Hæstiréttur íslands

Mál nr. 476/2012


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Málshraði


                                     

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 476/2012.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Hauki Þór Haraldssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Fjárdráttur. Málshraði.

H var ákærður fyrir að hafa dregið sér fé með því að hafa 8. október 2008, í starfi sínu hjá L hf. látið millifæra tiltekna fjárhæð af reikningi í eigu N Ltd., félags á vegum bankans sem H í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning, en daginn eftir lét H millifæra sömu fjárhæð yfir á annan bankareikning í sinni eigu. H krafðist sýknu og bar því við að hann hefði ekki ætlað að slá eign sinni á féð heldur koma því í öruggt skjól vegna óvissu um ábyrgð á innstæðum eftir fall L hf. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að H hefði, sem stjórnarmaður og prókúruhafi í N ltd. haft formlegan rétt til að ráðstafa fé í eigu félagsins. Umboðið hefði hins vegar ekki veitt honum heimild til að láta yfirfæra fé af reikningi félagsins 8. október 2008 á eigin reikning. Hefði L hf. haft raunverulegan ráðstöfunarrétt yfir fénu eins og sakir stóðu og hefði ákærða hlotið að vera það ljóst. Hefði umrædd færsla því í senn verið heimildarlaus og ólögmæt. Með yfirfærslu fjárins á eigin reikninga hefði H látið líta svo út að um hans eigið fé væri að ræða og hefði hann þannig leynt raunverulegu eignarhaldi þess og þannig brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart L hf. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að H hefði með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga um fjárdrátt. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að óhæfilegur dráttur hefði orðið á meðferð málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

I

Mál þetta var höfðað á hendur ákærða með ákæru ríkislögreglustjóra 19. nóvember 2009. Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök. Héraðsdómur gekk í málinu 21. apríl 2010 og var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum 19. maí sama ár. Með dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2011 í máli nr. 325/2010 var héraðsdómur ómerktur og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar 22. mars 2010. Í dóminum var rakið efni tiltekinna gagna, sem lögð höfðu verið fram við meðferð málsins í héraði, en héraðsdómur ekki tekið tillit til við úrlausn þess. Vegna þessa var litið svo á að ætla yrði að niðurstaða dómsins um sönnunarmat kynni að vera röng svo að einhverju skipti við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið var tekið fyrir á ný í héraði 29. apríl 2011 og að undangenginni aðalmeðferð kvað einn héraðsdómari upp dóm í því 30. júní sama ár, þar sem ákærði var sakfelldur og dæmdur í tveggja ára fangelsi. Með dómi Hæstaréttar 27. janúar 2012 í máli nr. 447/2011 var héraðsdómur ómerktur öðru sinni með þeirri röksemd að þrír héraðsdómarar hefðu átt að skipa dóm við nýja meðferð þess eftir að héraðsdómur hafði verið ómerktur á grundvelli áðurnefnds ákvæðis laga nr. 88/2008. Málið var tekið fyrir í héraði 16. febrúar 2012 og krafðist ákærði þá frávísunar þess, en kröfunni var hafnað með úrskurði 30. mars sama ár. Með heimild í 5. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 voru skýrslur teknar af tveimur vitnum í þinghaldi 23. maí 2012. Aðalmeðferð fór síðan fram 4. og 5. júní 2012 og féll dómur sá, sem hér er til endurskoðunar, 25. sama mánaðar. Þrír héraðsdómarar skipuðu dóm frá og með þinghaldi 28. mars 2012 er málflutningur fór fram um frávísunarkröfu ákærða.

II

Sem fyrr greinir krefst ákærði þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Er sú krafa hans fyrst og fremst reist á því að það sé ósamrýmanlegt reglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að honum hafi verið gert að sæta þriðju málsmeðferðinni í þessu máli fyrir héraðsdómi.

Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að sérhver, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, eigi rétt á að leyst sé úr máli hans innan hæfilegs tíma. Ákærði heldur því fram með réttu að honum verði ekki kennt um hina endurteknu málsmeðferð í héraði og þær tafir sem urðu á henni af þeim sökum. Það getur þó ekki leitt til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi, enda mælti Hæstiréttur í framangreindum dómi sínum í máli nr. 447/2011 fyrir um endurtekna meðferð þess í héraði. Þá eru haldlausar aðrar ástæður, sem ákærði færir fram til stuðnings kröfu sinni um að málinu verði vísað frá dómi. Samkvæmt því verður frávísunarkröfu ákærða hafnað.

III

Sjálfseignarsjóður, sem í gögnum málsins er ýmist nefndur The 1886 Trust eða The 1886 LB Trust, var stofnaður á Guernsey um mitt ár 2000 að frumkvæði Landsbanka Íslands hf. í viðskiptalegum tilgangi. LB Holding Limited var stofnað á Guernsey 20. júní 2000 og þá var NBI Holdings Limited stofnað þar 22. maí 2001. Tilgangur síðarnefnda hlutafélagsins var að eiga tímabundin viðskipti með hlutabréf.

Samkvæmt afsali í uppgjöri fjárvörslusjóðs 30. júní 2000 gaf Landsbanki Íslands hf., sem í afsalinu var nefndur stofnandinn, Legis Trust Limited, sem í afsalinu var nefnt fjárvörsluaðilinn, 100 sterlingspund til þess að mynda fjárvörslusjóðinn The 1886 LB Trust. Þá kom þar einnig fram að frekari eignir kynnu að verða fluttar á fjárvörsluaðilann sem viðbót í sjóðinn. Samkvæmt 4. grein þriðja viðauka hafði fjárvörsluaðilinn heimild til að stofna fyrirtæki hvar sem væri, hvort sem þau væru skráð hlutafélög eða ekki. Þá sagði í 2. grein þriðja viðauka að fjárvörsluaðilanum væri heimilt að eignast, skrifa sig fyrir, kaupa og eiga hlutabréf, verðbréf eða aðra hlutdeild í öllum þeim fyrirtækjum, sem talin væru upp í fjórða viðauka, óháð eðli fyrirtækisins, stjórnun eða fjárfestingarstefnu þess, jafnvel þótt hún líktist spákaupmennsku. Skyldi fjárvörsluaðilinn ekki losa sig við slíkan eignarhluta án þess að fyrirfram hefði verið aflað skriflegs samþykkis meirihluta rétthafa. Í samræmi við framangreint var LB Holding Limited tilgreint í fjórða viðauka.

Í minnisblaði A, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands hf., til bankaráðs 26. júní 2000 varðandi sölu á eignum til LB Holding Limited kom meðal annars fram að ráðið hefði á fundi sínum 16. júní það ár samþykkt stofnun „The 1886-LB Trust“ á Guernsey, sem væri uppleysanlegur sjálfseignarsjóður. Þá kom þar einnig fram að til þess að annast fjármálaumsýslu fyrir sjóðinn hefði verið stofnað fyrirtækið LB Holding Limited á Guernsey. Var gerð tillaga um að selja félaginu hlutabréf fyrir allt 700.000.000 krónur miðað við markaðsgengi á söludegi og hlutdeild bankans í fyrirtækinu DeCode á genginu 17.5. Myndi bankinn hafa milligöngu um fjármögnun LB Holding Limited á kaupunum. Hefði sjóðurinn gert tillögu um að lögmaðurinn B, C og ákærði skipuðu stjórn LB Holding Limited og hefði bankastjórinn lýst því yfir við Legis Trust Limited, umsjónaraðila The 1886 LB Trust, að hann gerði ekki athugasemdir við þá skipan.

Eins og rakið er í héraðsdómi greindi A svo frá fyrir dómi að hann hafi valið ákærða og C til að sitja í stjórn NBI Holdings Limited á sama hátt og í stjórn LB Holding Limited. Eftir að hinn síðarnefndi lét af störfum hjá Landsbanka Íslands hf. síðla árs 2002 var ákærði einn í stjórn hlutafélaganna ásamt lögmanni hjá Legis Trust Limited á Guernsey. Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn framburður C þar sem fram kom að tilgangur Landsbanka Íslands hf. með því að stofna félögin hafi verið að eiga verðbréfaviðskipti sem bankinn vildi ekki eiga og að félögin hafi tekið lán til þeirra hjá bankanum. Enn fremur er rakinn sá framburður A að NBI Holdings Limited hafi ekki átt í neinum viðskiptum ótengdum bankanum og að viðskiptahugmyndir hafi komið þaðan. Í málinu liggur fyrir svofellt bréf ákærða 18. maí 2001 til lögmannsstofu þeirrar á Guernsey, sem áður er getið, varðandi The 1886 LB Trust, LB Holding Limited og NBI Holdings Limited: „Concerning the new Guernsey Company, which we discussed today, I am happy to confirm that I foresee no POI issues arising out of the business structure relating to NBI Holdings Limited. The new Company is only for the purpose of holding the bank‘s investments ... LB Holding Limited which is held under The 1886 LB Trust is an offshore Company which was formed to hold shares in Landsbanki Islands (The National Bank of Iceland). NBI Holdings Limited will be used to separate out and will own shares in non-Landsbanki companies which Landsbanki would want to own but wants to own off balance sheet.“

Þá er meðal gagna málsins bráðabirgðasamkomulag hluthafa í Vátryggingafélagi Íslands hf. frá 27. desember 2001 þar sem fram kom að Landsbanki Íslands hf. hygðist framselja hlut sinn í vátryggingafélaginu til „tengds félags“ og kvæði samkomulagið á um skilmála þess framsals. Um framsalið sagði að með samkomulaginu væri Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til að ráðstafa hlutum sínum í Vátryggingafélagi Íslands hf. til NBI Holdings Limited „sem er eignarhaldsfélag undir stjórn Landsbanka Íslands hf.“ Þá sagði þar um meðferð hluta að Landsbanki Íslands hf. skuldbyndi sig gagnvart öðrum hluthöfum í Vátryggingafélagi Íslands hf. til að tryggja að með eignarhluta NBI Holdings Limited í vátryggingafélaginu yrði farið eins og bankinn sjálfur væri eigandi eignarhlutans.

Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á með héraðsdómi að NBI Holdings Limited hafi verið á vegum Landsbanka Íslands hf., eins og segir í ákæru, og að ákærði hafi verið þar stjórnarmaður og prókúruhafi í tengslum við starf sitt í bankanum. Jafnframt verður dregin sú ályktun af gögnum málsins að Landsbanki Íslands hf. hafi haft rétt til að ráðstafa fjármunum NBI Holdings Limited, enda voru þeir afrakstur viðskipta bankans með hluti í öðrum félögum. Samkvæmt þessu hafði ákærði sem stjórnarmaður í NBI Holdings Limited trúnaðarskyldur gagnvart því félagi og Landsbanka Íslands hf.

IV

Samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það refsivert ef maður tileinkar sér fjármuni, sem eru í vörslum hans en eru eign einhvers annars, enda sé það gert á ólögmætan hátt og í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. laganna. Er nægilegt að viðhlítandi sönnur séu færðar á það af hálfu ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, að maður hafi gerst sekur um slíka háttsemi, þar á meðal að ásetningur hans hafi staðið til þess að einhver annar yrði fyrir fjártjóni, til þess að hann verði sakfelldur fyrir fjárdrátt. Á hinn bóginn þarf ekki að sanna hver eða hverjir hafi á endanum orðið fyrir tjóni, sbr. dóm Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 527/2012. Af hinu síðastnefnda leiðir að ekki var þörf á að afla gagna um hvort eignarhald á áðurnefndum sjálfseignarsjóði hefði breyst frá stofnun hans árið 2000 til þess tíma er háttsemi sú, sem ákæra tekur til, átti sér stað eða hvert fjármunir NBI Holdings Limited hefðu átt að renna við slit félagsins.

Ákærði var sem fyrr segir stjórnarmaður í NBI Holdings Limited og prókúruhafi í félaginu. Hann fór því með vörslur fjár í eigu félagsins og hafði í skjóli prókúruumboðs síns formlegan rétt til að ráðstafa því. Það umboð veitti honum á hinn bóginn ekki heimild til að láta yfirfæra fé af reikningi félagsins 8. október 2008 á eigin reikning eins og hann hefur játað að hafa gert. Eins og áður sagði hafði Landsbanki Íslands hf. raunverulegan ráðstöfunarrétt yfir fénu eins og sakir stóðu og hlaut ákærða að hafa verið það ljóst. Var umrædd færsla því í senn heimildarlaus og ólögmæt. Með yfirfærslu fjárins á eigin reikninga 8. og 9. október 2008 lét ákærði líta svo út að þetta væri hans eigið fé og leyndi þannig raunverulegu eignarhaldi þess. Braut ákærði með þessari háttsemi gegn fyrrgreindri trúnaðarskyldu sinni gagnvart Landsbanka Íslands hf. Þá upplýsti ákærði ekki regluvörð bankans í tölvupósti sínum til regluvarðarins 19. nóvember 2008 um að hann hefði látið yfirfæra fé fyrrgreinda félagsins á eigin reikning sex vikum áður. Að framangreindu virtu er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga.

Þegar litið er til eðlis brots ákærða og þeirrar fjárhæðar, sem hann dró sér, eru efni til að dæma hann til þyngri refsingar en gert var í hinum áfrýjaða dómi. Sé á hinn bóginn litið til hins óhæfilega dráttar, sem orðið hefur á meðferð málsins og gerð hefur verið grein fyrir, verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði ⅔ hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild nemur 1.384.810 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2012.

I

Málið, sem dómtekið var 5. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra,  útgefinni 19. nóvember 2009 á hendur „Hauki Þór Haraldssyni, [...], [...], kennitala [...], fyrir fjárdrátt með því að hafa 8. október 2008, í starfi sínu sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands hf., dregið sér kr. 118.544.950, andvirði GBP 712.323,94 sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi nr. [...]-[...]-[...]62 í eigu NBI Holding Ltd., kt. [...], félags á vegum bankans sem ákærði í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning nr. [...]-[...]-[...]21, en daginn eftir lét ákærði millifæra sömu fjárhæð yfir á bankareikning nr. [...]-[...]-[...]83.

Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Upphaf málsins er bréf sem skilanefnd Landsbanka Íslands hf. ritaði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 26. nóvember 2008. Í upphafi þess segir að bréfið varði „beiðni um rannsókn vegna óeðlilegra millifærslna“. Síðan segir orðrétt í bréfinu: „Landsbanki Íslands hf. sér sig tilneyddan til þess að beina því til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að rannsaka millifærslur sem að mati bankans eru óeðlilegar. Málavextir eru þeir að þann 8. október 2008 klukkan 14:39 millifærði Haukur Þór Haraldsson, kt. [...], peninga að fjárhæð kr. 118.544.950 frá reikningi NBI Holding Ltd. nr. [...]-[...]-[...]62 inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]21 sem er í eigu Hauks Þórs. Degi síðar millifærir Haukur Þór sömu fjárhæð af framangreindum reikningi sínum inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]83 einnig í hans eigu þar sem fjárhæðin liggur nú óhreyfð. Við skoðun á færslum starfsmanna Landsbanka Íslands hf. sem framkvæmd var af hálfu Deloitte fyrir skilanefnd Landsbanka Íslands hf. kom fram framangreind millifærsla en auk þess kom hún upp í eftirlitskerfum bankans sem greina óeðlilegar fjármagnshreyfingar.

NBI Holding Ltd. var stofnað 22. maí 2001 sem sjálfseignarsjóður í Guernsey. Íslenskur umboðsaðili er Landsbanki Íslands hf. og í framkvæmdastjórn sátu B, Haukur Þór Haraldsson og C. Haukur og C voru þá báðir starfsmenn Landsbankans.

Reikningur NBI Holding Ltd. nr. [...]-[...]-[...]62 var stofnaður þann 10. nóvember 2005 en greiðslur inn á þann reikning voru framkvæmdar þann sama dag eða kr. 70.107.434. Framangreind fjárhæð var millifærð af reikningum nr. [...]-[...]-[...]17 og [...]-[...]-[...]09 einnig í eigu NBI Holding Ltd. en þær greiðslur bárust upphaflega frá reikningi nr. [...]-[...]-[...]1 í eigu LB Holding Ltd. sem eyðilagður var þann 30.12.2002. LB Holding Ltd. er einnig sjálfseignarsjóður sem annaðist vörn gegn kaupréttarsamningum.

Það er mat Landsbanka Íslands hf. að Haukur Þór Haraldsson hafi ekki sannarlega verið eigandi þeirra fjármuna sem voru inni í félaginu NBI Holding Ltd. heldur var hann í framkvæmdastjórn félagsins sem starfsmaður Landsbankans. Millifærslur hans inn á persónulega reikninga virðast því óeðlilegar.“

Lögreglan rannsakaði málið og á grundvelli rannsóknarinnar var ákæran gefin út. Samkvæmt gögnum málsins voru 118.544.550 krónur greiddar út af reikningi ákærða 19. desember 2008 og var „fjárhæðin lögð inn á bókhaldslykil í banka 100, sem er NBI“ eins og segir í tölvupósti. Að öðru leyti koma málavextir fram í næsta kafla þar sem reifaður verður framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Rétt er þó að geta þess að ekki er ágreiningur um að ákærði lét færa framangreinda fjárhæð af reikningi félagsins yfir á eigin reikning og daginn eftir yfir á annan reikning á sínu nafni. Sýknukrafa ákærða byggir á því að hann hafi ekki ætlað að slá eign sinni á féð heldur koma því í öruggt skjól eins og nánar greinir í næsta kafla.

III

Við aðalmeðferð kvaðst ákærði hafa verið formlega stjórnarmaður í NBI Holding Ltd. og prókúruhafi. Hann kvaðst hafa haft trúnaðarskyldur gagnvart félaginu og sér hafi borið að gæta hagsmuna þess. Varðandi stöðu sína hjá Landsbankanum kvað ákærði að væntanlega hafi starfi sínu sem rekstrarstjóri bankans lokið í lok dags 6. október 2008. Dagana 7. og 8. október hafi starfssvið hans í bankanum verið óljóst, en 9. eða 10. október hafi hann verið ráðinn sem yfirmaður eigna- og öryggismála í Nýja Landsbankanum. Ákærði kvaðst hafa látið millifæra þá fjármuni sem nefndir eru í ákærunni af gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding Ltd. yfir á sinn reikning eins og í ákæru greinir og daginn eftir yfir á annan reikning í sinni eigu. Hann kvað það hafa verið mistök að færa féð fyrst á fyrrgreinda reikninginn og um leið og hann hafi áttað sig á því hafi hann beðið um að það yrði fært yfir á ónotaðan sérgreindan reikning. Þar hafi upphæðin síðan verið óhreyfð þar til síðla í desember 2008. Hann kvað sér hafa verið mikið í mun að fénu yrði ekki blandað saman við fjármuni hans sjálfs. Ákærði kvaðst hafa beðið um að féð yrði millifært af reikningi NBI Holding Ltd. en hann hafi ekki sjálfur haft aðgang að reikningnum í heimabanka sínum. Hann hefði þó getað fengið aðgang að honum samdægurs ef hann hefði óskað eftir því. Hann kvað millifærsluna ekki hafa farið leynt en hann hefði engum sagt frá þessu. Reikningurinn hafi ekki verið á forræði bankans heldur hafi félagið verið sjálfstætt og hafi hann ekki mátt upplýsa starfsmenn bankans um þetta. Þetta hafi ekki verið þeirra mál, en þó hefðu að minnsta kosti fimm starfsmenn bankans vitað um þetta. Þá kvað ákærði sér hafa verið ljóst að þetta var það há fjárhæð að hún myndi koma fram í eftirlitskerfum bankans.

Ákærði kvað NBI Holding Ltd. hafi ekki verið á vegum bankans eins og haldið sé fram í ákæru, heldur hafi það verið í eigu tveggja hlutafélaga á Guernsey, sem hafi verið Landsbankanum óviðkomandi. Hann kvaðst hafa verið í stjórn félagsins ásamt lögmanni á Guernsey. Ákærði kvaðst hafa reynt að hringja í hann í október en ekki náð sambandi við hann. Ákærði kvaðst því ekki hafa haft samband við neinn hjá félaginu um þessa millifærslu. NBI Holding Ltd. hafi verið stofnað 2001 og kvaðst ákærði hafa verið eini prókúruhafi þess. Hann hafi því farið með reikninga þess og auk þess séð um að framkvæma það sem ákveðið var á stjórnarfundum. Ákærði kvað félagið hafa verið stofnað af framangreindum eigendum en það hafi verið lögmannsstofa á Guernsey sem hafi beðið sig um að taka sæti í stjórn þess og hafi hann samþykkt það. Stjórnarsetan hafi verið óviðkomandi störfum hans hjá bankanum. Að vísu kvaðst hann upphaflega hafa staðið í þeirri trú að The 1886 Trust ætti félagið en gögn málsins hafi leitt í ljós að hlutafélögin ættu félagið. Hann kvaðst hafa vitað að Landsbankinn ætlaði sér að stofna Trust en hann hefði ekki komið að því. Þá kvaðst ákærði og hafa verið í stjórn félags að nafni LB Holding Ltd. og hafa haldið að The 1886 Trust hefði átt það, en gögn málsins sýni annað. Ákærði kvað NBI Holding Ltd. hafa stundað verðbréfaviðskipti og meðal annars einu sinni keypt hlutabréf í Landsbankanum. Ákærði neitaði að hafa haft milligöngu um stofnun félagsins eða að það hafi verið á vegum Landsbankans en kannaðist við að hafa verið í einhverjum samskiptum við lögmannsstofuna á Guernsey sem hafi orðið til þess að það var stofnað. Ákærði kvaðst hafa óskað eftir því sumarið 2009 að láta af störfum í stjórn félagsins en á það hefði ekki verið fallist. Hann hafi svo látið af störfum vorið 2010, en hann hefði þá verið einn í stjórn þess í 8 mánuði. Ákærði tók fram að hvorki eigendur NBI Holding Ltd. né aðrir, sem tengjast því, hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við færslur fjárins yfir á umræddan reikning. Hann kvaðst svo hafa átt frumkvæði að því að færa féð til baka yfir á reikning félagsins þegar í ljós hafði komið að það var enn inn á reikningi hans. Hafi það verið gert í desember 2008.

Ákærði kvað ástæðu millifærslunnar hafa verið þá að þessa daga hefði verið mikið umrót á fjármálamörkuðum í aðdraganda þess og eftir að bankinn féll. Ýmsir, þar á meðal Fjármálaeftirlitið, hafi verið að velta því alvarlega fyrir sér á þessum tíma að skipta upp kröfum í innlendar og erlendar kröfur. Með þessu væri hægt að bjarga einhverju og af gögnum, sem ákærði kvað sér hafa borist frá Fjármálaeftirlitinu, hafi sér orðið fullljóst að farið var að ræða skiptingu innstæðna í svokölluð „hólf“. Ákærði kvað sér hafa verið mikið í mun að koma þessum fjármunum, sem honum hafði verið trúað fyrir, í sem öruggast hólf. Samkvæmt þessu hafi eigur ríkisins verið í öruggasta hólfinu, en í því næsta hafi verið innstæður einstaklinga búsettra á Íslandi og svona hafi innstæður verið flokkaðar koll af kolli og í ysta hólfi hafi verið eignir sem ekki hefðu verið tök á að bjarga. Með því að færa fé NBI Holding Ltd. inn á reikning sinn hefði það verið komið inn á innlendan reikning í eigu innlends aðila og þar með verið komið í eitt besta „hólfið“ í þessari skiptingu. Ákærði kvaðst einnig hafa tekið eigið sparifé og skipt því niður á eiginkonu sína og syni 6. október til að tryggja það sem best. Hann kvaðst hafa óttast að ekki yrði allt sparifé varið hvað svo sem leið yfirlýsingum stjórnvalda.

Undir ákærða var borin ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 þar sem kemur fram að innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. skuli flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. og hann spurður hvort ekki hefði þá verið búið að eyða óvissu um ábyrgð á þessum innstæðum. Jafnframt var hann spurður af hverju hann hefði ekki fært féð aftur á bankareikning í eigu félagsins. Ákærði svaraði því til að þótt þessi ákvörðun hefði legið fyrir þá hefði verið langur vegur frá því að óvissunni hefði verið eytt. Þessu til stuðnings benti hann á að strax 12. október hefði verið byrjað að færa eignir í gamla bankann. Þá kvað hann margt hafa verið óljóst í tilkynningum um hvaða innstæður væru varðar og hverjar ekki og færslur innstæðna yfir í gamla bankann hefðu haldið áfram jafnvel þótt eigendurnir hefðu verið í góðri trú um að þær myndu verða í þeim nýja. Hann kvað það hafa verið sitt mat að verið væri að lofa hlutum sem ekki væru tök á að standa við. Ákærði kvað að fyrst í maí 2009 hefði mátt segja að óvissu hefði verið eytt þegar skiptingu hefði verið lokið milli gamla og nýja bankans.

Ákærði kvaðst hafa reynt að ná sambandi við D, bankastjóra Nýja Landsbankans hf., varðandi þessa peninga, enda hefði hann viljað koma þeim fyrir á öruggum stað þannig að þeir yrðu ekki færðir yfir í gamla bankann. Hann kvaðst hafa viljað ræða þessi mál við hana sem samstarfsmann sinn en ekki sem bankastjóra. Ákærði kvaðst hafa einu sinni náð að segja henni frá því að hann þyrfti að ræða við hana málefni aflandsfélaga, en lengra hefði samtalið ekki orðið. Hann kvaðst fyrst og fremst hafa ætlað að leita ráða hjá henni, enda hefði bankinn ekkert haft með málefni félagsins að gera og starfsmönnum hans verið félagið óviðkomandi.

Ákærði kvaðst hafa lokið prófi í viðskiptafræði 1985 og hafið störf hjá bankanum um sumarið sama ár og unnið þar síðan með hléi þegar hann var í námi erlendis. Ákærði starfaði víða hjá bankanum og sat einnig í stjórnum félaga og stofnana á vegum bankans.

A var annar af tveimur bankastjórum Landsbankans frá 1998 þar til bankinn féll. Hann kvað Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, hafa haft áhuga á að reka sjóðasjóði, það er sjóði sem fjárfestu í öðrum sjóðum en ekki beint í hlutabréfum og skuldabréfum. Þetta þótti dreifa áhættu meira en þar sem þetta fyrirkomulag var ekki leyfilegt samkvæmt íslenskum lögum var ákveðið að gera þetta á Guernsey. Þar var sett upp sjóðarekstrarfyrirtæki sem rak sjóðina þar til rekstur þeirra var orðinn leyfilegur að íslenskum lögum og þeir voru fluttir til landsins. Eftir að lög voru sett árið 2000 um kauprétt í almenningshlutafélögum var heimilt að setja upp áætlun um kauprétti í þeim ef hann náði til allra starfsmanna og ríkisskattstjóri staðfesti hana. Til að halda utan um hlutabréfin, sem voru keypt á tilteknu verði til að vera á móti kauprétti, varð bankinn að tryggja sér kaupréttinn og verðið þannig að hann tapaði ekki á því að efna kaupréttarskylduna. Sú hugmynd hafi komið upp að gera þetta í gegnum The 1886 Trust með því að fjárgæslumenn þess stofnuðu dótturfélag, það er LBI Holding Ltd., sem var gagngert stofnað til að halda utan um þessi hlutabréf í Landsbankanum fyrir hönd starfsmanna og fékk félagið ákveðna þóknun fyrir að geyma bréfin. Í framhaldinu hefðu einnig orðið viðskipti með önnur hlutabréf, aðallega í VÍS. Bankinn vildi halda þessu aðgreindu og bað því fjárgæslumenn sjóðsins um að stofna sérstakt félag til að eiga viðskipti við bankann eftir því sem um semdist. Þetta hafi verið forsaga þess að NBI Holding Ltd. hafi verið stofnað. Bæði þessi félög hafi því verið í eigu The 1886 Trust. A kvaðst hafa valið ákærða og C til að sitja í stjórn félaganna og lagt það til við fjárgæslumennina á Guernsey. Fjárgæslumennirnir hefðu samþykkt það og séð um framkvæmdina. Hann kvað viðskipti félaganna hafa komið sem viðskiptahugmyndir frá Landsbankanum, en ákærði og C hefðu haft skyldur gagnvart félögunum og sjóðnum í þeim störfum sínum en ekki Landsbankanum. A var spurður hvort félögin hefðu átt í einhverjum viðskiptum ótengdum Landsbankanum og svaraði hann því neitandi. Viðskiptin, sem þau hefðu staðið fyrir, hefðu komið sem viðskiptahugmyndir frá Landsbankanum. Hann kvað viðskiptum NBI Holding Ltd. hafa lokið 2003 en bankinn hafi tekið ákvörðun um að slíta ekki félaginu heldur hafa það til reiðu ef viðskiptatækifæri sköpuðust síðar. A kvaðst hafa vitað að myndast hefði söluhagnaður hjá félaginu og kvaðst hann hafa talið það óverulega fjárhæð miðað við efnahagsreikning bankans. A kvað ákærða ekki hafa leitað til sín um það sem hann gerði og er ákæruefnið. Hins vegar hefði verið mikil umræða í bankanum um hvað ætti að gera ef ríkisstjórnin ákvæði að skipta bankastarfseminni upp í innlenda og erlenda starfsemi. Á þessum óvissutímum hefði hins vegar engan vegin verið ljóst hvað myndi verða gert. Hann kvað eftirlitskerfi bankans myndu hafa gert viðvart um færslu ákærða og hún hefði verið skoðuð og ákærða hafi verið það ljóst. Eins hlyti það að hafa komið fram í uppgjöri frá NBI Holding Ltd., en félagið þurfti ekki að láta gera endurskoðaða ársreikninga heldur uppgjör sem jafna megi til milliuppgjöra.

E, sem var hinn bankastjóri Landsbankans á þessum tíma, bar að hann hefði aldrei heyrt minnst á NBI Holding Ltd. á starfstíma sínum í bankanum. Hann hafi hins vegar kannast við LB Holding Ltd. sem hafi verið í viðskiptum við bankann. E kvaðst minnast þess að þegar hann var í þann mund að láta af störfum í bankanum hafi hann hitt ákærða til að kveðja hann. Þetta hafi verið 8. eða 9. október og þá hafi ákærði verið mjög glaður og haft orð á því að hann hefði verið að bjarga peningum og átt þá við aflandsfélög, hann hafi þó ekki nafngreint ákveðin félög, en E hafi skilið það svo að félögin tengdust kaupréttum. E kvaðst hafi skilið þetta þannig að ákærði hefði millifært peninga yfir til Landsbankans. Hann kvað Landsbankann ekki hafa skipað stjórnarmenn í kaupréttarfélögum á starfstíma sínum í bankanum. Þá kvað E upphæðina, sem ákærði lét millifæra, hafa verið það lága að hún hefði ekki gefið merki í eftirlitskerfum bankans sem gerðu bankastjórum viðvart.

F, þjónustustjóri hjá Landsbankanum, kvaðst hafa þekkt ákærða í um 20 ár. Hann hefði verið viðskiptavinur hans þegar hann var útibússtjóri bankans. F kvaðst hafa látið færa umrædda upphæð inn á reikning ákærða og daginn eftir inn á annan reikning eins og lýst er í ákæru. Hann kvaðst hafa tekið við beiðni ákærða og sent hana áfram til afgreiðslustjóra. Daginn eftir hafði ákærði svo aftur samband og bað um að upphæðin yrði flutt á annan reikning. Hann kvað ákærða hafa beðið um að reikningi NBI Holding Ltd. yrði lokað og hafi það verið gert.

G, sérfræðingur hjá innri endurskoðun bankans, bar að við yfirtöku bankans í októberbyrjun hafi Deloitte tekið bankann út og hafi hún og samstarfsmenn hennar komið að því verkefni og greint háar færslur. Um hafi verið að ræða færslur sem þegar höfðu komið fram í eftirlitskerfi Seðlabankans og stöðu færslna á tengda og venslaða aðila í Landsbankanum. Við þessar athuganir hafi færslan yfir á reikning ákærða komið í ljós, en hún hafi verið það há að eftirlitskerfin greindu frá henni. Færslan hefði því alltaf komið í ljós hvað svo sem leið vinnu Deloitte. G kvaðst hafa vitað um tilvist NBI Holding Ltd. sem starfsmaður bankans, en félagið hafi þó ekki verið í eigu hans. Hún kvað útilokað annað en að þessi færsla hefði alltaf komið í ljós, bæði vegna þess að upphaflega var innstæðan í erlendri mynt og eins vegna þess að ákærði var venslaður bankanum. Þá hafi upphæðin verið það há að henni hefði verið „flaggað“. Hún kvað ekkert benda til þess að reynt hefði verið að leyna færslunni.   

H, sem skipaður var í skilanefnd bankans við fall hans, hafði áður gegnt stöðu innri endurskoðanda bankans. Hann kvaðst ekki hafa vitað um tilvist NBI Holding Ltd. fyrr en málið kom upp. Hann kvaðst hafa þekkt öll aflandsfélög, sem bankinn hafði tekið þátt í að stofna á undir nafninu LB Holding Ltd., en stofnun þess tengdist ráðgjöf erlends fjárfestingabanka. Grundvallaratriði við stofnun félagsins var að það tengdist ekki formlega bankanum en þetta fyrirkomulag væri vel þekkt erlendis. Undir H var borið það sem eftir honum er haft í lögregluskýrslu þar sem hann var spurður hver ætti þá peninga sem urðu eftir inni á reikningi NBI Holding Ltd. Þá svaraði hann: „Ég hef ekki kynnt mér sérstaklega uppbyggingu á þessu félagi en almenna reglan er sú að þau umframverðmæti sem verða eftir í svona félögum þegar tilgangi þeirra hefur verið náð, séu tekin aftur til þeirra aðila sem nýtt hafa félagið. Félagið er raunverulega skel utan um fyrirfram ákveðin viðskipti og síðan þegar þeim er lokið er skelin ónýt og hún er tæmd. Það er yfirleitt gerður einhver þjónustusamningur milli svona félaga og þess sem hefur félagið sem gerir þeim sem nýtt hefur félagið kleift að tæma félagið.“ Hann staðfesti að rétt væri eftir sér haft almennt um aðferðafræðina varðandi þessi félög. H kvað færsluna sem hér um ræðir hafa komið í ljós við athugun Deloitte, en skilanefnd hafi fengið Deloitte til að athuga allar færslur í kringum bankahrunið. Við eðlilegar aðstæður hefði þessi færsla átt að vekja athygli eftirlitskerfa bankans, ekki síst þar sem um starfsmann bankans var að ræða. Þá staðfesti H að fyrstu klukkutímana og dagana eftir hrunið hafi skilanefndin ekki getað svarað því með afgerandi hætti hvort allir innstæðureikningar væru tryggðir, eða hvort það færi eftir þjóðerni eigenda. Þetta kunni að hljóma ótrúlega núna en svona hafi óvissan verið mikil þessa fyrstu klukkutíma og sólarhringa. Þessi mál hafi svo smám saman skýrst og í lok vikunnar hafi þetta verið komið á hreint. Þá taldi H að ákærði hefði mátt gera sér grein fyrir að líklegt væri, að minnsta kosti, að færsla sem þessi kæmi upp við eftirlit.

I, deildarstjóri í innri endurskoðun Landsbankans, kvaðst hafa unnið við að aðstoða Deloitte við rannsókn þeirra á bankanum eftir hrunið. Hún kvaðst fyrst hafa séð nöfn aflandsfélaganna, sem hér um ræðir, við þessa vinnu. Við þessa vinnu hafi verið greindar allar færslur inn á starfsmenn og stjórnendur í bankanum, sem voru yfir tvær milljónir að því er hana minnti. Hún kvað færsluna, sem hér um ræðir, hafa komið í ljós við athugun Deloitte og taldi litlar líkur á að færslan hefði uppgötvast við venjulega athugun í bankanum.

J var framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Landsbankans haustið 2008. Hann kvaðst hafa þekkt til NBI Holding Ltd. og vitað um hlutabréfaviðskipti þess skömmu eftir árið 2000. Hann kvað sjálfseignarstofnun eða The Trust hafa átt félagið, en Landsbankinn hafi ekki tengst því.

K, var forstöðumaður fjárstýringar Landsbankans í október 2008. Hann kvað aflandsfélög ekki hafa verið eign bankans heldur hefði verið rætt um að þessi félög væru eign svokallaðra Trusts. Endaeigendur þeirra hafi verið alþjóðleg líknarfélög svonefnd Beneficaries. K kvaðst ekki hafa þekkt félagið NBI Holding Ltd., en kvaðst þekkja til The 1886 Trust.

L var lögfræðingur hjá regluvörslu Landsbankans og var síðar ritari skilnefndar. Hann staðfesti að ákærði hefði sent skilanefndinni lista yfir þjónustusamninga bankans og á þeim lista hefði nafn NBI Holding Ltd. komið fyrir nokkrum sinnum.

M lögfræðingur hjá Landsbankanum starfaði hjá skilanefnd fyrstu dagana eftir hrun, en síðan vann hann við öflun gagna vegna rannsóknar á bankanum. Hann kvaðst þekkja til LB Holding Ltd. vegna þess að það hafi verið hluthafi í bankanum, en hann kvaðst ekki hafa þekkt NBI Holding Ltd. Hvorugt þessara félaga hafi verið á lista yfir innherja í bankanum eða venslaða eða aðila tengda bankanum. Stjórnarseta ákærða hefði þó átt að valda því að þau teldust venslaðir aðilar. M kvað sér ekki hafa verið kunnugt um millifærsluna sem þetta mál fjallar um, en hann og ákærði hefðu rætt um aðra millifærslu þar sem ákærði hefði fært fé frá aflandsfélagi til bankans. Um hafi verið að ræða færslu á 4 milljörðum króna frá LB Holding Ltd., en ekki hafi verið rætt um færslu frá NB Holding Ltd. M kvaðst hafa verið á fundi þegar ákærði var kallaður fyrir til að gefa skýringu á millifærslunni. Þetta hafi verið 25. eða 26. nóvember 2008. Um viðbrögð ákærða bar M í lögregluskýrslu 1. apríl 2009: „Mér fannst Haukur verða hissa og hann stressaðist allur upp og varð óöruggur með sig þegar hann var spurður um millifærslurnar. Hann gaf þá skýringu að hann hafi ætlað að vernda þessa peninga því þetta hafi verið erlent félag og hann hafi óttast að ríkið mundi bara tryggja innstæður innlendra félaga. Hann hafi því viljað koma þessum eignum yfir á íslenska kennitölu.“ M staðfesti að rétt væri haft eftir sér í skýrslunni. Hann kvað upphæðina hafa verið færða af reikningi ákærða yfir á bókhaldslykil í nýja Landsbankanum og þar væri hún enn eftir því sem hann vissi best.

N, löggiltur endurskoðandi hjá Pricewaterhouse Coopers, hafði umsjón með ytri endurskoðun ársreikninga Landsbankans á vegum PWC. Hann kvaðst ekki muna til þess að NBI Holding Ltd. hefði verið hluti af samstæðu bankans og ekki minnast þess að það væri talið meðal eigna hans.

O var annar af tveimur ytri endurskoðendum bankans. Hann kvaðst hafa kannast við félagið NBI Holding Ltd. og hafa rætt um það við ákærða. Hann hafi talið bankann hafa tengst því með einhverjum hætti, en gat ekki upplýst nánar um það.

O og N greindu báðir frá því að ákærði hefði ráðlagt þeim að aðvara erlenda viðskiptavini sína, sem áttu innstæður í íslenskum bönkum, um að þær gætu verið ótryggar við þá uppskiptingu bankanna sem var yfirvofandi.

D var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans fram til 8. október en eftir það bankastjóri nýja Landsbankans. Hún kannaðist við að ákærði hefði haft tal af sér eftir að hún varð bankastjóri og sagst þurfa að ræða við hana um málefni aflandsfélaga. Hún kvaðst hafa spurt hann að því hvort sér kæmu málefni þeirra við og ekki gefið sér tíma til að ræða við hann. Ákærði hefði síðar reynt að ná tali af henni en ekki tekist það.

C vann í Landsbankanum til ársins 2002 og var frá 1998 framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs. Hann kvað NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. hafa verið í eigu The 1886 Trust og hafi hann verið í stjórn beggja, en ekki komið að stofnun þeirra. Hann kvað Landsbankann líklega hafa stofnað The 1886 Trust, en síðan hafi lögmannsstofa á Guernsey séð um að stofna félögin og einn lögmaður þaðan hafi setið í stjórn þeirra ásamt honum og ákærða. Hann kvaðst ekki hafa komið að stofnun The 1886 Trust en hefði bankinn komið að henni þá hefði ákvörðun þar um komið frá æðstu yfirmönnum hans. Landsbankinn hafi átt viðskipti við félögin, en þau hafi hvorki verið hlutdeildar- né dótturfélög bankans. Þessi félög hafi getað átt viðskipti sem bankinn vildi ekki eiga, en þau hafi tekið lán í bankanum til þeirra. Þetta fyrirkomulag sé alþekkt og þjóni meðal annars þeim tilgangi að bankinn þurfi ekki að eiga hlutabréf í öðrum fjármálafyrirtækjum, enda hafi það áhrif á efnahagsreikning hans. C kvaðst hafa hætt í stjórn félaganna þegar hann lét af störfum í bankanum, en hann kvaðst þó ekki hafa tengt stjórnarsetu sína við störf sín hjá honum. 

IV

Ákærði hefur viðurkennt að hafa látið færa fjárhæð þá, sem í ákæru greinir, af reikningi félagsins NBI Holding Ltd. yfir á sinn eigin reikning og daginn eftir af þeim reikningi yfir á annan reikning í sinni eigu. Fyrir dómi gerði ákærði ekki athugasemdir við fjárhæðir, dagsetningar og reikningsnúmer sem tilgreind eru í ákæru. Öll þessi atriði eru og í samræmi við önnur gögn málsins. Sýknukrafa ákærða byggist hins vegar á því að hann hafi ekki haft ásetning til að slá eign sinni á þessa fjárhæð heldur hafi ætlun hans verið að koma henni í öruggt skjól á sínu nafni, eins og rakið var í kaflanum hér að framan.

Ákærði kvaðst hafa verið rekstrarstjóri Landsbankans, en því starfi hans hafi væntanlega lokið 6. október 2008 og næstu tvo daga hafi starfssvið hans verið óljóst. Hann hafi svo verið ráðinn yfirmaður eigna- og öryggismála í Nýja Landsbankanum 9. eða 10. október. Við úrlausn málsins skiptir því ekki máli hver starfstitill ákærða nákvæmlega var frá degi til dags á þessum tíma, enda ljóst af framburði hans og öðrum gögnum málsins að hann gegndi hárri trúnaðarstöðu í bankanum á þeim dögum sem hér um ræðir.

Í ákæru er byggt á því að NBI Holding Ltd. hafi verið félag á vegum bankans og ákærði hafi verið í stjórn þess og prókúruhafi í tengslum við starf sitt hjá bankanum. Af framburði vitna má ráða að sjálfseignarsjóður, sem samkvæmt stofnskjölum ber heitið The 1886 LB Trust, hafi verið stofnaður á sínum tíma að tilhlutan Landsbankans í því skyni að sjóðurinn stofnaði hlutafélög á Guernsey sem bankinn gæti átt viðskipti við eins og rakið var. Í framburði A, fyrrum bankastjóra, kom fram að hann hefði valið ákærða og C til að sitja í stjórn NBI Holding Ltd. og í stjórn LB Holding Ltd. Landsbankinn tilnefndi ekki beint stjórnarmenn heldur lagði til við lögmannsstofu á Guernsey hverjir yrðu valdir til stjórnarsetu ásamt lögmanni af stofunni. Eftir að C lét af störfum í bankanum árið 2002 var ákærði einn stjórnarmaður ásamt lögmanni af fyrrgreindri lögmannsstofu, að nafni P. Ákærði hefur haldið því fram að félagið hafi ekki verið á vegum bankans heldur í eigu tveggja hlutafélaga á Guernsey. Þetta er formlega rétt enda var tilgangurinn með því að stofna The 1886 LB Trust að sjóðurinn stofnaði hlutafélög sem tengdust ekki formlega bankanum eins og fram kom í framburði H. Þá kom fram í framburði C að tilgangur bankans með því að láta stofna félögin hafi verið að þau gætu átt verðbréfaviðskipti sem bankinn vildi ekki eiga. Þau hafi tekið lán til þeirra hjá bankanum. Þá er og til þess að líta sem A bar um hvort félagið hefði átt í einhverjum viðskiptum ótengdum Landsbankanum, en því svaraði hann neitandi. Viðskiptin, sem þau hefðu staðið fyrir, hefðu komið sem viðskiptahugmyndir frá Landsbankanum. Þegar allt framangreint er virt telur dómurinn sannað að félagið NBI Holding Ltd. hafi verið á vegum Landsbankans eins og byggt er á í ákærunni og ákærði hafi verið þar stjórnarmaður og prókúruhafi í tengslum við starf sitt í bankanum.

Eins og alkunna er varð mikið umrót á íslenskum fjármálamarkaði í byrjun október 2008 og féllu viðskiptabankarnir, þar á meðal Landsbankinn. Í byrjun var veruleg óvissa um hvað yrði um innstæður í bönkunum og af framburði vitna, sem öll störfuðu í þessu umhverfi, má draga þá ályktun að fyrstu klukkutímana og dagana eftir fall þeirra hafi ekki legið ljóst fyrir hvaða innstæður yrðu tryggðar og hverjar ekki. NBI Holding Ltd. var erlent félag og ákærði gegndi þar trúnaðarstöðu, einn manna hér á landi. Hann gat með réttu óttast að innstæða félagsins yrði ekki færð í bankann, sem stofnaður var eftir fall Landsbankans, heldur skilin eftir í þeim gamla og breyttist því í kröfu í þrotabú hans sem óvíst gat verið um greiðslu á. Ákvörðun hans um að láta færa innstæðu félagsins yfir á eigin reikning á þessum tíma gat því verið skiljanleg. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að 9. október 2008 gaf Fjármálaeftirlitið út tilkynningu þar sem segir að það hafi tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Þar segir meðal annars að innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. skuli flytjast yfir í Nýja Landsbanka Íslands hf. Fjármálaeftirlitið tók í kjölfarið fleiri ákvarðanir er lutu að skiptingu eigna milli gamla og nýja bankans. Þá má ráða af framburði vitnisins H að fáeinum dögum eftir upphaflega ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi óvissu um afdrif innstæðna verið eytt. Eftir þann tíma hlaut ákærða að vera ljóst að innstæðan, sem hér um ræðir, var jafn trygg, hvort sem hún var á reikningi á hans nafni eða nafni NBI Holding Ltd. Eins og áður segir byggir ákærði sýknukröfu sína á því að honum hafi gengið það eitt til að bjarga fjármunum félagsins en ekki slá eign sinni á þá. Á þetta fellst dómurinn ekki, enda gat ákærði hafist handa strax eftir að framangreindri óvissu var eytt við að koma innstæðunni yfir á reikning á nafni félagsins. Það gerði hann ekki og aðhafðist heldur ekkert til að upplýsa um að fjármunir félagsins væru á einkareikningi hans þegar starfsmenn bankans leituðu eftir upplýsingum um félagið með tölvupósti 18. nóvember 2008, heldur svaraði: „Ég þekki félagið. Tengdist greiða við Kaupþing fyrir margt löngu. Búið að biðja um að því verði lokað ásamt Trust því tengt.“ Þá verður ekki annað séð af gögnum málsins, þar með töldum framburði ákærða sjálfs, en að það hafi fyrst verið við athugun Deloitte sem upp komst um þessa færslu. Skiptir hér engu máli hvað starfsmenn bankans segja um eftirlitskerfi bankans og hvort og hvenær þau hefðu gert viðvart um færsluna. Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi með því að halda fénu inni á einkareikningi sínum, löngu eftir að tímabært var fyrir hann að færa það aftur á reikning í nafni félagsins, dregið sér þá fjármuni NBI Holding Ltd. sem í ákæru greinir. Hann verður því sakfelldur fyrir fjárdrátt og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir lögbrot. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til fjárhæðarinnar sem hann dró sér en jafnframt til þess að ekkert fjártjón hlaust af atferli hans. Samkvæmt þessu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði og eru ekki skilyrði til að skilorðsbinda hana.

Ákæruvaldið hefur ekki lagt fram yfirlit yfir sakarkostnað, sbr. 2. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar lagði sækjandinn fram við upphaf málflutnings reikning fyrir ferðakostnaði vitnis og krafðist þess að ákærði yrði dæmdur til að greiða hann. Samkvæmt nefndri lagagrein skal leggja slík gögn fram áður en máli lýkur, þó í síðasta lagi við upphaf aðalmeðferðar. Þetta var ekki gert og kemur því ekki til álita að dæma ákærða til að greiða þennan kostnað.  

Mál þetta var upphaflega dæmt í Héraðsdómi 21. apríl 2010 og voru verjanda ákærða dæmdar 4.000.000 króna málsvarnarlaun. Hæstiréttur ómerkti þann dóm 24. febrúar 2011 og segir í dóminum að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði nýs efnisdóms. Dómur gekk að nýju í héraði 30. júní 2011 og með honum voru verjanda ákærða dæmd málsvarnarlaun miðað við alla meðferð málsins fyrir héraðsdómi allt frá þingfestingu málsins 16. desember 2009, eða 4.518.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Hæstiréttur ómerkti þennan dóm 27. janúar síðastliðinn, en í honum segir ekkert um ákvörðun sakarkostnaðar í héraði. Samkvæmt þessu verða verjanda nú ákvörðuð málsvarnarlaun fyrir meðferð málsins í héraði frá þingfestingu og eru þau ákveðin 6.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærða verður á engan hátt kennt um að málið hafi komið þrisvar sinnum til meðferðar í héraði og er því sanngjarnt að dæma hann til að greiða þriðjung málsvarnarlaunanna, en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Ásmundur Helgason og Ingveldur Einarsdóttir.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Haukur Þór Haraldsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Gests Jónssonar hrl., 6.000.000 króna að einum þriðja hluta en að tveimur þriðju hlutum skulu þau greidd úr ríkissjóði.