Hæstiréttur íslands

Mál nr. 95/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. febrúar 2006.

Nr. 95/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Talið var að skilyrði væru uppfyllt til að X sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli  a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir A var því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald verði hafnað en varnaraðili verði þess í stað látinn sæta farbanni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands 14. febrúar 2006, þar sem greind voru efnissýni úr flöskunum tveimur, sem A er sagður hafa haft meðferðis þegar hann kom til Íslands 4. febrúar 2006. Kemur fram í matsgerðinni að í sýni úr annarri flöskunni hafi magn amfetamínbasa verið 77% af þunga sýnisins en í hinni 89%.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila sé fullnægt og verður hann því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], verði á grundvelli a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar 2006, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meint fíkniefnabrot A, litháesks ríkisborgara, sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins.  A hafi komið til landsins þann 4. þ.m. með flugi frá Kaupmannahöfn með mikið magn amfetamíns í fórum sínum.  Amfeta­mínið hafi verið í vökvaformi og hafði verið komið fyrir í tveimur léttvínsflöskum.  A þessi sæti nú gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknar­hagsmuna skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. þ.m. 

Lögregla hafi nú upplýsingar um að A hafi tvisvar áður komið til Íslands og í annað skiptið aðeins dvalist hér í nokkrar klukkustundir og þyki ferðalög hans þannig mjög grunsamleg.  A þessi hafi í skýrslutöku hjá lögreglu lýst landa sínum sem búi hér á landi og hafi tekið á móti flöskum í fyrri ferð hans hingað til lands.  Hann hafi lýst hvernig þessi aðili hafi farið með honum á nýlegri grárri bifreið af gerðinni [...] á söluskrifstofu Flugleiða til kaupa á flugmiða til Stokkhólms.  Í gögnum sem lögregla hafi aflað frá Flugleiðum komi fram að X, virðist hafa keypt umræddan flugmiða auk þess sem lýsingar A passi við X, sem aki um á grárri [...] bifreið, skráningarnúmer [...]. 

Lögregla hafi aflað upplýsinga um að handhafi ótilgreinds frelsisnúmers hafi hringt oft í síma ofangreinds A eftir að hann hafi verið handtekinn með fíkniefnin í vörslum sínum og að úr sama símanúmer hafi verið hringt í númer sem kærði X hafi verið handhafi að strax þar á eftir.

Lögregla hafi gert í gær húsleit á heimili X skv. úrskurði frá Héraðsdómi Reykjaness.  Lögregla hafi fundið þar ýmis gögn sem haldlögð hafi verið, talsvert magn peninga og aðra muni sem rannsaka þurfi frekar.

Kærði, X, neiti allri aðild að máli þessu.  Skýringar hans á umræddum farmiðakaupum hafi verið ótrúverðugar auk þess sem framburður hans í heild verði að teljast ótrúverðugur.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins þyki vera fyrir hendi rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem kunni að varða fangelsisrefsingu ef sök sannist.  Á þessu stigi rannsóknarinnar þurfi að yfirheyra X frekar með tilliti til framburðar ofangreinds A og e.t.v. fleiri aðila sem kunni að tengjast málinu.  Rannsókn á munum sem hafi verið haldlagðir við húsleitir vegna málsins, sé ólokið og beðið sé rannsóknargagna tæknideildar embættisins.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins.  Þá liggi fyrir að kærði sé litháeskur ríkisborgari og gæti brottför hans frá landinu torveldað mjög frekari rannsókn og saksókn vegna málsins og sé því einnig nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi af þeim ástæðum.   

Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.

Kærði hefur neitað aðild sinni að málinu og kveðst ekkert um það vita.  Í gögnum málsins kemur fram að A, litháeskur ríkisborgari, sem nú sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins, hafi leitt líkur að því að hann hafi áður haft samskipti við kærða, m.a. liggi fyrir samkvæmt viðurkenningu kærða að hann hafði keypt flugmiða fyrir A til Stokkhólms er hann kom áður hingað til lands.  Rannsókn máls þessa er skammt á veg komin, og m.a. á eftir að vinna úr gögnum sem lagt var hald á við húsleit hjá kærða.  Samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til rannsóknargagna þykir vera kominn fram rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að innflutningi fíkniefna, sem lögreglan er að rannsaka.  Sakarefnið varðar við 173. gr. a almennra hegningarlaga  nr. 19,1940 en samkvæmt því ákvæði liggur allt að 12 ára fangelsi við broti.  Með tilliti til rannsóknarhagsmuna er fallist á, með vísan til a- og b-liða 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, að kærða, sem er erlendur ríkis­borgari, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar 2006, klukkan 16.00.