Hæstiréttur íslands
Mál nr. 715/2012
Lykilorð
- Veðskuldabréf
- Lán
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 715/2012.
|
Samvirkni ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Byggðastofnun (Garðar Garðarsson hrl.) |
Veðskuldabréf. Lán. Gengistrygging.
Aðilar deildu um það hvort veðskuldabréf sem S ehf. gaf út til B væri lán í íslenskum krónum sem bundið væri gengi erlends gjaldmiðils eða hvort um væri að ræða lán í japönskum jenum. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að í skuldabréfinu hefði lánsfjárhæðin eingöngu verið tilgreind í japönskum jenum og hefðu vextir þeir sem tilgreindir voru einnig borið það með sér að um lán í japönskum jenum væri að ræða. Þá hefði verið um að ræða skuldabréf sem hefði haft að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kynnu að vera. Var því lagt til grundvallar að um gilt lán í japönskum jenum hefði verið að ræða og breytti þar engu um þótt S ehf. hefði fengið lánið greitt út í íslenskum krónum og greitt af láninu með sama hætti. Skipti heldur ekki máli aðdragandi þess að lánið hefði verið veitt. Þá var talið ótvírætt að B hefði haft heimild til þess að lána S ehf. japönsk jen. Var B því sýknuð af kröfum S ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. desember 2012. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf 6. febrúar 2008, sem útgefið var af áfrýjanda til stefndu, ,,feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig að fjárhæð skuldabréfsins sé bundin við gengi japansks jens, í andstöðu við 13. sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001“ um vexti og verðtryggingu. Til vara krefst hann þess að stefndu verði gert að standa við aðalskyldu framangreinds skuldabréfs þannig að henni verði gert að afhenda áfrýjanda 45.536.945,4 japönsk jen, gegn því að áfrýjandi „skili stefndu um leið til baka 27.319.433 íslenskum krónum sem stefnda greiddi fyrir skuldabréfið inn á reikning áfrýjanda.“ Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir lúta álitaefni málsins að því hvort veðskuldabréf það sem áfrýjandi gaf út til stefndu 6. febrúar 2008 sé lán í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlends gjaldmiðils eða hvort um sé að ræða lán í japönskum jenum. Í yfirskrift skuldabréfsins kom fram að um væri að ræða veðskuldabréf ,,tryggt með rekstrarveði samkvæmt lögum nr. 75/1997 um samningsveð“. Samkvæmt bréfinu viðurkenndi áfrýjandi að hafa fengið að láni hjá stefndu 44.334.975 japönsk jen og var skuld áfrýjanda eingöngu greind í þeim gjaldmiðli. Vextir af láninu voru breytilegir og námu ,,2,25% á ári yfir millibankavöxtum (Libor í JPY) á lánum til 1 mánaðar í JPY“. Einnig kom fram í bréfinu hvernig með skyldi fara ef greiðslur færu fram í íslenskum krónum, en þá skyldi fjárhæð útborgunar miðast við opinbert kaupviðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á útborgunardegi lánsins, en greiðsla afborgana og vaxta í íslenskum krónum miðast við opinbert söluviðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á greiðsludegi lánsins.
Við úrlausn þess hvort um gilt lán í japönskum jenum var að ræða eða gengistryggt lán í íslenskum krónum, er fyrst að líta til þess að lánsfjárhæðin var í skuldabréfinu einvörðungu tilgreind í japönskum jenum. Í öðru lagi báru vextir þeir sem tilgreindir voru með sér að um væri að ræða lán í japönskum jenum. Eins og fram er komið var í þriðja lagi um að ræða skuldabréf, viðskiptabréf, sem hafði að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kynnu að vera. Að þessu virtu verður lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða gilt lán í japönskum jenum. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt áfrýjandi hafi fengið lánið greitt út í íslenskum krónum í samræmi við ákvæði skuldabréfsins og greitt af láninu í íslenskum krónum. Aðdragandi þess að lánið var veitt skiptir heldur ekki máli í þessu sambandi.
Stefnda starfar samkvæmt lögum nr. 106/1999 um Byggðastofnun. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að í samræmi við hlutverk sitt vinni stefnda að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Stefnda er því lánastofnun og hefur starfsleyfi í samræmi við 3. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í 15. gr. laga nr. 106/1999 segir að stefndu sé heimilt innan ramma fjárlaga að taka lán til starfsemi sinnar innan lands eða erlendis, annað hvort í eigin nafni eða fyrir milligöngu annarra. Stefnda fjármagnar sig því meðal annars með erlendum lántökum og rúmast sú starfsemi innan ramma starfsheimilda hennar, eins og áréttað var í bréfi Fjármálaeftirlitsins til áfrýjanda 29. október 2012. Að þessu sögðu er ljóst að stefnda hefur heimild til útlána til viðskiptavina, ekki einvörðungu í íslenskum krónum, heldur einnig í bandaríkjadölum, evrum, svissneskum frönkum og japönskum jenum, eins og fram kemur í 2. gr. verklagsreglna stefndu um útlánastarfsemi, fjármála- og eignaumsýslu. Ótvírætt er því að stefnda hefur haft heimild til að lána áfrýjanda japönsk jen, líkt og hún gerði.
Ber samkvæmt öllu ofangreindu að sýkna stefndu af aðalkröfu áfrýjanda. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um varakröfu áfrýjanda og málskostnað í héraði.
Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Samvirkni ehf., greiði stefndu, Byggðastofnun, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. september 2012.
I
Mál þetta var höfðað 24. febrúar sl. og tekið til dóms 22. ágúst sl. Stefnandi er Samvirkni ehf. á Akureyri.
Stefndi er Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf, dagsett 6. febrúar 2008, útgefið af stefnanda til stefnda, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig að fjárhæð skuldabréfsins sé bundin við gengi japansks yens, í andstöðu við 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001.
Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði gert að standa við aðalskyldu skuldabréfs, dagsett 6. febrúar 2008, útgefið af stefnanda til stefnda, þannig að stefndi afhendi stefnanda 43.536.945,5 japönsk yen gegn því að stefnandi skili stefnda um leið til baka 27.319.433 íslenskum krónum sem stefndi greiddi fyrir skuldabréfið inn á reikning stefnanda. Í báðum tilfellum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess að stefnandi greiði honum málskostnað og við ákvörðun hans verði tekið tillit til þeirra hagsmuna sem um er deilt í málinu og þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.
II
Málavextir
Stefndi er stofnun í eigu íslenska ríkisins og gilda um hana lög nr. 106/1999 og reglugerð nr. 347/2000. Stefndi hefur það hlutverk að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, m.a. með því að lána fé til verkefna á landsbyggðinni. Í þessum tilgangi tók stofnunin m.a. þrjá milljarða yena að láni hjá Norræna fjárfestingarbankanum í ágúst 2007 til að endurlána hér á landi. Stefndi segir stofnunina starfa skipulega eftir verklagsreglum sem settar hafa verið með formlegum hætti. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 341/2000 komi fram að stjórn geti falið lánanefnd, sem forstjóri veitir forstöðu, að taka ákvarðanir um einstaka lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur. Í verklagsreglum frá 17. ágúst 2007, sem settar voru í samræmi við þetta ákvæði, kemur fram að lán frá stofnuninni séu veitt í íslenskum krónum, Bandaríkjadölum, evrum, svissneskum frönkum eða japönskum yenum. Lán í íslenskum krónum séu verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, vextir séu nú 7% og lántökugjald 1,8%. Vextir á erlendum lánum eru breytilegir og miðast við millibankavexti á lánum að viðbættu álagi sem nú sé 3%.
Hinn 13. janúar 2008 sótti stefnandi um 30.000.000 króna lán til stefnda. Umsókninni fylgdi greinargerð þar sem fram kom að stefnandi hygðist verja 27.000.000 króna af lánsfénu til kaupa á hlutafé í félagi á Akureyri auk þess sem til stæði að nota hluta fjárins til endurbóta á húsnæði stefnanda. Hinn 18. janúar 2008 samþykkti lánanefnd stefnda að bjóða stefnanda lán að fjárhæð 27.000.000 króna þar sem hann taldi framboðin veð stefnanda ekki standa undir hærra láni.
Stefndi tilkynnti stefnanda að samþykkt hefði verið að bjóða honum lán að fjárhæð 27.000.000 króna jafnframt því sem stefnanda var boðið að velja á milli fjögurra valkosta varðandi lánið auk þess sem hann hafði val um fjölda gjalddaga. Í bréfi stefnda til stefnanda frá 18. janúar 2008 segir m.a. svo: „Lántaki getur valið á milli eftirfarandi lánskjara:
a. Verðtrygging með neysluvísitölu og 7,0% vöxtum.
b. Gengistrygging í bandarískum dollurum með LIBOR vöxtum að viðbættu 2,0% álagi og 0,25% ríkisábyrgðargjaldi.
c. Gengistrygging í evru með EURIBOR vöxtum að viðbættu 2,0% álagi og 0,25% ríkisábyrgðargjaldi.
d. Gengistrygging í japönskum yenum með LIBOR vöxtum í JPY að viðbættu 2,0% álagi og 0,25% ríkisábyrgðargjaldi.“
Með tölvupósti til stefnda lýsti stefnandi því yfir að hann vildi fá lánið í japönskum yenum með þeim skilmálum sem greindir eru í d-lið hér að framan auk þess sem hann gerði grein fyrir því hvað hentaði honum varðandi gjalddaga og afborganir vaxta. Í framhaldi af þessu útbjó stefndi veðskuldabréf þar sem fram kemur að stefnandi fái að láni hjá stefnda 44.334.975 japönsk yen sem hann lofar að endurgreiða með 174 jöfnum afborgunum á nánar tilgreindum gjalddögum. Í veðskuldabréfinu eru síðan ákvæði um breytilega vexti af lánsfjárhæðinni en þegar lánið var veitt voru þeir 2,25% yfir millibankavöxtum (libor í JPY) á lánum til eins mánaðar í japönskum yenum. Þá eru í bréfinu ákvæði þess efnis að komi til vanskila skuli greiða dráttarvexti. Dráttarvextir skuli vera samningsvextir að viðbættu 3% álagi.
Skuldabréfi þessu var síðan, að undangenginni undirritun, þinglýst á tvo eignarhluta í fasteign stefnanda að Hafnarstræti 97 á Akureyri. Eftir þetta óskaði stefndi eftir upplýsingum frá stefnanda um það hvert ætti að greiða andvirði lánsins og að þeim fengnum greiddi stefndi 27.820.197 krónur á tilgreindan tékkareikning stefnanda. Fjárhæðin nam andvirði 44.334.975 japanskra yena á útborgunardegi að frádregnum 798.029,55 japönskum yenum sem nam lántökukostnaði. Útgreidd fjárhæð var því nokkru hærri í íslenskum krónum en lánsloforð stefnda til stefnanda sem skýrist af hækkun á gengi íslensku krónunnar gagnvart japönsku yeni frá því að lánsloforðið var gefið og þar til fjárhæðin var greidd út í íslenskum krónum. Hefði lánið verið tekið í íslenskum krónum hefði útborguð fjárhæð að frádregnum lántökukostnaði orðið 26.514.000 íslenskar krónur.
Vegna mikils gengisfalls íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hækkaði lán stefnanda verulega í íslenskum krónum. Stefnandi greiddi í fyrstu vaxtagjalddaga lánsins en þegar kom að því að greiða afborganir af höfuðstól lánsins sömdu aðilar um breytingu á skilmálum þess þannig að lánið skyldi vera afborgunarlaust í sex mánuði en vextir greiddir. Alls var samið fjórum sinnum um breytingar á skilmálum lánsins. Í öllum skilmálabreytingunum voru eftirstöðvar lánsins tilgreindar í japönskum yenum og vöxtum bætt við höfuðstól en staða lánsins tilgreind í íslenskum krónum og japönskum yenum. Stefnandi hefur ekki greitt af láninu frá því í apríl 2011 en hann hefur farið þess á leit við stefnda að lánið yrði endurreiknað og mið tekið af því að um væri að ræða ólögmætt gengistryggt lán en á það hefur stefndi ekki fallist.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi heldur því fram að umrætt lán sé skuldbinding í íslenskum krónum og fjárhæð þess verðtryggð miðað við gengi japansks yens en slíkt fyrirkomulag sé í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt nefndri 14. gr. sé eingöngu heimilt að verðtryggja skuldbindingar er varða lánsfé í íslenskum krónum. Ákvæði greinarinnar séu ófrávíkjanleg.
Stefnandi segir að deila aðila snúist um það hvort lánið teljist vera skuldbinding í íslenskum krónum eða japönskum yenum. Heldur hann því fram að með dómum Hæstaréttar íslands í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011 hafi rétturinn mótað þau sjónarmið sem líta verði til þegar ákveðið er hvort lán hafi verið veitt í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Stefnandi heldur því fram að eftirfarandi sjónarmið hafi rétturinn einkum lagt til grundvallar niðurstöðu sinni í nefndum dómum.
Lánsfjárhæð samninga og skuldabréfa hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og endurgreiðsla hafi farið fram í íslenskum krónum.
Lán hafi verið bundin við sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum sem benti ótvírætt til þess að þau hafi í raun verið í íslenskum krónum, enda óþarft að mæla fyrir um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt.
Ekki skipti máli þótt staðhæft væri í fyrirsögn lánasamninga að um erlent lán væri að ræða, né sú yfirlýsing lántaka að hann skuldaði í erlendum gjaldmiðlum jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum króum.
Ekki skipti máli þótt fjárhæð gjaldmiðla væri tilgreind síðar eða jafngildi hennar í erlendum myntum.
Líta þurfi til ákvæða í lánasamningi um heimild til að breyta gjaldmiðlum en þar komi glöggt fram að erlendir gjaldmiðlar væru til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar.
Aðalskylda lánveitanda hafi verið efnd með greiðslu í íslenskum krónum inn á íslenskan tékkareikning lántaka í samræmi við útborgunarbeiðni.
Aðalskylda lántaka hafi verið efnd með greiðslu vaxta og höfuðstóls með skuldfærslu íslensk tékkareiknings lántaka hjá lánveitanda til greiðslu vaxta og höfuðstóls og því hafi báðir samningsaðilar efnt meginskyldur sínar samkvæmt samningnum með greiðslum í íslenskum krónum.
Stefnandi byggir á því að skuldabréf það sem um er þrætt í máli þessu sé í íslenskum krónum og því beri að endurreikna það í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001. Engu máli skipti þótt fjárhæð lánsins sé tilgreind í erlendri mynt, heldur sé þar einungis um að ræða raunverulega tímasetningu á verðtryggingu miðað við gengi japansks yens. Í stað þess að fjárhæð yens til gengistryggingar hafi verið ákveðin við útborgunardag, líkt og gert var í þeim samningum sem um var þrætt í nefndum dómum Hæstaréttar Íslands, þá hafi fjárhæðin verið ákveðin sama dag og skuldabréfið var undirritað. Stefnandi hafi farið fram á að fá lánaðar 30.000.000 króna en lánanefnd stefnda hafi samþykkt að lána honum 27.000.000 króna sem síðan átti að endurgreiða á 15 árum. Stefnanda hafi síðan staðið til boða að velja á milli ferns konar kjara á láninu en þeirra var áður getið í lýsingu á málavöxtum. Stefnandi valdi leið d eða gengistryggingu í japönskum yenum með LIBOR vöxtum í JPY að viðbættu 2,0% álagi og 0,25% ríkisábyrgðargjaldi. Stefnandi heldur því fram að eftir þetta hafi honum borist skuldabréf þar sem búið var að reikna út fjárhæð hinnar japönsku myntar til gengistryggingar miðað við að hann hafi tekið að láni 27.000.000 króna. Hann hafi því talið að gengistryggingin hafi farið fram við samningu og undirritun bréfsins, enda hafi íslenskar krónur verði lagðar inn á reikning hans og hann eftir þetta greitt af bréfinu með íslenskum krónum.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að honum hafi einungis staðið til boða að fá lán í íslenskum krónum en hann hafi síðan haft val um það hvort lánið yrði verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs eða gengistryggt miðað við yen, bandarískan dollar eða evru. Honum hafi hins vegar aldrei staðið til boða að fá lánið greitt í erlendri mynt. Stefndi vísar til þess að Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu að gengistrygging skuldbindinga í íslenskum krónum sé ólögmæt og gangi gegn 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi hafi lögum samkvæmt það hlutverk að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, m.a. með lánveitingum. Stefndi sé sérfræðingur á sviði lánveitinga og fjármálastarfsemi og því beri honum að ganga úr skugga um að lánasamningar sem hann geri séu í samræmi við lög og reglugerðir. Hafi hann boðið fram samninga með ólögmætri gengistryggingu þurfi hann að bera hallann af því.
Stefnandi bendir máli sínu til stuðnings á að hann hafi óskað eftir að fá að láni 30.000.000 króna. Í skuldabréfinu sé hins vegar búið að breyta þeirri fjárhæð í 44.334.975 japönsk yen sem stefnanda þykir sérkennileg fjárhæð hafi hann óskað eftir að fá lán í þeirri mynt enda sé fjárhæðin fundin með því að setja inn „gengistryggingarvísitölu“ sem hafi gefið þessa fjárhæð í japönskum yenum miðað við sölugengi þeirrar myntar gagnvart íslensku krónunni á lántökudegi.
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn enn fremur á því að það sé rangt sem fram kemur í byrjun skuldabréfsins að hann viðurkenni að hafa fengið að láni hjá stefnda 44.334.975 japönsk yen. Þessi yfirlýsing sé röng miðað við efni lánveitingarinnar, enda hafi stefnandi aldrei fengið neina japanska mynt frá stefnda. Hafi lánið verið í þeirri mynt sem stefndi heldur fram sé ljóst að ekki hafi verið við það staðið af hálfu stefnda sem greiddi lánið til stefnanda með íslenskum krónum. Erlend mynt hafi aldrei farið á milli aðila máls þessa.
Stefnandi bendir á að í skuldabréfinu sé eftirfarandi ákvæði: „Fari greiðslur fram í íslenskum krónum skal fjárhæð útborgunar miðast við opinbert kaupviðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á útborgunardegi lánsins. Greiðsla afborgana og vaxta í íslenskum krónum miðast við opinbert söluviðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á greiðsludegi lánsins.“ Af þessu megi ráða að stefndi geri ráð fyrir að greiða lánsfjárhæðina út í íslenskum krónum og gengisviðmiðið komi sér verr fyrir stefnanda en ef miðað væri við sölugengi eða miðgengi. Þá sé ljóst af ákvæðinu að skylda sé lögð á stefnanda til að greiða fjárhæðina til baka í íslenskum krónum, enda hafi svo verið í raun.
Stefnandi heldur því fram að aðalskylda stefnda hafi verið að lána ákveðna fjármuni sem hann efndi í íslenskum krónum. Aðalskylda stefnanda hafi síðan verið að endurgreiða lánið sem hann hafi ávallt gert með íslenskum krónum án andmæla stefnda. Báðir aðilar hafi því efnt skyldur sínar með íslenskum krónum og því hafi lánið verið í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011.
Auk þessa bendir stefnandi á að í skuldabréfinu sjálfu segi að verðtrygging vegna skuldabréfsins nái til höfuðstóls lánsins, gengismunar, vaxta, dráttarvaxta og hvers kyns kostnaðar. Þannig sé í bréfinu gert ráð fyrir gengismun en slíkur munur geti ekki komið upp ef lánið hafi verið í japönskum yenum en ekki gengistryggt eins og stefndi haldi fram.
Stefnandi vísar einnig til þess að fjórum sinnum hafi viðaukar verið gerðir við skuldabréfið í þeim tilgangi að fresta greiðslu afborgana en vextir hafi verið greiddir. Í viðaukunum komi fram upphafleg fjárhæð lánsins í íslenskum krónum ásamt upphaflegri fjárhæð í japönskum yenum. Í viðauka við bréfið frá 11. febrúar 2009 segi m.a. „Staða láns miðað við 26.01.2009 (gengi JPY 1,38)“. Þarna komi fyrst fram höfuðstólsfjárhæð í íslenskum krónum og síðar í hinni erlendu mynt. Að mati stefnanda hefur stefndi með þessu viðurkennt í raun að gengi japanskra yena hafi bein áhrif á höfuðstól lánsins sem sé í raun í íslenskum krónum. Í viðauka, sem gerður var 2. nóvember 2010, hafi stefndi hins vegar ákveðið að fella út fjárhæðina í íslenskum krónum og noti eingöngu japönsk yen en láti duga að hafa fjárhæðina í íslenskum krónum innan sviga. Að mati stefnanda var þetta gert vegna þess að vafi var uppi um gengistryggingu skuldabréfsins eftir að Hæstiréttur Íslands hafði kveðið upp dóm í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Stefndi hafi því ætlað að fegra lánasafn sitt. Stefnandi bendir einnig á að í ársskýrslu stefnda frá árinu 2007 komi fram að lánveitingar sjóðsins séu gengistryggðar og þá sé í sömu skýrslu fjallað um gengisbundnar eignir stefnda. Einnig vísar stefnandi til þess að í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn sem beint var til hans á Alþingi komi fram að gengistryggð útlán stefnda hafi hækkað um 6,2 milljarða króna frá 30. júní 2008 til 31. desember á sama ári.
Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að stefnda hafi verið óheimilt að veita stefnanda lán í erlendri mynt, a.m.k. hafi honum verið skylt að veita lánið í þeirri mynt sem fram kom í skuldabréfinu sjálfu. Í 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 komi fram að Seðlabankinn hafi heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Aðrir þurfi til þess heimild að lögum, eða ákvæðum alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að eða leyfi frá Seðlabankanum. Í lögum um stefnda sé ekki að finna heimild til að veita lán í erlendri mynt né heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.
Stefnandi leggur í málatilbúnaði sínum áherslu á að litið sé til efnis samnings aðila en ekki heitis hans. Því verði að skoða skuldabréfið í heild sinni, aðdraganda þess og hvernig hin raunverulega lánveiting og endurgreiðsla lánsins átti sér stað. Því dugi ekki að horfa til einstakra liða í skuldabréfinu eins og þess að fjárhæð lánsins komi fram í erlendri mynt þegar ljóst sé að skuldabréfið er varla í samræmi við lánareglu eða lánsloforð stefnda. Það sem mestu máli skipti í þessu tilviki sé að lánsfjárhæðin hafi verið greidd með íslenskum krónum og af láninu greitt með sömu mynt. Aðilar hafi því báðir fullnægt skyldu sinni með íslenskum krónum. Þá verði að horfa til þess að viðaukar við skuldabréfið bendi til þess að stefndi hafi sjálfur litið svo á að höfuðstóll lánsins væri í íslenskum krónum.
Stefnandi vísar einnig til orðalags 13. gr. laga nr. 38/2001 en þar komi fram að kafli sá, sem sú grein er í, gildi um skuldbindingar er varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. laganna nema lög mæli fyrir um annað. Þá vísar stefnandi til þess að í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 38/2001 komi fram að lagt sé til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður og ekki verði heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Rétt sé að taka af allan vafa þar að lútandi. Stefnandi heldur því fram að undir þetta falli ekki einungis skuldir sem skráðar eru í íslenskum krónum heldur einnig skuldbindingar í íslenskum krónum með víðtækari hætti. Stefnandi telur að lán það sem hér um ræðir hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum, þannig hafi verið sótt um lán í íslenskum krónum, það hafi verið greitt og af því greitt með þeirri mynt. Telur stefnandi að eini munurinn á þessu láni og þeim lánasamningi sem dæmdur var ólögmætur með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 155/2011 og 603/2010 og 604/2010 sé að fjárhæð skuldabréfsins í þessu máli sé tiltekin í erlendri mynt. Vísar stefnandi til þess að vilji löggjafans til að banna tengingu lána í íslenskum krónum við erlenda mynt sé skýr og stefndi geti ekki samið sig frá skýru lagaboði. Að mati stefnanda er ekki við það unandi að orðalag lánasamnings ráði því hvort lánið teljist í erlendri mynt eða ekki.
Loks vísar stefnandi til andskýringarreglu samningaréttar sem sé meginregla við skýringu og túlkun staðlaðra samninga. Í reglunni felist að komi upp vafi við túlkun samnings eða skýringu staðlaðs samnings beri að skýra slíkan samning þeim í óhag sem samið hefur hina einhliða skilmála en óumdeilt sé að umþrætt skuldabréf sé samið af stefnda.
Varðandi varakröfu sína vísar stefnandi til þess að stefnda beri að efna þá skyldu sína að afhenda stefnanda 43.536.945 japönsk yen og um leið beri stefnanda að endurgreiða stefnda þá fjárhæð sem lögð var inn á reikning hans. Þessi krafa sé reist á meginreglu samningaréttarins um að gerða samninga skuli halda. Í skuldabréfinu komi skýrt fram að stefnandi hafi fengið að láni hjá stefnda nefnda fjárhæð japanskra yena sem stefndi hefði þá átt að leggja inn á reikning stefnanda að frádregnum lántökukostnaði. Stefndi geti í þessu efni ekki bæði sleppt og haldið og lánað íslenskar krónur en um leið talið að lánið sé í erlendri mynt. Hafi lánið verið veitt í erlendri mynt beri stefnda að afhenda þá fjárhæð í þeirri mynt sem lánasamningurinn mælti fyrir um. Með þessum hætti verði ákvæði skuldabréfsins efnt samkvæmt efni sínu og þá skipti engu þótt gengi japanska yensins hafi hækkað eða lækkað á lánstímanum.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, laga um Byggðastofnun nr. 106/1999, meginreglna samninga og kröfuréttar og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá vísar hann til reglugerðar nr. 347/2000 fyrir Byggðastofnun. Krafa um málskostnað úr hend stefnda er reist á 1. mgr. 130. gr. nefndra laga um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi hafnar því alfarið að umþrætt lán sé í íslenskum krónum sem fært hafi verið í þann búning að um sé að ræða lánasamning með ólögmætu ákvæði um gengistryggingu líkt og stefnandi heldur fram.
Stefndi vísar til þess að á undanförnum misserum hafi dómstólar kveðið upp dóma varðandi það hvort heimilt væri að binda endurgreiðslu lánsfjár við gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að þau lánasamningsform sem um var deilt í þeim málum væru bæði eftir orðalagi sínu og efni þannig að þau tengdu endurgreiðslu lánanna við breytingar á gengi erlendra gjaldmiðla en slíkar verðtryggingar taldi rétturinn óheimilar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu. Að mati stefnda skiptir máli við úrlausn þessa máls að Hæstiréttur hafi í nefndum dómum tekið skýrt fram að lán í erlendri mynt falli ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum. Þetta sjónarmið hafi rétturinn ítrekað í síðari dómum og þannig komi fram í dómum réttarins í málum nr. 551/2011 og 552/2011 að skuldbinding í erlendum gjaldmiðli fari ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001.
Stefndi segir að í kjölfar nefndra dóma hafi gengið allmargir dómar þar sem tekist var á um orðalag í lánasamningum. Deilan hafi einkum snúist um orðalagið „jafnvirði“ eða þá skilmála þar sem lánsfjárhæð var tiltekin í íslenskum krónum og afborganir lánanna einnig, en jafnframt tekið fram að fjárhæð afborgana skyldi taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi íslensku krónunnar gagnvart tilteknum erlendum myntum. Í fyrirsögnum sumra þessara lánasamninga hafi verið vísað til þess að samið væri um lán í erlendri mynt þótt þær fyrirsagnir væru ekki í samræmi við efni samninganna. Í þessu sambandi nefnir stefndi sem dæmi dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 603/2010 og 604/2010 en þar hafi niðurstaðan verið sú að lánasamningarnir hafi verið með ólögmætri gengisviðmiðun til verðtryggingar. Eftir þessa dóma hafi rétturinn kveðið upp dóm í máli nr. 155/2011 og að honum gengnum hafi margir álitið að öll erlend lán væru ólögmæt án tillits til umgjörðar þeirra. Þetta sjónarmið hafi þó breyst að gengnum dómi réttarins í máli nr. 520/2011.
Stefndi vísar til dóms Hæstaréttar Íslands í síðastgreinda málinu og heldur því fram að með þeim dómi hafi rétturinn kveðið upp úr með það að orðalag lánasamninga geti skipt verulegu máli. Í máli þessu hafi rétturinn snúið við niðurstöðu héraðsdóms sem hafi talið, m.a. með vísan í nýlega dóma Hæstaréttar, að lánið væri ólögmætt gengistryggt lán. Hæstiréttur hafi beinlínis sagt að skuldabréfið, sem um var deilt í málinu, væri ekki sambærilegt þeim skuldabréfum sem áður hafði verið dæmt um og vísað til þess að meðal annars kæmi fram að fjárhæð skuldbindingar samkvæmt bréfinu í erlendum gjaldmiðlum kæmi skýrt fram sem fjárhæð skuldar. Þá bendir stefndi einnig á dóm Hæstaréttar í máli nr. 551/2011 en þar segi m.a.: „Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.“ Síðan komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að með skírskotun til þess að heiti samningsins ber með sér að um sé að ræða skuldbindingu í erlendri mynt og enn frekar að hún sé nákvæmlega tilgreind í erlendum gjaldmiðli, þótt vísað sé til jafnvirðis hennar í íslenskum krónum, séu fyrri dómar sem getið er í dóminum ekki fordæmi fyrir ólögmæti skuldbindingarinnar. Við þetta hafi orðið straumhvörf í átökum lánveitenda og lántaka.
Stefndi vísar í málatilbúnaði sínum til þess að lánasamningur sem um er deilt í máli þessu beri heitið veðskuldabréf auk þess sem vísað sé til þess með hvaða hætti bréfið sé veðtryggt. Efni skuldbindingarinnar sé enn fremur mjög skýrt en stefnandi viðurkenni að hafa fengið að láni hjá stefnanda 44.334.975 JPY. Hér sé því sama hvort litið sé til forms eða efnis skuldbindingarinnar, hún sé mjög skýr og ekki vísað til íslenskra króna eða jafnvirðis þeirra. Lánið sé að þeirri upphæð sem áður er getið og í þeirri mynt sem það kveður á um. Slík skuldbinding fari ekki gegn ákvæðum laga nr. 38/2001 og því beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefndi tekur sérstaklega fram að á þeim tíma sem lánið var veitt hafi ekki verið hömlur á lántöku í erlendum gjaldmiðlum eins og síðar varð. Því hafi lántaka og lánveitanda verið heimilt að semja um það í hvaða gjaldmiðli lánveitingin færi fram.
Stefndi heldur því fram að sú staðreynd að lánsfjárhæðin hafi verið umreiknuð í íslenskar krónur þegar lánið var greitt til stefnanda styrki þá skoðun hans að lánið hafi verið í erlendum gjaldeyri. Þegar lánið var greitt út fengust að frádregnum lántökukostnaði tæplega 28.000.000 króna fyrir 44.334.975 japönsk yen. Hefði lánið verið í íslenskum krónum hefði stefnandi átt að fá greiddar 27.000.000 króna en frá þeirri fjárhæð hefði lántökukostnaður síðan verið dreginn. Stefnandi hafi þannig fengið hærri fjárhæð greidda en nam lánsloforðinu sem honum var gefið. Vísar stefndi í þessu efni til orðalags í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2070/2010 en í þeim dómi komi fram að stefnandi málsins hafi ekki hreyft mótmælum við því á sínum tíma að fá rúmar 800.000 krónur útborgaðar til sín umfram lánsloforðið, eða u.þ.b. 3% hærri fjárhæð en lánsloforðinu nam, enda hafi hann sjálfur óskað eftir því að taka erlent lán en um það hafi hann átt frjálst val. Þá bendir stefndi á, þótt ekki sé í máli þessu byggt á aðstöðumun, að forsvarsmenn stefnanda séu sérfræðingar á sviði fjármála og því hafi þeir getað metið áhættuna af því að taka lán í erlendri mynt. Þeim hafi verið í lófa lagið að gera athugasemdir við efni veðskuldabréfsins/-lánasamningsins strax í upphafi ef þeir töldu að efni eða form samningsins væri ekki í samræmi við lánsloforðið eða væntingar þeirra og óskir um efni samningsins. Það hafi þeir ekki gert og telur stefndi að öll gögn málsins renni stoðum undir það að stefnandi hafi óskað eftir láni í erlendri mynt og fengið þá ósk sína uppfyllta. Síðari tíma atvik hafi hins vegar leitt til þess að ákvörðun stefnanda reyndist honum óhagstæð en á því verði stefnandi sjálfur að bera ábyrgð.
Stefndi heldur því fram að vart verði annað séð en að stefnandi reisi málatilbúnað sinn nánast eingöngu á því að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum sem leiði til þess að lánið hafi verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla sem aftur sé óheimilt. Að mati stefnda er þetta alrangt. Útgreiðsla lánsins í hvaða mynt sem er breyti ekki skilmálum lánasamningsins. Hvað þetta varðar bendir stefndi á að engin ákvæði í lögum nr. 38/2001 leggi bann við því að lán í erlendri mynt sé greitt með íslenskum krónum eða hvaða annarri mynt sem er. Slíkt valdi ekki ógildingu samningsins eða einstakra ákvæða hans og þá feli slíkt ekki í sér óheimila gengisbindingu. Stefnandi hafi átt val um það í hvaða mynt hann fengi lánið greitt og hann hafi sjálfur óskað eftir því að lánið yrði greitt á tékkareikning hans í íslenskum krónum.
Stefndi bendir á að hann sé lánastofnun en ekki viðskiptabanki og hann feli viðskiptabönkum að annast milligöngu um greiðslu lána í samræmi við óskir lántaka. Þegar svo hátti til að lántaki óski eftir að fá lán, sem veitt hefur verið í erlendri mynt, greitt í íslenskum krónum þá annist viðskiptabanki umbreytingu gjaldmiðils úr einni mynt í aðra. Að sama skapi taki viðskiptabankar á móti greiðslum af lánum sem stofnunin hefur veitt. Stefnanda hafi borið að greiða vexti og afborganir af láninu sem honum var veitt með japönskum yenum eins og sjá má af greiðsluseðlum sem eru meðal gagna málsins. Stefndi kveðst gera sér grein fyrir því að viðskiptamenn hans hafa ekki allir tekjur í erlendri mynt og því séu ákvæði í lánasamningum hans um það með hvaða hætti skuli greitt af lánum þegar svo háttar til, en þá skuli greiða fjárhæð sem jafngildir þeirri sem stefndi þarf að greiða sínum viðskiptabanka til að fá þann fjölda yena sem afborgun nemur. Þetta fyrirkomulag breyti hins vegar ekki efni lánasamningsins heldur sé það í samræmi við hann. Stefndi telur að dómstólar hafi hafnað því að útborgun láns í íslenskum krónum leiði til þess að lánið teljist hafa verið veitt í þeirri mynt og nefnir í því sambandi þrjá dóma sem kveðnir voru upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Stefndi segir stefnanda ranglega halda því fram að stefndi hafi ekki heimild til að veita lán í erlendri mynt. Stefnandi haldi því síðan fram að þessi ranga fullyrðing leiði til þess að lánasamningur milli aðila málsins teljist vera í íslenskum krónum vegna þess að stefndi hafi ekki heimild til að veita lán í erlendri mynt. Stefndi segir að þessi fullyrðing stefnanda, þó rétt væri, breyti engu við úrlausn máls þessa þar sem þetta væri mál á milli stefnda og Seðlabanka Íslands sem engu breyti um efni lánasamningsins sem um er deilt í máli þessu.
Stefndi fellst ekki á með stefnanda að það hafi áhrif á mál þetta að stefndi geti þess á greiðsluseðlum og skuldbreytingarskjölum hver útborgunarfjárhæð lánsins var á sínum tíma í íslenskum krónum. Í þessu efni bendir stefndi á að í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands segi í 5. gr. að bankinn hafi einkarétt á að gefa út peningaseðla eða mynt sem skuli vera lögeyrir hér á landi til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði. Þessi mynt heiti króna sem gjarnan sé vísað til sem íslenskrar krónu. Í 1. mgr. 7. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 komi fram að texti ársreikninga skuli vera á íslensku og fjárhæðir þar tilgreindar í íslenskum krónum, sbr. þó ákvæði 2. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. 7. gr. sé fjallað um fyrirtæki sem fengið hafa heimild til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli en það eigi ekki við um aðila máls þessa. Af reglum laga um ársreikninga leiði að þeir sem halda bókhald í íslenskum krónum en hafa tekjur, eiga eignir eða taka lán í erlendum myntum þurfi að umreikna slíkt í íslenskar krónur í bókhaldi sínu. Af þessum sökum hafi stefndi, til hægðarauka, getið þess á greiðsluseðlum og í öðrum skjölum og yfirlitum, hver upphafleg lánsfjárhæð var í íslenskum krónum þegar lánið var greitt út.
Stefndi andmælir því að hann vinni gegn hlutverki og markmiðum sínum með því að fallast ekki á kröfur stefnanda líkt og stefnandi heldur fram. Stefndi kveðst hafa skilning á sjónarmiðum stefnanda og hann hafi reynt að koma á móts við hann með breytingum á skilmálum lánsins. Hann hafi hins vegar ekki lagaheimild til að fallast á kröfur stefnanda. Að fallast á kröfur stefnanda og annarra sem eru í svipaðri stöðu hefði veruleg neikvæð áhrif á fjárhag stofnunarinnar, sem tekið hefur háar fjárhæðir að láni erlendis. Hann væri því að vinna gegn fyrirmælum sem sett eru í gr. 1.2 í verklagsreglum fyrir stofnunina en þar komi fram að fjárhagslegt markmið lánastarfseminnar sé að varðveita eigið fé stofnunarinnar að raungildi.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda aðallega með sömu rökum og hann hefur andmælt aðalkröfu stefnanda. Stefndi ítrekar að stefnandi hafi fengið andvirði lánsins greitt í þeim gjaldmiðli sem hann óskaði eftir. Stefnandi geti ekki, mörgum árum eftir að stefndi uppfyllti skyldur sínar, breytt þessum útborgunarfyrirmælum en hann hafi á sínum tíma ekki gert neinar athugasemdir við útgreiðslu lánsins. Þá heldur stefndi því fram að varakrafa stefnanda feli í sér lögspurningu sem með réttu ætti að vísa frá dómi þótt hann geri ekki slíka kröfu.
Stefndi reisir kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda á a-lið 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og telur, að teknu tilliti til þess að þeim atriðum sem stefnandi gerir að ágreiningsefni í máli þessu hafi áður verið svarað í öðrum sambærilegum málum, sé málsókn þessi að ófyrirsynju.
IV
Niðurstaða
Deila máls þessa snýst um það hvort lán sem stefndi veitti stefnanda í febrúar 2008 feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum bundið við gengi japansks yens og sé þannig í andstöðu við 13. sbr., 14. gr., laga nr. 38/2001. Atvik málsins eru í aðalatriðum þau að stefnandi óskaði eftir láni hjá stefnda að fjárhæð 30.000.000 króna. Hinn 18. janúar 2008 samþykkti stefndi að lána stefnanda 27.000.000 króna. Stefnanda var í kjölfarið boðið að velja á milli ferns konar lánskjara en þeirra er getið hér að framan. Stefnandi kaus að hafa lánið gengistryggt í japönskum yenum með LIBOR vöxtum að viðbættu 2% álagi og 0,25% ríkisábyrgðargjaldi. Í framhaldi af þessu útbjó stefndi skuldabréf sem stefnandi ritaði undir.
Veðskuldabréf það sem er grundvöllur skuldbindingar stefnanda í þessu máli er í grunninn einfalt að gerð. Í bréfinu sjálfu segir að það sé veðskuldabréf tryggt með rekstrarveði samkvæmt lögum nr. 75/1997 um samningsveð. Þar er tiltekið að stefnandi sé lántaki og stefndi lánveitandi. Í bréfinu segir að stefnandi hafi fengið að láni hjá stefnda 44.334.975 japönsk yen og fjárhæðin síðan endurtekin með bókstöfum. Í bréfinu er mælt fyrir um fjölda afborgana sem skyldu vera 174 en gjalddagi þeirra 10. hvers mánaðar ár hvert í fyrsta sinn 10. febrúar 2009. Vexti átti að greiða eftir á, fyrst 10. ágúst 2009 en síðan á sömu gjalddögum og afborganir. Síðan er ákvæði um vexti sem áttu að vera 2,25% yfir millibankavöxtum (LIBOR í JPY). Einnig er kveðið á um að stefnda sé heimilt að breyta álagi vaxta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er mælt fyrir um lántökugjald og uppgreiðsluþóknun ef við á. Því næst er ákvæði um dráttarvexti sem samkvæmt bréfinu nemi samningsvöxtum að viðbættu 3% álagi. Enn fremur kemur fram í bréfinu hvernig með skuli fara ef greiðslur fari fram í íslenskum krónum en þá skuli fjárhæð útborgunar miðast við opinbert kaupviðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á útborgunardegi lánsins. Greiðsla afborgunar og vaxta í íslenskum krónum miðist við opinbert söluviðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á greiðsludegi lánsins. Í framhaldi af þessu eru ákvæði um veð sem sett er til tryggingar láninu. Þar kemur m.a. fram að veðtryggingin nái til höfuðstóls lánsins, gengismunar, vaxta, dráttarvaxta og hvers kyns kostnaðar, þ. á. m. innheimtu- og lögfræðikostnaðar að engu undanskildu.
Á undanförnum misserum hafa gengið allmargir dómar þar sem deilt hefur verið um hvort lánasamningar feli í raun í sér óheimila verðtryggingu með því að tengja lán, sem í raun er í íslenskum krónum, við gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 603/2010 og 604/2010 var skorið úr ágreiningi um hvort skuldbindingar samkvæmt skuldabréfum með fasteignaveði væru í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Ákvæðum bréfanna er lýst í dómunum en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að lánin væru í íslenskum krónum og taldi að þar skipti mestu máli að lánsfjárhæðin væri ákveðin í íslenskum krónum og að hana bæri að endurgreiða með sama gjaldmiðli. Í máli nr. 155/2011 var niðurstaða Hæstaréttar sú sama og þar einkum vísað til þess að eina tilgreiningin í samningum á fjárhæð lánsins væri í íslenskum krónum en hvergi væri getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Fjárhæð lánsins hafi þannig í grunninn verið tiltekin í íslenskum krónum. Einnig var til þess horft að báðir samningsaðilar skyldu efna meginskyldur sínar samkvæmt lánasamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og hefðu gert það í raun, auk þess sem vísað var til fyrri dóma réttarins sem getið er hér að framan. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 3/2012 var niðurstaðan sú að um lán í erlendum myntum væri að ræða. Annað verður ekki ráðið af niðurstöðu réttarins en að þar hafi mestu máli skipt hvert heiti lánasamningsins var, hvernig lánsfjárhæðin ásamt vöxtum var tilgreind, að lánið var greitt út í erlendum myntum og að greiðslur lántaka fóru fram í erlendum myntum. Þannig var talið sýnt að samningsaðilar hefðu báðir efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum myntum skiptu um hendur.
Í máli þessu háttar svo til að efni skuldabréfsins er skýrt en þar kemur einfaldlega fram að stefnandi hafi fengið að láni hjá stefnda tilgreinda fjárhæð í erlendri mynt. Er þar ekki á nokkurn hátt vísað til íslenskrar krónu. Þá er, líkt og áður er rakið, tekið fram hvernig endurgreiða beri lánið og mælt fyrir um vexti. Hvergi er þar minnst á íslenskar krónur. Hins vegar háttar svo til að stefndi fékk lánið greitt í íslenskum krónum og var þá miðað við ákveðið gengi á japönsku yeni. Slík útgreiðsla var þó í samræmi við ákvæði skuldabréfsins sem gerði ráð fyrir að greiðslur gætu farið fram með íslenskum krónum.
Hafi skuldabréfið ekki verið með þeim hætti sem stefnandi taldi það eiga að vera átti hann þess kost þegar honum barst skuldabréfið að gera athugasemdir við orðalag þess en það gerði hann ekki. Í þessu efni verður ekki framhjá því horft að stjórnarformaður stefnanda, sem skrifaði undir samninginn fyrir hans hönd, er löggiltur endurskoðandi. Þá hefur ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að stefnandi hefði getað fengið lánið greitt inn á gjaldeyrisreikning ef hann vildi en hann kaus að fá lánið greitt í íslenskum krónum inn á tékkareikning sinn. Ekki verður heldur á það fallist með stefnanda, að skýru orðalagi bréfsins virtu, að það að hann óskaði eftir láni í íslenskum krónum og fékk loforð um lán í íslenskum krónum leiði til þess að lánið teljist vera í þeirri mynt. Loks verður ekki fallist á með stefnanda að það breyti upphaflegri skuldbindingu hans þótt getið sé um íslenskar krónur í viðaukum við skuldabréfið en í þeim öllum er jafnframt tekið fram hver höfuðstóll lánsins er í japönskum yenum. Sama gildir um yfirlýsingu sem ritað var undir af hálfu stefnanda að ósk endurskoðenda stefnda en þar er lánið eingöngu reiknað í íslenskum krónum. Hér verður einnig að horfa til þess að stefnandi fékk hærri fjárhæð greidda út í íslenskum krónum en nam lánsloforði því sem honum var gefið. Þetta skýrist af því að lánsfjárhæðin í japönskum yenum var umreiknuð í íslenskar krónur þegar hún var greidd inn á tékkareikning stefnanda en þá hafði yenið gefið heldur eftir gagnvart íslensku krónunni. Bendir þetta eindregið til þess að stefnandi hafi tekið að láni nefnda fjárhæð yena en vegna fyrirkomulags útgreiðslunnar þurfti að umreikna fjárhæðina í íslenskar krónur.
Í umþrættu veðskuldabréfi er fjallað um hvað veðandlagið skuli tryggja. Þar er m.a., líkt og stefnandi hefur bent á, sagt að veðtryggingin nái til gengismunar. Fallast má á með stefnanda að þetta geti bent til þess að lánið sé í raun gengistryggt. Hins vegar verður að horfa til þess að hér er um að ræða staðlað form um veðtryggingu sem m.a. fjallar um bújarðir og skip sem augljóslega á ekki við í þessum máli. Getur þessi eina tilvísun til gengistryggingar, andstætt skýru orðalagi bréfsins að öðru leyti, ekki orðið til þess að lánið teljist gengistryggt og þar með ólögmætt.
Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að stefndi hafi ekki haft heimildir til að veita lán í erlendri mynt. Byggðastofnun er lánastofnun og starfar sem slík og eiga ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki við um stofnunina, auk sérlaga sem um hana gilda. Samkvæmt b. lið 20. gr. nefndra laga er fjármálastofnunum heimilt að eiga viðskipti með erlendan gjaldeyri en ákvæði 20. gr. gilda um lánastofnanir að því undanskyldu að þeim er óheimilt að taka við innlánum. Þegar af þessari ástæðu er þessi málsástæða stefnanda haldlaus.
Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.
Á varakröfu stefnanda verður heldur ekki fallist þar sem stefnandi kaus að fá lánið greitt í íslenskum krónum, líkt og samningur aðila heimilaði. Hefur stefndi því að fullu efnt skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 376.500 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Engin efni þykja til að dæma sérstakt álag á málskostnað eins og stefndi gerir kröfu um.
Af hálfu stefnanda flutti málið Bragi Dór Hafþórsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Garðar Garðarsson hæstaréttarlögmaður.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Byggðastofnun, er sýkn af kröfum stefnanda, Samvirkni ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 376.500 krónur í málskostnað.