Hæstiréttur íslands

Mál nr. 601/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning


                                     

Þriðjudaginn 17. september 2013.

Nr. 601/2013.

Sérstakur saksóknari

(Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari)

gegn

X ehf.

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

Kærumál. Kyrrsetning.

X ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu félagsins um að felld yrði úr gildi kyrrsetning sýslumanns á innstæðu á bankareikningi hans að fjárhæð 6.000.000 krónur. Vísað var til þess að við mat á hvort skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væru fyrir hendi, bæri meðal annars að líta til þess hve há sú fjárhæð væri sem krafist væri til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings og hvort bent hefði verið á að til væru aðrar eignir sem staðið gætu til tryggingar þessu þrennu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. febrúar 2010 í máli nr. 73/2010. Í málinu lágu fyrir upplýsingar um fjárhag X ehf. sem hafði ekki verið andmælt af hálfu ákæruvaldsins. Að gættu því að kyrrsetning hjá X ehf. tók til fjárhæðar sem var mjög óveruleg í ljósi eignastöðu félagsins var skilyrðum áðurgreinds ákvæðis ekki talið fullnægt. Var ákvörðun sýslumanns því felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2013 sem barst héraðsdómi daginn eftir en réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2013 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 19. júlí 2013 um að kyrrsetja innstæðu á tilgreindum bankareikningi hans til tryggingar 6.000.000 krónum. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að felld verði úr gildi áðurgreind ákvörðun sýslumanns um að kyrrsetja innstæðu á bankareikningi sínum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvikum og málatilbúnaði aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Kyrrsetning samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 er þvingunaraðgerð í þágu meðferðar sakamáls og hefur það markmið að tryggja fjármuni til greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings sem aflað hefur verið með broti. Skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. þessarar lagagreinar eru að hætta þyki á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Við mat á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi ber meðal annars að líta til þess hve há sú fjárhæð er sem krafist er til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings og hvort bent hafi verið á að til séu aðrar eignir sem staðið gætu til fullnustu þessu þrennu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. febrúar 2010 í máli nr. 73/2010.

Í málinu liggur fyrir samandreginn ársreikningur varnaraðila vegna fjárhagsársins 2012. Samkvæmt efnahagsreikningi hans námu eignir varnaraðila 169.003.113 krónum í árslok 2012 og var bókfært eigið fé hans við sama tímamark 100.106.554 krónur. Samkvæmt ársreikningnum samanstanda eignir varnaraðila einkum af varanlegum rekstrarfjármunum að fjárhæð 27.687.000 krónur, annars vegar fasteign og hins vegar lóð, og fjárfestingarverðbréfum að fjárhæð 92.174.234 krónur, auk þess sem eignarhlutir varnaraðila í dótturfélögum nema 47.101.238 krónum. Þessum upplýsingum um efnahag varnaraðila hefur ekki verið andmælt af hálfu sóknaraðila.

Að því gættu að kyrrsetning hjá varnaraðila tók til fjárhæðar sem er mjög óveruleg í ljósi eignastöðu hans verður ekki talið að fullnægt sé skilyrðum kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. Verður því felld úr gildi ákvörðun sýslumanns um að kyrrsetja innstæðu á bankareikningi varnaraðila til tryggingar 6.000.000 krónum.

Samkvæmt 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður kærumálskostnaður ekki dæmdur, en taka ber tillit til kostnaðar af máli þessu við ákvörðun sakarkostnaðar í sakamáli því sem höfðað hefur verið á hendur varnaraðila.

Dómsorð:

Felld er úr gildi kyrrsetning sýslumannsins í Reykjavík 19. júlí 2013 á innstæðu á bankareikningi varnaraðila, X ehf.,  nr. [...] í [...] hf.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2013.

                Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 26. júlí sl., krafðist sóknaraðili, X ehf., [...], [...], þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að felld skuli úr gildi kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík frá 19. júlí 2013, í málinu nr. K-17/2013, þar sem kyrrsett var innstæða á bankareikningi sóknaraðila hjá [...] hf., nr. [...], til tryggingar kröfum að fjárhæð 6.000.000 króna, vegna greiðslu sekta, sakarkostnaðar og krafna ákæruvaldsins að því er varðar upptöku fjármuna, á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um upptöku jafnvirðis ágóða sóknaraðila af ætluðum brotum fyrirsvarsmanns félagsins, Y, kt. [...], framkvæmdastjóra og eins eigenda sóknaraðila, gegn 1. tölul. 1. mgr. 123. gr., sbr. 3. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007. Að auki krefst sóknaraðili málskostnaðar úr ríkissjóði að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

                Varnaraðili, Sérstakur saksóknari, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og jafnframt að hafnað verði málskostnaðarkröfu sóknaraðila.

                Í samræmi við 2. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 var krafan þingfest 6. ágúst sl. Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi 30. ágúst sl.

Málsatvik

                Með bréfi, dagsettu 28. júlí 2010, vísaði Fjármálaeftirlitið til varnaraðila, embættis sérstaks saksóknara, rannsókn á viðskiptum sóknaraðila, X ehf., með hlutabréf í A hf. Kæran laut að meintum brotum Y, fyrrum framkvæmdastjóra hjá A, gegn 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, en Y var eigandi sóknaraðila, ásamt eiginkonu sinni, og skráður framkvæmdastjóri félagsins. Var Y grunaður um innherjasvik með því að hafa í janúar og mars 2008 selt hlutabréf í A, sem voru í eigu sóknaraðila, þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um slæma lausafjárstöðu bankans, sem hann hefði orðið áskynja um í starfi sínu. Sérstakur saksóknari tók málið til rannsóknar, en með bréfi, dagsettu 6. mars sl., var Y tilkynnt um niðurfellingu þess á grundvelli 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Fjármálaeftirlitið kærði ákvörðun um niðurfellingu málsins vegna meintra brota framinna í mars 2008 til ríkissaksóknara, sem felldi hana úr gildi með bréfi dagsettu 7. júní sl. og lagði jafnframt fyrir varnaraðila að gefa út ákæru í málinu. Hinn 12. júlí sl. krafðist varnaraðili kyrrsetningar eigna sóknaraðila hjá sýslumanninum í Reykjavík „til tryggingar krafna að fjárhæð kr. 6.000.000, vegna greiðslu sekta, sakarkostnaðar, og krafna ákæruvaldsins að því er varðar upptöku fjármuna, á grundvelli 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um upptöku jafnvirðis ágóða ofangreinds gerðarþola af ætluðum brotum fyrirsvarsmanns félagsins, Y [...]“. Sýslumaður féllst á kröfu varnaraðila 19. sama mánaðar og kyrrsetti innstæðu á bankareikningi sóknaraðila nr. [...] í [...] hf. Hinn 24. sama mánaðar krafðist sóknaraðili þess að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi kyrrsetningargerðina úr gildi. Hinn 2. ágúst sl. gaf varnaraðili út ákæru á hendur Y og sóknaraðila fyrir meint innherjasvik vegna viðskipta Y með hlutabréf í eigu sóknaraðila í mars 2008 og talin eru varða við 1. tölul. 1. mgr. 123. gr., sbr. 3. tölul. 146. gr. laga nr. 108/2007 að því er ákærða Y varðar, en 1. tölul. 2. mgr. 123. gr. og 3. tölul. 146. gr. sömu laga að því er sóknaraðila varðar. Þá er þess krafist í ákæru að sóknaraðila verði gert að sæta upptöku á 5.849.041 krónu, hluta hinnar kyrrsettu innstæðu á bankareikningi sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.

Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Við flutning málsins fyrir dómi féll sóknaraðili frá þeirri málsástæðu að fella beri ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu úr gildi vegna þess að sóknaraðili hafi ekki verið og sé ekki sakborningur samkvæmt ákvæði 27. gr. laga nr. 88/2008, en eins og rakið hefur verið hefur varnaraðili gefið út ákæru á hendur sóknaraðila.

                Sóknaraðili reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 um að hætta sé á að eignum verði skotið undan eða að þær glatist eða rýrni að mun. Kyrrsetningarbeiðni varnaraðila beri jafnframt með sér að órökstutt sé með öllu að slík hætta sé fyrir hendi. Bendir sóknaraðili á að rannsókn málsins hafi hafist hjá lögreglu 29. júlí 2010, eða fyrir þremur árum síðan, og hefði sóknaraðila verið í lófa lagið að skjóta undan eignum á þeim tíma hefði vilji hans staðið til þess.  

                Þá hafi sóknaraðili átt eignir að verðmæti 169 milljónir króna í árslok 2012. Eigið fé félagsins hafi þá numið rúmlega 100.000.000 króna, auk þess sem félagið eigi fasteignir, hlutabréf í skráðum félögum, innlendum og erlendum og erlent dótturfélag. Sé með öllu órökstutt að eignir félagsins kunni að rýrna svo mjög að það eigi ekki fyrir 6.000.000 króna kröfu sem kynni að falla á það í framtíðinni. Kyrrsetningarbeiðni varnaraðila hafi lotið að peningaeign sóknaraðila en ekki að öðrum eignum félagsins. Félagið standi hins vegar vel og eigi margvíslegar eignir umfram peningaeignir. Þannig nemi eign félagsins í fjárfestingarverðbréfum um 92.000.000 króna samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2012, eignarhlutur félagsins í dótturfélagi þess hafi numið um 47.000.000 króna og félagið eigi fasteignir að verðmæti um 27.500.000 krónur. Eignir félagsins felist því að mestu í öðrum verðmætum en peningainnstæðum. Félagið sé mjög fjársterkt með heildareignir að fjárhæð um 169.000.000 króna og eigið fé upp á ríflega 100.000.000 króna. Þá sé félagið nánast skuldlaust. Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar Íslands frá 26. febrúar 2010 í málinu nr. 73/2010, þar sem megi finna leiðbeiningar um skilyrði þess að ráðstöfunum samkvæmt 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 sé beitt.

                Í öðru lagi telur sóknaraðili að krafa sú sem beinist að sóknaraðila sem gerðarþola geti ekki talist lögvarin, sbr. ákvæði laga nr. 31/1990, enda hafi málatilbúnaður ákæruvaldsins beinst að Y en ekki sóknaraðila. Dómur yfir Y myndi hvorki binda sóknaraðila um greiðslu sektar eða sakarkostnaðar né annars þess sem farið sé fram á að kyrrsetningin tryggi.

                Í þriðja lagi telur sóknaraðili að aflétta verði kyrrsetningu vegna óhæfilegs dráttar sem hafi orðið á málsmeðferð og vísar í því sambandi til meginreglu réttarfars um hraða málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í 3. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 séu ákvæði um það hvenær kyrrsetning samkvæmt greininni falli niður. Enda þótt dráttur á rannsókn máls sé ekki meðal þeirra atriða sem þar séu upp talin leiði af framangreindum ákvæðum að sakborningur geti átt réttmæta kröfu á því að aflétt sé þeim hömlum sem kyrrsetning leggi á stjórnarskrárvarinn rétt hans til að njóta forræðis yfir eigum sínum dragist rannsókn úr hófi. Sóknaraðili bendir á að rannsókn málsins hafi hafist formlega 29. júlí 2010. Hafi varnaraðili þá ekki séð ástæðu til að krefjast kyrrsetningar á eignum sóknaraðila. Slíkur dráttur á rannsókn ætlaðra brota fari í bága við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og laga. Verði að telja að þegar svo háttar til falli úr gildi heimild lögreglu eða ákæruvalds til að krefjast kyrrsetningar á eignum vegna ætlaðra brota og vísar sóknaraðili í því sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 25. janúar 2012 í málinu nr. 682/2011.

                Í fjórða lagi telur sóknaraðili kyrrsetningu eigna sinna í andstöðu við meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu í þrjú ár. Á þeim tíma hafi það m.a. verið fellt niður þar sem talið hafi verið að rannsókn þess benti ekki til saknæmrar háttsemi. Í þau þrjú ár sem rannsókn málsins hafi staðið yfir hafi hún aldrei beinst að sóknaraðila. Sú þvingunaraðgerð sem nú sé krafist af hálfu varnaraðila sé því með öllu ónauðsynleg. Sóknaraðili hafi haft þrjú ár til að koma eignum undan hefði hann haft hug á því. Hann hafi hins vegar enga tilraun gert til þess. Sönnunarbyrði um hið gangstæða hvíli á varnaraðila.

                Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili jafnframt til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, einkum 20., 21., 27., 53. og 88. gr. laganna, laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, einkum 5. gr., 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. ákvæði laga nr. 62/1994 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kröfu um málskostnað reisir sóknaraðili á XXXIV. kafla laga nr. 88/2008.

Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðili telur að lögreglu og ákæruvaldi hafi verið bæði rétt og skylt að krefjast kyrrsetningar og að kyrrsetningargerðin sé réttmæt. Beri því að hafna kröfum sóknaraðila. Hann bendir á að rannsókn málsins sé lokið, sóknaraðili hafi verið ákærður og kunni með háttsemi sinni að hafa gerst sekur um brot gegn 1. tölul. 1. mgr. 123. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 123. gr. og 3. tölul. 146. gr. laga nr. 108/2007. Í ákæru hafi verið gerð krafa um upptöku á stærstum hluta þeirra fjármuna sem kyrrsetningunni sé ætlað að tryggja, eða 5.849.041 krónu. Varnaraðili telur mikilvægt að horfa til réttarframkvæmdar um viðlíka aðstöðu en Hæstiréttur hafi litið til þess hvort ákæra hafi verið gefin út, við mat á því hvort fella beri úr gildi þvingunarráðstafanir á borð við haldlagningu, sem þó gangi eðli máls samkvæmt lengra en kyrrsetning, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 8. maí 2012 í máli nr. 293/2012. Þá hafi verið gerð sú krafa til ákæruvaldsins að þeir munir sem krafist væri upptöku á væru til staðar við saksókn mála, sbr. dóma Hæstaréttar frá 20. nóvember 2003 í máli nr. 333/2003 og frá 9. júní 2005 í máli nr. 72/2005.

                Varnaraðili telur að dómur í máli ákæruvaldsins gegn Y geti bundið sóknaraðila, jafnvel þó að svo færi að sóknaraðili yrði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins. Sóknaraðili geti allt að einu þurft að þola upptöku fjármuna, sbr. ákvæði 3. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á grundvelli þess sem fram hafi komið hafnar varnaraðili því jafnframt að krafan að baki kyrrsetningarbeiðninni sé ekki lögvarin. Fjármunir þeir sem um ræði séu taldir afrakstur ætlaðs refsiverðs brots. Telur varnaraðili að kröfu ríkisvaldsins um upptöku slíkra fjármuna verði að telja lögvarða þar til skorið hafi verið úr um það með endanlegum dómi í viðkomandi sakamáli.

                Varnaraðili bendir á að þegar krafist sé kyrrsetningar á grundvelli 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið talið að einungis þurfi að sýna fram á að einu af skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt, þ.e. annars vegar að hætta sé til staðar á undanskoti eigna eða hins vegar að þær glatist eða rýrni að mun. Mat á því hvort skilyrðin séu uppfyllt sé jafnframt í höndum lögreglu og ákæruvalds, svo og sýslumanns. Hafi verið talið að ekki þurfi að sýna fram á rökstuddan grun þessa efnis. Varnaraðili telur að fjölmörg sjónarmið styðji að hætta sé til staðar í málinu og leiði til þeirrar niðurstöðu að lögreglu og ákæruvaldi hafi verið bæði rétt og skylt að krefjast kyrrsetningar. Í því samhengi er minnt á að fyrirmæli ríkissaksóknara um saksókn á hendur Y hafi legið fyrir í maí sl. Hafi ákæra verið gefin út nú í ágúst á hendur honum og sóknaraðila. Það að ekki hafi verið krafist kyrrsetningar í upphafi málsins geti ekki gert að verkum að hætta sé ekki til staðar við meðferð máls þegar rannsókn sé lokið. Varnaraðili telur að leggja verði til grundvallar það almenna viðmið að lok rannsóknar sakamáls og útgáfa ákæru auki almennt séð hættuna á undanskoti eigna, óháð eignastöðu eða öðrum atriðum varðandi ákærða í viðkomandi máli. Lögreglu og ákæruvaldi sé því bæði rétt og skylt af refsivörsluástæðum að beita þeim úrræðum sem lög mæla fyrir um til að tryggja, meðan á dómsmeðferð viðkomandi máls stendur, fullnægju upptökukrafna sem gerðar séu í málinu, fari svo að fallist verði á þær með dómi. Er vísað til dóms Hæstaréttar frá 26. febrúar 2010 í máli nr. 73/2010 í þessu sambandi.

                Varnaraðili hafnar því að kyrrsetningin sé í andstöðu við meðalhófsreglu laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Líta verði til aðstæðna sem uppi séu í málinu, þ.e. að það hafi verið fellt niður en þeirri ákvörðun hafi verið hrundið af ríkissaksóknara og mælt fyrir um saksókn á hendur fyrirsvarsmanni sóknaraðila. Við ákærumeðferð hafi verið tekin ákvörðun um að rannsaka þyrfti mögulegt brot annarra, þ.e. sóknaraðila og eftir atvikum annarra sem félaginu tengist. Horfa verði aðskilið á þann tíma sem málið hafi verið til meðferðar hjá lögreglu frá árinu 2010 og kyrrsetningargerðarinnar sem slíkrar. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar, þar sem reynt hafi á málsmeðferðartíma hjá lögreglu og kyrrsetningargerð samhliða, hafi atvik verið þannig að kyrrsetning hefur varað allt frá upphafi rannsóknar. Vísar varnaraðili til dóma Hæstaréttar frá 25. janúar 2012 í málum nr. 682/2011, 684/2011 og 685/2011. Hann bendir á að kyrrsetningargerðin hafi staðið tæpar fjórar vikur. Málsmeðferðartími rannsóknar geti eðli máls samkvæmt ekki komið til álita í tengslum við kyrrsetningu þannig að kyrrsetningargerðin verði felld úr gildi vegna þess að kyrrsetningin fór ekki fram í upphafi rannsóknar heldur við ákærumeðferð, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. maí 2012 í máli nr. 293/2012.

                Hvað varðar tímasetningu kyrrsetningarinnar telur varnaraðili að líta verði til þeirra aðstæðna sem uppi séu í málinu. Lagt hafi verið fyrir varnaraðila að gefa út ákæru og hafi málið farið í ákærumeðferð. Tímasetning kyrrsetningarbeiðninnar sé í fullu samræmi við atburði málsins og megi færa gild rök fyrir því að hún sé í samræmi við meðalhófsreglu. Verði að telja að gætt hafi verið hófs við þá þvingunarráðstöfun. Þar sem hún hafi ekki farið fram í upphafi rannsóknar lögreglu fyrir um þremur árum síðan verði að telja að ekki sé gengið lengra en þörf krefji til tryggingar þeirra fjármuna sem um ræðir. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar frá 26. febrúar 2010 í máli nr. 73/2010. Þá áréttar varnaraðili að kyrrsetning sé þvingunarráðstöfun sem gangi skemur en haldlagning á þann hátt að fjármunirnir séu ekki teknir úr vörslu sóknaraðila.

Niðurstaða

         Svo sem rakið hefur verið hefur varnaraðili gefið út ákæru á hendur Y og sóknaraðila, fyrir innherjasvik, vegna viðskipta Y með hlutabréf í eigu sóknaraðila, sem hann var í fyrirsvari fyrir. Í ákæru er þess jafnframt krafist að sóknaraðila verði gert að sæta upptöku á 5.849.041 krónu, hluta hinnar kyrrsettu innstæðu á bankareikningi sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kemur fram að upptökukrafa lúti að ávinningi af meintu broti ákærðu. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með sóknaraðila að krafa að baki kyrrsetningarbeiðninni sé ekki lögvarin. Þá er til þess að líta, að kyrrsetningargerðin lýtur að peningaeign, sem unnt er að færa af bankareikningi á skömmum tíma. Þykir því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til að kyrrsetja innstæðu á bankareikningi sóknaraðila. Kyrrsetningargerðin fór fram 19. júlí sl. og verður ekki fallist á það með sóknaraðila að efni séu til að fella ráðstöfunina úr gildi vegna þess að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins. Þá verður ekki talið að ráðstöfunin fari í bága við meginreglu sakamálaréttarfars um meðalhóf, enda er það mat dómsins að beitt hafi verið eins vægri aðferð og kostur var í málinu. Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 19. júlí sl., um að kyrrsetja innstæðu á bankareikningi sóknaraðila.

         Ekki eru efni til þess að kveða á um málskostnað.

         Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er kröfu X ehf. um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 19. júlí 2013 um að kyrrsetja innstæðu á bankareikningi nr. [...] í [...] hf.