Hæstiréttur íslands

Mál nr. 717/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás


Miðvikudaginn 24. apríl 2013.

Nr. 717/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Líkamsárás.

Auk umferðar- og fíkniefnalagabrota var X sakfelldur í héraði fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var honum gert að sæta fangelsi í 6 mánuði auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt og gert að sæta upptöku á fíkniefnum og nánar tilgreindum hlutum. Fyrir Hæstarétti kom einungis til endurskoðunar sakfelling X fyrir líkamsárás. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til þess að X hefði ekki getað dulist að áverkar gætu hlotist af þeirri háttsemi hans að slá A „í augað“, en þá háttsemi hafði hann játað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að refsing sú sem honum var gerð í hinum áfrýjaða dómi verði milduð.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði játað að hafa slegið  brotaþola ,,í augað“, en kvað það hafa verið óviljaverk. Ákærða gat ekki dulist að áverkar gætu hlotist af þessari háttsemi hans. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 217.184 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2012.

I

Málið, sem dómtekið var 30. október síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 14. ágúst 2012 á hendur „X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2011, nema annað sé tekið fram:

I.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 8. júní í húsnæði að [...], haft í vörslum sínum 120 kannabisplöntur, og að hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur, sem lögregla fann við húsleit.

Teljast brot þessi varða við 2. gr., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr., og 4. gr. laganna að því er varðar framleiðslu á kannabis, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. desember, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 545 ng/ml, tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 0,5 ng/ml), í [...], uns bifreiðin hafnaði á snjóruðningi framan við [...] og stóð þar föst, og jafnframt haft í vörslum sínum 6,46 g af maríhúana og 0,68 g af kókaíni sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

Teljast brot þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007, og við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

III.

Líkamsárás, með því að hafa miðvikudaginn 21. desember, framan við [...], slegið systur sína A, kt. [...] einu höggi í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar umhverfis vinstra auga og á vinstra kinnbein og lítil sár neðan við vinstra auga og á vinstra augnloki.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981

IV.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 28. júní 2012, í bifreiðinni [...] á afrein á Reykjanesbraut í átt að [...], haft í vörslum sínum 4,02 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006, og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á 12 gróðurhúsalömpum, 3 viftum, loftdælu, 4 plastrennum og plastbala, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Ákærði neitar sök í ákærulið III og krefst sýknu af honum. Að öðru leyti játar hann sök og krefst vægustu refsingar. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Málavextir varðandi þann þátt málsins þar sem ákærði neitar sök verða nú reifaðir en að öðru leyti er vísað til ákæru, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

Málavextir varðandi III. ákærulið eru þeir að framangreindur brotaþoli kom á lögreglustöð 22. desember 2011 og kærði ákærða fyrir líkamsárás. Hún kvað hann hafa sótt son sinn í leikskóla án leyfis frá móður barnsins. Hefði hann ýtt þar við fóstrunum er þær reyndu að koma í veg fyrir að hann tæki barnið. Brotaþoli kvaðst hafa farið að heimili ákærða ásamt móðurinni og þar hafi komið til ryskinga milli ákærða og móðurinnar, en áður hefði brotaþoli getað tekið barnið af ákærða. Brotaþoli kvaðst svo hafa reynt að ganga á milli þeirra tveggja og að lokum hefði sér tekist að róa ákærða og hefði hún látið móðurina hafa barnið og hafi hún gengið með það á brott. Strax í kjölfar þessa hefði ákærði snúið sér við og kýlt sig tvö högg í andlit og höfuð. Hún kvaðst hafa bólgnað upp við vinstra auga og fengið stóra kúlu á höfuðið.

Brotaþoli fór á slysadeild og í vottorði þaðan segir að hún hafi skýrt svo frá að bróðir hennar hafi slegið hana í andlitið, líklega tveimur höggum. Kvartaði hún undan óþægindum yfir vinstra kinnbeini. Síðan segir: „Það er dálítil bólga yfir vinstra kinnbeini og eymsli við þreifingu þar. Örlítið sár neðan við augað vinstra megin. Á efra augnloki er einnig örlítið sár sem er þó vel lokað og það eru þreifieymsli yfir vinstri augabrún. Augnhreyfingar eru alveg eðlilegar og augnumgjörð þreifast eðlileg og enginn grunur um brot.“ Niðurstaðan var að brotaþoli væri með mar umhverfis vinstra auga og bólgu eða mar yfir vinstra kinnbeini. Áverkarnir voru taldir geta samrýmst því að hún hefði orðið fyrir hnefahöggi.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu og skýrði svo frá að hann hefði sótt son sinn á leikskóla í umrætt sinn. Eftir það hefði honum lent saman við móður barnsins og brotaþola og hefðu þau rifist. Í framhaldi af rifrildinu hefði komið til stimpinga milli hans og brotaþola sem hefðu endað með því að hann hefði gengið á brott og ætlað inn til sín. Brotaþoli hefði elt sig og þrifið í hálsmál hans. Hann hefði þá snúið sér við og slegið með hálfkrepptum lófa í andlit hennar þannig að höggið lenti á auga hennar. Ákærði kvað að um óviljaverk hefði verið að ræða. Hann hafi ætlað að losa sig við hana og því slegið í átt til hennar og höggið lent óvart í andliti hennar.

Barnsmóðir ákærða skoraðist undan því að bera vitni fyrir dómi og verður því ekki rakið það sem hún bar hjá lögreglu.

III

Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði lent í orðaskaki við brotaþola, sem er systir hans, og barnsmóður sem hefði orsakast af því að hann hefði sótt son sinn á leiksskóla. Þegar rifrildinu lauk hefði brotaþoli elt hann og rifið í hettu hans og í sömu andrá hefði hann snúið sér að henni og slegið hana algerlega óviljandi í augað. Hann kvaðst hafa ætlað að slá hendur hennar í burtu til að hann gæti gengið óáreittur inn til sín, en þetta hefði gerst við innganginn að heimili hans. Ákærði kvaðst ekki muna hvort séð hefði á brotaþola eða ekki. Hann neitaði að hafa kýlt brotaþola. Hann hefði í raun verið að losa sig frá henni. Aldrei hafi verið ætlunin að meiða brotaþola.

Brotaþoli bar að ákærði hefði sótt son sinn í óleyfi í leikskólann og hefði hún farið ásamt barnsmóður ákærða að sækja drenginn. Þegar þær hittu hann hefðu þau tvö farið að rífast og hefði hún þá tekið barnið frá þeim. Ákærði hefði síðan ráðist á barnsmóður sína en brotaþoli kvaðst hafa reynt að koma henni til hjálpar. Að lokum hefði hún látið móðurina hafa barnið og sagt henni að fara í burtu. Sjálf kvaðst hún hafa gengið á eftir ákærða og áður en hún vissi af hefði hún verið kýld og hefði ákærði verið þar að verki. Hann hefði snúið sér að henni um leið og hann kýldi tvö högg. Höggin hefðu lent á auganu og höfðinu. Hún hefði fengið glóðarauga og kúlu á höfuðið.

Læknirinn, sem ritaði framangreint vottorð, staðfesti það. Hann bar að áverkar brotaþola gætu samrýmst því að hún hefði fengið högg á augnsvæðið. Af þessu höggi gæti hún hafa fengið glóðarauga. Hvort um hafi verið að ræða hnefahögg eða annars konar högg kvaðst hann ekki geta fullyrt.

IV

Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem honum eru gefin að sök í I., II. og IV. kafla ákærunnar. Játning hans er í samræmi við sakargögn og verður hann því sakfelldur fyrir þau. Brot hans eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði neitar sök í III. kafla ákæru en hefur kannast við að hafa slegið til brotaþola eins og rakið var. Framburður ákærða um þetta kemur heim og saman við framangreindan framburð brotaþola að öðru leyti en því að hún segir hann hafa slegið sig tvö högg. Þá skýrði brotaþoli einnig frá á sama hátt á slysadeild, en þangað fór hún samdægurs. Læknir bar að áverkar hennar gætu samrýmst lýsingu hennar. Þegar framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi slegið brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Ákærða mátti vera ljóst að með því að slá til brotaþola á þennan hátt gat hann valdið henni meiðslum og verður því ekki fallist á með honum að hann hafi brotið af sér af gáleysi. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi [...] 2010 fyrir þjófnað, gripdeild og akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti í 6 mánuði. Hann var sektaður og sviptur ökurétti í 2 ár [...] 2011 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Þá hefur ákærði auk þess verið sektaður 5 sinnum fyrir fíkniefnalagabrot á árunum 2006 til 2011 og einu sinni fyrir umferðarlagbrot.

Refsing ákærða nú verður ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur hann rofið skilorð dómsins frá 2010 og verður dómurinn tekinn upp og dæmdur með þessu máli, sbr. 60. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin 6 mánaða fangelsi sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda.

Þá verður ákærði sviptur ökurétti ævilangt, enda brot hans ítrekað öðru sinni. Efni og hlutir eru gerðir upptækir eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Upptækt skal vera: 120 kannabisplöntur, 6,46 g af marijúana, 0,68 g af kókaíni, 4,02 g af amfetamíni, 12 gróðurhúsalampar, 3 viftur, loftdæla, 4 plastrennur og plastbali.

Ákærði greiði 326.874 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Inga Freys Ágústssonar hdl., 238.450 krónur.