Hæstiréttur íslands

Mál nr. 118/2002


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Sjúkratrygging
  • Takmörkun ábyrgðar
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. október 2002.

Nr. 118/2002.

Björn K. Kristjánsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

 

Vátryggingarsamningur. Sjúkratrygging. Takmörkun ábyrgðar. Örorka. Gjafsókn.

B keypti sjúkratryggingu í desember 1990. Í ágúst 1992 gekkst hann undir hjartaaðgerð og var honum í júní 1993 metin 50% varanleg örorka. Greiddi S honum bætur vegna þess í september 1993. Í júlí 1996 fékk B kransæðastíflu og í september 2000 var honum metin örorka og talið að hún hefði hækkað varanlega úr 50% í 90%. Ágreiningur var um greiðslu á eftirstöðvum bóta úr sjúkratryggingunni. Var fallist á niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að þau sjúkdómseinkenni sem komu í ljós 1996 væru ekki einkenni um nýjan sjúkdóm heldur væri um að ræða samfellda þróun kransæðasjúkdóms sem uppgötvaðist 1992. Fyrir lá að vátrygging B féll úr gildi í lok desember 1993 og var því ekki í gildi þegar heilsu hans hrakaði 1995. Ekki var dregið í efa að örorkan hefði verið rétt metin í upphafi en með versnandi heilsu B hefðu afleiðingar sjúkdómsins orðið meiri en áætlað hafði verið. Tekið var fram að í skilmálum sjúkratryggingar B hefði verið ákvæði þess efnis að vátryggingin tæki ekki til versnandi heilsufarsástæðna sem rekja mætti til þess tímabils er vátryggingin var úr gildi. Var talið að um væri að ræða hlutlæga ábyrgðartakmörkun á gildissviði vátryggingarinnar sem bryti ekki gegn ákvæðum laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest og S sýknaður af kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. mars 2002. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.932.671 krónu með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. janúar 1991 til 6. nóvember 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri eigi rekið sem gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

 

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram keypti áfrýjandi 4. desember 1990 sjúkratryggingu hjá Ábyrgð hf., en það félag var síðar yfirtekið af stefnda. Hinn 3. janúar 1991 leitaði áfrýjandi til sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum vegna óþæginda í auga og brjóstverkja og var lagður á sjúkrahús til rannsóknar í mars sama ár. Talsverð töf varð á greiningu sjúkdómsins, en við hjartaþræðingu 12. maí 1992 kom í ljós mikill leki á ósæðarloku og þrengsli á einni kransæð. Gekkst hann undir hjartaaðgerð 24. ágúst 1992 þar sem sett var í ósæðargerviloka og tvær kransæðar lagfærðar.  Með örorkumati 29. apríl 1992 var áfrýjanda metin 75% almenn örorka á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Vigfús Magnússon læknir mat örorku áfrýjanda vegna þessa sjúkdóms 11. júní 1993, er rúm tvö ár voru liðin frá því að tryggingin var keypt. Taldi hann örorku áfrýjanda vegna þessa vera 100% frá 1. febrúar 1991 til 30. nóvember 1992, en frá þeim tíma 50% varanleg örorka. Stefndi greiddi áfrýjanda 8.589.398 krónur vegna 50% örorku 22. september 1993.

Í júlí 1996 fékk áfrýjandi kransæðastíflu og við hjartaþræðingu á árinu 1998 kom í ljós lokun á hægri kransæð, skert starfsemi vinstri slegils og leki á miturloku. Jónas Hallgrímsson læknir mat 28. september 2000 örorku áfrýjanda, sem rakin yrði til hjartasjúkdómsins, og taldi hana hafa hækkað varanlega úr 50% í 90%, er hann fékk kransæðastífluna í júlí 1996. Í máli þessu sækir áfrýjandi greiðslu á eftirstöðvum bóta úr sjúkratryggingunni.

II.

Stefndi heldur því fram, að sjúkdómur sá, sem hefur valdið því að örorka áfrýjanda hækkaði úr 50% í 90% sé nýr sjúkdómur, sem upp hafi komið eftir að sjúkratrygging áfrýjanda rann út 31. desember 1993, en samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar taki hún ekki til sjúkdóma, sem komu til eftir að vátryggingin var úr gildi fallin.  Með vísan til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, ber að staðfesta þá niðurstöðu hans, að þau sjúkdómseinkenni, sem komu í ljós 1996 séu ekki einkenni um nýjan sjúkdóm heldur sé hér um að ræða samfellda þróun kransæðasjúkdóms, sem uppgötvaðist árið 1992.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því, að vátryggingin gildi ekki um versnandi heilsufarsástæður, sem rekja megi til tímabils, er vátryggingin var úr gildi fallin og auk þess á því, að vátryggingarskilmálarnir kveði á um það, að örorku skuli meta í síðasta lagi þremur árum eftir upphaf seinasta sjúkratímabils og stefndi ábyrgist því ekki örorku vegna sjúkdóms, sem metin er eftir þann tíma.

Ómótmælt er, að vátrygging áfrýjanda féll úr gildi 31. desember 1993 og var því ekki í gildi, er heilsu hans fór að hraka árið 1995. Örorka áfrýjanda var metin 11. júní 1993, innan þess tíma, sem kveðið er á um í vátryggingarskilmálunum, en upphaf sjúkratímabils áfrýjanda var 1. febrúar 1991, er hann tilkynnti sig veikan. Var mat þetta mjög ítarlegt og komist að þeirri niðurstöðu, að gera mætti ráð fyrir því, að varanleg örorka áfrýjanda yrði 50%. Ekki hefur verið dregið í efa, að örorkan hafi þar verið rétt metin. Síðar gerðist það, að heilsa áfrýjanda versnaði og afleiðingar sjúkdómsins urðu meiri en áætlað hafði verið.

Í skilmálum sjúkratryggingar þeirrar, sem áfrýjandi hafði, var ákvæði þess efnis, að vátryggingin tæki ekki til versnandi heilsufarsástæðna, sem rekja mætti til þess tímabils, er vátryggingin var úr gildi.  Líta verður svo á, að hér sé um að ræða hlutlæga ábyrgðartakmörkun á gildissviði vátryggingarinnar, sem brjóti ekki gegn ákvæðum laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Samkvæmt þessu ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms og sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda.

Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Björns K. Kristjánssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. nóv. sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 8. des. sl.

Stefnandi er Björn K. Kristjánsson, kt. 141141-4149, Krummahólum 2, Reykjavík.

Stefndi er Sjóvá Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til greiðslu sjúkratryggingabóta að fjárhæð 6.932.671 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. janúar 1991 til 6. nóvember 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er  krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 22. janúar 2001.

Dómkröfur stefnda:

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.

Málavextir

Hinn 4. desember 1990 keypti stefnandi sjúkratryggingu hjá Ábyrgð hf.  Ábyrgð hf. hefur verið yfirtekið af stefnda. Um skilmála sjúkratryggingarinnar giltu almennir skilmálar fyrir slysatryggingu ásamt viðbót vegna sjúkratryggingar sem öðluðust gildi 1. janúar 1989.

Á árinu 1991 var stefnandi lagður inn á St. Jósefsspítala að Landakoti vegna vaxandi slappleika og megrunar.  Rannsóknir leiddu í ljós hjartaóhljóð frá lekri ósæðarloku.  Ekki upplýstist um orsök lekans.  Grunur var um hjartaþelsbólgu en sú greining sannaðist ekki. Í kjölfar rannsókna fór stefnandi í hjartaþræðingu á Landspítalanum.  Í ljós kom mikill leki á ósæðarloku og auk þess marktæk þrengsli á einni kransæð.  Í kjölfarið fór hann í aðgerð sem framkvæmd var 24. ágúst 1992 og var þá sett ósæðargerviloka og einnig gerð aðgerð á tveimur kransæðum.  Þessi aðgerð tókst vel og náði stefnandi nokkurri heilsu.

Vigfús Magnússon læknir vann örorkumat vegna sjúkdóms stefnanda dags. 11. júní 1993.  Taldi Vigfús í matinu að þar sem þá voru liðin liðlega tvö ár frá því að fyrst fór að gæta þeirra veikinda sem um ræddi, þætti tímabært að meta þá örorku hans, sem rekja mætti til þeirra sjúkdóma sem til væru komnir eftir að hann tók sjúkratrygginguna.  Örorkuna taldi læknirinn vera 100% frá 1. febrúar 1991 til 30. nóvember 1992, en 50% frá 1. desember 1992.

Þann 22. september 1993 greiddi stefndi stefnanda 8.539.398 kr. vegna 50% örorku. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þessa greiðslu hafi stefndi innt af hendi einhliða. Ekki mun stefnandi hafa gefið yfirlýsingu þess efnis að hann félli frá frekari kröfum vegna málsins þegar hann móttók greiðsluna.

Þrátt fyrir að aðgerðin, sem var framkvæmd á Landspítalanum 1992, tækist vel fór ástand stefnanda aðeins hægt batnandi fyrstu árin eftir hana. Í júlí 1996 var hann lagður inn á lyflæknisdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með kransæðastíflu. Á árinu 1998 var aftur framkvæmd hjartaþræðing og kom þá í ljós lokun á hægri kransæð, skert starfsemi vinstri slegils og leki á miturloku.  Ekki var talið ráðlegt að fara út í nýja aðgerð en stefnandi hélt áfram í lyfjameðferð.  Í maí 2000 var hann síðan lagður á Sjúkrahús Reykjavíkur vegna brjóstverkja og mæði.

Stefnandi telur ljóst að í þessu öllu hafi falist auknar afleiðingar af sjúkdómnum sem hann greindist með í ársbyrjun 1991 og hann eigi rétt til örorkubóta vegna þessa.  Óskaði stefnandi eftir því við Jónas Hallgrímsson lækni að hann mæti örorku hans sem rakin yrði til hjartasjúkdómsins. Jónas skilaði læknisfræðilegu örorkumati vegna málsins, dags. 28. september 2000, og var niðurstaða hans sú að örorka stefnanda hefði hækkað varanlega úr 50% í 90% þegar hann fékk kransæðastífluna í júlí 1996.  Væri varanleg örorka hans því núna 90%.

Eftir að mat Jónasar lá fyrir ritaði lögmaður stefnanda stefnda bréf, dags. 6. október 2000, og krafðist greiðslu á eftirstöðvum bóta úr sjúkratryggingunni ásamt vöxtum og innheimtuþóknun.  Með bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 6. desember 2000, var þeirri kröfu hafnað.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi gert samning við Ábyrgð hf., sem stefndi hafi yfirtekið, um að honum yrðu greiddar bætur á grundvelli umsaminnar vátryggingarupphæðar ef sjúkdómur ylli honum varanlegri örorku. Ljóst sé að stefnandi hafi í ársbyrjun 1991 greinst með sjúkdóm sem falli undir gildissvið vátryggingarinnar.  Sá sjúkdómur hafi leitt til ýmissa og margháttaðra afleiðinga. Hann hafi t.d. leitt til kransæðastíflu á árinu 1996 og sé stefnandi nú samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssnar læknis metinn með 90% varanlega örorku. Stefndi hafi hins vegar einungis gert upp við stefnanda 50% af þeirri varanlegu örorku sem sjúkdómurinn hafi leitt til. Hljóti stefnda því að bera skylda til að bæta stefnanda þau 40% sem eftir standi.

Ekki fái staðist að skoða kransæðastífluna, sem stefnandi fékk 1996, sem sérstakt sjúkdómstilfelli, sem fyrst hafi komið til eftir að gildistíma sjúkratryggingarinnar lauk 31. des. 1993. Í þessu sambandi vísar stefnandi til örorkumats Jónasar Hallgrímssonar læknis sem meti atvik svo að örorkumatsaukningin vegna kransæðastíflunnar 1996 verði rakin til sjúkdómsins sem greindist í ársbyrjun 1991. Jafnframt er vísað til álits Ásgeirs Jónssonar læknis, en í vottorði, dags. 18. ágúst 2000, hafi hann gert grein fyrir því að núverandi sjúkdóm stefnanda megi rekja til ársins 1991. Það sé því ljóst að ástand stefnanda í dag og 90% varanleg örorka hans verði rakin til sjúkdómsins sem greindist 1991 og hljóti stefnda því að bera skylda til að bæta stefnanda þá aukningu á örorku sem varð 1996.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ákvæði í vátryggingarskilmálum, um að endanlegu örorkumati vegna sjúkdóms verði eigi frestað lengur en í þrjú ár frá upphafi seinasta sjúkratímabils, fái engu breytt um niðurstöðu máls þessa. Ákvæði sem þetta beri að skilja sem óbindandi yfirlýsingu um hvernig staðið skuli að öflun sönnunargagna eftir að sjúkdómstilfelli verði. Ákvæðið takmarki á engan hátt rétt tjónþola til að afla sönnunargagna eftir að tímafresturinn er liðinn. Stefndi vilji sýnilega leggja þann skilning í ákvæðið, að í því felist nokkurs konar fyrningarregla sem feli þá í sér að bótaréttur tapist sé örorkumats ekki aflað innan þriggja ára frá því að sjúkdómur greinist. Þessi skilningur á skilmálunum sé rangur en væri hann réttur bryti það í bága við 29. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954.

Höfuðstóll samkvæmt vátryggingarsamningi aðila að viðbættri þriggja ára vísistölu samkvæmt 19. gr. sjúkratryggingarskilmálanna hafi verið 17.331.677 kr. Samkvæmt því ákveðist bætur fyrir 40% örorku, sbr. 12. gr. skilmálanna, 6.932.671 kr. Við kröfugerð stefnanda sé gengið út frá því að upphaf sjúkratímabilsins sé 3. janúar 1991 eins og fram komi í bréfi landlæknis, dags. 5. maí 1998. Krafist er vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 6. nóv. 2000, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi, þ.e. mánuði frá dagsetningu kröfubréfs til stefnda, dags. 6. okt. 2000, til 1. júlí 2001 en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna vátryggingaréttar, laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Þá er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987 og reglna 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að sjúkratrygging stefnanda, sem hann tók 1990, hafi gengið úr gildi 31. desember 1993, þar af leiðandi beri stefndi ekki lengur ábyrgð á starfsorkumissi vegna sjúkdóma sem upp hafi komið eftir það.

Hér sé stefnandi að krefja um bætur vegna heilsufarslegra breytinga sem urðu hjá honum á árinu 1996. Heilsufarsversnun stefnda 1996 (40% örorka) stafi af nýrri kransæðastíflu sem ekki hafi verið fyrir hendi þegar tryggingin var í gildi. Því sé um að ræða starfsorkumissi vegna sjúkdómstilviks sem hafi komið upp eftir lok gildistíma tryggingarinnar.

Samkvæmt vátryggingarskilmálum verði endanlegu örorkumati vegna sjúkdóms ekki frestað lengur en í þrjú ár frá upphafi seinasta sjúkratímabils. Í því felist að félagið ábyrgist ekki aðra örorku vegna sjúkdóms en sem metin sé innan þriggja ára frá upphafi seinasta sjúkratímabils. Í tilviki því sem hér um ræðir hefjist sjúkratímabilið 1. febrúar 1991 þegar stefnandi tilkynnti sig veikan og hafi síðan fengið sjúkradagpeninga frá 1. mars 1991 í 48 vikur (4 vikna biðtími). Þessi veikindi hafi síðan leitt til þess að skipt var um ósæðarloku og "bypass" aðgerð framkvæmd vegna þrengsla í tveimur kransæðum. Uppgjör vegna örorkunnar sem þessi veikindi leiddu til hafi farið fram.

Viðbótarörorkan sem nú sé verið að krefjast bóta fyrir hafi ekki verið metin fyrr en 28. sept. 2000 eða 9 árum frá upphafi sjúkratímabilsins. Því verði hún ekki bætt úr sjúkratryggingunni samkvæmt skilmálum hennar.

Í vátryggingarskilmálum segi að vátryggingin gildi ekki um versnandi heilsufarsástæður sem rekja megi til tímabils er vátryggingin var úr gildi. Í þessu máli sé ljóst að krafa stefnanda eigi við um versnandi heilsufarsástand hjá stefnanda eftir að vátryggingin var gengin úr gildi.

Útreikningi stefnanda er ekki mótmælt sem slíkum. Vaxtakröfu er mótmælt sem fyrndri að hluta og einnig upphafstíma dráttarvaxta sem í fyrsta lagi ætti að taka mið af 6. nóv. 2000, þ.e. mánuði eftir að mat Jónasar Hallgrímssonar var kynnt stefnda og krafið um viðbótarbætur á grundvelli þess sbr. 9. gr. laga nr. 25/1987.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila er í fyrsta lagi um það hvort sjúkdómseinkennin sem komu í ljós 1996 séu vegna sama sjúkdóms og greindist 1991 eða hvort um nýjan sjúkdóm sé að ræða. Í öðru lagi hvort ábyrgð stefnda takmarkist við örorku sem metin sé innan þriggja ára frá upphafi seinasta sjúkratímabils eða ekki. Í þriðja lagi hvort slíkt ákvæði standist ákvæði laga nr. 20/1954.

Hinir sérfróðu meðdómendur eru sammála því sem fram kom hjá læknunum Ásgeiri Jónssyni og Jónasi Hallgrímssyni um það að sjúkdómseinkenni þau, sem í ljós komu 1996 og eftir það, séu ekki einkenni um nýjan sjúkdóm heldur sé hér samfelld þróun kransæðasjúkdóms sem fyrst uppgötvaðist við hjartaþræðingu 12. maí 1992.

Verður því ekki á það fallist með stefnda að sjúkdómur sá sem þjáir stefnanda og veldur því að örorka hans hefur hækkað úr 50%  í 90% sé nýtt sjúkdómstilvik sem upp hafi komið eftir lok gildistíma sjúkratryggingarinnar  4. des. 1993.

Grundvöllur réttarsambands aðila eru skilmálar sjúkratryggingar þeirrar sem stefnandi keypti hjá Ábyrgð hf. hinn 4. des. 1990. Í þeim kafla skilmálanna sem ber heitið: Bætur við varanlega örorku, segir í b. lið:

"Örorkan ákveðst í fyrsta lagi einu ári eftir upphaf bótaskylds sjúkratímabils og eigi síðar en þegar greiðslum dagpeninga lýkur, sbr. 13. grein slysatryggingarinnar, með hliðsjón af ástandi hins sjúka þá. Telji sá sem tryggður er, eða félagið, að örorkan geti breyst, getur hvor aðili um sig krafist þess, að endanlegu örorkumati verði frestað, þó eigi lengur en í þrjú ár frá upphafi seinasta sjúkratímabils. Hvor aðili um sig getur krafist nýs örorkumats, eftir að liðið er eitt ár frá því, að hið fyrra fór fram. Hinum sjúka er þá skylt að láta lækni tilnefndan af félaginu skoða sig. Að öðrum kosti getur félagið tekið fyrir greiðslur, þar til skoðun hefur farið fram. Félagið greiðir skoðunina."

Í c. lið segir svo:

"Þótt gera megi ráð fyrir, að ástand hins sjúka kunni að breytast, skal framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir upphaf seinasta sjúkratímabils, og ber þá að ákveða örokuna eins og gera má ráð fyrir, að hún verði endanleg…"

Ekki verður á þá skoðun stefnanda fallist að ákvæðið um að endanlegu örorkumati vegna sjúkdóms verði eigi frestað lengur en í þrjú ár beri að skilja sem óbindandi yfirlýsingu um hvernig staðið skuli að öflun sönnunargagna eftir að sjúkdómstilfelli verði. Hér er um ákveðna skilmála að ræða um það hvernig skuli að uppgjöri staðið. Ákvæðið í c. lið verður ekki túlkað öðru vísi en svo að vátryggjandi ábyrgist ekki frekara tjón en gert er ráð fyrir við örokumat sem framkvæmt er innan tiltekinna tímamarka, þ.e. í síðasta lagi þremur árum eftir upphaf síðasta sjúkratímabils. Hér er því um umsamda takmörkun á tímalengd ábyrgðar vátryggjanda að ræða.

Kröfugerð stefnanda er í samræmi við 120. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, þ.e. að stefndi skuli ábyrgjast allar afleiðingar sjúkdómsins sem stefnandi veiktist af á vátryggingartímabilinu, líka þær afleiðingar sem ekki komu í ljós fyrr en síðar. Viðurkennt er í vátryggingarrétti að leyfilegt er að semja sig undan 120. gr. laga nr. 20/1954. Með framangreindum vátryggingarskilmálum sömdu aðilar sig undan 120. gr. laga 20/1954 og um leið undan ákvæðum 29. gr. sömu laga.

Stefndi hefur gert upp við stefnanda í samræmi við umsamda skilmála tryggingarinnar sem stefnandi keypti hjá stefnda í desember 1990. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 650.150 kr., þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 560.250 kr., greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari og læknarnir, Árni Kristinsson og Magnús Karl Pétursson.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Björns Kristjánssonar í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 650.150 kr., þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Reimars Péturssonar hdl., 560.250 kr., greiðist úr ríkissjóði.