Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Félagsdómur
- Dómstóll
|
Föstudaginn 27. maí 2011. |
|
|
Nr. 302/2011. |
Ríkisútvarpið ohf. (Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Blaðamannafélagi Íslands vegna Tómasar Gunnarssonar Freys Arnarsonar Guðmundar Bergkvist Ragnars Santos Vilhjálms Þórs Guðmundssonar og Þórs Ægissonar (Karl Ó. Karlsson hrl.)
|
Kærumál. Félagsdómur. Dómstólar
R ohf. kærði úrskurð Félagsdóms 10. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu um að máli BÍ vegna tiltekinna einstaklinga gegn R ohf. yrði vísað frá dómi. BÍ hafði krafist þess að viðurkennt yrði að félagið færi með samningsaðild við gerð kjarasamninga vegna starfa tiltekinna starfsmanna R ohf. Einnig var þess krafist að kjarasamningur BÍ og SA gilti um laun og kjör starfsmannanna frá því tímamarki þegar kjarasamningur Rafiðnaðarsambands Íslands, sem starfsmennirnir höfðu áður tilheyrt, við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs rann sitt skeið en til vara frá öðru og síðara tímamarki að mati réttarins. Í úrskurði Félagsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, var frávísunarkröfu R ohf. hafnað. Í samræmi við 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, var talið að málið ætti undir Félagsdóm þar sem það varðaði samningsfyrirsvar og gildi kjarasamninga, enda þótt að í þeim lögum væri ekki að finna sambærilegt ákvæði og í 1. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir að það væri ekki innan valdsviðs Félagsdóms að dæma um ráðningarkjör eða ráðningarsamninga sem starfsmenn gerðu þegar þeir væru ráðnir til vinnu var talið að hugsanleg ágreiningsefni hvað þetta varðaði stæðu því ekki í vegi að dómkröfur BÍ hlytu efnisúrlausn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 10. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að máli varnaraðila á hendur honum yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá Félagsdómi og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað þar fyrir dómi ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ríkisútvarpið ohf., greiði varnaraðila, Blaðamannafélagi Íslands, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Félagsdóms 10. maí 2011.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda hinn 12. apríl sl.
Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Lára V. Júlíusdóttir.
Stefnandi er Blaðamannafélag Íslands, kt. 690372-0109, Síðumúla 23, 108, Reykjavík, vegna Tómasar Gunnarssonar, kt. 060659-3709, Freys Arnarsonar, kt. 110368-4619, Guðmundar Bergkvist, kt. 300372-3259, Ragnars Santos, kt. 150772-3389, Vilhjálms Þórs Guðmundssonar, kt. 230554-5529 og Þórs Ægissonar, kt. 220854-7449.
Stefndi er Ríkisútvarpið ohf. kt. 600307-0450, Efstaleiti 1, 150 Reykjavík, og til réttargæslu Félag tæknifólks í rafiðnaði, kt. 560493-3049, Stórhöfða 31, 110 Reykjavík og Félag rafeindavirkja, kt. 610174-2139, Stórhöfða 31, 110 Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Stefnendur krefjast þess að viðurkennt með dómi að Blaðamannafélag Íslands fari með samningsaðild fyrir þá við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá Ríkisútvarpinu ohf.
2. Að viðurkennt verði að kjarasamningur Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, dags. 29. nóvember 2005, sem endurnýjaður var þann 2. desember 2009, gildi um laun og kjör stefnenda frá 31. mars 2008, en til vara frá öðru og síðara tímamarki að mati réttarins.
3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefndu.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnenda. Þá er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Í þessum þætti málsins er til meðferðar krafa stefnda um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.
I.
Stefnendur lýsa málavöxtum þannig, að stefnendur eigi það allir sammerkt að starfa sem svonefndir fréttatökumenn á fréttastofu sjónvarps hjá Ríkisútvarpinu ohf. Sinni stefnendur fréttatökum sem fara fram utan við starfsstöð Ríkisútvarpsins ohf. að Efstaleiti 1, Reykjavík.
Ríkisútvarpið ohf. hafi verið sett á stofn með lögum nr. 6/2007 og hafi félagið tekið yfir rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins frá og með 1. apríl 2007. Stefnendur hafi allir starfað hjá Ríkisútvarpinu við framangreind aðilaskipti að rekstri þess og haldið áfram störfum hjá Ríkisútvarpinu ohf. Stefnandi Tómas hafi við aðilaskiptin verið félagsmaður í Félagi rafeindavirkja og aðrir stefnendur, Freyr, Guðmundur, Ragnar, Vilhjálmur og Þór, hafi verið félagsmenn í Félagi tæknifólks í rafiðnaði. Um kaup og kjör stefnenda hafi á þessum tíma farið eftir kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, dagsettum 1. júní 2004, sem runnið hafi sitt skeið 31. mars 2008.
Með bréfum, dagsettum 29. febrúar 2008, hafi stefnandi Tómas tilkynnt Félagi rafeindavirkja um úrsögn sína úr félaginu og sama dag óskað eftir inngöngu í Blaðamannafélag Íslands (BÍ). Afrit af bréfum þessum hafi verið send stefnda, Ríkisútvarpinu ohf. Með bréfi BÍ, dagsettu18. mars 2008, til Félags rafeindavirkja hafi úrsögn Tómasar verið áréttuð og staðfest að Tómas hefði gengið í BÍ.
Með bréfi, dagsettu 29. febrúar 2008, hafi aðrir stefnendur tilkynnt Félagi tæknifólks í rafiðnaði um úrsögn sína úr félaginu. Sama dag hafi þeir óskað eftir inngöngu í BÍ. Afrit þessara tilkynninga hafi verið send stefnda. Með bréfi BÍ til Félags tæknifólks í rafiðnaði, dagsettu 18. mars 2008, hafi úrsögn stefnenda úr félaginu verið áréttuð og staðfest að þessir aðilar hefðu gengið í BÍ.
Hinn 14. mars 2008 hafi BÍ sent stefnda bréf þar sem tilkynnt var að stefnendur hefðu falið BÍ kjarasamningsfyrirsvar. Hafi í bréfunum verið áréttað að kjarasamningur, sem stefnendur væru bundnir af, myndi renna sitt skeið á enda 31. mars 2008 og af því tilefni óskað eftir viðræðum um gerð nýs kjarasamnings við stefnda, enda félagið nýtt á hinum almenna vinnumarkaði. Hinn 21. maí 2008 hafi verið ítrekuð áður framkomin ósk BÍ um kjarasamningsviðræður, sem og ósk um að staðið yrði skil á skilagreinum og iðgjöldum vegna stefnenda til BÍ. Með bréfi, dagsettu 3. júní 2008, hafi BÍ formlega óskað eftir viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) um gerð kjarasamnings vegna stefnda.
Með bréfi BÍ til stefnda, dagsettu 23. september 2008, hafi enn á ný verið vakin athygli á því að ekki hefðu borist skilagreinar eða skil félagsgjalda til BÍ vegna stefnenda. Bréfinu hafi verið svarað af hálfu stefnda með bréfi, dagsettu 3. október 2008, þar sem upplýst var að félagsgjöld og önnur sjóðagjöld vegna stefnenda hefðu verið greidd til Félags tæknifólks í rafiðnaði og Félags rafeindavirkja, og því borið við að ekki hefði verið lögð fram staðfesting á lokum aðildar stefnenda að nefndum stéttarfélögum. Með bréfi BÍ til stefnda, dagsettu 7. október 2008, hafi fyrri tilkynningar stefnenda verið sendar stefnda á ný og í framhaldi, eða hinn 11. nóvember 2008, hafi stefndi staðið skil á skilagreinum og sjóðagjöldum vegna stefnenda til BÍ fyrir nóvembermánuð 2008 og hafi svo verið allt frá þeim tíma.
Í bréfi BÍ, dagsettu 11. nóvember 2008, hafi verið vakin athygli stefnda á því, að kjör stefnenda yrðu að lágmarki að nema þeim kjörum sem kveðið væri á um í almennum kjarasamningi BÍ og SA, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 5. og 7. gr. laga nr. 80/1938. Hafi verið óskað staðfestingar á því að kjör stefnenda uppfylltu þessi skilyrði. Með bréfi stefnda til BÍ, dagsettu 26. nóvember 2008, hafi verið óskað nánari skýringa á tilteknum atriðum í tengslum við hinn almenna kjarasamning BÍ og SA. Hafi sérstaklega verið tekið fram að svo virtist sem mörg ákvæði kjarasamningsins væru afmörkuð fyrir blaðamenn og þeirri skoðun lýst að litið væri svo á að stefnendur væru bundnir af kjarasamningi RSÍ og SA út gildistíma þess samnings eða til 30. nóvember 2010, þar sem sá samningur hefði verið í gildi þegar stefnendur hafi gengið úr RSÍ. Bréfi stefnda hafi verið svarað með bréfi BÍ, dagsettu 7. janúar 2009. Í bréfinu hafi verið áréttaður sá skilningur BÍ að kjarasamningur BÍ og SA væri lágmarkssamningur um kaup og kjör allra félagsmanna í BÍ, hvort heldur þeir gegndu störfum sem blaðamenn eða öðrum þeim störfum sem heimiluðu þeim aðild að BÍ samkvæmt lögum félagsins. Þeirri skoðun stefnda, að stefnendur teldust bundnir af kjarasamningi RSÍ og SA hafi verið mótmælt og ítrekað að stefnendur hefðu verið bundnir af kjarasamningi RSÍ við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, en að sá samningur hefði runnið út 31. mars 2008.
Fulltrúar BÍ og stefnda, ásamt fulltrúa frá SA, hafi átt í viðræðum um mál stefnenda, en án árangurs. Af hálfu stefnda hafi því verið lýst yfir að félagið viðurkenndi ekki að aðalkjarasamningur BÍ og SA næði til starfa stefnenda sem fréttatökumanna hjá stefnda., sbr. síðast tölvupóst þess efnis til BÍ, dagsettan 15. júlí 2010. Hafi stefndi því til viðbótar reynt að knýja stefnendur til viðurkenningar á sjónarmiðum sínum með undirritun einstaklingsbundinna ráðningarsamninga. Stefnendur geti ekki sætt sig við afstöðu stefnda og telji hana ólögmæta. Af þeim sökum sé mál þetta höfðað vegna hlutaðeigandi starfsmanna, sem félagsmanna í BÍ, til þess að fá leyst úr ágreiningi aðila um gildissvið og túlkun kjarasamnings BÍ og SA gagnvart stefnendum.
Stefndi lýsir málavöxtum þannig að fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu séu ekki meðlimir í BÍ, heldur hafi þeir með sér sérstakt félag, Félag fréttamanna, og sérstakan kjarasamning við Ríkisútvarpið og hafi kjarasamningur SA og BÍ aldrei tekið til starfa á fréttastofum Ríkisútvarpsins.
Tæknimenn, sem starfi með fréttamönnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins, kvikmyndatökumenn og hljóðupptökumenn, hafi lengi verið félagsmenn í aðildarfélögum Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) og ráðningarsamningar þeirra byggst á kjarasamningi RSÍ. Lengst af þeim, sem sambandið hafi gert við fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og stofnana þess, síðar eða eftir breytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag og inngöngu í SA á samningi þeirra samtaka við RSÍ. Í ráðningarsamningum stefnenda sé vísað til kjarasamninga aðildarfélaga RSÍ og ákvæði þeirra gerð að hluta af ráðningarkjörum. Starfheitið fréttatökumenn hafi ekki verið notað hjá Ríkisútvarpinu.
SA hafi í febrúar 2008 gert kjarasamninga við Eflingu og RSÍ sem taki almennt til aðildarfyrirtækja samtakanna, Ríkisútvarpsins þar með talins. Til hafi staðið að gera sérstakan kjarasamning vegna Ríkisútvarpsins við RSÍ en af því hafi ekki orðið. Hins vegar hafi af samtakanna hálfu um mitt ár 2008 verið gerðir sérstakir kjarasamningar vegna Ríkisútvarpsins við Útgarð ofl., Félag fréttamanna og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins og taki þeir aðeins til starfsmanna Ríkisútvarpsins.
Síðastgildandi kjarasamningur SA og BÍ hafi verið gerður 2. desember 2009 og tekið til tímabilsins frá 1. febrúar það ár til 31. desember 2010 er hann féll úr gildi samkvæmt ákvæðum sínum, án sérstakrar uppsagnar, sama dag og Ríkisútvarpið gekk úr SA. Sá kjarasamningur, sem í gildi hafi verið næstur á undan þessum, hafi verið gerður 29. nóvember 2005 og gilt til 31. október 2008. Ráðningarsamningar hjá Ríkiútvarpinu hafi aldrei byggst á ákvæðum þessa samnings, enda aldrei um það samið hvorki í ráðningarsamningum né við gerð kjarasamninga.
Fréttamenn á Stöð 2 séu í BÍ en kjör þeirra byggist ekki á þeim samningi sem dómkröfur varða, heldur sé sérstakur kjarasamningur í gildi um störf þeirra þar.
Stefnendur hafi gengið úr aðildarfélögum RSÍ 29. febrúar 2008 en gildislok kjarasamnings RSÍ og ríkisins hafi orðið 31. mars 2008 og um mitt það ár hafi í framkvæmd verið farið að byggja á kjarasamningi SA og RSÍ í hans stað.
Ráðningarsamningar stefnenda vísi þannig enn til kjarasamnings RSÍ og ráðningarkjör þeirra byggi á honum. Þeim hafi ekki verið breytt þar sem ekki hafi tekist um það samningur. Né heldur hafi kjarasamningsumleitanir leitt til niðurstöðu. Félagsgjöldum sé hins vegar skilað til Blaðamannafélagsins í samræmi við óskir stefnenda.
II.
Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að stefndi Ríkisútvarpið ohf. hafi viðurkennt stéttarfélagsaðild stefnenda að BÍ, enda fæli gagnstæð afstaða í sér brot gegn félagafrelsisákvæði 74 gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem veittu samningnum lagagildi á Íslandi, sem og ákvæði 4. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Af því leiði að starfsmenn verði ekki þvingaðir til þess að fá stéttarfélagi, sem þeir hafa sagt sig úr og vilja ekki vera í, umboð til þess að gera kjarasamninga fyrir þeirra hönd, án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, sbr. m.a. forsendur Félagsdóms í máli nr. 9/1999. Skilagreinar og sjóðagjöld hafi borist frá stefnda vegna stefnenda allt frá 11. nóvember 2008 og frá sama tíma hafi engar greiðslur verið inntar af hendi til réttargæslustefndu vegna starfa stefnenda hjá stefnda. Engar athugasemdir hafa komið frá réttargæslustefndu vegna þessa eða vegna úrsagna stefnenda.
BÍ sé stéttarfélag sem starfi á grunni ákvæða laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt gr. 2.1. í lögum félagsins geti allir þeir orðið félagar að BÍ sem hafa fjölmiðlun að aðalstarfi eða eru fastráðnir starfsmenn ritstjórna á dagblöðum, vikublöðum, sértímaritum, landshlutablöðum og fréttastofum útvarps- og sjónvarpsstöðva, sem og aðrir þeir sem fastráðnir eru við frétta- og fjölmiðlun á launakjörum sem félagið hefur samið um eða gefið út taxta fyrir. Þar með séu taldir blaðamenn, fréttamenn, útlitsteiknarar, prófarkarlesarar, handritalesarar, ljósmyndarar, safnverðir, ritstjórar, ritstjórnarfulltrúar, fréttastjórar, dagskrárgerðarmenn fréttadeilda útvarps- og sjónvarpsstöðva hljóð- og tökumenn, tækni og aðstoðarfólk á dagskrár- og fréttadeildum. Í samræmi við framangreint ákvæði hafi stefnendur öðlast aðild að BÍ við inngöngu í félagið hinn 29. febrúar 2008, samhliða úrsögnum úr Félagi tæknifólks í rafiðnaði og Félagi rafeindavirkja.
BÍ hafi um árabil gert almennan kjarasamning við SA um þau störf sem félagið hefur samningsaðild fyrir. Við inngöngu stefnenda í BÍ hafi verið í gildi kjarasamningur, dagsettur 29. nóvember 2005, sem gilt hafi til 31. október 2008, en síðast gildandi samningur sé dagsettur 2. desember 2009 með gildistíma til 31. desember 2010. Upplýst sé að stefndi hafi gengið í raðir SA þann 10. desember 2007, en stefndi hafi gengið úr SA frá síðustu áramótum að telja (2010/2011), sem skýri varnaraðild málsins. Stefndi hafi verið bundinn af kjarasamningi BÍ og SA, sem eitt af aðildarfélögum SA á framangreindu tímamarki. Ákvæði samningsins, sem sé aðalkjarasamningur, gildi í heild sinni um þau störf sem BÍ hafi samningsaðild fyrir, þ.m.t. störf stefnenda, og kveði samningurinn á um lágmarkskjör á hinum almenna vinnumarkaði á samningssvæði BÍ í þeim starfsgreinum sem BÍ fari með samningsaðild fyrir og tilgreindar séu í lögum félagsins, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 og 5. og 7. gr. laga nr. 80/1938. Sé í því sambandi m.a. á því byggt, gagnstætt því sem stefndi hafi ýjað að, að beita beri rúmri skýringu á orðmyndum hugtaksins „blaðamaður“ í kjarasamningnum með vísan til heitis, efnis, eðlis, tilgangs og forsögu kjarasamningsins og samanburðarskýringar á ákvæðum kjarasamningsins, laga BÍ, heiti félagsins, ákvæðum laga nr. 80/1938 og síðast en ekki síst með vísan til framkvæmdar kjarasamningsins varðandi kjör þeirra félagsmanna BÍ sem gegna öðrum stöfum en starfi „blaðamanns“ í þröngri merkingu þess orðs, sbr. t.a.m. ljósmyndarar. Ljósmyndarar hafi þannig, svo dæmi sé tekið, notið réttar til þriggja mánaða leyfis, en í störfum sínum hafi þeir í auknum mæli færst nær störfum stefnenda vegna tækniframfara við myndbandsupptökur. Fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu hafi og notið sama réttar. Skýra beri kjarasamninginn á þann veg að hugtakið „blaðamaður“ í aðalkjarasamningnum nái þannig til starfsgreinar stefnenda, fréttatökumanna, sem BÍ hafi samningsaðild fyrir. Samningurinn beri með sér hvenær tilteknum ákvæðum hans sé að öðru leyti ætlað að gilda sérstaklega um tiltekna starfsgrein, sbr. t.d. ákvæði V. kafla sem fjalli sérstaklega um handritalesara.
Starf stefnenda sem fréttatökumanna á fréttastofu sjónvarps utan starfsstöðvarinnar að Efstaleiti 1 sé hið sama eða verði öldungis jafnað við starf fréttamanna sjónvarps, en þessir aðilar vinni sem teymi úti á vettvangi við fréttaumfjöllun af hinum ýmsu þjóðfélagsatburðum. Staða stefnenda kristallist eflaust best í þeirri staðreynd að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi fyrr í vetur hlotið Gunnar Høydal-verðlaun EBU Sambands evrópska útvarpsstöðva fyrir bestu sjónvarpsfréttaumfjöllun ársins 2010 fyrir fréttaumfjöllun af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli og af efnahagshruninu, atburðum sem öllum séu í fersku minni.
Stefndi hafi verið settur á stofn með setningu laga nr. 6/2007 og hafi hann tekið yfir allan rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins frá 1. apríl 2007. Frá sama tíma hafi fallið úr gildi lög nr. 122/2000, um ríkisútvarpið og ríkisstofnunin Ríkisúrvarpið verið lögð niður. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum 6/2007 sé sérstaklega vísað til þess að um réttindi og skyldur starfsmanna fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki, eftir því sem við eigi. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 sé kveðið á um það að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verði sagt upp eða hann renni út eða þar til annar kjarasamningur öðlist gildi eða komi til framkvæmda. Við aðilaskipti að rekstri Ríkisútvarpsins hafi verið í gildi kjarasamningur milli RSÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og hafi sá samningur gilt um kaup og kjör stefnenda. Efni sínu samkvæmt hafi samningurinn runnið út þann 31 mars 2008 og hafi stefnendur verið bundnir af ákvæðum þess samning til loka hans. Frá sama tíma, 31. mars 2008, var Ríkisútvarpið ohf. bundið af samningi SA og BÍ, sem eitt aðildarfélaga SA á þeim tíma, sbr. og ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980. Mómælt sé sem rangri og ekki síður ósannaðri þeirri málsástæðu stefnda, að stefnendur teljist vera bundnir af kjarasamningi RSÍ og SA sem gerður var á árinu 2008, eða að þeim samningi hafi yfir höfuð verið ætlað að gilda um störf stefnenda sem fréttatökumanna hjá stefnda. Á því tímamarki sem samningur RSÍ og SA var endurnýjaður á árinu 2008, hafi verið í gildi kjarasamningur milli RSÍ og ríkisins sem tekið hafi til starfa stefnenda. Því verði hvergi fundinn staður í kjarasamningi RSÍ og SA að þeim samningi hafi verið ætlað að yfirtaka og/eða stytta gildistíma samnings RSÍ og ríkisins gagnvart stefnendum sem starfsmönnum stefnda. Samningur RSÍ og SA hefði þannig í fyrsta lagi getað tekið gildi gagnvart stefnendum frá lokum gildistíma samnings RSÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, 31. mars 2008, en á því tímamarki hafi stefnendur ekki lengur verið félagsmenn í aðildarfélögum RSÍ. Samningur RSÍ og SA, sem gilti afturvirkt frá 1. febrúar 2008, sé óskuldbindandi fyrir stefnendur. Stefnendum hafi aldrei verið gefinn kostur á að greiða atkvæði um þann samning. Þess utan liggi fyrir að á því tímamarki sem úrsögn stefnenda átti sér stað úr hinum réttargæslustefndu stéttarfélögum, hafði aðalkjarasamningur SA og RSÍ ekki tekið gildi eða hlotið endanlegt samþykki, þar sem atkvæðagreiðslu um samninginn hafi ekki lokið fyrr en í marsmánuði 2008.
Stefnendur kveðast sækja mál þetta á grundvelli ákvæða laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, einkum 2. tl. 1. mgr. 44. gr. Málskostnaðarkrafa styðjist við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað við ákvæði laga 50/1988, um virðisaukaskatt.
III.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/1938 sé Félagsdómi ekki ætlað að fjalla um þá kröfu sem stefnendur setji fram í 1. tl. Ákvæði laga nr. 94/1986, um kjarasamninga starfsmanna ríkisins, taki ekki til lögskipta málsaðila. Dómur sá í málinu nr. 9/1999, sem stefnendur vísi til kröfu sinni til stuðnings, varði réttarsamband á gildissviði síðarnefndu laganna en ekki laganna frá 1938, en óumdeilt sé að eldri lögin taki til lögskipta aðila þessa máls.
Í kröfu þeirri sem stefnendur setja fram undir 2. tl. felist krafa um að Félagsdómur breyti ákvæðum sem fyrir eru í ráðningarsamningum stefnenda. Ráðningarsamningarnir kveði á um að ráðningarkjör ráðist af kjarasamningi RSÍ, en samkvæmt dómkröfu þessari eigi þau að ráðast af kjarasamningi BÍ. Það sé ekki hlutverk Félagsdóms að skýra eða hlutast til um efni ráðningarsamninga, hvað þá að ganga til breytingar á efni þeirra, frá því sem vinnuveitandi og hlutaðeigandi launamaður sömdu um. Til þess bresti Félagsdóm vald.
Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að stefnda verði gert að greiða stefnendum málskostnað að skaðlausu. Engar kröfur eru hins vegar gerðar á hendur réttargæslustefndu.
IV.
Niðurstaða.
Dómkröfur stefnanda í máli þessu eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnandi, Blaðamannafélag Íslands, fari með samningsaðild fyrir sex nafngreinda félagsmenn sína sem eru starfsmenn stefnda, Ríkisútvarpsins ohf., við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá stefnda. Í öðru lagi er þess krafist að viðurkennt verði að kjarasamningur stefnanda og Samtaka atvinnulífsins, dagsettur 29. nóvember 2005, sem endurnýjaður var hinn 2. desember 2009, gildi um laun og kjör stefnenda frá 31. mars 2008, en til vara frá öðru og síðara tímamarki að mati dómsins.
Stefnandi byggir á því varðandi fyrri kröfulið dómkrafnanna að umræddir félagsmenn stéttarfélagsins hafi sagt sig úr þeim stéttarfélögum, sem þeir voru áður í, sem eru réttargæslustefndu í málinu, og gengið í stefnanda svo sem stjórnarskrárvarinn og lögvarinn réttur þeirra standi til, sbr. félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 11. gr. mannréttindasáttamála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, og 4. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Hafi stefndi viðurkennt stéttarfélagsaðild umræddra félagsmanna stefnanda og skilagreinar og sjóðagjöld borist frá stefnda allt frá 11. nóvember 2008. Standist ekki að þvinga umrædda félagsmenn stefnanda til að fela stéttarfélögum, sem þeir hafi sagt sig úr, umboð til að gera kjarasamninga fyrir þeirra hönd. Engar athugasemdir hafi komið frá réttargæslustefndu, hvorki vegna skila á gjöldum né úrsagnanna. Störfum umræddra félagsmanna, er starfi sem „fréttatökumenn“ verði fundinn staður í kjarasamningi stefnanda við Samtök atvinnulífsins, en stefndi hafi verið innan vébanda þeirra samtaka á greindum tíma.
Viðvíkjandi síðari kröfulið í dómkröfum stefnanda er því borið við af hálfu stefnanda að á þeim tíma þegar umræddir starfsmenn stefnda höfðu sagt sig úr þeim stéttarfélögum, sem þeir voru í, réttargæslustefndu í málinu, og gengið í stefnanda, hafi verið í gildi kjarasamningur milli fjármálaráðherra og Rafiðnaðarsambands Íslands, dags. 1. júní 2004, sem gilt hafi um kaup og kjör þeirra. Sá kjarasamningur hafi runnið sitt skeið á enda hinn 31. mars 2008. Til þess tíma hafi starfsmennirnir verið bundnir af ákvæðum þess samnings, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002. Frá sama tíma hafi stefndi, þá aðili að Samtökum atvinnulífsins, verið bundinn af kjarasamningi stefnanda og þeirra samtaka, dags. 29. nóvember 2005, sem endurnýjaður var hinn 2. desember 2009 og gilti til 31. desember 2010.
Frávísunarkröfu sína rökstyður stefndi í fyrsta lagi með því að sakarefni málsins eigi ekki undir valdsvið Félagsdóms. Vísar stefndi til þess að ákvæði um valdsvið Félagsdóms, er sé sérdómstóll, beri að skýra þröngt. Málið sé rekið á grundvelli laga nr. 80/1938 og í þeim lögum, sbr. 44. gr. laganna, sé ekki ákvæði sem svari til 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í öðru lagi hafi aldrei gilt kjarasamningur á milli stefnanda og stefnda og raunar séu engin starfssvið til ráðstöfunar, sbr. reifun stefnda við munnlegan flutning málsins á skipan kjarasamninga varðandi starfsemi stefnda. Að auki bendir stefndi í þriðja lagi á að í síðari kröfulið stefnanda felist að Félagsdómur breyti ákvæðum sem fyrir eru í ráðningarsamningum við stefnda, enda kveði ráðningarsamningar á um að ráðningarkjör ráðist af kjarasamningum Rafiðnaðarsambands Íslands. Bresti Félagsdóm vald til að skýra eða hlutast til um efni ráðningarsamninga, hvað þá breyta þeim.
Samkvæmt framansögðu lúta ágreiningsefni málsins að samningsfyrirsvari stefnanda vegna umræddra sex starfsmanna stefnda sem gengið hafa í stefnanda og jafnframt sagt sig úr þeim stéttarfélögum sem þeir voru áður í, sbr. fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda, og hvaða kjarasamningur gildi um kaup og kjör þessara starfsmanna, sbr. síðari kröfulið í dómkröfum stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 eru stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Fram kemur í málinu að út af fyrir sig er ekki ágreiningur um stéttarfélagsaðild umræddra manna. Ljóst er að megininntak réttar manna til aðildar að stéttarfélögum er samningsfyrirsvar félaganna við kjarasamningsgerð. Þar sem málið varðar þannig samningsfyrirsvar og gildi kjarasamninga í því sambandi verður að telja ótvírætt að það eigi undir valdsvið Félagsdóms að fjalla um það, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og til hliðsjónar dóm Félagsdóms frá 18. febrúar 2010 í málinu nr. 9/2009: Alþýðusamband Íslands vegna Félags vélstjóra og málmtæknimanna gegn Norðuráli Grundartanga ehf. og Félagi iðn- og tæknigreina til réttargæslu. Þykir ekki skipta máli þótt í lögum nr. 80/1938 sé ekki fyrir að fara sérstöku ákvæði sem svarar til 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, eins og stefndi hefur borið við. Eins og stefndi bendir á er það ekki innan valdsviðs Félagsdóms að dæma um ráðningarkjör eða ráðningarsamninga sem starfsmenn gera þegar þeir eru ráðnir til vinnu. Hins vegar verður ekki talið að hugsanleg ágreiningsefni hvað þetta varðar geti staðið því í vegi að dómkröfur stefnanda í málinu hljóti efnisúrlausn.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er frávísunarkröfu stefnda hafnað. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Frávísunarkröfu stefnda, Ríkisútvarpsins ohf., er hafnað.
Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms.