Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2002
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Greiðsludráttur
- Riftun
- Tillitsskylda
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2003. |
|
Nr. 305/2002. |
Ósey hf. (Jónatan Sveinsson hrl.) gegn Atlas hf. (Othar Örn Petersen hrl.) og gagnsök |
Lausafjárkaup. Greiðsludráttur. Riftun. Tillitsskylda.
Ó hf. samdi við H um smíði á dráttar- og lóðsbát vorið 2000. Samkvæmt samningnum skyldi báturinn afhentur í desember sama árs. Í júlímánuði umrætt ár samdi Ó hf. við A hf. um framdrifs- og skrúfubúnað í bátinn. Var afgreiðslufrestur á búnaðinum tiltekinn „10 vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju.“ Eftir að samningar náðust kom í ljós að gírbúnaðurinn, sem um hafði verið samið, var ekki nógu öflugur til að þola það álag sem hönnunarforsendur gerðu ráð fyrir. Í byrjun októbermánaðar sama árs rifti Ó hf. samningnum við A hf. þar sem síðarnefnda félagið væri ekki enn búið að staðfesta pöntun á búnaðinum. Höfðaði Ó hf. mál á hendur A hf. þar sem það krafðist í fyrsta lagi viðurkenningar á rétti sínum til að rifta samningnum, í öðru lagi endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem það hafði innt af hendi til A hf. vegna samningsins og í þriðja lagi nánar tiltekinnar fjárhæðar í skaðabætur. Í málinu var upplýst að áður en Ó hf. rifti samningnum hafði A hf. boðið breyttan búnað sem fullnægði þeim kröfum, sem til hans voru gerðar, og að A hf. tók á sig allan aukakostnað vegna breytinganna. Var riftun Ó hf. því eingöngu byggð á fyrirsjáanlegum afhendingardrætti A hf. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að upphaf afgreiðslufrestsins hafi verið háð pöntun, sem A hf. hafi átt að gera, en hafi ekki miðast við samningsgerð aðila. Forsenda þess að A hf. gæti gert slíka pöntun hafi verið sú að Ó hf. afhenti félaginu málsettar teikningar og aðrar grundvallar tækniupplýsingar. Samkvæmt framburði vitna verði að miða við að A hf. hafi ekki fengið slíkar teikningar í hendur. Afgreiðslufresturinn hafi því ekki byrjað að líða vegna atvika sem vörðuðu Ó hf. að minnsta kosti að verulegu leyti. Ó hafi ekki komið á framfæri við A hf. upplýsingum sem félaginu hafi verið nauðsynlegar til réttra efnda á samningnum. Með þessu hafi Ó hf. brugðist tillitsskyldu sinni, sem leiddi til þess að umsaminn afhendingarfrestur byrjaði ekki að líða. Hafi Ó hf. því ekki verið heimil riftun á kaupunum. Var A hf. því sýknað af kröfum Ó hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2002. Hann krefst þess í fyrsta lagi að viðurkenndur verði réttur sinn til að rifta kaupsamningi við gagnáfrýjanda 21. ágúst 2000 um framdrifsbúnað (vélbúnað) í 17 metra dráttar- og lóðsbát, sem hann hafi hafið smíði á fyrir Hafnarfjarðarhöfn á árinu 2000 og lokið við á árinu 2001. Í öðru lagi að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að endurgreiða sér 2.200.847 krónur, sem hann greiddi inn á kaupsamninginn, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. október 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í þriðja lagi að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur, aðallega 13.247.400 krónur, en til vara 9.331.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 12. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 17. október 2002. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað og aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði að fjárhæð 735.724 krónur og fyrir Hæstarétti að mati réttarins.
I.
Málavextir eru þeir að Hafnarfjarðarhöfn bauð út smíði dráttar- og lóðsbáts vorið 2000. Aðaláfrýjandi reyndist lægstbjóðandi og var verksamningur um smíði bátsins milli hans og Hafnarfjarðarhafnar gerður 7. júlí þess árs. Var umsamið endurgjald fyrir verkið 48.523.230 krónur. Í tilboði verktakans, sem taldist hluti samningsins, var afhendingartími bátsins 20. desember 2000. Samkvæmt samningnum skyldu útboðsgögn er honum fylgdu einnig teljast hluti hans. Í útboðslýsingu kom meðal annars fram að um væri að ræða sérhannaðan dráttar- og vinnubát, sem skyldi hafa að lágmarki 13 tonna togkraft og 10 hnúta hraða. Heildarlengd bátsins skyldi vera 17 metrar og vélarafl aðalvéla samtals 1000 hestöfl. Í lýsingu á vélbúnaði kom fram að aðalvélar skyldu vera tvær af nánar tiltekinni gerð af tegundinni Mtu og skyldi skipið búið tveimur gírum af tegundinni ZF með nánar tilgreindu niðurfærsluhlutfalli afls. Meðal útboðsgagnanna var tilboð gagnáfrýjanda til Ráðgarðs 17. apríl 2000 í framdrifsbúnað, sem tók til véla og gíra af framangreindri gerð ásamt stefnisrörs og skrúfuöxuls. Hafði Ráðgarður skiparáðgjöf hf. annast hönnun skipsins og undirbúning útboðs fyrir Hafnarfjarðarhöfn og við þá vinnu meðal annars leitað framangreinds tilboðs í vélbúnað frá gagnáfrýjanda. Lagði hönnuður til að vélbúnaður samkvæmt því tilboði yrði notaður við smíði bátsins og var útboðslýsingin því í samræmi við það og tilboðið meðal útboðsgagna. Í tilboði aðaláfrýjanda var miðað við vélar af annarri gerð, en í verksamningnum 7. júlí 2000 var samið um að aðalvélar og annar framdrifsbúnaður bátsins skyldi vera samkvæmt framangreindum útboðsgögnum. Í verksamningi aðaláfrýjanda og Hafnarfjarðarhafnar var kveðið á um að verkáætlun verktakans, sem afhenda skyldi 20. júlí 2000, eða 13 dögum eftir undirritun samningsins, skyldi einnig teljast hluti hans.
Gagnáfrýjandi gerði aðaláfrýjanda tilboð í framdrifsbúnað bátsins 8. ágúst 2000. Var þar boðinn sams konar vél- og gírbúnaður og gagnáfrýjandi hafði áður boðið hönnuði skipsins og tekinn var upp sem hluti útboðsgagna eins og að framan er lýst. Þá var boðinn skrúfubúnaður frá framleiðandanum LIPS. Afgreiðslufrestur var samkvæmt tilboðinu „10 vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju.“ Mun búnaður þessi hafa verið boðinn með þeim kjörum að 15% kaupverðs skyldu greiðast „við pöntun“, en 85% skyldu greiðast við framvísun farmbréfs og vera tryggð með nánar tilgreindri bankaábyrgð. Þá var í tilboðinu frávikstilboð þar sem skrúfubúnaður frá framleiðandanum RADICE var boðinn í stað skrúfubúnaðar í aðaltilboði og var heildarverð samkvæmt frávikstilboðinu 210.820 evrur. Þann 21. ágúst 2000 var frávikstilboðinu tekið af hálfu aðaláfrýjanda með áritun hans á tilboðið og var þar með kominn á samningur milli aðila. Sama dag greiddi aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda 2.200.847 krónur, sem er ágreiningslaust að hafi verið 15% samningsfjárhæðarinnar.
Samkvæmt framansögðu skyldi aðaláfrýjandi afhenda verkáætlun fyrir 20. júlí 2000 og skyldi hún teljast hluti verksamnings hans og Hafnarfjarðarhafnar. Meðal gagna málsins er ódagsett verkáætlun, sem aðaláfrýjandi lýsti yfir fyrir Hæstarétti að gengið hefði verið frá eftir að samningur um framangreindan vélbúnað komst á milli aðila máls þessa. Samkvæmt þessari áætlun var gert ráð fyrir að vél- og skrúfubúnaður yrði afhentur í síðustu viku september 2000, en báturinn afhentur Hafnarfjarðarhöfn í þriðju viku desember sama árs. Hallgrímur Hallgrímsson framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda bar í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að gagnáfrýjanda hafi ekki verið sýnd eða kunngerð þessi áætlun. Hann taldi hins vegar að gagnáfrýjanda hafi verið fullkunnugt um umsaminn afhendingartíma bátsins. Magnús Jón Smith sölustjóri gagnáfrýjanda, sem sá að mestu um samskiptin við aðaláfrýjanda, sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að sér hafi ekki verið kunnugt um verkáætlunina eða hvenær hún gerði ráð fyrir skilum á vélbúnaðinum. Hins vegar hafi hann vitað að til stóð að skila bátnum í desembermánuði.
Fyrir liggur að lokateikningar af bátnum voru ekki tilbúnar þegar verksamningur var undirritaður mill aðaláfrýjanda og Hafnarfjarðarhafnar. Aðaláfrýjandi heldur því fram að þeim hafi verið lokið á næstu vikum eftir samningsgerðina. Fyrir héraðsdómi skýrði Vignir Demusson, tæknifræðingur og starfsmaður aðaláfrýjanda, svo frá að hann hafi fengið svonefndar línuteikningar í hendur frá Ráðgarði skiparáðgjöf hf. tveimur til þremur vikum eftir að verksamningurinn við Hafnarfjarðarhöfn var gerður og sent þær rakleitt til skipsamíðastöðvar þeirrar í Póllandi, er annaðist smíði skipsskrokksins, en ekki hafi hann sent þessar teikningar til gagnáfrýjanda. Taldi hann gagnáfrýjanda aldrei hafa fengið þessar teikningar, enda hafi hann ekki beðið um þær. Magnús Jón Smith skýrði svo frá í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi aldrei fengið í hendur aðrar teikningar af bátnum en fyrirkomulagsteikningar þær sem fylgdu útboðsgögnum. Hafi gagnáfrýjandi því ekki fengið frá aðaláfrýjanda svonefndar línuteikningar og ekki fengið teikningar, sem sýndu nákvæma lengd á stefnisröri, skrúfuás og staðsetningu á gír og aðalvél.
Þann 8. september 2000 barst gagnáfrýjanda bréf frá vélaframleiðandanum Mtu, Motoren- und Turbinen-Union, í Þýskalandi. Var þar vísað til bréfs gagnáfrýjanda frá 5. sama mánaðar. Sagðist vélaframleiðandinn hafa fengið upplýsingar frá gírframleiðandanum ZF á Ítalíu um að sú gerð niðurfærslugíra, sem boðin hafi verið í bátinn, hafi að hámarki 5 tonna leyfilega skrúfuspyrnu. Þá sé vandamál við fyrirhugaða niðursetningu á gírunum, sem ekki standist átakið. Lagði fyrirtækið til að við þessu yrði brugðist annað hvort með því að halda fyrri niðurfærslugírbúnaði en bæta skrúfuáslegu á skrúfuásinn eða með því að setja í bátinn aðra og öflugri gerð gírbúnaðar frá sama framleiðanda í stað þess sem áður var boðinn. Var gagnáfrýjandi beðinn að athuga hvort þessar tillögur kæmu til álita.
Magnús Jón Smith skýrði aðdraganda þessa bréfs svo fyrir héraðsdómi að hann hafi, eftir að samningur aðila komst á, yfirfarið öll atriði búnaðarins til að sannreyna að allt væri rétt. Hafi þá komið í ljós að sá gírbúnaður, sem um hafði verið samið, var ekki nógu öflugur til að þola það álag sem hönnunarforsendur gerðu ráð fyrir. Hafi vélaframleiðandinn í framangreindu bréfi þá strax komið með tillögu um tvær aðferðir til að leysa vandamálið. Kvaðst Magnús hafa sent aðaláfrýjanda framangreindar tillögur samdægurs og reyndar verið í stöðugu símasambandi við hann á meðan á þessu stóð. Vignir Demusson kvaðst hafa fengið framangreint bréf í tölvupósti að kvöldi 13. september 2000 þegar hann var að undirbúa ferð sína til skipasmíðastöðvarinnar í Póllandi, en þangað hafi hann farið daginn eftir.
Meðal gagna málsins er bréf pólsku skipasmíðastöðvarinnar CRIST 20. september 2000 til aðaláfrýjanda. Þar sagðist stöðin geta breytt vélaundirstöðunum í samræmi við breyttar forsendur. Slíkt myndi seinka afhendingu á skipsskrokknum um viku og aukakostnaður yrði 3.500 bandaríkjadalir. Var aðaláfrýjandi beðinn um að bregðast við þessu. Fylgdi með bréfinu teikning af breytingu á vélaundirstöðum vegna nýs gírbúnaðar. Vignir Demusson sagði í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hafi ekki skýrt gagnáfrýjanda frá þessu skriflega, en hann hafi talað við Magnús í síma. Hinn síðastnefndi bar fyrir héraðsdómi að þessi staðfesting skipasmíðastöðvarinnar hafi aldrei borist gagnáfrýjanda. Hafi aðaláfrýjandi þrátt fyrir að eftir því væri leitað aldrei staðfest hvort nýr gír gæti komið í stað þess, sem um var samið, eða hvort fara þyrfti eftir þeim kosti vélaframleiðandans að setja þrýstilegu á skrúfuásinn.
Með bréfi 20. september 2000 bað aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um ýmsar upplýsingar þar á meðal um stöðu mála varðandi breytingar á gír, tæknilegar upplýsingar um „gírinn sem nú er verið að bjóða“, kostnaðarauka vegna nýs gírs, áætlaðan afgreiðslutíma vegna nýs gírs „og þar með vélbúnaðarins í heild sinni“ og staðfestingu á pöntun á vélbúnaði. Þessu svaraði gagnáfrýjandi með bréfi 22. september 2000. Þar kemur fram að það hafi verið mistök hjá gírframleiðandanum ZF að bjóða upphaflegan búnað, sem ekki stæðist álag samkvæmt smíðalýsingu. Þar af leiðandi hafi verið boðinn fram stærri gír. Var í bréfinu vísað til símtals síðastliðinn fimmtudag en síðan segir: „Nýtt fyrirkomulag var þá sent og beðið er svara hvort þessi gír geti komið í stað þess sem áður var boðinn.“ Síðan segir að kostnaður, sem af því hljótist að skipta um gíra, falli á Mtu og muni allt verða gert til að liðka fyrir afhendingu og flýta henni eins og unnt væri. Þessu bréfi fylgdi bréf frá Mtu 21. sama mánaðar með tæknilegum upplýsingum um nýja gíra og kemur fram í því að áætlaður afgreiðslutími sé 10-11 vikur eftir móttöku skriflegrar pöntunar og frágangs allra tæknilegra atriða.
Með bréfi 25. september tilkynnti gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda að vegna samskiptaörðugleika við skrúfuframleiðandann RADICE hafi gagnáfrýjandi náð samkomulagi við framleiðandann LIPS að hann gengi inn í það tilboð, sem gefið hafi verið, en þetta var sá skrúfubúnaður sem við var miðað í aðaltilboði gagnáfrýjanda 8. ágúst 2000. Síðan sagði að meðfylgjandi séu nánar tilgreindar upplýsingar um þann þrýsting, sem hvor skrúfa muni skila, en þetta sé „þó fræðilegt gildi þar sem ekki liggur fyrir línuteikning af skipinu.“
Með bréfi aðaláfrýjanda 26. september 2000 var gagnáfrýjandi beðinn að staðfesta samdægurs verð á búnaði og afhendingartíma hans. Síðan sagði: „Vinsamlegast athugið að ofangreindar upplýsingar verða að liggja fyrir áður en pöntun á nýjum og breyttum búnaði verður staðfest.“ Þessu bréfi svaraði gagnáfrýjandi samdægurs og staðfesti að verð á búnaði væri óbreytt. Um afhendingartíma sagði svo í bréfinu: „Varðandi afhendingar tíma þá er um að ræða 10-11vikur frá staðfestingu, þrátt fyrir vélarnar séu nú þegar komnar í framleiðslu þá er um heildar afgreiðslu að ræða það er vélar og gírar eru sambyggðar einingar sem verða að afhendast í einu lagi.”
Sama dag barst Hafnarfjarðarhöfn staðfesting frá Ráðgarði skiparáðgjöf hf., hönnuði bátsins, um að sá breytti búnaður, sem gagnáfrýjandi bauð „uppfyllir því allar þær kröfur sem til hans eru gerðar.“ Hallgrímur Hallgrímsson og Vignir Demusson staðfestu fyrir héraðsdómi að aðaláfrýjanda hafi borist afrit af þessu bréfi. Magnús Jón Smith skýrði hins vegar svo frá að gagnáfrýjanda hafi engin vitneskja borist um þessa staðfestingu.
Aðaláfrýjandi krafðist þess með bréfi 27. september 2000 að gagnáfrýjandi aflaði skriflegrar staðfestingar frá framleiðendum einstakra hluta vélbúnaðarins um afhendingartíma hans fyrir 2. október 2000.
Með bréfi 6. október 2000 lýsti aðaláfrýjandi yfir riftun á samningi aðila vegna vanefnda gagnáfrýjanda. Voru ástæður riftunarinnar tilgreindar þær að hvorki væri enn búið að staðfesta pöntun á skrúfubúnaði né niðurfærslugírum. Gagnáfrýjandi andmælti riftuninni með bréfi 8. sama mánaðar. Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 12. desember 2000.
II.
Aðilar máls þessa deila um hvort aðaláfrýjanda hafi verið heimilt að rifta samningi þeirra. Fyrir liggur að breyttur búnaður uppfyllti þær kröfur, sem til hans voru gerðar og að gagnáfrýjandi tók á sig allan aukakostnað vegna breytinganna. Riftun aðaláfrýjanda byggðist því eingöngu á fyrirsjáanlegum afhendingardrætti á vélbúnaðinum af hálfu gagnáfrýjanda.
Í framangreindum samningi aðila var sérstakt ákvæði um afhendingartíma búnaðarins. Þar segir að afgreiðslufrestur sé „10 vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju.“ Samkvæmt orðanna hljóðan liggur ljóst fyrir að umsamið upphaf tíu vikna afgreiðslufrestsins miðaðist ekki við samningsgerð aðila, eins og aðaláfrýjandi heldur fram, heldur staðfestingu framleiðanda um að pöntun á búnaðinum lægi fyrir. Upphaf frestsins var þannig háð pöntun, sem gagnáfrýjandi skyldi gera eftir að samningur komst á milli aðila. Í niðurstöðum héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðómendum, segir að forsenda þess að gagnáfrýjandi gæti gert slíka pöntun hafi verið sú að aðaláfrýjandi afhenti honum málsettar teikningar og aðrar grundvallar tækniupplýsingar. Verður á því byggt við úrlausn málsins. Samkvæmt framburði Vignis Demussonar og Magnúsar Jóns Smith, sem að framan er rakinn og bréfi gagnáfrýjanda 25. september 2000, verður við það að miða að gagnáfrýjandi hafi ekki fengið slíkar teikningar í hendur. Afgreiðslufresturinn byrjaði því ekki að líða vegna atvika er vörðuðu aðaláfrýjanda að minnsta kosti að verulegu leyti.
Þegar gagnáfrýjandi komst að því að sá gírbúnaður, sem hann hafði boðið og um hafði verið samið, uppfyllti ekki gerðar kröfur brást hann við, eins og að framan er rakið, og bauð fram tvo kosti til úrbóta. Þurfti að velja milli þessara kosta og fyrir liggur að annar þeirra að minnsta kosti hafði í för með sér að breyta þurfti vélaundirstöðum í skrokki bátsins. Er því ljóst að gagnáfrýjanda var nauðsynlegt að fá afstöðu aðaláfrýjanda til þess hvorn kostinn skyldi velja og hvort unnt væri að gera breytingar á undirstöðum vélbúnaðarins vegna nýrra gíra ef sá kostur yrði valinn. Aðaláfrýjandi fékk tafarlaust álit skipasmíðastöðvarinnar í Póllandi á því að unnt yrði að gera breytingar vegna nýs gírbúnaðar, sem og hvaða tafir og kostnað þær hefðu í för með sér. Hann kom þeim upplýsingum hins vegar ekki til gagnáfrýjanda svo sannað sé og sést af bréfi þess síðarnefnda 22. september 2000 að hann beið þá enn svara um hvort nýr gír gæti komið í stað þess sem áður var boðinn. Aðaláfrýjandi kom því ekki á framfæri við gagnáfrýjanda upplýsingum, sem honum voru nauðsynlegar til réttra efnda á samningsskuldbindingu sinni. Með þessu brást hann tillitskyldu sinni, sem leiddi til þess að umsaminn afhendingarfrestur byrjaði ekki að líða. Verður því ekki talið að stefnda hafi verið heimil riftun á kaupunum, sbr. 21. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um fyrsta kröfulið aðaláfrýjanda.
Af málatillbúnaði aðaláfrýjanda verður ekki annað ráðið en að annar kröfuliður hans um endurgreiðslu á þeim 2.200.847 krónum, sem hann greiddi upp í umsamið endurgjald samkvæmt kaupsamningi aðila, sé eingöngu reistur á þeirri forsendu að samningnum hafi réttilega verið rift af hans hálfu. Var fullyrðingu gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti um að svo væri ekki andmælt af hálfu aðaláfrýjanda. Þá er þriðji kröfuliður aðaláfrýjanda um skaðabætur einnig á því reistur að riftun hafi verið heimil. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna beri gagnáfrýjanda af þessum liðum í kröfu aðaláfrýjanda.
Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að samning héraðsdóms fram að niðurstöðukafla er ekki í samræmi við ákvæði 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Ósey hf., greiði gagnáfrýjanda, Atlas hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ósey hf., kt. 480487-1259, Óseyrarbraut 40, Hafnarfirði, á hendur Atlas hf., kt. 460670-0479, Borgartúni 24, Reykjavík, með stefnu sem birt var 12. desember 2000.
Dómkröfur stefnanda eru:
„1. Að viðurkenndur verði réttur stefnanda til að rifta kaupsamningi við stefnda, dags. 21. ágúst 2000, um framdrifsbúnað (vélbúnað) í 17 metra dráttar- og lóðsbát sem stefnandi hóf smíði á fyrir Hafnarfjarðarhöfn á árinu 2000 og lauk við á árinu 2001.
2. Að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 2.200.847,00 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af þeirri fjárhæð frá 6. október 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 19.749.430,00, en til vara að fjárhæð kr. 13.247.400,00, en til þrautavara að fjárhæð kr. 9.331.400,00, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af dæmdri skaðabótafjárhæð frá 12. desember 2000, þegar mál þetta var höfðað í skilningi 93. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, fram til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins."
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og viðurkenndur verði réttur stefnda til að skuldajafna innborgun stefnanda, kr. 2.200.847. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar-reikningi.
I.
Málavextir eru þessir helstir. Með verksamningi 7. júlí 2000 tók stefnandi að sér að smíða 17 metra hafnarbát fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Segir í samningi þessum að verktaki taki að sér smíði hafnarbáts samkvæmt meðfylgjandi útboðsgögnum dagsettum í apríl 2000, með breytingum dagsettum í maí 2000. Þá segir að ákveðin gögn, sem þar eru tilgreind, séu hluti af samningi aðila og verkkaupi skuldbindi sig til þess að greiða fyrir verkið að öllu meðtöldu 48.523.230 krónur. Í fylgiskjali með veksamningi segir að afhendingartími sé 20. desember 2000.
Áður en verksamningurinn var gerður mun starfsmaður Ráðgarðs hf., Bolli Magnússon, á vegum félagins hafa veitt fyrirsvarsmönnum Hafnarfjarðarhafnar tæknilega ráðgjöf og þjónustu við útboð á hafnarbátnum. Við þá umsýslun hafði Ráðgarður hf. fengið tilboð 17. apríl 2000 frá stefnda, Atlas hf., í aðalvélar, skrúfubúnað og gíra bátsins. Varð úr að stefnandi leitaði tilboðs í vélbúnað frá stefnda á grundvelli þessa tilboðs stefnda. Og þann 21. ágúst 2000 varð samkomulag milli aðila, sem tilgreint er á dskj. nr. 9 í málinu. Samið var um að stefndi útvegaði stefnanda: Tvær MTU aðalvélar af gerðinni 8V 2000 M 60 er afkasti 2x400 kW með 1.800 snúningshraða á mínútu, skrúfubúnað, tvö stykki, með fastri skrúfu frá RADICE og skipti- og niðurfærslugíra frá ZF, tvö stykki. Um efni, eðli og efndir þessa samkomulags greinir aðila á.
Af hálfu stefnanda segir að 13. september 2000 hafi borist þau tíðindi frá stefnda að niðurfærslugírar samkvæmt tilboði stefnda væru ekki nægilega öflugir og nauðsynlegt væri að skipta þeim út fyrir aðra öflugri. Næsta dag hafi stefnanda borist teikningar frá stefnda af niðurfærslugírum, sem stefndi ætlaði að útvega í stað hinna fyrri. Þessar teikningar hafi verið teknar með til Póllands þar sem skrokkur skipsins var smíðaður og tæknivinna vegna stálverksins á skipinu var unnin. Hafi þetta verið gert til að kanna hvaða breytingar þyrfti að gera á undirstöðum vélbúnaðarins vegna skipta á niðurfærslugírunum. Seinna hafi komið í ljós að starfsmönnum stefnda hafði verið ljóst, rúmlega viku áður en þeir sögðu stefnanda frá því, að öflugri niðurfærslugírar væru nauðsynlegir.
Þessi tíðindi um niðurfærslugírana, segir af hálfu stefnanda, vöktu upp spurningar hjá stefnanda um verð og afgreiðslutíma búnaðarins. Vegna þeirrar óvissu hafi stefnda verið sent símbréf, dags. 20. september 2000, þar sem stefndi var beðinn um skriflegar upplýsingar fyrir hádegi næsta dag um stöðu mála varðandi ætlaðar breytingar á gír, staðfestingu á pöntun á vélbúnaði, upplýsingar um gírinn, sem nú væri verið að bjóða (niðurgírun, útreikninga á togkrafti o.s.frv.), kostnaðarauka vegna nýs gírs og áætlaðan afgreiðslutíma vegna nýs gírs og þar með vélbúnaðarins í heild sinni. Stefndi hafi svarað fyrirspurn stefnanda með símbréfi, dags. 22. september 2000, þar sem einungis segir um afgreiðslutímann að „allt verði gert til að liðka fyrir afhendingu og flýta henni eins og kostur er." Næstu daga, segir af hálfu stefnanda, hafi verið leitað eftir nánari tæknilegum upplýsingum frá stefnda um niðurfærslugírana og skrúfubúnaðinn svo sem um spyrnukraft búnaðarins við tilteknar forsendur og niðurgírun. Og það næsta sem gerst hafi í málinu hafi verið tilkynning frá stefnda í símbréfi til stefnanda 25. september 2000 um að hann hafi tekið þá ákvörðun að skipta út skrúfubúnaði fyrir skipið, þ.e. að taka skrúfubúnað frá LIPS í staðin fyrir skrúfubúnað frá RADICE, svo sem samningurinn gerði ráð fyrir. Hafi stefndi borið fyrir sig örðugleika í samskiptum við RADICE á Ítalíu. Þá hafi fylgt í símbréfinu ýmsar tæknilegar upplýsingar um þennan nýja skrúfbúnað og tekið fram að þær væru gefnar með þeim fyrirvara, að ekki lægi þá fyrir „línuteikning" af skipinu. Næsta dag, 26. september, hafi stefnandi í símbréfi til stefnda beðið um staðfestingu á verði búnaðarins og staðfestingu á afhendingartíma búnaðarins. Í símbréfinu hafi það sérstaklega verið áréttað „að ofangreindar upplýsingar verða að liggja fyrir áður en pöntun á nýjum og breyttum búnaði verður staðfest." Stefndi hafi svarað með símbréfi samdægurs, þar sem hann sagði að verðið á vélbúnaðinum yrði óbreytt en afhending búnaðarins í heild yrði „10 - 11 vikur frá staðfestingu."
Af hálfu stefnanda segir að þegar hér var komið sögu hafi verið liðnar 5 vikur af hinum upphaflega umsamda 10 vikna afhendingartíma búnaðarins. Hafi forsvarsmenn stefnanda haft nokkrar áhyggjur af þróun þessara mála, ekki hvað síst vegna hins knappa afhendingartíma á skipinu. Til að taka af öll tvímæli í þessum efnum þá hafi stefnandi sent stefnda símbréf, dags. 27. september 2000, sem að meginefni hljóðar svo:
"Vinsamlegast sendu okkur eftirfarandi skriflegar staðfestingar:
· Skriflega staðfestingu frá MTU um afhendingartíma vélanna
· Skriflega staðfestingu frá ZF um afhendingartíma niðurfærslugíranna
· Skriflega staðfestingu frá LIPS um athendingartíma á skrúfubúnaði og
skrúfuhringjum.
Þar sem allir þessir aðilar eru á Hamborgarsýningunni ætti ekki að vera mikið mál að afla þessara upplýsinga.
Frestur til að senda okkur þessar skriflegu staðfestingar frá framleiðendum er gefinn til mánudagsins 2. október 2000."
Af hálfu stefnanda segir að umbeðnar staðfestingar hafi ekki borist. Og 6. október 2000 hafi verið ákveðið í samráði við forráðamenn Hafnarfjarðarhafnar að lýsa yfir riftun á samningi málsaðila frá 21. ágúst 2000 um kaup á greindum framdrifsbúnaði (vélbúnaði). Þessi ákvörðun hafi verið byggð á því að ljóst væri að afhendingu vélbúnaðarins mundi seinka um a.m.k. 7 vikur frá því sem upphaflega hafði verið um samið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á afhendingu skipsins. Riftunaryfirlýsingin hafi samdægurs verið send stefnda í ábyrgðarpósti og samtímis símsend honum. Þar hafi verið greint frá riftunarástæðum og gerð krafa um endurgreiðslu á því fé sem þegar hafði verið greitt inn á samninginn. Þá hafi í bréfinu verið áskilinn réttur til handa stefnanda til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda vegna alls þess tjóns sem hefði hlotist og kynni að hljótast af vanefndum stefnda. Í beinu framhaldi af riftunaryfirlýsingunni hafi af hálfu stefnanda verið hafist handa við að útvega annan vélbúnað í skipið og ráðstafanir gerðar til að takmarka tjón og önnur vandræði, sem þessi dráttur á afhendingu vélbúnaðarins kynni að hafa í för með sér, einkum varðandi afhendingarskyldur á skipinu. Af hálfu stefnda hafi réttmæti riftunarinnar verið mótmælt og endurgreiðslu- og bótakröfum stefnanda hafnað og hafðar uppi skaðabótakröfur á hendur stefnanda vegna ólögmætra samningsrofa. Þegar svo var komið hafi af hálfu stefnandi ekki verið talið annarra kosta völ en að leita atbeina dómstóla til að ná rétti sínum í þessum efnum.
Af hálfu stefnda segir að stefnandi hafi leitað eftir tilboðum frá stefnda í aðalvélar, skrúfubúnað og gíra bátsins í samræmi við ráðleggingar Ráðgarðs hf. Við venjubundna yfirferð yfir útreikninga, sem til grundvallar samsetningu búnaðarins lágu, hafi komið upp vafi um að gírar þeir, sem gert hafði verið ráð fyrir, væru nægjanlega öflugir. Framleiðandi vélanna MTU [Motoren- und Turbinen- Union] hafi 8. september 2000 lagt til að skipt yrði um gír og öflugri gír kæmi í staðinn. Hafi framleiðandinn lagt til teikningar með þeim breytingum sem gera þyrfti vegna öflugri gírs. Hafi stefndi upplýst stefnanda um þetta og teikningarnar sendar Vigni Demussyni, véltæknifræðingi og starfsmanni stefnanda, eigi síðar en 13. september 2000, og hann beðinn um að staðfesta að gerðar breytingar væru í lagi. Stefnandi hafi sent teikningarnar til Póllands, þar sem smíði bátskrokksins fór fram, ásamt tæknivinnu vegna stálverks á skipinu. Skipasmíðastöðin í Póllandi hafi staðfest 20. september 2000 að ekki væri vandamál að breyta undirstöðum vélanna. Aukinn kostnaður vegna þessa hafi verið áætlaður USD 3.500 (uþb. 290.000 kr. á gengi þess tíma) og talið að afhending skrokksins gæti tafist um eina viku, eða frá 21. október til 28. október 2000. Stefnda hafi ekki verið kunnugt um bréfið frá skipasmíðastöðinni fyrr en það var lagt fram við þingfestingu málsins.
Þann 20. september 2000 hafi stefnandi sent bréf til stefnda þar sem leitað hafi verið upplýsinga um hinn nýja gír o.fl. Stefndi hafi svaraði fyrirspurnum stefnanda skriflega þann 22. september 2000, þar sem staðfest var það, sem aðilar höfðu rætt símleiðis, að við nánari skoðun framleiðanda vélanna hefði komið í ljós að gírinn væri ekki nægilega öflugur fyrir það álag, sem gert var ráð fyrir að hann þyrfti að þola samkvæmt smíðalýsingu. Jafnframt hafi verið upplýst að framleiðandi vélanna myndi leggja til stærri og dýrari gír án aukakostnaðar. Þá hafi verið upplýst að kostnaður við nauðsynlegar breytingar yrði greiddur af framleiðanda vélanna.
Þann 22. september 2000 hafi stefnandi leitað eftir frekari tæknilegum upplýsingum um gírinn og hafi þeim fyrirspurnum verið svarað samdægurs.
Þann 25. september 2000 hafi stefndi tjáð stefnanda í símbréfi að vegna samskiptaörðugleika við RADICE, framleiðanda skrúfubúnaðarins í frávikstilboðinu, hefði stefndi leitað til LIPS, framleiðanda skrúfubúnaðarins, sem miðað var við í upphaflega tilboðinu, og komist að samkomulagi við LIPS um að þeir gengju inn í tilboð stefnda til stefnanda. Með símbréfinu hafi fylgt nauðsynlegar tækniupplýsingar til staðfestu því að breytingin hefði ekki áhrif á aðra þætti.
Þann 26. september 2000 hafi stefnandi farið fram á að stefndi staðfesti verð búnaðar og afhendingartíma. Stefndi hafi samdægurs staðfest að þrátt fyrir breytingarnar væri verðið óbreytt; greitt verði fyrir kostnað við breytingar og að afhendingartími búnaðarins væri 10-11 vikur frá staðfestri endanlegri pöntun til framleiðanda eins og samningur aðila gerði ráð fyrir. Jafnframt hafi því verið lýst yfir að stefnda þætti miður að þessar tafir hefðu orðið á afhendingu, og það áréttað, að fyrir stefnda vekti aðeins að tryggja að búnaður sá, sem boðinn var, væri fyrsta flokks.
Þann 27. september 2000 hafi stefnandi óskað eftir skriflegum staðfestingum frá framleiðendum vélbúnaðarins á afhendingartíma vélanna, gíranna og skrúfubúnaðarins. Samdægurs hafi starfsmaður stefnda, Magnús Smith, sem staddur var í Þýskalandi, haft samband við framleiðendur búnaðarins, og óskað eftir umbeðnum staðfestingum. Framleiðendurnir hafi hins vegar óskað eftir því að stefnandi staðfesti að breytingar gengju upp, sem gerðar hefðu verið, en stefnandi hafi aldrei gefið slíka staðfestingu þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnda í þá veru. Framleiðendurnir hafi hins vegar lýst yfir vilja til þess að hraða afhendingu búnaðarins ef staðfesting fengist frá stefnanda. Magnús Smith hafi sagt bæði Vigni Demussyni, starfsmanni stefnanda, og Kristni Aadnegaard, starfsmanni hafnarinnar, frá þessu og óskað enn eftir staðfestingu á því að búnaðurinn passaði en stefnandi hafi ekki orðið við því að staðfesta að svo væri.
Með bréfi, dags. 6. október 2000, hafi stefnandi rift samningi aðila, dags. 21. ágúst 2000. Riftuninni hafi verið mótmælt skriflega með bréfi, dags. 8. október 2000, og það ítrekað með bréfi, dags. 24. október 2000, og þess krafist, að stefnandi stæði við gerða samninga. Með bréfi, dags. 30. október 2000, hafi lögmaður stefnanda hafnað kröfum stefnda og ítrekað riftun samningsins, krafist endurgreiðslu innborgunar og áskilið stefnanda rétt til þess að krefjast skaðabóta. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2000, hafi lögmaður stefnda ítrekað framkomin sjónarmið og krafist skaðabóta vegna ólögmætra samningsrofa.
II.
Á dómþingi 20. mars 2001 fór stefnandi fram á að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta „hið beina fjártjón stefnanda, sem þegar hefur leitt af vanefndum stefnda á samningsskyldum hans gagnvart stefnanda samkvæmt greindum kaupsamningum þeirra um sölu og afhendingu tiltekins vélbúnaðar í nefndan dráttar- og hafnsögubát, svo sem þeim kaupum er nánar lýst í héraðsdómsstefnunni og kaupsamningnum. Vanefndir stefnda á skyldum sínum sem seljanda búnaðarins leiddu til þess þann 6. október 2000, að stefnandi sá sig til þess knúinn að lýsa riftun á kaupsamningnum.
Nánar tiltekið er beiðst mats á því fjártjóni sem stefnandi taldi sig standa frammi fyrir þegar kaupsamningnum var rift vegna þá fyrirsjáanlegs sjö vikna afhendingardráttar á vélbúnaðinum frá því sem um hafði verið samið samkvæmt kaupsamningi aðila á vélbúnaðinum á dskj. 9. Matið sundurgreinist í eftirgreinda átta matsþætti, sbr. dskj. nr. 27 og sundurliðun bótakröfunnar á bls. 7 í héraðsdómsstefnunni:
1. Tjón vegna stöðu bátsins í húsi í 49 daga umfram það sem ráð var fyrir gert.
2. Tjón vegna breytinga á undirstöðum vélbúnaðar vegna breytinga á hluta
vélbúnaðarins frá upphaflegri gerð og síðan vegna kaupa á nýjum vélbúnaði.
3. Tjón vegna dagsekta til Hafnarfjarðarhafnar vegna tafa á verkinu í 18 daga.
[Á raunar að vera dagsektir vegna tafa á breytingum á v/s Reykjaborg RE 25 en ekki dagsektir til Hafnarfjarðarhafnar svo sem fram kemur í matsgerðinni.]
4. Tjón vegna mannahalds í 49 daga vegna afhendingardráttarins.
5. Tjón vegna verkstjórnar í sama dagafjölda.
6. Kostnaðarauki vegna 3ja viðbótarstarfsmanna í 18 daga.
7. Kostnaðarauki vegna verkstjórnar í 18 daga.
8. Tjón vegna tapaðs auglýsingargildis verksins vegna afhendingardráttarins."
Stefndi gerði ýmsar athugsemdir við beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns. Fann hann að því m.a. að matsmanni væri ætlað að meta hið meinta beina fjártjón, sem stefnandi teldi sig hafa orðið fyrir af hálfu stefnda, eða það tjón, sem stefnandi hafi talið sig standa frammi fyrir, þegar stefnandi rifti samningi aðila vegna meints fyrirsjáanlegs sjö vikna afhendingardráttar. Með matsbeiðni sinni væri stefnandi einfaldlega að fara fram á það við dóminn að dómkvaddur væri matsmaður til þess að reikna út tjón, sem stefnandi hafi gefið sér, án þess að metið yrði hvaða forsendur lægju að baki meintu tjóni stefnanda.
Til að framkvæma hið umbeðna mat var kvaddur til Jón B. Hafsteinsson skipaverkfræðingur. Og á dómþingi 6. september 2001 lagði stefnandi matsgerðina fram.
Í matsgerðinni segir um matslið nr. 1: Ekki er til samræmd gjaldskrá fyrir stöðvarnar hérlendis um slipptöku og uppsátur. Með hliðsjón af verði á uppsátri stöðvanna má reikna með að staða báts af þessari stærð nemi um kr. 15.000.- á dag eða kr. 735.000 fyrir 49 daga.
Um matslið nr. 2 segir: Samkvæmt gögnum málsins voru eftirfarandi breytingar gerðar á undirstöðum fyrir vélar og gíra: Við smíði á bátsbol í Póllandi voru undirstöður fyrir vélar og gíra sem hæfðu upphaflegum búnaði þ.e. MTU vélum og ZF gírum. Við komu bátsins til landsins voru undirstöður fyrir fyrrgreindan búnað. Þá segir til frekari skýringar á þessum matslið:
Við skipti á vélbúnaði í aðalvélar af gerðinni Caterpillar og gíra af gerðinni Masson var nauðsynlegt að breyta undirstöðum á eftirfarandi hátt:
Undirstöður undir aðalvélar voru notaðar með því að smíða stóla undir vélarnar. Undirstöðum undir gíra þurfti að breyta, færa þurfti undirstöður í sundur um 50 mm til hvorrar hliðar. Við þessar breytingar þurfti að skera úr hliðar geymis, sjóða í nýjar hliðar, þrýstiprófa geymi, smíða nýjar undirstöður ásamt toppplötu og skera úr og breyta botnstokkum.
Verð á tæknivinnu (útreikningar, teiknivinna) er áætlað 4500 kr./klst.
Verð á útseldri vinnu skipasmíðastöðva og vélaverkstæða er frá um 2.100 til 3.300 kr. /klst. og fer verðið m.a. eftir því hvort verkstjórn og verkfæraleiga sé innifalin. Jafnaðarverð með 8 klst. dagvinnu og tveggja tíma yfirvinnu ásamt verkstjórn og verkfæraleigu er áætlað í matinu 3.100 kr/klst.
Við ofangreint verð bætast við 800 kr./klst. við skurð og slípun eða 3.900 kr./klst. og við rafsuðu 1.100 kr./klst. eða 4200 kr./klst.
Áætlað er að verkið taki 1 viku fyrir 2 menn eða 5 x 2 (8+2) =100 klst.
Áætlað er að 50 klst. fari í rafsuðu, 10 klst. í skurð og slípun og 40 tímar í vélavinnu.
Kostnaður vegna ofangreindra breytinga er metinn eftirfarandi:
a. Útreikningar, hönnun og teiknivinna 24 klst./ 4.500 kr./klst. kr. 108.000.-
b. Samþykkt teikninga, eftirlit og prófanir kr. 50.000.-
c. Efni, stál 380 kg á 100 kr./kg. kr. 38.000.-
d. Skurður og slípun 10 klst./3.900 kr./klst.(3.000+800) kr. 39.000.-
e. Rafsuða 50 klst. á 4200 kr./klst.(3100+1100) kr. 210.000.-
f. Önnur vinna 40 klst., verkstj. og áhöld innif. á 3100 kr./klst. kr. 124.000.-
kr. 569.000.-
Um matslið nr. 3 segir: Samkvæmt verksamningi (fskj. 8 við eigendur v/s Reykjaborgar gr. 19, ".. skulu tafabætur vera að lágmarki 1.0% (eitt prósent) af endanlegri samningsupphæð, fyrir hvern almanaksdag sem verkið dregst fram yfir umsaminn afhendingardag þó að hámarki 20% af endanlegri samningsfjárhæð."
Samkvæmt málsgögnum var 18 daga seinkun á verkinu. Samningsupphæð var samkvæmt gögnum frá Ósey hf. (fskj. 9) kr. 9.980.000.
Dagsektir nema samkvæmt ofangreindu (l8xl%x9.980.000) kr. 1.796.400.
Um matslið nr. 4 segir: Í greinargerð Óseyjar hf., dskj. nr. 27 er getið um kostnað vegna 7 - 4 = 3 starfsmanna í 49 daga. Hér verður reiknað með jafnaðarverði á klst. kr. 3100.-, sjá hér að ofan undir lið nr. 2. Tjón vegna mannahalds í 49 daga með 10 tíma vinnudegi fyrir 3 menn verkstjórn meðtalin verður: 49 x 10 x 31100 = 4.557.000.-kr.
Um matslið nr. 5 segir: Tjónið er innifalið í upphæðinni í lið nr. 4.
Um matslið nr. 6 segir: Kostnaðarauki verður samanber ofangreinda útreikninga fyrir 18 daga með 10 tíma vinnudegi fyrir 3 menn verkstjórn meðtalin: 18 x 10 x 3 x 3100 = 1.674.000.- kr.
Um matslið nr. 7 segir: Kostnaðaraukinn er innifalinn í lið nr. 6.
Um matslið nr. 8 segir: Í viðræðum við fulltrúa Óseyjar hf. var óskað eftir upplýsingum um síðustu verkefni og hvernig staðið hafi verið við afhendingartíma. Upplýsingar bárust um 5 síðustu verkefni stöðvarinnar (fskj. nr.10) án þess að getið væri um hvort staðið hafi verið við afhendingartíma einstakra verkefna. Undirritaður telur því ekki unnt að leggja mat á ofangreint tjón.
Samanlögð fjárhæð allra matsliða varð því 9.331.400 krónur.
III.
Kröfu um viðurkenningu á rétti stefnanda til að rifta kaupsamningi aðila frá 21. ágúst 2000 byggir stefnandi á eftirfarandi: Í fyrsta laga að komið hafi í ljós rúmum þremur vikum eftir að samningurinn var undirritaður, eða nánar tiltekið þann 13. september 2000, að starfsmönnum stefnda eða starfsmönnum umbjóðenda hans hafði orðið á mistök varðandi framboðna niðurfærslugíra við aðalvélar skipsins, þannig að framboðnir niðurfærslugírar væru ekki nægilegar öflugir til síns brúks og þyrfti því að skipta þeim út fyrir aðra öflugri niðurfærslugíra. Þessi mistök hafi leitt til verulegrar seinkunar á afhendingu búnaðarins auk þess sem þurft hefði að breyta undirbyggingu vélbúnaðarins í skipinu að nokkru marki. Í öðru lagi að komið hafi í ljós 25. september 2000 að stefndi hafði tekið þá ákvörðun, án alls samráðs við stefnanda eða Hafnarfjarðarhöfn, að skipta út umsömdum skrúfubúnaði fyrir skipið. Hafi stefndi að eigin sögn tekið þessa ákvörðun vegna samskiptaörðugleika við ítalska fyrirtækið RADICE, sem samningur aðila gerði ráð fyrir að framleiddi skrúfubúnaðinn í skipið. Í stað þess hafi stefndi ákveðið að taka skrúfubúnað frá framleiðandanum LIPS. Þessi ákvörðun stefnda hafi að hans eigin sögn verið til þess fallin að seinka afgreiðslu vélbúnaðarins í heild um allt að sjö vikur. Í þriðja lagi hafi, er svo var komið málum, verið talið af forráðamönnum stefnanda full ástæða til að afla skriflega staðfestingar frá sjálfum framleiðendunum vélbúnaðarins um það mikilvæga atriði, hvenær vænta mætti að afhending á framboðnum og umsömdum vélbúnaði í skipið gæti farið fram. Stefnandi hafi borið fram þessa ósk í símbréfi til stefnda, dags. 27. september 2000, og óskað jafnframt eftir því að hann fengi slíkar staðfestingar í hendur frá hverjum framleiðanda vélbúnaðarins fyrir sig eigi síðar en 2. október 2000. Engar slíkar staðfestingar hefðu borist stefnanda fyrir þann tíma né síðar. Þegar staðfestingar höfðu ekki borist 6. október 2000, hafi af hálfu forsvarsmanna stefnanda verið litið svo á að framleiðendur vélbúnaðarins treystu sér ekki til að slá neinu föstu um afhendingartíma vélbúnaðarins. Við svo búið hafi stefnandi ákveðið í samráði við Hafnarfjarðarhöfn að rifta samningi málsaðila um kaup á umræddum vélbúnaði.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að um verslunarkaup í skilningi laga nr. 39/1922 hafi verið að ræða milli aðila. Af því leiði að sérhver dráttur á afhendingu sé verulegur, sbr. 3. mgr. 21. gr. sömu laga. Samkvæmt samningi aðila frá 21. ágúst 2000 hafi stefndi skuldbundið sig til að afhenda vélbúnaðinn cif Reykjavík eigi síðar en 10 vikum frá „staðfestri pöntun frá verksmiðju." Af hálfu stefnanda sé litið svo á að afhendingarfrestur hafi byrjað að líða við samþykki hans á frávikstilboði stefnda, nánar tiltekið þann 21. ágúst 2000. Þegar stefnandi lýsti riftun 6. október 2000 hafi fyrirsjáanlegur afhendingardráttur á vélbúnaðinum verið að minnsta kosti 7 vikur. Sé þá við það miðað að afhendingarfrestur vélbúnaðarins hafi farið að renna í 34. viku ársins og búnaðinn hafi því átt að afhenda í samræmi við samning aðila í 44. viku ársins. Vegna mistaka stefnda á vali á niðurfærslugírum fyrir vélarnar og síðan vegna einhliða ákvörðunar stefnda að skipta út hinum umsamda skrúfubúnaði fyrir skipið, hafi afhending búnaðarins fyrirsjáanlega dregist í að minnsta kosti 7 vikur frá umsömdum afhendingartíma, þ.e. fram í 51. viku ársins.
Þá er á því byggt, að afhendingardráttur verði með engum hætti rakinn til atvika sem stefnandi beri að lögum ábyrgð á né að drátturinn verði réttlættur af „ósjálfráðum atburðum" í skilningi 1. mgr. 21. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Stefnandi hafi átt tveggja kosta völ í stöðunni: Að heimta hlutina af stefnda eða rifta kaupum og krefjast skaðbóta með vísan til 23. gr. laganna. Stefnandi hafi valið síðari kostinn. Hafi hann rift kaupum og krafist endurgreiðslu á peningum, sem hann hafði greitt stefnda vegna kaupanna, og áskilið sér rétt til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda vegna vanefnda hans.
Á því er einnig byggt, að hinn fyrirsjáanlegi afhendingardráttur á búnaðinum hafi ekki aðeins verið „verulegur" í skilningi 3. mgr. 21. gr. laga nr. 39/1922, heldur hafi hann einnig verið verulegur í viðurkenndum skilningi þessa hugtaks. Ágreiningslaust sé að þetta hugtak verði að skýra og skilgreina með hliðsjón af atvikum öllum. Í þessu tilviki einnig með hliðsjón af því, að afhendingarskyldur stefnanda á skipinu voru bundnar í samningum hans við Hafnarfjarðarhöfn að viðlögðum dagsektum og möguleiki stefnanda til efna þær skyldur réðust meðal annars af því að vélbúnaður skipsins yrði afhentur á tilsettum tíma. Um þetta hafi forsvarsmönnum stefnda frá upphafi verið fullkunnugt. Í bréfi lögmanns stefnda frá 8. október 2000 til stefnanda sé á það fallist að fyrirsjáanlegt hafi verið að „einhver" dráttur yrði á afhendingu vélbúnaðarins, en lögmaðurinn ekki talið dráttinn verulegan og ekki réttlæta riftun kaupsamningsins. Þessi viðurkenning ein út af fyrir sig sé nægileg réttlæting á riftun samningsins með vísan til 3. mgr. 21. gr. laganna um lausafjárkaup. Þá hafi hinn fyrirsjáanlegi afhendingardráttur verið verulegur í hefðbundnum skilningi og riftunin því heimil, einnig af þeim ástæðum.
Krafa um endurgreiðslu á 2.200.847 krónum er reist á því að stefnanda sé heimilt að rifta samningi aðila. Stefnandi hafi rift samningi með bréfi til stefnda 6. október 2000 og beri stefnda að endurgreiða fjárhæðina með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Bótakröfu sína styður stefnandi þeim rökum að fyrirsjáanlegur afhendingar-dráttur á vélbúnaðinum hafi valdið og komi til með að valda stefnanda verulegu beinu fjártjóni auk margskonar truflunum og óþægindum við rekstur fyrirtækisins. Stefndi hafi með saknæmum hætti valdið þessu og sé því bótaskyldur á grundvelli skaðabótaréttar.
Aðalkröfu sundurliðar stefnandi þannig:
1. Missir tekna vegna stöðugjalda í húsi, 49x35.000. 1.715.000,00
2. Aukakostnaður v/breytinga á undirstöðum vélbúnaðar. 907.610,00
3. Dagsektir vegna dráttar á næsta verki, 18x100.000. 1.800.000,00
4. Kostnaðarauki vegna mannahalds í 49 daga. 3.939.600,00
5. Verkstjórn í 49 daga. 2.150.000,00
6. Kostnaðarauki vegna 3ja viðbótarstarfsmanna í 18 daga. 1.447.200,00
7. Kostnaðarauki vegna verkstjórnar í 18 daga. 790.020,00
8. Tapað auglýsingagildi vegna afhendingardráttarins. 7.000.000.00
Samtals kr.19.749.430,00
Varakröfu sundurliðar stefnandi þannig:
1. Tjón vegna stöðu bátsins í húsi í 49 daga umfram það
sem ráð var fyrir gert. 1.225.000,00
2. Tjón vegna breytinga á undirstöðum vélbúnaðar vegna
breytinga á hluta vélbúnaðarins frá upphaflegri gerð og
síðan vegna kaupa á nýjum vélbúnaði. 569.000,00
3. Tjón vegna dagsekta til eiganda v/s Reykjaborgar vegna
tafa á verkinu í 18 daga. 1.749.400,00
4. Tjón vegna mannahalds í 49 daga vegna afhendingardráttar. 4.557.000,00
5. Tjón vegna verkstjórnar í sama dagafjölda.(innifalið í lið 4).
6. Kostnaðarauki vegna 3ja viðbótarstarfsmanna í 18 daga. 1.647.000,00
7. Kostnaðarauki vegna verkstjórnari í 18 daga.(innifalið í lið 6).
8. Tjón vegna tapaðs auglýsingagildis verksins vegna
afhendingardráttarins. 3.500.00,00
Samtals kr. 13.247.400,00
Þrautavarakrafa stefnanda er sundurliðuð á sama hátt og niðurstaða matsgerðar er tölulega sett fram.
IV.
Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnanda hafi ekki verið heimilt að rifta samningi aðila og eigi stefnandi því engar kröfur á hendur stefnda. Samningur aðila 21. ágúst 2000 um kaup stefnanda á vélbúnaði hafi ekki verið verslunarkaup í skilningi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup heldur stór þáttur í veigamiklum verkframkvæmdum er gerði ráð fyrir að tiltekinn vébúnaður, sem stefndi skyldi afhenda stefnanda, yrði settur saman eftir þörfum stefnanda til ákveðinna nota. Gert hefði verið ráð fyrir úttekt á vélbúnaðinum eftir að honum hefði verið komið fyrir í bátnum og hann prufukeyrður. Samningur aðila hafi því frekar verið verksamningur en samningur um verslunarkaup. Hafi báðum aðilum borið að vinna saman að lausn á ófyrirséðum aðstæðum er upp kæmu við framkvæmd verksins. Stefnandi hafi ekki sinnt skyldum sínum í þessu efni með fullnægjandi hætti og beri hann því ábyrgð á stórum hluta þeirra tafa sem urðu á pöntun vélbúnaðarins. Þá hafi stefndi ekki getað lokið pöntun á vébúnaðinum fyrr en stefnandi staðfesti að búnaðurinn passaði.
Stefndi hafnar því að afhendingarfrestur hafi farið að líða við samþykki stefnanda á tilboði stefnda 21. ágúst 2000. Í samningi segi að afhendingartími sé „tíu vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju" en ljóst sé að tíma taki að fá staðfesta pöntun frá verksmiðju. Aðilar beri sameiginlega tjón að því að ófyrirsjáanlegar aðstæður urðu til að tefja staðfestingu pöntunar frá verksmiðju.
a) Um ástæður, sem stefnandi styður riftun á samningi aðila, er varðar í fyrsta lagi niðurfærslugíra, í öðru lagi skrúfubúnað og í þriðja lagi skriflega staðfestingar framleiðanda segir stefndi m.a.: Um niðurfærslugíra. Við venjubundna lokayfirferð yfir teikningar og útreikninga kom upp vafi á því að þeir gírar, sem reiknað hafði verið með, væru nægilega öflugir miðað við gefnar forsendur. Framleiðandi vélanna lagði einnig til að öflugri gírar yrðu hafðir en gert hafði verið ráð fyrir samkvæmt samningi aðila. Stefnanda voru sendar nauðsynlegar upplýsingar um breytinguna og fékkst staðfest skriflega frá skipasmíðastöð, sem smíðaði skrokkinn, að ekki væri mikið mál að breyta undirstöðum vélanna miðað við hina nýju gíra. Stefnandi sagði hins vega ekki stefnda frá þessu þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir því að stefnandi staðfesti að búnaðurinn passaði. Stefnandi hafði fullnægjandi gögn til að staðfesta, að umrædd breyting á gírum passaði í bátinn, án þess að láta verða af því. Beri stefnandi því að minnsta kosti að hluta ábyrgð töfum, sem urðu, enda hafi honum borið að vinna með stefnda að úrlausn þess vanda sem hér var um að ræða. Stefndi og framleiðandi vélanna hafi á hinn bóginn ekki viljað taka neina áhættu varðandi gírana og því ákveðið að skipta um gíra og setja dýrari og öflugri gíra í staðinn.
Um skrúfubúnaðinn segir stefndi m.a.: Ekki er deilt um að stefndi tilkynnti stefnanda að vegna samskiptaörðugleika við RADICE hefði verið ákveðið að skrúfubúnaður frá LIPS kæmi í stað skrúfubúnaðar frá RADICE. Stefnanda var tjáð að engin kostnaðaraukning, tafir eða óþægindi myndu hljótast af þessum skiptum fyrir stefnanda. Stefnandi gerði engar athugasemdir og ekki er annað að sjá af bréfaskriftum stefnanda en að hann hafi fallist á þessa breytingu enda var hún honum í hag. Er því hafnað að stefnandi geti borið því fyrir sig að um vanefnd af hálfu stefnda sé að ræða vegna þessa atviks. Stefndi mótmælir að hafa tjáð stefnanda að ákvörðun um að skipta um skrúfubúnaði væri til þess fallin að seinka afgreiðslu búnaðarins um allt að sjö vikur svo sem fullyrt er af hálfu stefnanda. Stefndi gaf aldrei slíka yfirlýsingu en hefur hins vegar ávallt upplýst að afhendingartími, sem gert var ráð fyrir í samningnum, gilti, þ.e. 10 vikur frá því að framleiðendur staðfesta að endanleg pöntun hafi borist.
Um skriflegar staðfestingar framleiðanda segir stefndi m.a.: Þann 27. september 2000, lagði stefnandi fram beiðni um að framleiðendur staðfestu skriflega hvenær vélbúnaðurinn yrði afhentur. Stefnda var ómögulegt að afla slíkra staðfestinga þar sem framleiðendur fóru eðlilega fram á að staðfest yrði að búnaðurinn passaði áður en þeir staðfestu hvenær hann yrði afhentur. Framleiðendur voru ekki bundnir samningi við stefnanda og hafði stefndi ítrekað staðfest að umsaminn afhendingarfrestur, þ.e. 10 vikur frá staðfestri pöntun, gilti áfram. Stefnandi hafði því enga heimild til þess að fara fram á umbeðnar staðfestingar, sem honum mátti vera ljóst að ekki yrðu gefnar, þar sem ekki hafði verið gengið endanlega frá pöntun búnaðarins. Þar að auki hafði stefndi engin úrræði til að krefja framleiðendur um umbeðnar staðfestingar. Stefndi upplýsti stefnanda um þetta símleiðis og ítrekaði, að umsaminn afhendingarfrestur gilti áfram. Verður því ekki talin vanefnd af hálfu stefnanda að hafa ekki lagt fram umbeðnar staðfestingar. Það er rangt, að fyrirsjáanlegur afhendingardráttur hafi verið a.m.k. 7 vikur frá því sem um hafi verið samið, svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda. Samningur aðila gerir augljóslega ráð fyrir því að gengið sé frá endanlegri pöntun áður en staðfesting á pöntun getur borist frá framleiðendum.
Varðandi túlkun á samningi aðila, heldur stefndi fram, að heimild stefnanda til að rifta samningi sé þrengri en lög um lausafjárkaup mæla fyrir um, enda hafi frekar verið um verksamning milli aðila að ræða en kaupsamning. Taka beri tillit til hagsmuna beggja og líta til afleiðinga riftunar fyrir báða aðila. Mikil vinna liggi að baki samningi þeirra. Undirbúningur tilboðs, þar sem tæknileg lausn er fundin miðað við forsendur, sem lagðar eru fram í útboðsgögnum, er tímafrekur og kostnaðarsamur. Þá hafi mikill vinna verið lögð í það að finna lausn á tæknilegu vandamáli, sem upp kom varðandi niðurfærslugírana, en ekkert hafi að lokum vantað nema staðfestingu stefnanda á að búnaðurinn passaði. Riftun samningsins 21. ágúst 2000 gangi gegn eðlilegu mati á hagsmunum aðila. Rökstuðningur stefnanda fyrir heimild til riftunar hljóti að byggja á hagsmunum sem ekki hefur verið upplýst hverjir eru. Aðeins hafi vantaði staðfestingu stefnanda á því að niðurfærslugírarnir pössuðu til að unnt væri að senda endanlega pöntun til framleiðenda, og ítrekað hafi stefnanda verið tjáð, að afhending væri 10 vikum frá staðfestingu á pöntun. Hefði stefnandi viljað, hefði verið hægt að ganga frá endanlegri pöntun 13. september 2000. Riftun stefnanda var fyrirvaralaus og andstæð góðum viðskiptaháttum. Stefnanda hefði borið að gefa stefnda tækifæri til þess að bæta úr meintum vanefndum. Hagsmunir stefnanda voru ekki slíkir að réttmætt gætu fyrirvaralausa riftun. Ef fyrirséð var, eða í ljós hefði komið, að endanleg afhending bátsins hefði tafist og valdið stefnanda tjóni, hefðu almennar reglur samninga- og skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga tryggt hagsmuni stefnanda með fullnægjandi hætti. Stefnanda var í lófa lagið að staðfesta, að búnaðurinn passaði, skora á stefnanda að flýta afhendingu eins og auðið var og áskilja sér rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna alls þess tjóns, sem leitt gæti af atvikum, sem stefndi bar hugsanlega ábyrgð á. Stefnanda bar að beita þeim úrræðum, sem tæk voru, en ekki rifta samningnum fyrirvarlaust. En því er raunar mótmælt, að stefndi hafi vanefnt samning aðila, hvað þá að um verulega vanefnda hafi verið að ræða, sem heimilaði stefnanda riftun samningsins. Stefnandi hefur sönnunarbyrðina á því að riftunarástæður hafi verið fyrir hendi en hefur ekki sannað að svo hafi verið.
b) Um kröfu stefnanda á endurgreiðslu segir stefndi m.a.: Endurgreiðslukrafa stefnanda styðst einungis við rétt stefnanda til að rifta samningi aðila. Stefndi hefur frá upphafi mótmælt riftun stefnanda og áskilið sér rétt til skaðabóta vegna þess tjóns, sem riftunin hefur í för með sér.
c) Um bótakröfu stefnanda segir stefndi m.a.: Verði talið, að stefnanda hafi verið heimil riftun samningsins, byggist sýknukrafa stefnda á því, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna meintra vanefnda stefnda. Áður hefur verið rökstutt að stefnandi beri sjálfur að stórum hluta ábyrgð á þeim töfum sem urðu á endanlegri pöntun vélbúnaðarins og því er mótmælt að meint vanefnd stefnda hafi valdið stefnanda verulegu beinu fjártjóni auk margskonar truflunum og óþægindum í rekstri, eins og fullyrt er í stefnu. Samkvæmt upplýsingum stefnanda þá var skrokkur bátsins afhentur nokkrum vikum áður en endanleg afhending bátsins átti að vera skv. verkáætlun. Verkáætlun stefnanda hefur því ekki verið raunhæf eins og sú staðreynd að báturinn hefur ekki enn verið afhentur [ 27. febrúar 2001] sýnir augljóslega.
Upphaflega verkáætlunin gerði ráð fyrir því að stefnandi afhenti bátinn fullbúinn um miðjan desember 2000 og má ljóst vera að önnur atvik en hugsanlegar tafir á afhendingu vélbúnaðar hafa valdið þeim töfum sem augljóslega hafa orðið á afhendingu bátsins. Framlögð verkáætlun, dags. 5. desember 2000, gerir ráð fyrir afhendingu bátsins í fyrstu viku febrúar 2001. Sú áætlun hefur augljóslega ekki staðist. Stefnandi hefur ekki upplýst hvað hafi valdið þessum töfum á afhendingu bátsins og beri stefnanda að sanna að stefndi eigi sök á töfunum og hvert tjónið varð af þeim ástæðum. Því er mótmælt að meint tjón stefnanda sé bein afleiðing af meintum fyrirsjáanlegum vanefndum stefnda.
Þá er mótmælt að stefndi hafi sýnt af sér saknæma hegðun í skilningi skaðabótaréttar. Ófyrirsjáanleg atvik hefðu valdið því að ákveðið var að skipta um niðurfærslugíra er ráðgjafar stefnanda höfðu valið. Stefndi hefði hins vegar unnið ötullega að því að finna lausn á því máli. Breyting á skrúfubúnaði var einvörðungu gerð til að tryggja örugga afhendingu búnaðarins og setja betri búnað í stað þess, sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Stefnandi gerði engar athugsemdir við þessa breytingu svo sem eðlilegt hefði verið, ef hann hefði talið, að með breytingunni hefði stefndi sýnt af sér saknæma háttsemi.
V.
Bolli Magnússon, skipatæknifræðingur, gaf skýrslu fyrir réttinum 28. desember 2001. Hann sagði m.a. að hann eða fyrirtæki hans [Ráðgarður hf.] hafi gert svokallaða fyrirkomulagsteikningu af dráttarbát fyrir höfnina [Hafnarfjarðarhöfn] og smíðalýsingu. Samtímis hafi hann boðið út vélbúnað og fengið tilboð frá nokkuð mörgum aðilum. Að athuguðu máli hafi tilboð frá stefnda, Atlas hf., um MTU vél reynst vera hagstæðast og hafi hann lagt til að gengið yrði að því. Tilboðið frá stefnda hafi fylgt útboðsgögnum er smíði dráttarbátsins var boðin út. Stefnandi, Ósey hf., hafi tvímælalaust gert hagstæðasta tilboðið. Við Ósey hf. hafi verið samið og eftir það hafi hann lítil afskipti haft af þessu máli.
Aðspurður hvort hann þekkti til þeirra breytinga sem gerðar voru á þeim vélbúnaði sem stefndi hafði boðið, sagði hann, að honum hafi virst, eins og fyrirsvarsmönnum Atlas hf., að láðst hafi að bjóða gír, sem gerður var fyrir dráttarbát, heldur hafi verið boðinn gír fyrir venjulegan bát, er ekki er gerður fyrir jafn mikinn þrýstikraft frá skrúfunni eins og dráttarbátar þurfa. Er þetta varð ljóst hafi fyrirsvarsmenn Atlas hf. ákveðið að skipta um gír og setja stærri gír en þann sem þeir höfðu boðið. Þetta hafi þeir ætlað að gera Hafnarfjarðarbæ og stefnanda að kostnaðarlausu.
Aðspurður hvort hægt hefði verið að nota gír fyrir venjulega báta, sagði hann, að það hefði verið unnt, mögulegt hefði verið að setja þrýstilegu aftan við gírinn til að taka upp þrýstinginn á skrúfuna. Þá lýsti hann yfir að sú breyting að bjóða LIPS skrúfubúnað og skrúfuhringi í stað RADICE skrúfubúnaðar og skrúfuhringja hefði að hans áliti verið til bóta fyrir stefnanda.
Er smíði skips er boðin út, sagði Bolli, verður næstum alltaf einhver breyting frá frumteikningu og lýsingu. Lokahönnun kalli oftast á að búnaður skipsins sé lagaður að henni. Kvaðst hann aldrei hafa upplifað að ekki yrðu einhverjar breytingar gerðar á frumteikningu og lýsingu.
Bolli staðfesti að hafa gefið forsvarsmönnum Hafnarfjarðarhafnar álit, sem fram kemur í símbréfi hans til þeirra, dags. 26. september 2000, þar sem hann tjáir þeim að vélbúnaður, er að lokum var boðinn af stefnda, uppfylli allar kröfur sem til hans eru gerðar.
Við aðalmeðferð málsins gaf Hallgrímur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri stefnanda, skýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að aðdragandi þess að stefnandi gerði Hafnarfjarðarhöfn tilboð í smíði drátta- og lóðsbáts vorið 2000 hafi verið, að um þær mundir hafi verið boðin út smíði á slíkum báti fyrir höfnina. Hafi stefnandi gert lægsta tilboð í verkið og tilboðinu verið tekið. Ástæðan fyrir því að þeir gerðu tilboð í verkið með þeim frávikum frá útboðskilmálum að stefnandi bauð fram Caterpillarvél en ekki MTU-vél var sú, að verðið á Caterpillarvél var lægra en MTU-vél. Í samráði við forsvarsmenn Hafnarfjarðarhafnar hafi stefnanda verið heimilað að bjóða Caterpillarvél. Fleiri aðilar hefðu boðið annan vélbúnað en MTU-vélar. Átta eða níu tilboð hefðu borist og einungis í tveim hafi MTU-vélbúnaður verið boðinn.
Samkvæmt tilboði stefnanda 30. júní 2000 hafi verið gert ráð fyrir að skila verkinu í desember 2000, þ.e. verktíminn yrði sem næst sex mánuðir. Þetta hafi verið raunhæft að mati forsvarsmanna stefnanda miðað við fyrri reynslu og á grundvelli útboðsgagna.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 5, sem er verksamningur við Hafnarfjarðarhöfn 7. júlí 2000. Hann staðfesti að hafa undirritað þetta skjal. Hann sagði aðspurður að ástæðan fyrir því að verkáætlun lá ekki fyrir við undirritun verksamnings hafi verið sú að forsvarsmenn hafnarinnar hafi áskilið henni rétt til að breyta tilboði stefnanda þannig, að stefnandi tæki vélbúnað frá stefnda, þ.m.t. MTU-vél. En á þeim tíma hafi ekki legið fyrir hvernig endanlegur búnaður átti að vera, þ.e. skrúfuhringir o.fl. sem átti að fylgja. Gert hafi verið ráð fyrir að þetta yrði allt tilbúið 20. júlí 2000 og kæmi verkáætlun þá fram en verkáætlun sé reist á þeim búnaði, sem á að skila með skipinu.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 7, sem er verkáætlun stefnanda varðandi dráttar- og lóðsbát fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Um er að ræða tvær verkáætlanir. Er önnur þeirra sögð vera frá 20. júlí 2000. Hin verkáætlunin er sögð hefjast 21. október [2000]. Hallgrímur sagði að fyrri verkáætlunin hefði verið gerð 20. júlí 2000 og miðuð við það að vélbúnaðurinn í skipið yrði pantaður um mánaðamótin júlí/ágúst, en seinni verkáætlunin hafi verið gerð eftir að samningi var rift við stefnda og fyrir lá samningur við Heklu hf. um að útvega nýjan búnað í skipið. Hann sagði að þessar verkáætlanir hafi ekki verið kynntar stefnda en forráðamönnum stefnda hafi verið kunnugt um hvaða tími var ætlaður til að útvega vélbúnað í skipið.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 9, sem er samningur aðila, þ.e. tilboð, dags. 8. ágúst 2000 og „Frávikstilboð", dags. 21. ágúst 2000, með viðfestum fylgiskjölum. Hallgrímur sagði að ekki hafi legið fyrir 8. ágúst 2000 hvaða búnað var verið að bjóða. Boðinn hafi verið tvenns konar búnaður að því leyti að auk skrúfubúnaðar frá LIPS hafi verið boðinn til fráviks skrúfubúnaður frá RADICE. Hafi það tekið þessa daga frá 8. ágúst til 21. ágúst að skoða þetta og komast að niðurstöðu.
Aðspurður kvað Hallgrímur afgreiðslufrest stefnda hafa byrjað að líða samkvæmt samningi aðila 21. ágúst 2000. Hann kannaðist ekki við að ágreiningur hafi þá verið um þann skilning. Hann kannaðist ekki við að stefndi hafi gert fyrirvara við samningsgerðina um að ólokið væri einhverjum útreikningum varðandi samspil vélbúnaðar og niðurfærslugíranna og hámark skrúfuspyrnubúnaðarins við ýtrasta álag. Hann sagði að 21. ágúst 2000 hafi verið búið að leysa öll vandamál varðandi það að raða vélbúnaðinum saman. Hefðu menn þá getað gengið til samninga og lokið þessu.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 21, sem er yfirlýsing stefnanda um riftun 6. október 2000 á samningi aðila frá 21. ágúst 2000. Kvaðst Hallgrímur hafa samið, undirritað og sent stefnda þessa yfirlýsingu. Hallgrímur sagði að á þessum tíma hafi verið ljóst að ríflega helmingur af þeim tíma, sem um hafði verið samið að stefndi notaði til að útvega vélbúnað, var liðinn, án þess að búnaðurinn hefði verið pantaður frá framleiðendum. Hafi stefnandi þá gefið stefnda viku til að fá staðfestingu á því að búnaðurinn hefði verið pantaður. Stefndi hafi ekki getað staðfest þetta og á þessum tíma hafi framleiðendur heldur ekki gefið stefnanda til kynna að stefndi hefði pantað búnaðinn.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 27, sem er tölulegt mat Vignis Demussonar tæknifræðings og verkefnastjóra hjá stefnda á ætluðu tjóni stefnanda 6. desember 2000 vegna ætlaðra vanefnda stefnda á samningi aðila. Kvaðst Hallgrímur að hluta til hafa komið að þessu mati. Hann sagði að þetta hefði verið metið á grundvelli aðstæðna á þessum tíma, hvað hafði þegar gerst og hvað var fyrirsjáanlegt. Komið hefði síðar í ljós að þetta mat kom heim og saman við fjárhagslegt uppgjör á smíði skipsins. Þar sé þó undanskilið tapað auglýsingagildi að fjárhæð 7.000.000 króna sem er hluti af matsfjárhæðinni. Hann sagði að hverju verki hjá stefnanda sé haldið sér í bókhaldi hans. Þegar fjárhagsleg afkoma stefnanda af smíði þessa skips var tekin saman hafi ríflega 6.000.000 króna tap verið á henni en reiknað hafi verið með 10% hagnaði af þessu verki.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 51, sem er símbréf Bolla Magnússonar skipatæknifræðings til Hafnarfjarðarhafnar 26. september 2000. Kvaðst Hallgrímur kannast við þetta símbréf. Kvað hann afrit af þessu bréfi hafa borist stefnanda. Hann kvaðst ekki hafa beðið um álit Bolla, sem þar komi fram. Þetta bréf hafi ekki haft áhrif á ákvörðun stefnanda um að rifta samningi aðila.
Vegna vanefnda stefnda kvað Hallgrímur stefnanda hafa gripið til þeirra ráðstafana í samráði við Hafnarfjarðarhöfn að leita til Heklu hf. um að félagið endurnýjaði tilboð sitt. Hafi menn gert sér grein fyrir því að um drátt væri að ræða en allt hefði verið gert til að draga úr töfum og kostnaði vegna þessa. Skipið hefði verið afhent 28. eða 29. apríl [2001].
Aðspurður hvort þær breytingar, sem gerðar voru á skrúfubúnaðinum, hefðu verið í lagi að hans mati, svaraði Hallgrímur, að skrúfubúnaðurinn, gírinn og vélin, hafi ekki verið framlag stefnanda. Ekki undir mati stefnanda komið. Hann sagði að framleiðandi vélbúnaðarins og umboðsaðilinn hefðu metið þetta.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 12, sem er myndrit af bréfi CRIST í Póllandi til stefnanda 20. september 2000, og hann spurður, hvers vegna stefndi hafi ekki verið látinn vita um efni þessa bréfs. Hallgrímur sagði að eftir að breyting á gírnum lá fyrir hefði það verið hlutverk stefnanda að fá breytt undirstöðum í skipinu til samræmis við breyttar forsendur. Aðspurður kvaðst hann ekki vita til þess að stefndi hefði fengið afrit af símbréfi Bolla Magnússonar til Hafnarfjarðarhafnar frá 26. september 2000, sbr. dskj. nr. 51.
Hallgrímur var beðinn um að upplýsa atriði úr smíðalýsingu, dskj. nr. 31, er varðar línuteikningu og teikningu af aðalfyrirkomulagi vélar, þ.e. hvort stefnandi hafi fengið þessar teikningar í hendur og þá hvenær. Hallgrímur taldi að stefnandi hafi fengið línuteikningu í hendur um miðjan ágúst en teikningu af aðalfyrirkomulagi vélar um mánaðamótin ágúst/september. Aðspurður hvort teikning af aðalfyrirkomulagi vélar hefði sýnt nákvæmlega málsetningu á skrúfuáslengd, staðsetningu á gír og aðalvél, sagði Hallgrímur, að teikningin hafði sýnt staðsetningu á vél og gír en kvaðst halda að þeir hefðu orðið að geta sér til um frágang á skrúfuhring og lengd á stefnisröri.
Hallgrímur sagði aðspurður að stefnandi hafi gengið inn í tilboð frá Atlas hf. þannig að er boðið var í skipið þá hafi legið fyrir að vélbúnaður frá Atlas kostaði um 14.000.000 kr. en sambærilegur vélbúnaður frá Caterpillar kostaði 11.800.000 kr. Af samkeppnisástæðum hefði stefnandi beðið um að fá að bjóða í skipið með Caterpillar vélbúnaði og fengið það. Síðar, þegar komið hafi í ljós að stefnandi var með lægsta tilboðið, hafi forsvarsmenn Hafnarfjarðarhafnar haft samband og var stefnanda tjáð að höfnin væri tilbúin að ganga til samninga ef stefnandi samþykkti að taka vélbúnað frá Atlas og hafi það orðið að samkomulagi. Aðspurður sagði Hallgrímur að fjárhæðir í tjónakröfu, er varða dagsektir, hafi ekki verið sektir til Hafnarfjarðarhafnar heldur verið vegna tafa, sem tafir á verkinu fyrir Hafnarfjarðarhöfn höfðu í för með sér fyrir næsta verkefni stefnanda.
Jón B. Hafsteinsson skipaverkfræðingur kom fyrir rétt. Hann staðfesti að hafa unnið matsgerð þá, sem fram kemur á dskj. nr. 33, og undirritað hana. Hann sagðist aðspurður hafa fengið staðfest frá matsbeiðanda að mat hans ætti að byggjast á þeim dagafjölda sem getið væri um í matsbeiðninni og hlutverk hans væri ekki að sannprófa þann dagafjölda. Ekki hefði heldur verið ætlast til að hann byggði á öðru en upplýsingum frá matsbeiðanda varðandi fjölda starfsmanna matsbeiðanda er komið hefðu að smíði skipsins. Þá hafi ekki verið sannprófað hvort dagsektir hefðu verið greiddar.
Magnús Jón Smith, sölumaður og sölustjóri hjá stefnda, gaf aðilaskýrslu af hálfu stefnda. Hann sagði að aðkoma sín að þessu máli hafi verið sú, að hann hefði á vormánuðum 2000 verið beðinn af hálfu Ráðgarðs hf. að senda inn tilboð í vélbúnað í fyrirhugaða smíði á dráttarbát fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Hafi honum verið sagt að vélin ætti að vera undir fimm hundruð hestöflum en því sem næst. Fylgja ætti skrúfubúnaður og gír. Hafi hann síðan unnið að tilboðinu í samstarfi við MTU. Hann sagði að af hálfu Ráðgarðs hf. hafi aðallega komið að málinu Bolli Magnússon [skipatæknifræðingur]. Fyrirkomulagsteikning að bátnum hefði legið fyrir [ekki endanleg teikning]. Hann sagði að algengt væri að breyta þyrfti vélbúnaði eftir að tilboð hefur verið gert í vélbúnað fyrir skip.
Magnús sagði að skipt hefði verið um gírbúnað eftir að samkomulag hafði orðið um hver hann ætti vera. Hafi það gerst með þeim hætti að hann hefði yfirfarið „pakkann" lið fyrir lið til að skoða, hvort eitthvað hefði gleymst eða hvort einhverju væri ofaukið, og athugað hvort allir hlutir væru ekki réttir, kælivatnsþörf o.fl. Af hálfu Ráðgarðs hf. hefði verið ítrekað að báturinn hefði afl til að draga ákveðinn fjölda tonna. Því hefði hann jafnframt skoðað, hvort gírinn þyldi þann þrýsting í beinni línu inn frá öxli. Hefði hann sent MTU fyrirspurn og beðið forsvarsmenn fyrirtækisins um að staðfesta að svo væri. Nokkrum dögum seinna hefði honum borist svar, þar sem honum var tjáð, að gírinn væri ekki nægilega sterkur til að þola sjö tonn í stöðugu álagi; hann væri hannaður fyrir fimm tonn. Hafi hann þá farið að vinna með þeim að lausn vandans en þeir lagt fram tvær tillögur; annars vegar að stækka gírinn og hins vegar að leggja til þrýstilegu inn í skrúfuásinn til að dempa þrýstinginn. Hafi hann við svo búið tilkynnt stefnanda að þörf væri á skiptingu búnaðar.
Lagt var fyrir Magnús dskj. nr. 11, sem er símbréf frá MTU, dags. 8. september 2000. Hann sagði að þar komi fram tillögur MTU um hvernig leysa mætti vandann. Hafi hann samdægurs látið stefnanda vita af þessu. Hafi hann raunar einnig verið í stöðugu símasambandi við stefnanda meðan á þessu stóð. Stefnandi hefði hins vegar aldrei staðfest að þessar breytingar væru í lagi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans til að fá forsvarsmenn stefnanda til þess eða til að tjá sig um hvort rétt væri að gera eitthvað annað. Engin svör hefðu borist.
Lagt var fyrir Magnús dskj. nr. 9, sem áður var greint frá. Hann sagði að greindur afgreiðslufrestur „10 vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju" hafi verið byggður á upplýsingum frá framleiðendum, að eftir að „pakkinn" er klár, þeir eru búnir að fara yfir og samþykkja það sem fram er lagt, þá sé 10 vikna afgreiðslufrestur á búnaðinum frá verksmiðjunni.
Lagt var fyrir Magnús dskj. nr. 12, sem áður var greint frá. Kvaðst Magnúsi ekki hafa verið kunnugt um efni þessa bréfs fyrr en það var lagt fram í réttinum. Lagt var fyrir Magnús dskj. nr. 51, sem áður var greint frá. Magnús sagði að forsvarsmenn stefnda hafi ekki fengið að sjá þessa „staðfestingu". Hann hefði frétt af henni löngu seinna. Þeir hefðu ekki fengið að vita að svona skoðun hefði farið fram á vélbúnaðinum.
Magnús sagði aðspurður að stefndi hefði ekki áður selt vélbúnað af þeirri tegund er getið er um í samningi aðila. Hann sagði að verksmiðjan hefði átt að sjá um að staðfesta pöntun, sem yrði upphaf á 10 vikna afgreiðslufresti frá verksmiðjunni samkvæmt samningi aðila. Hins vegar væri verksmiðjunni það ekki fært fyrr en kaupandi staðfesti að búið væri að samræma allan „pakkann". Hann sagði að verksmiðjan hefði ekki staðfest kaupin. Ekki hefði verið gengið frá fullnaðarfrágangi á pöntuninni sökum þess að engin svör hefðu borist frá stefnanda um hvort hlutirnir gengju upp.
Lagt var fyrir Magnús dskj. nr. 20, sem er símbréf stefnanda til Magnúsar f.h. stefnda, dags. 27. september 2000. Kvaðst Magnús hafa fengið afrit af þessu símbréfi. Hann sagði að svör við spurningum stefnanda í bréfinu hefðu áður borist stefnanda og þess vegna hefði bréfinu ekki verið svarað sérstaklega.
Aðspurður hvort stefndi hafi fengið í hendur teikningar frá stefnanda sem sýndu nákvæmlega lengd á stefnisröri, skrúfuás og staðsetningu á gír og aðalvél. Magnús sagði að þeir hefðu eingöngu fengið í hendur „fyrirkomulagsteikningar" af bátnum, þ.e. teikninguna sem fram kemur á síðustu blaðsíðu í dskj. nr. 31.
Vignir Demusson, tæknifræðingur hjá stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði komið að þessu máli er útboð var gert í smíði dráttarbáts fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Hafi hann farið yfir tilboð af hálfu stefnanda og reiknað það út. Hafi hann kannað þau skilyrði sem gerð voru til vélbúnaðar í útboðsgögnum. Í upphaflegu tilboði stefnanda hafi verið boðið upp á Caterpillar vélar en skipt hafi verið í MTU vélar. Í útboðsgögnum hafi verið tiltekið að MTU vélar skyldu vera í skipinu en upplýst hefði verið að bjóða mætti vélar af annarri tegund.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 9, sem áður var greint frá. Vigni sagði að vissir hlutir hafi verið óklárir, er stefndi bauðst til að útvega stefnanda vélbúnað í dráttarbátinn og lagði fram tilboð í þá veru, t.d. hefði vantað hljóðkúta. Enn fremur hefði spurningum verið ósvarað varðandi stefnisrör. Vignir sagði aðspurður að skrúfuhringir hefðu ekki upphaflega verið í tilboði stefnda. Hann sagði að skýringin á því að tilboði stefnda hafi ekki verið tekið fyrr en 21. ágúst 2000, enda þótt það væri dagsett 8. sama mánaðar, hafi verið sú, að endanleg verðlagning hafi ekki legið fyrir fyrr en 21. ágúst. Hann sagði að á þessum tíma hafi verið vissir óvissuþættir varðandi gírbúnaðinn.
Vignir sagðist skilja ákvæðið um afgreiðslufrest í tilboði stefnda, þ.e. 10 vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju svo að afgreiðslufresturinn sé 10 vikur frá því að stefnandi tók tilboði stefnda og greiddi fyrstu greiðslu upp í kaupverðið, þ.e. 21. ágúst 2000, enda hafi það verið í samræmi við venju. Hann kvaðst ekki minnast þess að Magnús Smith hefði haft að orði við hann að afgreiðslufrestur færi ekki líða fyrr en verksmiðjan hefði fengið sérstakar staðfestingar frá Ósey hf. um að Ósey hf. tæki við vélbúnaðinum. Hann kvaðst ekki þekkja til þess að verksmiðjur gerðu slíkar kröfur.
Vignir kvaðst hafa staðið að gerð verkáætlunar sem fram kemur á dskj. nr. 7. Hann sagði að fyrri verkáætlunin hefði verið gerð í þeirri trú að allir hlutir væru komnir á sinn stað á þeim tíma, þ.m.t. vélbúnaður sem stefndi ætlaði að láta í té. Hann sagði að seinni verkáætlunin hafi verið gerð í október en þá hafi verið búið að segja upp vélbúnaðarsamningnum við stefnda.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 51, sem áður var getið um. Kvaðst hann kannast við þetta símbréf [frá Bolla Magnússyni til Hafnarfjarðarhafnar 26.09.2000]. Forráðamenn stefnanda hefðu viljað fá það staðfest að sú breyting á vélbúnaði, þ.e. að fara úr minni gír yfir í stærri, uppfyllti skilyrði sem útboðsgögnin sögðu til um.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 20, myndrit af símbréfi stefnanda til Magnúsar Smith f.h. stefnda, dagsett 27.09.2000. Vignir sagði að forráðamenn stefnanda hefðu ásamt fyrirsvarsmönnum Hafnarfjarðarhafnar staðið að þessu bréfi, en þá hafi símbréfið frá Bolla Magnússyni 26.09.2000 legið fyrir. Hann sagði að með símbréfinu til Magnúsar hafi legið samþykki stefnanda að vélbúnaður, sem þar er greint frá, væri ásættanlegur fyrir stefnanda. Svar hefði hins vegar ekki borist frá stefnda. Kvaðst hann hafa hringt í Magnús, sem staddur var í Þýskalandi, og ítrekað óskir um að fá skriflegar staðfestingar frá framleiðendum vélbúnaðarins um afhendingartíma. Hafi Magnús tjáð honum að hann ætlaði að kanna málið en endanleg staðfesting frá vélbúnaðarframleiðendum hefði ekki borist. Hann kvaðst ekki kannast við að Magnús hefði kunngjört honum að hafa þegar í fyrri bréfum til hans svarað tilmælum er fram komu í símbréfinu frá 27.09.2000.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 27, sem áður var getið um. Hann staðfesti að hafa unnið þetta mat á tjóni stefnanda vegna ætlaðra vanefnda stefnda. Hann sagði að þetta mat hefði komið nokkurn veginn heim og saman við bókfært verð á kostnaði sem síðar varð.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 39, sem er ódagsett bréf frá Vigni f.h. stefnanda, er tjáist vera svar við áskorun um framlagningu gagna og upplýsinga. Vísað er til bréfs frá Málflutningsstofunni LOGOS. Einnig var lagt fyrir hann dskj. nr. 42, sem eru nokkur myndrit af reikningsfærslum hjá stefnanda. Vignir staðfesti að hafa staðið að gerð þessara skjala. Hann sagði að skjöl þessi hefðu verið útbúin vegna fyrirspurnar frá Málflutningsstofunni LOGOS.
Vignir sagði að stefnandi hefði gripið til þess ráðs að bæta við mannskap vegna tafa á smíði dráttar- og lóðsbáts fyrir Hafnarfjarðarhöfn er stefndi hafði valdið. Einnig hefði verið farið út í að auka yfirvinnu. Sökum tafa á þessu verki hefði áætluð byrjun á næsta verki tafist og valdið dagsektum fyrir stefnanda.
Aðspurður, hvenær honum hafi verið kunnugt um að skipt yrði um gírbúnað, kvaðst Vignir ekki hafa nákvæma dagsetningu.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 11, sem er símbréf frá MTU til stefnda 8. september 2000, með þýðingu Vignis, dags. 5. desember 2000. Vignir kvaðst aðspurður hafa farið til Póllands með teikningar af hinum nýja gír ásamt tæknilegum upplýsingum 14. september 2000.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 12, sem er símbréf frá CRIST í Póllandi til stefnanda 20. september 2000, með þýðingu Vignis, dags. 5. desember 2000. Aðspurður, hvort CRIST hefði í þessu bréfi tjáð að um umfangsmiklar breytingar væri að ræða, svaraði Vignir að lýst væri töluverðum breytingum.
Lagt var fyrir Vigni dskj. nr. 51, sem áður var greint frá. Hann sagði að Bolli Magnússon hefði gert þá athugun, sem þar komi fram, að beiðni Hafnarfjarðarhafnar. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa látið stefnda vita af þessu bréfi Bolla.
Vignir sagði að ekki væri algengt að vélbúnaði væri breytt eftir að tilboð seljanda væri samþykkt af kaupanda. Kvað hann stefnanda ekki hafa lent í því áður. Hann sagði að stefnandi hafi samþykkt að taka vélbúnað frá Heklu hf. í október 2000 eftir að kaupum á vélbúnaði frá stefnda hafði verið rift.
Vignir kvaðst hafa unnið verkáætlunina sem fram kemur á dskj. nr. 7. Þar er gert ráð fyrir að pöntun á vélbúnaði og afhending hafi fram farið í lok september og þá er gert ráð fyrir að 11 vikur taki að ljúka smíði skipsins. Kvað hann þetta hafa verið raunhæfa áætlun. Það sem farið hefði úrskeiðis hafi verið vegna vandræða með vélbúnaðinn. Þurft hefði að skipta um öflun vélbúnaðar 7 vikum eftir að gengið var frá samningi um kaup á honum. Þá hafi annað verkefni hjá stefnanda skarast við þetta verkefni [út af töfum á því síðarnefnda]. Aðspurður, hvort um aðrar tafir hefði verið að ræða, sagði Vignir, að upphaflega hafi vantað línuteikningu af bátnum, sem hefði átt að fylgja, en hún hefði skilað sér tveimur eða þremur vikum síðar.
Lagt var fyrir Vigni dskj. 19, sem er myndrit af símbréfi Magnúsar Smith til Vignis 26.09.2000, og dskj. nr. 15, sem er myndrit af símbréfi Magnúsar til Vignis 22.09.2000 ásamt fylgiskjölum. Lögmaður stefnda segir að í fylgiskjali [myndrit af símbréfi MTU til Magnúsar Smith 21.09.2000] sé tjáð, að fyrirvari sé að framleiðandinn geti staðfest afhendingartíma fyrr en búið sé að staðfesta pöntun. Lögmaðurinn spurði Vigni, hvort hann hefði lesið þetta skjal. Vignir kvaðst hafa fengið þetta skjal í hendur. Kvað hann stefnanda hafa staðfest pöntun 21. ágúst 2000.
Aðspurður hvort hann myndi, hvenær stefnandi fékk í hendur línuteikningu af bátnum frá Ráðgarði hf., sagði Vignir, að teikningin hefði verð send beint út til Póllands eftir að hann fékk hana í hendur, tveimur til þremur vikum eftir að smíðasamningurinn var undirritaður. Kvað hann línuteikninguna ekki hafa verið senda til stefnda enda hafi stefndi ekki beðið um hana. Hann kvað stefnanda ekki hafa fengið teikningu frá Ráðgarði hf. yfir það sem kallað er í dskj. 31, Main Engine Arrangement. Hann sagði að teikning er þetta varðaði hafi verið gerð í Póllandi í ágúst.
Már Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Hafnarfjarðarhafnar, gaf skýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að Hafnarfjarðarhöfn hefði boðið út smíði á dráttarbát samkvæmt útboðsgögnum í apríl 2000. Frestað hafi verið opnun tilboðs frá 20. maí og hafi útboðsgögnin verið endurgerð vegna galla sem voru í þeim. Síðan hafi tilboðin verið opnuð 30. júní. Níu aðilar hefðu skilað ellefu tilboðum og ákveðið hefði verið að taka tilboði stefnanda sökum þess að það var hagstæðast, lægst verð og stystur afhendingartími.
Lagt var fyrir Má dskj. nr. 8, sem er myndrit af símbréfi stefnda til Ráðgarðs hf. 17. apríl 2000. Már sagði að ekki hafi verið ætlun Hafnarfjarðarhafnar að leggja til vélbúnað með dráttarbátnum, þegar smíði hans var boðin út, en kannað hefði verið verð á ýmsum búnaði í bátinn í mars og apríl, vélbúnaði og ýmsum öðrum búnaði. Þegar útboðið var gert hafi allur vélbúnaður verið innifalinn en undanskilin siglingatæki og öryggisbúnaður. Tilboðið, sem fram kemur á dskj. nr. 8, kvað Már vera hluta af þeirri verðkönnun á vélbúnaði og öðrum búnaði, sem Ráðgarður hf. gerði fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Kvað hann aðspurður hönnun bátsins hafa á þessum tíma verið komna á það stig að forsendur hefðu verið fyrir því að leita tilboða í vélbúnað bátsins. Togkraftur, vélarstærð og aðrar grunnforsendur hefðu verið fyrir hendi. Hafnarfjarðarhöfn hefði gert kröfu um bát með þrettán tonna togkrafti og tæpleg þúsund hestafla vél.
Már sagði aðspurður að ástæðan fyrir því að í verksamningi Hafnarfjarðar-hafnar við stefnanda 7. júlí 2000 sé þess getið að verkáætlun verktaka, sem er hluti af samningi þessum, verði afhent 20. júlí 2000, hafi verið sú að flest tilboðin, sem bárust höfninni, buðu vélbúnaði, sem ekki stóðust nákvæmlega þær kröfur, sem af hálfu hafnarinnar voru gerðar. Flestir hefðu boðið vélar, sem voru minni en farið var fram á. Af hálfu hafnarinnar hefði verið óskað eftir að stefnandi gengi inn í tilboð stefnda í MTU vélar ef stefndi vildi standa við það. Hafi stefnandi þá átt eftir að semja við stefnda um vélbúnaðinn.
Már staðfesti að hafa fyrir hönd Hafnarfjarðarhafnar samþykkt riftun stefn-anda á samningi stefnanda við stefnda. Hafi honum verið gerð grein fyrir ástæðum áður en hann undirritaði yfirlýsinguna. Kvaðst hann hafa séð hjá stefnanda bréf frá stefnda er tjáði að drifbúnaðurinn stæðist ekki að öllu leyti eins og talið hefði verið þegar samningurinn var gerður. Hvor gír á öxul þoldi ekki meiri þrýsting en fimm tonn, skipta þyrfti um gír. Síðar hafi einnig verið skipt um skrúfur. Hafi af hálfu hafnarinnar verið leitað álits ráðgjafa hvort sá búnaður, er þá var tiltekinn, væri í lagi og hafi hann sagt að svo væri. Af hálfu hafnarinnar hafi þessar breytingar verið samþykktar. Síðan hafi staðfestingu á afhendingartíma viðkomandi búnaðar ekki verið svarað af hálfu stefnda.
Lagt var fyrir Má dskj. nr. 20, sem áður hefur verið greint frá. Hann sagði að stefnandi hafi haft samráð við fyrirsvarsmenn hafnarinnar um að senda stefnda þetta bréf. Kvaðst Már ekki hafa séð svör stefnda við þeim óskum sem þar voru fram bornar. Már taldi að þetta hafi verið aðalástæðan fyrir því að samningi við stefnda var rift.
Lagt var fyrir Má dskj. nr. 26, sem er myndrit af bréfi hans til lögmanns stefnanda 1. desember 2000. Staðfesti Már að bréfið væri frá honum komið og hefði að geyma réttar upplýsingar að mati hans.
Már sagði að seinni verkáætlun stefnanda hefði ekki að fullu staðist. Verkáætlunin hefði gert ráð fyrir að höfnin fengi bátinn í byrjun febrúar [2001], en hafi fengið hann í lok apríl.
Lögmaður stefnda spurði Má, hvort hann hefði vitað, að stefnandi staðfesti aldrei við stefnda að búnaðurinn passaði þrátt fyrir staðfestingu pólsku skipasmíða-stöðvarinnar og staðfestingu Bolla. Stefndi hafi aldrei fengið staðfest að sá búnaður, sem breytt hafði verið, væri í lagi. Kvaðst Már ekki hafa vitað það. Þá spurði lögmaðurinn Má, hvort hann hefði gert sér grein fyrir því, að samningur aðila gekk út á það að afhendingartími byrjaði að líða frá staðfestri pöntun frá framleiðanda. Kvaðst Már hafa gert sér grein fyrir því og taldi, að það hefði staðið í gögnum.
Lögmaður stefnda vísaði til þess, sem stendur í bréfi Más til lögmanns stefnanda, sbr. dskj. nr. 26, þar sem segir: Hafnarfjarðarhöfn var samþykk riftun samninganna vegna þeirrar óvissu, sem var orðin með afgreiðslu búnaðarins, skipti á gírum og skrúfum. Var Már beðinn að skýra í hverju þessi óvissa var fólgin. Kvað Már óvissuna hafa verið fólgna í því að, að loknum samningi, 19. eða 20. september hafi komið í ljós að gírinn passaði ekki. Síðan hafi verið skipt um skrúfu út af einhverjum málum milli stefnda og framleiðanda.
Lagt var fyrir Má dskj. nr. 15, sem er myndrit af símbréfi Magnúsar Smith til stefnanda 22. september 2000 ásamt fylgiskjölum. Már kvaðst hafa afrit af þessum skjölum í fórum sínum. Lögmaður stefnda sagði að skjöl þessi sýndu að framleiðendur vélanna hefðu aldrei fengið staðfest að búnaðurinn væri í lagi þannig að unnt væri að hefja framleiðslu. Kvaðst Már ekki vilja fullyrða neitt í þeim efnum.
Lagt var fyrir Má dskj. nr. 19, sem er myndrit af símbréfi Magnúsar Smith til stefnanda 26. september 2000. Aðspurður kvaðst Már hafa haft afrit af þessu bréfi. Aðspurður kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um gang mála frá stefnanda.
Sigurður Hallgrímsson, forstöðumaður þjónustusviðs Hafnarfjarðarhafnar, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði átt þátt í gerð útboðslýsinga, útboðinu og samningi við stefnanda um gerð bátsins, sérstaklega við að útbúa útboðsgögn. Hann hefði minna komið að samningi beint við stefnanda.
Lagt var fyrir Sigurð dskj. nr. 8 og dskj. nr. 9, sem áður var getið um. Kvaðst hann kannast vel við þessi skjöl. Þetta hafi verið hluti af þeim gögnum sem höfnin fékk frá stefnda.
Hallgrímur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri stefnanda, er hlustað hafði á framburð skýrslugjafa fyrir réttinum, kom aftur fyrir rétt. Hann sagði m.a. að aldrei á þeim tíma sem leið frá því að samningur var gerður og þar til honum var rift, hafi tilmæli borist frá stefnda um að stefnandi staðfesti að hann vildi taka þann búnað, sem upphaflega var boðinn, og síðan að stefnandi samþykkti eða hafnaði þeim búnaði, sem sætt hafði breytingum frá þeim, sem upphaflega var boðinn, og samið hafði verið um að stefndi útvegaði stefnanda. Hann sagði að 21. ágúst 2000 hafi, af hálfu stefnda, verið fullyrt að vélbúnaðurinn, sem boðinn var, uppfyllti þær kröfur sem útboðsgögnin greindu frá. Í september hefði, af hálfu stefnda, verið tjáð að gírinn væri sennilega of lítill miðað við þær forsendur, sem gefnar voru í útboðsgögnunum er fyrir lágu í maí, breyta þyrfti gírnum. Af hálfu stefnanda hefðu engar athugasemdir verið gerðar við það. Síðan hefði borist frá stefnda bréf um það að einnig væri búið að skipta um skrúfubúnað. Þá hafi vaknað hjá forsvarsmönnum stefnanda vafi um að stefndi útvegaði vélbúnaðinn tímanlega. Hann sagði að stefnandi hefði gert samning við stefnda en ekki framleiðendur þeirra vélarhluta, sem stefndi hugðist eiga viðskipti við.
Við framhaldsaðalmeðferð 16. apríl 2002 kom Hallgrímur aftur fyrir dóm til skýrslugjafar. Hann staðfesti að hafa samþykkt tilboð stefnda með undirritun sinni á dskj. nr. 9, og tjáði réttinum að Magnús Jón Smith hefði undirritað fyrir hönd stefnda og hefði hann álitið að til þess hefði Magnús haft fullt umboð frá stefnda.
Þá sagði hann m.a. að liðnar hafi verið tvær vikur af verktíma til pöntunar á véla- og skrúfubúnaði, er stefnda var ætlað samkvæmt verkáætlun að nýta. Kvað hann fundi hafa verið haldna með stefnda á þeim tíma sem gengið var frá tilboði [8. ágúst 2000]. Fundur hefði verið haldinn 9. ágúst 2000 hjá höfninni í Hafnarfirði undir heitinu: Fyrsta verkfundur - dráttarbátur. Á þessum fundi hafi verið mættir Már Sveinbjörnsson, Sigurður Hallgrímsson, Hallgrímur Hallgrímsson, Vignir Demusson, Bolli Magnússon og frá stefnda, Magnús Jón Smith. Á fundinum hafi verið farið yfir fyrstu stig þessa verks, þ. á m. þá er sneru að stefnda. Teiknivinnu hafi verið lýst lokið og byrjað að „efna" niður í skipið. Bókað að verkáætlun lægi fyrir o.fl. Jafnframt var áætlað að samsetning bátsins hæfist 17. ágúst. Magnús Jón Smith hafi lagt fram nýja kostnaðarútreikninga og tilboð í vél og gíra og skrúfubúnað. Kostnaðaráætlun hans hafi verið 1.500.000 krónum hærri en fyrri tölur gáfu til kynna. Var það skýrt með dýrari skrúfuhringjum og olíusmurðu stefnisröri. Hafi þetta valdið því að dregist hefði til 14. ágúst að skrifa undir. Stefnandi hafi verið beðinn að kanna það hvort þessi búnaður fengist frá einhverjum öðrum.
Aðspurður sagði Hallgrímur að Magnúsi hafi verið ljóst að vélbúnaðurinn, sem stefndi bauðst til að útvega, yrði að vera kominn innan tíu vikna. Hann sagði að bókfært tap á smíði bátsins í dag væri í kringum 6.000.000 króna.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 8, sem er myndrit af bréfi stefnda til Ráðgarðs 17. apríl 2000. Hann sagði að þetta bréf hafi verið ritað áður en stefnandi kom að smíði dráttar- og lóðsbáts fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Hann kvaðst ekki kannast við þetta bréf. Var Hallgrími bent á að hann hefði við aðalmeðferð málsins 6. mars sl. tjáð réttinum að stefnandi hafi gengið inn í tilboð stefnda en í þessu bréfi felist umrætt tilboð. Hallgrímur staðhæfði að hann hefði ekki fengið þetta bréf í hendur. Var Hallgrímur þá beðinn um að skýra hvað hafi falist í þeim orðum að stefnandi gengi inn í tilboð Atlas hf. Hallgrímur sagði að Hafnarfjaðarhöfn hafi krafist þess að vélbúnaður frá stefnda yrði notaður vegna þess að höfnin í samráði við ráðgjafi hafnarinnar, Ráðgarð, hefði ákveðið að reyna að fá þennan búnað. Kostnaðaráætlun hefði legið fyrir frá stefnda til hafnarinnar. Hafi höfnin verið tilbúin að bæta við 1.500.000 krónum, sem var mismunur á verðtilboði stefnda og verðtilboði stefnanda fyrir vélbúnað bátsins, ef stefnandi væri tilbúinn að ganga að tilboð Atlas hf. í stað Hafnarfjarðarhafnar. Hafi stefnandi ekki séð neitt því til fyrirstöðu.
Hallgrímur sagði að honum hafi verið kunnugt um að farið hefði fram verðkönnun á vélbúnaði bátsins, og hefði höfnin fengið verð frá stefnda. Höfnin hefði gert verðkönnun á þessu skipi áður en verkið var boðið út. Stefnandi hafi hins vegar ekki fengið nein tilboð frá stefnda fyrr en Hafnarfjarðarhöfn hefði lagt það til að stefnandi gengi inn í tilboð stefnda til hafnarinnar.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 11, sem er myndrit af bréfi MTU til stefnda 8. september 2000. Var hann spurður hvað hafi verið gert í framhaldi af þessu bréfi. Hann sagði að Hafnarfjarðarhöfn hafi verið tilkynnt um efni þessa bréfs. Hann sagði að stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um þetta bréf fyrr en 14. september. Af hálfu stefnanda hafi því verið beint til Magnúsar J. Smith að finna lausn á þessu máli. Hafi Magnús talið sig hafa gert það viku eða tíu dögum síðar.
Lagt var fyrir Hallgrím dskj. nr. 51, sem er myndrit af símbréfi Bolla Magnússonar til Hafnarfjarðarhafnar, 26. september 2000. Var vísað til þess að komið hefði fram hjá honum við aðalmeðferð málsins 6. mars sl. að stefndi hafi ekki fengið að vita um efni þessa bréfs. Var hann spurður hvers vegna það hafi ekki verið gert. Kvaðst hann hafa reiknað með því að stefndi hafi á þessum tíma haft fullar upplýsingar um efni þessa bréfs. Upplýsingar sem fram komi í bréfinu hafi hvergi getað komið frá öðrum en stefnda eða Magnúsi J. Smith.
Hallgrímur var spurður hvort hann hafi ekki talið nauðsynlegt að leggja fram málsettar teikningar af fyrirkomulagi véla og skrúfubúnaðar við undirritun samnings 21. ágúst 2000 til að framleiðslan gæti strax hafist? Hallgrímur sagði að á þessum tíma hafi línuteikning skipsins átt að liggja fyrir en hún hafi ekki legið fyrir fyrr en 7 dögum seinna. Á verkfundi 9. ágúst hafi komið fram að teiknivinnu væri lokið.
Hallgrímur var spurður hvort við undirritun samnings hafi komið fram hjá stefnda að einhverjar tæknilegar upplýsingar skorti frá stefnanda til að framleiðsla vélbúnaðarins gæti hafist. Hallgrímur kvað stefnda á þeim tíma ekki hafa krafið stefnanda um frekari gögn en þá lágu fyrir, enda hafi stefndi verið búinn að vinna að þessu máli [í samráði við Hafnarfjarðarhöfn] löngu áður en stefnandi kom að því. Það eina, sem menn hefðu á þessum tíma verið að velta fyrir sér að gæti verið óklárt var að fara átti úr sjókældum stefnisrörum yfir í olíusmurð.
Hallgrímur sagði að ekki hefði staðið á stefnanda að láta stefnda í té þau gögn er stefndi færi fram á varðandi vélbúnaðinn. Stefndi hafi raunar unnið að þessu máli með Ráðgarði áður en stefnandi kom að því. Stefnandi hafi ekki komið að því fyrr en verksamningur við Hafnarfjarðarhöfn var undirritaður 7. júlí 2000. Með útboðsgögnum Hafnarfjarðarhafnar [í apríl 2000] hafi allar upplýsingar átt að liggja fyrir.
Hallgrímur staðfesti að símbréf Bolla Magnússonar til Hafnarfjarðarhafnar 26. september 2000 hafi legið fyrir er stefnandi rifti samningi við stefnda.
Hallgrímur var beðinn að skýra hvers vegna liðið hafi rúmur mánuður frá því að verksamningur er gerður við Hafnarfjarðarhöfn, 7. júlí 2000, að dagsetningu á tilboð stefnda. Hallgrímur sagði að á þessum tíma hafi verið skipt á „sjósmurðum" stefnisrörum yfir í olíusmurð auk þess hafi skrúfuhringirnir bæst við. Stefndi hafi lagt fram þrjár útfærslur af gír- og skrúfubúnaði, bæði inn í tilboð og frávikstilboð. Menn hefðu verið að fara yfir og koma saman skutpípum, hljóðkútum, skrúfuhringjum, lensidælum o.fl. sem hafi átt að fylgja þessum vélbúnaði. Þetta hafi eðlilega tekið þennan tíma.
Hallgrímur staðhæfði að Magnúsi J. Smith hafi verið kynntur afhendingartími bátsins til Hafnarfjarðarhafnar. Honum hafi verið kunnugt um að stefnandi yrði að halda verkáætlun. Miðað hefði verið við það að báturinn kæmi til landsins 15. október 2000. Hafi þeir því talið sig hafa hálfan mánuð upp á að hlaupa.
Lagt var aftur fyrir Hallgrím dskj. nr. 11. Var hann beðinn um að rökstyðja að hafa fyrst fengið þetta bréf frá MTU í hendur 14. september 2000, en upplýst hefði verið að þann dag hafi starfsmaður frá stefnanda farið til Póllands með þetta gagn. Kvaðst hann ekki minnast þess að þetta gagn hafi verið tekið með til Póllands. Hann játaði að Bolli Magnússon hafi í bréfi sínu til Hafnarfjarðarhafnar 26. september 2000 staðfest að tillaga frá MTU varðandi vélbúnaðinn í bréfi MTU til stefnda 8. september 2000 [dskj. nr. 11.] myndi duga.
Lögmaður stefnda spurði Hallgrím hvers vegna stefnandi hefði ekki svarað fyrirspurn stefnda í bréfi 22. september 2000 [dskj. nr. 15. ] um það hvort nýr gír, er á var bent, gæti komið í stað þess sem áður hefði verið boðinn. Hann sagði að ljóst hefði verið að þessi breytti búnaður stóðst gerðar kröfur. Ekki hefði verið spurning um það heldur hitt hvenær búnaðurinn yrði afhentur.
Magnús Jón Smith gaf við framhaldsaðalmeðferð skýrslu. Hann staðfesti að hafa undirritað samning aðila fyrir hönd stefnda. Hann sagði m.a. að ekki hefði verið óeðlilegt þó að í ljós hefði komið eftir að samningur var undirritaður að vélbúnaður, sem stefndi bauð stefnanda, var að hluta til ekki nægilega öflugur. Hann kvaðst hafa vitað að til stóð að skila bátnum í desember þó að honum hafi ekki verið kunnugt um verkáætlun stefnanda. Hann kvaðst ekki hafa vitað að samkvæmt verkáætlun hafi pöntun á vél- og skrúfubúnaði og afhending búnaðarins átt að vera lokið í lok september 2000.
Magnús var spurður hvers vegna eingöngu hafi af hálfu stefnda verið byggt á svokallaðri fyrirkomulagsteikningu en ekki gengið eftir að fá teikningar af bátnum sem sýndi nákvæmlega lengd á stefnusvari skrúfuáss, staðsetningu á gír og aðalvél. Kvaðst hann alltaf hafa verið að reka á eftir að fá staðfestingu á því að eftir þessa breytingu gæti búnaðurinn frekar gengið svona en ef sett væri þrýstilega inn í skrúfuásinn. Hafi hann gengið eftir þessu og alltaf fengið þau svör að þeir vissu það ekki.
Magnús sagði að stefndi hafi gert tilboð á eigin vegum sem umboðsaðili fyrir framleiðendur. Hafi stefndi talið sig vera bundinn af samningi þeim er var gerður.
Magnús sagði að samningur aðila hafi ekki skuldbundið stefnanda til að staðfesta að pöntun á vélbúnaði frá framleiðendum væri rétt, heldur hvort áætlaðar breytingar myndu ganga, sem hann hafði bent á, eftir að hann hafði fengið upplýsingar um að vafi væri á að gírinn væri nægilega sterkur. Gírinn, sem lagt var til að kæmi í stað hins upphaflega, hafi verið örlítið stærri. Hann hefði ekki haft stöðu til að meta þetta sjálfur, m.a. þar sem hann hafði ekki teikningar af bátnum.
Magnús sagði að staðfesting á pöntun frá verksmiðju sé fengin með því að fara yfir vélbúnaðinn. Þegar því er lokið sé formleg pöntun gerð og síðan staðfesti verksmiðjan að framleiðsla sé hafin og afhending fari fram tiltekinn dag. Formleg pöntun í þessu tilviki hefði átt að koma frá stefnda þegar allar teikningar og allt annað varðandi vélbúnaðinn sem til þurfti var komið fram. Það sem aðallega hafi vantað hefði verið svar stefnanda við því hvort breytingar varðandi gírinn gengju.
Magnús sagði að mál í tæknilýsingu í tilboðinu hefðu verið viðmiðunarmál til verðlagningar en ekki endanleg mál til að smíða eftir. Þegar aðilar sömdu 21. ágúst 2000, sagði Magnús aðspurður, að framleiðendum hefði verið tilkynnt það og að stefnandi hefði greitt umsamið verð. Á þessum tíma hafi vantað frá stefnanda nákvæm mál á skrúfuöxli, lengd á stefnisrörinu, nákvæmar upplýsingar um kælibúnaðinn o.fl. Fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi verið ljóst að ekki lágu fyrir upplýsingar hjá stefnda til að stefndi gæti lokið málinu.
Í bréfi sínu til stefnanda 22. september 2000 [dskj. nr. 15.] kvaðst Magnús hafa hann með orðunum „Nýtt fyrirkomulag var þá sent og beðið er svara hvort þessi gír geti komi í stað þess sem áður var boðinn" átt við að beðið væri svara frá stefnanda hvort að þessi gír geti komið í stað þess sem áður hafði verið boðinn, eða hvort að hin leiðin yrði farin, þ.e. þrýstilega yrði sett á skrúfuásinn.
Magnús sagði að venja væri hjá stefnda að starfsmenn fyrirtækisins undirriti fyrir þess hönd þau tilboð sem þeir vinni að fyrir fyrirtækið, og það hafi hann gert í þessu tilviki.
Magnús sagði að ekki hefði verið reynt að afla svara við bréfi stefnanda frá 27. september 2000 [dskj. nr. 15.] varðandi skriflega staðfestingu framleiðenda á afhendingartíma vélbúnaðarins, þar sem hann hefði verið búinn að tjá forsvars-mönnum stefnanda, að um það gæti ekki verið að ræða, sökum þess að fullnægjandi upplýsingar skorti frá stefnanda.
VI.
Niðurstaða: Með samningi aðila frá 21. ágúst 2000 samþykkir stefnandi að kaupa en stefndi að selja vélbúnað í hafnarbát sem stefnandi var með í smíðum samkvæmt verksamningi við Hafnarfjarðarhöfn frá 7. júlí sama ár. Tilboði stefnanda í smíðina hafði verið tekið í framhaldi af útboði Hafnarfjarðarhafnar, en útboðsgögn vegna smíðarinnar höfðu verið útbúin af Ráðgarði Skiparáðgjöf ehf, sem sá einnig um að gera fyrirkomulagsteikningu af bátnum. Verkáætlun stefnanda um smíðina, sem gerð var nokkru eftir að verksamningurinn var undirritaður, var hluti verksamningsins en í áætluninni kemur fram að gert er ráð fyrir því að stefndi afhendi stefnanda vélbúnaðinn í 39. viku ársins sem lauk 1. október 2000.
Verksamningurinn um smíði hafnarbátsins er milli stefnanda og Hafnarfjarðarhafnar og gerður í framhaldi af útboði. Í útboðsgögnunum, sem eru hluti verksamningsins, segir svo orðrétt um vélbúnað og tæki í kafla 1.15
All the vessel machinery and equipment shall be produced by internationally acknowledged manufacturer, with acknowledged service in Iceland and represented in Iceland by an established dealer.
All machinery and equipment shall be type approved by the Classification society and og where applicable by the IMA.
All machinery and equipment is subject to the Buyers acceptance.
Stefndi hafði í sambandi við útboðið sent Ráðgarði þann 17. apríl s.á. tilboð í nefndan vélbúnað frá MTU (Motoren und Turbinen-Union), þýskri vélaverksmiðju sem stefndi hefur umboð fyrir, og sem af hálfu Hafnarfjarðarhafnar var óskað eftir við stefnanda að notaður yrði í bátinn í stað Caterpillarvéla sem stefnandi hafði boðið í tilboði sínu. Vegna þessarar óskar Hafnarfjarðarhafnar leitaði stefnandi eftir tilboðum í vélabúnaðinn frá stefnda og í framhaldi af því tókust samningar um kaup á vélbúnaðinum milli aðila málsins þann 21. ágúst 2000. Áðurnefnd verkáætlun stefnanda frá því í júlí var ekki gerð að hluta þessa samnings. Samkvæmt samningi aðila skyldi stefndi afhenda stefnanda vélbúnað sem samanstóð af eftirfarandi meginhlutum: Aðalvélar, sveigjutengi milli aðalvéla og niðurfærslugíra, niðurfærslugírar, skrúfuásar, stefnisrör með legum og ásþétti í hvorum enda, skipsskrúfur og skrúfuhringir.
Þegar stefnandi hafði greitt stefnda staðfestingargjaldið við undirritun samningsins 21. ágúst virðist hefjast hin eiginlega tæknilega skoðun á þeim búnaði sem stefndi bauð, en þá kom í ljós að annað hvort þurfti að bæta inn sjálfstæðri þrýstilegu í búnaðinn eða velja stærri gír.
Samkvæmt frá símbréfi frá MTU stíluðu á stefnda, dags. 8. september 2000, sem er svar við bréfi stefnda frá 5. sama mánaðar, er fjallað um tæknilega vankanta varðandi niðurfærslugíranna og bent á lausnir á þeim sem fólust í því að annað hvort þyrfti að bæta sjálfstæðri þrýstilegu inn í búnaðinn eða velja stærri gír. Með nefndu símbréfi fylgdu m.a. teikningar MTU af nýjum gír. Magnús Jón Smith bar fyrir réttinum að stefnandi hafi samdægurs verið látinn vita af nefndu símbréfi og var því ekki mótmælt af hálfu stefnanda.
Samkvæmt vitnisburði Vignis Demussonar, starfsmanns stefnanda, fór hann þann 14. september með teikningarnar af hinum nýja gír ásamt tæknilegum upplýsingum til skipasmíðastöðvarinnar í Póllandi sem annaðist smíði á skrokk hafnarbátsins fyrir stefnanda. Samkvæmt símbréfi stíluðu á stefnanda, dags. 20. september, frá pólsku skipasmíðastöðinni varðandi nýja niðurfærslugírinn kom fram það álit stöðvarinnar að hún gæti breytt vélaundirstöðum bátsins í samræmi við breyttar forsendur, jafnframt því sem af hálfu skipasmíðastöðvarinnar var tekið fram að þessar breytingar myndu valda einnar viku töf á afhendingu skrokksins og hafa í för með sér viðbótarkostnað að fjárhæð 3.500 Bandaríkjadala. Aðspurður um nefnt símbréf sagði Magnús Jón Smith að honum hafi ekki verið kunnugt um efni þessa bréfs fyrr en það var lagt fram hér í réttinum. Um ástæður þess að stefnda var ekki kynnt efni þessa bréfs er af hálfu stefnanda haldið fram að það hafi verið hlutverk stefnanda að fá breytt undirstöðum í bátnum til samræmis við breyttar forsendur.
Sama dag og stefnanda barst bréfið frá pólsku skipasmíðstöðinni bað stefnandi stefnda um upplýsingar um stöðu mála varðandi hinn nýja gír sem boðinn var af hálfu stefnda og kostnaðarauka vegna hans, auk þess sem farið var fram á staðfestingu á pöntun á vélbúnaði og áætlaðan afgreiðslutíma vegna nýja gírsins og þar með vélbúnaðarins í heild. Stefndi svaraði þessari fyrirspurn stefnanda með símbréfi, dagsettu 22. september, þar sem fram kemur að við pöntun stefnda á vélbúnaðinum í bátinn hafi það komið í ljós að sá gír sem boðinn var frá ZF af gerðinni 161-1 hafi við frekari skoðun MTU ekki þolað það álag sem honum var ætlað samkvæmt smíðalýsingu. Hér hafi verið um innanhússmistök hjá ZF að ræða sem þeir vilji leiðrétta með því að bjóða fram stærri gír af gerðinni BW 251. Þá var tekið fram í nefndu símbréfi stefnda að enn sé beðið svara frá stefnanda um það hvort þessi nýi gír geti komið í stað þess sem upphaflega var boðinn. Ennfremur var tekið fram af hálfu stefnda varðandi þann kostnað, sem yrði af því að skipta um gír, að hann myndi falla á MTU og allt yrði gert til þess að liðka fyrir afhendingu. Í gögnum frá MTU sem fylgdu þessu svari stefnda til stefnanda koma fram þær almennu upplýsingar að áætlaður afgreiðslufrestur sé 10-11 vikur, en að endanlega afhendingartíma sé einungis hægt að staðfesta eftir að pöntun hafi verið móttekin. Í gögnum málsins, dags. 22. september, kemur ennfremur fram að aðilar málsins skiptast á tæknilegum upplýsingum um hinn nýja gír.
Þann 25. september tilkynnti stefndi stefnanda að hann hefði ákveðið að skipta um skrúfuframleiðanda, þ.e. hætta við Radice á Ítalíu og nota Lips í Hollandi í staðinn, enda hafi upphaflega verið við það miðað að nota skrúfu frá þeim síðarnefnda. Í þessari tilkynningu stefnda kemur fram að stefndi hafði ekki enn fengið línuteikningu bátsins. Í tilefni af þeim breytingum sem orðið höfðu á vélbúnaðinum óskar stefnandi eftir því við stefnda 26. september að staðfest yrði hvert verð búnaðarins væri og hver væri afhendingartími hans. Þá tók stefnandi sérstaklega fram að þessar staðfestingar yrði að liggja fyrir áður en pöntun á nýjum og breyttum búnaði yrði staðfest. Stefndi svarar þessu samdægurs með símbréfi þar sem hann staðfestir að verð á búnaði væri óbreytt og að MTU tæki á sig þær breytingar sem yrðu með sterkari gír. Um afhendingartíma segir stefndi orðrétt í símbréfinu: „Varðandi afhendingartíma þá er um að ræða 10-11 vikur frá staðfestingu, þrátt fyrir að vélarnar séu nú þegar komnar í framleiðslu þá er um heildarafgreiðslu að ræða það er (sic) vélar og gírar eru sambyggðar einingar sem verða að afhendast í einu lagi.”
Í símbréfi Ráðgarðs til Hafnarfjarðarhafnar, dags. 26. september 2000, kemur fram að Bolli Magnússon, skipatæknifræðingur hjá Ráðgarði, hafði farið yfir öll tiltæk gögn um vélbúnaðinn sem stefndi hefur boðið, þar með talið hinn nýja og breytta gír og skrúfuna frá Lips sem nú voru boðin af stefnda og skrúfuþéttingum og skrúfuhringjum. Í lok nefnds símbréfs er yfirlýsing þess efnis að vélbúnaður hafnarbátsins uppfylli allar þær kröfur sem til hans séu gerðar. Aðspurður um nefnt símbréf Ráðgarðs hélt Magnús Jón Smith fram fyrir réttinum að forsvarsmenn stefnda hefðu ekki fengið að sjá þessa „staðfestingu” og hefði stefndi ekki frétt af henni fyrr en löngu seinna. Af hálfu stefnanda var því ekki haldið fram að að stefndi hefði fengið vitnesku um efni þessa bréfs. Vitnið Vignir Demusson, starfsmaður stefnanda sem vann að útvegun vélbúnaðarins fyrir hann, kvaðst kannist við margnefnt símbréf og viðurkenndi að forráðamenn stefnanda hefðu viljað fá það staðfest að sú breyting á vélbúnaði, þ.e. að fara úr minni gír yfir í stærri, uppfyllti skilyrði sem útboðsgögnin sögðu til um.
Með orðsendingu stefnanda til stefnda, dags. 27. september, fór stefnandi fram á eftirfarandi, eins og orðrétt greinir í orðsendingunni:
- Skriflega staðfestingu frá MTU um afhendingartíma vélanna
- Skriflega staðfestingu frá ZF um afhendingartíma niðurfærslugíranna
- Skriflega staðfestingu frá LIPS um afhendingatíma á skrúfubúnaði og skrúfuhringjum
Af hálfu stefnanda var stefnda gefinn frestur til þess að senda skriflegar staðfestingar frá framleiðendum til mánudagsins 2. október. Með bréfi til stefnda, dags. 6. október 2000, sagði stefnandi upp samningnum við stefnda um vélbúnaðinn frá 21. ágúst og er riftunarbréfið áritað með samþykki Hafnarfjarðarhafnar.
Í verksamningnum frá 7. júlí 2000 skuldbatt stefnandi sig gagnvart kaupanda hafnarbátsins, Hafnarfjarðarhöfn, að afhenda bátinn 20. desember, eða 19 vikum seinna. Það má ráða af útboðsgögnum málsins og kom einnig fram af hálfu Más Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra hafnarinnar, hér fyrir réttinum, að meginástæðan fyrir því að tilboði stefnanda var tekið í bátasmíðina hafi verið að stefnandi bauð stystan afhendingartíma, en níu aðilar höfðu skilað ellefu tilboðum í verkið.
Samningur um vélbúnaðinn komst á milli stefnanda og stefnda við undirritun hans 21. ágúst 2000, en stefnandi hafði áður skuldbundið sig gagnvart Hafnarfjarðarhöfn að útvega vélbúnað frá MTU-verksmiðjunum sem stefndi hefur söluumboð fyrir.
Um afgreiðslufrest segir í samningi aðila að hann sé 10 vikur frá staðfestri pöntun frá verksmiðju. Greinir aðila á um hvenær frestur skyldi byrja að líða. Af hálfu stefnanda er haldið fram að 10 vikna fresturinn hafi byrjað að líða er samningurinn var undirritaður af aðilum 21. ágúst 2000, en stefndi heldur því fram að frestur hafi ekki byrjað að líða þar sem framleiðendur vélbúnaðarins hefðu ekki getað staðfest pöntun sökum þess að stefnandi hefði hunsað að staðfesta að vélbúnaðurinn, sem þeim var ætlað að smíða, passaði fyrir bátinn er í smíðum var hjá stefnanda.
Ákvæði samningsins um afgreiðslufrest verður að skoða í ljósi aðdraganda hans og hvers eðlis samningurinn er. Aðilum málsins var það að sjálfsögðu ljóst að panta þurfti vélbúnaðinn frá MTU-verksmiðjunum í Þýskalandi. Þá þurftu að liggja fyrir málsettar teikningar og aðrar grundvallar tækniupplýsingar sem framleiðandi þarf að fá í hendur til þess að framleiðsla og smíði á vélbúnaði geti farið fram til þess að hægt væri að framleiða sjálfa skrúfuásana, stefnisrörin o. fl. Einnig kemur fram í málinu að vélbúnaður bátsins samanstendur af sambyggðum einingum, þannig að t.d. vélar og gírar eru sambyggðir og verða því að afhendast í einu lagi. Ennfremur hefur komið fram að skrokkur skipsins sem vélbúnaðinum er ætlað að komast fyrir í var í smíðum í Póllandi á þeim tíma sem verið var að ganga frá pöntun vélbúnaðarins.
Af þessu má ráða að enda þótt samningur aðila frá 21. ágúst sé að meginstefnu til kaupsamningur um lausafé þá þarf ákveðin samvinna og gagnkvæm upplýsingaskipti að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að afgreiða vélbúnaðinn í heild þannig að hann hæfi bátnum. Í samningi aðila frá 21. ágúst eru ekki að finna önnur ákvæði um afhendingartíma en að framan greinir. Það er því gegn skýrum orðum samningsins, aðdraganda og eðli hans að ekki hægt að fallast á það með stefnanda að ákveðinn afhendingarfrestur byrji þegar að líða frá og með undirritun samningsins.
Á hinn bóginn er ljóst að stefndi hafði ekki á valdi sínu hvenær afgreiðslufresturinn byrjar að líða. Það lá beint við þann 21. ágúst 2000 að stefndi pantaði þegar í stað vélbúnaðinn, sem samningurinn greinir, frá verksmiðjum sem framleiddu hann, enda hafði stefnandi þann dag greitt stefnda hluta kaupverðsins er um hafði verið samið að hann innti af hendi við undirritun. Forsenda þess að unnt væri að gera pöntun var hins vegar að stefnandi afhenti stefnda málsettar teikningar og aðrar grundvallar tækniupplýsingar. Áður en stefndi pantaði vélbúnaðinn frá MTU kom, eins og áður er rakið, í ljós að annaðhvort þurfti að bæta sjálfstæðri þrýstilegu inn í búnaðinn eða velja stærri gír. Stefndi greindi stefnanda frá þessu þann 8. september 2000 og skýrði frá þeim lausnum sem MTU-verksmiðjurnar buðu fram vegna þessa vandamáls og sendi honum nýjar teikningar er tengdust þeirri lausn. Þessi vandkvæði verður að telja á ábyrgð stefnda sem hefði átt að vera búinn bera þetta tækniatriði undir verksmiðjurnar áður en samningurinn var undirritaður 21. ágúst. Þó ber einnig að líta til þess að algengt er í viðskiptum sem þessum að gera þurfi ýmsar breytingar á pöntun eftir að tilboði hefur verið tekið. Á þessu stigi málsins virðist stefnandi hafa viljað láta á það reyna hvort sú lausn er boðinn var fram af hálfu stefnda um nýjan niðurfærslugír væri viðunandi. Á vegum stefnanda var farið með þessar tillögur til Póllands og þær bornar undir þá aðila sem stóðu að smíði skrokks hafnarbátsins. Niðurstaða pólsku skipasmíðastöðvarinnar var sú að hægt væri að framkvæma nauðsynlegar breytingar á undirstöðum vélbúnaðarins til þess að koma til móts við breyttar forsendur vegna nýja gírsins. Stefndi spyr stefnanda eftir þetta hvort nýju gírarnir geti komið í stað þeirra sem áður voru boðnir, en fær ekkert svar frá stefnanda. Þá kemur það einnig fram í yfirlýsingu Ráðgarðs, sem var tæknilegur ráðgjafi kaupanda bátsins, að vélbúnaður bátsins, með þessum breytingum vegna gírsins, uppfyllti allar þær kröfur er til hans væru gerðar. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að samkvæmt útboðsskilmálum þeim sem voru hluti þess verksamnings sem gerður var 7. júlí milli kaupanda bátsins, Hafnarfjarðarhafnar, og stefnanda var áskilnaður um það að allur vélbúnaður og tæki væri háður samþykki kaupanda.
Af framangreindu verður að telja að stefnandi hafi í raun samþykkt þær tillögur sem af hálfu stefnda voru boðnar fram vegna þeirra vandkvæða sem upp kom vegna þess að gír sem samið var um 21. ágúst reyndist of lítill. Breytir þar engu að stefnandi lét undir höfuð leggjast að tilkynna stefnda um að breytingar þær sem stefndi hafði lagt til gengju upp. Þvert á móti verður að telja, miðað við eðli samninga af því tagi sem hér hefur verið lýst, að stefnanda hafi borið að greina stefnda frá því að unnt væri að fallast á tillögur hans um lausn þeirra vandamála sem upp komu varðandi gírinn, fyrst hann valdi þá leið að vinna að lausn þeirra með stefnda í stað þess að hafna tillögu hans um nýjan gír í stað þess sem hann átti rétt á samkvæmt samningi aðila.
Verður því að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi ekki sinnt skyldum sínum að þessu leyti með fullnægjandi hætti og beri hann því ábyrgð á stórum hluta þeirra tafa sem urðu á pöntun vélbúnaðarins. Þá verður einnig að taka undir það með stefnda að honum hafi ekki verið unnt að ljúka pöntun á vélbúnaðinum frá verksmiðjunum fyrr en stefnandi staðfesti að búnaðurinn hentaði. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 39/1922 verður ekki talið að stefnanda hafi verið heimilt að rifta kaupunum.
Samkvæmt framangreindu er rétt að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Krafa stefnda, um að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna innborgun stefnanda að fjárhæð 2.200.847 krónur, kemur því ekki til álita.
Svo sem rakið hefur verið var samningur aðila 21. ágúst 2000 ekki með þeim hætti að unnt væri að framleiða vélbúnað eftir þeim teikningum og gögnum, sem var hluti samningsins, þannig að vélbúnaðurinn sem heild myndi falla að dráttarbátnum sem smíða átti. Báðum aðilum mátti vera ljóst að samningur aðila var ófullkominn að þessu leyti. Þá liggur fyrir að mistök höfðu orðið í tilboði stefnda, boðinn gírbúnaður sem ekki þoldi álag samkvæmt smíðalýsingu. Samningur aðila var að öðru leyti ónákvæmilega orðaður og þannig til þess fallinn að skapa ágreining eins og raun varð á. Þykir því rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur og Garðar Valdimarsson löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Atlas hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Óseyjar hf.
Málskostnaður fellur niður.