Hæstiréttur íslands

Mál nr. 138/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Miskabætur
  • Þjáningarbætur
  • Gjafsókn


                                                   

Fimmtudaginn 14. október 1999.

Nr. 138/1999.

Ragnheiður Gísladóttir og

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

gegn

Hansínu Magnúsdóttur

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

og gagnsök

Bifreiðir. Líkamstjón. Miskabætur. Þjáningabætur. Gjafsókn.

Deilt var um uppgjör slysabóta. Talið var ósannað að H hefði verið veik án þess að vera rúmliggjandi í meira en 150 daga, enda var ekkert komið fram um í hverju þau veikindi hefðu falist. Þá var því hafnað að upphaflegt ákvæði skaðabótalaga um skerðingu bóta fyrir varanlegan miska vegna aldurs fæli í sér ólögmæta mismunun.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 25. mars 1999 og krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 31. maí 1999 og krefst þess að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér 381.160 krónur með 2% ársvöxtum frá 15. nóvember 1996 til 8. maí 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

I.

Aðilar málsins deila ekki um málavexti, heldur um tvo þætti í uppgjöri skaðabóta vegna bifreiðaslyss, sem gagnáfrýjandi varð fyrir 15. nóvember 1996, en þeir lúta hvor um sig að skýringu á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Annars vegar er ágreiningur um lengd tímabils þjáningabóta samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna og hins vegar um gildi ákvæðis 2. mgr. 4. gr. laganna um lækkun bóta fyrir varanlegan miska vegna aldurs.

Fyrir héraðsdómi lá matsgerð læknis um afleiðingar slyss gagnáfrýjanda, þjáningar hennar og varanlegan miska. Gagnáfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt  bréf sama læknis 10. apríl 1999, þar sem segir: „Hansína telst hafa verið veik í skilningi skaðabótalaga frá slysdegi 15.11.96 þar til að sjúkraþjálfun lauk 15.11.97.“ Hvorki í bréfi þessu né öðrum gögnum málsins er gerð nánari grein fyrir þeim veikindum, sem læknirinn kveður gagnáfrýjanda hafa átt við að etja. Þegar af þeirri ástæðu er ekkert hald í umræddu bréfi til sönnunar um rétt gagnáfrýjanda til þjáningabóta. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ósannað sé að gagnáfrýjandi hafi verið veik án þess að vera rúmliggjandi lengur en í 150 daga á tímabilinu eftir slysdag, en fyrir þann fjölda daga hefur hún þegar fengið greiddar þjáningabætur. Verður því hafnað kröfu hennar um greiðslu frekari þjáningabóta.

II.

Þegar gagnáfrýjandi slasaðist var í gildi upphaflegt ákvæði 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, þar sem kveðið var á um að hafi tjónþoli verið 60 ára eða eldri þegar tjón varð lækki bætur fyrir varanlegan miska um 5% fyrir hvert aldursár hans umfram 59 ár, en þó ekki frekar eftir 69. aldursár. Ákvæðinu hefur nú verið breytt með 3. gr. laga nr. 37/1999, sem tók gildi 1. mars 1999, en þar er kveðið á um að miskabætur handa tjónþola, sem náð hafi 50 ára aldri, skerðist um 1% fyrir hvert aldursár hans á bilinu frá 50 til 74 ára.

Fyrir setningu skaðabótalaga hafði um langan tíma verið tekið tillit til aldurs tjónþola við ákvörðun bóta fyrir líkamstjón, bæði fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón, samkvæmt þeim dómvenjum, sem myndast höfðu. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga fólu því ekki í sér nýmæli að þessu leyti. Þar voru hins vegar í fyrsta sinn settar ákveðnar reglur um ákvörðun fjárhæðar miskabóta fyrir líkamstjón, þar á meðal um hvernig slíkar bætur gætu skerst vegna aldurs tjónþola.

Í lögum er víða kveðið á um misjafnan rétt manna eftir aldri. Slík ákvæði eru ekki bundin við einstaklinga, heldur tengjast ákveðnum tímaskeiðum ævinnar, sem allir eru jafnir fyrir. Upphaflegt ákvæði 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga virðist hafa verið reist á því að þeim mun eldri, sem tjónþoli væri, þeim mun skemur þyrfti hann að búa við miska vegna líkamstjóns. Fram til 60 ára aldurs væru menn almennt þátttakendur í þjóðlífinu að fullu og yrðu því áhrifin mest af miska, sem hlytist á því aldursskeiði. Eftir það færu menn hins vegar að draga sig í hlé þegar aldurinn færist yfir. Ákvæðið var reist á mati löggjafans á því hvernig þessum málum væri best fyrir komið og náði það til allra, sem eins voru settir. Þetta mat löggjafans getur breyst, eins og setning laga nr. 37/1999 hefur leitt í ljós. Ekkert er fram komið um að fyrra mat löggjafans hafi verið ómálefnalegt. Var því ekki um að ræða ólögmæta mismunun, sem braut gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verða aðaláfrýjendur sýknaðir af kröfum gagnáfrýjanda.

Rétt er að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað fer svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Ragnheiður Gísladóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknir af kröfum gagnáfrýjanda, Hansínu Magnúsdóttir.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, 150.000 krónur.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 28. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hansínu Magnúsdóttur, kt. 100726-2039, Unufelli 31, Reykjavík, með stefnu birtri 24. júní 1998 á hendur Ragnheiði Gísladóttur, kt. 260773-3999, Sunnuflöt 20, Garðabæ, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði gert að greiða kr. 381.160 ásamt 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 15. nóvember 1996 til 8. maí 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, ásamt virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að skaðlausu, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar, og hvor aðila látinn bera sinn kostnað af málinu.

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að stefnandi slasaðist, þegar hún var farþegi í bifreið sinni og eiginmanns síns hinn 15. nóvember 1996, við það að bifreiðinni A-2435, eign stefndu, Ragnheiðar, var ekið í veg fyrir bifreið stefnanda á Suðurfelli í Reykjavík. Stefnandi kveðst hafa verið að festa á sig bílbelti, er höggið kom á bifreiðina. Skall stefnandi með höfuð sitt á mælaborð bifreiðarinnar og fékk við það höfuðhögg, auk þess sem hún fékk högg á vinstri öxl og vinstra hné og tognaði auk þess í hálsi. Var hún flutt með sjúkrabifreið af slysstað á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við höfuðhöggið hlaut stefnandi ca. 5 cm langan skurð í hársvörð, sem var saumaður saman á slysadeild, auk þess sem röntgenmyndir voru teknar af hálsliðum, sem sýndu verulegar slitbreytingar í flestum hálsliðum. Var talið, að stefnandi hefði fengið hálshnykk og fékk hún hálskraga. Stefnandi kom tvívegis aftur á slysadeild vegna áverka sinna, þann 15. nóvember og 16. desember 1996.

Jónas Hallgrímsson læknir mat afleiðingar slyssins þannig, að það hafi valdið henni 10% varanlegum miska en engri varanlegri örorku. Er matsgerð hans dagsett 2. apríl 1998.

Stefnandi kveðst ekki hafa kennt sér neinna meina vegna stoðkerfiseinkenna fyrir slysið. Hún kveðst hafa daglega höfuðverki og taka mikið magn verkjalyfja til að vinna á þeim. Stundum fylgi svimi höfuðverkjunum. Þá vakni hún oft á nóttunni með höfuðverki. Hún kveðst vera stirð í hálsi aftan til og eiga erfitt með að snúa höfðinu við akstur auk þess sem hún eigi erfitt með að horfa niður fyrir sig og upp fyrir sig. Hún kveðst vera með verki út í báðar axlir, sem hái henni við ýmis heimilisstörf. Þá hafi hún einnig verki frá hálsi, sem leggi niður í brjóstbak, alveg niður að miðjum herðablöðum.

Þann 4. júní 1998 voru stefnda greiddar samtals kr. 355.938 í bætur vegna tjónsins, sem skiptist þannig: Kr. 125.580 í þjáningabætur, þ.e. kr. 1440 í 7 daga og kr. 770 í 150 daga; kr. 221.000 fyrir varanlegan miska og kr. 9.358 í vexti. Tók stefnandi við bótauppgjöri með fyrirvara.

Ágreiningur í máli þessu stendur um það annars vegar, að stefnandi gerir kröfu til þjáningabóta á lægra daggjaldinu í 208 daga til viðbótar við það, sem þegar er bætt, og hins vegar að lækkunarregla 4. gr. skaðabótalaga vegna aldurs brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og beri að greiða henni miskatjón án takmörkunar.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að ótvírætt sé, að hún eigi rétt á þjáningabótum á lægra daggjaldinu í 208 daga til viðbótar við það, sem þegar sé greitt, þar sem það sé sá dagafjöldi, sem óbættur sé miðað við niðurstöðu Jónasar Hallgrímssonar læknis um þjáningabótatímabil stefnanda, sem sé að mati læknisins 365 dagar. Í málinu liggi aðeins fyrir eitt mat á þjáningabótatímabili stefnanda, þ.e. matsgerð Jónasar Hallgrímssonar og beri við bótauppgjörið að leggja niðurstöðu hans til grundvallar.

Stefnandi hafi nýlega verið orðin sjötug, þegar slysið varð. Stefndi, Sjóvá-Almennar hafi boðið henni helming af fullum bótum fyrir 10% varanlegan miska, með hliðsjón af aldri hennar í samræmi við 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi tekið við þeim kr. 221.000, sem tryggingafélagið bauð og gert fyrirvara vegna aldurslækkunarinnar, enda telji hún að það brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum, nánar tiltekið 65. gr., að hún skuli ekki njóta fulls bótaréttar fyrir varanlegan miska, þrátt fyrir að vera orðin 70 ára. Bætur fyrir varanlegan miska séu bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Þess vegna eigi sömu sjónarmið ekki við um lækkun bóta fyrir varanlegan miska og eigi við um bætur fyrir varanlega örorku. Það fái ekki staðizt ofangreint jafnræðisákvæði að hefja í einni svipan gríðarlega lækkun miskabóta, þegar tjónþolar eru orðnir 60 ára gamlir, með þeim afleiðingum, að búið sé að helminga bæturnar, þegar fólk er orðið sjötugt. Brotið á jafnræðisreglunni felist m.a. í því, að staða þessa aldurshóps sé samkvæmt lögunum skert miðað við aðra aldurshópa, þar sem það skipti t.d. engu varðandi bótarétt fyrir varanlegan miska, hvort tjónþoli sé 1 árs eða 59 ára gamall.

Hvað varði ófjárhagslegar afleiðingar líkamstjóns, megi geta þess, að miski eldra fólks sé oft á tíðum einmitt meiri en þeirra, sem yngri séu, enda skerðist aðlögunarhæfni manna eftir því, sem þeir verði eldri. Íslendingar, sem náð hafi sjötíu ára aldri, geti átt von á að lifa í fjölmörg ár til viðbótar. Flest hafi þetta fólk, líkt og stefnandi, að baki áratuga strit við lífsstarf sitt, og það geti ekki samrýmzt hinni stjórnarskrárvernduðu jafnræðisreglu að synja því um fullar miskabætur fyrir þær auknu byrðar, sem það þurfi að þola.

Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig:

Þjáningabætur 208 dagar x 770 krónur

kr. 160.160

Bætur fyrir varanlegan miska

kr. 221.000

Samtals kr. 381.160

Vaxtakrafa stefnanda frá slysdegi fram að 8. maí 1998 geti vart valdið ágreiningi. Í samræmi við 15. gr. vaxtalaga sé gerð krafa um dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfsins 8. apríl 1998, eins og þar hafi verið boðað.

Stefnandi vísar til 88., 90., 91. og 97. gr. l. nr. 50/1987 um ábyrgð stefndu. Um bótakröfurnar vísar stefnandi til almennra reglna íslenzks skaðabótaréttar og skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfu um óskipta ábyrgð styður stefnandi við almennar reglur íslenzks kröfuréttar. Um vaxtakröfuna vísar stefnandi til 16. gr. l. nr. 50/1993 og um dráttarvaxtakröfuna til III. kafla l. nr. 25/1987. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til l. nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

Málsástæður stefndu:

Stefndu kveða engan ágreining vera um bótaskyldu eða niðurstöður í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis. Þá sé ekki um það ágreiningur, að bótauppgjör félagsins varðandi miskabætur sé í samræmi við gildandi skaðabótarétt. Bótauppgjör hafi farið fram í samræmi við niðurstöður læknisis og gildandi skaðabótalög. Sú lækkunarheimild vegna miskans, sem fram komi í 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, styðjist við fullkomin rök, þ.e. að miska beri að lækka með hækkuðum aldri.

Stefndi mótmælir því, að Jónas Hallgrímsson læknir hafi metið þjáningar­bóta­tímabil stefnanda 365 daga. Læknirinn taki ekkert á því álitaefni í skýrslu sinni. Til þess að tjónþoli eigi rétt á þjáningarbótum, þurfi hann að vera veikur. Tjónþoli hafi alla sönnunarbyrði um það. Við mat á því, hljóti einkum að verða byggt á læknisfræðilegu mati, sem ekki liggi fyrir í málinu, og gögnum um læknismeðferð tjónþola á tímabilinu. Af þeim gögnum megi sjá, að komu stefnanda á endurkomudeild Sjúkrahúss Reykjavíkur ljúki þann 16. desember 1996. Heimilislæknirinn vísi henni á sjúkraþjálfara 21. janúar 1997. Stefnandi hafi fengið þjáningarbætur fyrir 157 daga. Verði það að teljast ríflegt, þegar litið sé til sjúkrasögu hennar. Með vísan til ofanritaðs telji stefndu augljóst, að kröfur stefnanda styðjist ekki við nein rök.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Krafa stefnanda er tvíþætt. Verður fyrst fjallað um kröfu hennar til þjáningarbóta.

Stefnandi byggir þennan lið kröfu sinnar á því, að hún hafi verið veik án þess að vera rúmliggjandi til 15. nóvember 1997 og styður það við matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis. Álit læknisins varðandi þetta atriði er svohljóðandi: „Hansína var rúmliggjandi heima í eina viku eftir slysið. Sjúkraþjálfun lauk haustið 1997. Ekki er talið að frekari bata hafi verið að vænta þegar eitt ár var liðið frá slysinu um svipað leyti og sjúkraþjálfun lauk eða eftir 15.11.1997.”

Fallast ber á það með stefnda, að af mati læknisins verði ekki ráðið, hvort stefnandi hafi verið veik í skilningi skaðabótalaga, án þess að vera rúmliggjandi, allt þar til ekki var frekari bata að vænta. Læknirinn kom ekki fyrir dóminn til að skýra matsgerð sína og ekki var aflað frekari gagna um heilsufarslegt ástand stefnanda á þessum tíma, þrátt fyrir andmæli stefnda við skilning stefnanda á matsgerðinni. Þá hefur Hæstiréttur skýrt 3. gr. skaðabótalaganna þannig, að það verði að liggja skýrt fyrir að um veikindi sé að ræða, og nægi ekki að sjúklingur hafi ekki náð þeim bata, sem vænta má.

Stefndi hefur ákvarðað stefnanda og greitt henni bætur vegna veikinda án rúmlegu í alls 150 daga, án þess að fyrir liggi á hverju það tímabil byggir. Með því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að það tímabil hafi verið lengra, ber að hafna frekari bótakröfum hennar vegna þjáninga.

Stefnandi byggir síðari hluta kröfugerðar sinnar á því, að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með því að lögbjóða skerðingu á miskabótum skv. 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaganna vegna aldurs.

Samkvæmt skaðabótalögum skulu allir þeir, sem eiga rétt á miskabótum njóta fullra bóta allt þar til 60 ára aldri er náð. Þá lækka bætur um 5% á ári næstu 10 árin en síðan haldast þær óbreyttar. Í greinargerð með frumvarpi til laganna með grein þessari segir einungis um þetta ákvæði: „Í 2. mgr. er kveðið á um lægri bætur til þeirra sem orðnir eru 60 ára gamlir þegar þeir verða fyrir líkamstjóni. Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.”

Stefnandi var 70 ára, þegar hún slasaðist og lendir því í þeim hópi bótaþega, sem þarf að þola hámarksskerðingu miskabóta. Eftir því sem næst verður komið, munu þau rök, sem liggja að baki skerðingarákvæðinu, byggja á því, að þeim mun eldri sem tjónþoli sé, þeim mun skemur megi ætla, að hann eigi eftir ólifað og þurfi því að þola miskann í skemmri tíma. Þessi rök eru þó einungis gerð virk gagnvart takmörkuðum hópi bótaþega, svo sem fyrr er rakið. Sjötugur tjónþoli fær þannig sömu bótafjárhæð og tíræður bótaþoli, enda þótt telja megi líklegt, að hinn síðargreindi þurfi að bera miskann mun skemmri tíma en sá fyrrgreindi, og 59 ára tjónþoli fær sömu bætur og tjónþoli á fyrsta ári, enda þótt líklegt sér að sá síðargreindi þurfi að bera miskann mun lengri tíma en sá fyrrgreindi. Er ekki fallizt á, að málefnaleg rök liggi að baki þessu lagaboði, og felur það í sér ólögmæta mismunun, sem brýtur gegn jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrárinnar. Ber því að taka þennan hluta kröfugerðar stefnanda til greina að öllu leyti.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða kr. 90.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 90.000, greiðist úr ríkissjóði.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndu, Ragnheiður Gísladóttir og Sjóvá- Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Hansínu Magnúsdóttur, kr. 221.000 ásamt 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 15. nóvember 1996 til 8. maí 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði stefndu kr. 90.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

Gjarsóknarkostnaður stefnanda, kr. 90.000, greiðist úr ríkissjóði.