Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2007
Lykilorð
- Skaðabætur
- Símahlerun
- Friðhelgi einkalífs
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2007. |
|
Nr. 148/2007. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Hirti Björnssyni (Karl Axelsson hrl.) |
Skaðabætur. Símahlerun. Friðhelgi einkalífs. Gjafsókn.
H krafði Í miskabóta vegna ólögmætra þvingunarráðstafana við rannsókn máls þar sem hann var grunaður um íkveikju. Við rannsóknina var lögreglu annars vegar veitt heimild til að krefjast upplýsinga um notkun tiltekinna símanúmera H og hins vegar heimild til að hlera símtöl hans í tvær vikur. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að við þær aðstæður að rannsókn á brunaleifum var ekki lokið og talið var að eldhvetjandi efni hefðu verið notuð við íkveikjuna, hefði verið réttmætt að athuga símnotkun H í skamman tíma áður en eldur kom upp, enda hefði sú aðgerð ekki verið honum til íþyngingar svo að teljandi væri. Hins vegar þóttu ekki hafa verið fyrir hendi lögmæt skilyrði fyrir símhleruninni, en grunur lögreglu beindist aldrei að því að fleiri gætu verið samsekir þannig að réttlætt gæti hlerun, né gat sú aðstaða ein og sér að H játaði ekki brot þrátt fyrir grunsemdir lögreglu gefið tilefni til aðgerðarinnar. Var því niðurstaða héraðsdóms um greiðslu miskabóta til H staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
I.
Að morgni laugardags 4. desember 2004 varð eldur laus í húsinu Bárustíg 14 á Sauðárkróki. Nóttina áður hafði verið þar gleðskapur og áfengi haft um hönd. Voru þrír ungir karlar og ein kona enn í húsinu þegar eldurinn kom upp. Magnaðist hann skjótt og lést einn maður í eldsvoðanum. Tveimur var bjargað út úr húsinu en sá fjórði, stefndi þessa máls, virðist hafa komist út án aðstoðar að því ráðið verður.
Lögregla rannsakaði málið frá upphafi með tilliti til þess að íkveikja kynni að hafa valdið brunanum. Í bráðabirgðaskýrslu tæknideildar lögreglu degi eftir brunann var talið að um íkveikju af mannavöldum hafi verið að ræða og líklegt að eldhvetjandi efni hafi verið notuð. Beindist grunur að stefnda, en tilsvör hans á vettvangi og á leið þaðan þóttu að mati lögreglu gefa tilefni til þess. Þá var talið að aðild annarra, sem staddir voru í húsinu að morgni 4. desember, kæmi ekki til álita. Við skýrslutökur hafði stefndi stöðu sakbornings og neitaði hann sök. Rannsókn leiddi ekkert í ljós til stuðnings grunsemdum, sem vöknuðu í upphafi, og var málinu lokið við svo búið. Áður hafði borist skýrsla Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 14. desember 2004 um rannsókn á allmörgum brunasýnum frá Bárustíg 14. Var helsta niðurstaðan sú að engin efni fyndust í sýnunum, sem samsvöruðu efnasamsetningu þekktra eldhvetjandi vökva, að öðru leyti en því að leifar af etanóli hefðu verið í fötum mannsins sem lést í brunanum.
II.
Meðan rannsókn stóð enn yfir leitaði lögregla eftir því við Héraðsdóm Norðurlands vestra 9. desember 2004 að fá með úrskurði heimild annars vegar til að krefja Landsíma Íslands hf. um upplýsingar um notkun tveggja tiltekinna símanúmera stefnda á tímabilinu frá miðnætti aðfaranótt 3. desember til kl. 11 laugardaginn 4. desember 2004 og hins vegar til að hlusta á og hljóðrita símtöl við sömu símanúmer frá 9. desember 2004 til 22. sama mánaðar. Í rökstuðningi lögreglu fyrir beiðninni kom fram að stefndi bæri fyrir sig minnisleysi, en reynandi væri að fá upplýsingar um það hverja hann hringdi í úr farsíma sínum skömmu fyrir og eftir brunann. Slík könnun kynni hugsanlega að leiða í ljós vitni, sem byggju yfir mikilvægum upplýsingum um yfirlýsingar og hugarástand stefnda á þessu tímabili. Þá sagði að „með sömu rökum“ þætti rétt að fá heimild til að hlera farsíma hans næstu tvær vikur „ef ske kynni að hann myndi tjá sig eitthvað frekar um málið við viðmælendur sína.“ Umbeðin heimild var veitt með úrskurði dómara sama dag. Stefndi telur þessar aðgerðir lögreglu gegn sér hafa verið ólögmætar og krefst skaðabóta af þeim sökum. Hann telur skilyrði XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera uppfyllt til að dæma bætur, en reisir kröfu sína jafnframt á almennum reglum skaðabótaréttar. Áfrýjandi mótmælir því að bótaskylda hafi stofnast af þeim atvikum, sem hér um ræðir.
III.
Áfrýjandi bar fyrir sig í héraði að símhlerun væri ekki nefnd meðal þeirra þvingunaraðgerða við rannsókn opinbers máls, sem taldar eru upp í 1. málslið 176. gr. laga nr. 19/1991 og dæma má bætur fyrir að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Um tæmandi talningu væri að ræða og féllu því aðgerðir samkvæmt a. og b. lið 86. gr. laganna utan við gildissvið XXI. kafla þeirra. Áfrýjandi féll frá þessari málsástæðu fyrir Hæstarétti og kemur hún því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.
Þegar lögregla leitaði 9. desember 2004 eftir heimild til áðurgreindra rannsóknaraðgerða beindi hún enn grun um saknæma háttsemi að stefnda og hafði þá ekki verið lokið rannsókn á brunaleifum, en í upphafi var talið að eldhvetjandi efni hefðu verið notuð við íkveikju. Við þær aðstæður voru efni til að kanna nánar hvað stefndi aðhafðist í skamman tíma áður en eldurinn kom upp. Athugun á símanotkun hans var réttmæt í því skyni, enda var sú aðgerð honum ekki til íþyngingar svo að teljandi væri. Verður ekki fallist á að þessi aðgerð lögreglu hafi leitt til skaðabótaskyldu áfrýjanda.
Svo sem áður var getið neitaði stefndi sök við skýrslugjöf hjá lögreglu. Fyrrverandi fulltrúi sýslumannsins á Sauðárkróki skýrði svo frá fyrir dómi að símhlerunin hefði verið neyðarúrræði eftir að aðrar rannsóknaraðgerðir hefðu verið reyndar án árangurs og að með henni „myndi kannski eitthvað detta inn.“ Grunur lögreglu virðist á engu stigi hafa beinst að því að fleiri en stefndi kynnu að vera viðriðnir málið og gátu því hugsanleg samskipti hans í síma við samseka ekki réttlætt hlerun á tímabilinu 9. til 22. desember 2004. Sú aðstaða að stefndi játaði ekki brot þrátt fyrir grunsemdir lögreglu gat ekki ein og sér gefið tilefni til aðgerðarinnar. Af þessum sökum brast lögmæt skilyrði fyrir henni, sbr. a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991, og ber áfrýjandi á því skaðabótaskyldu gagnvart stefnda eftir ákvæðum XXI. kafla laganna. Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar með talið um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Hjartar Björnssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað með stefnu, birtri 23. ágúst 2005.
Stefnandi er Hjörtur Björnsson, Barmahlíð 7, Sauðárkróki.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmt til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 23. apríl 2005 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Helstu málsatvik eru þau að þann 4. desember 2004 kom upp eldur í húsinu við Bárustíg 14, Sauðárkróki, sem leiddi til dauða Elvars Fannars Þorvaldssonar, kt. 180683-3649, þá til heimilis að Hólavegi 24, Sauðárkróki. Stefnandi mun hafa verið á staðnum þegar eldurinn kom upp. Í kjölfar húsbrunans hóf lögreglan á Sauðárkróki rannsókn á eldsupptökum. Þann 8. desember 2004 var stefnandi yfirheyrður á lögreglustöðinni á Sauðárkróki og við þá yfirheyrslu var honum tilkynnt að hann hefði réttarstöðu grunaðs manns í málinu en stefnandi var einn grunaður um aðild að brunanum og dauða Elvars Fannars. Í kjölfarið lagði lögreglan á Sauðárkróki fram kröfu um dómsúrskurð við Héraðsdóm Norðurlands vestra um að Landssíma Íslands hf. yrði gert skylt að láta lögreglunni í té upplýsingar um símtöl úr og í símanúmer í eigu stefnanda fyrir tímabilið frá kl. 24:00 aðfaranótt föstudagsins 3. desember 2004 til kl. 11:00 laugardaginn 4. desember 2004. Jafnframt var þess krafist að lögreglunni á Sauðárkróki yrði leyft að hlusta á og hljóðrita símtöl við sömu símanúmer frá 9. desember til 22. desember 2004. Ofangreindar þvingunaraðgerðir voru heimilaðar með dómsúrskurði þann 9. desember 2004.
Með bréfi Sýslumannsins á Sauðárkróki, dags. 28. febrúar 2005, var stefnanda tilkynnt að rannsókn málsins væri lokið og það sent ríkissaksóknara til afgreiðslu. Ekki var gefin út ákæra á hendur stefnanda þar sem efni þóttu ekki standa til þess að mati ríkissaksóknara.
Með bréfi stefnanda, dags. 23. mars 2005, til sýslumannsins á Sauðárkróki krafðist stefnandi greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 500.000,- vegna hlerunarinnar auk lögmannsþóknunar. Stefnandi studdi kröfu sína við XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 auk almennra reglna skaðabótaréttarins. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki hafnaði kröfunni með bréfi, dags. 4. apríl 2005, á þeim forsendum að rökstuddur grunur hafi komið upp um að stefnandi væri hugsanlega viðriðinn meinta íkveikju og að yfirlýsingar og háttsemi stefnanda á vettvangi hafi vakið upp slíkan grun.
Þar sem stefnandi telur að aðgerðir lögreglunnar hafi farið í bága við lög og valdið honum miska er honum nauðugur sá kostur að höfða mál til heimtu þeirra bóta sem hann með réttu á tilkall til á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Kröfu sína um skaðabætur byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 176. gr. laganna, sbr. 175. gr., og almennum reglum skaðabótaréttar, einkum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt styður hann kröfu sína við 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum skaðabætur vegna miska að fjárhæð kr. 500.000,- auk dráttarvaxta.
Í 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála sé að finna heimild til greiðslu bóta til sakbornings ef rannsókn máls hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem hann var borinn sökum hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana. Samkvæmt 176. gr. laga um meðferð opinberra mála beri að greiða sakborningi bætur ef lögmæt skilyrði hafi brostið til þvingunaraðgerða, sbr. a-liður, eða ekki hafi verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt, sbr. b-liður. Ljóst sé í máli þessu að skilyrði beggja ákvæða séu uppfyllt. Stefnandi hafi saklaus verið beittur þvingunaraðgerðum samkvæmt 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála af sýslumanninum á Sauðárkróki. Þá telur stefnandi að lögregla hafi ekki gætt meðalhófs í aðgerðum sínum þar sem ekki hafi verið ástæða til að hlerunarheimild væri í gildi svo lengi sem raun bar vitni. Símahleranir lögreglunnar á Sauðárkróki hafi staðið yfir í tvær vikur án þess að nokkurra gagna væri aflað sem rökstutt gætu aðild stefnanda að þeim skelfilega atburði sem átti sér stað aðfararnótt 4. desember 2004. Ekkert hefði komið fram í málinu sem bendi til aðildar stefnanda að dauða Elvars Fannars og var stefnandi einn grunaður um að hafa valdið dauða hans, þrátt fyrir að aðrir hafi verið á staðnum í umrætt sinn.
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki hafi hafnað kröfu stefnanda um skaðabætur með bréfi, dags. 4. apríl 2005. Synjunina byggi hann á 2. málslið 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð opinberra mála en sýslumaður telur að stefnandi hafi sjálfur stuðlað að framangreindum þvingunaraðgerðum. Stefnandi hafi á engan hátt verið valdur að eða stuðlað að því að hann sætti þeim aðgerðum sem lögreglan beitti hann og hann telur vera óforsvaranlegar. Beri stefndi alla sönnunarbyrði fyrir því. Þvert á móti hafi stefnandi aðstoðað lögreglu eftir mætti við að upplýsa málið. Þrátt fyrir símahleranir hjá stefnanda í tvær vikur hafi engra gagna verið aflað sem gefið hafi tilefni til þess að tengja stefnanda við dauða Elvars Fannars. Stefnandi hafi saklaus verið dreginn inn í lögreglurannsóknina vegna ólögmætra vinnubragða rannsóknaraðila og beri stefnda alla ábyrgð og áhættu á tjóni sem hljótist af beitingu lögregluvalds í tilvikum sem þessu.
Þá hafi stefnandi einnig saklaus þurft að þola mikla mannorðsskerðingu, þjáningar og annan miska vegna hinna ólögmætu aðgerða lögreglunnar á Sauðárkróki. Fréttir af atburði aðfaranætur 4. desember 2004 hafi birst í flestum fjölmiðlum þar sem þess hafi óspart verið getið að lögregla hefði stefnanda grunaðan um að hafa valdið dauða Elvars Fannars. Öll umfjöllun um málið hafi valdið stefnanda hugarangri og vanlíðan. Allt hafi þetta stuðlað að andlegum þjáningum stefnanda og beri að líta heildstætt á framangreinda þætti við mat á miska stefnanda.
Niðurstöður rannsóknar lögreglunnar á Sauðárkróki hafi ekki gefið tilefni til þess að gefa út ákæru á hendur stefnanda. Ekkert í málinu, hvorki gögn þess né háttsemi stefnanda, hafi bent til aðkomu hans að atburðinum og því sé ljóst að lögmæt skilyrði til aðgerðanna hafi ekki verið uppfyllt við rannsóknina og eigi stefnandi ekki að þola slíkt bótalaust.
Miskabótakrafa stefnanda sé að fjárhæð 500.000 krónur. Krafan sé matskennd og í henni felist varakrafa um lægri bætur.
Dráttarvexti af kröfu stefnanda beri að reikna frá 23. apríl 2005, þegar einn mánuður var liðinn frá því að stefnda var sent kröfubréf, sbr. 15. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
Kröfu sína um skaðabætur styður stefnandi við 176. gr., sbr. 175. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt styður hann kröfu sína við 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994
Um bótaábyrgð stefnda vísar stefnandi til almennra sjónarmiða um húsbóndaábyrgð.
Kröfuna um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um málskostnað vísast til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að hinn 9. desember 2004 hafi sýslumaðurinn á Sauðárkróki gert kröfu um það fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra að heimilaðar yrðu rannsóknaraðgerðir eins og nánar er lýst í kröfu sýslumanns og úrskurði héraðsdómsins, en þær rannsóknaraðgerðir séu með heimild í 86. gr., sbr. 87. gr., laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Hafi bæði verið um að ræða kröfu um upplýsingar um símanotkun og hlustun á síma. Einkum hafi þetta verið mikilvægt með því að stefnandi hefði ekki tjáð sig og borið við minnisleysi í skýrslutökum. Í þessu efni verði að árétta að umræddar rannsóknaraðgerðir hafi ekki sérstaklega miðast við að upplýsa um meinta sök stefnanda, heldur að því að upplýsa málið, hvort heldur það horfði til sektar eða sýknu.
Stefndi telur að full efni hafi verið til að beita umræddum rannsóknaraðgerðum. Aðrar rannsóknaraðgerðir sem beitt var hafi ekki dugað til að upplýsa málið, en vissulega hafi þeim verið beitt jafnhliða. Öll skilyrði fyrir beitingu umræddra rannsóknaraðgerða hafi verið uppfyllt að mati stefnda. Skilyrðum sé lýst í 87. gr. laga nr. 19, 1991 en í fyrsta lagi sé gert ráð fyrir að ástæða sé til að ætla að með þessu fáist upplýsingar, sem skipt geti miklu fyrir rannsókn máls, en í öðru lagi er skilyrði þessa að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum 8 ára fangelsi eða ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjast þess. Ljóst hafi verið að rannsóknin beindist að mögulegri íkveikju og verið vafalaust að sú háttsemi hefði getað fallið að refsiákvæðum með slíkum refsiramma, en nefna megi ýmis ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, svo sem 164., 167., 211. gr. o.fl. sem tilgreind hafi verið í kröfu sýslumanns. Stefndi telur að umræddar rannsóknaraðgerðir sem hafi verið heimilaðar með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra hafi ekki staðið of lengi og ekki gengið lengra en tilefni hafi verið til. Tímabilið sem upplýsingaöflunin nái yfir sé mjög stutt og sérstaklega sá tími sem liðið hafi frá upphafi upplýsingagjafar fram að brunanum, og jafnframt sá tími sem rannsóknaraðgerðirnar hafi náð til eftir brunann. Sé í því efni að líta til þess að íslensk lagaákvæði og fyrirmæli fjalli hvergi um hámarkslengd slíkra aðgerða. Aðeins sé tekið fram að í úrskurði skuli setja slíkum aðgerðum tímamörk og hafi svo verið gert.
Við símahlerun hafi ekki komið fram klárar vísbendingar eða sannanir um sekt eða sakleysi, en hljóðritað símtal sem stefnandi hafi átt við móður sína veiti ekki beina sönnun um sekt eða sakleysi stefnanda. Ekki þyki stefnda þó útilokað að draga af símtalinu þá ályktun að móðir stefnanda hafi talið að stefnandi hafi vitað meira en hann vildi vera láta. Símahlerun hafi þannig ekki orðið til þess að stefnandi yrði ákærður og var málið á endanum fellt niður hjá ríkissaksóknara.
Það að stefnandi hafi ekki verið ákærður og sakfelldur verði ekki eitt sér til að baka stefnda bótaskyldu vegna lögreglurannsóknar, en allar aðgerðir lögreglu í málinu hafi verið lögum samkvæmar og hvergi gengið lengra en lög bjóði og þörf hafi krafið. Þetta er meginatriði.
Stefndi telur þau ákvæði sem stefnandi byggir mál sitt á ekki eiga við. Í ákvæðum 175. og 176. gr. laga nr. 19, 1991 sé fjallað um aðferðir sem hafi í för með sér frelsisskerðingu. Það hafi ekki verið í þessu máli. Stefnandi hafi ekki verið sviptur frelsi sínu, en símahlerun og upplýsingar um símanotkun falli þannig utan bótareglna laganna, enda ekki um að ræða frelsisskerðingu eða annað sem vísað sé til í viðkomandi ákvæðum. Ekki stoði stefnanda heldur að vísa til ákvæða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, enda hvorki um að ræða líkamstjón, miska né ólögmæta meingerð gegn friði, frelsi, æru eða persónu stefnanda. Starfsmenn stefnda hafi rannsakað málið að hætti laga og háttsemi þeirra í því efni geti ekki talist ólögmæt. Ekki séu heldur uppfyllt skilyrði almennra skaðabótareglna, s.s. sakarreglunnar. Stefna sýnist ekki grundvölluð á öðru en að hin bótaskylda háttsemi starfsmanna stefnda snúi aðeins að öflun umrædds dómsúrskurðar um símahlerun og símanotkun.
Hafi stefnandi orðið fyrir miska vegna umtals í kjölfar málsins, sé það ekki á ábyrgð lögreglu eða annarra starfsmanna stefnda, sem hafi ekki stuðlað að því umtali. Stefnandi hafi hvergi verið nafngreindur í umfjöllun fjölmiðla af hálfu starfsmanna stefnda, eða annars staðar, en starfsmenn stefnda hafi gætt einkalífs stefnanda í hvívetna. Hitt sé annað mál að í litlu samfélagi veki slíkur atburður vitaskuld mikla athygli og megi gera ráð fyrir að fólk tali um hann, en vitað hafi verið í bænum hvaða fólk hefði verið á staðnum. Auk þess sýnist stefnandi sjálfur bera mesta ábyrgð á því sjálfur að um málið var fjallað í fjölmiðlum og hans nafn tengt við það, sbr. viðtal sem hann hafi látið taka við sig í DV.
Fjárhæð miskabótakröfu er alfarið mótmælt en fjárhæð hennar sé fjarri öllu lagi. Ekki sé krafan rökstudd og síst með tilliti til hinnar háu fjárhæðar.
Vaxtaútreikningi er mótmælt og er vísað til lokaákvæðis 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 að þessu leyti. Sérstaklega er tekið fram að stefnandi þykir ekki hafa fullnægt skilyrðum 9. gr. nefndra laga um skyldu tjónþola til að veita upplýsingar til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Kjarni málsins er sá að þær athafnir starfsmanna stefnda sem stefnandi vísi til valdi ekki bótaskyldu. Tjón stefnanda sé ósannað og óljóst og orsakatengsl þess við umræddar rannsóknaraðgerðir lögreglu óönnuð. Þá þyki stefnandi hafa valdið sjálfur þeirri fjölmiðlaathygli og umfjöllun sem að honum beindist. Þá þyki stefnandi með einkennilegum framburði sínum og hátterni við Bárustíg 14 í greint sinn hafa valdið sjálfur eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Þau lagaákvæði og reglur sem stefnandi vísi til um grundvöll kröfu sinnar eiga ekki við í þessu máli.
Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991.
NIÐURSTAÐA
Fyrir liggur í máli þessu að rannsókn vegna gruns um að stefnandi hefði gerst brotlegur við 164. gr., 167. gr., 211. gr., 215. gr., 1. og. 4. mgr. 220. gr. eða 1. mgr. 221 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 leiddi ekki til ákæru og hefur verið hætt. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki aflaði lögreglunni heimildar til þess að afla upplýsinga um það úr hvaða símum hringt var í síma stefnanda og í hvaða síma hann hringdi á tímabilinu frá kl. 24.00 aðfaranótt föstudagsins 3. desember 2004 til kl. 11.00 laugardaginn 4. desember sama árs svo og til að hlera síma stefnanda frá kl. 15.00 fimmtudaginn 9. desember til kl. 24.00 miðvikudaginn 22. desember. Voru aðgerðir þessar heimilaðar með úrskurði héraðsdóms Norðurlands vestra sem kveðinn var upp 9. desember 2004. Ekki er sýnt fram á það að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að aðgerðum þessum. Standa ákvæði 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999 því ekki til fyrirstöðu að fallist verði á kröfu stefnanda um bætur.
Aðgerðir þær sem beitt var við rannsókn ætlaðra brota stefnanda, þ.e. öflun upplýsinga um samskipti hans um síma og hlerun símtala hans, fólu í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs stefnanda sem varin er af ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995. Í ljósi reglunnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, verður fallist á það með stefnanda að aðgerðir lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem fram kemur að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að lögreglumenn hafi átt frumkvæði að umfjöllun fjölmiðla um brunann að húsinu nr. 14. við Bárustíg 4. desember 2004 og miðast bætur til hans einungis við þann miska, sem felst í skerðingu þeirri á einkalífi hans sem af aðgerðum lögreglu leiddi. Þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 50.000 krónur.
Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt leyfi dagsettu 6. september 2005 og verður stefndi ekki sérstaklega dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda er málflutningsþóknun lögmanns hans, sem ákveðst 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og greiðist hann úr ríkissjóði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hirti Björnssyni, 50.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 23. apríl 2005 til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 498.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.