Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-41

A (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
B (Páll Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 25. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars 2024 í máli nr. 244/2023: A gegn B og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu ummæla, sem hann telur gagnaðila bera ábyrgð á, og greiðslu miskabóta. Þá krefst hann að gagnaðila verði gerð hæfileg refsing vegna ummælanna samkvæmt 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Annars vegar er um að ræða ummæli í einkaskilaboðum sem send voru í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram til unnustu leyfisbeiðanda í ágúst 2021 og hins vegar ummæli í færslu á lokuðum hóp á samfélagsmiðlinum Facebook sem féllu í janúar 2022. Óumdeilt er að gagnaðili sendi einkaskilaboðin en hún neitar því að hafa birt ummælin á Facebook.

4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknuð af öllum kröfum leyfisbeiðanda með vísan til forsendna héraðsdóms. Í héraðsdómi kom fram að efni einkaskilaboðanna væru tvímælalaust til þess fallin að skaða æru leyfisbeiðanda og það stæði ekki í vegi ómerkingar ummælanna að þau hefðu verið viðhöfð með þeim hætti. Í dóminum kom fram að þær upplýsingar sem gagnaðili taldi sig búa yfir byggði hún á frásögn bróður síns og hans upplifun, sem hann staðfesti fyrir dómi. Væri því ekki hægt að telja leyfisbeiðanda hafa verið í vondri trú um sannleiksgildi ummælanna, sem hún hefði ekki sett fram að tilefnislausu heldur í réttmætum tilgangi í skilaboðum ætluðum viðtakanda einum. Þegar þetta væri virt í heild sinni væri ekki talið að nauðsyn bæri til þess í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningu gagnaðila með þeim hætti sem krafist var enda yrði að gjalda varhug almennt við að takmarka tjáningu. Gagnaðili var því sýknuð af kröfum sem tengdust ummælum í einkaskilaboðum til unnustu leyfisbeiðanda. Um nafnlausu færsluna á Facebook var vísað til þess að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist að sanna að gagnaðili bæri ábyrgð á henni. Var gagnaðili því einnig sýknuð af kröfum tengdum ummælum í færslunni á Facebook.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og hvorki í samræmi við almennt viðurkennd sjónarmið um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs né fordæmi Hæstaréttar og mannréttindadómstóls Evrópu. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um fullframningu ærumeiðinga. Leyfisbeiðandi telur að standi dómurinn óhaggaður sé ljóst að litlum takmörkunum sæti að dreifa hvers kyns ærumeiðandi upplýsingum og ummælum um annað fólk. Að mati leyfisbeiðanda þurfi Hæstiréttur að skera úr um hvort gera eigi greinarmun á svigrúmi meintra brotaþola til að lýsa upplifunum sínum og svo tjáningarfrelsi annarra til að sjá sig um upplifanir brotaþola sem staðreyndir. Í þriðja lagi byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins hafi sérstaka þýðingu fyrir hann.

6. Að virtum gögnum málsins verður dómur í því talin geta haft fordæmisgildi um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.