Hæstiréttur íslands

Mál nr. 560/2015

Hagvagnar hf. (Benedikt Ólafsson hrl.)
gegn
Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Fjármögnunarleiga
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging

Reifun

H hf. krafðist þess að viðurkennt yrði að óheimilt hefði verið að binda greiðslur á skuld hans við L hf. samkvæmt fjármögnunarleigusamningi aðila frá árinu 2007 við gengi erlendra gjaldmiðla. H hf. krafði L hf. jafnframt um endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt af samningnum. Var ekki talið að H hf. hefði sannað gegn andmælum L hf. að í öndverðu hefði verið samið um að H hf. yrði í lok leigutíma eigandi þeirra þriggja strætisvagna sem samningurinn tók til eða ætti rétt á því að leysa þá til sín gegn greiðslu. Gætu slík áform aðila í aðdraganda þess að samningurinn var gerður ekki leitt til þeirrar niðurstöðu, enda hefði þá legið beint við að hann tæki mið af þeim. Þar sem samningurinn hefði verið um fjármögnunarleigu var ekki talið að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu girtu fyrir að heimilt hefði verið að semja um að leigugjaldið tæki mið af gengi erlendra gjaldmiðla. Þótt það kynni að hafa breytt eðli réttarsambands aðila að L hf. afsalaði á árinu 2010 strætisvögnunum til H hf., gæti það atriði ekki leitt til þess að fallist yrði á þá málsástæðu H hf. að frá öndverðu hefði samningur aðila verið um lán en ekki fjármögnunarleigu, enda væri af hans hálfu ekki byggt á slíkri síðar tilkominni efnisbreytingu réttarsambandsins. Þá var talið að hugtakanotkun í samningi aðila um tímabundna greiðsluraðabreytingu gæti engu breytt um þessa niðurstöðu. Var L hf. því sýknaður af kröfum H hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að binda greiðslur á skuld hans við stefnda samkvæmt fjármögnunarleigusamningi 1. nóvember 2007 við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 29.402.365 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. janúar 2014 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi snertir mál þetta efni fjármögnunarleigusamnings milli aðila og aðdraganda þeirra lögskipta, en með samningnum leigði stefndi áfrýjanda þrjá strætisvagna af gerðinni Irisbus. Hæstiréttur hefur í fjölda dóma fjallað um samninga sem eru sama efnis í meginatriðum, sbr. til að mynda dóma réttarins 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013, 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013 og nú síðast 14. janúar 2016 í máli nr. 324/2015. Hefur í þessum dómum verið komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða samninga um fjármögnunarleigu, eins og heiti þeirra og ákvæði hafa glögglega borið með sér. Gengistrygging samninganna hafi því ekki verið í andstöðu við VI. kafla laga nr. 38/2001.

Áfrýjandi telur að aðilar máls þessa hafi samið sérstaklega um að áfrýjandi myndi eignast hið leigða í lok lánstíma gegn tiltekinni greiðslu. Til stuðnings þessu hefur áfrýjandi vísað til tölvupósts 3. október 2007 frá þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs stefnda þar sem fram komi að hið leigða yrði við lok leigutíma falt fyrir „1% af uppreiknuðum leigugrunni.“ Þá lagði áfrýjandi fyrir Hæstarétt tilkynningar Umferðarstofu um eigendaskipti að ökutækjum þar sem fram kemur að stefndi afsalaði áðurnefndum strætisvögnum til áfrýjanda 23. júní 2010. Telur áfrýjandi að framangreint tilboð og umræddar tilkynningar styðji þann málatilbúnað hans að í upphafi hafi samningur aðila í raun verið um lán en ekki fjármögnunarleigu.

Í umræddum fjármögnunarleigusamningi var svofellt ákvæði í 12. grein: ,,Leigutíminn er tilgreindur í 4. og 6. gr. Leigutaki getur ekki sagt leigusamningi þessum upp á grunnleigutíma. Að loknum grunnleigutíma framlengist hann ótímabundið skv. 6. gr. Leigutaki getur sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með 1 mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða.“ Í 34. grein samningsins var síðan kveðið á um það að breytingar á honum mætti einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum.

Áform aðila í aðdraganda þess að samningurinn var gerður geta ekki leitt til þeirrar niðurstöðu sem áfrýjandi leitast eftir, enda lá þá beint við að samningurinn sjálfur tæki mið af þeim. Áfrýjandi hefur ekki sannað gegn andmælum stefnda að í öndverðu hafi verið samið um að áfrýjandi yrði í lok leigutíma eigandi þeirra verðmæta sem samningurinn tók til eða ætti rétt á því að leysa þau til sín gegn tiltekinni greiðslu, sbr. framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 324/2015. Fær þetta jafnframt stoð í framburði þess starfsmanns sem sendi tilboðið, en þar kom fram að allar breytingar á fjármögnunarleigusamningum stefnda hafi þurft að gera skriflega. Þar sem samningur aðila var um fjármögnunarleigu girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 ekki fyrir að heimilt hafi verið að semja um að leigugjald í viðskiptunum tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Þótt það kunni að hafa breytt eðli réttarsambands aðila að stefndi afsalaði áðurnefndum strætisvögnum til áfrýjanda í júní 2010, getur það atriði ekki leitt til þess að fallist verði á framangreinda málsástæðu áfrýjanda um að frá öndverðu hafi samningur aðila verið um lán en ekki fjármögnunarleigu, enda er af hans hálfu í máli þessu ekki byggt á slíkri síðar tilkominni efnisbreytingu réttarsambandsins.

Loks er staðfest sú niðurstaða í hinum áfrýjaða dómi að hugtakanotkun í samningi aðila um tímabundna greiðsluraðabreytingu 29. ágúst 2011 geti engu breytt um þessa niðurstöðu, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. júní 2014 í máli nr. 373/2014.

Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hagvagnar hf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2015.

Mál þetta sem dómtekið var, 23. júní 2015, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 27. desember 2013, af Hagvögnum hf., Melabraut 18, Hafnarfirði, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að binda greiðslur á skuld stefnanda við stefnda samkvæmt fjármögnunarleigusamningi nr. 144114-119, dagsettum. 1. nóvember 2007, við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 29.402.365 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 6. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til að kaupa af stefnda þrjá strætisvagna með skrásetningarnúmerunum KS K88, KV B37 og ME X30 fyrir 1% af leigugrunni samningsins. Þá krefst stefnandi máls-kostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu.

         Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Atvik máls

Stefnandi er félag sem hefur með höndum rekstur strætisvagna og langferðabifreiða. Stefndi er eignaleigufyrirtæki í merkingu 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Stefnandi og stefndi gerðu á árunum 1992 til 2007 með sér fjölda fjármögnunarleigusamninga um strætisvagna og langferðabifreiðar, sem stefnandi notaði í rekstri sínum.

Á árinu 2007 leitaði stefnandi til stefnda um fjármögnun vegna kaupa á þremur strætisvögnum af gerðinni Irisbus GX 123L. Seljandi var Bifreiðar og Landbúnaðarvélar hf. Með bréfi, 3. október 2007, gerði stefndi stefnanda tilboð um fjármögnun á kaupunum í formi fjármögnunarleigu til 5 ára. Tilboðið fól í sér gengistryggðan samning m.v. nánar tilgreinda myntkörfu og breytilega Libor vexti. Í tilboðinu sagði að ekkert stofngjald yrði tekið við gerð samningsins en í lok grunnleigutíma, sem yrði 60 mánuðir, lækkuðu greiðslur í 1/12 þess sem áður hefði verið og þá yrði hið leigða ennfremur falt á 1% af uppreiknuðum leigugrunni. Í tilboðinu var tekið fram að það gilti í einn mánuð frá dagsetningu þess. Framangreindu strætisvagnarnir munu hafa komið til landsins í október 2007 og var kaupverð þeirra a.m.t. virðisaukaskatti samtals 64.912.612 krónur. Stefndi mun hafa greitt kaupverðið 31. október 2007 en 1. nóvember 2007 gerðu stefnandi og stefndi með sér fjármögnunarleigusamning um strætisvagnana og fékk hann auðkennisnúmerið 144114-119.

Samningurinn er á samningsformi stefnda, sem ber fyrirsögnina “Fjármögnunarleigusamningur”. Samkvæmt sérstökum skilmálum samningsins var leigugrunnur hans 52.138.644 krónur og samsvaraði það kaupverði vagnanna án virðisaukaskatts. Umsaminn grunnleigutími var frá 20. desember 2007 til 19. desember 2012 og skyldi leigan greiðast með 30 greiðslum á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 20. desember 2007. Samningurinn er samtals 35. gr. og skiptist í sérstaka skilmála skv. gr. 1-10 og almenna skilmála skv. gr. 11-35. Skv. 2. gr. er leigugrunnur tilgreindur í íslenskum krónum og er sú fjárhæð sundurliðuð á þá erlendu gjaldmiðla sem grunnurinn er tengdur við þ.e. japönsk jen og svissneska franka, að jöfnu. Samkvæmt 14. gr., sbr. 10. gr. voru leigugreiðslur gengistryggðar miðað við breytingar á gengi hinna tilgreindu erlendu gjaldmiðla m.v. 31. október 2007. Samkvæmt 12. gr. samningsins var stefnanda óheimilt að segja samningnum upp á grunnleigutímanum en jafnframt mælt svo fyrir að í lok hans framlengdist hann ótímabundið. Þá var stefnanda heimilt, að loknum grunnleigutíma, að segja samningum upp, skriflega, með eins mánaðar fyrirvara, enda skilaði hann þá tafarlaust hinu leigða.

         Aðilar gerðu 27. október 2008, 29. ágúst 2011, 16. apríl 2012 og 15. október 2012 breytingar á samningnum og fólu þær í sér greiðsluraðabreytingar auk breytinga á grunnleigutíma. Þannig var grunnleigutíminn með breytingunni, 27. október 2008, framlengdur til 20. ágúst 2013 og með breytingunni, 15. október 2012, til 20 ágúst 2015.

Hinn 15. október 2012 ritaði stefnandi stefnda bréf. Í því er m.a. vísað til þess að ágreiningur hafi risið milli íslenskra fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra um heimild fjármálafyrirtækja til að binda greiðslur samkvæmt fjármögnunarleigu-samningum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá er tekið fram að stefnandi vilji með bréfinu árétta sérstaklega að með greiðslum stefnanda til stefnda m.a. skv. framangreindum fjármögnunarleigusamningi þeirra og með samningum stefnda og stefnanda um skilmálabreytingar vegna samningsins felist á engan hátt viðurkenning af hans hálfu á réttmæti gengistryggingar samkvæmt samningnum og áskilji stefnandi sér allan rétt til að endurkrefja stefnda um þá fjármuni sem hann kunni að hafa ofgreitt stefnda vegna ólögmætrar gengistryggingar.

Hinn 28. nóvember ritaði lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem þess var krafist m.a. að stefndi endurreiknaði leigugreiðslur samkvæmt fjármögnunarleigu-samningi aðila þar sem óheimilt hefði verið að binda greiðslur skv. honum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá var krafist endurgreiðslu á því sem ofgreitt kynni að hafa verið.

Með bréfi, 6. desember 2013, tilkynnti stefnandi stefnda að skuldbindingar stefnanda samkvæmt umræddum fjármögnunarleigusamningi hefðu verið að fullu efndar. Þá krafðist stefnandi þess að stefndi endurgreiddi honum það sem ofgreitt hefði verið, vegna ólögmætrar gengistryggingar, samtals 30.555.159 krónur auk vaxta og kostnaðar. Þá var þess krafist að stefnandi fengi að innleysa strætisvagnana þrjá á umsömdu innlausnarverði.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort framangreindur fjármögnunarleigu-samningur aðila nr. 144114-119, frá 1. nóvember 2007, sé leigusamningur eða um sé að ræða lánssamning, sem óheimilt hafi verið að binda gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir á því að svokallaðir fjármögnunarleigusamningar, sem hann hafi gert við stefnda, séu í eðli sínu lánssamningar og að óheimilt hafi verið að binda greiðslur þeirra í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Ágreiningsmál af þessu tagi hafi verið til umfjöllunar hjá dómstólum. Stefnandi hafi ítrekað farið þess á leit við stefnda að hann leiðrétti kröfur sínar á hendur honum vegna þessara samninga og að hann leiðrétti einnig greiðslur sem þegar hefðu verið ranglega krafðar og inntar af hendi. Stefndi hafi hafnað þessu en þó talið rétt að taka málið til endurskoðunar, þegar skýrari niðurstaða dómstóla, í hliðstæðum ágreiningsmálum lægi fyrir. Stefnandi hafi ítrekað, bæði munnlega og bréflega, áréttað þessa afstöðu sína til stefnda og áskilið sér rétt til að krefjast endurgreiðslu.

Hinn 5. júní 2013 hafi verið kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli Flugastraums ehf. á hendur Landsbankanum hf. Þar hafi verið til umfjöllunar deila aðila um hvort fjármögnunarleigusamningur og framkvæmd hans, hafi verið láns-samningur með ólögmætri tengingu lánsfjárhæðarinnar við erlenda gjaldmiðla eða leigusamningur, þar sem slík tenging væri heimil. Hafi niðurstaða héraðsdóms verið að samningurinn væri lánssamningur skv. VI. kafla laga nr. 38/2001 og hefði því verið óheimilt að binda greiðslur samningsins við gengi erlendra gjaldmiðla. Niðurstaða héraðsdóms hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar, 12. desember 2013, í máli nr. 430/2013. Stefnandi í máli þessu telji skilmála þessa fjármögnunarleigusamnings hliðstæða skilmálum í samningi þeim sem sé grundvöllur málsóknar þessarar og aðstæður og framkvæmd samningsskilmála hliðstæðar því sem við eigi í máli þessu.  Stefnandi telji að samningur sá sem sé grundvöllur málsóknar þessarar hafi verið lánssamningur en ekki leigusamningur. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um annan grundvöll verðtryggingar en þann sem stoð sé fyrir í lögunum. Stefndi hafi þannig ofkrafið stefnanda um greiðslur og frá 20. desember 2007 til og með 20. október 2013 hafi hann greitt 29.402.365 krónur umfram fullar efndir á heildarskuld samkvæmt samningnum, sem hann eigi rétt á að fá endurgreiddar.  Samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af honum vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Jafnframt sé þar kveðið á um að peningakrafa skuli bera vexti skv. 1. málslið 4. gr. sömu laga, ef samningur kveði á um óheimila verðtryggingu. Stefnandi hafi farið þess á leit við Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðing að hann reiknaði út réttar eftirstöðvar samningsins hinn 20. október 2013, eftir að stefnandi hafi greitt afborgun sína þann dag. Útreikningar skyldu miðast við vaxtareikning skv. 1. málslið 4. gr. vaxtalaga af ógengistryggðum höfuðstól, að frádregnum þeim greiðslum sem stefnandi hafði innt af hendi. Niðurstaða þessa útreiknings sé að stefndi hafi ofgreitt 29.402.365 krónur, sem sé stefnukrafa í máli þessu. Stefnandi telji að stefndi hafi veitt sér lán sem stefndi hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Stefnandi telji að nafnið fjármögnunar-leigusamningur sé aðeins orðið tómt. Málsástæður stefnanda fyrir því að um lánssamning hafi verið að ræða en ekki leigusamning séu m.a. eftirfarandi, en stefnandi telji að efni samningsins og öll framkvæmd hans beri þess vott að þar sé um lánssamning að ræða en ekki leigusamning:

Stefnandi hafi komið einn að kaupum hins leigða og hafi stefndi engin afskipti haft af þeim, önnur en þau að greiða kaupverðið. Bendi það til þess að stefnandi hafi í raun keypt bifreiðarnar en stefndi fjármagnað kaupin og fengið bifreiðarnar skráðar eign sína um stundarsakir til þess að tryggja efndir á greiðslu samningsins. Þetta fái m.a. stoð í 18. gr. hinna almennu skilmála samningsins þar sem segi að leigutaki greiði allan kostnað sem til falli vegna skráningar og eigendaskipta, jafnt við upphaf sem við lok samnings.

Í sérstökum skilmálum samningsins segi að hið leigða sé þrír Irisbus Crossway strætisvagnar og sé vísað til reikninga frá seljanda. Seljandi sé tilgreindur Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf. og greiðsludagsetning kaupverðs, sem sé hið sama og leiguverð, 31. október 2007. Vandséð sé hvaða tilgangi það þjóni að hafa upplýsingar af þessu tagi í leigusamningi þ.e. tilgreina seljanda hins leigða, vísa til reikninga um kaup hins leigða og greiðsludags kaupverðs.

Leigugrunnur og kaupverð vagnanna sé lagt að jöfnu. Samningsfjárhæð eigi ekkert erindi í leigusamning þar sem ekki þurfi að tilgreina höfuðstól skuldar eða gengi á útborgunardegi. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

Efni almennu skilmálanna sé fyrst og fremst sniðið að kaupleigusamningum. Í 16. gr. skilmálanna segi að leigutaki hafi valið hið leigða og annist f.h. Lýsingar skoðun þess svo sem kaupanda sé skylt samkvæmt lögum um lausafjárkaup. Lýsing hf. taki enga ábyrgð á leigumun. Í 21. gr. segi að skylda leigutaka til greiðslu leigu falli ekki niður þó notkun hins leigða stöðvist vegna tjóns eða bilunar. Þannig sé ekkert samhengi á milli greiðslna og afnota. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

Leigugreiðslur samkvæmt samningnum beri vexti, en slíkt samrýmist ekki eðli leigusamninga. Samkvæmt sundurliðaðri greiðsluáætlun, sem sé hluti samningsins, skiptist samningsgreiðslur í vexti og afborganir og séu eftirstöðvar tilgreindar eftir hverja greiðslu. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

Í 19. gr. segir að leiði vanefndir seljanda til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi, skuli það koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu. Í 30. gr. samningsins sé kveðið á um hátt á uppgjöri á milli aðila við lok samnings, hvort sem sé vegna riftunar á kaupum vegna vanefnda seljanda skv. 19. gr., altjóns á hinu leigða skv. 21. gr. eða riftunar vegna röskunar á samningi samkvæmt 28. gr. Í öllum þessum tilvikum skuli leigutaki greiða alla ógjaldfallna leigu skv. 5. gr. samningsins, en frá skuld leigutaka skuli draga verðmat hins leigða og allar endurgreiðslur eða skaðabætur sem kunni að hafa verið greiddar af seljanda vegna vanefnda svo og vátryggingabætur hafi hið leigða skemmst eða glatast. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

Í Breytingarskilmálum samningsins, dags. 29. ágúst 2011, „tímabundin greiðsluraðbreyting” segi að mismun á hlutagreiðslu og heildargreiðslu verði bætt við „eftirstöðvar samnings/láns“. Orðalag þetta, sem samið sé af stefnda, bendi til þess að hann hafi litið á fjármögnunarsamninginn sem lán.

         Samkvæmt íslenskum rétti hafi lengi verið talinn helsti skilsmunur kaupleigusamninga annars vegar og fjármögnunarleigusamninga hins vegar að með kaupleigusamningi eignist leigutaki þann hlut, sem sé andlag samnings, við lok samningstíma eða eigi kauprétt að honum, en við lok lágmarkstíma fjármögnunarleigusamnings verði leigutaki ekki eigandi hlutarins án þess að til frekari samninga komi. Kaupleigusamningar / eignarleigusamningar í íslenskum krónum falla undir útlán og sé gengistrygging þeirra óheimil. Áður en samningur sá sem sé grundvöllur málsóknar þessarar hafi verið undirritaður hafði svo um samist með aðilum að stefnandi ætti kauprétt að hinu leigða í lok samningstímans fyrir tiltekið verð og án þess að kæmi til frekari samninga. Þessi hluti samningsins hafi verið skriflegur í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 3. október 2007. Þetta fái einnig stoð í yfirlýsingu Guðríðar Ólafsdóttur og Ólafs Helga Ólafssonar og tilvísun í lokagjald í greiðsluseðlum.

         Krafa um viðurkenningu á rétti stefnanda til að kaupa strætisvagnana þrjá styðjist við tilboð stefnda frá 3. október 2007, þar sem fram komi að stefndi eigi þess kost að kaupa umrædda strætisvagna á 1% af uppreiknuðum leigugrunni. Skilyrði þess réttar séu nú öll til staðar.

Stefnandi vísi um kröfur sínar um ólögmæti gengistryggingar til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. og athugsemda varðandi þær lagagreinar í frumverpi til laganna. Um gildi samningsins og heimild til að víkja ákvæðum hans til hliðar sé vísað til III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna. Um endurgreiðslu og vexti sé vísað til 18. gr. laga nr. 38/2001 og ólögfestra reglna um endurgreiðslu ofborgaðs fjár. Krafa um dráttarvexti sé studd 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Þá sé vísað til fordæmisgildis dóma Hæstaréttar m.a. í málunum nr. 282/2011, 652/2011 og 430/2013. Krafa um málskostnað sé byggð á  130.  gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir á því að sú aðalmálsástæða stefnanda að umþrættir fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar standist engan veginn. Þannig hafi í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 frá 24. maí 2012 („Smákranamál“) verið fjallað um samskonar samningsform fyrir fjármögnunarleigu og hafi niðurstaða Hæstaréttar verið sú að um væri að ræða leigusamning. Í dómi Hæstaréttar hafi verið komið inn á það að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Einnig hafi komið fram í dóminum að í samningi aðila væri fjallað um leigu og væri Lýsing hf. þar ítrekað nefnd leigusali. Tekið skuli fram að ekki verði annað séð en stefnandi byggi aðallega á sömu málsástæðum, í þessu máli og hafðar hafi verið uppi af hálfu stefnanda í fyrrgreindu máli Hæstaréttar nr. 652/2011 og telji stefndi því að beinast liggi við að sýkna hann í þessu máli. Þá styðji niðurstaða Hæstaréttar m.a. í málum nr. 638/2013 og nr. 717/2013 ótvírætt framangreinda niðurstöðu.

Áður en tekið verði til við að gera grein fyrir málsástæðum stefnda sé nauðsynlegt að skilgreina fyrst hugtakið ,,fjármögnunarleigusamningur“. Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga en eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarksleigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því, að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir það tímamark hafi leigutaki að jafnaði rétt til áframhaldandi leigu munar gegn lækkuðu leigugjaldi. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumunina á framhaldsleigu allt þar til að leigumunirnir séu orðnir úr sér gengnir eða ónothæfir. Þetta sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum þar sem leigutaki verður að jafnaði sjálfkrafa eigandi hins leigða í lok leigutímans án sérstakrar greiðslu eða frekari samninga. Stefndi vísi hér einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reikningsskilastaðalsins þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Í lögum um eignarleigustarfsemi nr. 19/1989, sem nú hafi verið afnumin, sé fjármögnunarleiga skilgreind sem sú starfsemi skv. eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala en eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 19/1989 komi fram að þær skilgreiningar sem byggt væri á í forminu, tækju mið af IAS 17 (International Accounting Standard 17). Í 4. gr. IAS 17 – Alþjóðlegum reikningsskilastaðli um leigusamninga sé fjármögnunarleiga skilgreind á þann hátt að um sé að ræða leigusamning þar sem svo til öll áhætta og ávinningur, sem fylgi eignarhaldi á eign, sé yfirfærð og að eignarréttur ýmist færist eða færist ekki á milli aðila að lokum. Samningsform stefnda eigi eingöngu við um fjármögnunar-leigusamninga og sé mjög skýrt fjármögnunarleigusamningsform þar sem allt innihald samningsins bendi til að um leigusamning sé að ræða. Samningsformið hafi upphaflega verið samið eftir norskri fyrirmynd um fjármögnunarleigusamninga og byggi á alþjóðlegum viðmiðunum um fjármögnunarleigusamninga. Stefndi hafi lagt fram í málinu sýnishorn af dönskum og norskum fjármögnunarleigusamningum. Þessi erlendu fjármögnunarleigu-samningsform byggi á sömu grunnsjónarmiðum og form Lýsingar hf. og séu þetta þau form sem almennt séu notuð af eignaleigufyrirtækjum í þessum tveimur löndum, enda séu þessi form gefin út af samtökum eignaleigufyrirtækja í Danmörku og Noregi. Þeir fjármögnunarleigusamningar sem um sé deilt í þessu máli hafi öll einkenni fjármögnunarleigusamninga bæði hvað varði form, hugtakanotkun og efnislegt innihald. Eins og síðar verði vikið nánar að sé ljóst að stefnandi hafi kosið að tryggja sér afnot af umræddum tækjum með fjármögnunarleigusamningum við stefnda en ekki annars konar fjármögnun. Val á þessari samningstegund hafi byggst á fjölmörgum öðrum þáttum en beinum útgjöldum, svo sem þeim mun sem lögum samkvæmt sé á bókhaldslegri og skattalegri meðferð mismunandi samningstegunda. Því verði að skoða í heild réttaráhrif þess ef lagaákvæðum um önnur samningsform en leigu verði beitt um þessa fjármögnunarleigusamninga. Stefndi byggi á því að samningsform hans uppfylli öll skilyrði fyrir því að teljast leigusamningur skv. alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17, sem hafi lagagildi hér á landi. Á þessum staðli hafi verið byggt hér á landi, hvað leigusamninga varði, í áratugi, og hafi skilgreiningar á fjármögnunarleigu skv. honum verið notaðar í lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi. Í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin sé lögfest. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar séu skilgreindir í 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sem: ,,reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002) sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002“. Reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sé prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Í 7. tl. reglugerðarinnar sé fjallað um IAS alþjóðlegu reikningsskilastaðlana. IAS staðlarnir byggi á alþjóðlegum viðmiðunum. Í 7. gr. EES samningsins, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, komi fram að gerðir sem vísað sé til eða sé að finna í viðaukum við samninginn, eða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, bindi samningsaðila og skuli þær teknar upp í landsrétt sem hér segi: a) gerð sem samsvari reglugerð EBE skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila. Í reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla komi fram markmiðið með reglugerðinni sem sé eftirfarandi: ,,Markmiðið með þessari reglugerð er að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem félög sem getið er í 4. gr. setja fram, til að tryggja mikið gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins.“ Í 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 komi fram að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um alþjóðlega reikningsskilastaðla, sem samþykktir hafi verið, skv. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002. Á grundvelli 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 hafi ráðherra sett fjölda reglugerða um alþjóðlega reikningsskilastaðla, þar á meðal reglugerð nr. 1133/2007 að því er varði m.a. alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 17 um leigusamninga. IAS 17 staðallinn, sem lagagildi hafi hér á landi, fjalli um leigusamninga. Í 4. gr. staðalsins sé fjármögnunarleiga skilgreind á eftirfarandi hátt: ,,Fjármögnunarleiga er leigusamningur sem yfirfærir svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgir eignarhaldi á eign. Eignarréttur kann eða kann ekki að færast á milli aðila að lokum.“ Stefndi byggi á því að fjölmörg atriði staðalsins sýni fram á það ótvírætt að fjármögnunarleigusamningur Lýsingar hf. sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Þessu til viðbótar megi nefna að túlkanir með reikningsskilastöðlum, frá túlkunarnefnd um alþjóðlega reiknisskilastaðla, þ.e. IFRS Interpretations Committee, bendi einnig til þess að fjármögnunarleigusamningsform Lýsingar hf. sé leigusamningur og megi í því sambandi nefna: túlkunina IFRIC 4 – Ákvörðun um hvort samningur inniheldur leigusamning og túlkunina SIC 27 – Mat á inntaki viðskipta þegar um leigusamning er að ræða í lagalegum skilningi. Stefndi byggi á því að tilvísun ársreikningalaga í reglugerð og alþjóðlega reikningsskilastaðla sé samhangandi heild sem hafi lagagildi á Íslandi. Í því sambandi vísi stefndi til 3. gr. laga 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið þar sem fram komi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Út frá þessu ákvæði verði ekki komist hjá því að túlka hugtökin ,,leigusamningur” og ,,fjármögnunarleigusamningur” í samræmi við ákvæði IAS 17 í íslenskum rétti. Það leiði síðan tvímælalaust til þess að fjármögnunarleigusamningur Lýsingar teljist vera leigusamningur. Í þessu sambandi vísi stefndi ennfremur til reglunnar um einsleitni í EB rétti, sem komi fram í 1. gr. EES samningsins, um að meginforsenda þess að framkvæmd samningsins takist vel sé sú að ekki skuli aðeins sömu reglur gilda, heldur skuli túlkun og beiting sameiginlegra reglna vera samræmd á EES svæðinu öllu. Þetta hafi ennfremur í för með sér skyldu allra eininga ríkisvaldsins til að ná fram lagaáhrifum EES reglnanna í landsrétti EFTA-ríkjanna, sbr. 3. gr. EES samningsins um skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993. Stefndi byggi á því að meginreglan um einsleitni og sjónarmið Evrópuréttarins um samræmda skýringu hugtaka eigi að leiða til þess að á Íslandi verði notast við þá skilgreiningu á hugtakinu ,,leigusamningi” sem sé að finna í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17. Með þessu sé hugtakinu ,,leigusamningur” gefin merking sem rúmist innan EES samningsins og þeirra reglna sem á honum byggi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 79/2010 sé komið inn á framangreind sjónarmið og tekið fram að slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt gefin merking, sem rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tengslum við rekstur hæstaréttarmálsins nr. 652/2011 hafi Lýsing hf. látið nokkrar af stærstu endurskoðunarstofum landsins vinna fyrir sig álit um það hvort fjármögnunar-leigusamningsform Lýsingar hf. gæti talist vera fjármögnunar-leigusamningur í samræmi við IAS 17 – Alþjóðlegan staðal um leigusamninga. Álit allra endurskoðunarfyrirtækjanna hafi verið á þá leið að fjármögnunarleigu-samningsform Lýsingar hf. félli undir staðalinn um leigusamninga og væri þannig leigusamningur. Þegar erlendir bankar og fjárfestar eigi viðskipti hér á landi eigi þeir að geta treyst því að hér sé farið eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Ísland hafi innleitt á grundvelli EES samningsins og að þeir geti tekið viðskiptalegar ákvarðanir út frá því.

         Í stefnu sé reynt að færa fyrir því rök að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar. Stefndi mótmæli því að nokkur af þeim atriðum sem stefnandi bendi á, styðji það að hinir  umþrættu samningar aðila séu lánssamningar frekar en leigusamningar. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun, gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Um sé að ræða gagnkvæman samning þar sem báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur. Lánssamningur sé það kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka skv. ákvæðum lánssamningsins. Þeir lánssamningar, sem falli undir vaxtalögin nr. 38/2001, séu lánssamningar um peninga eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna en þar komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar. Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum megi ráða að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Fjölmörg önnur atriði megi nefna því til stuðnings að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga og megi í því sambandi m.a. nefna eftirfarandi atriði:

         Heiti samninganna, þ.e. ,,fjármögnunarleigusamningar“ bendi til þess að um sé  að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga.

         Í gegnum alla samningana sé talað um ,,leigusala“ og leigutaka“ og bendi það til þess að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga. Orðnotkun í samningunum bendi einnig eindregið til að um sé að ræða  leigusamninga en ekki lánssamninga. Sem dæmi um þetta megi nefna að gerð sé grein fyrir leigumun sem hinu leigða í 1. gr. samninganna og leigugrunni í 2. gr. samninganna. Í 4. gr. sé fjallað um grunnleigutíma og í 5. gr. um greiðslutilhögun leigu. Í 6. gr. sé gerð grein fyrir grunnleigutíma og framhaldsleigu. Í öðrum greinum samninganna sé sama orðnotkun og  þannig ávallt gengið út frá því að um leigusamninga sé að ræða. Það skuli ítrekað í þessu sambandi að í máli nr. 652/2011 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga.

         Virðisaukaskattur leggst ofan á einstakar leigugreiðslur fjármögnunarleigu-samninga en slíkt tíðkist aldrei í lánssamningum. Skattayfirvöld geri skýran greinarmun á meðhöndlun virðisaukaskatts í kaupleigusamningum annars vegar og fjármögnunarleigusamningum hins vegar. Ákvarðandi bréf RSK gefi skýrt til kynna að skv. réttum skilningi laga um virðisaukaskatt skuli innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningum en líta skuli á greiðslur skv. kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum, sbr. fyrirliggjandi bréfi RSK nr. 273/1991. Stefndi hafi greitt virðisaukaskatt af kaupverðinu í upphafi og gengið út frá því að innheimta virðisaukaskattinn til baka í gegnum leigugreiðslur út grunnleigutímann. Gangi það ekki eftir sé það breyting á þeim forsendum sem gengið hafi verið út frá við samningsgerðina en aðilar hafi verið sammála um að þar sem um leigusamninga væri að ræða skyldi greiða virðisaukaskatt af leigugreiðslum. Til viðbótar við þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst megi nefna að stefnandi hafi innskattað virðisaukaskatt af leigugreiðslum í bókhaldi sínu. Allar þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst miðist við þann gagnkvæma skilning aðila að um leigusamninga hafi verið að ræða. Í Danmörku gildi sömu reglur og hér um það að virðisaukaskattur leggist ofan á leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 1. tl. 4. gr. í danska samningsforminu, sem fyrir liggi í málinu. Þegar leiga sé innheimt séu sendir út ,,reikningar fyrir leigu“ og sé það sá háttur sem stefndi hafi haft á. Slíkt eigi ekki við þegar um lán sé að ræða. Á leigureikningunum komi einnig skýrt fram að við leiguna bætist virðisaukaskattur en sama eigi ekki við um lán eins og áður hafi komið fram. Það verði að teljast harla langsótt hjá stefnanda að halda því fram að um lánssamning sé að ræða í ljósi þess að hann hafi greitt reikninga án athugasemda, þar sem fram hafi komið að um leigureikninga væri að ræða og á reikningunum komi einnig skýrt fram að virðisaukaskattur bættist við leigugreiðsluna.

         Þegar um lánssamning sé að ræða eignist viðkomandi hið keypta gegn greiðslu kaupverðs. Grundvallarmunur sé á skattalegri meðferð kaupverðs og leigu. Kaupverð beri að eignfæra og gjaldfæra, á þeim árum sem eign sé notuð við öflun tekna, sem fyrningu, en leigu megi gjaldfæra um leið og notkunin eigi sér stað. Leigugjaldið sé frádráttarbært til skatts sem hver annar rekstrarkostnaður og skapi það leigutaka að jafnaði talsvert hærri skattfrádrátt en afskriftir af keyptum hlut, þ.e. þegar leigutíminn sé styttri en afskriftartími hlutar. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur hjá leigusala og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Gjaldfærsluleiðin sé einmitt einn helsti kostur leigusamninga, þ.e. að geta gjaldfært leigugreiðslur í gegnum rekstrarreikning og að fjármögnunin geti verið utan efnahagsreiknings.

         Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur hjá leigusala, í raun og skv. skattskilum og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Framangreinda kosti fjármögnunarleigusamninga hafi stefnandi þekkt vel enda hafi hann haft margra ára reynslu af þessu leiguformi þegar hann undirritaði hinn umþrætta fjármögnunarleigusamning.

         Í stefnu sé því haldið fram af stefnanda að hann hafi fengið lán og að um dulbúinn lánssamning sé að ræða en ekki leigusamning. Þessi málsástæða hans standist engan veginn í ljósi þess að hann færi samninginn sem leigusamning í bókhaldi sínu og gjaldfæri leigugreiðslurnar. Stefnandi byggi á því að fjármögnunarleigusamningurinn sé lánssamningur gagnvart stefnda í þeirri von að það skapi honum rétt til endurreiknings og lækkunar á leigu, en hins vegar byggi hann á því gagnvart skattayfirvöldum að fjármögnunarleigusamningurinn sé leigusamningur til að fá hærri gjaldfærslu í ársreikningi sem leiði til þess að hann greiði lægri skatta. Stefnandi eigi ekki að geta komist upp með það að kalla fjármögnunar-leigusamninginn ýmist leigusamning eða lánssamning eftir því hvað honum henti hverju sinni. Komist hann upp með það auðgist hann á ólögmætan hátt.

         Eignarréttur haldist hjá leigusala fjármögnunarleigusamnings allan grunnleigutímann og á framhaldsleigutímabilinu og því sé ekki um lánssamning að ræða. Auk þess hafi leigusali sem eigandi hins leigða þær heimildir sem teljist til grunneignarréttar eins og að geta selt eða veðsett eignarrétt sinn. Þessi atriði bendi til þess að um leigusamning sé að ræða en ekki lánssamning.

         Löggjafinn líti á eignaleigu sem leigustarfsemi en ekki lánastarfsemi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 en þar komi fram að með eignaleigu sé átt við leigu-starfsemi  með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í 1. mgr. 20. gr. sömu laga komi skýrt fram að löggjafinn líti ekki á fjármögnunarleigu sem útlánastarfsemi. Í 1. mgr. 20. gr. sé fjallað um ýmsar tegundir af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Í 2. tl. séu taldir upp þættir sem falli undir útlánastarfsemi og sé fjármögnunarleiga ekki talin þar á meðal. Í 3. tl. sé fjármögnunarleiga hins vegar tilgreind sérstaklega sem ein tegund af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, sem sýni að löggjafinn telji fjármögnunarleigustarfsemi ekki vera lánastarfsemi. Sama aðgreining sé gerð á útlánum og fjármögnunarleigu í viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Framangreindar tilvitnanir í lög um fjármálafyrirtæki bendi skýrlega til þess að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Forsaga laganna styðji einnig við þetta sjónarmið.

         Við túlkun og mat á því hvort hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur aðila sé leigusamningur eða lánssamningur beri að horfa á samninginn heildstætt og varast að láta einstök atriði hafa úrslitaáhrif hvað þetta varði. Af framangreindu leiði að um leigusamning sé að ræða frekar en lánssamning, en það sé einnig stutt af framkvæmd í nágrannalöndum Íslands og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem lagagildi hafa á Íslandi.

         Í málsástæðukafla í stefnu nefni stefnandi ýmis atriði sem hann telji að styðji það að hinn umþrætta fjármögnunarleigusamning eigi frekar að flokka sem lánssamning en leigusamning. Þau atriði sem stefnandi byggi þetta á séu m.a. eftirfarandi: 

         Stefnandi byggi á því að skilmálar umþrætts fjármögnunarleigusamnings séu  hliðstæðir skilmálum þeim er Hæstiréttur hafi fjallað um í dómi réttarins frá 12. desember 2013, mál nr. 430/2013 (Flugastraumur). Í þeim dómi hafi verið til umfjöllunar deila aðila um það hvort fjármögnunarleigusamningur frá Landsbankanum hf. (hér eftir nefnt ,,SP“) væri lánssamningur eða leigusamningur. Niðurstaða heildarmats í þeim dómi hafi verið á þá leið að um lánssamning væri að ræða. Stefndi telji að sá dómur sé ekki fordæmisgefandi í þessu máli enda um ólíkar málsástæður, samningsform og önnur atvik að ræða. Í því sambandi megi m.a. nefna eftirfarandi. Í upphafi samnings SP hafi komið fram að SP væri nefnt ,,eigandi” og Flugastraumur nefndur ,,notandi”. Í formi Lýsingar komi hins vegar skýrt fram í upphafi samnings að Lýsing sé ,,leigusali” og Hagvagnar hf. er ,,leigutaki”. Í Smákranamáli (nr. 652/2011) komi fram að stöðluð ákvæði samnings Lýsingar hf. séu skýr og eigi einungis við um fjármögnunarleigusamninga. Samhliða undirritun samnings SP hafi verið undirrituð yfirlýsing um bindandi kauptilboð á milli aðila og hafi Hæstiréttur talið að hún væri afar ruglingsleg og ræki þar sig hvað á annars horn. 

Réttarstaðan í lok grunnleigutímans sé verulega frábrugðin í samningi Lýsingar hf. annars vegar og samningi SP hins vegar. Í 6. gr. í samningsformi Lýsingar hf. komi skýrt fram að framhaldsleiga hefjist að grunnleigutíma loknum og leiga á framhalds-leigutímabili sé skilgreind. Í 12. gr. sama samnings komi skýrt fram að samningurinn framlengist ótímabundið að grunnleigutíma loknum en leigutaki geti þó sagt hinum framlengda samningi upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í yfirlýsingunni sem undirrituð hafi verið samhliða SP samningnum hafi hins vegar komið fram að notandi, lofi eiganda, SP, að afla eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok frumleigutíma, bindandi kauptilboðs í leigumun og verði tilboðsgjafi að vera reiðubúinn að greiða 3% af kaupverði munar skv. leigusamningi en tækist notanda það ekki væri hann skuldbundinn til að framlengja samninginn. Hæstiréttur hafi túlkað efni yfirlýsingarinnar á þá leið að stefndi skyldi sjálfkrafa og án þess að til frekari greiðslna kæmi verða í lok grunnleigutíma eigandi dráttarvélarinnar eða í það minnsta eiga rétt til að kaupa hana kysi hann svo. Ekki hafi hins vegar verið heimild í samningi SP fjármögnunar til þess að skila leigumun í lok grunnleiguleigutímans á sama hátt og heimilt sé í formi Lýsingar. Í Flugastraumsdómi Hæstaréttar hafi komið fram að mörg ákvæði í samningi SP bentu frekar til þess að um lánssamning væri að ræða en leigusamning. Þessu hafi hins vegar verið öfugt farið í Smákranamálinu því þar hafi komið fram í dómi Hæstaréttar að stöðluð ákvæði samnings Lýsingar hf. væru skýr og ættu einungis við um fjármögnunarleigu-samninga. Tekið skuli fram að Lýsing hf. hafi lagt mikið upp úr því í málinu að sýna fram á það að ákvæði samningsforms Lýsingar hf. væru sambærileg og í fjármögnunarleigusamningum í Noregi og Danmörku. Það sama eigi ekki við um samning SP enda sé yfirlýsingin um bindandi kauptilboð og fleira í tengslum við samninginn ekki í samræmi við slíka erlenda samninga. Í 34. gr. samnings Lýsingar hf. komi fram að engar breytingar megi gera á samningnum nema með skriflegum viðauka. Ekkert sambærilegt ákvæði sé í samningi SP. Í yfirlýsingunni sem undirrituð hafi verið samhliða fjármögnunarleigusamningnum við Flugastraum komi hins vegar fram í síðustu mgr. að samkomulagið skv. yfirlýsingunni fæli í sér breytingar og viðbót við fyrrgreindan leigusamning, sbr. einkum greinar II-C og 4. mgr. og 6. mgr. 2. gr. samningsins. Ekki hafi verið byggt á því í Flugastraumsmálinu að gefnir hefðu verið út leigureikningar. Í þessu máli byggi stefndi hins vegar á því að leiga hafi verið innheimt með reikningum þar sem skýrt hafi verið tekið fram að um leigureikninga væri að ræða.

         Í stefnu leggi stefnandi upp úr því að hann hafi haft frumkvæði að því að velja leiguandlagið hjá söluaðila og komið fram gagnvart seljanda sem kaupandi. Stefndi mótmæli fullyrðingu í stefnu um að þetta bendi til þess að stefnandi hafi í raun keypt bílana. Stefndi bendi einnig á að þetta atriði geti ekki skipt máli í því sambandi hvort líta beri á samning aðila sem leigusamning eða lánssamning enda algengt að sá háttur sé hafður á varðandi fjármögnunarleigusamninga að leigutakinn velji leigumuninn  sem hann vilji taka á leigu hjá fjármögnunarleigufyrirtæki. Þannig hafi aðstaðan t.d. verið í máli skv. dómi Hæstaréttar nr. 652/2011 (Smákranamál). Tekið skuli fram að í 16. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila sé beinlínis gert ráð fyrir því að stefnandi velji leigumuninn. Í þessu sambandi megi einnig vísa til norrænna fjármögnunar-leigusamninga, sbr. b-c lið 2. gr. danska fjármögnunarleigu-samningsformsins sem fyrir liggi í málinu. Þá mótmæli stefndi fullyrðingu stefnanda um að ástæða þess að hann hafi verið skráður eigandi hafi verið tryggingalegs eðlis sem fráleitri.

         Stefnandi komi einnig inn á það að vandséð sé hvað upplýsingar um seljanda hins leigða og leigugrunn hafi að gegna í samningi aðila. Stefndi vilji í þessu sambandi benda á að það sé algengt í fjármögnunarleigusamningum að tilgreina hver sé seljandi hins leigða og ekkert óeðlilegt við það. Að auki vilji stefndi benda á að í stefnunni sé um misskilning hjá stefnanda að ræða á hugtakinu ,,leigugrunnur“ og vísist um rétta skilgreiningu á því til síðari umfjöllunar. Hér megi þó geta þess að í hrd. 652/2011 (Smákranamál)  sé komið inn á það í forsendum Hæstaréttar að leigugrunnur komi fram í 2. gr. samnings aðila og síðar í sama dómi komi fram að stöðluð ákvæði samningsins séu skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunar-leigusamninga.

         Í síðustu málsgreininni á bls. 4 í stefnu komi stefnandi með þá ótrúlegu fullyrðingu að efni skilmálanna sé fyrst og fremst sniðið að kaupleigusamningum. Fullyrðing þessi standist engan veginn og megi í þessu sambandi enn einu sinni minna á að í Smákranamálinu hafi komið fram að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga.

         Í síðustu málsgreininni á bls. 4-5 í stefnu byggi stefnandi einnig á því að samningsgreiðslur séu ekki tengdar afnotum og að það bendi til þess að ekki sé um leigusamning að ræða. Stefndi mótmæli þessu sem röngu. Það sé ekkert óeðlilegt við ákvæði 19. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila um að stefnandi þurfi að greiða leigu jafnvel þó seljandi vanefni samning sinn við stefnda. Rétt sé að benda á að stefnanda virðist hafa sést yfir að þetta geti leitt til lækkunar á leigu eins og skýrt komi fram í 19. gr. Það sé heldur ekkert óeðlilegt við ákvæði 16. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila að leigusali taki ekki ábyrgð á hinu leigða, svo sem í þeim tilvikum sem leigutaki sé ekki ánægður með leigumunina, enda sé það leigutaki sjálfur sem velji leigumunina en ekki leigusali. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að 16. og 19. gr. séu í samræmi við skilgreiningu á fjármögnunarleiguhugtakinu í 4. og 8. gr. IAS 17 þar sem fram komi að fjármögnunarleiga sé leigusamningur þar sem svo til öll áhætta sem fylgi eignarhaldi á eign sé yfirfærð til leigutaka. Í þessu sambandi megi einnig vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. 5. tl. 4. gr. og 7. gr. danska fjármögnunar-leigusamningsformsins.

         Stefnandi bendi á að í skilmálum samnings aðila sé gengið út frá því að við vanefndir geti stefndi rift samningnum og allt að einu krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka grunnleigutíma samningsins. Telji stefnandi að þetta bendi til þess að um lánssamning sé að ræða. Ákvæðið um að við riftun af hálfu leigusala geti hann krafið leigutaka um alla ógjaldfallna grunnleigu sé að finna í 1. tl. 30. gr. samningsins. Jafnvel þó að slíkt ákvæði sé óhefðbundið í leigusamningum sé ekkert sem banni það að hafa slíkt ákvæði í leigusamningum. Horfa þurfi á þetta ákvæði í tengslum við önnur ákvæði í 30. gr. samningsins og það að við riftun fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Þannig sé t.d. kveðið á um það í 4. tl. 30. gr. samningsins að frá skuld leigutaka við Lýsingu hf. skv. tl. 1-3 skuli draga verðmat hins leigða. Taka þurfi mið af því við skýringu á þessu ákvæði að oft á tíðum séu leigumunir sérhæft lausafé sem úreldist hratt og erfitt sé að endurleigja og því sé nauðsynlegt að hafa inni ákvæði í samningum á þá leið að leigutaki verði að greiða ógjaldfallna grunnleigu til að minnka líkur á því að leigusali verði fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna vanefnda leigutaka.

         Uppgjörsreglur vegna vanskila í umræddum fjármögnunarleigusamningi séu þær sömu og uppgjörsreglur í kjölfar riftunar í norrænum fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 15. gr. í danska samningsforminu og í 7. gr. í norska samningsforminu. Uppgjörsreglurnar byggi á því að í framhaldi af riftun fjármögnunarleigusamnings fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Inn í þetta spili einnig að í mörgum tilvikum sé hið leigða í mjög slæmu ástandi við riftun og vörslusviptingu og leiga til þriðja aðila því ómöguleg. Hugsunin á bak við 1. tl. 30. gr. samningsskilmálanna hjá stefnda sé því að geta krafið um áframhaldandi leigu sem ígildi skaðabóta í formi efndabóta innan samninga vegna samningsrofa. Í efndabótakröfunni felist að gera stöðu leigusalans þá sömu og samningurinn hafi verið efndur að fullu á þann hátt að leigusalinn fái ígildi framtíðarleigugreiðslna að frádregnu verðmæti leiguandlagsins. Líta megi á heimildarákvæðið í 1. tl. 30. gr. samningsins og uppgjör skv. henni sem mögulegar skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa. Undir þá túlkun sé tekið í fyrirliggjandi  ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra nr. 656/1994. Stefndi telji að með því að beita heildstæðu mati á 30. gr. samningsins, standist sú fullyrðing stefnanda ekki að 30. gr. bendi til þess að um lánssamning sé að ræða.

         Í stefnu byggi stefnandi á því að þar sem í skilmálum samnings aðila séu ákvæði um vexti, bendi það til þess að um lánssamning sé að ræða. Stefndi mótmæli þessu og byggi það á eftirfarandi rökum. Hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur aðila beri alls ekki vexti og því sé hér um misskilning að ræða hjá stefnanda. Tilvísun til vaxta í fjármögnunarleigusamningnum sé einungis sett fram sem viðmiðun fyrir ákvörðun leigugreiðslna en breyti ekki skýru inntaki samningsins sem sé samkvæmt formi og efni dæmigerður fjármögnunarleigusamningur. Stefndi bendi á að hér sé um að ræða sömu málsástæðu af hálfu stefnanda og fjallað hafi verið um í hrd. 652/2011 og ekki verið talin benda til þess að um lánssamning væri að ræða. Í 10. gr. fjármögnunarleigusamningsins komi fram hvaða vaxtaviðmið notast hafi verið við þegar leigugreiðslur hafi verið ákvarðaðar í upphafi og sé þetta sambærilegt við það þegar grunnvísitölu sé getið í hefðbundnum húsaleigusamningum. Í 2. mgr. 13. gr. samningsins sé síðan tekið fram að stefnda sé heimilt að endurreikna leigugreiðslur skv. breytingum sem verði á LIBOR vöxtum þess erlenda eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Hækki eða lækki LIBOR vextir hafi það síðan áhrif á fjárhæð einstakra leigugreiðslna. Í fjármögnunarleigusamningnum sé byggt á ákveðnum leigugrunni sem taki mið af breytingum út frá gengi tiltekinna gjaldmiðla og LIBOR vöxtum. Leigutaki greiði leigugreiðslur á grundvelli þess leigugrunns auk virðisaukaskatts á hverja greiðslu. Vaxtaviðmiðið sé einn þáttur í heildarleiguverðinu. Heildarleiguverðið eigi síðan að miðast við það að þegar tiltekinn lágmarksleigutími sé liðinn hafi leigusali fengið greitt til baka, því sem næst, kaupverðið ásamt kostnaði og þeirri ávöxtun sem leigusalinn telji sig þurfa, samanber skilgreiningu á vöxtum í 4. gr. á bls. 4 og d-lið 10. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins um leigusamninga. Í fjármögnunarleigusamningi aðila komi þannig ekkert fram um að leigugreiðslur beri vexti, heldur sé byggt á ákveðnum leigugrunni, sem taki mið af því að við ákvörðun leigugjalds og lágmarksleigutíma hafi stefndi fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar sem stefndi þurfi að greiða á leigutímanum vegna eigin fjármögnunar á leigumuninum hjá erlendum fjármögnunaraðilum sínum. Vaxtakostnaður stefnda sé því innbyggður í leigugjaldinu en ekki sé um það að ræða að vextir bætist við einstakar leigugreiðslur. Sambærilegar viðmiðunarheimildir séu algengar í íslenskum leigusamningum og megi í þessu sambandi m.a. vísa í 37. gr. laga nr. 36/1994 um húsaleigu. Í þessu sambandi sé einnig vísað til dóms Hæstaréttar nr. 98/1978 (1980/1291). Þessi tenging sé því ekkert óeðlilegri en þegar t.d. húsaleigusamningar séu tengdir hækkunum sem verði á neysluvísitölu frá ákveðinni grunnvísitölu við upphaf leigutíma. Þegar alþjóðlegir LIBOR vextir hækki hafi það áhrif á fjármögnunarkostnað stefnda gagnvart erlendum fjármögnunaraðilum og þar með á leigugrunninn sem verði til þess að einstakar leigugreiðslur hækki. Stefndi hefði eins getað áætlað ávöxtunarkröfu inn í leigugreiðslur strax frá upphafi og jafnframt metið til fjár þá áhættu sem hann hafði af mögulegum gengisbreytingum og vaxtahækkunum. Samningsaðilar hafi hins vegar kosið að koma þessari áhættu inn í samninginn með þeim hætti sem gert hafi verið enda hefði stefnandi notið góðs af því ef þróun gengis og vaxta hefði orðið með gagnstæðum hætti. Það sé ekkert sem banni stefnda að áskilja sér breytingar á fjárhæð leigugreiðslna á þann hátt að hækkun á LIBOR vöxtum á tilgreindum myntum hafi áhrif á leigugreiðslur til hækkunar. Megi í þessu sambandi vísa til síðustu mgr. 4. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins um leigusamninga en þar sé gert ráð fyrir samskonar breytingum á leigufjárhæðum. Þar sé slíkt kallað ,,skilyrt leiga“ og sé nánar skilgreint sem sá hluti leigunnar sem ekki sé föst fjárhæð, heldur miðast við aðra þætti en framrás tímans eingöngu (t.d. hundraðshluti af sölu, notkun verðvísitalna og markaðsvaxta). Einnig sé gert ráð fyrir þessu í 5. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins. Sambærileg ákvæði um vaxta- og gengisviðmið og séu í samningi stefnda megi finna í leigusamningum um fjármögnunarleigu hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Í því sambandi megi vísa í 2. tl. e í 1. gr. og 2. – 3. tl. 4. gr. í danska samningsforminu og í 5. og 9. gr. í norska samningsforminu. Tekið skuli fram að ákvæði um vexti séu ekki tilgreind á leigureikningum sem stefndi hafi sent stefnanda enda beri einstakar leigugreiðslur ekki vexti. Stefndi telji að þegar horft sé til þeirra sjónarmiða sem hér hafi verið rakin og ákvæða alþjóðlegra reikningsskilastaðla, þá bendi heimildir stefnda til að hækka leigugreiðslur í samræmi við hækkanir á LIBOR vöxtum, ekki til þess að frekar sé um lánssamning að ræða, heldur en leigusamning og þá sérstaklega þegar horft sé til forms og efnis fjármögnunarleigusamningsins í heild. Stefnandi vísi máli sínu til stuðnings til óundirritaðs greiðsluyfirlits sem fylgt hafi samningnum. Greiðsluyfirlitið sé ekki hluti af samningi aðila. Það sýni hvernig leigugreiðslur geti orðið ef ekki verði breytingar á vaxtaviðmiði eða gengi. Greiðsluyfirlitið sé lagt fram til að auðvelda leigutaka áætlanagerð og styðji ekki fullyrðingar stefnanda að um lán sé að ræða.

         Í síðasta málslið 5. mgr. á bls. 5 í stefnu haldi stefnandi því fram að kaupleigusamningar / eignaleigusamningar séu útlán. Stefndi hafni þessu sem röngu. Í fyrsta lagi sé rétt að benda á að stefnandi virðist í framangreindri tilgreiningu halda því fram að kaupleigusamningur og eignaleigusamningur séu hið sama sem sé rangt, því að hugtakið eignaleigusamningur sé yfirheiti og undir það falli, m.a.: rekstraleigusamningar, kaupleigusamningar og fjármögnunarleigusamningar. Í öðru lagi sé rangt að halda því fram að kaupleigusamningar séu alltaf útlán eins og stefnandi haldi fram. Hið rétta sé að skoða verði innihald hvers samnings í heild þegar meta eigi hvort um lánssamning eða leigusamning sé að ræða eins og bent hafi verið á í dómum Hæstaréttar.

         Í stefnu byggi stefnandi á því að svo hafi um samist munnlega á milli stefnanda og stefnda að stefnandi eignaðist samningsandlagið gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu í lok grunnleigutíma samningsins, þrátt fyrir að í samningnum sjálfum sé ekki að finna ákvæði sem að þessu lúta. Stefndi telji að framangreindar fullyrðingar stefnanda hafi ekkert vægi þegar túlka þurfi samning aðila, m.t.t. þess hvort að um leigusamning eða lánssamning sé að ræða. Stefndi byggi á því að í 12. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningurinn ótímabundið skv. 6. gr. samningsins. Í lok 12. gr. komi síðan fram að leigutaki geti sagt hinum framlengda samningi upp skriflega enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því nema leigutaki vilji skila leigumun. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumuninn á framhaldsleigu allt þar til að leigumunurinn sé orðinn úr sér genginn eða ónothæfur. Þetta sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum þar sem leigutaki verði að jafnaði sjálfkrafa eigandi hins leigða í lok leigutímans án sérstakrar greiðslu eða frekari samninga. Stefndi vísi hér einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reikningsskilastaðalsins þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunar-leigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Þegar beiðnir berist til stefnda um að kaupa leigumun sé það skoðað í hverju tilviki og m.a. horft á það hvort viðkomandi leigutaki sé með viðkomandi leigusamning eða aðra samninga í vanskilum. Ef um slík vanskil sé að ræða sé leigutaka að sjálfsögðu neitað um að kaupa hið leigða. Sé tekin ákvörðun um sölu á hinu leigða við lok grunnleigutímans sé gengið frá sölunni með sölureikningi / afsali samhliða greiðslu á kaupverðinu. Stefndi sé ekki, frekar en önnur eignaleigufyrirtæki, í þeim viðskiptum, að safna að sér gömlum leigumunum sem skilað hafi verið í lok grunnleigutímans, heldur leitist við að selja eða losna við munina þannig að félagið hafi a.m.k. ekki kostnað af. Í mörgum tilvikum sé eðlilegast að kaupandi leigumunar sé leigutakinn sjálfur, enda þekki hann leigumuninn og hafi væntanlega not fyrir hann. Sé tekin ákvörðun um sölu eftir lok grunnleigutímans, sé um sjálfstæðan samning að ræða sem breyti ekki eðli hins upphaflega fjármögnunarleigusamnings og breyti honum þannig ekki úr fjármögnunar-leigusamningi í kaupleigusamning og enn síður í lánssamning eða ígildi hans. Þessu til stuðnings megi vísa í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í 4. gr. IAS 17 alþjóðlega reikningsskilastaðalsins um leigusamninga, þar sem fram komi að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljast þar með leigusamningar. Í 6. gr. IAS 17 komi skýrt fram að skilgreiningin á leigusamningi taki til samninga um leigu á eign sem feli í sér ákvæði sem gefi leigutaka kost á að öðlast eignarrétt á eigninni þegar umsamin skilyrði séu uppfyllt og að slíkir samningar séu stundum nefndir kaupleigusamningar. Þar sem þessir samningar teljist leigusamningar falli þeir því ekki undir það að vera lánssamningar og þar af leiðandi eiga þessir samningar ekki undir ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Í gr. 10 a í IAS 17 reikningsskilastaðlinum sé einnig gert ráð fyrir því að eignarhaldið skv. fjármögnunarleigusamningi geti færst á milli aðila í lok grunnleigutímans. Í gr. 10 b í staðlinum sé gert ráð fyrir því að í fjármögnunarleigusamningum geti verið ákvæði um kauprétt leigutaka á verði sem vænta megi að sé nægilega mikið undir gangvirði, daginn sem kauprétturinn verði nýtanlegur, þannig að nokkuð víst sé við upphaf samningstímans að kauprétturinn verði nýttur. Skv. þessu sé ljóst að viðkomandi reikningsskilastaðall um leigusamninga, sem innleiddur hafi verið með reglugerð sem hafi lagagildi hér á landi, gangi út frá því að það skipti engu máli hvort eignarréttur kunni eða kunni ekki að færast á milli aðila að lokum og hvort samið sé um kauprétt eða ekki við lok grunnleigutímans, viðkomandi samningur sé í öllum tilvikum leigusamningur. Hefði stefnandi talið að 12. gr. ætti ekki við hefði hann átt að óska eftir því að sú grein yrði strikuð út og ný grein sett í hennar stað en það hafi hann ekki gert. Í 35. gr. samninganna sé sérstaklega tekið fram með feitu letri að stefnandi (leigutaki) hafi kynnt sér og hafi ekkert við að athuga alla skilmála samningsins.  Stefndi byggi á því að stefnandi sé bundinn af staðfestingu sinni á endanlegu innihaldi samnings aðila.

         Í stefnu sé byggt á því að samið hafi verið um kauprétt og að það fái stoð í gögnum málsins. Stefnandi byggi á því í fyrsta lagi að í tilboði stefnda til stefnanda hafi verið staðfesting á umræddum kauprétti. Um sé að ræða bréf frá stefnda til stefnanda og sé það dagsett, 3. október 2007. Í skjalinu kemur fram að miðað sé við fjármögnunarleigu og þar sé einnig skýrt tekið fram að um leigugreiðslur sé að ræða.

Einnig byggi stefnandi á tilvísun í lokagjald á leigureikningnum sem stefndi sendi stefnanda. Hér sé um að ræða sömu málsástæðu og fjallað hafi verið um í hrd. 652/2011 og ekki hafi verið talin benda til þess að samið hefði verið fyrirfram um kaup í lok grunnleigutíma samningsins. Í tilgreindum leigureikningum komi aðeins fram hvert sé núvirði ógreiddrar leigu án virðisaukaskatts og lokagjalds. Stefndi telji að í framangreindu orðalagi geti á engan hátt falist að samist hafi um kauprétt á milli aðila í lok grunnleigutímans. Hér megi einnig benda á að ekkert ákvæði sé um lokagjald í fjármögnunarleigusamningi aðila og að það sé ekki óalgengt í viðskiptalífinu að í leigusamninga séu sett ákvæði um: forkaupsrétt-, forleigurétt eða kauprétt. Þrátt fyrir tilveru slíkra ákvæða breytist ekki eðli leigusamnings úr því að vera leigusamningur, yfir í það að vera lánssamningur. Við mat á því hvort í gildi hafi verið á milli aðila samningur um kauprétt vilji stefndi benda alveg sérstaklega á 34. gr. í hinum umþrætta samningi aðila. Í 34. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila komi skýrlega fram að breytingar á samningnum megi aðeins gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Með 34. gr. hafi leikreglurnar verið ákveðnar á milli aðila um það hvernig hægt væri að breyta samningnum síðar meir, þ.e.a.s. að gerð hafi verið krafa um skriflegan viðauka. Enginn skriflegur viðauki hafi verið útbúinn á milli aðila sem breyti réttarstöðunni við lok grunnleigutímans frá því sem ákveðið sé í 12. gr. í hinum umþrætta fjármögnunarleigusamningi aðila. Aðilar samningsins hafi virt ákvæði 34. gr. við framkvæmd samningsins. Í þessu sambandi hafi verið gengið frá skriflegum viðauka á grundvelli 34. gr. þegar stefnandi hafi lent í vandræðum með leigugreiðslurnar og óskað eftir tilhliðrun. Í dómskjali nr. 5 megi sjá nokkur dæmi um slíka skriflega viðauka. Á bls. 1 á dómskjali 5 komi m.a. fram að grunnleigutími samningsins hafi verið lengdur til 20. ágúst 2013. Engar breytingar hafi hins vegar verið gerðar á 6. og 12. gr. samningsins séu þær því í fullu gildi. Tekið skuli fram að í fyrrgreindu breytingarskjali lýsi aðilar samnings því jafnframt yfir að þeir hafi kynnt sér allar greinar samningsins og samþykkt án athugasemda. Hefði stefnandi talið að 12. gr. ætti ekki við hefði hann hér einnig átt að gera athugasemd við það við þetta tækifæri en það hafi hann ekki gert heldur lýst því yfir að hann sætti sig við allar greinar samningsins. Í hinum breytingarskjölunum lýsi aðilar því jafnframt yfir að utan breytinganna sé samningurinn að öðru leyti óbreyttur. Hafi því engar breytingar verið gerðar á 6. og 12. gr. samningsins eins og áður hafi komið fram. Stefnandi bendi á það í stefnunni að á einum stað í breytingaskjölunum komi fram orðin ,,samnings / láns“ og að það bendi til þess að stefndi hafi litið á samninginn sem lán. Stefndi hafni þessu sem röngu. Hér slíti stefnandi hlutina úr samhengi og með lestri skjalsins sjáist greinilega að átt sé við leigusamning og þar séu notuð hugtökin ,,leigutaki“ og ,,leigumunur“ og stefnandi skrifi undir viðaukann í reit sem merktur sé ,,f.h. leigutaka“. Jafnvel þó að stefnanda tækist að sanna að samið hafi verið um kauprétt honum til handa í upphafi, hafi það ekkert vægi því skýrlega sé tekið fram í samningi aðila að allar slíkar breytingar á efni fjármögnunarleigusamnings aðila skuli gerðar með skriflegum viðauka.

         Stefnandi byggi á því á bls. 3-4 í stefnu að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur innihaldi ólögmæta gengistryggingu þar sem um lánssamning sé að ræða og að óheimilt hafi verið að gengistryggja hann, sökum ákvæða 13. og 14. gr. l. 38/2001. Stefndi mótmæli þessu og bendi m.a. á að honum sé heimilt að láta leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningi taka mið af gengi erlendra mynta vegna þess að um sé að ræða leigusamning en þeir falli ekki undir ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Af dómaframkvæmd megi ráða að við mat á lögmæti verðtryggingar verði að gera greinarmun á hreinum fjárskuldbindingum eða peningalánaviðskiptum annars vegar og gagnkvæmum samningum hins vegar, en hvað síðarnefnda atriðið varði eigi báðir samningsaðilar að inna af hendi framlög á tilteknu tímamarki eftir samningsgerð, t.d. húsaleigusamningar, verksamningar og kaupsamningar um fasteignir. Lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafi í dómum ekki verið talin ná til þeirra gagnkvæmu samninga, sem hér hafi verið vitnað til. Í þessu sambandi megi nefna dóm Hæstaréttar Íslands nr. 98/1978 (1980:1291) og áður nefndan dóm í máli nr. 652/2011 (Smákranamál).

         Stefndi byggi í máli þessu á reglunni um samningsfrelsi. Í þeirri reglu felist m.a. að aðilar samnings eigi forræði á því, hvers efnis sá samningur sé, sem þeir gera, þ.e. hvernig þeir ráðstafi réttindum sínum með samningum og undir hvaða skuldbindingar þeir gangist. Af sama meiði sé meginregla leiguréttar um að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Meginregla þessi komi m.a. fram í 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Meginreglan um samningsfrelsi aðila í viðskiptum geri það að verkum að gengisviðmiðun sé heimil nema skýrt sé tekið fram í lögum að svo sé ekki. Ekkert lagaákvæði sé í íslenskum lögum sem banni slíka gengisviðmiðun í leigusamningum  og sér hún því heimil.

         Stefndi telji að við túlkun á því hvort að um leigusamning eða lánssamning sé að ræða verði að taka mið af forsendum samningsaðila við samningsgerðina. Stefndi byggi á því að við gerð fjármögnunarleigusamningsins hafi báðum aðilum verið það ljóst að gengisáhrif fylgdu því að hafa samninginn gengistryggðan og hafi stefnandi tekið mið af því þegar hann hafi valið að gera gengistryggðan fjármögnunar-leigusamning. Stefndi bendi á í þessu sambandi að í rökstuddu áliti eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. maí 2013 sé sérstaklega komið inn á það að hin íslenska löggjöf um bann við gengistryggingu samrýmist ekki meðalhófsreglu og þetta sjónarmið eigi alveg sérstaklega við um lögpersónur þar sem sá hópur hafi nauðsynleg efni og aðstöðu til að meta áhættu á fullnægjandi hátt þegar hugað sé að gengistryggðum lánssamningi. Það hafi verið forsenda af hálfu stefnda að þar sem um gengistryggðan leigusamning væri að ræða, að þá skyldu endurgreiðslur bundnar gengi á hinum erlendu myntum sem stefnandi hafi valið og að við ákvörðun leigugreiðslna skyldi taka mið af LIBOR vöxtum með nánar tilgreindu álagi. Stefnanda hafi mátti vera þessi forsenda ljós. Um hafi verið að ræða verulega forsendu sem verið hafi ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að ganga til samningsgerðarinnar. Gengisviðmiðunin hafi haft úrslitaáhrif á samning aðila um vaxtaviðmiðun. Sjáist það vel á þeirri staðreynd að mun hærri vaxtaviðmiðun hafi ávallt verið hjá stefnda á þeim samningum sem ekki séu með gengisviðmið. Hvað forsendur varði sé í öðru lagi á því byggt að stefnandi hafi þekkt forsenduna hvað varði gengistrygginguna og vitað að hún hafi verið ákvörðunarástæða fyrir vaxtaviðmiði samningsins. Verði að telja að góður og gegn leigutaki hafi fyllilega gert sér grein fyrir því að gengistrygging fjármögnunarleigusamningsins væri  forsenda þeirrar vaxtaviðmiðunar sem í boði hafi verið. Hvað forsendur varði sé í þriðja lagi byggt á því að það sé sanngjarnt og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að gengistrygging sé reiknuð á fjármögnunarleigu-samning aðila. Önnur niðurstaða leiði til þess að gæðum verði mjög misskipt á milli aðila samningssambandsins. Eins og fram hafi komið hafi gengistryggingin verið forsenda þess að hægt væri að hafa jafn lága vaxtaviðmiðun og raun hafi orðið á og verði niðurstaðan sú að bannað verði að reikna gengistryggingu á samninginn fái stefnandi leigukjör sem engum öðrum hafi boðist, á kostnað stefnda. Þá yrði um óeðlilega auðgun stefnanda að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum. Þegar framangreindar forsendur séu hafðar í huga, og með því að beita sanngirnismælikvarða við túlkun á samningi aðila, telji stefndi rétt að miða við að fjármögnunarleigusamningur aðila sé leigusamningur, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að reikna upp með gengisviðmiðun þeirri sem aðilar hafi samið um.

         Verði ekki fallist á það að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur aðila sé leigusamningur og talið að um lánssamning sé að ræða byggi stefndi á því að samningurinn sé ekki íslenskur lánssamningur með ólögmætum gengistryggingar-ákvæðum, sem fari gegn ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001, heldur sé um lögmætan samning í erlendum myntum að ræða, en lán í erlendri mynt falla ekki undir bannreglur VI. kafla vaxtalaganna og því byggi stefndi á því að gengisviðmiðun fjármögnunarleigusamningsins sé lögmæt. Bent skuli á að í 2. gr. fjármögnunar-leigusamnings aðila sé leigugrunnur tilgreindur nákvæmlega í erlendum myntum og tilgreining erlendra mynta komi einnig fram á leigureikningum sem stefndi hafi sent stefnanda. Skýrt sé tekið fram í dómum Hæstaréttar nr. 520/2011 og 551/2011 að skv. forsendum dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 fari skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum laga nr. 38/2001.

         Í máli þessu byggi stefnandi á endurgreiðslu á því sem hann vill meina að hann hafi ofgreitt. Komi til þess að fallist verði á endurkröfurétt stefnanda byggi stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti og að um endurkröfuna gildi fjögra ára fyrningarfrestur, sbr. lög nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda. Slit fyrningar hafi verið við stefnubirtingu þann 27. desember 2013 og séu því allar endurgreiðslur vegna greiðslna sem átt hafa sér stað fyrir 27. desember 2009, fyrndar.

         Ef dómurinn telji af einhverjum ástæðum að hinn umþrætti fjármögnunarleigu-samningur aðila sé lánssamningur en ekki leigusamningur og að hann sé í íslenskum krónum og með ólögmætri gengistryggingu og geti því sem slíkur fallið undir lög um vexti og verðtryggingu, sé einnig byggt á því að 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir nefndur ,,EES samningurinn“), en sá samningur hafi verið lögleiddur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Fallist dómurinn á þessa málsástæðu stefnda telji stefndi að það eigi að leiða til þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Nánar tiltekið styðji stefndi kröfur sínar við 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993. Með þeim hafi meginmál EES samningsins verið lögleitt og mælt fyrir um að lög og reglur skuli skýrðar, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES samninginn. Í þessu sambandi sé einnig rétt að vekja athygli á markmiði EES samningsins um myndun einsleits markaðssvæðis, sbr. og 1. gr. samningsins, og skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. og 3. gr. hans. Þessar skyldur nái til allra eininga ríkisvaldsins, einnig dómstóla. Vísað sé til 40. gr. EES samningsins sem kveði á um að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir séu í aðildarríkjum EB eða EFTA né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð sé notað til fjárfestingar, sbr. einnig tilskipun 88/3617EEC, sem vísað sé til í XII viðauka við EES samninginn. Með ákvæðinu um frjálsa fjármagnsflutninga sé verið að vernda markaðsaðgang einstaklinga og lögaðila á þessu sviði. Stefndi telji að ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga um bann við gengistryggingu brjóti gegn framangreindu ákvæði um frelsi til fjármagnsflutninga. Við mat á því hvort bann við gengistryggingu í vaxtalögunum brjóti gegn reglunni um frelsi til fjármagnsflutninga beri að hafa í huga hvernig stefndi hafi fjármagnað sig, þegar gerðir hafi verið gengistryggðir fjármögnunar-leigusamningar eins og hinir umþrættu samningar í máli þessu. Það sem efnislega hafi átt sér stað hafi verið að stefndi hafi fjármagnað sig í erlendri mynt. Þessum myntum hafi stefndi síðan breytt í íslenskar krónur áður en hann hafi greitt seljanda viðkomandi leiguandlags í þeim tilvikum sem seljandinn hafi verið á Íslandi. Í þeim tilvikum sem leigan hafi verið greidd í krónum hafi stefndi breytt þeim í erlenda mynt á gengi greiðsludaga og greitt til síns erlenda fjármögnunaraðila. Því hafi hér í raun verið um fjármögnun í erlendri mynt að ræða með því eina fráviki að stefndi hafi selt og keypt viðkomandi gjaldmiðla í stað leigutaka, honum til hagsbóta. Slík framkvæmd sé hefðbundin fjármálaþjónusta. Ákvæði 40. gr. EES samningsins hafi lagagildi hér á landi sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 og því byggi stefndi á því að ákvæðið sem fjalli eins og áður segi um frjálst flæði fjármagns hafi forgang fram yfir ósamrýmanleg síðar til komin lagaákvæði eins og 13.  – 14. gr. vaxtalaga. Þessi forgangsáhrif komi einnig skýrt fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til EES laganna en í 3. mgr. athugasemda við 3. gr. frumvarpsins komi eftirfarandi fram: „Í 3. gr. felst m.a. að innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu.“ Í þessu sambandi sé rétt að geta þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi tekið undir framangreind sjónarmið í formlegu athugasemdabréfi (e. Letter of Formal Notice) sem sent hafi verið íslenskum stjórnvöldum þann 19. apríl 2012. Í rökstuddu áliti ESA frá 22. maí 2013 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði gerst brotlegt við EES-samninginn með því að leggja algert bann við veitingu gengistryggðra lána í íslenskum krónum. Á grundvelli þeirra röksemda sem komið hafi fram í þessum kafla telji stefndi að bann 13. og 14. gr. vaxtalaga við gengistryggingu lána hafi í för með sér brot á 40. gr. EES samningsins.

         Stefndi telur að enginn fótur sé fyrir dómkröfum stefnanda og krefst sýknu af þeim. Hvað viðurkenningarkröfuna varðir mótmæli stefndi því að fjármögnunarleigu-samningurinn innihaldi ólögmæta skilmála um verðtryggingu. Um málsástæður stefnda hvað þetta varði sé vísað til allra málsástæðna og lagaraka stefnda sem hafi komið fram fyrr í greinargerð þessari og telji stefndi að framangreindar málsástæður eigi að leiða til sýknu.

         Hvað fjárkröfu stefnanda varði telji stefndi að einnig eigi að sýkna af henni á grundvelli þeirra málsástæðna stefnda sem komið hafi fram í greinargerð þessari. Að auki bendi stefndi á að dómkrafan sé bersýnilega rangt reiknuð, sbr. eftirfarandi.

         Umfjöllunin í stefnunni um dómkröfuna sé sáralítil og algjörlega vanreifuð og byggi einkum á því að vísa til þess að stefnandi hafi óskað eftir því við Talnakönnun að reikna kröfuna út miðað víð ákveðnar forsendur. Að mati stefnda er full ástæða fyrir dómara til að kanna það sjálfstætt hvort ekki sé rétt að vísa þessari dómkröfu frá ex officio vegna vanreifunar. Ekki sé um eðlilegan lánareikning að ræða á dskj. 10 heldur sé þar einungis nálgun á eftirstöðvum sem gefur ekki rétt mynd af rauneftirstöðvum.

         Höfuðstóll sé þar vaxtareiknaður með lægstu óverðtryggðu vöxtum SÍ í hverjum mánuði og áföllnum vöxtum bætt við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Engar afborganir af höfuðstól séu reiknaðar fyrr en 20. október 2013 en þá komi allar greiðslur sem séu vaxtareiknaðar með sama hætti og höfuðstóll til lækkunar á höfuðstól. Farið sé á mis við forsendur við útreikninga texta á dskj. 10. Þær forsendur sé að finna í dskj. nr. 9 en þar séu gefnar eftirfarandi forsendur: „Eftirstöðvar höfuðstóls skulu lækka, ef innborgun er hærri en nemur áföllnum vöxtum þar til höfuðstóll er að fullu greiddur. Eftir það skal vöxtum og greiðslum bætt við höfuðstól“. Eftirstöðvar lækki hins vegar aldrei fyrr en í lok útreiknitímabils þann 20. október 2013, þrátt fyrir að greiðslur berist og þær séu hærri en áfallnir vextir á hverjum tíma. Þannig sé ekki fylgt leiðbeiningum fyrir útreikning frá dskj. 9, þar sem óskað sé eftir að fram komi „bæði áfallnir vextir við hverja greiðslu og einnig eftirstöðvar kröfunnar.“ Hvergi séu sýnilegir áfallnir vextir við hverja greiðslu á höfuðstól, einungis samtölur uppsafnaðra vaxta á hverjum tíma. Í sama bréfi sé óskað eftir því, eins og áður hafi komið fram að „Eftirstöðvar höfuðstóls skuli lækka, ef innborgun er hærri en nemur áföllnum vöxtum þar til höfuðstóll er að fullu greiddur.“ Í útreikningunum lækki höfuðstóll aldrei fyrr en í lok tímabils. Áföllnum vöxtum af greiðslum sé bætt við höfuðstól uppsafnaðra greiðslna þann 1. nóv. 2008, fyrsta greiðslan hafi borist 20. des. 2007 og því ættu áfallnir vextir að bætast við höfuðstól uppsafnaðra greiðslna ári síðar eða þann 20. des. 2008 en ekki 1. nóv. 2008. Þannig sé áföllnum vöxtum af greiðslum bætt við höfuðstól uppsafnaðra greiðslna áður en liðnir séu tólf mánuði, stefnanda í hag, sem ekki sé lagaheimild fyrir. Stefndi telji að framangreind upptalning sýni ljóslega að útreikningar stefnanda séu augljóslega rangir og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda. 

         Stefndi mótmæli öllum kröfum um dráttarvexti sem vanreifuðum og röngum.

Stefndi áskilji sér rétt til að leggja fram gögn á síðari stigum til að vefengja útreikningana enn frekar og til að rökstyðja að stefndi hafi reiknað fjármögnunarleigusamninginn á réttan hátt.

         Hvað seinni viðurkenningarkröfuna varði um að viðurkenndur verði réttur stefnanda til að kaupa af stefnda þar tilgreinda strætisvagna gegn greiðslu þá sé henni einnig mótmælt af hálfu stefnda. Um málsástæður stefnda hvað þetta varði er vísað til allra málsástæðna og lagaraka stefnda í greinargerð hans og telur stefndi að þær eigi að leiða til sýknu. Auk þess sé það byggt á eftirfarandi málsástæðum. Stefnandi eigi engan rétt til til að kaupa strætisvagnana því ekkert komi fram um það í samningi aðila, heldur þvert á móti, sbr. og 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila. Því sé sérstaklega mótmælt að stefnandi eigi rétt á að eignast leigumunina gegn greiðslu 1% lokagjalds enda komi ekkert fram um að slíkt sé honum heimilt í fjármögnunarleigusamningi aðila.

Vísað sé til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. gr., 13. gr. og 14. gr. þeirra laga. Stefndi vísi til þeirrar meginreglu í leigurétti að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Stefndi byggi hér einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu skv. efni sínu. Vísað sé til 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 um samningsfrelsi í leigusamningum. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað sé til 3. tl. 1. mgr. 3. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. mgr. 20. gr. sömu laga varðandi skilgreiningu á eignaleigu og þess að fjármögnunarleiga feli ekki í sér útlánastarfsemi. Einnig sé vísað til viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Vísað sé til 2. - 3. gr. og 40. gr. l. nr. 2/1993 varðandi það að við túlkun á 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 verði að horfa til EES réttar. Vísað sé til þess að í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin sé lögfest. Í samræmi við þetta sé gengið út frá því í greinargerðinni að alþjóðlegur reikningsskilastaðall IAS 17 hafi lagagildi hér á landi. Einnig sé vísað til 12. tl. 2. gr. og 127. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla og að þeir skuli hafa lagagildi hér á landi. Að síðustu sé vísað til reglugerðar 1133/2007 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Forsendur og niðurstaða

         Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fjármögnunarleigusamningur þeirra nr. 144114-119, frá 1. nóvember 2007, sé leigusamningur eða um lánssamning sé að ræða, sem óheimilt hafi verið að binda gengi erlendra gjaldmiðla, líkt og gert hafi verið.

         Af hálfu stefnanda er á því byggt að framangreindur samningur sé samkvæmt efni sínu lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð-tryggingu og því hafi gengistryggingarákvæði hans verið ólögmæt, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til eftirgreindra málsástæðna:

 

1. Stefnandi hafi komið kom einn að kaupum hins leigða og hafi stefndi engin afskipti haft af þeim, önnur en þau að greiða kaupverðið. Bendi það til þess að stefnandi hafi í raun keypt bifreiðarnar en stefndi fjármagnað kaupin og fengið bifreiðarnar skráðar eign sína um stundarsakir til þess að tryggja efndir á greiðslu samningsins. Þetta fái m.a. stoð í 18. gr. hinna almennu skilmála samningsins þar sem segi að leigutaki greiði allan kostnað sem til falli vegna skráningar og eigendaskipta, jafnt við upphaf sem við lok samnings.

 

2. Í sérstökum skilmálum samningsins segi að hið leigða sé þrír strætisvagnar af gerðinni Irisbus Crossway og sé vísað til reikninga frá seljanda. Seljandi sé tilgreindur Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf. og greiðsludagsetning kaupverðs sérstaklega tilgreind. Vandséð sé hvaða tilgangi það þjóni að hafa upplýsingar af þessu tagi í leigusamningi þ.e. tilgreina seljanda hins leigða, vísa til reikninga um kaup hins leigða og greiðsludags kaupverðs.

 

3. Leigugrunnur og kaupverð hins leigða sé lagt að jöfnu. Samningsfjárhæð eigi ekkert erindi í leigusamning þar sem ekki þurfi að tilgreina höfuðstól skuldar eða gengi á útborgunardegi. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

4. Efni hinna almennu skilmála samnings aðila sé fyrst og fremst sniðið að kaupleigusamningum. Þannig segi í 16. gr. skilmálanna að leigutaki hafi valið hið leigða og annist f.h. Lýsingar hf. skoðun þess svo sem kaupanda sé skylt samkvæmt lögum um lausafjárkaup. Lýsing hf. taki enga ábyrgð á leigumun. Í 21. gr. segi að skylda leigutaka til greiðslu leigu falli ekki niður þó notkun hins leigða stöðvist vegna tjóns eða bilunar. Þannig sé ekkert samhengi á milli greiðslna og afnota. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

 

5. Leigugreiðslur samkvæmt samningnum beri vexti, en slíkt samrýmist ekki eðli leigusamninga. Samkvæmt sundurliðaðri greiðsluáætlun, sem sé hluti samningsins, skiptist samningsgreiðslur í vexti og afborganir og séu eftirstöðvar tilgreindar eftir hverja greiðslu. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

 

6. Í 19. gr. samnings aðila segi að leiði vanefndir seljanda til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi, skuli það koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu.  Í 30. gr. sé kveðið á um hvernig uppgjöri á milli aðila við lok samnings skuli háttað, hvort sem sé vegna riftunar á kaupum vegna vanefnda seljanda skv. 19. gr., altjóns á hinu leigða skv. 21. gr. eða riftunar vegna röskunar á samningi samkvæmt 28. gr. Í öllum þessum tilvikum skuli leigutaki greiða alla ógjaldfallna leigu skv. 5. gr. samningsins en frá skuld leigutaka skuli draga verðmat hins leigða og allar endurgreiðslur eða skaðabætur sem kunni að hafa verið greiddar af seljanda vegna vanefnda svo og vátryggingabætur hafi hið leigða skemmst eða glatast. Þessi þáttur skilmálanna bendi einn og sér til þess að um lán sé að ræða en ekki leigu.

 

7. Í samningi aðila um tímabundna greiðsluraðabreytingu, dags. 29. ágúst 2011, segi að mismun á hlutagreiðslu og heildargreiðslu verði bætt við „eftirstöðvar samnings/láns“. Orðalag þetta, sem samið sé af stefnda, bendi til þess að hann hafi litið á fjármögnunarsamninginn sem lán.

 

8. Áður en samningur sá sem sé grundvöllur málsóknar þessarar hafi verið undirritaður hafði svo um samist með aðilum að stefnandi ætti kauprétt að hinu leigða í lok samningstímnans, fyrir tiltekið verð og án þess að kæmi til frekari samninga. Þessi hluti samningsins hafi verið skriflegur, sbr. bréfi stefnda til stefnanda, dags. 3. október 2007. Þetta fái einnig stoð í fyrirliggjandi yfirlýsingu Guðríðar Ólafsdóttur og Ólafs Helga Ólafssonar og tilvísun í lokagjald í greiðsluseðlum.

 

         Stefndi hafnar öllum framangreindum málsástæðum stefnanda og byggir á því að umræddur samningur sé samkvæmt formi sínu og efni leigusamningur og ákvæði hans um gengistryggingu umsamins leigugjalds brjóti því ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

         Við mat á því hvort fjármögnunarleigusamningar aðila nr. 144114-119 sé leigusamningur eða lánssamningur er að mati dómsins rétt að líta til eftirfarandi.

         Heiti samningsins, sbr. „Fjármögnunarleigusamningur“, bendir til þess að um leigusamning sé að ræða og er öll orðnotkun í skilmálum hans í samræmi við það. Þannig er stefnandi í skilmálum samningsins nefndur „leigutaki“ og stefndi „leigusali“. Þá er í skilmálunum talað um hið leigða, leigugrunn, grunnleigutíma og framhaldsleigu.

         Þá er ljóst að samningurinn ber skv. efni sínu öll megineinkenni fjármögnunarleigusamninga eins og það hugtak hefur verið skilgreint í lögum hér á landi, sbr. athugasemdir í frumvarpi til fyrstu laganna hér á landi um eignarleigu nr. 19/1989, sbr. nú 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. áður 1. mgr. 9. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Ekki verður séð að með lögum nr. 161/2002 hafi verið stefnt að breytingum á þeim grunnskilgreiningum sem fram komu í lögum nr. 19/1989 og athugasemdum með frumvarpi til laganna, hvað varðar m.a. eðli og sérkenni fjármögnunarleigu. Eru þær grunnskilgreiningar í samræmi  við viðteknar skýringar og skilgreiningar á þessari samningstegund, líkt og rakið var í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september 2013 í máli Suðurverks hf. gegn Lýsingu hf., sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013. Er þá einkum vísað til ákvæða um að leigutaki velji hið leigða og semji um kaupverð þess við seljanda, að samningurinn sé óuppsegjanlegur á umsömdum grunnleigutíma, að leigusali endurheimti kaupverð hins leigða ásamt vöxtum, þóknun og kostnaði á grunnleigutímanum, að leigutaka gefist kostur á ótímabundinni framhaldsleigu í lok frumleigutíma gegn verulega lækkaðri leigu, að eignarréttur haldist hjá leigusala meðan á leigu stendur, að leigutaki beri áhættu af hinu leigða meðan á leigu stendur og komi til riftunar á leigusamningi greiði leigutaki leigusala alla gjaldfallna- og ógjaldfallna leigu að frádregnu verðmæti hins leigða.

         Í dómum Hæstaréttar frá 24. maí 2012, í máli nr. 652/2011, 13. mars 2014, í máli nr. 638/2013, og frá 3. apríl 2014, í máli nr. 717/2013, komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að samningar aðila væru leigusamningar en ekki samningar um lán. Verður að telja efni samningsins, sem um er deilt í máli þessu, í meginatriðum vera það sama og þeirra samninga sem um var deilt í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Hafa dómarnir því ótvírætt fordæmisgildi við úrlausn þessa máls.

         Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi uppi átta málsástæður því til stuðnings að samningur aðila sé að efni til lánssamningur en ekki leigusamningur. Sex af þessum átta málsástæðum voru hafðar uppi í áður tilvitnuðum dómum Hæstaréttar í málum nr. 652/2011, nr. 638/2013 og nr. 717/2013 og hefur rétturinn því þegar tekið afstöðu til þeirra þ.e. þeirra málsástæðna stefnanda, sem lúta að því að stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að kaupum á hinu leigða, að seljandi hins leigða sé sérstaklega tilgreindur í leigusamningnum, auk þess sem vísað sé til reiknings seljanda og greiðsludags kaupverðs, að leigugrunnur og kaupverð sé lagt að jöfnu, að í skilmálum samninganna sé ákvæði um vexti, að ekki hafi verið samhengi milli greiðslna stefnanda og afnota hans af hinu leigða og að öll áhætta af hinu leigða væri lögð á herðar leigutaka þ.e. stefnanda og loks að uppgjörsákvæði samningsins bæru einkenni lánssamnings en ekki leigusamnings. Hafnaði Hæstiréttur því að fyrrgreindar málsástæður hefðu úrslitaáhrif um það hvort samningur aðila teldist lánssamningur. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til þess sem áður er rakið um grunneinkenni fjármögnunarleigusamninga verður því einnig hafnað hér að þessar málsástæður per se leiði til þess að skýra beri samning aðila sem lánssamning.

         Stefnandi byggir á því að í samningi aðila um tímabundna greiðsluraðabreytingu,  29. ágúst 2011, segi að mismun á hlutagreiðslu og heildargreiðslu verði bætt við „eftirstöðvar samnings/láns”. Orðalag þetta sem samið hafi verið af stefnda bendi til þess að hann hafi litið á fjármögnunarsamning aðila sem lánssamning. Af hálfu stefnda er þessari málsástæðu hafnað með þeim rökum að með lestri tilvitnaðs samningsviðauka sjáist greinilega að verið sé að vísa til leigusamnings aðila enda séu í viðaukanum notuð hugtökin ,,leigutaki“ og ,,leigumunur“ og stefnandi skrifi undir viðaukann í reit sem merktur sé ,,f.h. leigutaka“.

         Ekki verður fallist á það með stefnanda að þótt orðið „lán“ komi fyrir í tilvitnuðum  samningsviðauka, með þeim hætti sem stefnandi bendir réttilega á,  geti það eitt út af fyrir sig leitt til þess að samningur aðila verði skilgreindur sem lánssamningur frekar en leigusamningur, sbr. það sem áður er rakið um fyrirliggjandi dómafordæmi Hæstaréttar og þau grunneinkenni fjármögnunarleigusamninga, sem áður er lýst. Er hugtakanotkun í umræddum viðaukasamningi um tímabundna greiðsluraðabreytingu í samræmi við framangreint þar sem notuð eru hugtökin fjármögnunarleiga, leigutaki og leigumunur. Er framangreindri málsástæðu stefnanda því hafnað.

         Eins og áður er rakið byggir stefnandi á því að áður en samningur sá sem sé grundvöllur málsóknar þessarar hafi verið undirritaður hafði svo um samist með aðilum að stefnandi ætti kauprétt að hinu leigða í lok samningstímans fyrir tiltekið verð og án þess að til frekari samninga kæmi. Þessi hluti samningsins hafi verið skriflegur, sbr. bréf stefnda til stefnanda, 3. október 2007. Þetta fái einnig stoð í fyrirliggjandi yfirlýsingu Guðríðar Ólafsdóttur og Ólafs Helga Ólafssonar og tilvísun í lokagjald í greiðsluseðlum.

         Stefndi byggir á því hvað framangreinda málsástæðu stefnanda varðar að í 12. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningurinn ótímabundið, sbr. 6. gr. samningsins. Í lok 12. gr. komi ennfremur fram að leigutaki geti sagt hinum framlengda samningi upp, skriflega, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því nema leigutaki vilji skila leigumun. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Ef stefnda berist beiðni frá leigutaka um kaup á leigumun sé það skoðað í hverju tilviki og m.a. horft á það hvort viðkomandi leigutaki sé í vanskilum hvað viðkomandi leigusamning varði eða aðra samninga sem hann kunni að vera í við stefnda. Ef um slík vanskil sé að ræða sé leigutaka neitað um að kaupa hið leigða. Sé hins vegar tekin ákvörðun um sölu á hinu leigða við lok grunnleigutímans sé gengið frá sölunni með sölureikningi/afsali samhliða greiðslu á kaupverðinu. Sé tekin ákvörðun um sölu eftir lok grunnleigutímans, sé um sjálfstæðan samning að ræða sem breyti ekki eðli hins upphaflega fjármögnunarleigusamnings og breyti honum þannig ekki úr fjármögnunarleigusamningi í kaupleigusamning og enn síður í lánssamning eða ígildi hans. Hefði stefnandi talið að 12. gr. leigusamningsins ætti ekki við hefði hann átt að óska eftir því að sú grein yrði strikuð út og ný grein sett í hennar stað en það hafi hann ekki gert. Í 35. gr. samninganna sé sérstaklega tekið fram, með breyttu letri, að stefnandi (leigutaki) hafi kynnt sér og hafi ekkert við að athuga alla skilmála samningsins.  Stefndi byggi á því að stefnandi sé bundinn af staðfestingu sinni á endanlegu innihaldi samnings aðila. Sé því alfarið hafnað að bréf stefnda til stefnanda, 3. október 2007, hafi falið í sér tilboð um kauprétt og eða að slíkur réttur hafi orðið hluti af fjármögnunarleigusamningi aðila. Stefnandi byggi einnig á tilvísun í lokagjald á leigureikningnum sem stefndi hafi sent stefnanda. Hér sé um að ræða sömu málsástæðu og fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 og ekki hafi verið talin benda til þess að samið hefði verið fyrirfram um kaup í lok grunnleigutíma samningsins. Í tilgreindum leigureikningum komi aðeins fram hvert sé núvirði ógreiddrar leigu án virðisaukaskatts og lokagjalds. Í framangreindu orðalagi geti á engan hátt falist að samist hafi um kauprétt á milli aðila í lok grunnleigutímans. Þá sé rétt að benda á að ekkert ákvæði sé um lokagjald í fjármögnunarleigusamningi aðila. Við mat á því hvort í gildi hafi verið á milli aðila samningur um kauprétt vilji stefndi sérstaklega benda á 34. gr. fjármögnunarleigusamningsins. Í ákvæðinu komi skýrt fram að breytingar á samningnum megi aðeins gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Enginn skriflegur viðauki hafi verið gerður sem breyti réttarstöðunni við lok grunnleigutímans frá því sem ákveðið hafi verið í 12. gr. samningsins. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að aðilar hafi virt ákvæði 34. gr. í reynd. Þannig hafi verið gengið frá skriflegum viðaukum skv. 34. gr. þegar stefnandi hafi lent í vandræðum með leigugreiðslurnar og samið hafi verið um tilhliðrun leigugreiðslna og breytingar á grunnleigutíma.  

         Eins og áður er rakið kemur fram í 6. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum tilgreinds grunnleigutíma. Samkvæmt 12. gr. samningsins getur leigutaki ekki sagt samningunum upp á grunnleigutíma en að honum loknum framlengist hann  ótímabundið skv. 6. gr. Þó geti leigutaki sagt hinum framlengda leigusamningi upp, skriflega, með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Samkvæmt 34. gr. samningsins má einungis gera breytingar á honum með skriflegum viðaukum, undirrituðum af samningsaðilum.

         Eins og rakið hefur verið er á því byggt af hálfu stefnanda að tilvitnaður fjármögnunarleigusamningur hafi falið í sér kauprétt af hans hálfu gegn greiðslu umsamins lokagjalds og sé því ekki um fjármögnunarleigusamning að ræða heldur lánssamning. Hefur stefnandi í þeim efnum vísað til tilboðs stefnda til stefnanda, 3. október 2007, um fjármögnunarleigu, sem lagt hafi verið til grundvallar samningi aðila frá 1. nóvember 2007.

         Framangreind ákvæði 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila, sem undirritaður var, 1. nóvember 2007, eru skýr og verður ekki af þeim ráðið að eignarréttur yfir hinu leigða flytjist til stefnanda við lok umsamins frumleigutíma. Í 34. gr. samningsins er eins og rakið hefur verið mælt svo fyrir að breytingar á honum megi einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Óumdeilt er að fjármögnunarleigusamningi aðila, var ekki breytt að því leyti sem hér skiptir máli. Þá liggur jafnframt fyrir að allar breytingar á samningnum, sem gerðar voru hvað leigugreiðslur og grunnleigutíma varðaði, voru gerðar skriflega, í samræmi við 34. gr. samningsins. Framangreint tilboð stefnanda frá 3. október 2007 verður því ekki með hliðsjón af framangreindum ákvæðum fjármögnunarleigusamnings aðila, gegn andmælum stefnda, talið hafa veitt stefnanda fyrirvaralausan rétt til að kaupa hið leigða í lok frumleigutíma, án þess að til kæmi sérstakt samþykki stefnda. Því síður verður talið að tilboðið hafi falið í sér skyldu stefnanda til þess að kaupa hið leigða.

         Með vísan til alls framangreinds verður fallist á með stefnda að þau ákvæði samningsins sem um er deilt í máli þessu brjóti ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi aðilum máls þessa verið heimilt að semja um að greiðslur samkvæmt samningnum tækju mið af breytingum á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningnum. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.250.000 krónur.

         Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

         Stefndi, Lýsing hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hagvagna hf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 1.250.000 krónur í málskostnað.