Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Gjöf
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Fimmtudaginn 12. mars 2015.

Nr. 507/2014.

Kaupþing hf.

(Ólafur Garðarsson hrl.)

gegn

Johnie Wilson Brøgger

(Helgi Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Gjöf. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

K hf. höfðaði mál gegn J til að fá rift sölu K hf. á nánar tilgreindum fasteignum í Danmörku ásamt húsgögnum og lausafé til J, fyrrverandi starfsmanns dótturfélags K hf., KL. Við ráðningu J hjá KL árið 1999 hafði hann gengið frá samningi við K hf. þar sem hinn síðarnefndi skuldbatt sig til að kaupa af J og eiginkonu hans fasteign þeirra í Danmörku á nánar tilgreinda fjárhæð í dönskum krónum. Þá var samhliða samið um kauprétt J og eiginkonu hans að fasteigninni og kveðið á um að kaupverð skyldi lækka um 300.000 fyrir hvert af fimm árum samningstímans. Ennfremur keypti K hf. innbú hjónanna. Árið 2003 var ráðist í endurbætur á umræddri fasteign, auk þess sem keyptar voru tvær aðliggjandi lóðir. Endursömdu K hf. og J þá um fyrrgreindan kauprétt að teknu tilliti til þess og þeirrar lækkunar kaupverðsins sem J og eiginkona hans höfðu notið á grundvelli fyrri samningsins. Var nýtt kaupverð ákveðið 3.000.000 danskar krónur og skyldi kaupréttur gilda til ársloka 2009 og lækka um 300.000 danskar krónur á ári þannig að yrði hans neytt í lok samningstímans hefði verð fasteignanna lækkað um helming. J nýtti síðan kaupréttinn í september 2008 í framhaldi af starfslokum sínum og fékk fasteignirnar afhentar ásamt þeim húsgögnum og lausafé sem þar var þá að finna. K hf., sem var tekinn til slita eftir ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, höfðaði mál til riftunar sölunnar og byggði á því að í afhendingu íbúðarinnar á fyrrnefndum kjörum, svo og húsgagnanna, hefði falist gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða ótilhlýðileg ráðstöfun, sbr. 141. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar var talið að lækkun kaupverðs fasteignarinnar hefði falið í sér örlætisgerning í skilningi 1. mgr. 131. gr. fyrrgreindra laga. Var umræddri ráðstöfun því rift, auk þess sem J var gert að greiða K hf. fjárhæð sem nam lækkun kaupverðsins eða 1.200.000 danskar krónur. Þá var rift afhendingu til J á húsgögnum og öðru lausafé sem ekkert endurgjald hafði komið fyrir. Fjárkrafa K hf. vegna húsgagna og lausafjár þótti hins vegar vanreifuð og var henni vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júlí 2014. Hann krefst þess að rift verði sölu hans á fasteignunum Skovbakken 3, 5 og 7 í Lemvig Kommune í Danmörku, ásamt húsgögnum og öðru lausafé, til gagnáfrýjanda 27. október 2008 og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 4.025.000 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 24. september 2014. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að honum verði dæmdur hærri málskostnaður en þar var gert. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar á riftun þeirrar ráðstöfunar aðaláfrýjanda að selja gagnáfrýjanda fasteignirnar að Skovbakken 3, 5 og 7 ásamt innbúi gegn greiðslu aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda að fjárhæð 4.543.377 danskar krónur. Að þessu öllu frágengnu krefst hann þess að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Fyrir málavöxtum er nokkur grein gerð í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar er rakið á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til þess að árið 1999 var gagnáfrýjandi ráðinn framkvæmdastjóri Kaupthing Luxembourg SA. Var ráðningarsamningur gagnáfrýjanda við það félag frá 1. og 2. nóvember 1999. Sömu daga var gengið frá samningi á milli gagnáfrýjanda og eiginkonu hans annars vegar og aðaláfrýjanda, sem þá hét Kaupþing banki hf., hins vegar en samkvæmt honum skuldbatt sá síðarnefndi sig til þess að kaupa af þeim fasteign þeirra að Skovbakken 7 í Lemvig Kommune í Danmörku á 3.050.000 danskar krónur. Jafnframt samdist svo um með aðilum að gagnáfrýjandi, eiginkona hans eða löglegur framsalshafi skyldu eiga þess kost að kaupa á ný umrædda fasteign og skyldi sá kaupréttur gilda allt til 31. desember 2004. Var nánar mælt fyrir um kjör við endurkaupin í samningnum og kveðið á um að kaupverð skyldi lækka um 300.000 danskar krónur fyrir hvert ár sem liði af samningstímanum þannig að við samningslok að fimm árum liðnum ættu kaupréttarhafar kost á því að kaupa fasteignina á 1.550.000 danskar krónur. Í umræddum samningi var ekki uppsagnarákvæði og þar var ekki mælt fyrir um neinar skyldur af hálfu kaupréttarhafanna í þágu aðaláfrýjanda. Umræddur samningur var samþykktur á fundi stjórnar aðaláfrýjanda 8. nóvember 1999. Þá var 2. og 18. nóvember 1999 undirritaður kaupsamningur milli þeirra hjóna og aðaláfrýjanda um kaup þess síðarnefnda á nánar tilgreindu innbúi hjónanna í framangreindri fasteign þeirra fyrir 650.000 danskar krónur.

Á árinu 2003 var ráðist í endurbætur á fasteigninni að Skovbakken 7 auk þess sem keyptar voru tvær aðliggjandi lóðir nr. 3 og 5 við Skovbakken. Af gögnum málsins verður ekki glögglega ráðið að hvers frumkvæði ráðist var í umræddar endurbætur og kaup eða hvenær þær áttu sér stað en ágreiningslaust virðist vera að gagnáfrýjandi hafi fjármagnað framkvæmdirnar og fengið kostnaðinn endurgreiddan frá aðaláfrýjanda. Aðilar deila þó um hvort sá kostnaður hafi verið endurgreiddur að hluta eða öllu leyti.

Hinn 9. desember 2003 endursömdu aðilar um kauprétt gagnáfrýjanda og eiginkonu hans. Skyldi kauprétturinn nú taka til fasteignanna við Skovbakken 3, 5 og 7 og að teknu tilliti til endurbóta á árinu 2003 og þeirrar lækkunar á kaupverðinu sem kaupréttarhafar höfðu notið á grundvelli samningsins frá 1. og 2. nóvember 1999. Var nýtt kaupverð ákveðið 3.000.000 danskar krónur. Kaupréttur skyldi gilda til ársloka 2009 og lækka um 300.000 danskar krónur hvert samningsár þannig að yrði hans neytt í lok samningstímans hefði verð fasteignanna lækkað um helming eða í 1.500.000 danskar krónur. Að öðru leyti voru samningsskilmálar óbreyttir frá upphaflegum samningi.

Gagnáfrýjandi og Kaupthing Luxembourg SA sömdu 30. október 2007 um starfslok gagnáfrýjanda hjá bankanum 31. janúar 2008. Aðaláfrýjandi átti ekki aðild að samningnum en í grein 2.3. í honum var allt að einu mælt fyrir um að gagnáfrýjandi og eiginkona hans mættu nýta umsaminn kauprétt sinn fyrir 1.800.000 danskar krónur fyrir árslok 2008. Til þess kom í september 2008 en þá var gengið frá kaupum gagnáfrýjanda á fasteignunum Skovbakken 3, 5 og 7 fyrir samtals 1.800.000 danskar krónur með þremur kaupsamningum, undirrituðum 8. september af gagnáfrýjanda en 29. september af aðaláfrýjanda. Kaupsamningunum var þinglýst 27. október sama ár. Afhendingardagur var 1. nóvember 2008 og er ágreiningslaust með aðilum að aðaláfrýjandi afhenti gagnáfrýjanda með fasteignunum þau húsgögn og lausafé sem þar var þá að finna. Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í aðaláfrýjanda 9. október 2008, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Frestdagur við slitin var 15. nóvember 2008.

Með bréfi 6. október 2010 tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um riftun á sölunni á Skovbakken 7 og gjöf bankans á húsgögnum og lausafé sem fram fór samhliða. Riftunarkrafan byggði aðallega á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara á 141. gr. sömu laga. Krafðist aðaláfrýjandi jafnframt greiðslu á 3.050.000 dönskum krónum á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991 og reisti þá kröfu meðal annars á mati fasteignasala á markaðsvirði fasteignarinnar frá 23. nóvember 2009 að frádregnum þeim 1.100.000 dönsku krónum sem gagnáfrýjandi hafði greitt fyrir eignina. Aðaláfrýjandi aflaði síðar annars verðmats fasteignasala 9. ágúst 2011 og er fjárkrafa hans í málinu reist á því mati, en hún tekur til allra þriggja fasteignanna sem voru metnar á samtals 5.175.000 danskar krónur að viðbættu andvirði lausafjár, 650.000 danskra króna, að frádregnum 1.800.000 dönsku krónum sem gagnáfrýjandi greiddi fyrir eignirnar.

II

Krafa gagnáfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er reist á því að það sé höfðað á röngu varnarþingi. Í upphaflegum samningi aðilanna 1. og 2. nóvember 1999 komi fram að danskir dómstólar fari með lögsögu samkvæmt samningnum og hafi það ákvæði haldist óbreytt með samningnum 9. desember 2003. Að því leyti séu atvik máls þessa frábrugðin málsatvikum í dómi Hæstaréttar 21. september 2012 í máli nr. 485/2012. Regla 3. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og ákvæðið hljóði eftir breytingu með lögum nr. 146/2011, fái ekki haggað skýru ákvæði í samningi aðilanna um að mál skuli rekin fyrir dönskum dómstólum. Reglan feli í sér afturvirka íhlutun í samningssamband aðila og sé verulega íþyngjandi fyrir gagnáfrýjanda.

Í niðurlagi kaupréttarsamnings aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda frá 1. og 2. nóvember 1999 var kveðið á um að dönsk lög gildi um samninginn og danskir dómstólar færu með lögsögu vegna hans. Ekki er að fullu ljóst hvort ákvæðið ber að túlka þannig að heimilt sé eða skylt að reka mál vegna efnda samningsins fyrir dönskum dómstólum en hvað sem því líður tekur það aðeins til mála til efnda á samningnum og fær ekki ráðið niðurstöðu um varnarþing þegar reynir á riftun á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991. Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess, eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 3. málslið þeirrar málsgreinar, sem tekinn var upp í hana með 1. gr. laga nr. 146/2011, skal mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli hennar þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita. Mál þetta var höfðað 19. júní 2012. Að virtu þessu síðastgreinda lagaákvæði og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 21. september 2012 í máli nr. 485/2012 og 14. maí 2013 í máli nr. 282/2013 er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að reka hafi mátt málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

III

Aðaláfrýjandi byggir dómkröfu um riftun á ráðstöfun sinni á fasteignunum að Skovbakken 3, 5 og 7, ásamt húsgögnum og lausafé til gagnáfrýjanda aðallega á því að í henni hafi falist örlætisgerningur sem falli undir gjafagerning samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og verði rift á grundvelli þess ákvæðis. Gagnáfrýjandi mótmælir þessu og byggir á því að um hluta af umsömdum starfskjörum hans hafi verið að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Þetta ákvæði hefur verið skýrt þannig, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 7. febrúar 2013 í máli nr. 457/2012 og 31. október 2013 í máli nr. 314/2013, að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim er nýtur góðs af henni, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr. sömu greinar sem tekur til venjulegra tækifærisgjafa og svipaðra ráðstafana af smærra tagi. Undir örlætisgerninga í þessum skilningi geta fallið gagnkvæmir samningar og sambærilegar ráðstafanir ef umtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann hefur fengið í staðinn.

Hér að framan hefur nokkur grein verið gerð fyrir kaupréttarsamningi þeim sem gagnáfrýjandi gerði við aðaláfrýjanda, upphaflega 1. og 2. nóvember 1999 samhliða því að hann réðst til starfa hjá Kaupthing Luxembourg SA. Sá samningur var einhliða í þeim skilningi að þar var kveðið á um kauprétt gagnáfrýjanda og eiginkonu hans, efndum þess réttar var markaður ákveðinn tími og mælt fyrir um árlega lækkun kaupverðsins eftir því sem á samningstímann liði. Samningur þessi var í raun tvíþættur. Annars vegar stofnaði hann til kaupréttar til handa gagnáfrýjanda, eiginkonu hans eða þeirra sem þau framseldu þann rétt til og var sá hluti samningsskuldbindinganna efndur þegar við samningsgerðina. Hins vegar fólst í samningnum ívilnandi lækkun kaupverðs, 300.000 danskar krónur fyrir hvert ár sem liði af samningstímanum fram að því að til beitingar kaupréttarins kæmi. Í samningnum var ekki mælt fyrir um neinar skyldur sem gagnáfrýjanda bæri að inna af hendi í þágu aðaláfrýjanda en samkvæmt málatilbúnaði hans er á því byggt að um gagnkvæman samning hafi verið að ræða sem auk annars hafi verið forsenda þess að hann fengist til starfa hjá Kaupthing Luxembourg SA. Framlag hans hafi meðal annars falist í því að skipta um atvinnu og ráðast til starfa hjá bankanum. Ráðning hans hafi verið forsenda þess að bankaleyfi fengist fyrir starfsemi Kaupthing Luxembourg SA og auk starfa sinna í þágu þess félags hafi honum verið ætlað að sinna afmörkuðum verkefnum fyrir aðaláfrýjanda. Ástæða þess að kaupréttarsamningurinn hafi verið gerður við aðaláfrýjanda en ekki Kaupthing Luxembourg SA hafi verið sú að á þeim tíma hafi starfsemi þess síðarnefnda verið mjög takmörkuð og félagið ekki vel í stakk búið til að taka á sig skuldbindingar um fasteignakaup. Í framburði Sigurðar Einarssonar fyrrverandi stjórnarformanns aðaláfrýjanda kom fram að ástæða þess að umræddur samningur hafi verið gerður á milli þess félags og gagnáfrýjanda hafi annars vegar ráðist af þeim verkefnum sem gagnáfrýjanda hafi verið ætlað að vinna í þágu þess og að þar sem að Kaupthing Luxembourg SA hafi ekki verið komið með bankaleyfi hafi þótt hentugra að „hafa þetta í móðurfélaginu.“ Þær staðhæfingar gagnáfrýjanda að hann hafi fyrstu árin starfað töluvert í þágu aðaláfrýjanda, meðal annars með því að nýta viðskiptasambönd sín, aðstoða við öflun lánsfjár og koma að bankarekstri móðurfélagsins í Danmörku, Finnlandi og Færeyjum fær nokkra stoð í framburði fyrrverandi stjórnarformanns aðaláfrýjanda sem og framburði Kristínar Pétursdóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárstýringar hans. Engum marktækum gögnum er hins vegar fyrir að fara um umfang, eðli þeirra starfa eða hvert hafi átt að vera starfshlutfall hans hjá aðaláfrýjanda.

Eins og að framan er rakið var kaupréttarsamningur aðila endurnýjaður 9. desember 2003. Að teknu tilliti til endurbóta á fasteigninni að Skovbakken 7 og kaupa á tveimur aðliggjandi lóðum var ákveðið nýtt grunnverð eignanna 3.000.000 danskar krónur. Við samningsgerðina var jafnframt gert ráð fyrir að innleystur yrði réttur gagnáfrýjanda til lækkunar kaupverðs samkvæmt samningnum frá 1999 en samkvæmt forsendum hans hafði gagnáfrýjandi á því tímamarki áunnið sér 1.200.000 danskar krónur í lækkun. Þá deila aðilar sem fyrr segir um það hvort aðaláfrýjandi hafi endurgreitt gagnáfrýjanda að fullu kostnað hans við endurbætur og lóðarkaup en gagnáfrýjandi heldur því fram að 901.500 danskar krónur hafi ekki verið endurgreiddar sér. Í málinu hafa engin gögn verið lögð fram sem sýnt gætu fram á markaðsverð fasteignanna á umræddu tímamarki. Að öðru leyti skyldu gilda um kaupréttinn og beitingu hans ákvæði upphaflega samningsins. Þannig var samningurinn ekki uppsegjanlegur af hálfu aðaláfrýjanda, ekki var mælt fyrir um gagngjald gagnáfrýjanda í neinu formi og þá var samið um árlega lækkun kaupverðs frá umsömdu grunnverði um 300.000 danskar krónur út samningstímann eða til ársloka 2009.

Í málinu hafa engar haldbærar skýringar fengist á því af hverju hinn endurnýjaði kaupréttarsamningur var gerður við aðaláfrýjanda en ekki vinnuveitanda gagnaáfrýjanda Kaupthing Luxembourg SA. Ekki fæst séð að þær ástæður sem færðar hafa verið fram fyrir því að upphaflegi samningurinn var gerður við aðaláfrýjanda í stað Kaupthing Luxembourg SA hafi, hvað sem öðru líður, enn getað átt við á árinu 2003. Þá er óupplýst hvaða verkefnum gagnáfrýjandi sinnti eftir þetta tímamark fyrir aðaláfrýjanda sem gætu svarað til þess endurgjalds sem fólst í árlegri lækkun kaupverðsins með þeim hætti sem grein hefur verið gerð fyrir. Að þessu virtu hefur gagnáfrýjanda ekki tekist, gegn andmælum aðaláfrýjanda, að sýna fram á að viðskiptalegar, gagnkvæmar forsendur hafi búið að baki þeirri tilhögun samningsins frá 9. desember 2003 að gagnáfrýjandi gæti á samningstímanum neytt kaupréttar síns með þeim ávinningi að verð eignanna lækkaði árlega um 300.000 danskar krónur frá því verði sem lagt var til grundvallar við samningsgerðina.

Það er eitt grundvallarskilyrða við beitingu riftunarreglu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 að réttaráhrif miðast ekki við það hvenær gjafaloforð er gefið eða til skuldbindingar stofnast heldur við efndir þess, eða afhendingu gjafarinnar. Með samningnum 9. desember 2003 skuldbatt aðaláfrýjandi sig til þess að lækka árlega um 300.000 danskar krónur það verð sem gagnáfrýjanda stóð til boða að kaupa fasteignirnar að Skovbakken á. Það var síðan á valdi gagnáfrýjanda og eiginkonu hans hvort kaupréttar yrði neytt en til þess réttar kölluðu þau haustið 2008. Nam þá lækkun kaupverðsins 1.200.000 dönskum krónum á grundvelli kaupréttarsamningsins frá 9. desember 2003 en kaupsamningunum var þinglýst 27. október 2008. Sú ráðstöfun fól í sér örlætisgerning sem kom til afhendingar innan þeirra tímamarka sem áskilin eru í 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og verður henni því rift að kröfu aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi hefur hagað kröfugerð sinni í málinu með þeim hætti að hann krefst þess að rift verði í heild þeirri ráðstöfun sem fólst í sölu hans á fasteignunum Skovbakken 3, 5 og 7 ásamt húsgögnum og öðru lausafé til gagnáfrýjanda 27. október 2008. Hvað fasteignirnar varðar verður samkvæmt framansögðu fallist á að rifta þeim þætti þeirra ráðstafana sem fólst í árlegri lækkun kaupverðs til handa gagnáfrýjanda um 300.000 danskar krónur árin 2005, 2006, 2007 og 2008 eða samtals 1.200.000 danskar krónur og leiddi til samsvarandi lækkunar kaupverðs samkvæmt framangreindum þremur kaupsamningum, sem þinglýst var 27. október 2008. Í málinu er ágreiningslaust að með fasteigninni Skovbakken 7, svo sem henni var ráðstafað til gagnáfrýjanda haustið 2008, fylgdu húsgögn og annað lausafé sem nýtt hafði verið á eigninni á þeim tíma sem aðaláfrýjandi fór með eignarráð hennar. Þá er jafnframt ágreiningslaust að ekkert gagngjald kom fyrir umrætt lausafé af hálfu gagnáfrýjanda en kaupréttarsamningur aðila 9. desember 2003 tók ekki til þess. Samkvæmt kaupsamningum aðila skyldi afhending fasteigna fara fram 1. nóvember 2008 eða hálfum mánuði fyrir frestdag. Umrædd ráðstöfun, sem fól þannig augljóslega í sér endurgjaldslausa skerðingu á eignum aðaláfrýjanda til hagsbóta fyrir gagnáfrýjanda, var gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og verður því jafnframt tekin til greina krafa aðaláfrýjanda um riftun að því er lausaféð varðar.

IV

Fjárkröfu sína, 4.025.000 danskar krónur, byggir aðaláfrýjandi á 1. mgr. 142. gr., sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Í tilviki fasteignanna miðast krafan við mismun þess kaupverðs sem gagnáfrýjandi greiddi á grundvelli samninganna sem þinglýst var 27. október 2008 og ætlaðs verðmætis þeirra samkvæmt mati fasteignasala sem aðaláfrýjandi aflaði og fyrr er getið en matsgerðin er frá 9. ágúst 2011. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt þýðingu matsins sem sé einhliða aflað og efnislega rangt. Um verðmæti húsgagna og lausafjár byggir aðaláfrýjandi fjárkröfu sína á þeirri fjárhæð sem hann greiddi gagnáfrýjanda og eiginkonu hans fyrir þá muni með áðurnefndum samningi frá 2. og 18. nóvember 1999 en hún nemur 650.000 dönskum krónum. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt þessari kröfu og telur verðmæti umræddra húsgagna og lausafjár ósannað ef það sé þá nokkuð.

Fallist er á það með gagnáfrýjanda að fjárkrafa aðaláfrýjanda vegna húsgagna og lausafjár sé vanreifuð og verður efnisdómur ekki felldur á hana. Er því óhjákvæmilegt að vísa henni af sjálfsdáðum frá héraðsdómi. Þá verður ekki, gegn mótmælum gagnáfrýjanda, byggt á einhliða öfluðu mati fasteignasala á raunvirði fasteignanna við Skovbakken. Hins vegar hefur verið fallist á kröfu hans um riftun að því marki að hún nái til þess þáttar kaupréttarsamnings aðila frá 9. desember 2003 sem fólst í endurgjaldslausri lækkun kaupverðs um 300.000 danskar krónur á ári, en hún nam samtals 1.200.000 dönskum krónum þegar gagnáfrýjandi leysti eignina til sín haustið 2008. Verður sú fjárhæð lögð til grundvallar sem auðgun gagnáfrýjanda í umræddum viðskiptum sem svarar jafnframt til þeirrar skerðingar sem aðaláfrýjandi hefur orðið fyrir á eignum sínum en ekkert hald er í þeim rökum gagnáfrýjanda að engin eignarýrnun hafi orðið hjá aðaláfrýjanda og engin gögn hafa verið lögð fram til sönnunar því að í reikningum aðaláfrýjanda hafi frá upphafi verið gerð sérstök grein fyrir umsömdum kauprétti gagnáfrýjanda og mögulegum áhrifum þeirrar útfærslu lækkunar á kaupverði sem í samningnum var ráðgerð. Af framangreindu leiðir að gagnáfrýjanda verður, með vísan til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, gert að greiða aðaláfrýjanda 1.200.000 danskar krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir en aðaláfrýjandi tilkynnti gagnáfrýjanda um riftun með bréfi 6. október 2010 og setti þá fram fjárkröfu sem nam 3.050.000 dönskum krónum.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er þeirri ráðstöfun sem fólst í lækkun kaupverðs til gagnáfrýjanda, Johnie Wilson Brøgger, um 1.200.000 danskar krónur við kaup hans á fasteignunum Skovbakken 3, 5 og 7 í Lemvig Kommune í Danmörku samkvæmt þremur kaupsamningum undirrituðum 8. og 29. september 2008 og þinglýst 27. október sama ár.

Rift er þeirri ráðstöfun sem fólst í endurgjaldslausri afhendingu aðaláfrýjanda, Kaupþings hf., á húsgögnum og öðru lausafé sem var til staðar á fasteigninni Skovbakken 7 við afhendingu hennar til gagnáfrýjanda 1. nóvember 2008.

Vísað er frá héraðsdómi kröfu aðaláfrýjanda um að gagnáfrýjandi greiði honum 650.000 danskar krónur fyrir áðurnefnd húsgögn og lausafé.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 1.200.000 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2010 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2014.

Mál þetta var höfðað 19. júní 2012 og dómtekið 9. apríl 2014.

Stefnandi er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Stefndi er Johnie Wilson Brögger, Rue Deschweiler, Lúxemborg.

Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi ráðstöfun Kaupþings hf. til handa stefnda sem fram fór þann 27. október 2008 með sölu og afhendingu Kaupþings hf. til stefnda á fasteignunum að Skovbakken 3, 5 og 7 (fastanúmer 8116282, 8116280 og 8116281) í Lemvig Kommune í Danmörku ásamt húsgögnum og öðru lausafé.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 4.025.000 DKK með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2010 til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi gerir þær kröfur aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi að staðfest verði riftun þeirrar ráðstöfunar stefnanda að selja og afhenda stefnda fasteignirnar að Skovbakken 3, 5 og 7 í Lemvig Kommune í Danmörku ásamt innbúi gegn greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 4.554.345,95 DKK og til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I.

Málavextir

Stefndi er danskur ríkisborgari sem var ráðinn framkvæmdastjóri Kaupthing Bank í Luxembourg SA, dótturfélags Kaupþings hf. (síðar Kaupþings banka hf., hér eftir nefndur Kaupþing hf.). Hóf hann störf 1. desember 1999 og starfaði fyrir bankann fram til janúar 2008. Leyfi til reksturs bankans þar í landi var veitt af þarlendum yfirvöldum 24. desember 1999.

Stefndi bjó ásamt fjölskyldu sinni á Jótlandi, að Skovbakken 7 í Lemvig, þegar hann fékk atvinnutilboðið og flutti fjölskyldan til Lúxemborgar í kjölfarið. Ráðningarsamningur við stefnda var undirritaður á milli stefnda og Luxembourg SA þann 1. og 2. nóvember 1999. Fyrir hönd bankans undirritaði Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings hf. samninginn.

Samhliða var undirritaður kaupréttarsamningur milli sömu, stefnda og Kaupþings hf., en auk stefnda undirritaði eiginkona hans samninginn. Fyrir hönd bankans undirritaði Sigurður Einarsson samninginn. Samkvæmt samningnum keypti bankinn fasteignina Skovbakken 7 í Lemvig á Jótlandi af stefnda og eiginkonu hans á 3.050.000 DKK í „núverandi ástandi“. Kaupverðið var greitt við undirritun samningsins. Þá segir í samningnum að stefndi og eiginkona hans eða hvort um sig, eða einhver einstaklingur sem þau tilgreini, muni eiga þess kost að kaupa húsið til baka á tímabilinu fram til ársloka 2004. Kaupréttur að húsinu næmi 2.750.000 DKK yrði hann nýttur á almanaksárinu 2000, 2.450.000 DKK á árinu 2001 en síðan lækkaði endurkaupsverðið um 300.000 DKK árlega fram til loka samningstíma. Kauprétturinn gilti í fimm ár eða til ársloka 2004. Samhliða kaupréttarsamningnum var undirritaður samningur um kaup Kaupþings hf. á húsgögnum, eldhúsbúnaði, garðhúsgögnum o.fl. sem tengdist Skovbakken 7, fyrir 650.000 DKK. Samningar þessir voru samþykktir á fundi stjórnar bankans þann 8. nóvember 1999. 

Kaupréttur stefnda var framlengdur um fimm ár til ársloka 2009 með samningi við bankann þann 9. desember 2003. Eins og í þeim fyrri var þar kveðið á um kauprétt til handa stefnda og eiginkonu hans en fjárhæðum kaupréttarins breytt, en sama ár voru gerðar endurbætur á Skovbakken 7 og m.a. keyptar tvær aðliggjandi lóðir, Skovbakken 3 og 5. Fjárhæð kaupréttarins var því hækkuð upp í 3.000.000 DKK fyrir árið 2004 en hún lækkaði eftir sem áður um 300.000 DKK á ári. Jafnframt var kveðið á um að fjárhæð kaupréttarins myndi lækka sem næmi mismun áætlaðs framkvæmdakostnaðar og raunkostnaðar næði hann ekki 1.500.000 DKK.

Stefndi gerði samning um starfslok sín í október 2007. Í samningnum segir að stefndi og eiginkona hans hafi heimild til að nýta kauprétt sinn í fasteign og lóðum í Danmörku fyrir 1.800.000 DKK fyrir árslok 2008. Stefndi lét af störfum í lok janúar 2008.

Í september 2008 óskaði stefndi eftir því að fá að nýta kaupréttinn og voru þrír kaupsamningar undirritaðir af stefnda þann 8. september 2008 og af hálfu bankans þann 29. sama ár. Samkvæmt kaupsamningnum seldi bankinn stefnda fasteignirnar Skovbakken 3, 5 og 7. Kaupverðið var 350.000 DKK fyrir Skovbakken 3 og 5 hvora um sig en 1.100.000 DKK fyrir Skovbakken 7 eða samtals 1.800.000 DKK eins og tilgreint var í starfslokasamningi hans. Kaupsamningunum var þinglýst 27. október 2008. Afhendingartími eignanna var 1. nóvember 2008 eins og fram kemur í samningunum sjálfum en þá skyldi kaupverðið greitt. Þá fékk stefndi afhent húsgögn og fleira lausafé sem bankinn hafði keypt.

Með ákvörðun þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. í samræmi við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Var stjórn bankans vikið frá störfum og skilanefnd skipuð sem tók við öllum heimildum stjórnar bankans samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995, í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eins og þeim var breytt með lögum nr. 44/2009.

Frestdagur við slit Kaupþings banka hf. var 15. nóvember 2008. Bankanum var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 en sú heimild var framlengd tvívegis. Þann 25. maí 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Lok kröfulýsingarfrests við slit bankans var 29. desember 2009.

Með bréfi, dagsettu 6. október 2010, tilkynnti stefnandi um riftun á sölu fasteignarinnar Skovbakken 7 og afhendingu lausafjármuna í og við fasteignina. Þá var gerð krafa um greiðslu 3.050.000 DKK en til grundvallar fjárhæðinni lá matsgerð fasteignamiðlunarinnar GaardeErhverf A/S frá nóvember 2009. Riftunin var á því byggð að ráðstöfunin hefði falið í sér gjöf til stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir gþl).

Riftuninni var mótmælt af stefnda á þeim grunni að ráðstöfunin hefði falið í sér áunnin launakjör stefnda. Sammæltust aðilar um að afla nýs verðmats á fasteignunum frá fjárfestingarráðgjöf Siesby og Partnere í Danmörku. Niðurstaða lá fyrir í ágúst 2011 og var heildarverðmæti eignanna þá metið 5.175.000 DKK.

Stefnda var birt stefna í máli þessu þann 19. júní 2012 þar sem krafist er riftunar á ráðstöfun til handa stefnda þann 27. október 2008 eins og þar er nánar tilgreint auk endurgreiðslukröfu. Byggir stefnandi fjárkröfu sína á síðara matinu.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn til skýrslugjafar, stefndi Johnie Brögger, Peter Hagen, Pétur Bjarni Magnússon, Kristín Pétursdóttir og Sigurður Einarsson.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um riftun ráðstöfunarinnar á því að í sölu og afhendingu bankans á fasteignunum að Skovbakken 3, 5 og 7 auk húsgagna og annars lausafjár, þann 27. október 2008, hafi falist gjöf til handa stefnda og því sé sú ráðstöfun riftanleg á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. gþl.

Endurgjald sem stefndi innti af hendi fyrir eignirnar hafi verið mun lægra en verðmætin sem hann fékk í hendur samkvæmt verðmati frá sérfróðum aðilum um verðmæti fasteigna, annars vegar frá fasteignamiðluninni GaardeErvherv A/S og hins vegar frá fjárfestingaráðgjöf Siesby og Partnere. Samkvæmt síðarnefnda matinu hafi heildarverðmæti fasteignanna verið allt að 5.175.000 DKK á þeim tíma þegar þeim var ráðstafað til stefnda. Verðmatið fái einnig stoð í þeirri staðreynd að bankinn keypti fasteignina að Skovbakken 7 af stefnda fyrir 3.050.000 DKK, keypti tvær lóðir til viðbótar fyrir 918.650 DKK og réðist þar að auki í kostnaðarsamar endurbætur fyrir samtals 2.893.659 DKK. Samtals hafi bankinn því greitt alls 6.862.309 DKK fyrir eignirnar. Fram kom hjá lögmanni stefnanda við flutning málsins að um væri að ræða þær endurbætur sem framkvæmdar hafi verið á árunum 2008-2011 en óumdeilt sé að stefndi hafi staðið fyrir tilteknum endurbótum sjálfur fyrir þann tíma.

Mismunur endurgjalds stefnda fyrir fasteignirnar, 1.800.000 DKK, og raunverðmætis þeirra, 5.175.000 DKK, samkvæmt mati Siesby og Partnere, sé því að fjárhæð 3.375.000 DKK auk húsgagna og lausafjár að andvirði 650.000 DKK sem engin greiðsla hafi komið fyrir af hálfu stefnda. Gjöf stefnanda til stefnda hafi því numið 4.025.000 DKK sem sé fjárkrafa stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. gþl. megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Reglan sé hlutlæg og gildi huglæg afstaða þeirra sem stóðu að ráðstöfuninni engu. Ákvæði 3. mgr. 131. gr., sem undanskilur tækifærisgjafir og því um líkt, geti ekki átt við um þá ráðstöfun sem hér sé til skoðunar, þar sem um hafi verið að ræða gjöf bankans á grundvelli áður gefins gjafaloforðs, þ.e. kaupréttarsamningsins.

Í 1. mgr. 131. gr. gþl. séu réttaráhrif gjafar miðuð við þann tíma þegar hún er afhent. Þannig sé ekki miðað við hvenær gjafaloforðið var gefið heldur afhendinguna, þ.e. efndir gjafaloforðsins. Þess vegna skipti ekki máli hvenær bankinn og stefndi gerðu með sér kaupréttarsamning. Miða verði tímasetningu gjafarinnar við 27. október 2008 en þá hafi kaupsamningum um fasteignirnar verið þinglýst. Stefnandi miði einnig afhendingu á húsgögnum og öðru lausafé við þann dag. Þrátt fyrir að þau verðmæti hafi verið keypt nokkru áður hafi afhending þeirra farið fram um leið og afhending fasteignanna. Ekki verði því miðað við fyrri dagsetningu hvað það varðar. Frestdagur við slit Kaupþings hf. er 15. nóvember 2008 og því hafi hinn riftanlegi gjörningur farið fram aðeins um hálfum mánuði fyrir frestdag.

Stefnandi byggir á því að bankinn og stefndi hafi verið nákomnir aðilar á þeim tíma sem gjörningurinn var gerður, sbr. einkum 6. tl. 3. gr. gþl. Stefndi hafi, sem framkvæmdastjóri yfir Kaupthing Bank Luxembourg SA, verið einn af helstu stjórnendum innan bankans í tæp tíu ár. Þótt það hafi ekki þýðingu að því er varðar heimfærslu ráðstöfunarinnar til 1. mgr. 131. gr. gþl., megi af því ráða að stefnda hafi verið eða mátti vera fullljóst að um gjafaloforð væri að ræða. Þó svo að stefndi hafi látið af hendi endurgjald fyrir eignirnar skiptir það engu máli þar sem mikill munur hafi verið á greiðslunni og gagngjaldi því sem hann hafi fengið í staðinn.

Ráðstöfunin hafi ekki verið hluti áunninna launakjara stefnda þar sem stefndi hafi ekki verið starfsmaður eða launþegi hjá Kaupþingi banka hf. Ráðningarsamningur stefnda hafi verið við Kaupthing Bank Luxembourg SA. Ekkert ráðningarsamband hafi því verið á milli stefnda og Kaupþings hf. og kaupréttur stefnda hafi því ekki verið hluti af launakjörum hans. Kjósi stefndi að halda sig við þá mótbáru sé skorað á hann að leggja fram gögn sem sýni hvernig hann hafi hagað skattgreiðslum af tekjum sínum í samræmi við það.

Ekki sé áskilið í 1. mgr. 131. gr. gþl. að þrotamaður hafi verið eða orðið ógjaldfær við framkvæmd gjafagernings þótt svo hafi verið í raun. Bankinn hafi ekki getað staðið í skilum við skuldbindingar sínar þegar þær féllu í gjalddaga á þeim tíma sem ráðstöfunin átti sér stað þann 27. október 2008 við þinglýsingu kaupsamninganna. Fjármálaeftirlitið hafði tekið yfir vald hlutafafundar og skipað bankanum skilanefnd og Nýi Kaupþing banki, hafði tekið við innlendum eignum Kaupþings banka hf. til að halda bankastarfsemi áfram. Að þessu sögðu hafi kaupverð eignanna verið óhæfilega lágt og gjafagerningur falist í afhendingu bankans á eignunum til stefnda.

Verði ekki fallist á að um gjöf hafi verið að ræða, byggir stefnandi á því að rifta beri ráðstöfun eignanna á grundvelli almennrar riftunarreglu 141. gr. gþl.

Endurgjaldið sem stefndi hafi látið fyrir eignir hafi, eins og áður er rakið, verið langtum minna en raunverulegt verðmæti þeirra. Kaupþing hf. hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin 27. október 2008 átti sér stað. Vegna knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika bankans hafi FME tekið yfir vald hluthafafundar bankans 9. október 2008, vikið stjórninni frá störfum og skipað skilanefnd. Bankinn hafi því ekki getað staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra hafi fallið í gjalddaga og ekkert útlit fyrir að greiðsluörðugleikar bankans myndu líða hjá innan skamms tíma. Ráðstöfunin hafi því verið stefnda til hagsbóta á kostnað kröfuhafa bankans og leitt til þess að eignir voru ekki til reiðu til fullnustu þeim. Kaupþing hf. og stefndi hafi verið nákomnir aðilar á þeim tíma sem afhending eignanna fór fram. Stefndi hafi hætt störfum aðeins þremur ársfjórðungum áður en til ráðstöfunar fasteignanna kom. Hafi lausafjárskortur sem og eiginfjárvandi bankans þá verið alvarlegur. Stefndi hafi jafnframt verið í persónulegum samskiptum við stjórnarformann bankans um efndir kaupréttarsamningsins og hafi nýtt sér aðstöðu sína og tengsl við bankann. Þess vegna sé hafið yfir allan vafa að stefndi hafi vitað eða mátt vita um alvarlega stöðu bankans og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Fallist dómurinn á riftun með vísan til 131. gr. gþl. er á því byggt að dæma beri stefnda til að endurgreiða stefnanda þá auðgun sem hann hafði af hinni riftanlegu ráðstöfun á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gþl. Þar komi fram að fari riftun fram með stoð í 131.–138. gr. gþl. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúi fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið honum að notum. Tjón búsins sé því mismunur á söluverði og því verði sem bankinn hefði getað selt eignirnar fyrir á almennum markaði. Hann hafi hins vegar orðið af þeirri fjárhæð vegna hinnar riftanlegu ráðstöfunar þar sem eignin hafi verið seld á undirverði.

Stefnandi byggir á því að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að sömu notum og sem svari til raunverulegs verðmætis hinna ráðstöfuðu eigna. Á stefnda hvíli sönnunarbyrðin um að eignirnar hafi komið honum að minni notum.

Verði fallist á riftun með stoð í 141. gr. er vísað til 3. mgr. 142. gr. gþl. Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem nemi raunverulegu verðmæti hinna ráðstöfuðu eigna að frádregnu söluverði þeirra. Hefði hin riftanlega ráðstöfun ekki farið fram hefðu þær eignir sem var ráðstafað að fullu nýst stefnanda til úthlutunar upp í lýstar kröfur við slitameðferð stefnanda. Báðar leiði reglurnar til sömu fjárkröfu, þ.e. hún svari til mismunar raunverulegs verðmætis hinna ráðstöfuðu eigna og þess sem stefndi greiddi fyrir þær.

Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða dráttarvexti af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá og með þeim degi þegar liðinn var mánuður frá því að stefnandi tilkynnti stefnda um riftun ráðstöfunarinnar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

Stefnandi vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa stefnanda um riftun byggir einkum á 131. gr. og 141. gr. laganna. Fjárkrafa stefnanda byggir á 1. og 3. mgr. 142. gr. laganna. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Um varnarþing vísast til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 146/2011 um breytingu á lögunum. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. mgr. 148. gr. gþl., er mál þetta höfðað innan þess frests sem stefnandi hefur til að höfða riftunarmál.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Krafa stefnda um sýknu er reist á því að skilyrði til riftunar sölu og afhendingar á fasteignunum auk húsgagna og annars lausafjár til stefnda á grundvelli 1. mgr. 131. gþl. séu ekki uppfyllt. Jafnframt byggir stefndi á því að ákvæði 142. gr. um tjón séu ekki uppfyllt. Þá byggir stefndi á því að krafa samkvæmt 141. gr. uppfylli augljóslega ekki skilyrði ákvæðisins. 

Stefndi byggir á því að samningur Kaupþings hf. og stefnda um kaup stefnda á fasteignunum hafi verið gagnkvæmur samningur þar sem gengið hafi verið út frá þeirri forsendu að aðilar inntu hvor um sig af hendi ákveðnar greiðslur. Greiðsla stefnda hafi verið fólgin í því að flytja búferlum, skipta um atvinnu og ráðast til starfa hjá bankanum. Með ráðningu hans hafi um leið verið fullnægt skilyrði fyrir því að dótturfélag stefnanda í Lúxemborg fengi útgefið bankaleyfi. Endurgjald stefnda hafi jafnframt falist í því að starfa hjá dótturfélagi stefnanda í Lúxemborg og vinna að afmörkuðum verkefnum fyrir Kaupþing hf. Því sé ekki um gjöf að ræða í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1999. 

Kaup stefnda á fasteignunum að Skovbakken hafi verið gerð á grundvelli skilmála í gagnkvæmum samningi stefnda og Kaupþings banka hf. Samningurinn hafi upphaflega verið gerður árið 1999 sem óhjákvæmileg forsenda bankans til þess að fá stefnda til starfa hjá Kaupthing Bank Luxembourg SA, dótturfélagi stefnanda í Lúxemborg. Í samkomulaginu hafi falist að bankinn keypti húsnæði stefnda og eiginkonu hans í Danmörku, með rétti þeirra til að kaupa húseignina til baka, gegn því að stefndi féllist samhliða á að flytja búferlum til nýs lands og ráða sig til starfa fyrir Kaupthing Bank Luxembourg SA. Miklir hagsmunir hafi verið í húfi fyrir stefnanda enda aðkoma stefnda nauðsynleg til að ná fram samþykki fyrir bankaleyfi til dótturfélags stefnanda í Lúxemborg. Stefndi hafi eftir það starfað í átta ár hjá dótturfélaginu sem á þeim tíma hafi orðið einn af stærri bönkum í Lúxemborg, en fyrir þann tíma hafi starfsemin verið nánast engin.

Til kaupréttarsamningsins hefði ekki komið ef stefndi hefði ekki sem gagngjald samþykkt að flytja búferlum með alla fjölskyldu sína frá Danmörku til Lúxemborgar. Ekki sé hægt að slíta kaup stefnda á fasteignunum í október 2008 úr samhengi við þennan grundvöll að baki kaupunum. Stefndi vísar jafnframt til samþykkis stjórnar stefnda frá 8 nóvember 1999 þar sem fram komi að kauprétturinn sé hluti af samningum við stefnda. Stefndi vísar til þess að eðlilegt samræmi sé á milli greiðslu stefnanda og gagngjalds stefnda, enda samningurinn byggður á viðskiptalegum grunni þar sem stefnandi tryggði sér þjónustu stefnda, viðskiptasambönd, reynslu af stofnun bankastarfsemi og stjórnun banka í Lúxemborg, viðurkenningu yfirvalda þar og samþykki fyrir veitingu bankaleyfis gegn útgáfu kaupréttarsamningsins sem hluta af greiðslu fyrir þá þjónustu. 

Kaupin byggi á og séu í samræmi við ákvæði um kauprétt hans á fasteignunum í gagnkvæmum samningi Kaupþings banka hf. og stefnda frá árinu 1999, og síðar árinu 2003. Á þeim tíma hafi bankinn ekki verið í neinum fjárhagsvanda og útilokað að sjá fyrir hrun bankakerfisins fimm árum síðar. Stefndi bendir á að hann hefði getað krafist þess að kaupa fasteignirnar til baka í samræmi við ákvæði kaupréttarins allt til ársloka 2008 á grundvelli skuldbindandi ákvæða í samningi frá árinu 2003, hvort sem sú krafa hefði beinst að stjórnendum bankans fyrir slit bankans í október 2008 eða eftir þann tíma að skilanefnd eða slitastjórn bankans.

Stefndi vísar jafnframt til þess að kauprétturinn hafi falið í sér kvöð á eignarrétti stefnda sem hafi haldist óbreytt út samningstímann. Stefndi hafi því öðlast nokkurs konar tryggingarréttindi með því að uppfylla samningsskyldur sínar sem takmarki eignarréttindi stefnanda allt til ársloka 2008. 

Kaupréttarsamningurinn hafi ekki verið gerður í því skyni að gefa. Að baki gerð hans liggi ekki gjafatilgangur, heldur sé samningurinn þvert á móti byggður á viðskiptalegum forsendum. Þær forsendur felist m.a. í því endurgjaldi stefnda að ráðast til starfa hjá samstæðu stefnanda og tryggja dótturfélagi stefnanda bankaleyfi í Lúxemborg.

Skilyrði þess að um gjöf sé að ræða í skilningi 131. gr. gþl. sé því ekki uppfyllt. Í þessu sambandi mótmælir stefndi sérstaklega því sem haldið sé fram í stefnu að regla 1. mgr. 131. gr. gþl. sé hlutlæg að öllu leyti og „megi huglæg afstaða þeirra sem stóðu að ráðstöfunni einu gilda“. Eitt af skilyrðum þess að um gjöf sé að ræða í skilningi 131. gr. gþl. sé að skuldari hafi viðhaft hina riftanlegu ráðstöfun í því skyni að gefa.  

Þá mótmælir stefndi sérstaklega fullyrðingum í stefnu um að stefnda hafi sem framkvæmdastjóri yfir Kaupthing Bank Luxembourg SA, „mátt vera fullljóst að um gjafaloforð var að ræða“. Stefndi bendir á að þegar ætlað gjafaloforð hafi verið gefið, þ.e. þegar kaupréttarsamningurinn hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda, hafi stefndi ekki starfað hjá stefnanda og hafði í ljósi atvika réttilega ástæðu til að ætla að um fullnustu á viðskiptalegum samningi væri að ræða, sem væri þáttur í ráðningu hans til dótturfélags stefnanda í Lúxemborg á árinu 1999.

Verði á það fallist með stefnanda að um gjöf sé að ræða í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1999, byggir stefndi á því að afhending gjafar hafi átt sér stað á árinu 1999 og 2004. Ráðstöfunin sé því ekki riftanleg á grundvelli ákvæðisins. Krafa stefnanda sé byggð á mismun á kaupverði fasteignarinnar samkvæmt kaupréttarsamningnum annars vegar og því verði sem stefnandi telur hafa verið raunverðmæti þeirra við söluna. Réttur stefnda til kaupa fasteignanna þriggja á þeim kjörum sem raun varð, hafi verið afhentur strax árið 2003 er síðari samningurinn var gerður. Þá þegar og frá 1999, hvað Skovbakken 7 varðar, hafi kaupréttarsamningurinn verið verðmæti í höndum stefnda sem hann gat nýtt sjálfur til kaupa á fasteignunum, eða framselt öðrum kysi hann svo.

Stefndi byggir á því að kauprétturinn frá 1999 og 2004 sé hin raunverulega gjöf. Kaupréttur sé fjármálagerningur sem gangi kaupum og sölum og hafi verðgildi sem sé reiknað út frá viðurkenndum forsendum. Þeir útreikningar byggi annars vegar á mismun á kaupréttarverði og markaðsverði á hverjum tíma og hins vegar á tímavirði samningsins.

Þá byggir stefndi á því að hann hafi að minnsta kosti fengið hluta gjafarinnar afhentan á árinu 2003 þegar gerður hafi verið nýr kaupréttarsamningur í desember það ár. Á þeim tíma hafði kaupverðið samkvæmt kaupréttarsamningnum lækkað um 1.200.000 DKK.  Hins vegar höfðu kaup á tveimur byggingarlóðum og stækkun og endurbætur hækkað verðmæti eignarinnar og hafi að hluta til verið tekið tillit til þess þegar nýr samningur hafi verið undirritaður í desember 2003. Áhrif kaupréttarsamningsins frá 1999, hafi hins vegar komið að fullu til lækkunar á þeirri fjárhæð.   

                Frá undirritun samningsins 9. desember 2003 og meðan á gildistíma samningsins hafi staðið, m.a. á þeim tíma sem stefndi nýtti sér kauprétt sinn samkvæmt samningnum, hafi Kaupþing hf. verið bundinn af efni samningsins og hafi réttilega mátt ætla að sér væri skylt að lögum að fara eftir efni hans. Hafi hann ekki getað án bótaskyldu skorast undan sölu til stefnda í október 2008, né á þeim tíma haft áhrif á söluverð fasteignanna.

Stefndi mótmælir því að afhendingu skuli miða við þinglýsingu kaupsamninga um fasteignirnar 27. október 2008. Milli samningsaðila sjálfra skipti þinglýsing ekki máli, heldur sé þinglýsingu skjala fyrst og fremst ætlaður sá tilgangur að afla réttindum verndar gagnvart þriðja manni.

Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að engin eignarýrnun hafi orðið hjá stefnanda þegar stefndi hafi kosið að nýta sér kauprétt sinn að fasteignunum í október 2008, sem er skilyrði þess að 131. gr. gþl. verði beitt. Stefnanda hafi verið ljóst frá upphafi að kaupin á eigninni hafi verið háð þeirri kvöð að hann hafi þurft allt til ársloka 2008 að sætta sig við að þurfa að selja stefnda eignina á umsömdu verði samkvæmt kaupréttarsamningnum. Í efnahagsreikningum bankans hafi frá upphafi eignarhalds hans að fasteignunum verið gætt að þeim kauprétti sem hafi hvílt á fasteignunum í Skovbakken. Stefnandi hafi því á tímabilinu ekki getað gert ráð fyrir markaðsvirði eignanna heldur aðeins verðmæti sem hafi svarað til efnis kaupréttarsamningsins. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir tjóni við söluna. Stefnandi hafi aldrei getað gert ráð fyrir því að fá hærra verð fyrir eignirnar á tímabilinu en kaupréttarsamningurinn hafi kveðið á um og hafi að lokum verið greitt við kaup stefnda á fasteignunum í september 2008. Við kaup stefnda hafi ekki átt sér stað nein eftirgjöf verðmæta og ráðstöfunin hafi enga skerðingu haft á eignum stefnanda sem annars hefðu komið til skipta kröfuhafa. Stefndi vísar jafnframt til 1. mgr. 142. gr. gþl sem setur þak á endurgreiðslu riftunarþola sem svarar til tjóns þrotabúsins.

Krafa stefnda um sýknu af kröfum stefnanda er jafnframt á því reist að skilyrði til þess að rifta sölu og afhendingu á fasteignum auk húsgagna og lausafjár til stefnda, á grundvelli almennrar riftunarreglu 141. gr. gþl., séu ekki uppfyllt.

Sala og afhending eignanna byggir á kaupréttarsamningnum frá árinu 2004 og 1999. Var stefnanda samkvæmt þeim skylt að selja stefnda fasteignirnar að ósk þess síðarnefnda, svo og á því kaupverði sem kveðið var á um í samningnum. Ráðstöfun fasteignanna í samræmi við efni kaupréttarsamningsins frá árinu 2004 verði ekki talin ótilhlýðileg af hálfu bankans. Eftir að stefndi hafi hætt störfum hjá bankanum hafði hann engin afskipti haft af bankarekstri. Hann hafði því augljóslega enga vitneskju haft um að stefndi væri ógjaldfær og engar forsendur til þess að geta sér til um það.

Gerð kaupréttarsamningsins geti ekki talist ótilhlýðileg ráðstöfun, eins og aðstæðum hafi áður verið lýst en þá hafi bankinn hvorki verið ógjaldfær né hafi hann orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Því síður hafi stefndi mátt ætla að svo væri.

Verði riftunarkrafa stefnanda tekin til greina, gerir stefndi þá varakröfu að stefnandi endurgreiði kaupverðið og kostnað vegna stækkunar og endurbóta, auk þess ávinnings sem hafi komið til lækkunar á samningi 2003. Í málinu sé óumdeilt að stefndi hafi greitt kaupverð byggingarlóðanna samkvæmt kaupréttarsamningnum, 1.800.000 DKK. Þá sé óumdeilt að stefndi hafi greitt kaupverð byggingarlóðanna að Skovbakken 3 og 5. Loks liggi fyrir m.a. í reikningum sem stefndi hafi afhent bókhaldi stefnanda á árinu 2003 kostnaður vegna stækkunar og endurbóta á húsnæðinu að Skovbakken 7. Stefndi hafi einungis fengið þennan kostnað endurgreiddan að hluta með samningnum frá desember 2003 eða 2.893.659 DKK sem geri mismun upp á 912.498,95. Við aðalmeðferð lagði lögmaður stefnda fram sundurliðað yfirlit til skýringar á varakröfu sinni. Til viðbótar þessum greiðslum hafi stefndi á árinu 2003 áunnið sér 1.200.000 DKK samkvæmt samningi frá 1. desember 1999. Þessar greiðslur komi til lækkunar á kaupverði samkvæmt samningi 9. desember 2003, en eins og áður hefur verið vikið að, hækkuðu greiðslur vegna kaupa á tveimur byggingarlóðum og stækkunar og endurbóta á fasteigninni

Stefndi vísar til þess að riftun feli í sér að þær greiðslur sem hafi verið inntar af hendi á grundvelli samningsins gangi til baka. Af þessu leiði að þegar gagnkvæmum samningi hafi verið rift eigi hvorugur samningsaðila rétt á því að fá í hendur greiðslu samkvæmt samningnum eða ígildi hennar. Stefndi vísar jafnframt til 144. gr. gþl. nr. 21/1991 til stuðnings þrautavarakröfu sinni. 

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu stefnda gerir stefndi þá þrautavarakröfu að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar út frá endurgreiðslureglum gjaldþrotalaga. Reglan um endurgreiðslu auðgunar í peningum, þegar rift sé á grundvelli 131. gr. gþl. feli í sér að aðeins beri að greiða fé sem svari til þess sem greiðsla þrotabúsins hafi orðið stefnda að notum. Endurgjaldið geti þó aldrei verið hærra en sem nemi tjóni þrotabúsins. Að mati stefnanda taki fjárkrafa hans mið af „raunverulegu verðmæti hinna ráðstöfuðu eigna“ með vísan til verðmats Siesbye & Partners á eignunum Skovbakken 3, 5 og 7 árið 2008, fyrir fjármálakreppuna, sem stefnandi hafi látið framkvæma.

Stefndi mótmælir því að rétt geti verið að miða fjárkröfu í málinu við framangreint verðmat. Ljóst sé að verðmæti þau sem stefnda hafi verið afhent við kaup hans á fasteignunum árið 2008, hafa fallið mikið í verði. Krafa stefnanda svari því ekki til þess sem greiðslan hafi orðið stefnanda að notum. Í ljósi verðmætarýrnunarinnar verði fjárkrafa að taka mið af tímasetningu riftunar en ekki því þegar kaup hafi átt sér stað á árinu 2008.

Niðurstaða framangreinds verðmats, sé langt umfram raunæft endursöluverð fasteignanna. Um sérstaka eign sé að ræða sem sé mjög erfið í almennri sölu. Stefndi hafi upplýsingar um að aldrei hafi verið seld eign í Lemvig á því verði sem stefnukrafan miði við. Krafa stefnanda fari því fram úr því sem ætla megi að fengist við sölu fasteignanna á almennum markaði og sé þar af leiðandi hærri en sem nemi tjóni stefnanda.

Þá byggir stefndi á því að lækka beri kröfur stefnanda á þeim grunni að verðmat Siesbye & Partners á eignunum fyrir árið 2008 taki ekki mið af því að stefndi hafi frá þeim tíma staðið fyrir endurbótum á húsnæðinu sem skekki verðmat fyrirtækisins á eignunum á árinu 2008. Þá mótmælir stefndi sönnunargildi þeirra matsgerða sem stefnandi leggur fram í málinu. 

Stefndi byggir jafnframt á því að greiðslur að fjárhæð 1.200.000 DKK komi til lækkunar enda hafi hann áunnið sér þær á árinu 2003 þegar samningnum hafi verið breytt 9. desember 2003. Þessi fjárhæð hafi komið að fullu til lækkunar kauprétti á þeim tíma, sbr. nánari umfjöllun hér að framan. Stefndi mótmæli kröfu um 650.000 DKK vegna húsgagna og lausafjár. Sú fjárhæð sem stefnandi telji andvirði umræddra muna taki á engan hátt mið af þeirri verðmætarýrnun sem hafi orðið á þeim 10 árum sem munirnir hafi verið í eigu bankans. Í raun séu þessi húsgögn verðlítil ef ekki verðlaus, a.m.k. sé ljóst að stefndi hafi ekki fært fram nein gögn um verðmæti þeirra við riftun.

Telji dómurinn að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda byggir stefndi á því að hann eigi þá til skuldajafnaðar kröfu á hendur stefnanda á grundvelli þeirra greiðslna sem hann hafi innt af hendi vegna húsnæðisins og sundurliðaðar séu í framlögðu yfirliti. Jafnframt komi til skuldajöfnunar 1.200.000 kr. vegna áunninna réttinda stefnda á árinu 2003 sem hafi komið til lækkunar kaupverðsins á samningnum frá 9. desember. 2003. 

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Sú riftun sem stefnandi tilkynnti um með bréfi dags. 6. október 2008 hafi einvörðungu snúið að Skovbakken 7, og lausafjármunum, og hafi krafan numið mun lægri fjárhæð en þeirri sem stefnandi telji rétt að miða dráttarvexti við. Það hafi fyrst verið við málshöfðunina sem krafist hafi verið riftunar á sölu og afhendingu á fasteignum að Skovbakken 3 og 5 og greiðslu 4.025.000 DKK. Þetta ósamræmi í kröfugerð leiði til þess að ekki sé hægt að krefjast dráttarvaxta af stefnufjárhæð fyrr en frá þingfestingardegi, enda hafi endanleg fjárhæð ekki legið fyrir, fyrr en í stefnu.

Til stuðnings aðal-, vara-, og þrautavarakröfu sinni vísar stefndi til allra þeirra röksemda sem hér hafa verið raktar eftir því sem við getur átt, hvort sem þær eru reifaðar sérstaklega undir umfjöllun um einstakar kröfur eða koma fram í umfjöllun undir öðrum kröfum. Þannig geti röksemdir í aðalkröfu einnig átt við um varakröfu og öfugt. 

Stefndi mótmælir sérstaklega málatilbúnaði stefnanda varðandi skattgreiðslur.  Stefndi hafi búið í Lúxemborg síðan 1999 og því verið búsettur þar þegar kauprétturinn hafi verið nýttur. Samkvæmt skattalögum í Lúxemborg sé ekki greiddur skattur af nýtingu kaupréttar og raunar sé ekki greiddur skattur af t.d. hlutabréfaviðskiptum í Lúxemborg ef eignarhald hefur staðið í lengri tíma en sex mánuði. Ef einhver vanhöld væru á skattgreiðslum stefnda væri það ekki á hendi stefnanda heldur viðkomandi opinberra aðila að ganga úr skugga um að réttilega væri að málum staðið hvað það varðar. Umfjöllun stefnanda að þessu leyti sé því einungis tilraun til þess að drepa málinu á dreif.

Þá mótmælir stefndi hugleiðingum stefnanda um að kauprétturinn hafi ekki verið hluti af launakjörum. Kaup á fasteigninni hafi óhjákvæmileg verið forsenda þess að stefndi réðist til starfa hjá stefnanda og dótturfélagi stefnanda í Lúxemborg og það gjald sem stefnandi var reiðubúinn að greiða. Það sé rangt að stefndi hafi ekki starfað fyrir stefnanda. Í upphafi hafi störf hans að verulegu leyti verið í þágu móðurfélagsins. 

Stefndi vísar til þess að skilyrði gþl. fyrir kröfu stefnanda séu ekki uppfyllt, sbr. einkum ákvæði laga nr. 131. gr., 141. gr., og 142. gr. gþl. Um rökstuðning fyrir endurgreiðslu auðgunar vísar stefndi til 142. gr. gþl.

Stefndi vísar jafnframt til meginreglna um riftun og 144. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 svo og meginreglna um skuldajöfnuð.

Um upphafstíma vaxta er vísað til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. einkum 5. gr. um upphafstíma dráttarvaxta. Krafa stefnda um málskostnað er byggð á XXI kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

                Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á ráðstöfun Kaupþings banka hf. sem fólst í því að selja og afhenda stefnda fasteignir í Danmörku ásamt húsgögnum og öðru lausafé. Stefnandi byggir riftunarkröfu sína aðallega á því að um gjafagerning hafi verið að ræða samkvæmt 1. mgr. 131. gr. gþl. Verði ekki fallist á kröfu um riftun á þeim grunni byggir stefnandi kröfu sína á 141. gr. gþl. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að endurgreiða sér 4.025.000 DKK á grundvelli 1. eða 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

                Eins og rakið hefur verið í málavaxtalýsingu var í nóvember 1999 gerður ráðningarsamningur á milli Kaupþings Luxembourg SA og stefnda. Samhliða honum gerðu Kaupþing hf., eins og bankinn hét þá, og stefndi samning um kaup hins fyrrnefnda á húseigninni Skovbakken 7 af stefnda fyrir 3.050.000 DKK sem og lausafjár með eigninni fyrir 650.000 DKK. Samningurinn kvað jafnframt á um kauprétt stefnda og eiginkonu hans á eigninni fyrir ákveðið verð sem nánar var tilgreint í samningnum. Kaupréttarsamningurinn var framlengdur árið 2003 varðandi Skovbakken 7 auk þess sem þá höfðu bæst við aðliggjandi lóðir nr. 3 og 5. Heildarverð eignanna var þá talið nema 3.000.000 DKK.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að ofangreindar ráðstafanir hafi verið hluti af áunnum launakjörum sínum. Stefnandi telur hins vegar að svo hafi ekki verið enda hafi stefndi ekki verið starfsmaður eða launþegi hjá Kaupþingi hf. Þannig hafi ekki verið ráðningarsamband á milli stefnda og bankans og umræddar ráðstafanir þannig ekki tengdar ráðningu hans sem framkvæmdastjóra bankans í Lúxemborg.

                Málsaðila greinir ekki á um tildrög þess að stefndi var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri dótturfélags Kaupþings hf. í Lúxemborg. Þá hefur því ekki verið mótmælt að hann hafi unnið í þágu móðurfélagsins, sem einn af æðstu yfirmönnum þess, í tæpan áratug, ekki aðeins við uppbyggingu dótturfélagsins heldur og almennt við uppbyggingu bankastarfsemi á Norðurlöndunum. Fyrir dómi lýstu vitnin Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður bankans, og Kristín Pétursdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar, í meginatriðum þessu hlutverki stefnda og samstarfi þeirra við hann. Fram kom hjá Sigurði að hann hefði haft frumkvæði að ráðningu stefnda og undirritað þá samninga sem áður er lýst fyrir hönd Kaupþings hf. Kvað hann bankaleyfi dótturfélagsins í Lúxemborg ekki hafa legið fyrir þegar gengið var frá kaupréttarsamningi við stefnda. Því hafi þótt hentugra að staðið væri að gerð samningsins með þeim hætti sem gert var.

Fyrir liggur að stjórn Kaupþings hf. samþykkti kaup á húsi stefnda að Skovbakken 7, en í fundargerð frá 17. nóvember 1999 kemur fram að um sé að ræða hluta af samningi við stefnda og að hann fái kauprétt á húsinu til fimm ára. Í ljósi þeirrar ráðstöfunar sem hér var um að ræða og sér í lagi þar sem dótturfélagið í Lúxemborg hafði á þessum tíma ekki fengið leyfi til að starfrækja bankaþjónustu ber að líta svo á að kaupréttarsamningurinn hafi verið hluti af launakjörum stefnda eins og skýrt kemur fram í ofangreindri fundargerð stjórnar bankans. Aðalatriði er að Kaupþing hf. var bundinn af umræddri ráðstöfun og lágu því viðskiptalegar forsendur því til grundvallar. Skiptir í því sambandi ekki máli hvernig skattskilum stefnda var háttað í Lúxemborg vegna þessa enda er það ekki hluti af sakarefni málsins.

Til þess er jafnframt að líta að í áðurgreindum ráðningarsamningi eru ákvæði um launauppbót sem m.a. reiknast af árlegum hagnaði hinnar svokölluðu Kaupþings banka samstæðu. Að mati dómsins verður því í þessu samhengi að líta til inntaks starfs stefnda, sem ekki einskorðaðist við dótturfélagið í Lúxemborg, og telja að hann hafi einnig verið starfsmaður Kaupþings hf., þ.e. móðurfélagsins. Er því ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi hvorki verið starfsmaður né launþegi Kaupþings hf.

Kemur þá til skoðunar hvort þau launakjör sem hér um ræðir hafi falið í sér gjafagerning í skilningi gþl. Afsöl fasteignanna sem hér um ræðir voru móttekin til þinglýsingar þann 27. október 2008 en frestdagur var 15. nóvember 2008. Telst ráðstöfunin því hafa farið fram innan ofangreinds frests. Óumdeilt er að húsgögn og lausafé fylgdi með og telst þannig hluti af ráðstöfuninni.

Ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur verið skýrt svo að undir það falli hver sú ráðstöfun sem rýri eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af henni, enda hafi búið gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni, sbr. til hliðsjónar dómar Hæstaréttar nr. 314/2013 og 664/2013. Þá getur verið fólginn örlætisgerningur í gagnkvæmum samningum þegar umtalsverður munur er á greiðslu þess sem hefur hag af ráðstöfuninni og því gagngjaldi sem hann hefur fengið í staðinn.

                Við mat á því hvort um gjafagerning eða örlætisgerning hafi verið að ræða samkvæmt 1. mgr. 131. gr. gþl. þarf að líta til hinna samtengdu huglægu og hlutlægu skilyrða ákvæðisins. Þegar því er svarað hvort gjafatilgangur hafi búið að baki ráðstöfununum sem hér er krafist riftunar á, verður að hafa í huga að um var að ræða gagnkvæman vinnu- og launasamning á milli Kaupþings hf. og stefnda, og var kaupréttarsamningurinn einn þáttur hans. Endurgjald stefnda var vinnuframlag hans og er óumdeilt að hann hafi innt það af hendi. Af samningnum leiddi að því lengur sem stefndi starfaði fyrir bankann þeim mun lægra varð endurgjaldið fyrir eignirnar þegar hann nýtti kaupréttinn. Aðspurður kvað Sigurður Einarsson að ekki hefði verið um gjöf að ræða, heldur leið til að fá stefnda til Kaupþings hf. og eðlilegan þátt í því að fá mjög hæfan aðila til starfa til hagsbóta fyrir félagið. Hafi verið um „góðan samning“ að ræða fyrir Kaupþing hf. og hefði jafnvel mátt ganga lengra en gert var til þess að fá stefnda til starfa á þessum tíma.

                Í málinu liggur frammi tvenns konar verðmat vegna fasteignanna. Stefnandi miðar fjárkröfu sína við hærra verðmatið frá 9. ágúst 2011, en þar er annars vegar litið til markaðsverðs á þeim tíma er verðmatið fór fram og hins vegar áætlaðs verðs í september 2008 fyrir fjármálakreppuna.

Að mati dómsins verður að hafa í huga að um kauprétt var að ræða sem stefndi og eiginkona hans gátu framselt eða nýtt sér á gildistíma samningsins eða fram til ársloka 2009 eftir að hann var framlengdur árið 2003. Allan samningstímann var kaupréttarsamningurinn framkvæmdur eins og upphaflega var gert ráð fyrir þ.e. með að lækka endurkaupsverð um 300.000 DKK fyrir hvert starfsár stefnanda. Þannig var samfella í lækkun endurkaupsverðs í samræmi við ákvæði samningsins sjálfs.

Þá var það forsenda stefnda frá upphafi að hann gæti keypt fasteign sína aftur og þar með tryggt sig ef væntingar brygðust og hann myndi snúa aftur til Danmerkur. Í starfslokasamningi stefnda, frá 30. október 2007, kemur fram að stefndi og eiginkona hans „mega nýta sér kauprétt sinn að húsinu og hinum tveimur byggingarlóðum í Danmörku fyrir 1.800.000 DKK, sem leiða skuli til lykta fyrir árslok 2008“. Þegar stefndi ákvað að nýta sér kaupréttinn varð samningsbundið kaupverð eignanna því, vegna hins langa starfstíma hans, eðlilega mun lægra en raunverð eignanna samkvæmt mati.

                Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að gjafatilgangur hafi búið að baki þeim ráðstöfunum sem krafist er riftunar á, heldur lágu að baki þeim viðskiptalegar forsendur og samningar sem réttlættu þann verðmun sem var á greiðslum. Af þessum ástæðum er ekki fallist á riftun, með vísan til 1. mgr. 131. gr. gþl., á þeim grunni að um örlætisgerning hafi verið að ræða.

                Stefnandi byggir kröfu sína um riftun jafnframt á 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt greininni má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Telur stefnandi öll skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Jafnframt byggir hann á því að Kaupþing hf. og stefndi hafi verið nákomnir aðilar á þeim tíma sem afhending eignanna fór fram. Telur hann að ráðstafanirnar hafi verið ótilhlýðilegar í sjálfu sér og til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað annarra kröfuhafa enda hafi endurgjaldið sem stefndi hafi greitt fyrir umræddar eignir verið langtum minna en raunverulegt verðmæti þeirra.

Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði ofangreinds ákvæðis séu uppfyllt. Grundvallarskilyrði þess er að ráðstöfun sé talin ótilhlýðileg. Óumdeilt er að Kaupþing hf. hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er afsölum vegna eignanna að Skovbakken var þinglýst.

Eins og áður er rakið gerði stefndi samning um starfslok sín í lok október 2007. Hann lét af störfum í byrjun janúar 2008 en í september sama ár óskaði hann eftir því að nýta sér kauprétt sinn í samræmi við samninginn. Í ljósi þess sem áður hefur verið rakið og með vísan til þeirrar niðurstöðu, að ekki hafi verið fólginn örlætisgerningur í þeirri ráðstöfun sem stefnandi krefst að verði rift, verður hún ekki talin vera ótilhlýðileg í sjálfu sér. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fallist á það með stefnanda að skilyrði riftunar samkvæmt ákvæðinu séu fyrir hendi.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar sem ákveðinn er 950.000 krónur að teknu tilliti til kostnaðar við flutning vegna frávísunarkröfu.

Sigríður Hjaltested, héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Johnie Wilson Brögger, er sýkn af kröfum stefnanda, Kaupþings hf. í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 950.000 krónur í málskostnað.