Hæstiréttur íslands
Mál nr. 694/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Tryggingarbréf
- Veðréttindi
- Aðfararheimild
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að sér verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í eignarhluta varnaraðila í fasteigninni að Lyngrima 22 í Reykjavík á grundvelli nánar tilgreinds tryggingarbréfs, sem standi til tryggingar skuldum KBK ehf. við sóknaraðila „samkvæmt lánssamningi nr. 0101-36-9650, sem nam höfuðstólsfjárhæð kr. 4.872.103 þann 05.03.2010.“
Í dómkröfunni er ekki tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu sóknaraðili krefst að sér verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn samkvæmt fyrrnefndu tryggingarbréfi. Vegna þessa óskýrleika kröfugerðarinnar verður málinu vísað frá héraðsdómi, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og dóma Hæstaréttar 12. október 2017 í máli nr. 649/2016 og 9. nóvember 2017 í máli nr. 774/2016. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Þar sem ekki verður séð að varnaraðili, sem er ólöglærður og fer sjálfur með málið, hafi haft kostnað af því hér fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, eru ekki efni til að sóknaraðila verði gert að greiða honum kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2017.
Mál þetta, sem var dómtekið 25. september sl. er höfðað 17. janúar 2017. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík en stefndi er, Bragi Gunnarsson, Lyngrima 22. Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhluta stefnda í fasteigninni að Lyngrima 22, Reykjavík, fastanúmer 203-9787, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0101-63-111672, sem útgefið var 3. október 2007, upphaflega að fjárhæð 19.200.000 krónur, verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs, 276,7 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, en bréfið var sett til tryggingar skuldum útgefanda þess, KBK ehf., við stefnanda, samkvæmt lánssamningi nr. 0101-36-9650, sem nam að höfuðstólsfjárhæð 4.872.103 krónum þann 5. mars 2010. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að kröfu stefnanda verði hafnað en til vara að fjárkrafa stefnanda sæti lækkun. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefndi krafðist frávísunar málsins í greinargerð sinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 24. maí sl. og mælt fyrir um að ákvörðun málskostnaðar biði efnislegrar úrlausnar málsins.
I
Í máli þessu krefst stefnandi heimildar til að gera fjárnám í fasteign í eigu stefnda vegna skuldar sem KBK ehf. stofnaði til við stefnanda. Krafan byggist á þinglýstu tryggingarbréfi með veði í umræddri fasteign sem gefið er út af umræddu félagi 3. október 2007 til tryggingar greiðslu allra skulda þess við stefnanda að hámarki 19.200.000 krónur, auk nánar tilgreindra vaxta, verðbóta og kostnaðar. Hækkar fjárhæðin í samræmi við nánar tilgreinda vísitölu. Við munnlegan málflutning kvað lögmaður stefnanda að miðað við 25. september 2017 næmi fjárhæð tryggingarbréfsins 30.732.490 krónum. Stefndi átti umrætt félag til helminga á móti öðrum manni.
Tilgangur málsóknar stefnanda er að leita fullnustu skuldar sem KBK ehf. stofnaði til hjá forvera stefnanda 5. október 2007. Lánið var að jafnvirði 16.000.000 íslenskra króna, í jöfnum hlutföllum í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Lánstími var fimm ár. Skilmálabreytingar voru gerðar á lánssamningi 13. janúar 2009 og aftur 4. ágúst sama ár.
Bú KBK ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. mars 2010 og féll þá krafa stefnanda í gjalddaga, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Lýsti stefnandi kröfu við gjaldþrotaskiptin að fjárhæð 39.657.271 króna vegna þeirrar skuldar sem hér um ræðir. Var krafan samþykkt með þeirri fjárhæð. Skiptum lauk 30. mars 2011 og greiddust 24,545% upp í almennar kröfur og átti Landsbanki Íslands samkvæmt því að fá úthlutað 9.733.877 krónum við skiptin. Greiðsla til bankans kom á hinn bóginn ekki frá þrotabúi KBK ehf. heldur frá lánasýslu bankans vegna Sofia ehf., sem er félag sem keypt hafði fasteign af þrotabúinu. Nam sú greiðsla 12.000.000 krónum og var innt af hendi 6. apríl 2011 og færð inn sem greiðsla upp í kröfu stefnanda. Við aðalmeðferð málsins kom fram sú skýring á þessu misræmi að 12.000.000 krónur hafi verið nálægt þeirri fjárhæð sem upphaflega hafi verið áætlað að greiðast myndi upp í kröfu Landsbanka Íslands hf., en úthlutunin hafi hins vegar orðið lægri vegna kostnaðar sem fallið hafi á þrotabúið vegna málaferla.
Í fyrirsvari fyrir Sofia ehf. mun hafa verið meðeigandi stefnda að KBK ehf. Keypti fyrrnefnda félagið fasteignir þær sem hið síðarnefnda hafði átt og fékk til þess lánafyrirgreiðslu hjá stefnanda. Telur stefndi að hagsmunir hans hafi verið fyrir borð bornir í tengslum við þessi viðskipti.
Eins og kunnugt er komust dómstólar að þeirri niðurstöðu á árinu 2010 að tilteknir skilmálar lána sem þá höfðu tíðkast fælu í sér ólögmæta tengingu endurgreiðslufjárhæðar við gengi erlendra gjaldmiðla. Féllu og margir dómar á árunum eftir þetta sem nánar skýrðu réttarástandið. Var og gerð breyting á lögum um vexti og verðtryggingu í lok árs 2010 sem ætlað var að bregðast að nokkru við þessu ástandi. Stefnandi taldi það lán sem KBK ehf. hafði tekið vera haldið annmarka af þessu tagi. Var lánið endurreiknað í tvígang vegna þessa. Í fyrra sinnið 2. ágúst 2011 en ekki er dagsetning á síðari útreikningnum en hann kveður á um stöðu lánsins 5. mars 2010. Liggja þessir útreikningar meðal gagna málsins. Lækkaði fjárkrafan við þessa endurútreikninga og eru eftirstöðvar höfuðstóls hennar sagðar hafa réttilega numið 4.872.103 krónum 5. mars 2010 en það er sá dagur þegar KBK ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta.
Eins og alkunna er tók stefnandi á grundvelli fyrirmæla Fjármálaeftirlitsins við nánar tilgreindum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. í október 2008. Er vafalaust og óumdeilt að stefnandi tók þá við þeim réttindum sem um er fjallað í máli þessu.
II
Stefnandi byggir á því að stefndi sé eigandi fasteignar með áhvílandi gildu tryggingarbréfi sem kveði á um ábyrgð á skuldum KBK ehf. Þetta félag hafi orði gjaldþrota, stefnandi hafi fengið hluta kröfu sinnar greiddan við skiptin en krefjist í málinu heimildar til að gera fjárnám á grundvelli tryggingarbréfsins fyrir því sem útaf standi. Gerði lögmaður stefnanda grein fyrir því við munnlegan málflutning að uppreiknuð fjárhæð tryggingarbréfsins væri þann dag 30.732.490 krónur. Þá gerði hann grein fyrir því að skuldin stæði að hans mati í 12.197.502 krónum en í þeirri fjárhæð fælust höfuðstóll að fjárhæð 4.872.103 krónur, dráttarvextir frá 5. mars 2010 til 25. september 2017, auk 3.400 króna vegna stefnubirtingar og 30.000 króna þingfestingargjalds. Þá kom fram að væri miðað við að vextir eldri en fjögurra ára væru fyrndir væru eftirstöðvar skuldarinnar 6.663.840 krónur. Þá kom fram hjá lögmanni stefnanda að hann teldi dómsmál þetta ekki snúast um að taka afstöðu til þess hver væri rétt fjárhæð kröfunnar. Úrlausn þess gæti fengist í ágreiningsmáli vegna fjárnáms eða úthlutunar söluandvirðis við nauðungarsölu.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um efndaskyldu loforða og fullnustu á veðrétti kröfueiganda. Einnig kveðst hann vísa til laga nr. 75/1997 um samningsveð, einkum 3. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 9. gr. og 15. til 20. gr. laganna. Þá sé einnig vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um gjalddaga aðalkröfunnar vísist til 99. gr. laga nr. 21/1991. Þá kveðst stefnandi vísa til laga nr. 90/1989 um aðför en samkvæmt lögunum sé stefnanda nauðsynlegt að fá dóm um heimild til aðfarar svo að fullnusta megi veðið með aðför og síðar nauðungarsölu. Þá vísist til ákvæða tryggingarbréfsins, skilmála þess og þeirra lagaákvæða sem þar sé vísað til. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing sé vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991. Um aðild stefnanda vísist til 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
III
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins og að greiðsla frá Sofia ehf. til stefnanda að fjárhæð 12.000.000 krónur verði ekki skilin öðruvísi en það félag hafi verið að kaupa þá kröfu sem um ræðir og geti stefnandi því ekki lengur talist aðili málsins.
Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fyrnd vegna ákvæða 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sem kveði á um tveggja ára fyrningarfrest krafna í kjölfar gjaldþrots.
Ennfremur vísar stefndi til þess að tilkynningar sem honum hafi borist á árunum 2011 til 2016 beri ekki með sér að nein vanskil hafi verið til staðar.
Loks vísar stefndi til þess að hann telji að stefnandi hafi ekki gætt nægilega hagsmuna sinna við gjaldþrot KBK ehf. og uppgjör því tengdu í því skyni að geta gengið að ábyrgðum stefnda.
Stefndi vísar til þeirrar grunnreglu kröfu- og samningaréttar að samninga beri að halda. Þá vísar hann til laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
IV
Í máli þessu krefst stefnandi þess að fá heimild til að gera fjárnám í fasteign stefnda á grundvelli tryggingarbréfs sem þinglýst hefur verið á eignina til fullnustu á skuld KBK ehf. Hefur skýrlega komið fram í málatilbúnaði stefnanda að hann telur að mál þetta snúist ekki um endanlega fjárhæð umræddrar fjárkröfu sem hann leitar fullnustu á en hugsanlegur ágreiningur um þetta atriði fáist eftir atvikum borinn undir dóm síðar.
Í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tiltekinna ummæla, málskostnað o.s.frv.
Í dómi Hæstaréttar 12. október 2017 í máli réttarins nr. 649/2016 var talið að kröfugerð sem sett var fram með sambærilegum hætti og hér er um að ræða fullnægði ekki áskilnaði fyrrnefnds lagaákvæðis um skýrleika. Var þar talið að setja yrði fram kröfu um tiltekna fjárhæð sem gera ætti fjárnám fyrir. Þar sem það hafði ekki verið gert var málinu vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Í máli þessu er með sama hætti krafist heimildar til að gera fjárnám vegna tiltekinnar kröfu án þess að fram komi hver fjárhæð kröfunnar er en þess þó getið að hún hafi numið tiltekinni fjárhæð á tilgreindum degi. Mál þetta er því haldið samskonar annmarka og lýst er í framangreindum dómi Hæstaréttar. Eru ekki efni til annars en að fylgja þessu nýlega fordæmi og verður máli þessu, þegar af þeim sökum, vísað sjálfkrafa frá dómi.
Í samræmi við 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á stefndi rétt á að fá greiddan málskostnað úr hendi stefnanda sé máli vísað frá dómi. Í 129. gr. sömu laga er tilgreint í liðum a til g hvað teljist til málskostnaðar. Ekki verður séð að stefndi hafi orðið fyrir kostnaði við málsvörn sína sem fellur undir þetta lagaákvæði, enda hefur hann flutt mál sitt sjálfur. Verður málskostnaður því ekki dæmdur.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.