Hæstiréttur íslands

Mál nr. 203/2004


Lykilorð

  • Samningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004.

Nr. 203/2004.

Björn Lárusson

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

gegn

Ingvari Helgasyni ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Samningur. Uppsögn. Skaðabætur.

B hafði um 14 ára skeið annast kynningu á nýjum og notuðum bifreiðum í eigu I hf. og aðstoðað félagið við sölu þeirra. Í tengslum við breytingar á umboðsmannakerfi sínu sagði I hf. fyrirvaralaust upp samningi sínum við B. Höfðaði B þá mál á hendur I hf. til greiðslu skaðbóta vegna fyrirvaralausra slita á samningnum. Talið var að I hf. hafi ekki verið rétt að slíta samningnum fyrirvaralaust, enda þótt uppsögn hans hafi verið heimil með skömmum fyrirvara. Hins vegar var B ekki talinn hafa gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa, en ekki var talið unnt að byggja mat á slíku tjóni á meðaltalslaunum undanfarinna ára um söluþóknun. Var I hf. því sýknað af kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2004. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að krafa áfrýjanda verið lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var hinu stefnda félagi breytt úr hlutafélagi í einkahlutafélag.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Björn Lárusson, greiði stefnda, Ingvari Helgasyni ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2004.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 20. maí 2003 og dómtekið 11. febrúar sl. Stefnandi er Björn Lárusson, Bjarkargrund 12, Akranesi. Stefndi er Ingvar Helgason hf., Sævarhöfða 2, Reykjavík.

Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar.

I.

Málsatvik

Um mitt árið 1987  tók stefnandi að sér fyrir stefnda að hafa milligöngu um sölu á nýjum bifreiðum í eigu stefnda á Akranesi, en stefndi flytur inn og selur nýjar bifreiðir í atvinnuskyni. Síðar tók stefndi einnig að sér milligöngu við sölu á svokölluðum uppítökubílum, þ.e. notuðum bifreiðum sem stefndi hafði eignast við það að kaupendur nýrra bifreiða greiddu hluta kaupverðs með afhendingu eldri bifreiðar. Viðskipti aðila fóru þannig fram að stefndi fékk stefnanda í hendur bifreiðir sem hann hafði eftirleiðis til sýnis að starfstöð sinni á Akranesi. Á starfstöð sinni hafði stefnandi einnig bæklinga og kynningarefni frá stefnda. Við sölu á bifreið fékk stefnandi í sinn hlut 1% af verði bifreiðarinnar, en síðar var þetta hlutfall hækkað í 2%. Þegar um var að ræða notaðar bifreiðir fékk stefnandi 2½% í sinn hlut.  Stefnandi var tengdur við tölvukerfi stefnda og gat þar nálgast ýmsar upplýsingar um þær bifreiðir sem voru til sölu á hverjum tíma. Þegar stefnandi sá um sölu bifreiðar gaf hann viðeigandi upplýsingar upp í tölvukerfi stefnda en síðan var gengið frá afsali og öðrum skjölum á starfstöð stefnda í Reykjavík. Stefnandi tók ekki ákvarðanir um verð eða greiðslukjör. Í einhverjum tilvikum mun stefnanda þó hafa verið heimilað að ganga frá afsali til bráðabirgða enda þótt stefnandi hafi ekki haft almenna heimild til slíkra gerninga frá stefnda. Þegar haldnar voru sýningar víðs vegar um landið á vegum stefnda fóru þær meðal annars fram hjá stefnanda. Auk þess sótti stefnandi svokallaða umboðsmannafundi að starfstöð stefnda í Reykjavík. Stefnandi aflaði sér prófs bifreiðasala vegna starfa sinna fyrir stefnda, en taldi sér ekki skylt að afla sér sérstaks leyfis til sölu á notuðum bifreiðum þar sem sala færi fram á vegum stefnda.

Þau verkefni sem stefnandi sinnti fyrir stefnda fólu í sér hluta af heildartekjum hans, en stefnandi hefur rekið veitingaskála sem aðalatvinnu. Þessar tekjur voru þó breytilegar á milli ára. Stefnandi telur að tekjur sínar af sölu fyrir stefnda síðustu fimm árin fyrir uppsögn samningsins hafi verið sem hér segir: Árið 1996 783.084 kr.; árið 1997 855.266 kr.; árið 1998 1.251.101 kr.; árið 1999 1.333.315 kr.; árið 2000 783.084 kr.

Með símbréfi dagsettu 9. maí 2001 sagði stefndi upp samningi sínum við stefnanda. Í bréfi stefnda segir að vegna breytinga á umboðsmannakerfi stefnda hafi verið ákveðið að segja umboðssamningi við stefnanda upp frá og með dagsetningu bréfsins. Þá kemur fram í bréfinu að enginn umboðsmaður muni verða á Akranesi að sinni. Þá er stefnanda þakkað samstarfið á liðnum árum. Bréfið er undirritað af Helga Ingvarssyni framkvæmdastjóra stefnda og Sigþóri Bragasyni sölustjóra stefnda.

Að sögn stefnanda var enginn aðdragandi að uppsögninni sem tók strax gildi. Af hálfu stefnda er því þó haldið fram að þessar breytingar hafi legið fyrir um eitthvert skeið, enda hafi sala stefnanda verið orðin lítil með tilkomu Hvalfjarðarganga og áhugi og tími stefnanda til starfans takmarkaður. Er vísað til sölutalna þessu til stuðnings. Þá er því einnig haldið fram að stefnandi hafi verið staðinn að óheiðarleika við sölu á bifreiðum og loks hafi hann ekki aflað sér tilskilinna leyfa og réttinda til að reka bílasölu. Að sögn stefnanda gerði hann athugasemdir á skrifstofu stefnda í framhaldi af móttöku bréfsins, en skriflegar athugasemdir hans bárust ekki fyrr en með kröfubréfi lögmanns hans 16. mars 2002.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Auk þess kom fyrir dóminn sem vitni Sigþór Bragason, sölustjóri stefnda. Í þessum skýrslum komu fram nokkuð ítarlegri upplýsingar um tildrög þess að samningssambandi við stefnanda var slitið. Meðal annars röktu stefnandi og vitnið atvik vegna sölu á tiltekinni nýrri bifreið sem reyndist  af eldri árgerð en gefið hafði verið upp við sölu hennar, en að sögn vitnisins gerði framkoma stefnanda í málinu „útslagið“ um framhald á störfum fyrir stefnda. Í skýrslu vitnisins kom þó fram að meginástæður uppsagnar samningsins hefðu verið þær að stefndi hefði viljað fækka umboðsmönnum sínum, nálægð stefnanda við Reykjavík og bækistöðvar stefnda hefði verið mikil og auk þess hefði sala stefnanda verið lítil. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að gera grein fyrir munnlegum skýrslum.

II.

Málsástæður og lagarök aðila

Með hliðsjón af því hve samningssamband aðila hafði staðið lengi og hversu mikilvægt það var fyrir tekjuöflun hans telur stefnandi að það hefði verið í samræmi við eðlilega viðskiptahætti að segja samningnum upp með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara. Hann krefst skaðabóta að fjárhæð 1.000.000 kr. með hliðsjón af umboðstekjum síðustu fimm ára sem samningurinn stóð. Árin 1996 til og með 2000 hafi söluþóknun stefnanda af bifreiðasölu fyrir stefnda numið samtals 5.005.850 kr. eða að meðaltali 1.001.170 kr. á ári. Enda þótt ekki hafi verið gerður skriflegur samningur staðfesti uppsagnarbréf stefnda frá 9. maí 2000 að umboðssamningur hafi verið í gildi milli aðila. Vísað er til þess að umboðstekjur af bifreiðum frá stefnda hafi numið um þriðjung af öllum tekjum stefnanda. Hann hafi gert ýmsar ráðstafanir til að veita þessa þjónustu áfram og lagt í þó nokkurn kostnað þess vegna. Þá sé ljóst af framangreindum þóknunartölum að stefndi hafi haft verulegar tekjur af bílasölu að tilstuðlan stefnanda og aukið viðskiptamannahóp hans. Ekkert sé komið fram um að stefnandi hafi á einhvern hátt vanrækt skyldur sínar eða ekki staðið við efni samnings aðila. Þvert á móti hafi stefndi þakkað honum samstarfið í uppsagnarbréfinu. Þá hafði aldrei verið vikið að því að þetta stæði til og hafi stefnandi mátt ætla að uppsögn hefði þó nokkurn fyrirvara með hliðsjón af því hversu lengi þessi samskipti höfðu staðið. Stefnandi vísar til meginreglu kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og almennra reglna um skaðabætur innan samninga svo og til laga nr. 103/1992 um umboðssölusamninga, sérstaklega IV. kafla. Krafa um dráttarvexti er reist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og málskostnaðarkrafa styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi telur ekki að um umboðs- eða umboðssölusamning í merkingu þess orðs hafi verið að ræða þótt það orð sé notað í uppsagnarbréfinu 9. maí 2001. Starf stefnanda hafi að mestu leyti verið fólgið í því að finna kaupendur að bílum frá stefnda án þess að hann gæti tekið ákvarðanir um verð og kjör eða skuldbundið stefnda með nokkrum hætti. Stefnda hafi verið kunnugt um breytingar á sölumannakerfi stefnda á Akranesi og víðar á árinu 2001, en auk þess hafi stefnandi ekki staðið sig í starfi. Stefndi telur að stefnandi hafi starfað sem sjálfstæður, óháður sölumaður, gegn þóknun fyrir sölu á hverri bifreið og ekkert annað viðskiptasamband hafi verið á milli aðila. Uppsagnarfrestur hafi því verið enginn og hafi stefnanda verið kunnugt um þetta allt frá árinu 1987. Því er mótmælt að lög nr. 103/1992 eigi við um samband aðilanna. Því er einnig mótmælt að stefnandi hafi reynt að fá úrlausn sinna mála hjá stefnda. Hafi mátt skilja athafnir hans á þá leið að hann sætti sig við lok samningssambands aðila. Hafi stefnandi átt einhverjar kröfur séu þær fallnar niður fyrir aðgerðarleysi hans. Þá er kröfu stefnanda sérstaklega mótmælt sem of hárri. Þannig hafi tekjur stefnanda fyrir sölu á bílum frá því í janúar til og með maí 2001 verið 128.246 kr. Á árinu 2000 hafi tekjurnar að meðaltali verið rétt rúmar 65.000 kr. á mánuði. Kröfugerðin ætti að miðast við sölutölurnar á árinu 2001 þegar samstarfinu lauk. Því er jafnframt mótmælt sérstaklega af stefnda að stefnandi eigi rétt á 6 mánaða uppsagnarfresti og að kröfur stefnanda byggist á ákvæðum um skaðabætur innan samninga. Dráttarvaxtakröfum stefnanda er sérstaklega mótmælt með vísan til þess að engar fjárkröfur hafi verið settar fram á stefnda fyrr en með innheimtubréfi lögmanns stefnanda. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar, vinnuréttarreglna og kröfuréttar, m.a. ákvæða kaupa- og samningalaga og dómafordæma. Um málskostnað vísar hann til til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

III.

Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningslaust að stefnandi tók að sér kynningu á nýjum og notuðum bifreiðum í eigu stefnda á Akranesi og aðstoðaði stefnda við sölu þeirra. Með störfum sínum leitaðist stefnandi við að koma á milliliðalausum samningi milli stefnda og einstakra kaupanda án þess að stefnandi hefði heimild til að skuldbinda stefnda eða koma fram í hans nafni við gerð samnings. Samkvæmt þessu var stefnandi ekki umboðsmaður stefnda í skilningi II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda þótt í daglegu máli kunni milliganga, eins og sú sem stefnandi annaðist, að vera kölluð umboðsmennska og þeir sem henni sinna nefndir umboðsmenn tiltekinna fyrirtækja.

Að virtum atvikum málsins verður að leggja til grundvallar að málsaðilar hafi verið í viðvarandi samningssambandi, þar sem stefnandi tók að sér kynningu á bifreiðum og milligöngu við sölu þeirra á Akranesi fyrir stefnda, en stefndi lét stefnanda í té bifreiðar til sýninga, veitti honum aðgang að tölvukerfi sínu og greiddi honum þóknun fyrir hverja selda bifreið. Í samningi aðila fólst þó ekki loforð af hálfu stefnda um að stefnandi hefði til sýninga ákveðinn lágmarksfjölda bifreiða eða hann fengi tilteknar lágmarksgreiðslur vegna starfa sinna. Nánari framkvæmd samningsins var því mjög á valdi stefnda og tekjur stefnanda af störfum hans fyrir stefnda óvissar.

Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar var hvorum aðila um sig heimilt að segja upp viðvarandi samningi, eins og þeim sem hér um ræðir, hvenær sem var, án þess að til bótaskyldu stofnaðist. Af ýmsum settum ákvæðum á sviði kröfuréttar, t.d. í húsaleigulögum nr. 36/1994, ábúðarlögum nr. 64/1976 og lögum nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, verður þó dregin sú almenna ályktun að uppsögn viðvarandi samnings skuli fara fram með tilhlýðilegum fyrirvara. Af hálfu stefnanda hefur í þessu sambandi einnig verið vísað til 17. gr. laga nr. 103/1992 um umboðssöluviðskipti.

Eins og skýrlega kemur fram í 1. gr. laga nr. 103/1992 taka þau aðeins til viðskipta í umboðssölu sem eiga sér stað milli Íslands og annarra ríkja. Jafnvel þótt sakarefni máls þessa félli undir landfræðilegt gildissvið laganna er það þó álit dómara að þau lögskipti sé hér um ræðir teljist ekki umboðssöluviðskipti í skilningi laganna. Þá telur dómari að tilurð og meðferð þess frumvarps sem varð að lögum nr. 103/1992 veiti ekki vísbendingu í þá átt að í 17. gr. laganna komi fram ólögfestar reglur sem heimilt sé að beita um sakarefni máls þessa. Verða því engar ályktanir dregnar af efnisreglum laganna um sakarefni máls þessa.

Stefnandi hefur ekki haldið því fram að samið hafi verið um uppsagnarfrest á samningi aðila. Þá hefur stefnandi ekki leitt líkur að því að tiltekinn uppsagnarfrestur styðjist við viðskiptavenju á þessu sviði. Verður því að meta lengd uppsagnarfrests með hliðsjón af eðli samningsins og hagsmunum málsaðila. Að þessum atriðum virtum er það álit dómara að uppsögn umrædds samnings hafi mátt taka gildi með skömmum fyrirvara, til að mynda frá og með mánuði eftir tilkynningu. Er þá meðal annars litið til þess að stefnandi hafði ekki komið upp aðstöðu eða lagt í sérstakan kostnað vegna starfa sinna fyrir stefnda og ekki var fyrirsjáanlegt að hann myndi leggja í slíkan kostnað í nánustu framtíð.

Samkvæmt framansögðu er það álit dómara að stefnda hafi ekki verið rétt að slíta samningi aðila fyrirvaralaust, enda þótt uppsögn væri heimil með skömmum fyrirvara. Af hálfu stefnda hefur því verið hreyft að óheiðarleiki stefnanda hafi réttlætt fyrirvaralausa riftun samningsins. Að mati dómara er ekkert fram komið í málinu sem styður þessar ávirðingar stefnda. Hins vegar hefur stefnandi ekki gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni sökum þess að stefndi vanrækti að tilkynna honum uppsögn samningsins með einhverjum fyrirvara. Er ekki unnt að byggja mat á slíku tjóni á meðaltalstölum undanfarinna ára um söluþóknun, en stefnandi hefur ekki lagt fram önnur gögn um meint tjón sitt. Af þessum ástæðum verður að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ingólfur Hjartarson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Leifur Árnason hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Ingvar Helgason hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Björns Lárussonar.

Málskostnaður fellur niður.