Hæstiréttur íslands
Mál nr. 64/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2013. |
|
Nr. 64/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Þórir Júlíusson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til „fimmtudagsins 8. febrúar 2013“ klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, þó þannig að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun til fimmtudagsins 7. febrúar 2013 klukkan 16.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 7. febrúar 2013 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. febrúar 2013 kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni. Hann krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að kærða verði ekki gert að sæta einangrun.
Í greinargerð með kröfunni segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar póstsendingar hingað til lands frá Kaupmannahöfn í Danmörku. Í póstsendingunum hafi verið að finna mikið magn sterkra fíkniefna svo sem sjá megi af efnaskýrslum.
Lögregla hafi undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá megi aðila, þ. á m. tvo íslendinga, sem nú sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, póstleggja umræddar sendingar.
Í gær hafi kærði, X, sótt eina sendingu í póstafgreiðslu við Stórhöfða í Reykjavík. Hafi lögregla fylgst með því hvar kærði hafi afhent sendinguna til Litháa, sem hafi gengið með hana áleiðis að Elliðaám, þar sem hann hafi losað sig við hana og hafi í kjölfarið verið handtekinn.
Í skýrslutökum í gær hafi kærði viðurkennt að hafa móttekið umrædda póstsendingu. Hann kvaðst hafa gert það að beiðni B. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað væri í sendingunni, hans hlutverk hafi einungis verið að sækja þessa sendingu og afhenda hana útlendingi við Domino´s á Stórhöfða. Hann kvaðst hafa átt að fá 40 til 50.000 krónur fyrir að sækja pakkann og taldi því líklegt að eitthvað ólöglegt væri í pakkanum.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu enda sé kærði X nú undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldum innflutningi fíkniefna hingað til lands, þannig að varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé rannsókn málsins á frumstigi og því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt framangreindu, svo og með vísan til gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. febrúar 2013 kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.