Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-236

Kristinn L. Brynjólfsson (sjálfur)
gegn
LP verktaki ehf. (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Aðild
  • Skipting sakarefnis
  • Verksamningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 15. nóvember 2018 leitar Kristinn L. Brynjólfsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. sama mánaðar í málinu nr. 300/2018: LP verktak ehf. gegn Kristni L. Brynjólfssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. LP verktak ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu LP verktaks ehf. um að leyfisbeiðanda verði gert að greiða honum nánar tiltekna fjárhæð vegna vinnu við múrviðgerðir á húsnæði í eigu leyfisbeiðanda. Í héraði var sakarefninu skipt með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 og aðeins dæmt um málsástæðu leyfisbeiðanda sem laut að aðildarskorti hans. Héraðsdómur féllst á málatilbúnað leyfisbeiðanda og sýknaði hann af kröfu LP verktaks ehf. Með ofangreindum dómi Landsréttar var á hinn bóginn viðurkennt að leyfisbeiðandi væri réttur aðili að málinu.

Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur bæði að formi og efni þar sem annars vegar hafi verið farið út fyrir kröfugerð LP verktaks ehf. í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 og hins vegar hafi rétturinn litið framhjá veigamiklum atriðum sem fram hafi komið við skýrslutöku fyrir héraðsdómi. Þá hafi málið verulega almenna þýðingu af þeim sökum og varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til. Er beiðninni því hafnað.