Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Kröfulýsing
  • Réttindaröð


                                     

Þriðjudaginn 10. júní 2014.

Nr. 350/2014.

Robein Leven N.V.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

gegn

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsing. Réttindaröð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfum vegna innstæðufjár sem R lýsti við slit L hf. var skipað í réttindaröð sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Vísað var til þess að þótt fyrirmæli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki leiddu til þess að kröfum vegna innstæðufjár yrði skipað í réttindaröð sem forgangskröfum samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, hvíldi á kröfuhafa fortakslaus skylda til að tilgreina við kröfulýsingu hverrar stöðu krafist væri að krafa hans nyti við slit, en R hafði um þetta skírskotað til 113. gr. laganna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2014, þar sem kröfu er sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila að fjárhæð 9.979.113 evrur var skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að í dómum Hæstaréttar 6. september 2012 í máli nr. 506/2012, 23. janúar 2013 í máli nr. 763/2012, 12. apríl 2013 í máli nr. 182/2013 og 18. nóvember 2013 í máli nr. 708/2013 hefur ítrekað verið skorið úr ágreiningi sem lýtur að sömu atriðum og til úrlausnar eru í máli þessu. Málskot þetta er því að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Robein Leven N.V., greiði varnaraðila, LBI hf., 750.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2014.

I.

Mál þetta, sem þingfest var 10. janúar 2013, var tekið til úrskurðar 3. apríl sl. Sóknaraðili er Robein Leven N.V. en varnaraðili er LBI hf. í slitameðferð.

Endanleg krafa sóknaraðila er að krafa hans, að fjárhæð 9.979.113 evrur, njóti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, við slitameðferð varnaraðila. Einnig krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins, miðað við umfang og hagsmuni málsins.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila. Jafnframt krefst hann þess að staðfest verði afstaða slitastjórnar um að viðurkenna kröfuna sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 9.979.113 evrur, sem umreiknist í kröfuskrá sem 1.688.765.293 krónur. Þá krefst hans málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins.

II.

Sóknaraðili og varnaraðili gerðu með sér sex samninga um heildsöluinnlán sem sóknaraðili lagði inn á reikning útibús varnaraðila í Amsterdam, Hollandi, á tímabilinu 23. janúar til 3. desember 2007, samtals að fjárhæð 10.000.000 evra.

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitameðferðina fyrir lok kröfulýsingarfrests að fjárhæð 10.000.000 evra, sem umreiknaðist í kröfuskrá í 1.692.300.000 krónur. Í kröfulýsingunni sagði svo meðal annars: „With reservation of all rights we believe the claim of Robein Leven N.V. ranks according to article 113 of Act No. 21/1991“, eða að sóknaraðili teldi, með öllum fyrirvörum þó, að krafan nyti réttar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Slitastjórn varnaraðila samþykkti kröfuna sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 9.979.113 evrur, eða 1.688.765.293 krónur. Hafði þá verið dregin frá greiðsla til sóknaraðila frá hollenska seðlabankanum (De Nederlandsche Bank B.V.) að fjárhæð 20.887 evrur. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar á kröfuhafafundi sem varnaraðili hélt hinn 1. desember 2010 og með bréfi, dags. 7. sama mánaðar. Mótmælin voru síðar áréttuð í bréfi, dags. 6. júlí 2011. Fyrir slitastjórn var eftir það reynt án árangurs að jafna ágreininginn á fundum sem haldnir voru 6. júlí og 22. ágúst 2011 og 15. október 2012. Við svo búið beindi slitastjórn varnaraðila málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991.

III.

Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að varnaraðili hafi brugðist skyldum sínum gagnvart sóknaraðila með því að virða að vettugi fyrirvara hans um rétta flokkun á kröfu hans. Í kröfulýsingunni hafi verið tekið fram að sóknaraðili teldi, án þess að það væri fullyrt, að krafan nyti réttar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. orðalagið „With reservation of all rights we believe the claim of Robein Leven N.V. ranks accordin to article 113 of Act No. 21/1991“, sem á íslensku útleggist sem: „Með öllum fyrirvörum þá trúum við því að krafa [sóknaraðila] njóti rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.“ Telja megi ljóst að hin hollenska lögmannsstofa sem lýst hafi kröfunni fyrir sóknaraðila hafi efast um að tilvísun til 113. gr. laga nr. 21/1991 ætti við umrædda kröfu og því hafi umboðsmaðurinn áskilið sér allan rétt um stöðu kröfunnar í kröfuröð og óskað eftir frekari leiðbeiningum frá slitastjórn varnaraðila, ef slitastjórnin myndi líta svo á að tilvísunin til 113. gr. væri ekki í samræmi við eðli kröfunnar og efni kröfulýsingarinnar, ásamt fylgigögnum. Hafi fyrirvaranum verið ætlað að koma í veg fyrir hugsanlegt brottfall eða afsal réttinda sem kynnu að felast í vanlýsingu krafna.

Með hliðsjón af skýru og óumdeildu eðli kröfunnar beri að túlka orðalag kröfulýsingarinnar með þeim hætti að rétthærri flokkun kröfunnar í kröfuröð geti einnig átt við og sé því algjörlega ótækt að fallast á þá túlkun að rétthæð kröfunnar geti einungis verið samkvæmt 113. gr. eða neðar. Hljóti allur vafi sem kunni að leiða af orðalagi kröfulýsingarinnar að túlkast sóknaraðila í hag.

 Jafnframt sé á því byggt að kröfulýsing sóknaraðila hafi verið nægilega skýr til að samþykkja beri kröfu hans eins og henni hafi verið lýst, með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Augljóst sé að kröfulýsing sóknaraðila hafi varðað kröfu sem njóti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. Þá verði ráðið af orðalagi 117. gr. sömu laga að ekki sé fortakslaust skylt að taka fram berum orðum hvaða stöðu í réttindaröð krafist sé. Einungis segi að kröfur skuli tilteknar svo skýrt sem verða megi og sé þá þar á meðal verið að vísa til hverrar stöðu krafist sé að krafa njóti í skuldaröð. Ljóst sé að markmið tilvitnaðrar 117. gr. sé að tryggja að lýsing kröfu feli skýrlega í sér eðli kröfunnar og þau málsatvik sem hún grundvallist á svo unnt sé að skipa henni á viðeigandi stað í réttindaröð. Ótvírætt sé að kröfulýsing sóknaraðila feli í sér lýsingu á kröfu vegna innstæðu, sbr. orðalagið: „This amount is the sum of the amounts of six deposits“, sem á íslensku útleggist: „Þessi fjárhæð er samtala sex innstæðna.“ Í kjölfarið sé vísað til fylgigagna með kröfulýsingunni með orðunum „A summary og these deposits is enclosed as Appendix A and summary per deposit as Appendix B“, sem á íslensku útleggist sem: „Samantekt yfir þessar innstæður er meðfylgjandi sem viðauki A og samantekt á hverja innstæðu sem viðauki B.“

Með hliðsjón af eðli kröfunnar og framangreindri lýsingu hennar í kröfulýsingu verði að ætla að varnaraðila hafi verið fullkunnugt um að um innstæðukröfu væri að ræða sem njóti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þrátt fyrir grandsemi varnaraðila um að hugsanlega hafi krafan verið ranglega flokkuð í kröfulýsingu hafi hann látið hjá líða að upplýsa sóknaraðila um mat sitt á stöðu kröfu varnaraðila í réttindaröð. Hafi hann þannig komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti gætt hagsmuna sinna og lýst kröfu sinni réttilega fyrir lok kröfulýsingarfrestsins. Hafi aðgerðarleysi varnaraðila þannig leitt til brottfalls mikilvægra réttinda sóknaraðila og hljóti varnaraðili að þurfa að bera hallann af slíkri vanrækslu.

IV.

Varnaraðili vísar til þess að í kröfulýsingu sóknaraðila hafi þess ekki verið krafist að krafa hans nyti stöðu í forgangskröfu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þvert á móti hafi sóknaraðili lýst kröfu sinni sem almennri kröfu á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðila um rétthæð skv. 112. gr. hafi fyrst komið fram í mótmælabréfi til varnaraðila, dags. 7. desember 2010, en kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 30. október 2009. Krafa sóknaraðila um forgang skv. 112. gr. sé því of seint fram komin og komist því ekki að við slitameðferðina.

Varnaraðili vísi til þess að samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þurfi að taka fram berum orðum í kröfulýsingu hvaða stöðu sé krafist í réttindaröð. Verði fallist á málatilbúnað sóknaraðila hefði þessi áskilnaður ákvæðisins enga þýðingu. Ekkert af efni kröfulýsingar sóknaraðila leiði sjálfkrafa til þess að krafa hans njóti stöðu forgangskröfu í réttindaröð skv. 112. gr. og engin krafa um forgang verði leidd af kröfulýsingu sóknaraðila. Þvert á móti komi fram í kröfulýsingu hans að krafist sé rétthæðar skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.

Mótmælt sé þeirri túlkun sóknaraðila að nægilegt sé að vísa til eðlis kröfunnar sem innstæðukröfu til þess að henni verði veittur forgangur samkvæmt tilgreindu ákvæði 112. gr. Skýra verði ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til samræmis við önnur ákvæði laganna, sem og lög nr. 21/1991. Þá sé mótmælt þeim staðhæfingum sóknaraðila að slitastjórn varnaraðila hafi brugðist meintum skyldum sínum gagnvart sóknaraðila og virt fyrirvara í kröfulýsingu hans að vettugi. Sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni á eigin ábyrgð og áhættu. Hljóti hann að verða að bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum við frágang kröfulýsingarinnar til varnaraðila. Nægi í því sambandi ekki að bera fyrir sig að umboðsmaður hans, hin hollenska lögfræðistofa, hafi haft takmarkaða þekkingu á íslenskum gjaldþrotarétti. Fyrir liggi að slitastjórn varnaraðila hafi ekki borið, fyrr en að kröfulýsingarfresti liðnum, að gera skrá um þær kröfur sem borist hefðu og taka afstöðu til þeirra, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi meintur fyrirvari í kröfulýsingu sóknaraðila enga þýðingu að íslenskum lögum.

V.

Niðurstaða

Eins og að framan hefur verið rakið er í máli þessu deilt um það hvort slitastjórn varnaraðila hafi borið að viðurkenna kröfu sóknaraðila vegna umræddra heildsöluinnlána sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, á grundvelli þeirrar kröfulýsingar sóknaraðila sem móttekin var fyrir lok kröfulýsingarfrests.

Í kröfulýsingu sóknaraðila segir svo, með enskum texta, um þann hluta kröfulýsingarinnar sem ágreiningur aðila lýtur að: „With reservation of all rights we believe the claim of Robein Leven N.V. ranks according to article 113 of Act No. 21/1991.“ Ekki liggur fyrir þýðing á kröfulýsingunni á íslensku en ekki sýnist ágreiningur um eftirfarandi þýðingu á framangreindum texta, sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila: „Með öllum fyrirvörum þá trúum við því að krafa Robein Leven N.V. njóti rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.“

Sú meginregla kemur fram í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem vill halda fram kröfu á hendur þrotabúi verði að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 2. mgr. sömu greinar segir að kröfulýsing skuli vera skrifleg og þar er jafnframt að finna ákvæði um efni kröfulýsingar. Meðal þess sem koma skal fram í kröfulýsingu er hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð. Innan þeirra marka sem ákvæðið setur ræður kröfuhafi því hvernig hann útbýr kröfulýsingu sína. Í réttarframkvæmd, meðal annars í dómum Hæstaréttar í málum nr. 506/2012 og 763/2012, hefur þetta verið talið fela í sér fortakslausa skyldu þess sem lýsir kröfu í þrotabú til að tilgreina sérstaklega hverrar stöðu hann krefst að krafan njóti og geri hann það ekki sé við það miðað að krafan falli undir 113. gr. laga nr. 21/191 sem almenn krafa. Ekki telst því nóg í tilviki sóknaraðila að ákv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 kveði á um að innstæður njóti eða skuli njóta rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur þarf jafnframt að gera sérstaka og skýra kröfu um þann rétt í kröfulýsingu. Í ljósi þessa verður ekki fallist á með sóknaraðila að kröfulýsing hans hafi fullnægt þessu skilyrði 117. gr. laga nr. 21/1991, þótt ljóst mætti vera að hún varðaði innstæðukröfu sem njóta mætti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr.

Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðila hafi borið að benda sóknaraðila á annmarka á kröfugerð hans áður en kröfulýsingarfrestur rann út. Breytir engu í þessu tilliti meint þekkingarleysi þáverandi umboðsmanns sóknaraðila á íslenskum gjaldþrotarétti eða sú yfirlýsing hans í kröfulýsingu að hann efaðist um að tilvísun til 113. gr. laga nr. 21/1991 ætti við um kröfu sóknaraðila og að hann áskildi sér allan rétt í því sambandi. Engin lagaheimild stendur til slíkrar leiðbeiningarskyldu slitastjórnar og þegar einnig er haft í huga jafnræði kröfuhafa við slitameðferðina verður ekki talið að slík skylda hafi hvílt á slitastjórn varnaraðila í þessu tilliti.

Að virtu því sem hér hefur verið rakið er kröfu sóknaraðila hafnað. Um fjárhæð kröfu sóknaraðila er ekki ágreiningur. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að staðfest sé að krafa sóknaraðila njóti stöðu sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir, að teknu tilliti til þingfestingargjalds að fjárhæð 250.000 krónur, vera hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, Robein Leven N.V., um að krafa hans á hendur varnaraðila, LBI hf., að fjárhæð 9.979.113 evrur, verði við slit varnaraðila viðurkennd sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en staðfest að krafan hafi stöðu sem almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 700.000 krónur í málskostnað.