Hæstiréttur íslands
Mál nr. 389/2004
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Ábyrgð
- Banki
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
- Tilboð
- Skaðabætur
- Dráttarvextir
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
|
Nr. 389/2004. |
Kaupþing Búnaðarbanki hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn Bernhard ehf. (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) og gagnsök |
Kaupsamningur. Ábyrgð. Bankar. Endurgreiðsla ofgreidds fjár. Tilboð. Samþykki boðs. Skaðabætur. Dráttarvextir. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Er B tók yfir söluumboð Peugeot bifreiða hér á landi af J tók hann meðal annars að sér að standa skil á ábyrgðum sem J stóð í við KB, viðskiptabanka sinn, vegna innflutnings á bifreiðum, en KB hafði um nokkurt skeið ábyrgst greiðslur til bifreiðaframleiðandans samkvæmt ákveðnu fyrirkomulagi. Skömmu síðar fékk J heimild til greiðslustöðvunar og í kjölfarið var bú félasins tekið til gjaldþrotaskipta. Þar sem B hugðist skipta um viðskiptabanka kom til uppgjörs fyrrgreindra ábyrgða milli B og KB og greiddi B 166.096.611 krónur á grundvelli yfirlits bankans, sem miðað var við stöðu ábyrgðanna 31. maí 2000. Á árinu 2001 taldi B sig verða varan við ákveðið misræmi í birgðastöðu og óskaði eftir því við KB að kannað yrði réttmæti fyrrgreinds uppgjörs. Í kjölfar könnunar innan bankans ritaði bankastjóri KB bréf 26. september 2002 til B þar sem viðurkennt var að B hefði ofgreitt bankanum fjárhæð sem næmi 30.906.105 krónum og bauðst bankinn til að endurgreiða þá fjárhæð ásamt tilteknum fjárhæðum vegna vaxta og kostnaðar. Með bréfi sem póstlagt var 4. febrúar 2003 afturkallaði KB tilboð sitt þar sem skiptastjóri þrotabús J hefði hafnað nánar tilgreindum aðgerðum sem bankinn taldi forsendu fyrir því að endurgreiðsla af hans hálfu gæti átt sér stað. Sýnt þótti að áður en þetta bréf barst B hafði KB borist svarbréf B þar sem fallist var á þann skilning KB að bankinn hefði oftekið framangreinda fjárhæð við uppgjörið og var krafist greiðslu hennar auk vaxta og kostnaðar sem var töluvert hærri en það sem KB hafði boðið. Í aðalkröfu sinni krafðist B endurgreiðslu umræddrar fjárhæðar á grundvelli óskráðra reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár en hann þótti ekki hafa sýnt nægilega fram á hvaða upplýsingar hann hafi haft um forsendur uppgjörsins þegar það átti sér stað til að lagður yrði dómur á það hvort umræddum reglum yrði beitt. Það þótti hins vegar ljóst að í bréfi KB hafi verið viðurkennt að B hefði verið ofkrafinn um tilgreinda upphæð. Fólst í bréfinu tilboð, sem B taldist hafa samþykkt að því er varðaði höfuðstól endurgreiðslukröfunnar og hafði samþykki hans sannanlega borist KB áður en sá síðarnefndi afturkallaði tilboðið. Var KB því bundinn við þann þátt tilboðsins. Ekki var fallist á að B ætti með sama hætti rétt á greiðslum vegna vaxta og kostnaðar sem KB hafði boðið enda hafði B krafist hærri greiðslna en boðnar höfðu verið og því hafnað tilboði KB að því leyti. Nánar greindum kröfum B um greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar sem hann kvaðst hafa orðið fyrir vegna ofgreiðslunnar var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 1. desember 2004. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 30.906.105 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst þess einnig að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 8.565.076 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 5. júní 2000 til 1. júlí 2001, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 4. mars 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 46.227.071 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. september 2002 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til þess að gagnáfrýjandi gerði samning 12. janúar 2000 við Jöfur hf., sem fól í sér kaup á ýmsum verðmætum í tengslum við yfirtöku hans á söluumboði hér á landi fyrir bifreiðir af gerðinni Peugeot, en með það umboð hafði Jöfur hf. þá farið um árabil. Meðal þess, sem gagnáfrýjandi tók að sér sem endurgjald samkvæmt samningnum, voru skuldbindingar Jöfurs hf. við viðskiptabanka félagsins, Búnaðarbanka Íslands hf., vegna ábyrgða, sem hann hafði gengist í gagnvart Automobiles Peugeot í Frakklandi út af kaupum Jöfurs hf. á bifreiðum þaðan. Var þessu lýst þannig í samningnum að gagnáfrýjandi sem kaupandi „yfirtekur ábyrgðir seljanda við Búnaðarbanka Íslands vegna þeirra bifreiða sem eru komnar út fyrir greiðslufrest við PE automobiles og kaupandi hefur upplýsingar um. Jafnframt yfirtekur kaupandi ábyrgð (Standby Letter of Credit) sem seljandi hefur í gangi hjá Búnaðarbanka vegna pantaðra bifreiða hjá PE, móttekinna sem ókominna.“ Í málinu hefur þessum ábyrgðum bankans, sem aðaláfrýjandi er nú kominn í staðinn fyrir, og viðskiptum Jöfurs hf. við hann og erlenda bifreiðaframleiðandann í meginatriðum verið lýst þannig að Jöfur hf. hafi pantað að utan bifreiðir og hafi verið í gildi ábyrgð bankans fyrir kaupverði þeirra allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Erlendi framleiðandinn hafi sent reikninga og skilríki fyrir bifreiðunum til bankans, en þær hafi eftir komu hingað til lands verið geymdar ótollafgreiddar hjá farmflytjanda. Eftir því, sem Jöfur hf. hafi selt bifreiðirnar, hafi félagið að jafnaði greitt fjárhæð reikninga erlenda framleiðandans vegna þeirra til bankans og fengið þá í hendur skilríki til að geta leyst þær til sín og skrásett. Hafi Jöfur hf. notið greiðslufrests frá erlenda framleiðandanum, sem virðist eftir gögnum málsins hafa verið fimm mánuðir, en að þeim tíma liðnum hafi borið að greiða kaupverð bifreiðanna án tillits til þess hvort félaginu hafi áður tekist að selja þær. Ef bifreiðir seldust innan greiðslufrestsins hafi reikningsverð þeirra, sem Jöfur hf. greiddi til bankans, verið varðveitt þar á gjaldeyrisreikningum fram að gjalddaga vörureiknings, en fyrir óseldar bifreiðir hafi bankinn orðið að greiða í skjóli ábyrgðar sinnar.
Eftir málatilbúnaði aðilanna virðist samningurinn frá 12. janúar 2000 ekki hafa verið borinn undir Búnaðarbanka Íslands hf. til formlegs samþykkis. Aðaláfrýjandi kveður bankanum á hinn bóginn hafa verið kunnugt um samninginn. Virðist gagnáfrýjandi einnig hafa fyrst í stað haldið áfram viðskiptum við bankann á hliðstæðan hátt og áðurgreindum viðskiptum Jöfurs hf. hafði áður verið hagað.
Jöfur hf. fékk heimild til greiðslustöðvunar 2. febrúar 2000. Samkvæmt kröfu stjórnar félagsins var bú þess síðan tekið til gjaldþrotaskipta 18. sama mánaðar.
Á tímabilinu frá 9. febrúar til 15. maí 2000 mun Búnaðarbanki Íslands hf. hafa greitt Automobiles Peugeot sem svaraði samtals 160.264.432 krónum vegna fyrrnefndrar ábyrgðar á gjaldföllnum reikningum á hendur Jöfri hf. Gerði bankinn yfirlit um þessar skuldbindingar eins og þær stóðu 31. maí 2000, en samkvæmt málatilbúnaði aðilanna mun þetta hafa tengst því að gagnáfrýjandi var að hætta viðskiptum við bankann. Á yfirliti þessu var vöxtum að fjárhæð 4.719.628 krónur bætt við greiðslur bankans og samtalan, 164.984.060 krónur, færð í franska franka, sem alls urðu 14.701.430. Gagnáfrýjandi stóð bankanum skil á þessu 5. júní 2000 ásamt kostnaði og fleiru með samtals 166.096.611 krónum. Mun gagnáfrýjandi hafa aflað sér lánsfjár í þessu skyni hjá Sparisjóði vélstjóra og gefið út skuldabréf af þeim sökum 19. júlí 2000 fyrir fjárhæðum í erlendri mynt, sem svöruðu alls til 136.000.000 króna.
Í desember 2001 virðist gagnáfrýjandi hafa talið sig verða varan við að misræmi væri milli fjárhæðarinnar, sem hann greiddi Búnaðarbanka Íslands hf. samkvæmt framansögðu, og þess fjölda bifreiða, sem færðust á hendur hans frá Jöfri hf. með samningnum 12. janúar 2000. Leitaði gagnáfrýjandi af þessu tilefni upplýsinga frá bankanum og mun það hafa leitt til þess að athugun var gerð þar á viðskiptunum. Í bréfi, sem lögfræðideild bankans ritaði skiptastjóra í þrotabúi Jöfurs hf. 26. júní 2002, var vísað til þess að gagnáfrýjandi hafi skömmu fyrir upphaf gjaldþrotaskiptanna keypt af félaginu allar „Peugeot bifreiðar sem pantaðar og fluttar höfðu verið til landsins og óútleystar voru.“ Komið hafi í ljós að uppgjör vegna þessara kaupa hafi ekki farið rétt fram, þar sem fé, sem Jöfur hf. hafi innt af hendi til að leysa til sín bifreiðir og lagt var á gjaldeyrisreikninga við bankann fyrir gerð samningsins í janúar 2000, hafi ekki verið ráðstafað til að greiða samsvarandi reikninga frá Automobiles Peugeot. Hafi komið í ljós að gagnáfrýjandi hafi í júní 2000 ofgreitt bankanum af þessum sökum 2.840.989 franska franka. Bankinn hafi ranglega talið þrotabúið eiga 1.502.671 franskan franka til frjálsrar ráðstöfunar á gjaldeyrisreikningi og þegar greitt skiptastjóra þá fjárhæð. Var óskað eftir því að hann endurgreiddi bankanum hana og samþykkti jafnframt að bankinn ráðstafaði henni ásamt innistæðu að fjárhæð 751.519 franskir frankar, sem enn væri varðveitt þar á gjaldeyrisreikningi, til gagnáfrýjanda af þessum sökum. Þá ritaði bankastjóri við Búnaðarbanka Íslands hf. bréf til gagnáfrýjanda 26. september 2002, þar sem því var meðal annars lýst að fyrrgreind athugun hafi leitt í ljós að bankinn hafi ofkrafið gagnáfrýjanda um 2.835.000 franska franka í uppgjöri þeirra í júní 2000 og væri ekki ágreiningur um þá fjárhæð. Bæðist bankinn velvirðingar á þeim mistökum og byðist til að endurgreiða jafngildi hennar, 30.906.105 krónur, ásamt 13.217.867 krónum í vexti, 1.103.099 krónum vegna kostnaðar, sem gagnáfrýjandi hafi orðið að bera vegna lántöku sem þessu svaraði, og 1.000.000 krónum vegna kostnaðar hans af því að staðreyna þessi mistök, eða samtals 46.227.071 krónu.
Gagnáfrýjandi svaraði ekki framangreindu boði Búnaðarbanka Íslands hf. fyrr en með bréfi 4. febrúar 2003. Kom þar fram að gagnáfrýjandi væri sammála því að ofkrafin fjárhæð hafi numið 2.835.000 frönskum frönkum eða sem svaraði 30.906.105 krónum. Krafðist hann að fá hana greidda ásamt dráttarvöxtum og öðrum nánar tilteknum liðum, en krafa hans nam þannig alls 67.713.040 krónum. Óumdeilt virðist vera að þetta bréf gagnáfrýjanda hafi borist bankanum samdægurs um hádegi og þar með áður en gagnáfrýjanda barst bréf frá bankanum, sem var dagsett 3. febrúar 2003 en póstlagt 4. sama mánaðar. Í því bréfi bankans var vísað til þess að hann hafi gert gagnáfrýjanda fyrrgreint boð 26. september 2002 í trausti þess að skiptastjóri í þrotabúi Jöfurs hf. myndi verða við ósk bankans um endurgreiðslu fjár af gjaldeyrisreikningi og samþykkja ráðstöfun annarrar innistæðu til gagnáfrýjanda. Því hafi skiptastjóri á hinn bóginn hafnað og jafnframt gert kröfu um að fá greidda fjárhæðina, sem enn væri varðveitt á gjaldeyrisreikningi við bankann. Við þeirri kröfu yrði bankinn að verða. Væru því brostnar forsendur fyrir boði bankans til gagnáfrýjanda og honum bent á að beina kröfu sinni vegna viðskiptanna að þrotabúi Jöfurs hf.
Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta 16. júní 2003. Í fyrri hluta aðalkröfu sinnar krefst hann greiðslu á 30.906.105 krónum eða sem svarar fjárhæðinni, sem samkomulag hafði tekist um samkvæmt áðursögðu að hann hafi ofgreitt Búnaðarbanka Íslands hf. Í síðari hluta aðalkröfu krefst gagnáfrýjandi greiðslu á samtals 8.565.076 krónum, en þá kröfu greinir hann í þrjá liði, sem nánar er vikið að hér síðar. Í varakröfu leitar hann dóms um skyldu aðaláfrýjanda til að greiða 46.227.071 krónu, sem bankastjóri Búnaðarbanka Íslands hf. bauð í áðurnefndu bréfi 26. september 2002.
II.
Í málinu liggur ekki ljóst fyrir hvaða gögn gagnáfrýjandi hafði undir höndum við gerð samningsins við Jöfur hf. 12. janúar 2000 um umfang þeirra ábyrgða, sem hvíldu þá á Búnaðarbanka Íslands hf. vegna ógreiddra reikninga Automobiles Peugeot á hendur félaginu. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi voru aðeins teknar skýrslur af þremur vitnum, sem ýmist komu að gerð samningsins í þágu Jöfurs hf. eða höfðu á fyrri stigum starfað hjá félaginu. Kom þar meðal annars fram að Jöfur hf. hafi í tengslum við gerð samningsins tekið saman skrár um óseldar bifreiðir, sem komnar voru til landsins og höfðu ekki verið leystar út, auk pantaðra bifreiða, sem ókomnar voru. Búnaðarbanki Íslands hf. hafi einnig gert talningu á þessum bifreiðum og gagnáfrýjandi fengið staðfestingu hans á upplýsingum Jöfurs hf. Nafngreindur starfsmaður gagnáfrýjanda hafi jafnframt kannað þetta rækilega með „alveg nákvæmri vörutalningu“, eins og eitt vitni komst að orði, og borið niðurstöður sínar saman við upplýsingar bankans. Ekkert liggur fyrir um hvað gagnáfrýjandi kann frekar að hafa vitað eða mátt vita um þessi efni þegar hann gekk til uppgjörs við bankann 5. júní 2000 vegna gjaldfallinna ábyrgða í tengslum við bifreiðakaup. Þegar þetta er virt er ófært að fella dóm á fyrri hluta aðalkröfu gagnáfrýjanda á grundvelli óskráðra reglna fjármunaréttar um endurheimt ofgreidds fjár, sem hann reisir þessa kröfu einkum á, en fyrir skilyrðum til að beita þeim reglum ber hann sönnunarbyrði gegn andmælum aðaláfrýjanda.
Í fyrrnefndu bréfi bankastjóra Búnaðarbanka Íslands hf. til gagnáfrýjanda 26. september 2002 bauð bankinn meðal annars fram greiðslu á 30.906.105 krónum, sem lýst var yfir að hann hafi vegna mistaka ofkrafið gagnáfrýjanda um við uppgjörið 5. júní 2000, en um þá fjárhæð væri ekki ágreiningur. Hvorki var þetta boð bundið skilyrðum né gagnáfrýjanda settur frestur til að samþykkja það. Aðaláfrýjanda stoðar ekki að bera nú fyrir sig að boð þetta hafi verið reist á þeirri forsendu að skiptastjóri í þrotabúi Jöfurs hf. fengist til að endurgreiða bankanum útborgaða innistæðu af gjaldeyrisreikningi félagsins og samþykkja ráðstöfun hennar og annarrar inneignar á sams konar reikningi til gagnáfrýjanda, enda mátti bankanum þá vera ljóst að þrotabúið ætti skýlausan rétt að lögum til að fá greiddar innistæður þessar, sem ekki voru háðar handveði eða öðrum tryggingarréttindum hans. Í bréfi gagnáfrýjanda til bankans 4. febrúar 2003 var tekið undir að óumdeilt væri að gagnáfrýjandi hafi ranglega verið krafinn um áðurgreinda fjárhæð. Í kröfugerð, sem sundurliðuð var í bréfinu, krafðist gagnáfrýjandi meðal annars greiðslu hennar. Fólst í því samþykki að þessu leyti á boði bankans, sem honum var um seinan að afturkalla með bréfi, sem dagsett var 3. febrúar 2003 en barst gagnáfrýjanda eftir að samþykki hans var komið til bankans. Samkvæmt þessu er aðaláfrýjandi skuldbundinn af samningi, sem komst á með þessum hætti og felur í sér skyldu hans til að greiða gagnáfrýjanda 30.906.105 krónur. Ber aðaláfrýjanda að standa honum skil á þeirri fjárhæð.
Gagnáfrýjandi krefst í málinu dráttarvaxta af framangreindri fjárhæð frá þeim degi, sem uppgjör hans við Búnaðarbanka Íslands hf. fór fram, eða 5. júní 2000. Að lögum gilda engar sérreglur um tilkall til vaxta af ofgreiddu fé þegar um annað er að ræða en skatta eða önnur opinber gjöld. Að auki er aðaláfrýjandi hér dæmdur samkvæmt áðursögðu til greiðslu á grundvelli samnings, sem komst á með yfirlýsingu gagnáfrýjanda 4. febrúar 2003 um samþykki á boði bankans. Með því að þar var ekki kveðið á um gjalddaga greiðslunnar verða gagnáfrýjanda dæmdir dráttarvextir af umræddri fjárhæð frá 4. mars 2003, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Ekki eru að öðru leyti skilyrði til að dæma aðaláfrýjanda til greiðslu vaxta af fjárhæðinni, enda fólst í kröfugerð gagnáfrýjanda í bréfi 4. febrúar 2003 höfnun á boði Búnaðarbanka Íslands hf. frá 26. september 2002 um greiðslu á vöxtum, sem á nánar tiltekinn hátt áttu að taka mið af vöxtum af yfirdráttarskuldum við bankann af tékkareikningum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
III.
Í síðari hluta aðalkröfu leitar gagnáfrýjandi sem áður segir dóms um skyldu aðaláfrýjanda til að greiða sér samtals 8.565.076 krónur. Þessa kröfu greinir gagnáfrýjandi í þrjá liði. Verður að skilja málatilbúnað hans svo að með henni leiti hann skaðabóta vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þeirra mistaka, sem bankastjóri Búnaðarbanka Íslands hf. gekkst við í bréfi 26. september 2002, að gagnáfrýjandi hafi ranglega verið krafinn um greiðslu á 30.906.105 krónum í uppgjöri þeirra 5. júní 2000.
Gagnáfrýjandi krefst í þessu sambandi í fyrsta lagi greiðslu á 1.357.836 krónum. Hann kveður þetta vera þá fjárhæð, sem vextir úr hendi hans til Búnaðarbanka Íslands hf. hefðu orðið lægri í uppgjörinu 5. júní 2000 ef bankinn hefði ráðstafað 2.835.000 frönskum frönkum af gjaldeyrisreikningum Jöfurs hf. til að standa að hluta straum af greiðslu sinni til Automobiles Peugeot 9. febrúar 2000, svo sem honum hafi með réttu borið að gera. Aðaláfrýjandi heldur því fram að bankinn hafi ekki innt af hendi greiðslur til Automobiles Peugeot að eigin frumkvæði, heldur annaðhvort samkvæmt tilmælum Jöfurs hf. eða að fram kominni kröfu erlenda fyrirtækisins um greiðslu í skjóli ábyrgðar. Hafi bankinn ekki ráðið yfir innistæðu á gjaldeyrisreikningum Jöfurs hf. og því ekki getað tekið fé af þeim til ráðstöfunar sem þessarar nema eftir ósk félagsins. Þessum staðhæfingum hefur gagnáfrýjandi í engu hnekkt. Þegar litið er að auki til þess að Jöfur hf. naut 9. febrúar 2000 heimildar til greiðslustöðvunar og að félagið var þannig háð ákvæðum 21. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að því er varðaði heimildir til að greiða gjaldfallnar skuldir verður ekki fallist á með gagnáfrýjanda að Búnaðarbanka Íslands hf. hafi borið að taka fé af umræddum reikningum til að greiða hluta gjaldfallinnar skuldar Jöfurs hf. við Automobiles Peugeot. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af þessum lið í kröfu gagnáfrýjanda.
Í öðru lagi krefst gagnáfrýjandi þess að fá greiddan mismun á annars vegar kostnaði við áðurgreinda lántöku sína hjá Sparisjóði vélstjóra 19. júlí 2000 í erlendri mynt sem svaraði 136.000.000 krónum, ásamt vöxtum og gengismun, sem hann hafi greitt af því láni, og hins vegar kostnaði, vöxtum og gengismun af láni með sömu kjörum, sem hefði verið 30.906.105 krónum lægra. Samsvarandi kröfu gerði gagnáfrýjandi í tveimur liðum fyrir héraðsdómi og var fjárhæð þeirra alls 6.519.794 krónur eins og endanleg kröfugerð hans þar hljóðaði. Af greinargerð gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti virðist sem hann hafi þar lækkað samanlagða fjárhæð þessara kröfuliða í 6.273.162 krónur, en fyrir munnlegan flutning málsins hér fyrir dómi lækkaði hann enn heildarkröfu í síðari hluta aðalkröfu og verður því til samræmis að ætla að nú standi eftir af þessum tveimur liðum alls 6.207.240 krónur. Í héraðsdómi var réttilega komist að þeirri niðurstöðu að þessir liðir í kröfugerð gagnáfrýjanda væru vanreifaðir, en í stað þess að vísa þeim frá dómi af þeim sökum var farin sú leið, sem engin heimild stóð til að lögum, að sýkna aðaláfrýjanda af þeim að svo stöddu. Úr þeirri vanreifun, sem var á þessum kröfuliðum í héraði, hefur gagnáfrýjandi síst bætt með sundurlausum málatilbúnaði fyrir Hæstarétti að því er þá varðar. Verður þessum tveimur liðum því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Í þriðja lagi krefst gagnáfrýjandi greiðslu á 1.000.000 krónum vegna kostnaðar, sem hann hafi orðið að bera af vinnu eigin starfsmanna og aðkeyptri sérfræðiaðstoð í tengslum við mistökin, sem hann telur Búnaðarbanka Íslands hf. hafa gert við uppgjör þeirra 5. júní 2000. Í fyrrnefndu bréfi til gagnáfrýjanda 26. september 2002 bauð bankinn greiðslu af þessu tilefni á þeirri fjárhæð, sem sá fyrrnefndi nú krefst. Í svarbréfi hans til bankans 4. febrúar 2003 var á hinn bóginn gerð krafa um greiðslu á 2.652.450 krónum af þessum sökum. Með því var boði bankans um greiðslu á 1.000.000 krónum hafnað og er aðaláfrýjandi nú óbundinn af því. Hann hefur andmælt þessum kröfulið sem ósönnuðum. Gagnáfrýjandi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvernig fjárhæð þessa liðar er fundin, en ekki verður annað séð en að honum megi vera fært að sýna fram á tjón sitt af þessum sökum. Er því ekki unnt að áætla honum bætur að álitum. Þessi liður í kröfu gagnáfrýjanda er því vanreifaður og verður að vísa honum af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
IV.
Varakrafa gagnáfrýjanda er sem fyrr segir reist á því að aðaláfrýjanda beri að greiða þá fjárhæð, sem bankastjóri Búnaðarbanka Íslands hf. bauð gagnáfrýjanda í margnefndu bréfi 26. september 2002, eða samtals 46.227.071 krónu. Með þessu var meðal annars boðin fram greiðsla á fjárhæðinni, sem gagnáfrýjandi hefur krafist í málinu í fyrri hluta aðalkröfu sinnar og honum er nú dæmd samkvæmt áðursögðu. Bankinn bauð enn fremur greiðslu á nánar tilteknum fjárhæðum í vexti og vegna kostnaðar gagnáfrýjanda, auk bóta sem svöruðu kostnaði og vöxtum af láni fyrir fjárhæðinni, sem bankinn viðurkenndi að ofgreidd hefði verið. Hér að framan hefur því þegar verið hafnað að aðaláfrýjandi verði talinn skuldbundinn af þessu boði að því er varðar fyrstnefndu liðina tvo. Á sama hátt og þar greinir ber að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi með bréfi sínu 4. febrúar 2003 hafnað boði bankans um þriðja liðinn. Verður gagnáfrýjanda því ekki dæmd frekari greiðsla úr hendi aðaláfrýjanda í skjóli varakröfu sinnar.
Eftir þessum úrslitum málsins verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu gagnáfrýjanda, Bernhards ehf., um greiðslu á samtals 7.207.240 krónum úr hendi aðaláfrýjanda, Kaupþings Búnaðarbanka hf.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 30.906.105 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. mars 2003 til greiðsludags og samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2004.
Stefnandi málsins er Bernhard ehf., [kt.], Vatnagörðum 24, Reykjavík, en stefndi er Kaupþing Búnaðarbanki hf.,[kt.], Austurstræti 5, Reykjavík.
Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 11. júní 2003, sem árituð var um birtingu af lögmanni stefnda 16. sama mánaðar. Það var þingfest 19. sama mánaðar.
Ákveðið hafði verið, að aðalmeðferð málsins færi fram 17. febrúar sl. Í upphafi þinghaldsins óskaði stefnandi bókað í tilefni af gögnum, sem lögmaður stefnda lagði þá fram, að stefnandi myndi af því tilefni einnig byggja aðalkröfu sína, samkvæmt 1. tl. aðalkröfu, á skaðabótasjónarmiðum samkvæmt almennum skaðabótareglum. Stefndi mótmælti því, að þessi málsástæða fengi að komast að, þar sem hún væri of seint fram komin og hann óundirbúinn því að verjast henni. Dómari kvað upp þann úrskurð, að lögmanni stefnanda væri heimilt að byggja á þessari málsástæðu og viðhafði ummæli, sem lögmaður stefnda taldi að fælu í sér hlutdrægni í garð stefnda og krafðist þess að dómari viki sæti. Dómara taldi sér það óskylt, þar sem ummæli hans hafi ekki beinst sérstaklega að stefnda, en lét hjá líða að kveða upp úrskurð um þá kröfu lögmanns stefnda. Hvort tveggja var kært til Hæstaréttar, úrskurður dómara um að stefnandi mætti byggja málssókn sína á skaðabótasjónarmiðum, og ákvörðun hans um að hafna kröfu lögmanns stefnda um að víkja sæti. Hæstiréttur vísaði málinu frá með dómi uppkveðnum 2. apríl sl.
Aðalmeðferð málsins fór síðan fram 16. júní sl. og var það dómtekið að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Dómkröfur:
Stefnandi höfðar mál þetta til endurgreiðslu ofgreidds fjár og samkvæmt almennum skaðabótareglum og gerir eftirfarandi dómkröfur.
Aðalkrafa:
1. Að stefnda verði gert að endurgreiða stefnanda 30.906.105 kr., ásamt dráttarvöxtum, skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 5. júní 2000 til 1. júlí 2001, en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að stefndi greiði stefnanda að auki 8.877.640 kr. í bætur, ásamt vöxtum, skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, þ.e. með 1,2 % ársvöxtum af 1.357.836 kr. frá 5. júní 2000 til 30. júní 2000, með 1,3 % vöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 19. júlí 2000, með 1,3 % vöxtum af 1.682.351 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2000, með 1,4 % vöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 31. ágúst 2000, með 1,5 % vöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 25. október 2000, með 1,5 % vöxtum af 2.478.068 kr. frá þeim degi til 30. nóvember 2000, með 1,8 % vöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 25. janúar 2001, með 1,8 % vöxtum af 3.170.068 kr. frá þeim degi til 25. apríl 2001, með 1,8 % vöxtum af 3.922.221 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2001, með 1,5 % vöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 31. maí 2001, með 1,7 % vöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til 30. júní 2001, en með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af sömu fjárhæð frá 1. júlí 2001 til 25. júlí 2001, en af 4.749.996 kr. frá þeim degi til 25. október 2001, af 5.629.167 kr. frá þeim degi til 25. janúar 2002, af 6.307.156 kr. frá þeim degi til 25. apríl 2002, af 6.714.671 kr. frá þeim degi til 25. júlí 2002, af 7.136.392 kr. frá þeim degi til 25. október 2002, af 7.565.423 kr. frá þeim degi til 25. janúar 2003, af 7.877.630 kr. frá þeim degi til 4. mars 2003, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 8.877.630 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 46.227.071 kr., ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. september 2002 til greiðsludags.
Stefnandi krefst enn fremur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á tildæmdan málkostnað.
Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.
Málsatvik eru þau, að Búnaðarbanki Íslands, nú stefndi, var viðskiptabanki Jöfurs hf., ábyrgðist gagnvart Automobiles Peugeot (eftirleiðis PE) greiðslu á umsömdum gjalddögum á innkaupsverði peugeotbifreiða, sem Jöfur hf. hafði pantað, en Jöfur hf. fékk fimm mánaða greiðslufrest hjá PE á kaupverði innfluttra bifreiða. PE, framleiðandi peugeotbifreiða, sendi stefnda alla reikninga og farmskjöl yfir pantaðar bifreiðir Jöfurs hf., sem sendi síðan félaginu tilkynningu um móttöku skjalanna. Stefndi setti það skilyrði fyrir afhendingu frambréfa og reikninga frá PE, sem nauðsynleg voru til að fá bifreið afhenta og tollafgreidda, að Jöfur hf. greiddi að fullu innkaupsverð hennar inn á sérstaka bankareikninga í nafni félagins hjá stefnda. Stefndi nýtti inneign, sem þannig myndaðist, m.a til að standa PE skil á skuld Jöfurs hf. gagnvart PE, þegar hún félli í gjalddaga. Svo virðist sem Jöfur hf. hafi sent stefnda fyrirmæli um greiðslu af viðkomandi bankareikningum, þegar lán framleiðanda gjaldféllu. Væri bifreið óseld á gjalddaga umsamins gjaldfrests, varð stefndi allt að einu að standa framleiðanda skil á innkaupsverði hennar (komnar út fyrir greiðslufrest).
Stefnandi og Jöfur hf. gerðu með sér samning dags. 12. janúar 2000, þar sem stefnandi keypti alla markaðssetningu Jöfurs hf. og viðskiptavild, lager, bifreiðar og yfirtók allar pantanir, sem Jöfur hafði gert hjá PE. Samningurnn hefur að geyma 16 töluliði. Í 7. tl. samningsins yfirtók stefnandi ábyrgðir Jöfurs hf. gagnvart stefnda vegna þeirra bifreiða sem eru komnar út fyrir greiðslufrest við PE automobiles og kaupandi hefur upplýsingar um. Jafnframt yfirtekur kaupandi ábyrgð (Standby Letter of Credit) sem seljandi hefur í gangi hjá Búnaðarbanka vegna pantaðra bifreiða hjá PE, móttekinna sem ókominna. Í 13. tl. segir m.a., að kaupandi greiði seljanda 40 milljónir króna fyrir viðskiptavild, markaðssetningu og markaðsgögn. Í 14. tl. er áætlað verð varahlutalagers talið nema 10 milljónum króna, sem greiðast skyldi Guðjóni Ármanni Jónssyni veðhafa lagersins gegn því að hann aflétti veði sínu. Í lokagrein samningsins 16. tl. segir, að greiðsla kaupverðs sé háð því skilyrði að Búnaðarbanki Íslands, ásamt fleirum, sem þar eru nefndir samþykki samninginn fyrir sitt leyti. Samkvæmt 15. tl. skyldi kaupverðið greitt jafnskjótt og samþykki aðila, skv. 16. tl., lægi fyrir, en greiðslu samkvæmt 13. tl. átti að greiða inn á reikning seljanda hjá Sýslumanninum í Kópavogi (tollkrít) til lúkningar á innflutningsgjöldum á bifreiðum, en mismuninn, ef einhver yrði, skyldi greiða inn á reikning Jöfurs hf. hjá stefnda.
Með samningi, dags. 20. janúar s.á., setur Guðjón Ármann Jónsson stefnda að handveði f.h. Jöfurs hf, þær fjárhæðir, sem tilgreindar eru í 13. og 14. tl. samnings Jöfurs hf. við stefnanda til tryggingar lánafyrirgreiðslu til Jöfurs hf. Tilkynna skyldi stefnanda sérstaklega um það, að honum bæri að greiða þessar tvær umsömdu fjárhæðir samkvæmt samningi hans við Jöfur hf. inn á tiltekinn reikning hjá stefnda.
Jöfur hf. varð gjaldþrota með úrskurði uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjaness 18. febrúar 2000. Frestdagur var 2. sama mánaðar. Við gjaldþrot félagsins nam ábyrgð stefnda gagnvart PE 16 milljónum franskra franka. (FRF.)
Hinn 5. júní 2000 greiddi stefnandi að kröfu stefnda skuldir Jöfurs hf. við PE, sem stefndi hafði ábyrgst á grundvelli samningsins frá 12. janúar s.á. Byggt var á yfirliti, sem unnið var af starfsmönnum stefnda og liggur frammi í málinu. Stefnanda var gert að greiða stefnda 166.096.610,84 kr. sem svaraði til 14.701.430 FRF. Stefnanda fékk lán í Sparisjóði vélstjóra í erlendri mynt til geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart stefnda. Samkvæmt framlögðum gögnum var lánið afgreitt til stefnanda 19. júlí s.á. og nam 136.171.360 ísl. kr.
Við athugun í tengslum við endurskoðun ársreikninga stefnanda, kom í ljós misræmi á greiðslum annars vegar og fjölda innfluttra og móttekinna bifreiða hins vegar. Stefnda var gert viðvart um þetta misræmi og sýna fjölmörg tölvubréf, sem gengu á milli málsaðila á tímabilinu frá 19. desember 2001, þegar stefnda er fyrst tilkynnt um misræmið, og fram á vorið 2002, að veruleg vinna var lögð í það af beggja hálfu að komast til botns í málinu og ná tölulegri niðurstöðu. Ársæll Hafsteinsson hdl. þáverandi lögmaður stefnda, sendi skiptastjóra þrotabús Jöfurs hf. bréf, dags. 26. júní 2002, og gerði grein fyrir ástæðu þessarar ofgreiðslu stefnanda. Þar segir m.a. svo: Búnaðarbankinn hélt utan um innborganir Jöfurs hf. vegna seldra bifreiða á nokkrum gjaldeyrisreikningum, m. a. reikn. nr. 0322-38-718100, nr. 031-38-588033, 0301-38-588128, sbr. meðfylgjandi yfirlit. Innborganir voru ekki sundurgreindar eftir hverri seldri bifreið fyrir sig þó þær væru hver um sig sannanlega eyrnamerktar ákveðinni bifreið. Fyrir misskilning var innistæðum ekki ráðstafað til lækkunar á þeim kröfum sem tengdust beint viðkomandi seldri bifreið og vegna þessa söfnuðust ranglega upp óráðstafaðar innistæður á reikningana. Samhliða yfirtöku Bernhard ehf. á umræddum bifreiðum láðist síðan að ráðstafa innistæðum á gjaldeyrisreikningm til lækkunar á þeim kröfum Búnaðarbankans sem tilheyrðu bifreiðunum. Vegna framangreinds misskilnings taldi Búnaðarbankinn ranglega að þb. Jöfurs hf. ætti innistæðu á gjaldeyrissreikningi nr. 0322-38-718100 til frjálsrar ráðstöfunar og að kröfu skiptastjóra greiddi bankinn þrotabúinu FRF 1.502.671,35. Í þessu bréfi kemur fram, að stefnandi hafi ofgreitt stefnda sem nemi 2.840.179.24 FRF, en 2.830.179.24 FRF, þegar tillit hafi verið tekið til leiðréttra vaxta og þóknunar.
Að sögn stefnanda hittust fyrirsvarsmenn stefnanda og Árni Tómasson þáverandi bankastjóri stefnda, Guðmundur Gíslason og Jana K. Sigfúsdóttir, starfsmenn stefnda hinn 17. júlí 2002 til að reyna að ná samkomulagi um lausn málsins. Sömu aðilar hafi tvívegis hist eftir það og leitað lausnar á ágreiningi málsaðila. Samkomulag hafi náðst um fjárhæðina 2.835.000 FRF, en ágreiningur verið um vexti.
Í kjölfar þessara funda ritaði Árni Tómasson fyrirsvarsmanni stefnanda bréf, dags. 26. september 2002, og bauð að bæta stefnanda tjón hans með greiðslu á 46.227.071 kr., sem svarar til varakröfu stefnanda. Í bréfinu kemur fram, að sameiginleg athugun málsaðila hafi leitt í ljós, að stefndi hafi ofkrafið stefnanda um 2.835.000 FRF og ekki sé ágreiningur um þá fjárhæð. Sáttarboð stefnda er sundurliðað sem hér segir:
Grunnfjárhæð (2.835.000 FRF) 30.906.105 kr.
Vextir frá 9. febrúar 2000 til endurgreiðsludags. 13.217.867 kr.
Lántökugjald af fjárhæðinni + vextir 1.103.099 kr.
Kostnaður stefnanda 1.000.000 kr.
46.227.071 kr.
Tekið er fram í bréfinu, að ekki sé ágreiningur milli aðila um grunnfjárhæðina 2.835.000 FRF. Þar segir einnig að tekið sé tillit til óska stefnanda um viðmiðunargengi og einnig til þess að reikna vexti frá 9. febrúar 2000. Síðan segir svo: Við vaxtaákvörðun hefur verið tekið mið af hliðstæðum vöxtum og þeim sem bankinn gerði Bernhard ehf. að greiða í viðskiptum milli aðila á árinu 2000, sem eru yfirdráttarvextir bestu fyrirtækja og vaxtavöxtum bætt við þ. 5. júní 2001 og þ. 5. júní 2002. Í niðurlagi bréfsins er því lýst, að það sé von stefnda að ljúka megi málinu með fullri sátt. Í fylgiskjölum með bréfi bankastjórans var sýnt fram á hvernig hver einstakur töluliður var reiknaður út og gerður tölulegur samanburður á tilboði stefnda og kröfum stefnanda.
Svarbréf lögmanns stefnanda er dags. 4. febrúar 2003. Þar er sáttarboði stefnda hafnað á þeirri forsendu, að vextir séu of lágt reiknaðir, þar sem miða beri við dráttarvexti. Þá sé lántökukostnaður vantalinn, enda hafi stefnandi þurft að taka lán að fjárhæð 136.000.000 kr. í stað láns að fjárhæð 105.093.895 kr., ef rétt hefði verið að málum staðið af hálfu bankans. Loks sé ýmis sérfræðikostnaður í tengslum við málið verulega vantalinn. Stefnandi sundurliðaði kröfu sína og nam heildarkrafa hans 67.713.040 kr. Staðfest er í bréfi bréfi lögmannsins, að samkomulag sé um fjárhæðina 2.835.000 FRF. Stefndi ritaði stefnanda bréf, dags. 3. febrúar, sem mun hafa borist honum 4. sama mánaðar, þ.e. eftir að bréf lögmanns stefnanda var ritað, sem þó er dagsett degi síðar. Í bréfinu hafnar stefndi öllum kröfum stefnanda. Þar er því lýst, að skiptastjóri þrotabús Jöfurs hf. hafi komist að því, að félagið ætti óráðstafaðar innistæður á reikningum hjá stefnda og krafist þess að fá þær greiddar. Ekki hafi þótt annað fært en verða við þessari kröfu skiptastjóra og þrotabúinu hafi því verið greiddir 1.502.671,35 FRF. Innistæða í nafni Jöfurs hf. eftir þá greiðslu hafi numið 751.519.02 FRF með vöxtum. Krafa skiptastjóra hafi komið til, áður en misræmi í uppgjöri stefnanda uppgötvaðist. Stefndi hafi farið þess á leit við skiptastjóra, að hann greiddi stefnanda þá fjárhæð, sem honum hafi verið greidd, en skiptastjóri hafi vísað þeim tilmælum algjörlega á bug. Árni Tómasson hafi ritað stefnanda bréfið frá 26. september 2002 í trausti þess, að skiptastjóri féllist á tilmæli stefnda. Í bréfinu kom fram, að stefndi myndi greiða þrotabúinu þá innistæðu í bankanum, sem enn væri ógreidd og stefnanda var bent á að beina kröfum sínum til skiptastjóra þrotabús Jöfurs hf. Samkvæmt gögnum málsins greiddi stefndi þrotabúinu jafnvirði 751.519.02 FRF hinn 5. febrúar s.á.
Ekki er að sjá af gögnum málsins, að málsaðilar hafi átt í frekari bréfaskiptum, að undanskildu einu tölvubréfi frá starfsmanni stefnda, dags. 16. apríl 2003. Þar er lögmanni stefnanda sent vinnuskjal, sem sýnir sundurliðun á erlendum reikningum (Invoice) Peugeot sem Búnaðarbaninn greiddi til Peugeot samkvæmt kröfu Peugeot undir ábyrgð bankans, og sem Gunnar Bernhaed ehf. síðan greiddi bankanum. Skjalið sýnir að greiðslum Jöfurs fyrir einstaka bifreiðar var ráðstafað inná reikning 0322-38-718199 nema ein greiðsla sem var lögð inná reikning 0301-38-588033. Ég á von á að boðaður verði fundur fljótlega eftir páska til að fara yfir þessi mál.
Stefnandi höfðar síðan mál þetta í júnímánuði síðastliðins árs, eins og áður er getið.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því, að hann hafi ofgreitt stefnda hinn 5. júní 2000 30.906.105 kr., sem svari til fyrri aðalkröfu hans. Í skjali, sem fylgdi bréfi lögfræðings stefnda til skiptastjóra, dags. 26. júní 2002 (dskj. nr. 7) komi fram, að Jöfur hf. hafi greitt stefnda 4.942.275 FRF vegna bifreiða, sem búið var að selja. Þetta hafi að líkindum gerst vegna þess, að framskjöl hefðu ekki borist frá framleiðanda, en stefndi hafi engu að síður leyft afhendingu bifreiðanna. Stefnandi hafi þannig verið krafinn um greiðslu andvirðis bifreiða, sem Jöfur hf. hafði greitt og fengið afhentar. Í fyrrgreindu bréfi lögmanns stefnda komi fram talan 2.840.989.07, en stefnandi telji rétt að miða kröfu sína við 2.835.000, sem málsaðilar hafi komist að samkomulagi um. Greiðsla stefnanda hafi farið fram í íslenskum krónum og því sé endurgreiðslukrafan gerð í þeirri mynt og miðist við það gengi, sem stefndi hafi gengið út frá við uppgjörið 5. júní 2000, sbr. yfirlit frá stefnda, dags. 31. maí s.á. Árni Tómasson, þáverandi bankastjóri stefnda, hafi viðurkennt berum orðum í bréfi til fyrirsvarsmanns stefnanda, dags. 26. september 2002, að bankinn hafi ofkrafið stefnanda og beðist velvirðingar á þeim mistökum og jafnframt boðið fram greiðslu að fjárhæð 46.227.071 kr. Sú fjárhæð miðist við dagsetningu bréfsins. Engir fyrirvarar séu gerðir í bréfinu og liggi því fyrir skýr viðurkenning á greiðsluskyldu stefnda. Sami skilningur komi fram í bréfi lögfræðings stefnda til skiptastjóra. Því sé röng sú fullyrðing þessa sama lögmanns í bréfi hans til stefnanda, dags. 3. febrúar 2003, að boð Árna bankastjóra hafi verið háð fyrirvara um að endurgreiðsla fengist úr þrotabúi Jöfurs hf. Ljóst sé, að stefndi eigi enn eftir að standa skil á 2.688.085 FRF, þrátt fyrir greiðslu til þrotabús Jöfurs hf. (4.942.275-2.254.190). Líta verði til þess, að stefnandi hafi greitt stefnda á grundvelli upplýsinga hans, eins og fram komi í yfirliti, dags. 31. maí 2000, án þess að stefnandi hefði við annað að styðjast. Stefnandi hafi því mátt treysta því, að kröfur stefnda á hendur honum væri réttar.
Auk þess krefst stefnandi dráttarvaxta af oftekinni fjárhæð. Dráttarvextir séu lögbundnar bætur vegna tjóns, sem almennt megi ætla, að kröfuhafi verði fyrir vegna greiðsludráttar, og sama eigi að gilda um oftekið fé.
Til vara krefst stefnandi þess, verði upphafsdagur dráttarvaxta ákvarðaður síðar, að þá verði miðað við þann dag, þegar stefnda var sannanlega gert viðvart um ofgreiðsluna og endurgreiðslu krafist, þ.e. 19. desember 2001. Verði sú raunin, sé þess krafist, að almennir vextir reiknist frá 5. júní 2000 til þess dags.
Ljóst sé einnig, að mistök stefnda hafi valdið stefnanda umtalsverðu afleiddu tjóni.
Síðari hluti aðalkröfu stefnanda miðist við að fá það tjón bætt.
Í fyrsta lagi krefst stefnandi þess að fá endurgreidda þá vexti, sem honum var gert að greiða af eftirstöðvum kröfu að fjárhæð 51.141.469,81 kr., með gjalddaga 9. febrúar 2000. Sú krafa hefði í raun átt að nema 20.235.364,81 kr. Þannig reiknað hefði vaxtagreiðslan hinn 5. júní s.á. átt að lækka um 1.357.836 kr. Stefnandi gerir kröfu til endurgreiðslu þessarar fjárhæðar, auk vaxta frá 5. júní s.á., eins og nánar sé lýst í dómkröfu.
Í öðru lagi telur stefnandi, að mistök stefnda hafi valdið auknum lántökukostnaði. Hann hafi orðið að taka lán að fjárhæð 136.000.000 kr. í stað láns að fjárhæð 105.093.895 kr., sem valdið hafi honum hlutfallslegum kostnaðarauka. Árni Tómasson hafi viðurkennt þennan kostnaðarauka í fyrrnefndu bréfi til fyrirsvarsmanns stefnanda. Stefnandi geri því ráð fyrir, að ekki sé ágreiningur um þennan kostnað. Stefnandi kveður raunkostnað þessa kröfuliðar nema 324.515 kr. og miði vaxtakröfu sína við 19. júlí 2000, þegar honum var gert að greiða þennan kostnað við lántöku hjá Sparisjóði vélstjóra.
Í þriðja lagi samanstandi þessi kröfuliður af kostnaði, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna aukinna vaxtagreiðslna af láninu og gengismunar, samtals að fjárhæð 6.195.289 kr., eins og yfirlit á dskj. nr. 18 sýni (sbr. dskj. nr. 16 og 17). Stefnandi byggir á því í þessu sambandi, að kröfuliður sé mismunur á vaxtagreiðslu og gengismun á hverjum gjalddaga, ef tekið hefði verið lægra lán. Krafist er vaxta frá hverjum gjalddaga, eins og nánar komi fram í dómkröfu.
Í fjórða lagi sé dómkrafan samkvæmt þessum kröfulið, að fjárhæð 1.000.000 kr., mynduð af kostnaði, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna aukinnar vinnu starfsmanna sinna og aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Krafan miðist við þá fjárhæð, sem Árni Tómasson hafi boðið fram, sem bætur á þessum kostnaði.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda einnig á sjónarmiðum skaðabótaréttar. Ljóst sé, að starfsmönnum stefnda hafi orðið á mistök við ráðstöfun á greiðslum Jöfurs hf. til PE, sem valdið hafi því, að stefnanda var gert að greiða stefnda hærri fjárhæð en honum bar, ef rétt hefði verið á málum haldið. Stefnandi hafi þannig orðið fyrir tjóni, sem rekja megi til saknæmra mistaka starfmanna stefnda, sem stefndi hljóti að bera ábyrgð á og eigi að bæta fullum bótum.
Krafist sé vaxta samkvæmt þessum hluta dómkröfunnar samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júní 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 4. mars 2003, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðastgreindra laga frá þeim degi til greiðsludags. Upphafstími dráttarvaxta miðist við mánuð frá því stefndi hafnaði greiðslu með bréfi dags. 4. febrúar 2003.
Stefnandi gerir eftirfarandi grein fyrir kröfum sínum samkvæmt 2. tl. aðalkröfu:
1. Vextir af mismuni þess, sem stefnandi greiddi 5. júní og þess, sem hann hefði þurft að greiða, ef rétt hefði verið að málum staðið af hálfu stefnda, 1.357.836 kr.
2. Mismunur á lántökukostnaði, ef tekið hefði verið lægra lán hjá
Sparisjóði vélstjóra (SV), 324.515 kr.
3. Mismunur á greiðslum með vöxtum á láni Sparisjóðs vélstjóra og lægra láni, ef stefndi hefði staðið rétt að málum. Gjalddagi 25/10 2000, 795.717 kr., gjaldd. 25/1 2001, 692.000, gjaldd. 25/4 s.á. 752.153 kr., gjaldd. 25/7 s.á. 827.775 kr., gjaldd. 25/10 s.á., 879.171 kr., gjaldd. 25/01 2001, 677.989 kr., gjaldd. 25/4 s.á., 407.515 kr., gjaldd. 25/7 s.á., 421.721 kr., gjaldd. 25/10 s.á., 429.031 kr., gjaldd. 25/1 2002, 312.207 kr.
4. Aukin vinna starfsmanna stefnanda vegna mistaka stefnda, 1.000.000 kr. Samtals nemi ofangreindar fjárhæðir 8.877.630 kr., sem svari til kröfu hans í 2.tl. aðalkröfu.
Varakröfu sína byggir stefnandi á þeirri fjárhæð, sem Árni Tómasson hafi viðurkennt f.h. stefnda í bréfi sínu frá 26. september 2002. Krafist sé dráttarvaxta af kröfufjárhæð frá þeim degi, er greiðsluloforðið var sett fram og til greiðsludags.
Stefnandi vísar til 130. gr. laga nr. 91/1991 (eml.) til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að dómkröfum stefnanda sé ekki réttilega að honum beint og, í öðru lagi, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni, sem stefndi beri ábyrgð á, með greiðslunni 5. júní 2000. Einnig er á því byggt af hálfu stefnda, að viðurkenning hans á bótaskyldu sé óskuldbindandi fyrir hann, þar sem hún hafi verið gefin á grundvelli rangra forsendna. Enn fremur byggir stefndi á því, að honum hafi verið óheimilt og ómögulegt að ráðstafa innistæðum Jöfurs hf. á þann hátt, sem stefnandi geri kröfu til. Þá byggir stefndi á því, að stefnandi hafi með gáleysi sínu við framkvæmd viðskipta sinna við Jöfur hf. firrt sig skaðabótarétti á hendur stefnda.
Stefndi styður fyrst nefnda málsástæðu sína á aðildarskorti með vísan til 2. mgr. 16. gr. eml. Þar sé mælt svo fyrir, að varnir byggðar á aðildarskorti leiði til sýknu, sé fallist á þær.
Ljóst sé, að ekkert réttarsamband sé milli málsaðila. Stefnandi hafi skuldbundið sig gagnvart Jöfri hf. með samningi, dags. 12. janúar 2000, til þess að kaupa af félaginu lager bifreiða af Peugeot gerð, sem félagið hafði flutt inn, en hafi ekki getað greitt, svo og til að yfirtaka pantanir á nýjum bifreiðum hjá Automobiles Peugeot. Stefnandi hafi einnig átt að yfirtaka greiðsluskyldu á þeim ábyrgðum, sem stefndi hafði tekist á hendur gagnvart Peugeot vegna þessa innflutnings.
Stefnandi hafi hvorki leitað eftir því, að skuldskeyting ætti sér stað gagnvart stefnda á skuldbindingum Jöfurs hf., né heldur óskað eftir því við Peugeot, svo vitað sé, að fyrirliggjandi skuldbindingar Jöfurs hf. við það félag yrðu færðar yfir á nafn hans. Stefndi hafi ekki heldur verið aðili, að umræddu samkomulagi stefnanda við Jöfur hf.
Svo hafi farið, að stefndi hafi verið knúinn til að greiða Peugeot alls 10 greiðslur á tímabilinu frá 10. febrúar 2000 til 15. maí s.á., vegna greiðsluþrots Jöfurs hf. samtals 14.701.430 FRF, á grundvelli ábyrgðar sinnar. Með þeim greiðslum hafi myndast samsvarandi skuld á viðskiptareikningi Jöfurs hf. hjá stefnda, sem stefnandi hafi greitt 5. júní 2000, í nafni og fyrir hönd Jöfurs hf. og á grundvelli samkomulags við það félag. Stefnanda beri því að beina kröfum sínum að viðsemjanda sínum, Jöfri hf., telji hann sig hafa ofgreitt.
Í þessu sambandi bendir stefndi á orðalag 7. gr. kaupsamningsins frá 12. janúar 2000. Þar komi ótvírætt fram, að það hafi verið ætlan samningsaðila, að stefnandi yfirtæki alfarið greiðsluskyldu á ábyrgðum stefnda vegna Jöfurs hf., og einnig að samningsaðilarnir myndu leysa önnur mál tengd ábyrgðunum, s.s. rétt til innborgana Jöfurs hf. inn á reikninga Peugeot, sín á milli. Samningurinn sé orðaður svo, að stefnandi skyldi yfirtaka ábyrgð “vegna pantaðra bifreiða hjá PE, móttekinna sem ókominna.”: Stefnandi hljóti að bera ábyrgð á þessu orðalagi, sem vísi til þess, að hann hafi átt að yfirtaka greiðsluskyldu vegna bíla, sem Jöfur hf. hafði móttekið frá PE, þ.e. bifreiða sem ekki biðu afhendingar og greiðslu í tolli, og að Jöfur hf. myndi í staðinn ráðstafa innborgunum sínum inn á reikninga vegna umræddra bíla til hans. Ekki sé á því byggt af hálfu stefnanda, að stefndi hafi borið sérstakar trúnaðar- eða aðgæsluskyldur gagnvart honum vegna þessara viðskipta, né heldur að stefndi hafi með bindandi hætti skuldbundið sig gagnvart stefnanda til að taka tillit til inneigna á óhandveðsettum bankareikningum Jöfurs hf. við ofangreint skuldauppgjör.
Eina skylda stefnda gagnvart stefnanda hafi verið að veita stefnanda réttar upplýsingar um stöðu skuldbindinga Jöfurs hf. á greiðsludegi. Þeirri skyldu hafi stefndi sinnt.
Í öðru lagi byggir stefndi á því, að ekkert tjón hafi átt sér stað þann 5. júní 2000, sem bankinn beri eða geti borið ábyrgð á gagnvart stefnanda. Þess beri að gæta í þessu tilliti, að sú innistæða á gjaldeyrisreikningi Jöfurs hf., sem stefnandi haldi fram að taka hafi átt tillit til við greiðslu hans á skuldum Jöfurs hf., þann 5. júní 2000, hafi ekki verið handveðsett stefnda og því hafi stefndi enga heimild haft að lögum til að ráðstafa umræddri inneign, eins og stefnandi byggir á, hvorki fyrir né eftir gjaldþrot Jöfurs hf.
Í þriðja lagi er á því byggt af hálfu stefnda, að enginn samningur hafi verið í gildi milli málsaðila, sem skuldbatt stefnda til að taka tillit til innistæðna Jöfurs hf. við uppgjör stefnanda á skuldum félagsins eftir gjaldþrot þess, óháð rétti stefnda til að taka sér greiðslu af umræddum fjármunum upp í umrædda skuld. Því sé ljóst, að engin mistök hafi átt sér stað af hálfu stefnda þann 5. júní 2000, eins og stefnandi haldi fram, þar sem stefnda hafi þá verið ómögulegt, vegna ákvæða ófrávíkjanlegra réttarreglna, að ráðstafa innistæðum Jöfurs hf. á þann hátt, sem stefnandi geri kröfu til. Slíkt hefði farið í bága við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga og raskað grundvallarreglu um jafnræði kröfuhafa stefnanda í hag. Þá bendir stefndi á þá staðreynd, að stefnandi byggi ekki á því, að stefnda hafi borið við greiðslu til Peugeot 9. febrúar 2000 að ráðstafa innistæðum hinna umdeildu gjaldeyrisreikninga til innborgunar á þá skuld Jöfurs hf. við Peugeot, heldur einskorðist dómkrafa stefnanda við þá málsástæðu, að ráðstöfunin hefði átt að eiga sér stað þann 5. júní 2000. Engu breyti, þótt á þessu væri byggt af hálfu stefnanda, þar sem sú ráðstöfun bankans, hefði talist fela í sér greiðslu á skuld eftir frestsdag við gjaldþrotaskipti á búi Jöfurs hf., þann 2. febrúar 2000, og farið í bága við riftunarreglu 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Þannig sé ljóst, að hlutlægur ómöguleiki stóð því í vegi, að stefndi ætti þess kost að lækka skuld Jöfurs hf. við stefnda vegna umræddra ábyrgða með þeim hætti, sem stefnandi byggi á. Stefndi hefði þannig gefið eftir kröfu sína á hendur Jöfri hf.
Því sé ljóst, með vísan til framangreindra röksemda, að stefnda urðu á engin mistök við móttöku á greiðslu stefnanda hinn 5. júní 2000, og skortur á upplýsingagjöf eigi heldur ekki við rök að styðjast. Því beri að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í málinu.
Þá er á því byggt af hálfu stefnda, að sú viðurkenning stefnda á bótaskyldu, sem fram komi í bréfi Árna Tómassonar, þáverandi bankastjóra, frá 26. september 2002, sé óskuldbindandi fyrir stefnda og sé öllum málsástæðum stefnanda, sem lúta að umræddri viðurkenningu á bótaskyldu mótmælt á þeim grundvelli.
Sú viðurkenning og það loforð, sem í henni fólst, hafi verið byggt á misskilningi bréfritara á eðli þeirra lögskipta og kringumstæðna, sem málið fjalli um. Stefndi telur, að yfirlýsingin sé óskuldbindandi á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, þar sem fyrir liggi, að yfirlýsingin byggi á röngum forsendum um raunveruleg lögskipti aðila. Þá sé einnig á því byggt, að yfirlýsingin hafi verið gefin fyrir misskilning um heimildir stefnda að lögum til umræddra innistæða Jöfurs hf., en bréfritari hafi ranglega talið, að umræddir reikningar hefðu verið eign bankans, og að þrotabú Jöfurs hf. hafi engan rétt átt til umræddra innistæðna, og að bankinn hefði því getað, á þeim tíma sem hér um ræðir, ráðstafað innistæðunum með þeim hætti sem stefnandi heldur fram. Hið rétta sé, að allar ráðstafanir á inneign Jöfurs hf. á umræddum reikningum hafi átt sér stað samkvæmt fyrirmælum félagsins fyrir frestdag 2. febrúar 2000.
Stefndi byggir einnig á því, að stefnandi hafi sjálfur valdið tjóni sínu með stórkostlegu gáleysi. Stefnandi hafi um langt skeið starfað að innflutningi bifreiða og hafi sérþekkingu á því viðskiptasviði. Starfsmönnum hans hafi því mátt vera ljóst, að góður og gegn fagmaður á sviði þessara viðskipta hefði talið sér skylt að láta fara fram afstemmningu á fjölda þeirra bifreiða, sem til afgreiðslu voru annars vegar og ætlunin var að yfirtaka, og hins vegar þeirra skulda, sem að baki bifreiðanna stóðu, áður en félagið undirgekkst þær skyldur sem mælt sé fyrir um í 7. tl. samningsins. Með því að hafa ekki hirt um þessa sjálfsögðu og eðlilegu skyldu sína hafi stefnandi tekið áhættu, sem hann einn eigi að bera, enda hafi stefnda verið ómögulegt og óheimilt að leiðbeina eða aðstoða stefnanda við framkvæmd viðskiptanna, sbr. t.d. ákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðsiptabanka og sparisjóði, sem á þessum tíma hafi lagt bann við því, að stefndi veitti upplýsingar um hagi Jöfurs hf. án samþykkis félagsins, þ.m.t. um innistæður á bankareikningum félagsins eða fyrirkomulag viðskipta þess við bankann að öðru leyti.
Að endingu sé því harðlega mótmælt, að litið verði á það loforð af hálfu stefnda, sem fram komi í bréfinu, án tillits til réttarsambands stefnda við stefnanda að öðru leyti.
Einnig byggir stefndi á því, verði ekki fallist á framangreind rök, að líta verði á boð bankastjórans sem tilboð, sem hafi verið hafnað með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 4. febrúar 2003, sbr. 6. gr. laga nr. 7/1936. Því hafi sáttarboðið enga þýðingu, sbr. 5. gr. sömu laga.
Stefndi styður á mál sitt enn fremur þeim rökum, að bréfi Ársæls Hafsteinssonar hdl. hafi ekki verið beint að stefnanda, það byggt á misskilningi á hinum raunverulegu kringumstæðum málsins, og yfirlýsing lögmannsins gefin í því skyni að fá framangreindar innistæður Jöfurs hf. endurgreiddar af þrotabúinu til hagsbóta fyrir stefnanda. Loks vísar stefndi til þess, að stefnandi hafi hafnað tilboði stefnda um greiðslu bóta og geti ekki byggt rétt á loforðum, sem gefin voru áður en synjun hans kom fram.
Um varakröfu stefnda:
Varakröfu sína um lækkum á dómkröfum stefnanda, styður stefndi þeim rökum, að hluti dómkrafna stefnanda sé ýmist ósannaður eða verði ekki talinn vera sennileg afleiðing af hinni meintu ofgreiðslu.
Þannig sé ósannað tjón stefnanda í sambandi við þann hluta aðalkröfu stefnanda, sem lúti að endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefnandi hafi m.a. ekki sýnt fram á fjárhæð þeirra inneigna á gjaldeyrisreikningum Jöfurs hf. sem hann haldi fram, að stefndi hafi átt að taka tillit til við uppgjör á skuldum Jöfurs hf. Stefndi telur sýnt, að krafa stefnanda hljóti að teljast ósönnuð að þessu leyti.
Jafnframt mótmælir stefndi sem ólögmætri dráttarvaxtakröfu þessa kröfuliðar, þar sem upphafstími dráttarvaxtakröfu taki ekki mið af ákvæðum III. kafla laga nr. 25/1987 um vexti.
Stefndi mótmælir enn fremur þeim þætti í aðalkröfu stefnanda, sem byggi á skaðabótareglum utan samninga og bendir á, að bótaábyrgð vegna tjóns af þessum toga takmarkist við skyldu til greiðslu dráttarvaxta. Tjón stefnanda sé svo einstaklingsbundið, að það hafi ekki verið séð fyrir. Telja verði, að sá einstaklingsbundni brestur á greiðslugetu, sem birtist í þörf fyrir lántöku og kostnaði, sem af henni leiddi og kostnaði við að grafast fyrir um hin meintu mistök, verði í heild að teljast ósennileg afleiðing af hinum meinta tjónsatburði, sem stefnda verði ekki gert að bæta í öðru en með greiðslu dráttarvaxta.
Stefndi mótmælir þeim þætti skaðabótakrafna stefnanda, er lúti að kröfu um bætur vegna ofgreiddra vaxta, fallist dómurinn ekki á framangreind rök. Fjárhæð þessa kröfuliðs sé mótmælt sem vanreifaðri og ósannaðri, en stefnandi útskýri ekki, hvernig umræddur hluti dómkröfu hans sé reiknaður.
Stefndi mótmælir jafnframt kröfu stefnanda um bætur vegna kostnaðar við lántöku sem í senn vanreifaðri, ósannaðri og sem ósennilegri afleiðingu af tjónsatburðinum. Stefnandi útskýri ekki, hvernig töluleg fjárhæð bótakröfu hans sé fundin að þessu leyti. Þá byggir stefndi einnig mótmæli sín við þessum kröfulið á því, að sá vaxta-, gengis- og lántökukostnaður, sem stefnandi krefjist endurgreiðslu á, sé ekki sennileg afleiðing af tjónsatburðinum, sem sé skilyrði skaðabóta að íslenskum skaðabótarétti. Ábyrgð á jafn persónubundnum þætti og fjárþörf stefnanda vegna viðskipta hans við Jöfur hf., verði að teljast á ábyrgð stefnanda sjálfs. Einnig sé því sérstaklega mótmælt, að byggt verði á viðurkenningu stefnda á bótaskyldu vegna þessa kostnaðar og vísist í þeim efnum til þess sem fyrr er rakið.
Stefndi mótmælir enn fremur kröfu stefnanda um bætur vegna vinnu starfsmanna hans í tengslum við málið sem ósannaðri, órökstuddri og sem ósennilegri afleiðingu af tjónsatburðinum. Engin gögn séu færð fram til stuðnings þessum bótalið, auk þess sé ekki útskýrt, hvernig hin umkrafða fjárhæð skiptist milli vinnu hans eigin starfsmanna og kostnaðar vegna aðkeyptrar þjónustu. Þá vanti skýringar á því, hvort eða hvernig dómkrafa stefnanda taki mið af rétti hans til að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri þjónustu. Tjón stefnanda hljóti því að teljast ósannað af þeim sökum. Stefndi mótmælir sérstaklega í þessu sambandi, að niðurstaða um þennan lið bótakröfu verði byggð á bréfi Árna Tómassonar, fyrrverandi bankastjóra, og einnig því, að kostnaður af þessu tagi teljist vera sennileg og fyrirsjáanleg afleiðing tjónsatburðarins.
Að endingu krefst stefndi þess, að bótaréttur stefnanda verði færður niður, eða felldur niður í heild vegna eigin sakar. Tjónið megi í stórum dráttum rekja til ófullnægjandi samningsgerðar af stefnanda hálfu. Telja verði, að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu við samningsgerðina. Hann hafi látið hjá líða að afla sér nægilegrar yfirsýnar yfir samningsskyldur sínar gagnvart Jöfri hf. og hafi ekki leitað eftir formlegri skuldskeytingu, eins og honum hafi borið.
Komi til þess, að reyni á varakröfu stefnanda að einhverju leyti við efnisúrlausn málsins, byggir stefndi á sömu sjónarmiðum og málsástæðum og að framan eru raktar.
Stefnandi vísar til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. og 131. gr., til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni, en byggir kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað á skaðleysissjónarmiðum, en stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur, skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og nýtur því ekki innskattsfrádráttar.
Að öðru leyti byggir stefndi á þeim lagaákvæðum, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, svo og almennum sönnunarreglum, reglum skaðabótaréttar um vávæni og eigin sök.
Niðurstaða:
Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirtaldir einstaklingar skýrslu fyrir dóminum: Guðmundur Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Jöfurs hf., Garðar Garðarsson hrl. og Jón Ármann Guðjónsson hdl. Rétt þykir að reifa vætti þeirra að meginefni til.
Vitnið, Guðmundur Hilmarsson, kvaðst hafa ráðist til starfa hjá Jöfri hf. fyrst sem þjónustustjóri og síðan sem framkvæmdastjóri til ársloka 1998. Hann sagðist hafa komið að sölu Jöfurs til stefnanda fyrir beiðni Guðjóns Ármanns Jónssonar, aðaleiganda félagsins, þegar ljóst var, hvert stefndi í rekstri félagsins. Óskað var aðstoðar hans við sölu félagsins, eða hluta þess, sérstaklega gagnvart Peugeot (PE) vegna fyrri samskipta hans við hinn erlenda framleiðanda. Vitnið kvaðst hafa farið á fund með fyrirsvarsmönnum stefnda líklega í ársbyrjun 2000, ásamt Garðari Garðarssyni hrl., Pétri Guðmundarsyni hrl. og Guðjóni Ármanni Jónssyni. Af hálfu stefnda hafi bankastjórarnir, Sólon Sigurðsson og Jón Adolf, setið fundinn, ásamt útibússtjóra í útibúi stefnda í Kópavogi, sem var viðskiptabanki Jöfurs. Bankastjórunum hafi verið gerð grein fyrir stöðu fyrirtækisins og samþykkis þeirra leitað fyrir því að ná við sölu eins miklum verðmætum út úr félaginu og kostur var. Þeir hafi sagst leggja sitt af mörkum, svo að þetta gæti gerst. Ástæða fundarins hafi verið sú, að stefndi sem viðskiptabanki Jöfurs hafði hald í öllum nýjum óseldum bifreiðum og einnig flestum þeim notuðum bifreiðum, sem Jöfur hafði eignast. Viðskipti með nýja bíla hafi farið þannig fram, að stefndi veitti Jöfri heimild til að panta ákveðinn fjölda bifreiða með því að gefa út til framleiðanda svonefnt „Standby letter of credit“, sem fól það í sér, að stefndi var ábyrgur fyrir greiðslu kaupverðs bifreiðanna til framleiðanda, ef greiðslufall yrði af hálfu Jöfurs. Stefndi hefði tryggt sig með þeim hætti, að PE hafi sent honum reikninga og önnur skjöl, sem framvísa þyrfti til að fá bifreið tollafgreidda og skrásetta hérlendis. Stefndi hafi sett það skilyrði fyrir afhendingu þessara skjala, að innflutningsverð viðkomandi bifreiðar væri greitt að fullu inn á sérstakan aðgreindan gjaldeyrisreikning í aðalbanka á nafni Jöfurs. Í sérstökum undantekningartilvikum hafi verið hægt að fá bifreið afhenta með svonefndu sýningarleyfi gegn afhendingu tryggingavíxils. Ástæða þess, að greiðslan gekk ekki beint inn á sérstakan reikning framleiðanda var sú, að Jöfur hafði fimm mánaða greiðslufrest frá framleiðanda, sem miðaðist við þann tíma, þegar bifreið var send til landsins. Þegar tókst að selja bifreið, sem var nýkomin til landsins, hafi nokkrir mánuðir verið eftir af umsömdum greiðslufresti. Stefndi hafi einn nýtt sér greiðslufrestinn og hafi Jöfur engan ráðstöfunarrétt haft yfir þessum innistæðum. Komið gat fyrir, þegar sala var mikil og há innistæða myndaðist á reikningnum, að bankinn veitti Jöfri heimild til að nýta eitthvað af því fé til greiðslu annarra gjaldfallinna reikninga hjá bankanum. Að hans mati voru fyrirmæli Jöfurs um ráðstöfun inneigna á viðkomandi reikningum aðeins pro forma, hafi það á annað borð átt sér stað. Ef ekki tókst að selja bíla innan umsamins greiðslufrests framleiðanda, hafi stefndi veitt Jöfri sérstakt lán, sem tengt var viðkomandi bíl. Þetta hafi aðeins komið til, ef engar innistæður voru á gjaldeyrisreikningum. Vitnið greindi frá því, að stefndi hafi fylgst mjög vel með bílaeign Jöfurs. Tveir starfsmenn stefnda hafi komið óvænt að jafnaði einu sinni í mánuði og talið fjölda nýrra bíla, sem stefndi hafði hald í og borið saman framleiðslunúmer þeirra við reikninga og skjöl frá framleiðanda. Einnig hafi þeir með sama hætti kannað svonefnda sýningarbíla, sem voru í vörslum Jöfurs. Stefndi hafi fengið allar upplýsingar um framgang samninga við stefnanda og hafi síðan samþykkt að gengið yrði til samninga við hann. Það hafi verið mikið hagsmunamál fyrir stefnda, að kaupandi fyndist, vegna þeirra ábyrgða, sem stefndi hafði undirgengist gagnvart PE. Vitnið upplýsti, að starfsmenn PE hafi komið til landsins fyrir hans tilstilli og samþykkt, að stefnandi tæki við sölu peugeotbifreiða. Hann hafi komið á fundi fyrirsvarsmanna málsaðila og fulltrúa PE meðan þeir höfðu viðdvöl hérlendis. Vitnið kvaðst aðspurt þekkja til þess, að starfsmenn stefnda hafi farið yfir alla bílaeign Jöfurs, áður en salan til stefnanda átti sér stað og borið saman fjölda þeirra og framleiðslunúmer við þau skjöl og reikninga frá framleiðanda, sem stefndi hafði í sínum fórum. Samningur stefnanda við Jöfur hafi, m.a. byggst á þessari könnun starfsmanna stefnda. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki vita til annars en stefndi hafi haft handveð í innistæðum umræddra gjaldeyrisreikninga. Vitnið kvaðst ekki vita til þess, að stefndi hafi gert skuldskeytingarsamning við stefnda í kjölfar samninga hans við Jöfur, enda hafi aðkoma hans að málinu verið að beiðni fyrirsvarsmanns Jöfurs.
Vitnið, Garðar Þ. Garðarsson hrl., sagðist hafa komið að þessu máli vegna tengsla við alla aðila málsins með einhverjum hætti. Hann hafi áður verið í stjórn Jöfurs og auk þess hafi hann þekkt fyrirsvarsmenn stefnanda, enda væru þeir frændur konu sinnar. Hann taldi sig allt eins hafa komið að málinu fyrir beiðni fyrirsvarsmanna stefnda. Þetta hafi verið samvinnuverkefni allra aðila. Hann staðfesti að hafa átt a.m.k. þrjá fundi með fyrirsvarsmönnum stefnda og sagði, að allir sömu menn hafi setið fundina og vitnið Guðmundur tilgreindi. Málið hafi síðan verið unnið í fullu samráði við þessa fyrirsvarsmenn stefnda. Þeir hafi samþykkt, að gengið yrði til samninga við stefnanda og hafi samningsdrög og endanlegir samningar gengið á milli allra hlutaðeigandi til samþykktar. Stefndi hafi í raun haft yfirumsjón með samningaferlinu og stýrt því. Gerður hafi verið listi yfir allar bifreiðar, sem stefnandi yfirtók og hafi málsaðilar stemmt listann nákvæmlega af. Þurft hafi að staðreyna nákvæmlega fjölda bifreiða, verksmiðjunúmer þeirra og hafi starfsmenn stefnda tekið þátt í þeirri könnun. Síðan greindi vitnið með sama hætti og vitnið Guðmundur frá því hvaða fyrirkomulag hafi verið á samskiptum Jöfurs við stefnda, að því er varðar hald á reikningum og afhendingu þeirra gegn greiðslu. Ljóst hafi verið, þegar samningur stefnanda og Jöfurs var gerður, að ábyrgðarskuld stefnda gagnvart PE hélst í hendur við tölu þeirra bifreiða, sem stefnandi yfirtók. Málsaðilar hafi stemmt þetta af sín í milli með nákvæmri vörutalningu og könnun á því, hvort verksmiðjunúmeri bifreiða væri það sama og á þeim reikningum, sem stefndi hafði undir höndum. Sérstaklega aðspurður greindi Garðar frá því, að ekki hafi þótt rétt, að stefndi staðfesti með undirskrift samning stefnanda og Jöfurs, þar sem stefndi var á sama tíma að lána Jöfri peninga. Hann kvaðst ekki geta svarað því, hvort gengið hafi verið frá sérstakri skuldskeytingu milli málsaðila um ábyrgðarskuldir stefnda við PE. Garðar kvaðst lítil sem engin afskipti hafa haft af málinu eftir að samningar stefnanda og Jöfurs hf. voru gerðir og eftir samning Guðjóns Ármanns við stefnda, sem gerður hafi verið í kjölfarið. Hann kvaðst ekki minnast þess, að rætt hafi verið um innistæður Jöfurs á bankareikningum hjá stefnda í þessu samningaferli. Vitnið tók sérstaklega fram, að bæði hann og Pétur Guðmundarson hrl. hafi ráðist í þetta verkefni vegna kunningskapar við fyrirsvarmenn Jöfurs og stefnanda og hafi enga þóknun þegið fyrir störf sín.
Vitnið, Jón Ármann Guðjónsson, stjórnarmaður í stjórn Jöfurs, greindi frá því, að báðum samningsaðilum hafi verið ljóst, að afla þyrfti samþykkis PE og stefnda til að samningar tækjust. Fyrirsvarsmenn stefnanda hafi ekki óskað eftir aðstoð Jöfursmanna við samninga þeirra við stefnda. Ekki hafi verið rætt um innistæður Jöfurs á gjaldeyrisreikningum hjá stefnda, eftir því sem hann best vissi. Vitnið upplýsti, að Guðjón Ármann Jónsson, faðir sinn, hafi leitað til Garðars Garðarssonar og Guðmundar Hilmarssonar um aðstoð við sölu á eignum Jöfurs. Garðar hafi verið fenginn til að ræða við fyrirsvarsmenn stefnanda um kaup á rekstrinum í heild eða um hluta hans, þar sem hann hafi þekkt þá vel. Hann greindi með sama hætti og vitnin Garðar og Guðmundur frá tilhögun viðskipta stefnda og Jöfurs um hald á reikningum, þar til innkaupsverð innfluttra bíla væri að fullu greitt. Vitnið kvaðst ekki þekkja til þess, hvernig stefnandi hefði gengið frá sínum málum við stefnda um skuld Jöfurs við PE. Samningurinn við stefnanda hafi miðast við það, að hann yfirtæki skuldbindingar Jöfurs við stefnda. Vitnið sagðist ekki þekkja til þess, hvernig staðið hafi verið að greiðslum skulda Jöfurs við PE vegna ábyrgðar stefnda, hvort það hafi gerst sjálfkrafa eða eftir einhverjum fyrirmælum fyrirsvarsmanna Jöfurs.
Álit dómsins.
Af vætti vitnanna Guðmundar Hilmarsson og Garðars Þ. Garðarssonar hrl. má ráða, að stjórnendur stefnda hafi frá upphafi samningsviðræðna stefnenda og Jöfurs fylgst náið með framgangi samningsgerðarinnar og að mati vitnisins Garðars stýrt þeim í raun. Þessi sömu vitni, ásamt vitninu Jóni Ármanni Guðjónssyni gerðu dóminum grein fyrir því, hvernig stefndi hefði tryggt skaðleysi sitt vegna ábyrgðar sinnar gagnvart PE. Það skilyrði var sett af hálfu stefnda, að skjöl og skilríki voru ekki afhent Jöfri hf. nema innkaupsverð viðkomandi bifreiðar væri að fullu greitt. Þannig gat Jöfur hf. ekki fengið bifreið tollafgreidda og skráða nema að uppfylltu þessu skilyrði stefnda. Stefndi hafi síðan haldið utan um þessar greiðslur og nýtt þær, þegar kom að gjalddaga lánssamnings Jöfurs hf. við PE. Því hafi engin skuld átt að vera á þeim bifreiðum, sem stefnandi yfirtók og skuldbinding hans gagnvart stefnda samkvæmt samningnum við Jöfur hf. hafi því átt að haldast í hendur við innkaupsverð móttekinna bifreiða samkvæmt sama samningi.
Stefndi virðist upphaflega hafa lagt sama skilning í skuldbindingu stefnanda gagnvart honum, eins og bréf lögmanns stefnda til skiptastjóra þrotabús Jöfurs hf. frá 26. júní 2002 og bréf Árna Tómassonar bankastjóra til fyrirsvarsmanna stefnanda frá 26. september s.á., bera skýrlega með sér.
Lögmaður stefnda segir í tilvitnuðu bréfi sínu, m.a. svo: Bernhard ehf. (Honda á Íslandi) keypti af Jöfri hf. skömmu fyrir gjaldþrot félagsins allar Peugeot bifreiðar sem pantaðar og fluttar höfðu verið til landsins og óútleystar voru. Í ljós hefur komið að uppgjör aðila vegna kaupanna hefur ekki verið með réttum hætti. Skv. meðfylgjandi yfirliti var lager Peugeot bifreiða við framangreinda sölu að bókuðu verðmæti samtals FRF 14.199.130,16. Áður en Bernhard fór úr viðskiptum við Búnaðarbankann hafði félagið selt úr framangreindum bifreiðalager og lækkað framangreinda kröfu úr FRF 14.199.130.16 í FRF 11.862.030,15. Framleiðandi Peugeot (Peugeot í Frakklandi) gerði kröfu um greiðslu að fjárhæð samtals FRF 14.701.430,00 vegna seldrar Peugeot bifreiða (sbr. meðfylgjandi lista) og var krafa þessi, ásamt est. láns nr. 1900 FRF 1.589,22 eða samtal FRF 14.703.019,22 greidd af Bernhard. hf. Við nánari skoðun hefur komið í ljós að Bernhard hf. hefur ofgreitt FRF 2.840.989,07. Efni þessa bréfs, er áður reifað að hluta. Í fyrri umfjöllun um bréf lögmannsins er haft eftir honum, að fyrir misskilning var innistæðum ekki ráðstafað til lækkunar á þeim kröfum sem tengdust beint viðkomandi seldri bifreið og vegna þessa söfnuðust ranglega upp óráðstafaðar innistæður á reikningana. Síðar í bréfinu er því lýst, að tilgreinda fjárhæð vanti, svo að unnt sé að gera að fullu upp við Bernhard ehf. á þeim nótum, sem félagið samdi um við Jöfur hf. Í yfirliti sem fylgdi bréfi lögmannsins til skiptastjóra kemur fram, að Jöfur hf. hafði greitt stefnda 4.942.275 FRF vegna þeirra bifreiða, sem stefnandi yfirtók. Stefndi gefur þær skýringar á ráðstöfun þessarar fjárhæðar, að hann hafi greitt þrotabúinu hluta hennar en eftirstöðvarnar hafi verið greiddar Jöfri hf. eða FRF 2.254.190,37 að meðtöldum vöxtum 176.000 FRF. Því virðist stefndi hafa greitt Jöfri hf. 2,864.084.63 FRF, ef ekki er tekið tillit til vaxtakostnaðar (4.942.275-2.078.190.37). Stefndi hefur að takmörkuðu leyti sýnt fram á ráðstöfun þessa fjár til Jöfurs hf.
Þá liggur fyrir viðurkenning Árna Tómassonar bankastjóra á því, að stefndi hafi ofkrafið stefnanda og sagði hann ástæðuna vera þá, að stefndi hafi fyrir misskilning talið þrotabú Jöfurs hf. vera eiganda að innistæðum á reikningum í nafni Jöfurs hf., sbr. bréf hans til stefnanda, dags. 26. september 2002. Í bréfinu kemur einnig fram, að ekki sé ágreiningur um grunnfjárhæð 2.835.000 FRF og beðist er velvirðingar á mistökunum. Í yfirliti, sem fylgdi bréfi bankastjórans er tilboð stefnda borið saman við kröfur stefnanda, sem áður er lýst. Sá mismunur nam 17.617.069 og stafaði að mestu af mismunandi vaxtaútreikningi og kröfu stefnanda um greiðslu vaxta af mismuni þess láns, sem hann tók hjá Sparisjóði vélstjóra og upphæðar þess láns, sem hann hefði þurft að taka, ef stefndi hefði haldið rétt á málum.
Ljóst þykir, þegar þessi gögn eru virt, að stefndi leit svo á, þegar samningur stefnanda og Jöfurs hf. var gerður og allt þar fram á árið 2003, að ábyrgð stefnanda, samkvæmt 7. gr. samningsins, skyldi haldast í hendur við fjölda þeirra bifreiða, sem stefnandi fékk umráð yfir með samningnum. Í þessu sambandi ber einnig að líta til þess, að fyrirsvarsmenn stefnda voru vel upplýstir um efni og eðli umrædds samnings, samkvæmt vætti Garðars Þ. Garðarssonar, enda samningsaðilum óhjákvæmilegt annað en að hafa víðtæk samráð við stefnda, þar sem hann hafði í höndum öll þau skjöl, sem nauðsynleg voru til að fá hinar yfirteknu bifreiðar afhentar. Samþykki stefnda var einnig sett að skilyrði fyrir því að samningur Jöfurs hf. og stefnanda yrði virkur, eins og kemur skýrt fram í 16. tl. samnings Jöfurs hf. og stefnanda.. Þá er einnig ljóst, að stefndi hafði verulega hagsmuni af því að samningar tækjust, þar sem stefnandi yfirtók mikinn fjölda bifreiða, 200 til 400 að ætlan Garðars Þ. Garðarssonar, sem stefndi hafði ábyrgst greiðslu á gagnvart PE og ótrúlegt annað en hann hafi reynt að tryggja hagsmuni sína við umrædda samningsgerð. Þá ber einnig að líta til samnings stefnda við Jöfur hf. frá 20. janúar 2000. Með samningnum, sem varðar lánafyrirgreiðslu stefnda til Jöfurs hf. að fjárhæð 25 milljónir króna, setur Jöfur hf. stefnda að handveði greiðslur frá stefnanda samkvæmt 13. og 14. gr. samnings síns við stefnanda Einnig segir í samningnum, að umræddu fé skuli verja til að greiða gjaldfallin og gjaldfallandi kröfur vegna virðisaukaskatts og innflutningsgjalda af bifreiðum (tollkrít) svo standa megi við samning við Gunnar Bernhard ehf. frá 12. þ.m.
Að öllu þessu virtu þykir nægilega sannað, að stefndi hafi litið svo á, að yfirtaka stefnanda á ábyrgðarskuldum Jöfurs hf. við stefnda skyldi haldast í hendur við fjölda þeirra bifreiða, sem stefnandi yfirtók með samningnum við Jöfur hf.
Dómurinn lítur því svo á að stefndi hafi ofkrafið stefnanda um 2.835.000 FRF, en um þá fjárhæð hafði náðst samkomulag, eins og fram kemur í bréfi Árna Tómassonar, bankastjóra.
Stefndi byggir sýknukröfu í fyrsta lagi á aðildarskorti. Ekkert réttarsamband sé eða hafi verið milli málsaðila í tengslum við samning stefnanda og Jöfurs hf. Kröfum sé því ranglega að honum beint.
Sú niðurstaða dómsins, að stefndi hafi ofkrafið stefnanda um tilgreinda fjárhæð veldur því, að réttarsamband myndaðist þeirra í milli, sem gaf stefnanda fullnægjandi heimild til að beina kröfum sínum að stefnda í máli þessu. Greiðslan 5. júní 2000 var byggð á upplýsingum stefnda. Stefndi viðurkenndi fyrst í stað að gerð hefðu verið mistök af hans hálfu, sem hann getur ekki firrt sig ábyrgð á, eða vísað á annan aðila um greiðslu, þ.e. þrotabú Jöfurs hf., eins og stefndi gerir nú. Stefndi greiddi fyrir misskilning (ranglega eins og segir í bréfi lögmanns stefnda) þrotabúinu á árinu 2001 1,502.671.35 FRF og kaus síðan að greiða búinu 5. febrúar 2003 eftirstöðvar inneigna í nafni Jöfurs hf. 8.925.305 kr. og verður að bera hallann af þeirri ákvörðun sinni.
Með þessum rökum verður hvorki fallist á þá málsástæðu stefnda, að málinu sé beint gegn röngum aðila né, að skuldskeytingar hafi verið þörf, eins og stefndi byggir á.
Þá byggir stefndi á því, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni, sem stefndi beri ábyrgð á. Augljóst þykir, samkvæmt framansögðu, að stefnandi hefur orðið fyrir margvíslegu tjóni af völdum mistaka stefnda, sem stefndi hlýtur að verða að bera hallann af. Viðurkenning Árna Tómassonar bankastjóra á mistökunum og tillaga hans um endurgreiðslu, þykir sýna, að stefndi hafi álitið á þessum tíma, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem bæta beri. Það tjón er enn óbætt og miðast málsókn stefnanda að því að fá leiðréttingu sinna mála.
Þessari málsástæðu stefnda er því einnig hafnað.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því, að viðurkenning Árna Tómassonar bankastjóra hafi verið gefin á röngum forsendum og skapi stefnanda því engan rétt. Sama gildi um bréf Ársæls Hafsteinssonar til skiptastjóra þb. Jöfurs hf. Auk þess geti stefnandi ekki byggt á efni þess bréfs, þar sem því hafi ekki verið beint til hans.
Fram kemur í framlögðum gögnum, að málið hafði verið í athugun og vinnslu hjá stefnda allt frá 19. desember 2001, þegar stefnandi setti fyrst fram óskir um endurskoðun greiðslu sinnar 5. júní 2000. Bréf Ársæls Hafsteinssonar og sú afstaða, sem þar kemur fram, sýnir að málið var þá í vinnslu hjá stefnda. Bréfið lýsir einnig viðhorfum stefnda til kröfu stefnanda á þessum tíma. Stefnandi heldur því einnig fram, að fyrirsvarsmenn félagsins hafi átt a.m.k. þrjá fundi með Árna Tómassyni, bankastjóra sumarið 2002, sem ekki hefur verið mótmælt af hálfu stefnda. Bankastjórinn vísar til þess í bréfi sínu 26. september s.á. að náðst hafi samkomulag um 2.835.000 FRF. Ekkert liggur fyrir um það í málskjölum, að boð bankastjórans hafi verið vanhugsað eða byggt á röngum forsendum. Bréf Ársæls Hafsteinssonar, lögfræðings, sýnir aðeins hvaða augum stefndi leit á málið, þegar bréfið var ritað og, hvaða fjárhæðir var um að ræða og hvernig þær voru fundnar.
Þessari málsástæðu stefnda er einnig hafnað af framangreindum forsendum.
Þá byggir stefndi á því, að honum hafi verið óheimilt og ómögulegt að ráðstafa innistæðum Jöfurs hf. á þann hátt, sem stefnandi geri kröfu til á grundvelli gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.
Í margnefndu bréfi Ársæls, lögfræðings, kemur fram, að innborganir Jöfurs hf. inn á reikninga hjá stefnda við afhendingu nauðsynlegra skjala væru sannanlega eyrnamerktar ákveðinni bifreið. Eins greindu vitni frá því, með hvaða hætti stefndi tryggði sig gagnvart ábyrgð sinni gagnvart PE. Greiðsla Jöfurs hf. og samsvarandi gagngreiðsla stefnda héldust í hendur, þ.e. ígildi afhendingar viðkomandi bifreiðar. Þetta fyrirkomulag var umsamið og hafði verið viðhaft í áraraðir. Ekki verður séð, að Jöfur hf. hafi haft raunveruleg yfirráð yfir þeim innistæðum, sem þannig mynduðust hjá stefnda, enda var þeim ætlað að mæta kröfu frá framleiðanda viðkomandi bifreiða. Því verður að telja, að stefnda hafi verið óskylt, eins og hér stóð sérstaklega á, að greiða þrotabúi Jöfurs hf. inneign, sem myndaðist með þeim hætti, sem að framan er rakið. Í þessu sambandi ber að líta til þess, að stefndi hefði allt eins getað ráðstafað hinum „eyrnamerktu greiðslum“ inn á reikning í nafni PE í stað þess, að leggja þær inn á sérstaka gjaldeyrisreikninga í nafni Jöfurs hf.
Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað.
Loks styður stefndi andmæli sín gagnvart 1 tl. aðalkröfu stefnanda þeim rökum, að stefnandi hafi með gáleysi sínu við framkvæmd viðskipta sinna við Jöfur hf. firrt sig rétti til skaðabóta.
Stefnandi innti umrædda greiðslu af hendi að kröfu stefnda. sem hafði undir höndum öll skjöl og önnur gögn. Samkvæmt yfirliti, sem fylgdi bréfi Ársæls lögfræðings til skiptastjóra, kemur fram, að greiðsla stefnanda varðaði a.m.k. hátt á þriðja hundrað bifreiðir. Ljóst er, að stefndi hafði engin tök á að sannreyna, þegar greiðslan átti sér stað, hvort rétt væri að málum staðið af hálfu stefnda. Í ljósi þess, hversu umfangsmikil þau gögn voru, sem krafa stefnda byggðist á og með vísan til þess, að stefndi er bankastofnun, sem hefur á að skipa fjölda sérfræðinga á ýmsum sviðum og sérhæft starfsfólk, verður að telja að stefnandi hafi mátt treysta því að óreyndu, að krafa stefnda væri rétt og í samræmi við þann samning, sem stefnandi gerði við Jöfur hf. í samráði við stefnda, eins og að framan er lýst. Stefnandi varð mistaka stefnda var við endurskoðun ársreiknings undir lok ársins 2001 og lét stefnda vita. Ekki er að sjá, að stefndi hafi talið á þessum tíma, að starfsmenn stefnanda hefðu með gáleysi átt þátt í mistökum stefnda, eða valdið þeim á einhvern hátt.
Þessari málsástæðu stefnanda er því hafnað.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið er fallist á 1. tölulið í aðalkröfu stefnanda og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 30.906.105 krónur, sem svara til 2.835.000 FRF. Samkomulag hafði tekist um þessa fjárhæð, eins og tekið er sérstaklega fram í bréfi Árna Tómassonar, bankastjóra og vísað til í bréfi lögmanns stefnanda til sama banka, sem dagsett er 4. febrúar 2003.
Næst verður tekin afstaða til 2. tl. aðalkröfu stefnanda að fjárhæð 8.877.640 kr.
Þessi kröfuliður saman stendur af fjórum kostnaðarþáttum, sem stefnandi telur að mistök stefnda hafi valdið honum. Fjallað verður um hvern einstakan þátt.
1. Stefnandi krefst endurgreiðslu oftekinna vaxta að fjárhæð 1.357.836 kr., sem honum var gert að greiða 5. júní 2000. Hinn 9. febrúar 2000 gjaldféllu 51.141.469.81 kr. af láni Jöfurs hf. hjá PE. Ef rétt hefði verið að málum staðið af hálfu stefnda, hefði krafa stefna á hendur stefnanda átt að lækka sem svarar þeirri fjárhæð, sem stefnandi krefst greiðslu á undir 1. tl. aðalkröfu, þ.e. um 30.906.105 kr. Í bréfi Árna Tómassonar, bankastjóra, til stefnanda er boðin greiðsla á ofteknum vöxtum. Bankastjórinn gerir grein fyrir því í fylgiskjali með bréfi sínu, við hvaða vaxtafót var miðað við útreikning hinna ofteknu vaxta og bauð endurgreiðslu vaxta með sömu vaxtakjörum, en þau voru þessi: Frá 9. febrúar 2000 til 21. sama mánaðar, 14,05%, frá þeim degi til 21. maí s.á., 14,35%, frá þeim degi til 21. júní s.á., 14,65%. Í bréfinu kemur fram, eins og áður er getið, að vextir miðist við hliðstæða vexti og þá, sem bankinn gerði Bernhard ehf. að greiða í viðskiptum milli aðila á árinu 2000. Dómurinn hefur yfirfarið kröfu stefnanda miðað við framangreindar forsendur og er niðurstaðan sú, að krafa stefnanda sé síst of há. Í ljósi þess, að stefndi hefur sannanlega ofkrafið stefnanda um þá fjárhæð, sem krafa hans lýtur að undir þessum kröfuþætti og fyrir liggur viðurkenning Árna Tómassonar, bankastjóra, á greiðsluskyldu stefnda, er fallist á þennan kröfulið stefnanda.
2. Í þessum kröfuþætti krefst stefnandi greiðslu á mismuni lántökukostnaðar af þeirri fjárhæð, sem hann þurfti að greiða vegna láns hjá SV og þeirri fjárhæð, sem hann ella hefði þurft að greiða í lántökugjald, ef mistök stefnda hefðu ekki átt sér stað. Þessi kröfuliður nemur 324.515 kr. Títtnefndur Árni Tómasson, viðurkenndi í margnefndu bréfi sínu, að stefnandi hefði orðið fyrir fjárútlátum vegna lántökukostnaðar, og bauð að bæta stefnanda þennan kostnað með 1.103.099 kr. Framlögð gögn sýna á hinn bóginn, að stefnandi greiddi Sparisjóði vélstjóra 342.429 kr. í lántökugjald (dskj. 63). Ekkert liggur hins vegar fyrir um það, hversu háa fjárhæð stefnandi hefði þurft að greiða af lægra láni, þegar tillit hefur verið tekið til hinnar ofteknu fjárhæðar. Því þykir ekki fært að fallast á þennan kröfulið stefnanda vegna vanreifunar og er stefndi því sýknaður að svo stöddu af þessari kröfu stefnanda.
3. Í þessum þætti krefur stefnandi stefnda um greiðslu mismunar vaxta af láni því, sem hann tók hjá SV og lægra láni, sem hann ella hefði tekið, ef mistök stefnda hefðu ekki átt sér stað. Krafist er greiðslu mismunarins frá hverjum gjalddaga þess láns, sem SV veitti. Samtals nemur krafa stefnanda samkvæmt þessum lið 6.195.279 kr. Nánar er gerð grein fyrir upphæð á hverjum gjalddaga í niðurlagi reifunar málsástæðna stefnanda.
Stefndi mótmælir þessum lið í fyrsta lagi á þeirri forsendu, að þessi kostnaður stefnanda geti ekki talist fyrirsjáanleg afleiðing meintra mistaka hans og í annan stað á þeirri forsendu, að stefndi verði ekki talinn bera ábyrgð á lánsþörf stefnanda. Einnig mótmælir stefndi þessum kröfuþætti stefnanda sem ósönnuðum og órökstuddum.
Dómurinn lítur svo á, að lán það, sem stefnandi tók, hljóti að teljast fyrirsjáanlegt og í samræmi við hefðbundnar rekstrarforsendur. Stefndi sem bankastofnun þrífst að verulegu leyti á lánsþörf atvinnufyrirtækja og er þekkt að því að fjármagna framsækin fyrirtæki. Fyrirsvarsmönnum stefnda hlaut að vera fullljóst, að stefnandi myndi verða að leita eftir lánsfé til að geta fjármagnað kaup sín á Jöfri hf. og til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart stefnda. Í þessu ljósi verður að skoða samþykki bankastjóra stefnda fyrir því að endurgreiða stefnanda lántökukostnað, eins og fyrr er lýst. Bankastjórinn hefur því talið eðlilegt, að stefnandi fjármagnaði umrædd kaup sín og skuldbindingu sína gagnvart stefnda með lántökum.
Á hinn bóginn verður að fallast á það með stefnda, að gögn þau, sem stefnandi leggur fram til sönnunar þessum kröfuþætti, verða að teljast ófullnægjandi. Af hans hálfu eru lögð fram þrjú dómskjöl (nr. 16, 17 og 18). Þessi skjöl eru óundirrituð og ekki upplýst, hvaða forsendur liggja þeim til grundvallar, s.s. vaxtafótur. Dómurinn á þess því engan kost að sannreyna réttmæti þessarar kröfu tölulega. Rétt þykir því einnig að sýkna stefnda af þessari kröfu stefnanda að svo stöddu.
4. Í síðast lagi krefur stefnandi stefnda um bætur vegna vinnu starfsmanna sinna í tengslum við málið og vegna aðkeyptrar vinnu í þessu sambandi, samtals að fjárhæð 1.000.000 kr. Stefndi mótmælir kröfunni sem ósannaðri enda sé hún engum gögnum studd. Því síður komi fram, hversu stór liður kröfunnar felist í aðkeyptri vinnu.
Dómurinn lítur svo á, að vafalaust sé, að miklum tíma og fyrirhöfn hafi verið varið í málið af hálfu starfsmanna stefnanda og að stefnandi hafi án efa þurft að leita sér utanaðkomandi aðstoðar. Árni Tómasson, bankastjóri, viðurkenndi þennan aukakostnað stefnanda og bauðst til að bæta honum hann með greiðslu á 1.000.000 kr. Stefnandi byggir kröfu sína á þessu boði bankastjórans. Rétt þykir, eins og hér stendur á, að fallast á kröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfuþætti.
Niðurstaða málsins er því sú, að stefnda er gert að greiða stefnanda 33.263.941 krónu (30.906.105+1.357.836+1.000.000).
Dráttarvaxtakrafa stefnanda miðast við ólíkar upphæðir og ýmis tímamörk. Dráttarvaxta hans samkvæmt 1 tl. aðalkröfu miðast við 5. júní 2000.
Við mat á dráttarvaxtakröfu stefnanda verður að líta til þess, að fráleitt verður talið, að umrædd mistök stefnda hafi verið gerð í því skyni að valda stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, heldur hafi verið um eins konar óhappatilviljun að ræða, sem stefndi beri ábyrgð á. Því bresta skilyrði til þess að fallast á dráttarvaxtakröfu stefnanda, fyrr en við breytta afstöðu stefnda hinn 4. febrúar 2003.
Í margnefndu bréfi Árna Tómassonar til stefnanda frá 26. september 2002 segir m.a. svo: Við vaxtaákvörðun hefur verið tekið mið af hliðstæðum vöxtum og þeim sem bankinn gerði Bernhard ehf. að greiða í viðskiptum milli aðila á árinu 2000, sem eru yfirdráttarvexti bestu fyrirtækja og vaxtavöxtum bætt við þ. 5 .júní 2001 og 5. júní 2002. Fyrr í niðurstöðukafla dómsins, er gerð grein fyrir þeim vaxtafæti, sem bankastjórinn miðaði endurgreiðslutilboð sitt við.
Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið og af framangreindum ástæðum, að stefndi endurgreiði stefnanda tildæmda fjárhæð með sömu vöxtum og svara til yfirdráttarvaxta, sem bestu fyrirtæki í viðskiptum við stefnda, ásamt vaxtavöxtum, sem leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti fyrst 5. júní 2001 og síðan árlega þann dag, sbr. tilkynningarskyldu stefnda samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001 og 8. gr. laga nr. 25/1987. Við þann útreikning skal miða sama vaxtafót og fram kemur í fylgiskjali með bréfi Árna Tómassonar, bankastjóra, og áður er getið og skal fylgja þeim breytingum, sem verða á vaxtakjörum bestu fyrirtækja til hækkunar og lækkunar frá 5. júní 2000 til 4. febrúar 2003.
Stefndi dæmist því til að greiða stefnanda yfirdráttarvexti, eins og að framan er lýst af 32.263.941 krónu frá 5. júní 2000 til 4. mars 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 33.263.941 krónu auk uppfærðs höfuðstóls frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi dæmist til að greiða stefnanda 2.500.000 krónur í málskostnað.
Skúli J. Pálmason kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Kaupþing Búnarðarbanki hf. greiði stefnanda Bernhard ehf., 33.263.941 krónu, auk yfirdráttarvaxta af 32.263.941 krónu, sem miðast skulu við bestu kjör fyrirtækja í viðskiptum við stefnda frá 5. júní 2000 til 4. mars 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 33.263.941 krónu, auk áfallinna vaxta frá 4. mars 2003 til greiðsludags. Áfallnir vextir skulu leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, fyrst 5. júní 2001 og síðan árlega þann dag.
Stefndi greiði stefnanda 2.500.000 krónur í málskostnað.