frey Gunnarssyni, kveðinn upp svohljóðandi dómur.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. þessa mánaðar, er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði, útgefinni 26. janúar 1999, á hendur Hilmari Frey Gunnarssyni, kt. 090279-4409, Breiðvangi 10, Hafnarfirði, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 12. desember 1998, ekið bifreiðinni LT-651, undir áhrifum áfengis, norður Fjarðargötu í Hafnarfirði.
Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og nr. 23/1998.”
Með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist sakargögnum, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða.
Vínandamagn í útöndunarlofti ákærða var mælt í INTOXILYZER 5000 mælitæki og reyndist það nema 0,5070 milligrömmum í lítra lofts.
Dómari gaf sækjanda og verjanda ákærða kost á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Sækjandi ítrekaði kröfur samkvæmt ákæru og vísaði hann til reglugerðar nr. 280/1998 og sjónarmiða í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 425/1998. Verjandi ákærða mótmælti því að ökuréttarsvipting yrði byggð á reglugerð nr. 280/1998. Vísaði verjandinn til dóms Hæstaréttar 17. desember s.l. í máli nr. 443/1998 og bréfs síns dags. 5.janúar 1999. Þá krafðist verjandinn málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust hjá lögreglu og var hann sviptur ökurétti til bráðabirgða þann 12. desember s.l.
Með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði dagsettu 22. desember s.l. var ákærða boðið að ljúka málinu með sektargerð án dómsmeðferðar með greiðslu 45.000 króna sektar í ríkissjóð, 6.500 króna vegna sakarkostnaðar og sviptingu ökuréttar í 8 mánuði. Í bréfi verjanda ákærða til sýslumanns dagsettu 5. janúar s.l. kemur fram að ákærði játi brot sitt fortakslaust og samþykki hann að greiða sektarfjárhæð þá og sakarkostnað er í boði sýslumanns komi fram, en ákærði geti hins vegar ekki fallist á að sæta sviptingu ökuréttar í 8 mánuði. Í því sambandi vísar verjandinn til dóma Hæstaréttar, umferðarlaga og reglugerða, en samkvæmt því telji hann ákærða einungis hafa unnið til fjögurra mánaða ökuréttarsviptingar samkvæmt dómvenju, sem ákærði sé reiðubúinn að gangast undir. Kom þannig eigi til þess að ákærði lyki málinu án dómsmeðferðar.
Við þingfestingu máls þessa var ákærða af hálfu ákæruvalds boðið að ljúka málinu með sektargerð dómara í samræmi við áðurgreint boð sýslumanns en því boði hafnaði ákærði.
Fyrir setningu laga nr. 57/1997 hafði ríkissaksóknari látið lögreglustjórum í té staðlaðar leiðbeiningar sem meðal annars tóku til sekta og sviptingar ökuréttar vegna ölvunaraksturs. Samkvæmt þeim leiðbeiningum var svipting ökuréttar fyrir ölvunarakstur í samræmi við áralanga dómvenju. Með framangreindum lögum var ráðherra veitt heimild til að ákveða með reglugerð sektir allt að 100.000 krónur fyrir umferðarlagabrot. Skal í reglugerðinni tilgreint hvaða tegundir brota hún taki til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Með reglugerð nr. 280/1998, sem sett var samkvæmt framangreindum lögum og kom í stað staðlaðra leiðbeininga ríkissaksóknara, var í viðauka áralangri dómaframkvæmd um ökuréttarsviptingu vegna ölvunaraksturs breytt talsvert til þyngingar. Með lögum nr. 57/1997 var ekki hróflað við 101. eða 102 gr. umferðarlaga. Hvorki er í lögunum, í athugasemdum með frumvarpi að lögunum eða öðrum lögskýringargögnum vikið að því að breyta hafi átt áralangri dómaframkvæmd varðandi ökuréttarsviptingu vegna ölvunaraksturs. Hins vegar er í athugasemdum með frumvarpi að lögunum vikið að því að verið sé að festa í sessi þær stöðluðu leiðbeiningar sem ríkissaksóknari lét lögreglustjórum í té. Verður þannig ekki ráðið af lögunum eða öðrum lögskýringargögnum að um hafi verið að ræða breytt mat löggjafans að þessu leyti.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands verður því ekki stuðst við reglugerð nr. 280/1998 að því er varðar sviptingu ökuréttar ákærða. Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga og með vísan til dómvenju verður ákærði sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 12. desember 1998 að telja.
Þá ber að dæma ákærða, sem eigi hefur áður sætt refsingu, til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 45.000 krónur og komi fangelsi í 10 daga í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá dómsbirtingu. Þá ber að dæma ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar annan en málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og því að ákærði lýsti sig frá upphafi reiðubúinn til að ljúka málinu án dómsmeðferðar með greiðslu sektar og sakarkostnaðar eins og ákærandi bauð og að sæta sviptingu ökuréttar í samræmi við áralanga dómaframkvæmd, þykir rétt að ákveða að málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði. Þykja málsvarnarlaunin hæfilega ákveðin 25.000 krónur.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Ákærði, Hilmar Freyr Gunnarsson, greiði 45.000 króna sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 12. desember 1998.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Allan annan kostnað sakarinnar greiði ákærði.