Hæstiréttur íslands
Mál nr. 80/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
- Lúganósamningurinn
|
|
Miðvikudaginn 1. mars 2006. |
|
Nr. 80/2006. |
Jón Ólafsson(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Frestun. Lúganósamningurinn.
J, sem búsettur er á Englandi, stefndi H fyrir dóm þar og krafðist bóta vegna ummæla sem H hafði viðhaft á heimasíðu sinni, en J byggði á að ummælin, sem birt voru á ensku, hefðu valdið sér tjóni. H sótti ekki þing þegar krafan var tekin fyrir og var kveðinn upp útivistardómur þar sem honum var gert að greiða J skaðabætur. J krafðist þess fyrir íslenskum dómstólum að dómur þessi yrði áritaður um að aðför mætti gera samkvæmt honum á Íslandi og var fallist á þá beiðni og var í kjölfarið gert fjárnám í tilteknum eignum H. H krafðist þá endurupptöku framangreindrar ákvörðunar héraðsdóms á grundvelli 36. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 68/1995. Krafðist hann þess jafnframt að héraðsdómari frestaði meðferð málsins með heimild í 38. gr. Lúganósamningsins, á meðan endurupptökubeiðni hans væri til meðferðar fyrir hinum enska dómstól. Féllst héraðsdómari á þessa kröfu og var sú úrlausn til endurskoðunar í máli þessu. Fallist var á að þar sem sýnt væri að H hefði krafist endurupptöku málsins fyrir hinum enska dómstól og boðað hefði verið til þinghalds þar um þá kröfu á tilteknum degi væru efni til að fresta meðferð málsins eins og héraðsdómari hafði ákveðið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2006, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um frestun máls um kröfu hans um endurupptöku máls þar sem heimiluð hafði verið með áritun aðför samkvæmt dómi High Court of Justice á Englandi 13. júlí 2005 á grundvelli laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sbr. 11. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 með áorðnum breytingum. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði kröfu varnaraðila um að fresta málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Auk þeirra gagna sem lágu fyrir héraðsdómi hefur verið lagt fyrir Hæstarétt skjal sem ber með sér að vera gefið út af hinum enska dómstól 25. janúar 2006 þar sem boðað var til þinghalds 3. mars 2006 um kröfu varnaraðila 12. janúar sama ár um endurupptöku hins enska dóms. Þykir því engum vafa undirorpið að krafa þessa efnis er nú til meðferðar fyrir enskum dómstólum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jón Ólafsson, greiði varnaraðila, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2006.
Héraðsdómi barst 26. ágúst sl. beiðni Jóns Ólafssonar, sem búsettur er í Lundúnum, um að enskur dómur, kveðinn upp 13. júlí sl. í máli hans gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, Hringbraut 24, Reykjavík yrði áritaður um aðfararhæfi. Beiðnin var árituð 27. september sl. og var fjárnám gert á grundvelli hennar 6. október sl.
Af hálfu sóknaraðila, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, var þess krafist með beiðni 6. október sl. að ákvörðun dómsins um að heimila aðför samkvæmt dómnum yrði endurupptekin og var vísað til 36. og 37. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Sóknaraðili krefst þess nú að málinu verði frestað þar til niðurstaða er fengin varðandi beiðni hans um endurupptöku málsins í Englandi. Máli sínu til stuðnings vísar hann til 38. gr. laga nr. 68/1995. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili, Jón Ólafsson, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður.
Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 68/1995 má fullnusta dóm hér á landi, sem kveðinn hefur verið upp í öðru samningsríki þegar hann, að beiðni rétts aðila, hefur verið lýstur fullnustuhæfur hér. Í 32. gr. segir að beiðninni skuli beint til héraðsdómara og samkvæmt 1. mgr. 33. gr. skal farið með hana að íslenskum lögum. Ákvörðun um hvort fullnusta verði heimiluð eða ekki skal tekin án þess að þeim, sem fullnustu er leitað hjá, sé veitt færi á að gera athugasemdir við beiðnina, sbr. 1. mgr. 34. gr. Í 1. mgr. 36. gr. segir að þegar fullnusta hafi verið heimiluð geti sá, sem fullnusta sé heimiluð hjá, skotið ákvörðuninni til æðri réttar eða fengið hana endurupptekna innan eins mánaðar frá birtingu hennar. Þá er í 38. gr. heimild til handa héraðsdómi að fresta málsmeðferð um endurupptöku, að kröfu þess sem beiðst hefur hennar, ef dóminum hefur verið áfrýjað til æðri réttar á venjulegan hátt í dómsríkinu eða endurupptöku er krafist þar eða frestur til þess er enn ekki liðinn.
Dómurinn sem varnaraðili krefst að fullnustaður verði hér á landi er útivistardómur og var hann áritaður um aðfararhæfi án þess að sóknaraðila væri gefið færi á að gera athugasemdir, sbr. tilvitnað lagaákvæði. Sóknaraðili hefur lagt fram gögn er sýna að hann hefur sótt um endurupptöku málsins í Englandi og greitt réttargjöld 12. janúar sl. Með vísun til þessa og samkvæmt heimild í 38. gr. laga nr. 68/1995 er rétt að verða við kröfu sóknaraðila og fresta málinu um endurupptöku áritunarinnar til föstudagsins 21. apríl nk. kl. 11.00 í dómsal 102. Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs úrskurðar.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Málinu er frestað til föstudagsins 21. apríl nk. kl. 11.00 í dómsal 102.
Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs úrskurðar.