Hæstiréttur íslands

Mál nr. 354/2008

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X og Y (Hilmar Ingimundarson hrl.)

Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni


Fimmtudaginn 22

 

 

Brot gegn valdstjórninni.

X og Y voru sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í félagi ráðist á lögregluvarðstjóra við skyldustörf í anddyri lögreglustöðvar, Y með því að skalla hann tvisvar í andlit og X með því að hafa klórað hann í andliti og bitið í upphandlegg. Talið var ósannað að X og Y hafi verið beitt harðræði af lögregluvarðstjóranum og að háttsemi hans hafi ekki gefið þeim tilefni til að bregðast við með þeim hætti sem þau gerðu. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til ungs aldurs annars þeirra og þess að um samverknað var að ræða. Var refsing beggja ákveðin 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. júní 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu.

Ákærðu krefjast sýknu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfelling ákærðu. Við ákvörðun refsingar þeirra verður litið til þess sem fram kemur í forsendum dómsins og er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en rétt er að binda hana skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ákærðu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, X og Y, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fullnustu refsingar þeirra skal frestað og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði óskipt allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 341.665 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 8. apríl sl., er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 4. febrúar 2008, gegn Y, kt. […] Hafnarfirði, og X, kt. […], Hafnarfirði, ,,...fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, sunnudaginn 31. desember 2006, í anddyri lögreglustöðvarinnar við Flatahraun 11, Hafnarfirði, í félagi ráðist á A, lögregluvarðstjóra, sem þar var að gegna skyldustörfum, ákærði Y skallaði A tvisvar í andlitið og ákærða X klóraði hann í andlitið og beit hann í hægri upphandlegg, með þeim afleiðingum að A hlaut hruflsár og þreyfieymsl í andlit og bitfar með mari á hægri upphandlegg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar“.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara krefjast þau þess að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Verjandi ákærðu krefst málsvarnarlauna samkvæmt framlagðri tímaskýrslu.

I.

Málavextir eru þeir helstir samkvæmt frumskýrslu lögreglu að kl. 16:31 þann 31. desember 2006 barst lögreglu tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglu um að verið væri að brjótast inn í hús nr. 5 við […] í Hafnarfirði. Fylgdi tilkynningunni að um væri að ræða son húsráðenda en þeir væru að heiman. Þegar komið hefði verið á vettvang hefði hist þar fyrir sonur húsráðenda, ásamt ákærða, Y. Þeim hefði verið vísað út úr húsinu en jafnframt hefði verið tekið af ákærða, Y, áfengi sem hann hafði með höndum. Aukinheldur sem honum hefði verið tilkynnt að farið yrði með áfengið á lögreglustöðina þar sem því yrði hellt niður. Hefði ákærði, Y, verið ósáttur við það að áfengið skyldi hafa verið tekið af honum og kvaðst ætla að sækja systur sína til að nálgast áfengið á lögreglustöðina. Hefði ákærða Y og syni húsráðenda verið í kjölfarið ekið heim til systur ákærða, meðákærðu X. Í lögreglubifreiðinni hefði ákærði, Y, verið orðinn æstur og ítrekað að hann ætlaði að nálgast áfengið og myndi berja lögreglumann ef með þyrfti til að nálgast áfengið.

Í skýrslu af vitninu A aðalvarðstjóra á vakt á lögreglustöðinni í Hafnarfirði þann 31.12.2006, kemur fram að ákærða, X, hefði hringt á lögreglustöðina og tilkynnt að hún hyggðist nálgast áfengi það sem tekið hefði verið af bróður hennar, ákærða Y. Hefði varðstjóri sagt henni að áfengið yrði ekki afhent. Hefðu ákærðu, Y og X, komið í móttökuna á lögreglustöðinni u.þ.b. 15 – 20 mínútum síðar og verið stóryrt. Hefði þeim verið sagt að áfenið yrði ekki afhent og þeim vísað út. Þegar aðalvarðstjórinn huggðist vísa ákærðu út úr móttökunni hefði komið til handalögmála milli ákærðu og aðalvarðstjórans. Hefði lögreglumaður á frívakt, B, komið aðalvarðstjóranum til aðstoðar sem leiddi til handtöku ákærða, Y, en aðalvarðstjóri hefði jafnframt náð að kalla til frekari aðstoðar. Lögreglumenn í nágreninu hefðu móttekið aðstoðarbeiðnina og stöðvað ákærðu, X, þar sem hún hefði verið að fara út í bifreið sína þegar þá hefði borið að. Hefði ákærða verið handtekin í kjölfarið. Ákærðu hefði síðan verið sleppt að skýrslutöku lokinni, skömmu fyrir miðnætti sama dag.

Í málinu liggur frammi læknisvottorð D, sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi, dagsett 21. febrúar 2007. Er því lýst í vottorðinu að A, lögreglumaður hafi komið á slysa- og bráðadeildina að kvöldi 31. desember 2006 og lýst því að hann hefði orðið fyrir árás við störf þá fyrr um kvöldið. Hefðu systkini veist að honum, 17 ára gamall drengur og 23 ára gömul systir hans sem voru ósátt við að áfengi hefði verið tekið af drengnum. Hefði hann verið margsleginn í andlit og skallaður á efri vörina og annars staðar í andlit. Þá hefði hann verið bitinn í hægri handlegg og vinstri öxl og klóraður vítt og breitt. Kollegi hans hefði skakkað leikinn. Hefði hann þó ekki misst meðvitund eða vankast, orðið óglatt eða kastað upp í kjölfarið.

Um skoðun segir í vottorðinu: „Við skoðun er sjúklingur ekki meðtekinn. Meðvitundarstig er eðlilegt. Skýr og gefur góða sögu. Það sést hruflsár yfir vinstra eyra alveg mót höfuðkúpu og eyra. Einnig hruflsár hliðlægt á vinstra kinnbeini. Það eru þreifieymsli yfir vinstra kinnbeini en ekki grunur um brot. Það eru þreifieymsli og dofatilfinning yfir framtönnum en ekki brot á tönnum og ekki lausar tennur. Það er hruflsár yfir hægri augabrún en engin teljandi þreifieymsli þar. Á miðri framhlið hægri upphandleggjar er greinilegt bitfar með mari en bitið fer ekki í gegnum öxl. Ekki sést merki um bitfar á vinstri öxl.“ Loks kemur fram í vottorðinu að áverkar sjúklingsins samrýmist vel áverkasögu.

II.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.

Ákærði, Y, hefur neitað sök. Hann kvaðst hafa farið með vini sínum fyrr um daginn heim til hans en búið hefði verið að skipta um skrá í útidyrahurðinni þegar þá bar að. Þá hefðu þeir brotið upp glugga til að komast inn í húsið. Skömmu síðar hefði lögreglan komið á staðinn og verið með leiðindi gagnvart ákærða sem hann rakti til þess að þeir þekktu hann frá fyrri tíð. Kvað ákærði lögregluna hafa hringt í húsráðendur til að kanna hvort þeir hefðu leyfi til að vera í húsinu. Sagði ákærði einn lögreglumannanna hafa ógnað sér og tekið af sér bjórinn sem hann hafði undir höndum. Í kjölfarið hefði lögreglan ekið sér til systur sinnar.

Þau systkinin, ákærðu í máli þessu, hefðu ákveðið að fara niður á lögreglustöð til að gefa skýrslu um málið og ná í bjórinn. Sagði ákærði systur sína hafa hringt á undan þeim en þegar komið hefði verið niður á lögreglustöð hefði lögreglumaður á vakt, A, ekki viljað taka skýrslu af þeim og neitað að láta þau fá bjórinn. Ákærði kvaðst hafa orðið pirraður við mótlætið og kvað það hugsanlegt að hann hafi látið nokkur ljót orð falla. Hefði lögreglumaðurinn þá horfið úr augsýn en þau öskrað áfram á hann í gegnum glerið á móttökunni. Þau hefðu síðan snúið sér við og höfðu hugsanlega tekið tvö skref á leið út af lögreglustöðinni þegar A kom að þeim og greip í handlegg ákærða og sneri upp á hann. Á sama tíma hefði ákærða hringt í föður þeirra en A hefði þá ráðist að ákærðu og slegið símann úr höndum hennar þannig að sambandið slitnaði. Í því hafi B lögreglumaður komið inn á lögreglustöðina og hefði hann tekið ákærða hálstaki. Mundi ákærði atburði þó ekki nákvæmlega. Kvað ákærði slagsmál hafa staðið yfir í nokkra stund milli þeirra fjögurra sem hefðu endað þegar tveir lögreglumenn til viðbótar, E og F, hefðu komið á vettvang. Í kjölfarið hefði verið farið með þau ákærðu inn í fangaklefa. Nánar aðspurður um átökin kvað ákærði A upphaflega hafa tekið í öxlina á sér og hefði ákærði þá skallað hann þrisvar sinnum og þar af einu sinni í andlitið þegar hann hafði tak á hendinni á honum. Ákærði kvað gerðir A hafa einkennst af miklum pirringi en hann hefði heyrt, áður en hann fór í skýrslutöku umrætt kvöld eftir atvikið, að A hefði orðið fyrir áreiti fyrr um daginn og því hefði hann hugsanlega verið pirraður þegar samskipti hans og ákærðu hófust. 

Ákærði mundi ekki hvort B lögreglumaður var kominn inn á lögreglustöðina þegar ákærði skallaði A en kvað þó líklegt að B hefði verið viðstaddur eitt af skiptunum. Taldi ákærði sig hugsanlega ekki hafa brugðist rétt við en þetta hefðu líklegast verið ósjálfráð viðbrögð. Kvað ákærði það hins vegar ekki hafa verið skipulagt af hálfu þeirra systkina að berja lögreglumann þótt málin hefðu þróast með þessum hætti. Aðspurður út í það sem geriðst heima hjá félaga ákærða fyrr þennan sama dag, kvað ákærði það rangt sem fram komi í lögregluskýrslu að hann hefði hótað að berja lögreglumann til að ná í áfengið ef með þyrfti. Ákærði kvað sig hafa verið rauðan og auman í hálsinum í talsverðan tíma eftir átökin, aukinheldur sem honum hefði verið illt í hendinni.

Aðspurður kvað ákærði ákærðu hafa hent pennastatífi í átt að A en ekki hitt  en hann hefði hins vegar ekki séð þegar meðákærða beit A og klóraði líkt og í ákæru greinir en það geti vel hafa átt sér stað.

Ákærða, X, hefur neitað sök. Hún kvaðst hafa verið heima hjá sér þegar hún hringdi í ákærða en þá hafði lögreglan tekið af honum bjór sem hann hafði haft undir höndum. Kvaðst ákærða hafa talað við lögreglumann til að spyrja hvort hún mætti nálgast bjórinn sem hún ætti en lögreglumaðurinn sagt henni að það yrði a.m.k. ekki fyrr en daginn eftir. Ákærði hefði verið miður sín vegna framkomu lögreglunnar í sinn garð þegar hann kom heim til ákærðu. Hefði ákærða í kjölfarið hringt niður á lögreglustöð, þar sem hún hefði verið ósátt við framkomu lögreglunnar í garð ákærða. A hefði líklega orðið fyrir svörum og hefði hann sagt upplýsingar ákærðu rangar en ákærði hefði m.a. verið tekinn fyrir innbrot fyrr um daginn. Sagðist ákærða hafa hringt í föður þeirra og sagt honum frá þessu og hann hefði fullyrt að þau ættu rétt á að sækja bjórinn. Hefðu þau í kjölfarið farið niður á lögreglustöð í þeim erindagjörðum og jafnframt til að gefa skýrslu um ætlað innbrot. Kvaðst ákærða ekki hafa verið í góðu skapi þegar hún fór á lögreglustöðina.

Á lögreglustöðinni hefði A byrjað á að segja þeim að þau fengju ekki bjórinn og kvaðst ákærða hafa þá sagt að hún teldi sig eiga rétt á að fá áfengið, aukinheldur sem ákærði vildi fá að gefa skýrslu um sína hlið málsins. Hefði A þá gengið í burtu án þess að hlusta á þau og þau í kjölfarið kallað inn um glerið í móttökunni. A hefði þá ítrekað beðið þau um að yfirgefa lögreglustöðina en þau neitað að verða við því fyrr en ákærði fengi að gefa skýrslu. Eftir talsverð leiðindi hefðu þau ákveðið að fara og á leiðinni út hefði ákærði kallað „þroskahefti hálfviti“og skömmu síðar hefði A komið fram og tekið í öxl ákærða þar sem hann var á leiðinni út og síðan tekið ákærða í einhvers hálstak, þannig að hann gat ekki hreyft sig. Hefði ákærði því næst reynt að losa sig og beðið A um að sleppa sér. Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa séð ákærða beita lögreglumanninn ofbeldi nema þá helst að verið geti að hann hafi ýtt við honum í þeirri viðleitni sinni að losa sig. Kvaðst ákærða í fyrstu hafa haldið að A væri að grínast en síðan reynt að losa ákærða og beðið A um að sleppa honum. Hún hefði hringt í föður sinn til að segja honum hvað væri um að vera en þá hefði A ráðist að henni og slegið símann úr höndum hennar. Við þetta hefði ákærði orðið ósáttur og allir farið í hár saman. Annan lögreglumann, B að nafni, hefði borið þar að en þá hefði soðið upp úr og ákærða reynt að losa sig og m.a. bitið og líklegast klórað A en ekkert hefði dugað. Aðspurð kvaðst ákærða eingöngu hafa reynt losna frá A og harðræði hans. Ákærða kvaðst ekki geta lýst því hvernig taki hann hefði tekið sig en sagðist vera alveg frá í bakinu eftir átökin. Ákærða kvað það rétt að hún hefði rifið gleraugun af A í átökunum og tekið auðkenniskort hans upp af gólfinu en hún hefði látið lögreglumennina fá það þegar hún hefði verið í fangaklefanum. Hún kvað það ekki rétt sem fram komi í lögregluskýrslu að hún hefði reynt að fela auðkenniskortið.

Ákærða kvaðst hafa farið út af lögreglustöðinni þegar hún losnaði úr tökum A en hún hefði náð að taka myndir á símann sinn áður en hún yfirgaf stöðina. Hins vegar hefðu myndirnar verið horfnar úr símanum þegar hún fékk hann í hendur að fangavist lokinni. Lýsti ákærða því jafnframt að hún hefði verið að hringja í föður sinn fyrir utan lögreglustöðina þegar lögreglubifreið hefði borið að með tveimur lögreglumönnum sem hefðu strax tekið hana höndum. Lögreglumennirnir hefðu síðan dregið hana öskrandi inn í fangaklefa en hún hefði meitt sig mikið undan aðförum lögreglumannanna. Ákærða kvaðst hafa boðist til að ganga sjálfviljug inn í fangaklefann og því ekki skilið þessar aðfarir lögreglunnar.

Vitnið, A aðalvarðstjóri, kvaðst hafa fengið símtal frá ákærðu, X, þar sem hún tilkynnti honum að hún væri á leiðinni á lögreglustöðina til að sækja áfengi sem hún ætti. Kannaðist vitnið hins vegar ekki við að ákærðu hefðu beðið um að fá að gefa lögregluskýrslu Kvaðst vitnið hafa sagt ákærðu í fyrsta lagi að hún ætti ekkert áfengi þar og í öðru lagi að ef svo væri, og það hefði verið tekið af ákærða, þá fengi hún það ekki afhent. Þrátt fyrir þetta hefðu ákærðu bæði komið á lögreglustöðina og heimtað að fá áfengið afhent. Kvaðst vitnið aldrei hafa heyrt á það minnst af ákærðu hálfu að þau hefðu viljað gefa skýrslu, heldur hefði þeirra eini tilgangur verið að nálgast áfengið. Ákærðu hefðu verið með yfirgang og læti sem m.a. lýsti sér í því að þau börðu í borð og gler í anddyrinu. Vitnið hefði sagt þeim að fara út en þau hafi sagst ekki fara fyrr en þau fengju áfengið afhent. Vitnið kvaðst hafa gert þeim grein fyrir því að svo yrði ekki og sagt að hann hefði áfengið ekki undir höndum en þótt svo væri, þá yrði það ekki afhent, þar sem það hefði verið tekið af ólögráða unglingi.

Vitnið kvaðst hafa farið fram fyrir afgreiðsluborðið til að árétta orð sín um að ákærðu yfirgæfu lögreglustöðina og þá hefðu ákærðu ekki verið á leiðinni út. Ákærðu hefðu ekki hlýtt tilmælum vitnisins og hefði vitnið þá tekið í öxl ákærða og beðið hann að fara út en vitnið kannaðist ekki við að hafa  tekið ákærða hálstaki. Ákærða hefði öskrað eitthvað á þá leið að hann réðist ekki á bróður hennar og í kjölfarið hefði hún ráðist á vitnið með klóri og spörkum. Kvaðst vitnið hafa verið klóraður, bitinn, geraugun rifin af honum, honum hefði ógnað með penna, sparkað í hann en vitnið kvaðst lítið hafa gert annað en að verja sig. Kvað vitnið B lögreglumann, sem staddur var fyrir utan lögreglustöðna og sá hvað gerðist, hafa komið sér til aðstoðar. Vitnið kannaðist við að hafa, einhvern tímann í ferlinu, tekið utan um ákærða til þess að halda honum en þá hefði ákærði náð að skalla vitnið tvívegis í andlitið en eftir það hefði atburðarrásin orðið nokkuð óljós. Líklega hefði B lögreglumaður komið inn þegar vitnið var með ákærða í taki, því vitnið kvaðst muna að B segði við ákærða: „Þú skallar hann...og aftur“. B hefði ekki verið kominn inn þegar átökin hófust. Vitnið kvaðst síðan hafa kallað eftir frekari aðstoð og fljótlega hefði komið þar að lögreglubifreið og ákærðu verið handtekin og færð í fangaklefa. Vitnið kvaðst hafa fengið glóðarauga og mar víðs vegar um líkamann, skyrta hans hefði rifnað og gleraugun væru ónýt.

Vitnið kvað ákærðu hafa hringt eitthvert meðan á þessu stóð. Ákærða hefði misst símann sinn í gólfið en vitnið kvaðst ekki hafa átt nokkurn þátt í því. Aðspurður kvað vitnið umræddan dag hafa verið mjög rólegan og neitaði því að hafa verið pirraður þegar ákærðu komu á lögreglustöðina.

Vitnið, B lögreglumaður, kvaðst hafa verið á frívakt umnrætt sinn en hann hefði átt erindi á lögreglustöðina þetta kvöld. Kvaðst vitnið hafa verið að setjast inn í bifreið sína þegar honum hefði verið litið inn á lögreglustöðina og séð átök milli ákærða og A í anddyrinu. Kvaðst vitnið hafa farið strax þangað inn og blandað sér í átökin með því að taka utan um ákærða. Við það hefði sljákkað í ákærða en um leið hefði hann í tvígang náð að skalla A. Sagði vitnið að allt hefði ætlað um koll að keyra í kjölfarið og hefði ákærða gjörsamlega misst stjórn á skapi sínu. Kvaðst vitnið hafa einbeitt sér að ákærða en á sama tíma hefði ákærða veist að A og m.a. tekið pennastatíf úr afgreiðslunni og hafið á loft. Ákærða hefði í kjölfarið ætlað að yfirgefa lögreglustöðina en aðvífandi lögreglumenn hefðu komið í veg fyrir það. Vitnið hefði áður heyrt hávært samtal milli ákærðu og A þar sem A hefði gert ákærðu grein fyrir því að hún fengi ekki það áfengi sem hún krafðist afhendingar á.  Aðspurður kvaðst vitnið einungis hafa tekið utan um efri hluta líkama ákærða en kvaðst ekki hafa getað beitt sér að fullu þar sem hann hefði verið nýkominn úr axlaraðgerð og því einungis getað notað annan handlegginn. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að upphafi átakanna.

Vitnið, F lögreglumaður, kvaðst undir vaktalok hafa ekið um Flatahraun í Hafnarfirði þegar komið hafi neyðarkall frá lögreglustöðinni. Við komuna þangað hefði hann séð hvar kona gekk frá anddyri lögreglustöðvarinnar og hefði hann stöðvað för hennar en E, félagi hans, hefði farið inn á stöðina. Konan hefði verið nokkuð æst og hefði hún ekki viljað skýra frá málsatvikum en vitnið hefði haldið henni fastri þangað til annar lögreglumaður kom honum til aðstoðar og var konan þá leidd í fangaklefa. Vitnið kvaðst hafa séð hvar ákærði var í tökum inni í anddyri lögreglustöðvarinnar og minnti vitnið að B hefði haldið ákærða.

Vitnið, G lögreglumaður, kvaðst hafa verið kallaður að húsi í Hafnarfirði fyrr um daginn en þar hefðu hist fyrir ákærði og félagi hans. Hefði þeim verið vísað þaðan út að beiðni húsráðenda og áfengi tekið af ákærða. Ákærði hefði verið afar ósáttur við að áfengið var tekið af honum. Kvaðst vitnið hafa ekið ákærða heim til ákærðu og hefði ákærði haft orð á því á leiðinni að hann ætlað sér að sækja áfengið á lögreglustöðina og myndi berja lögreglumann ef með þyrfti til að nálgast það.

Vitnið, H lögreglumaður, kvaðst hafa verið kallaður á innbrotsvettvang fyrr um daginn og þar hefðu hist fyrir ákærði og félagi hans. Kvað vitnið áfengi hafa verið tekið af ákærða og hefði hann brugðist illur við. Ákærða hefði í kjölfarið verið ekið heim til ákærðu og hefði hann haft á orði að hann ætlaði sér að sækja áfengið á lögreglustöðina með öllum tiltækum ráðum. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna nákvæmlega hvað ákærði sagði í því sambandi. Síðar sama dag hefði vitnið verið í verkefni í Garðabæ þegar kall hefði komið frá A um aðstoð á lögreglustöðina. Þegar þangað kom hefði flest verið um garð gengið en A hefði verið við afgreiðsluna ásamt B. Kvaðst vitnið hafa séð áverka í andliti A auk þess sem skyrta hans hefði verið rifin. Kvað vitnið ákærðu hafa verið komin í fangaklefa þegar hann bar að.

Vitnið, I faðir ákærðu, kvaðst hafa fengið símtal frá ákærðu umrætt kvöld þar sem hún sagði honum að lögreglan væri að berja ákærða og að lögreglan væri búin að taka hann hálstaki. Kvaðst vitnið síðan hafa heyrt ákærðu öskra: „Slepptu, slepptu“ og síðan hafi komið skellur og sambandið slitnað. Vitnið kvaðst hafa hringt í 112 til að leita upplýsinga um málið og fengið samband við lögreglu sem hefði sagt að haft yrði samband við vitnið síðar. Skömmu síðar hefði lögreglan hringt og tilkynnt að ákærðu hefðu verið vistuð í fangaklefa þar sem þau hefðu blóðgað tvo lögreglumenn, A og B. Aðspurður kvaðst vitnið hafa vitað af því að ákærðu hefðu ætlað á lögreglustöðina til að gefa skýrslu vegna atviks er varðaði ákærða fyrr um daginn. Undir vitnið voru borin orð þess í skýrslu hjá lögreglu vegna málsins þar sem vitnið tiltók þau orð sem ákærða viðhafði í síma við vitnið og staðfesti vitnið þau orð rétt. Ákærða hefði sagt vitninu að A hefði komið á eftir sér og tekið sig hálstaki á leið sinni út af lögreglustöðinni og að ákærða hefði reynt að hjálpa honum við að losna. Þá kvað vitnið ákærðu hafa fengið áverka á baki eftir viðskipti sín við lögreglumennina fyrir utan lögreglustöðina sem hún hafi ekki enn jafnað sig á. Aðspurður kvaðst vitnið hafa heyrt það frá B lögreglumanni við skýrslutöku af ákærða, að líklega hefðu viðbrögð A einkennst af þeim átökum sem hefðu verið fyrr um daginn á lögreglustöðinni. 

III.

Niðurstaða.

Ákærði Y hefur kannast við að hafa skallað A lögreglumann í andlitið þrisvar sinnum umrætt sinn. Ákærða X hefur játað að hafa bitið A í handlegg og taldi líklegt að hún hefði einnig klórað hann. Fá þær lýsingar ákærðu stoð í vætti vitna sem og í framlögðu læknisvottorði og þykir lýsing á háttsemi ákærðu í ákæru því sönnuð. Ákærðu hafa hins vegar bæði neitað sök og borið því við að þau hafi með háttsemi sinni verið að verjast harðræði A og reyna að losna úr tökum hans.

Ákærði Y sagði í lögregluskýrslu sem tekin var af honum umrætt gamlárskvöld að A lögreglumaður hefði gripið í sig og snúið  upp á handlegg sinn og ætlað að vísa sér út en ákærði verið ósáttur við það og streist á móti. Þá fullyrti ákærði hjá lögreglu að bæði A og B lögreglumaður hefðu tekið hann hálstaki en í skýrslu sinni hér fyrir dóminum var framburður ákærða á annan veg að því leyti að ákærði kvað A hafa tekið í öxl sína og snúið upp á hendina á sér en B hefði hins vegar tekið sig hálstaki. Framburður ákærðu X fyrir dóminum var hins vegar á þá leið að A hefði tekið ákærða hálstaki. Þessu hefur A lögreglumaður neitað en kannaðist við að hafa tekið utan um ákærða og einnig í öxl hans. Ákærðu sögðu bæði fyrir dóminum að A hefði ráðist að ákærðu og slegið símann úr höndum hennar en ákærða kvaðst jafnframt hafa verið tekin tökum án þess að lýsa því nánar. Þessu hefur A mótmælt.

Þegar til alls framanritaðs er litið er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að A lögreglumaður hafi beitt ákærðu harðræði umrætt sinn og verður ekki talið að háttsemi hans hafi gefið þeim tilefni til að bregðast við með þeim hætti sem þau gerðu og hafa játað. Þá hafa ákærðu bæði kannast við að A hafi beðið þau um að yfirgefa lögreglustöðina umrætt sinn og bæði hafa lýst því að þau hafi látið ófriðlega. Að þessu virtu verður talið sannað að ákærðu hafi gerst sek um að hafa ráðist að lögreglumanni við skyldustörf eins og þeim er gefið að sök í ákæru og eru brot þeirra þar rétt færð til refsiákvæða. Verða ákærðu því sakfelld eins og krafist er.

IV.

Refsing og sakarkostnaður.

Samkvæmt sakavottorðum ákærðu hefur hvorugt þeirra áður gerst sekt um refsiverðan verknað. Við ákvörðun refsingar þeirra verður litið til ákvæða 1. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar verður jafnframt að líta til þess að ákærði Y var einungis 17 ára þegar hann framdi brot sitt. Að öllu framanrituðu virtu þykir refsing ákærða Y hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði og refsing ákærðu X þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar beggja ákærðu skilorðsbundið í 2 ár frá britingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Sakarkostnaður málsins nemur 274.192 krónum og er þar með talinn kostnaður að fjárhæð 23.200 krónur vegna áverkavottorðs og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 250.992 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Með vísan til ákvæða 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærðu báðum gert að greiða allan sakarkostnað in solidum.

Ragna Bjarnadóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 2 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða, X, sæti fangelsi í 2 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði in solidum allan sakarkostnað málsins, 274.192 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 250.992 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.