Hæstiréttur íslands

Mál nr. 591/2012


Lykilorð

  • Kaup
  • Hlutafé
  • Kröfuréttur
  • Vanreifun
  • Samaðild


Fimmtudaginn 7. mars 2013.

Nr. 591/2012.

Elínborg H. Sigurðardóttir

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Gesti Pálssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kaup. Hlutafé. Kröfuréttur. Vanreifun. Samaðild.

G krafðist greiðslu úr hendi E á grundvelli kaupsamnings þar sem E keypti, ásamt F ehf., allt hlutafé G í S ehf. E krafðist sýknu og byggði á því að krafan hafi verið niður fallin vegna samkomulags aðila, hið selda hafi verið haldið göllum, forsendur fyrir kaupsamningnum hafi brostið og G hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar. Fyrir Hæstarétti krafðist E frávísunar málsins frá héraðsdómi á grundvelli þess annars vegar að málatilbúnaðar G væri vanreifaður og óljós en hins vegar að þörf hafi verið á samaðild E og F ehf. til varnar í málinu. Var á hvorugt fallist af hálfu Hæstaréttar. E byggði sýknukröfu sína jafnframt á þeirri málsástæðu að efndaskylda væri ekki orðin og yrði ekki á sýknukröfu fallist bæri að sýkna hana að svo stöddu. Taldi Hæstiréttur að ekki yrði séð að E hafi fyrir héraðsdómi hreyft þessari málsástæðu og kæmi hún því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu E.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2012. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hún sýknu af kröfu stefnda en að því frágengnu að krafa hans verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í áfrýjunarstefnu er leitað endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms uppkveðnum 7. desember 2011 þar sem frávísunarkröfu áfrýjanda var hafnað.

Stefndi byggir kröfu sína á hendur áfrýjanda á kaupsamningi 30. júlí 2007. Samkvæmt honum keypti áfrýjandi ásamt Fasteignaveri ehf. allt hlutafé stefnda í Slitlagi ehf. og var kaupverðið 6.000.000 krónur sem skyldi greiðast í þremur greiðslum, 2.000.000 krónur við undirritun samnings, 2.000.000 krónur 1. ágúst 2007 og 2.000.000 krónur í síðasta lagi 1. nóvember 2007. Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um síðustu greiðsluna sem hann kveður vera í vanskilum.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því annars vegar að málatilbúnaður stefnda sé vanreifaður og óljós og uppfylli ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hins á því að þörf hafi verið á samaðild áfrýjanda og Fasteignavers ehf. til varnar í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Um þá röksemd áfrýjanda að málið sé vanreifað er þess að gæta að samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ber að greina í héraðsdómsstefnu frá málsástæðum sem stefnandi reisir dómkröfu sína á svo og öðrum atvikum sem þarf að geta svo að samhengi málsástæðna verði ljóst. Ekki er á hinn bóginn ætlast til að í stefnu sé fjallað um hugsanlegar málsástæður, sem stefndi kann að bera fyrir sig í greinargerð ef hann tekur til varna í máli heldur svarar stefnandi slíku jafnskjótt og tilefni verður til. Í stefnu er getið með fullnægjandi hætti um þær málsástæður sem teflt er fram til stuðnings því að kröfur stefnda á hendur áfrýjanda skuli teknar til greina og er samhengi þeirra ljóst. Í málinu er sú staða uppi að skylda til greiðslu peningakröfu samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi hvílir á áfrýjanda og Fasteignaveri ehf., enda ekki fram komið að um aðra skiptingu hafi verið samið. Leiða reglur kröfuréttar þá til þess að skuldbindingin hvílir óskipt á þeim báðum. Við slíkar aðstæður getur kröfueigandi krafið hvorn skuldarann um sig um fullar efndir á skuldbindingunni í heild sinni án þess að honum sé þörf á að beina kröfu sinni jafnframt að hinum. Var því engin nauðsyn til samaðildar áfrýjanda og Fasteignavers ehf. Samkvæmt framanröktu eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi.

Í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi sýknukröfu sína meðal annars á þeirri málsástæðu að efndaskylda sé ekki orðin og verði ekki fallist á sýknukröfu hennar beri að sýkna hana að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi fyrir héraðsdómi hreyft þessari málsástæðu og kemur hún því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt gögnum málsins kom eiginmaður áfrýjanda, Ásgeir Gunnarsson, að einhverju leyti fram fyrir hennar hönd vegna viðskiptanna og mætti hann meðal annars á hluthafafund í Slitlagi ehf. 5. mars 2007, þar sem ársreikningur félagsins 2006 var ræddur og upplýst var um fyrirhuguð kaup áfrýjanda á hlut stefnda í félaginu. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Elínborg H. Sigurðardóttir, greiði stefnda, Gesti Pálssyni, 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. júní 2012.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 18. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 5. maí 2011.

Stefnandi er Gestur Pálsson, kt. [...], Blikahjalla 13, Kópavogi.

Stefndi er Elínborg H. Sigurðardóttir, kt. [...], Lækjarmóti, Selfossi. 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 2.000.000 auk vanskilavaxta p.a., skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.11.2007 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi krafðist aðallega frávísunar, en frávísunarkröfu stefnda var hafnað með úrskurði dómsins 7. desember sl.  Til vara krafðist stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og er það nú aðalkrafa stefnda, en til þrautavara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og er það því varakrafa stefnda nú.  Þá krefst stefndi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að þann 30. júlí 2007 hafi aðilar gert með sér kaupsamning um að stefnda myndi, ásamt Fasteignaveri ehf., kaupa allt hlutafé stefnanda í Slitlagi ehf., eða 37% af heildarhlutafé félagsins.  Hafi kaupverð verið kr. 6.000.000 og skyldu greiðast kr. 2.000.000 við undirritun, kr. 2.000.000 þann 1. ágúst 2007 og kr. 2.000.000 eigi síðar en 1. nóvember 2007.  Kveður stefnandi stefnda ekki hafa staðið skil á lokagreiðslunni og hafi henni verið send innheimtuviðvörun 25. febrúar 2011.  Þar sem viðvöruninni hafi ekki verið svarað hafi verið sent innheimtubréf 17. mars 2011.  Hafi stefndi ekki orðið við áskorun stefnanda um greiðslu kröfunnar og sé því málshöfðun óhjákvæmileg.

Í greinargerð stefnda er því lýst að fyrir undirritun kaupsamnings þess sem að ofan er lýst og aðilar eru sammála um að hafi verið gerður, hafi stefnandi lýst því yfir að félagið væri vel statt, að hlutafé þess væri kr. 4.000.000 og að rekstur þess væri að öllu leyti til fyrirmyndar.  Eftir kaupin hafi stefndi þó orðið þess áskynja að starfsemi félagsins væri ekki svo sem lýst hafi verið.  Hlutafé hafi einungis verið um kr. 400.000 og verulega hafi skort á að fullnægt væri kröfum laga um hlutafélög nr. 2/1995 og kröfu laga um ársreikninga nr. 3/2006, enda hafi ársreikningar ekki verið gerðir og bókhald í miklum ólestri. Hafi verið ljóst að stjórn Slitlags ehf. hafi ekki viðhaft eðlilegt eftirlit með bókhaldi og fjármunum félagsins.  Sá grunnur sem talið hafi verið að unnt væri að byggja á úr bókhaldi og fyrri ársreikningum við gerð ársreikninga fyrir árin 2008 og 2009 hafi reynst þurfa nánari skoðunar við.  Engin gögn eða uppgjör hafi borist vegna fjármuna sem hefðu verið færðir úr sjóðum félagsins. Stefnandi, ásamt Sigurði Óla Grétarssyni, eiganda Fasteignavers ehf. og framkvæmdastjóra Slitlags ehf., hafi markvisst haldið bókhaldsgögnum frá öðrum stjórnarmönnum, þ. á m. stefnda.

Þegar ljóst hafi verið orðið að ekki væri allt með felldu í rekstrinum hafi stefndi farið þess á leit að umsamið kaupverð yrði lækkað.  Hafi aðilar náð samkomulagi um að litið yrði á þær greiðslur sem þegar hefðu verið greiddar sem fullnaðargreiðslu eða a.m.k. að kaupverð yrði lækkað til muna.  Hafi verið afráðið að lokagreiðslan yrði ekki greidd í samræmi við ákvæði samningsins heldur yrði gengið frá nýju samkomulagi um efndir.

Í ljósi ofangreinds hafi stefnandi látið hjá líða að krefja stefnda og Fasteignaver ehf. um lokagreiðslu og engar innheimtuaðgerðir farið fram næstu árin.  Í febrúar 2011 hafi stefndi hins vegar fengið áskorun um að greiða lokagreiðsluna, en skömmu áður hafi Slitlag ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Á þessum tíma hafi stefnandi hins vegar engan reka gert að því að ganga frá fyrirhuguðu og áður nefndu samkomulagi og hafi stefndi því talið að stefnandi hafi litið á greiðsluna 1. ágúst 2007 sem fullnaðargreiðslu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til ofangreinds kaupsamnings sem gerður hafi verið milli aðila og hafi ekki verið efndur að fullu, en lokagreiðsla kr. 2.000.000, sem greiðast hafi átt eigi síðar en 1. nóvember 2007, hafi ekki verið innt af hendi.  Hafi stefndu verið send innheimtuviðvörun og innheimtubréf, en ekki verið orðið við því og sé því málssókn óhjákvæmileg.

Kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða, en krafa um dráttarvexti styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggi á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður og lagarök stefnda

Vegna sýknukröfu sinnar vísar stefndi til fjögurra málsástæðna.  Það er að meint krafa sé fallin niður vegna samkomulags aðila, að gallar hafi verið á hinu selda, að forsendur séu brostnar og þá vísar stefndi til tómlætis af hálfu stefnanda.

Vísar stefndi til þess að samkomulag hafi orðið milli með stefnanda og stefnda um að lækka kaupverðið.  Eftir gerð kaupsamningsins hafi orðið ljóst að staða Slitlags ehf. hafi verið mun lakari en stefnandi hafi upplýst stefnda um og að stefnandi hafi þess vegna lofað stefnda því að stefndi yrði ekki krafin um umsamda fjárhæð.  Þvert á móti ætti að endurskoða kaupverðið og líta á fyrstu tvær greiðslurnar, sem hefðu verið greiddar, sem fullnaðargreiðslu.   Til stuðnings þessu bendir stefndi á fundargerð Slitlags ehf. frá 13. maí 2009, þar sem segi að reyna eigi að ganga frá greiðsluplani vegna umræddrar skuldar stefnda. Kveður stefndi að þetta sýni ljóslega að samkomulag hafi orðið milli aðila um að víkja frá ákvæðum kaupsamningsins. Það hafi verið gagnkvæmur skilningur að kaupverðið yrði endurskoðað. Bókun í fundargerð félagsins um að ganga þyrfti frá greiðsluáætlun vegna skuldarinnar hefði verið alls óþörf ef stefnandi hefði ætlað sér að byggja á ákvæðum kaupsamningsins.

Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt kaupsamningnum hafi átt að greiða síðustu greiðsluna 1. nóvember 2007, en stefnandi hafi hins vegar ekki krafið um þá fjárhæð en þvert á móti gefið í skyn að stefndi yrði ekki krafin um frekari greiðslur.  Engar innheimtuaðgerðir af hálfu stefnanda hafi átt sér stað fyrr en með bréfi 25. febrúar 2011, skömmu áður en stefnandi hafi höfðað mál þetta. Styðji þetta það að aðilar hafi báðir litið svo á að ekki yrði af frekari greiðslum. Athafnaleysi stefnanda í þessu efni verði skilið svo að hann hafi ekki ætlað að krefjast fullra efnda samkvæmt samningnum. Við mat á því hvort samkomulag um lækkun kaupverðsins teljist hafa komist á verði stefnandi í öllu falli að bera allan halla af framangreindu tómlæti sínu.

Þá byggir stefndi á því að ef ekki verði talið að komist hafi á samkomulag um að síðasta greiðslan samkvæmt kaupsamningi aðila yrði felld niður eða í öllu falli lækkuð, þá hafi hið selda  verið gallað og að hún eigi rétt á afslætti eða skaðabótum úr hendi stefnanda af þeim sökum.  Um þetta vísar stefndi til 17. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2002 og þeirrar almennu skilgreiningar kröfuréttar að greiðsla teljist vera haldin galla hafi hún ekki þá eiginleika sem móttakandi hafi mátt ætla eða greiðandi lofað að hún hefði.

Kveður stefndi hlutafé Slitlags ehf. hafa í raun verið mun minna en lofað hafi verið fyrir kaupin.  Hafi hlutafé verið kr. 400.000 en ekki 4.000.000.  Þá hafi stjórnun félagsins verið í miklu ósamræmi við það sem stefnandi hafi upplýst hana um við gerð kaupsamningsins. Raunverulegt verðmæti hins selda hafi þannig verið mun minna en stefnandi hafi lofað fyrir kaupin. Stefnandi hafi m.a. ábyrgst að skil ársreikninga og bókhald félagsins væri í góðu horfi og að fjárhagsleg staða félagsins væri góð. Raunin hafi hins vegar verið sú að ársreikningum hafi ekki verið skilað og að bókhaldi félagsins hafi verið verulega ábótavant.  Stefnandi og Sigurður Óli Grétarsson, framkvæmda­stjóri Slitlags ehf. og eigandi Fasteignavers ehf.,  hafi haldið bókhaldsgögnum frá öðrum stjórnarmönnum og neitað að afhenda þau þegar eftir því hafi verið leitað af hálfu stjórnar. Stefndi hafi aldrei fengið aðgang að neinum gögnum, reikningum og reikningseyðublöðum sem stefnandi hafði þó ábyrgst við kaupin.  Hafi stefnandi og Sigurður Óli m.a. haldið gögnum, sem hefðu getað upplýst um persónulegar úttektir þeirra og hafi stefndi og aðrir stjórnarmenn ekki fengið þau gögn.  Hafi stefnandi og Sigurður Óli þannig reynt að leyna raunverulegri stöðu félagsins. Úttektir þeirra hafi verið með öllu óútskýrðar í bókhaldi félagsins. Stefnandi og Sigurður Óli hafi stjórnað félaginu einhliða og tekið ákvarðanir um málefni þess án samráðs við aðra stjórnarmenn, þ.m.t. stefnda. Vegna þessa hafi málefnum félagsins aldrei verið komið í eðlilegt horf og stefndi því aldrei fengið þann söluhlut sem hún hafi talið sig vera að kaupa, sbr. 17. gr. laga nr. 50/2002.

Framangreindu til viðbótar hafi stefnandi og Sigurður Óli stofnað félagið Bikun ehf. um leið og þeir hættu þátttöku í rekstri Slitlags ehf. og farið að sinna sambærilegri starfsemi og Slitlag ehf. hafi gert á greindum tíma. Þeir hafi t.d. tekið til hins nýja félags verkefni sem Slitlag ehf. hafi áður haft aðkomu að. Með þessu hafi stefnandi rýrt stöðu félagsins enn frekar og þannig gert hið selda verðminna en hann hafi lofað þegar kaupsamningur aðila var gerður.  Jafnvel þó ekki hafi í nefndum kaupsamningi verið lýst tilteknum eiginleikum hins selda þá sé ljóst að stefndi hafi mátt gera þær kröfur að söluhluturinn hefði a.m.k. þá eiginleika sem slíkir hlutir hafa venjulega, sbr. einkum a-lið 2. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2002. Stefndi hafi fjárfest í hlutabréfum í einkahlutafélagi í góðri trú, og hafi mátt gera ráð fyrir því að farið væri að lögum og reglum í rekstri félagsins og að stefnandi, sem var í stjórn félagsins á greindum tíma, myndi upplýsa um alla misbresti þar á.

Kröfur sínar um afslátt af kaupverði kveðst stefndi byggja á því að hinn keypti hlutur hafi ekki haft þá eiginleika sem stefnandi hafi haldið fram við stefnda og á grundvelli rangra upplýsinga hafi hún því greitt of hátt verð fyrir hlutinn. Stefnandi hafi ábyrgst eða heitið tilteknum eiginleikum varðandi hið selda, en þeir eiginleikar hafi ekki verið til staðar og hafi stefnanda verið það fullljóst, verandi stjórnarmaður í félaginu.  Við kaupin 30. júlí 2007 hafi það  verið forsenda og ákvörðunar­ástæða stefnda að verðmæti félagsins og starfsemi þess svaraði nokkurn veginn til þess sem stefnandi hafi tiltekið og stefndi hafi talið sig mega vænta af orðum hans. Vísar stefndi sérstaklega til þess að stefnanda hafi mátt vera ljóst að stefndi treysti á upplýsingar hans um verðmæti og rekstur félagsins. Þannig hafi í verulegum mæli brostið forsenda stefnda til kaupanna og það af ástæðum sem stefnanda hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um.  Svo mikill munur hafi verið á þeim upplýsingum sem stefnandi hafi látið henni í té fyrir og við samningsgerðina og raunverulegri stöðu félagsins, að það teljist vera galli í skilningi kauparéttar.  Stefnda hafi því verið rétt að beita vanefndaúrræðum samkvæmt 42. gr. laga nr. 50/2002 og halda eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægði til að tryggja kröfu hennar, en sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda af þessum sökum. Stefndi kveðst krefjast þess að verðákvæði nefnds kaupsamnings verði leiðrétt þannig að samhengi haldist á milli greiðslu og endurgjalds og að afsláttur verði veittur, sbr. 38. gr. laga nr. 50/2002. Kveður stefndi að afsláttinn beri að reikna þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma. Í greinargerð áskildi stefndi sér rétt til þess að fara fram á dómkvaðningu matsmanns til að sýna fram á umfang hinna meintu galla, en ekki varð hins vegar af því.

Vegna málsástæðu sinnar um brostnar forsendur kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína sjálfstætt á meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur. Það hafi verið veruleg forsenda fyrir samningi aðila að staða Slitlags ehf. væri í samræmi við yfirlýsingar stefnanda og að aldrei hefði orðið af kaupunum ef stefnda hefði verið kunnugt um raunverulega stöðu félagsins. Sem fyrirsvarsmanni félagsins hafi stefnanda verið ljóst að um hefði verið að ræða ákvörðunarástæðu stefnda fyrir kaupunum, en því hafi verið óþarft að taka þetta sérstaklega fram í samningi aðila.  Kveðst stefndi vilja undirstrika það að stefnanda hafi verið ljóst eða a.m.k. mátt vera ljóst að raunveruleg staða Slitlags ehf. hafi ekki verið jafn góð og stefnda hafi verið gefið til kynna. Mat stefnanda á  verðmæti fyrirtækisins hafi verið fjarri lagi og yfirlýsingar hans verið misvísandi og beinlínis rangar. Hafi stefndi byggt ákvörðun sína um kaupin á þessum yfirlýsingum en ekki hafi verið til staðar önnur gögn til að meta raunverulega stöðu fyrirtækisins.  Hafi því veruleg forsenda fyrir samningi aðila brostið og eigi það að leiða til þess að stefnda sé ekki skylt að efna hann frekar en þegar hafi verið gert.  Byggi því stefndi á því að samningurinn sé ekki lengur skuldbindandi samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar um forsendubrest.

Þá kveðst stefndi byggja sjálfstætt á meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar um tómlæti, en stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að meint krafa hans sé niður fallin af þeim sökum.

Vegna varakröfu sinnar um lækkun á kröfum stefnanda kveðst stefndi vísa til sömu málsástæðna og í sýknukröfu sinni, en einkum kveðst stefndi þó vísa til þess að með aðilum hafi orðið samkomulag um að lækka kaupverð samkvæmt kaupsamningnum.  Verði ekki fallist á sýknu stefnda af þeim sökum, kveðst stefndi telja að í öllu falli verði að leiðrétta samning aðila þannig að samningsverðið svari til hlutfallsins milli verðgildis hins selda í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.  Beri því að lækka kröfu stefnanda sem því nemi.

Kveðst stefndi mótmæla sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda og upphafstíma dráttarvaxta, en í stefnu sé gerð krafa um dráttarvexti frá 1. nóvember 2007. Með vísan til þess sem að framan greini um samkomulag aðila og eftirfarandi athafnaleysi stefnanda sé umræddri kröfu harðlega mótmælt, enda hafi stefnda í ljósi atvika verið rétt að halda að sér höndum með efndir samningsins á meðan hún taldi í góðri trú að kaupverðið yrði endurskoðað. 

Kveðst stefndi vísa til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Þá vísar stefndi til laga nr. 50/2002 um lausafjárkaup, einkum 17., 38. og 42. gr. laganna. Stefndi vísar einnig til meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar um tómlæti og brostnar forsendur.  Krafa stefnda um málskostnað byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.

Framburður aðila og vitna

Verða rakin hér þau atriði sem fram komu við skýrslugjöf aðila og vitna við aðalmeðferð að því leyti sem þau þykja skipta máli við úrlausn málsins.

Stefnandi kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og lýsti því að áður en til þess kom að hann seldi hlut sinn í fyrirtækinu hafi sér verið ljóst að hann væri að verða í minnihluta í félaginu og að best myndi fyrir sig að selja sinn hlut.  Hafi verið þreifingar milli hans, stefnda, Ásgeirs Gunnarssonar þ.e. eiginmanns stefnda, og Sigurðar Óla Grétarssonar um þetta.  Í framhaldinu hafi verið útbúið skjal um að stefnandi myndi selja sinn hluta.  Í framhaldinu hafi verið haldinn ársfundur og verið lögð fram bókhaldsgögn.  Ásgeir hafi unnið hjá félaginu og þekkt til þess, en þá hafi bróðir hans og faðir báðir verið hluthafar í félaginu og Ásgeir þess vegna haft öll tök á að vita allt um félagið, enda hefði hann annars ekki keypt föður sinn út á hærra verði.  Ekki kvaðst stefnandi muna nákvæmlega stöðu eigna og skulda á þeim tíma, en eignir hafi verið langt umfram skuldir.  Eignir hafi verið tækjakostur og húseign á Rauðalæk.  Eignir hafi verið skuldlausar.  Um sé að ræða vertíðabundinn rekstur og stundum erfitt að brúa veturinn, en það alltaf gengið.  Kaupendum hafi verið kynnt staða félagsins á fundi hjá Lögmönnum Suðurlands þar sem Bjarni Jónsson endurskoðandi félagsins frá upphafi hafi verið viðstaddur.  Þá hafi Bjarni skilað af sér sínu bókhaldi.  Úr þessu hafi orðið til kaupsamningur sem Lögmenn Suðurlands hafi útbúið.  Þegar félagið hafi verið stofnað árið 1991 hafi verið keypt annað félag sem hafi verið með 400.000 kr. hlutafé og kennitölu frá 1986.  Hafi verð skipt um nafn á félaginu, en þetta hafi verið ódýrari leið við að stofna félagið.  Hafi svo verið ákveðið að auka hlutafé og hafi menn tekið persónuleg lán til þess og hafi hlutur stefnanda verið kr. 1.200.000 til að leggja í félagið.  Aðrir hluthafar þá hafi verið Gunnar Ásgeirsson eldri, Smári Gunnarsson og Ingólfur Rögnvaldsson.  Allt hlutaféð hafi verið lagt inn í félagið og heildarhlutafé þá verið kr. 4.000.000.  Sennilega hafi það hins vegar aldrei verið fært til bókar hjá hlutafélagaskrá og hlutafé þar verið skráð aðeins kr. 400.000.  Hafi hlutafé félagsins við sölu hlutar stefnanda verið kr. 4.000.000, en félagið hafi átt 20% í sjálfu sér.  Að líkindum hafi það komið frá Ásgeiri Gunnarssyni að í kaupsamningi væri kveðið á um að stefnandi ynni hjá félaginu tiltekinn tíma eftir kaupin, en stefnandi hafi verið andlit fyrirtækisins út á við á þessum tíma og borið uppi stóran hluta af „goodwill“ félagsins og verið í samskiptum við verkkaupa, Vegagerðina og aðra.  Stefnandi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt þessu ákvæði kaupsamningsins og gott betur.  Fyrir kaupin hafi ársreikningar ávallt verið gerðir.  Á útboðsmarkaði sé það óhjákvæmilegt enda þurfi að leggja ársreikninga fram við tilboðsgerð.  Ekki mundi stefnandi til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við ársreikningana.  Hafi ársreikningar verið unnir upp úr bókhaldi og bókhaldið hafi verið í lagi, enda vart við að búast að endurskoðendur legðu blessun sína yfir einhverja vitleysu.

Stefnandi kvaðst ítrekað hafa ýtt á eftir því að fá greitt fyrir hlutaféð, bæði við Ásgeir Gunnarsson og Sigurð Óla, og mögulega líka við stefnda.  Það hafi alltaf átt að efna samninginn en á sama tíma hafi verið farið í vafasamar fjárfestingar og lántökur.  Aldrei hafi verið minnst einu orði á að lækka eftirstöðvar kaupverðsins, hvorki vegna galla né annars.  Vegna ummæla í greinargerð neitaði stefnandi því að hafa staðið að óútskýrðum úttektum úr félaginu.  Hafi hann heldur ekki verið í aðstöðu til þess eftir febrúar 2007 þegar tekin hafi verið af honum prókúra.  Fyrirtækið og samstarfið hafi ekki gengið hnökralaust vegna tortryggni eftir að stefnandi hafi selt sinn hluta.  Umfjöllun í greinargerð stefnda um óreiðu í bókhaldi og slíkt snéri allt saman að tímanum eftir að stefnandi hafi selt sinn hluta, en ekkert hafi verið athugavert við þá þætti þegar stefnandi hafi selt sinn hluta.  Allt væri þetta um eftirmálana milli nýju eigendanna.  Kom fram hjá stefnanda að hluti af gömlu bókhaldi hafi orðið eftir hjá honum, en nýir eigendur hafi fengið öll gögn sem þeir hafi þurft á að halda.  Þegar Bjarni Jónsson hafi séð um bókhald félagsins þá hafi hann notið trausts.  Kvaðst stefnandi telja að ástæðan fyrir því að hann hafi ekki fengið greitt fyrir sinn hluta hafi verið sú að nýir eigendur hafi reiðst honum þegar hann hætti störfum hjá félaginu og stofnaði nýtt félag í samkeppni við Slitlag ehf.  Fyrst kvaðst stefnandi hafa heyrt af því að stefndi hafi verið óánægð með kaupin eða hið selda þegar hann hafi séð því haldið fram í greinargerð stefnda fjórum árum eftir kaupin.

Aðspurður kvaðst stefnandi ekki vera skólagenginn í rekstri fyrirtækja, en hann hefði reynslu af verklegum framkvæmdum.  Hjá Slitlagi ehf. hafi stefnandi að mestu séð um tilboðsgerð og stýringu verkþátta.  Reikningshald og uppgjör verka, en jafnframt bókhald ásamt fleirum að einhverju leyti síðustu árin.  Þá hafi hann verið „úti í vegi“.  Hins vegar hafi verið starfsmenn á tímabilum í því að sjá um bókhald, auk Bjarna Jónssonar endurskoðanda frá 1991 til 2006.  Þá gerði stefnandi grein fyrir kynnum sínum af Sigurði Óla Grétarssyni.  Aðspurður kvað stefnandi að hann myndi ekki vel hvar kaupsamningur í málinu hefði verið undirritaður.  Aðspurður kvað stefnandi að fyrsta greiðsla samkvæmt kaupsamningnum hafi verið greidd mjög nálægt gjalddaga.  Önnur og þriðja greiðsla hafi í raun aldrei skilað sér.  Eftir að stefnandi og Sigurður Óli Grétarsson fóru út úr félaginu hafi Sigurður Óli gert upp við sig aðra greiðsluna.  Fyrsta greiðslan hafi komið beint af tékkareikningi Slitlags ehf.  Ekki mundi stefnandi hvort hafi verið gefin út kvittun fyrir fyrstu greiðslunni, en hún hafi verið lögð inn á tékkareikning hans.  Stefnandi kvaðst ekki hafa gengið nægilega eftir að fá greitt samkvæmt samningnum og hann hefði átt að fá greitt frá stefnda, hvort svo sem hún hafi kosið að reiða féð fram sjálf eða láta félagið standa undir greiðslunum.  Aðspurður kvaðst stefnandi telja að ástæða þess að félagið fór í þrot hafi verið vandræðagangur og óeining meðal eigenda eftir að hann seldi sinn hluta.  Aðspurður kvað stefnandi að félagið Bikun ehf. hafi verið stofnað sumarið 2009, en hafi þó raunar verið til áður en þá ekki í rekstri.  Bikun ehf. hafi verið í samkeppni við Slitlag ehf.  Aðspurður kvað stefnandi einfalt reikningsdæmi að það standi kr. 2.000.000 eftir af kaupverði.  Fyrst hafi hann fengið greiddar kr. 2.000.000, svo hafi Sigurður Óli gert upp við sig kr. 2.000.000 um áramótin 2009/2010 og eftir standi þá kr. 2.000.000.

Stefndi kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kannaðist við að kaupin hafi farið fram og að hafa ritað undir kaupsamninginn.  Samningurinn hafi verið undirritaður í eldhúsinu heima hjá stefnda.  Viðstaddir hafi verið stefnandi, stefndi og eiginmaður stefnda, Ásgeir Gunnarsson.  Sigurður Óli og Linda Guðlaugsdóttir hafi ekki verið viðstödd.  Stefndi kannaðist við að fyrir kaupsamning hafi verið haldinn fundur þar sem staða félagsins hafi verið rædd og kynnt.  Kvaðst stefndi telja að staða félagsins á þeim fundi hafi verið talin þokkaleg.  Aðspurð kvaðst stefndi enga reynslu hafa af viðskiptum og rekstri fyrirtækja.  Kvaðst stefndi ekkert vera inni í þessum málum.  Hún hafi aðeins skrifað undir samninginn sem kaupandi en Ásgeir sé maðurinn hennar en Sigurður Óli og hann hafi verið vinir.  Að öðru leyti hafi hún ekkert komið að þessu.  Ásgeir hafi annast þetta fyrir sína hönd.  Kaupverðið hafi átt að greiðast gegnum félagið og hafi félagið átt að sjá um það.  Allir hafi vitað að hún hafi ekki átt að fara borga eitthvað prívat og persónulega.  Ekki kunni stefndi skýringar á því hvers vegna það hafi ekki verið tekið fram í samningnum.  Félagið hafi alltaf séð um að borga.  Kvaðst stefndi ekkert hafa séð af bókhaldi eða reikningseyðublað eða neitt frá félaginu.  Hefðu þau aldrei séð neitt bókhald eða haft það undir höndum.  Stefndi kvaðst aldrei hafa greitt stefnanda neinar  2.000.000 kr. og hefði hún enga hugmynd um hversu mikið hefði verið greitt af samningnum.  Ekkert hafi hún greitt sjálf og kvaðst ekki skilja hvernig stefnandi fengi út að það stæðu 2.000.000 kr. eftir af kaupverðinu frekar en allt kaupverðið af því hún hafi aldrei verið rukkuð neitt og vissi ekkert um hversu mikið hafi verið greitt.  Aðspurð kvaðst stefndi hafa fengið fleiri en eitt innheimtubréf frá lögmanni stefnanda vegna ógreidds hluta kaupsverðsins.  Ekki vissi stefndi hvort þeim bréfum hafi verið svarað.  Stefnandi hafi aldrei komið að máli við sig og krafist greiðslu.  Samkomulag hafi verið um að greiðslurnar ættu að koma frá félaginu.  Hafi stefnanda verið fullkunnugt að stefndi væri ekkert inni  í þessu.  Nafnið hennar hafi aðeins verið haft með þar sem húsið hennar hafi verið skráð á hennar nafni.  Hún hafi verið samþykk kaupunum, en þó ekki verið sátt við þau þar sem henni hafi ekki verið vel við að fara í samstarf við Sigurð Óla.  Vísaði stefndi á eiginmann sinn, Ásgeir Gunnarsson, varðandi spurningar um rekstur og hag Slitlags ehf.  Stefndi hafi ekki skoðað bókhald og ársreikninga áður en hún skrifaði undir kaupin, en trúlega hafi maðurinn hennar gert það.  Ekki vildi stefndi segja að eitthvað hafi verið ólöglegt í bókhaldi félagsins þegar kaupin hafi verið gerð.  Stefndi kvaðst fljótlega eftir kaupin hafa orðið þess áskynja að eitthvað væri undarlegt í gangi innan félagsins í tengslum við Sigurð Óla.  Aðspurð kvaðst hún bara hafa rætt það við manninn sinn og hann hafi sagt henni að vera róleg.  Ekki mundi stefndi hvenær hún hefði fyrst kvartað vegna þeirra galla sem lýst sé í greinargerð.  Ekki hafi hún sent bréf eða neitt til stefnanda með kvörtunum um galla á hinu selda.  Allir hafi þó vitað að umrót hafi verið í félaginu.  Ekkert kvaðst stefndi geta sagt um það hvort kr. 6.000.000 hafi verið of hátt verð fyrir þann hluta félagsins sem kaupsamningurinn hafi verið um.

Vitnið Ásgeir Gunnarsson, eiginmaður stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð og bar aðspurður að hann hefði nokkra reynslu af viðskiptum og rekstri fyrirtækja, en væri ekki menntaður á því sviði.  Þáttur vitnisins hafi verið sá að hann hafi keypt hlut í félaginu ásamt Sigurði Óla.  Vitnið hafi verið hinn raunverulegi kaupandi en stefndi hafi aðeins verið höfð á kaupsamningnum til að ábyrgjast, en hennar nafn hafi verið betra en hans.  Hafi vitnið annast kaupin.  Stefndi hafi eiginlega ekkert komið nálægt þessu að öðru leyti en því að skrifa undir kaupsamning og „ábyrgjast þetta“.  Svo hafi verið ákveðið að fá hana í stjórn.  Tildrög þessa hafi verið að Gunnar Ásgeirsson, faðir vitnisins, hafi viljað hætta og þeim hafi fundist þetta upplagt, vitninu og Sigurði Óla, að fara í þennan rekstur.  Þeir hafi talið að unnt væri að gera þetta mjög gott fyrirtæki.  Vitnið hafi þekkt til fyrirtækisins þannig að hann hafi oft unnið hjá þeim, en hann hafi ekki þekkt innviði fyrirtækisins.  Þeir hafi ákveðið að kaupa félagið saman, en þeir hafi verið miklir vinir.  Þeir hafi keypt af stefnanda og Gunnari föður vitnisins.  Vitnið hafi kynnt sér innviði félagsins með því að spyrja menn og þá hafi verið haldinn fundur þar sem stöðunni hafi verið lýst þokkalega.  Hafi vitnið talið félagið í eðlilegri stöðu.  Hafi vitnið þekkt stefnanda nokkuð og ekki talið neina ástæðu til að vantreysta honum og hafi talið stefnanda prýðispilt.  Stefnandi hafi verið aðalmaður í rekstrinum og verið með öll samböndin.  Vitnið taldi að greiðslur hafi átt að koma á tilgreindum gjalddögum samkvæmt samningnum og þeir hafi ætlað að sjá um það vitnið og Sigurður Óli.  Félagið myndi greiða þetta út og þeir myndu leggja félaginu vinnuframlag á móti.  Aldrei hafi vitnið vitað af greiðslu til stefnanda.  Bókhald félagsins hafi ekki verið sér mjög aðgengilegt.  Á öðru eða þriðja ári hafi hlutirnir farið að verða skrítnir og menn að þreytast.  Það hefði þurft að taka til í félaginu.  Vitninu og stefnda hafi gengið illa eða ekkert að fylgjast með hvernig gengi að greiða kaupverðið, bæði gagnvart stefnanda og gagnvart Gunnari föður vitnisins.  Þess vegna hafi vitnið talað um það á hluthafafundi 13. maí 2009 að fenginn yrði botn í skuldir við seljendur hluta og búið til greiðsluplan vegna þeirra skulda.  Engin sérstök viðbrögð hafi komið fram við því.  Ekkert hafi heyrst af þessu fyrr en vitnið hafi fengið rukkun upp á kr. 2.000.000 og engar skýringar á því hvers vegna skuldin eigi að vera kr. 2.000.000 en ekki eitthvað allt annað.  Sigurður Óli og stefnandi hafi sjálfsagt fundið út þá tölu enda hafi Sigurður Óli staðið skil á greiðslum félagsins til stefnanda.  Vitnið kvaðst telja hnignun rekstrarins undir lokin hafa stafað af ósætti og tortryggni meðal eigenda félagsins.  Ekki kvaðst vitnið geta fullyrt að ástæðan hafi verið úttektir úr félaginu.  Það hafi verið nóg verkefni fyrir félagið.  Skuldir væru léttvægar ef næg verkefni væru fyrir hendi.  Svo hafi verkefnum fækkað og þá hafi mönnum nánast verið sagt að snáfa heim.  Stefnandi hafi upplýst að undirverktakar hafi verið ráðnir í verkin og þá hafi syrt í álinn.  Svo hafi stefnandi og Sigurður Óli hirt verkin af Slitlagi ehf.  Þess vegna hafi vitnið og stefndi ekki fengið í raun það sem þau hafi keypt.  Viðskiptavildin hafi farið með stefnanda og Sigurði Óla, þegar þeir fóru út úr félaginu árið 2009.  Ljóst sé að stefnandi og Sigurður Óli hafi haft af því hagsmuni að Slitlag ehf. færi í þrot.  Vitnið kvaðst telja að hann og stefndi hafi ekki fengið það sem þau hafi verið að kaupa, vegna þess að þau hafi ekki fengið viðskiptavildina.

Vitnið Gunnar Jóhann Ásgeirsson, sonur stefnda, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi starfað hjá Slitlagi ehf. á þeim tíma sem umræddur kaupsamningur var gerður.  Hafi vitnið unnið við að „spreyja tjöru“.  Lítið kvaðst vitnið vita um kaupin sjálf.  Hafi vitnið samið við Sigurð Óla um laun sín.  Ekkert vissi vitnið hvort stefndi hafi kynnt sér félagið sérstaklega fyrir kaupin.  Vitnið kvaðst hafa orðið var við að stefndi og eiginmaður stefnda hafi lítið vitað og fengið að vita.  Vitnið kvaðst halda að greiðslur hafi átt að koma frá Slitlagi ehf. og það yrði svo dregið af launum kaupenda.  Vitnið kvaðst halda að ekkert hafi gengið að komast í bókhald og fá upplýsingar um stöðu félagsins eftir að kaupin voru gerð.  Vitnið hafi bara verið almennur starfsmaður.

Vitnið Kristín Bjarnadóttir kom fyrir dóm við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún vissi í raun ekkert um aðdraganda kaupanna.  Fyrri part árs 2009 hafi hún komið að málum og þá verið fengin að félaginu m.a. til að koma bókhaldinu í lag.  Þá hafi fyrst og fremst verið talað um bókhald ársins á undan og ef ástæða væri til, þá eldri gögn.  Henni og Fríði Gunnarsdóttur hafi verið falið þetta.  Henni hafi virst vera þegjandi samkomulag um að kaupverðið yrði greitt út úr félaginu.  Ekkert hafi hún séð skriflegt um þetta.  Hafi vitnið séð lítið af bókhaldi, en hún og Fríður Gunnarsdóttir hafi átt að fá bókhaldið en erfiðlega hafi gengið að fá það.  Hafi vitnið aldrei fengið neitt af bókhaldi í hendurnar og engar skýringar hafi verið gefnar á því.  Það hafi verið leitað eftir því að fá gögnin hjá Sigurði Wiium, en hann verið tregur til þess.  Hafi þær aðeins fengið lítinn hluta bókhaldsgagna og Fríður hafi ætlað að reyna að fá meira og hafa svo samband við vitnið en ekki hafi orðið af því og vissi vitnið ekki hvort Fríður hafi fengið bókhaldsgögnin.  Ekki mundi vitnið eftir að hafa heyrt talað um skuld stefnda vegna kaupanna.  Hins vegar minnti vitnið að talað hafi verið um að greiðslur til stefnanda og Gunnars Ásgeirssonar væru annað hvort fyrir vinnuframlag eða hlutafé og áhöld gætu verið um það.  Eitthvað hljóti að hafa verið fært í bókhald um greiðslur til þeirra ef þær hafi verið inntar af hendi.  Hafi vitnið skilið svo að Ásgeir Gunnarsson myndi leggja fram reikning fyrir sinni vinnu og ætti að fá greitt.  Tilfinning vitnisins hafi verið sú að Ásgeiri Gunnarssyni væri markvisst haldið frá upplýsingum og ekki látinn hafa upplýsingar nema um það sem mönnum passaði.  Sama gilti um Smára bróður Ásgeirs.  Þokkaleg verkefnastaða hafi virst vera hjá félaginu þegar vitnið hafi komið að því.  Ekki hafi vitnið heyrt af neinum greiðslum frá stefnda og Ásgeiri Gunnarssyni vegna kaupa á hlutafé.  Hins vegar hafi verið talað um að greiðslur til stefnanda og Gunnars Ásgeirssonar fyrir hlutafé færu út úr félaginu sjálfu skv. þegjandi samkomulagi.  Talað hafi verið um að kaupverðið væri ekki full greitt.

Vitnið Bjarni Jónsson viðskiptafræðingur, löggiltur endurskoðandi og fasteigna- og skipasali kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að árið 1992 hafi hann verið beðinn að taka að sér bókhald fyrir Slitlag ehf.  Kvaðst vitnið hafa séð um bókhald og ársuppgjör og framtöl fyrir félagið frá fyrri hluta árs 1992 til 5. mars 2007.  Hafi starfinu verið hagað þannig að upphaflega hafi Fríður verið með bókhaldið en stefnandi hafi svo tekið við því seinna.  Verklagið hafi verið þannig að hann hafi fengið möppu á tveggja mánaða fresti og fært bókhaldið eftir því á tveggja mánaða fresti og skilað virðisaukaskattskýrslu eins og vera bar.  Hafi svo vitnið séð um að gera ársreikning árið eftir.  Allt hafi þetta gengið vel og skilað á réttum tíma.  Ef stefnandi hafi gleymt sér hafi bara verið hringt í hann og kallað eftir gögnunum og þau þá komið strax.  Allt hafi þetta verið í mjög góðu samstarfi og engan skugga borið á það.  Aldrei hafi vantað upplýsingar.  Ársskýrslum hafi alltaf verið skilað og mundi vitnið ekki til að gerðar hafi verið athugasemdir við það.  Vitnið kvaðst a.m.k. tvisvar hafa komið á aðalfund félagsins á upphafsárum og þá hafi þeir fundir verið haldnir heima hjá Fríði og Ingólfi.  Þá hafi aðrir komið þangað.  Bókhald og ársreikningar hafi verið í góðu horfi.  Bókhaldsgögn hafi alltaf verið til reiðu og aldrei staðið á því.  Bankinn hafi verið stemmdur af á hverju tveggja mánaða tímabili.  Lýsti vitnið verklagi sínu við þetta.  Rekstur félagsins hafi gengið upp og ofan.  Starfsemin hafi verið yfir sumartímann og unnið á tilboðsmarkaði þar sem samkeppni sé hörð.  Stundum komi menn vel út og stundum illa, en þetta hafi rúllað alveg.  Það hafi verið töp á einhverjum árum, en þau hafi verið yfirfæranleg og mætt þá hagnaði síðari ára.  Félagið hafi átt heilmikið af eignum og staðið ágætlega.  Ekki kvaðst vitnið hafa orðið var við neina óráðsíu í félaginu, en erfitt hafi verið að þreyja veturinn.  Aðspurður um hlutafé félagsins kvað vitnið það hafa verið kr. 4.000.000.  Hafi stefnandi átt kr. 1.200.000, Gunnar Ásgeirsson átt kr. 1.200.000, Smári og Ingólfur átt hvor kr. 800.000.  Síðan hafi félagið keypt af Ingólfi og Fríðu þegar þau hafi gengið út og við það hafi kr. 800.000 verið dregin frá kr. 4.000.000, þannig að við skoðun ársreikninga eftir þau kaup hafi hlutaféð farið úr kr. 4.000.000 niður í kr. 3.200.000.  Mismunurinn hafi þannig komið til lækkunar á hlutafé.  Sé það venja þegar félag eignist hlut í sjálfu sér að þá sé hann dreginn frá heildarhlutafénu.  Heilmikið hafi verið rætt um það þegar þau kaup hafi verið gerð að stefnandi, Gunnar og Smári myndu kaupa hlutinn aftur af félaginu, en það hafi ekki orðið í hans tíð.  Aðspurður um hvers vegna hlutafé hafi verið skráð kr. 400.000 kvaðst vitnið ekki hafa komið að stofnun félagsins og raunar engu fyrr en á árinu 1992, en þá hafi hlutaféð verið kr. 4.000.000.  Hafi vitnið aldrei séð skráningu um þetta hjá hlutafélagaskrá, en sér þætti líklegt að í upphafi hafi hlutafé verið kr. 400.000, en menn hafi fljótlega séð að það væri ekki nóg vegna þess hve reksturinn var kostnaðarsamur og kallaði á mikla fjárfestingu, að þá hafi hlutafé verið aukið í kr. 4.000.000, en gleymst hafi að tilkynna það.  Hlutafé hafi hins vegar klárlega verið kr. 4.000.000.    Aðspurður kvað vitnið það vera rangt sem haldið væri fram í greinargerð stefnda að verulega hafi skort á að fullnægt væri kröfum laga um hlutafélög nr. 2/1995 og laga um gerð ársreikninga nr. 2/2006 og að ársreikningar hafi ekki verið gerðir og að  bókhald félagsins verið í miklum ólestri.  Þegar vitnið hafi komið á fund 5. mars 2007 hafi vitnið skilað af sér ársreikningi fyrir árið 2006, sem raunar hafi verið tilbúinn fyrir miðjan febrúar, og afhent hann, aðalbókina, hreyfingalista og allar möppurnar fyrir 2006, en það hafi verið síðasta árið sem vitnið hafi gert bókhald fyrir.  Neitaði vitnið því alfarið að bókhaldið hafi verið í ólestri þann tíma sem vitnið hafi séð um það.  Hins vegar geti það hafa gerst eftir sína tíð.  Ekki mundi vitnið til að ársreikningurinn hafi verið rengdur á fundinum.  Meginumræða fundarins hafi hins vegar ekki verið um ársreikninginn, heldur um að kaupa stefnanda út, en það hafi ekki verið á sínu borði.  Þetta hafi ekki verið aðalfundur að forminu til þannig að mál væru tekin fyrir með formlegum hætti.  Vitnið kvaðst hafa heyrt eftir þetta að eitthvað hafi hlutirnir gengið upp og ofan eftir þetta.  Fríður hafi haft við sig samband eftir þetta og þá hafi hún verið að leita eftir einhverjum tölum og hafi sér skilist að hún ætlaði að fara að færa bókhaldið.  Vitnið hafi hins vegar sagt henni það að hann hafi skilað af sér öllum gögnum og hefði ekkert undir höndum.  Þegar vitnið hafi skilað af sér bókhaldinu hafi Sigurður Óli verið á leiðinni inn sem hluthafi og jafnvel að verða framkvæmdastjóri, en stefnandi hafi verið á leiðinni út.  Hafi vitnið spurt  Sigurð Óla hvort hann væri ekki með bókhalds- og uppgjörsþjónustu vegna annars rekstrar.  Jú,  Sigurður Óli hafi sagt svo vera og hafi því ekki verið mótmælt að Sigurður Óli fengi þá sínum manni að sjá um mál Slitlags ehf. líka.  Vitnið kvað sér ekki hafa litist á framhald rekstrarins og hafi ekki kært sig um að halda áfram.  Hafi vitnið heyrt sögur um þá menn sem voru að taka við félaginu og ekki haft áhuga á að vinna fyrir þá.  Sér hafi heldur sennilega ekki staðið til boða að vinna áfram félagið.  Þegar vitnið lauk störfum fyrir félagið hafi ekki verið neinar blikur á lofti sem hefðu átt að geta leitt til gjaldþrots félagsins.  Hins vegar sé rekstur sem þessi afar áhættusamur og þurfi ekki nema eitt lélegt sumar til að illa geti farið.

Vitnið Sigurður S. Wiium kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa unnið við endurskoðun árum saman, án háskólamenntunar og án löggildingar.  Kvaðst vitnið hafa komið að málefnum Slitlags ehf. en að það hafi ekki verið fyrr en í aprílbyrjun 2009.  Ekki kvaðst vitnið vita hver sá um bókhald félagsins frá því Bjarni Jónsson skilaði því af sér og þar til vitnið tók við því, en sér væri nær að halda að það hafi enginn sérstakur gert.  Vitnið kvaðst ekki hafa verið starfsmaður Slitlags ehf., en hann hafi verið starfsmaður Kauphússins ehf.  Vitnið kvaðst ekki hafa hugmynd um hvernig rekstur félagsins hafi verið þegar vitnið kom að málefnum félagsins.  Líklega hafi stefnandi haldið áfram að skila virðisaukskattskýrslu og sjá um laun og annað.  Líklega hafi Bjarni skilað af sér í ágætu lagi en hann hafi bæði skilað ársreikningum og öðru, en síðan hafi árið 2007 liðið og engu verið skilað og svo árið 2008, en vitnið finni ekkert hjá sér um félagið fyrr en snemma á árinu 2009.  Það sé óeðlilega langur tími.  Ekki hafi verið gerður ársreikningur og framtal fyrir árið 2007 og enn síður 2008.  Gögn frá félaginu fyrir árið 2007 hafi komið á skrifstofu vitnisins í apríl 2009, nema launabókhaldið, en stefnandi hafi verið með það, en hann hafi líklega ekki haldið öðru, enda vitað að vitnið þyrfti að fá öll gögn.  Þegar vitnið hafi tekið við bókhaldinu hafi það aðeins verið fylgiskjöl röðuð í möppur.  Þá hafi vitnið einnig fengið gögn frá 2008 og í sama ástandi.  Hafi vitnið fengið þau gögn sem vitnið þurfti til vinnu sinnar, „svona 96-98%“.  Svo hafi hlutirnir gerst mjög hratt og í júní 2009 hafi verið búið að taka allt af honum.  Fríður Gunnarsdóttir, systir Ásgeirs Gunnarssonar, hafi gert það vorið 2009.  Einu sinni áður hafi verið beðið um gögnin og hafi vitnið ekki orðið við því.  Vitnið hafi í raun gert afskaplega lítið og raunar aldrei byrjað á neinu bókhaldi.  Sér hafi verið ljóst að menn voru ósáttir.  Það hafi vantað gögn fyrir úttektum, einkum fyrir árið 2008.  Það hafi verið stórar fjárhæðir, yfir kr. 4.000.000, en það hafi almennt virst vera Sigurður Óli Grétarsson sem hafi tekið út peninga.  Það hafi líka verið millifærðir peningar á stefnda.  Hafi vitnið óskað skýringa og fengið þær í tölvupósti frá Ásgeiri Gunnarssyni og það hafi verið fyrir húsaleigu og leigu og viðhald á tækjum og annað, vegna stefnda.  Vitnið hafi beðið um reikninga.  Mjög áþekkar upphæðir hafi verið til Sigurðar Óla og stefnda, ca. milli 4 og 5 milljónir.  Engin gögn hafi komið á móti þessu og engar skýringar hvað varðaði úttektir vegna Sigurðar Óla.  Þegar gögnin fóru frá vitninu hafi enn ekki verið til nein gögn um þetta.  Engar slíkar úttektir hafi verið á stefnanda sem láti alltaf valta yfir sig.  Aðspurður kvað vitnið að allir hafi sagt sér að hlutafé félagsins væri kr. 4.000.000, en þegar vitnið hafi farið að eiga við þetta þá minni vitnið að hlutaféð hafi verið skráð kr. 400.000 hjá hlutafélagaskrá.  Vitnið kvaðst vita til þess að þegar einhver hafi farið úr félaginu hafi félagið eignast 20% í sjálfu sér.  Vitnið kvaðst telja að hlutafé hafi í raun verið kr. 4.000.000.  Hjá einhverjum hafi farist fyrir að tilkynna um hækkun á hlutafé, en ekki sé um það að ræða að hlutaféð hafi í raun verið kr. 400.000 og verið ranglega tilgreint kr. 4.000.000.  Eftir að vitnið hafi lokið starfi sínu og gögnin verið tekin af honum kvað vitnið að stofnuð hefðu verið 2-3 einkahlutafélög og „hreinsað út úr Slithagi ehf. eigur og allt saman“.  Taldi vitnið að þetta hafi verið gert af nafngreindum manni á vegum Ásgeirs Gunnarssonar.  Ekki kannaðist vitnið við að hafa orðið þess vart að kaupverð þess hlutar sem stefndi keypti af stefnanda hafi runnið frá félaginu til seljanda.  Ekki hafi vitnið heyrt neitt um þetta, eða um skuld stefnda við stefnanda.  Hafi svo verið hefði það átt að koma fram í bókhaldi.  Það hefði aldrei staðist að sínu mati að félagið hefði staðið undir greiðslu skuldar stefnda við stefnanda.  Vitnið kvaðst telja að ársreikningur fyrir árið 2007 sem vitnið kvaðst óviljugur hafa gert fyrir Slitlag ehf. væri að megninu til réttur, einkum um niðurstöður, en innviðir ekki fyllilega réttir, enda ekki byggt á færðu bókhaldi við gerð ársreikningsins.  Vitnið kvaðst telja að félagið hafi verið í góðu lagi, en ósætti og ósamkomulag milli Ásgeirs Gunnarssonar og Sigurðar Óla hafi orðið því að aldurtila.  Félagið hafi verið lagt í rúst af þeim sem tóku við.

Niðurstaða

Fyrsta málsástæða stefnda til stuðnings sýknukröfu sinni er sú að krafa stefnanda sé fallin niður vegna þess að með aðilum málsins hafi orðið samkomulag um að vegna slæmrar stöðu Slitlags ehf. yrði kaupverðið lækkað og litið yrði svo á að hlutafé það sem stefndi keypti af stefnanda væri fullgreitt með tveimur fyrstu greiðslunum og ekki yrði krafið um lokagreiðsluna, kr. 2.000.000, sem er stefnukrafa þessa máls.

Um það samkomulag sem stefndi kveður hafa orðið milli aðila um ofangreint hafa engin gögn verið lögð fram í málinu. Stefndi hefur í þessu efni vísað til þess að á hluthafafundi 13. maí 2009 hafi verið rætt um að ganga þyrfti frá einhverju greiðsluplani til að ganga frá skuld við seljendur hluta.  Það er mat dómsins að í þessu felist ekki nokkur sönnun þess að samkomulag hafi orðið í málinu á þann hátt sem stefndi vill byggja á, enda verður ekki ráðið af endurriti hluthafafundarins hvers efnis slíkt samkomulag hefði átt að vera.

Ekki kannaðist stefnandi við að neitt slíkt samkomulag hafi verið gert.

Í raun kom heldur ekki fram neitt um slíkt samkomulag í framburði stefnda við aðalmeðferð, en hún kvaðst lítið hafa verið inni í málum þessum og hafi eiginmaður hennar, Ásgeir Gunnarsson, sinnt þessu. Í framburði stefnda við aðalmeðferð kvaðst stefndi raunar ekkert vita hve mikið af kaupverðinu hafi verið greitt og hvernig stefnandi fengi það út að einungis stæðu eftir kr. 2.000.000 af kaupverðinu þar sem hún hafi aldrei greitt neitt og aldrei verið rukkuð neitt.  Þá kvaðst stefndi ekki geta sagt til um það hvort hið umsamda kaupverð, þ.e. kr. 6.000.000, hafi verið of hátt miðað við þann hluta félagsins sem kaupsamningurinn hafi verið um.

Í framburði þeirra vitna sem komu fyrir dóminn og gáfu skýrslur kom ekkert fram sem rennt gæti stoðum undir þetta ætlaða samkomulag.  Í framburði vitnisins Ásgeirs Gunnarssonar, eiginmanns stefnda, sem stefndi vísaði til sbr. ofangreint, kom ekki fram neitt sem rennt geti stoðum undir að slíkt samkomulag hafi verið gert.  Kom fram hjá honum að á fundi í félaginu 13. maí 2009, löngu eftir gjalddaga kröfunnar, hafi hann talað um að fenginn yrði botn í skuldir við þá sem seldu þáverandi eigendum félagsins hlutafé, en þar á meðal er skuld stefnda við stefnanda.  Gildir sama um þetta og um fundargerðina sjálfa, að ekki verður talin felast í þessu nokkur sönnun um að slíkt samkomulag hafi verið gert og þá hvers efnis það hafi verið.

Vegna þessarar málsástæðu hefur stefndi einnig vísað til þess að stefnandi hafi lítt gengið fram við innheimtu skuldarinnar og telur það renna stoðum undir að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að ekki yrði um að ræða frekari greiðslur eða a.m.k. að stefnandi ætlaði ekki að krefjast fullra efnda á samningnum.  Verður ekki fallist á að af þessu megi ráða að stefnandi hafi talið að kaupsamningurinn væri óskuldbindandi fyrir stefnda að þessu leyti, en fyrir liggur í framburði stefnda að hún hafi fengið fleiri en eitt innheimtubréf frá lögmanni stefnanda vegna þessa og hefur stefnandi jafnframt borið að hann hafi ítrekað gengið eftir greiðslunni.  Þá liggur fyrir í gögnum málsins að stefnandi gerði tilraunir til innheimtu í febrúar og mars 2011 og á hluthafafundi 29. júní 2009 gerði stefnandi kröfur til að fá greidda “peningana sína með vöxtum”.  Hefur ekki verið lagt fram í málinu neitt gagn um að stefnandi hafi gefið eftir af kröfu sinni, eða fallið frá henni, en fyrir því hefur stefndi sönnunarbyrði.

Stefndi hefur borið fyrir sig að hið selda, þ.e. hlutur sá sem hún hafi keypt í Slitlagi ehf. af stefnanda, hafi verið gallaður og þess vegna eigi hún rétt á afslætti eða skaðabótum úr hendi stefnanda.  Bendir stefndi á 17. gr. laga nr. 50/2002 í þessu sambandi.  Það er í stuttu máli álit dómsins að allar fullyrðingar stefnda um galla á hinu selda séu ósannaðar.  Hefur stefndi ekki lagt fram neitt um að hafa borið fyrir sig galla á hinu selda fyrr en í greinargerð vegna þessa máls, röskum fjórum árum eftir gerð kaupsamnings.  Liggur ekkert fyrir um að hið selda hafi verið haldið göllum eða hafi verið að  mun verðminna en kaupverðið sagði til um, en fyrir þessu hefur stefndi sönnunarbyrði. 

Vegna meintra galla hefur stefndi vísað til þess að hlutafé félagsins hafi í reynd verið kr. 400.000, en ekki kr. 4.000.000 eins og haldið hafi verið fram.  Að mati dómsins er þetta ósannað, en við það mat verður einkum litið til framburðar vitnanna Bjarna Jónssonar og Sigurðar S.Wiium, en báðir hafa þeir borið að hlutaféð hafi klárlega verið kr. 4.000.000, þó að frádregnum kr. 800.000, sem félagið hafi átt í sjálfu sér. Skráning hlutafjárins að fjárhæð kr. 400.000 í hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra sé hins vegar röng.  Hefur ekki verið bent á neitt því til stuðnings að hlutaféð hafi aðeins verið kr. 400.000, annað en skráninguna hjá hlutafélagaskrá, en telja verður að með framburði tveggja síðastnefndra vitna sé leitt í ljós að sú skráning hafi verið röng.

Stefndi vísar til þess í greinargerð að raunverulegt virði hins selda hafi verið mun minna en stefnandi hafi lofað fyrir kaupin.  Þetta er hins vegar ósannað að mati dómsins, aukin heldur að stefndi bar fyrir dóminum að hún gæti ekki sagt til um það hvort umsamið kaupverð, kr. 6.000.000, hafi verið of mikið fyrir hið selda hlutafé.  Er þannig ekki unnt að byggja á þessu. 

Stefndi hefur vísað til þess að bókhald félagsins hafi verið í ólestri og ársreikningum ekki verið skilað.  Að virtum framburði vitnisins Bjarna Jónssonar endurskoðanda, sem og Sigurðar S. Wiium, verður að telja þessar fullyrðingar ósannaðar.  Þá liggur fyrir að á fundi 5. mars 2007, þar sem staða og fjármál félagsins voru kynnt, var lagður fram ársreikningur fyrir 2006, en á þeim fundi var Ásgeir Gunnarsson, eiginmaður stefnda, sem verður að telja að hafi á fundinum verið umboðsmaður stefnda sbr. framburð stefnda sjálfrar um aðkomu sína og Ásgeirs að kaupunum.

Þá hefur stefndi vísað til þess að hafa ekki fengið afhent frá stefnanda bókhald og önnur gögn varðandi félagið.  Það er mat dómsins að þetta sé ósannað og vísast um það sérstaklega til framburðar Bjarna Jónssonar endurskoðanda en hjá honum kom fram að hann hefði á fundi 5. mars 2007 afhent öll gögn, en fyrir liggur að á þeim fundi var Ásgeir Gunnarsson eiginmaður stefnda. Liggur ekki fyrir að stefnandi hafi haldið eftir neinum gögnum öðrum en margra ára gömlum bókhaldsgögnum, sem ekki geta ráðið úrslitum að þessu leyti.  Liggur heldur ekkert fyrir um að Sigurður Óli Grétarsson og stefnandi hafi reynt að leyna stöðu félagsins, sem var í góðu horfi skv. framburði nefnd Bjarna Jónssonar, en sömuleiðis liggur ekkert fyrir og er alls endis ósannað að til hafi verið að dreifa óútskýrðum úttektum stefnanda.  Þá stenst það ekki að stefnandi hafi, að óvilja eigenda, þ.m.t. stefnda, stjórnað félaginu eftir að kaupin gerðust.  Það er þannig ósannað að stefndi hafi ekki fengið þann söluhlut sem hún hafi talið sig vera að kaupa, en hafi málum félagsins ekki verið komið í eðlilegt horf eftir kaupin þá getur það ekki hafa verið vegna stefnanda, enda hann þá ekki lengur við stjórnvölinn.

Sú staðreynd að stefnandi hafi stofnað félagið Bikun ehf. eftir að hann lét af störfum hjá Slitlagi ehf. getur hér engu breytt, enda engir slíkir fyrirvarar gerðir í margnefndum kaupsamningi, heldur aðeins að stefnandi skyldi vinna hjá félaginu í tiltekinn tíma eftir kaupin og liggur fyrir að stefnandi stóð við það og raunar gott betur.

Er þannig hafnað sjónarmiðum stefnda um að hún hafi átt rétt á að halda eftir hluta kaupverðsins eða hafi átt rétt á afslætti, enda liggur fyrir að þessum sjónarmiðum var ekki hreyft af hálfu stefndu fyrr en undir rekstri þessa máls.

Stefnda kveðst byggja sýknukröfur sínar á reglum um brostnar forsendur, að því leyti að staða félagsins hafi verið að mun lakari en hún hafi haldið og að þetta hafi stefnanda mátt vera ljóst.  Er óhjákvæmilegt að hafna þessum sjónarmiðum vegna þess að hjá stefnda sjálfri kom það fram við aðalmeðferð að hún gæti ekki fullyrt að virði þess hlutafjár sem hún keypti hafi verið minna en umsamið kaupverð.  Þá liggur ekki fyrir að svo hafi verið og liggur heldur ekki fyrir að staða félagsins hafi verið slæm eða önnur en stefnandi upplýsti stefnda um, sbr. framburð Bjarna Jónssonar um þetta, en fyrir staðhæfingum sínum um slæma stöðu félagsins hefur stefndi sönnunarbyrði.

Stefndi byggir jafnframt sýknukröfu sína á meintu tómlæti stefnanda, en krafa hans sé fallin niður vegna tómlætis.  Á þetta fellst dómurinn ekki.  Fyrir liggur að hin umkrafða fjárhæð hafði tiltekinn gjalddaga og þar með tiltekinn fyrningarfrest.  Var stefnanda í sjálfsvald sett hvort hann krefðist greiðslu fyrr eða síðar, en ljóst er að það var í verkahring stefnda að bjóða fram greiðslu sína á gjalddaga.  Er ófært að telja kröfuna niður fallna fyrir tómlætis sakir, enda þótt stefnandi hafi gengið linkulega fram við innheimtu hennar, en það gaf ekki stefnda tilefni til að telja stefnanda hafa fallið frá kröfunni.

Verður varakröfu stefnda hafnað með sömu rökum og að ofan greinir, en jafnframt þykir rétt að geta þess í því sambandi að stefndi hefur enga tilraun gert til að sýna fram á hvert hefði verið raunvirði hins selda hlutar ef það var annað en hið umsamda kaupverð.

Við aðalmeðferð og munnlegan flutning málsins komu fram nýjar málsástæður af hálfu stefnda um að raunverulegur kaupandi hlutafjárins hafi ekki verið stefndi heldur eiginmaður hennar, en einnig um að aldrei hafi verið gert ráð fyrir því að hún greiddi hlutaféð sjálf heldur hafi verið um það samkomulag að félagið sæi sjálft um að standa straum af kaupunum og að greiða stefnanda andvirði hlutafjárins.  Af hálfu stefnanda var mótmælt að nýjar málsástæður kæmust að og er að mati dómsins ekki unnt að byggja á þeim við úrlausn málsins, sbr. e lið 1. mgr. 80. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ljóst er að hefði stefndi viljað byggja á þessu fyrr þá hefði henni verið það í lófa lagið enda um að ræða atriði sem ekki hefðu getað dulist henni.

Ber þannig að fallast á að stefndi greiði stefnanda hina umkröfðu fjárhæð.

Í greinargerð stefnda eru höfð uppi sérstök mótmæli við dráttarvaxtakröfu og upphafstíma dráttarvaxta.  Vísar stefndi til meints samkomulags aðila sem og eftirfarandi athafnaleysis stefnanda, enda hafi stefnda í ljósi atvika verið rétt að halda að sér höndum með greiðslu meðan hún hafi talið að kaupverðið yrði endurskoðað.  Líkt og áður hefur komið fram er það álit dómsins að umrætt samkomulag, sem stefndi hefur vísað til, sé með öllu ósannað og getur stefndi ekki skotið sér undan dráttarvaxtakröfu með vísun til þess.  Þá liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi haft ástæðu til að ætla að kaupverðið yrði endurskoðað, en eins og að framan greinir var það stefnanda í sjálfsvald sett hvenær hann gengi eftir greiðslunni ef greiðslufall yrði af hálfu stefnda, en við það að ganga ekki hart eftir greiðslu gat hann engan rétt misst.  Er því stefnandi í fullum rétti að krefjast dráttarvaxta frá gjalddaga kröfunnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 og verður stefnda gert að greiða kröfuna með umkröfðum dráttarvöxtum.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og þykir hann hæfilegur alls kr. 1.239.027, þar af útlagður kostnaður lögmanns stefnanda kr. 76.052 og virðisaukaskattur á málflutningsþóknun kr. 236.258, en málflutningsþóknun án virðisaukaskatts er kr. 926.000.

Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Elínborg H. Sigurðardóttir, greiði stefnanda, Gesti Pálssyni, kr. 2.000.000 með dráttarvöxtum frá 1. nóvember 2007.

Stefndi greiði stefnanda í málskostnað kr. 1.239.027.