Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2001
Lykilorð
- Sjálfskuldarábyrgð
- Leiðbeiningarskylda
|
|
Miðvikudaginn 19. júní 2002. |
|
Nr. 452/2001. |
Tölvukerfi ehf. Árveig Aradóttir Bjarni Sigurðsson og Gunnlaugur Jónsson (sjálf) gegn Landsbanka Íslands hf. (Gunnar Sólnes hrl.) |
Sjálfskuldarábyrgð. Leiðbeiningarskylda.
T ehf. var dæmt til að greiða L hf. kröfu sem nam yfirdrætti á ávísanareikningi fyrrnefnda félagsins hjá L hf. Voru Á og B dæmd til að greiða hluta fjárhæðarinnar með T ehf. í samræmi við sjálfskuldarábyrgð sem þau höfðu tekist á hendur gagnvart L hf. Var héraðsdómari talinn hafa gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart þeim með fullnægjandi hætti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. desember 2001 og krefjast þess að krafa stefnda á hendur áfrýjendunum Bjarna Sigurðssyni og Árveigu Aradóttur verði lækkuð í 700.000 krónur og áfrýjandinn Gunnlaugur Jónsson verði sýknaður af kröfum stefnda. Auk þess krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður stefnda því yfir að fallið væri frá kröfu á hendur áfrýjandanum Gunnlaugi þar sem hann hefði gert upp kröfu stefnda á hendur honum.
Áfrýjendurnir Árveig og Bjarni halda því fram að kröfugerð þeirra fyrir héraðsdómi hafi ekki komist til skila þar sem héraðsdómari hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar. Kröfu sína um lækkun kröfu stefnda úr 900.000 krónum í 700.000 krónur byggja þau á því að sjálfskuldarábyrgð 15. apríl 1998 hafi verið afhent stefnda óútfyllt að því er fjárhæð varðar og hafi hún verið útfyllt án heimildar með fjárhæðinni 200.000 krónur.
Samkvæmt bókunum í þingbók gætti héraðsdómari leiðbeiningarskyldu gagnvart stefndu í þinghaldi 30. nóvember 2000, er málið var þingfest og síðar í þinghöldum 15. mars og 29. mars 2001, en í síðastnefnda þinghaldinu var veittur frestur til 26. apríl 2001 til framlagningar greinargerðar.
Óumdeilt er í málinu að Tölvukerfi ehf. fékk yfirdráttarheimild hjá stefnda að fjárhæð 700.000 krónur hinn 12. desember 1997 og undirrituðu áfrýjendurnir Árveig og Bjarni þá sjálfskuldarábyrgð til tryggingar þeirri fjárhæð. Ómótmælt er að yfirdráttarheimildin var hækkuð í 900.000 krónur og liggur fyrir sjálfskuldarábyrgð, undirrituð af ofangreindum tveimur áfrýjendum 15. apríl 1998 með fjárhæðinni 200.000 krónum. Fyrirliggjandi gögn eru þannig í samræmi við dómkröfur stefnda eins og héraðsdómur byggir á og þykir ekkert hafa komið fram í málinu, sem rýri gildi þessara gagna. Þá er ekki unnt, samkvæmt því sem áður er rakið, að fallast á að héraðsdómari hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu með fullnægjandi hætti. Verður héraðsdómur því staðfestur að því er varðar áfrýjendurna Tölvukerfi ehf., Árveigu Aradóttur og Bjarna Sigurðsson.
Dæma ber þessa áfrýjendur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar áfrýjendurna Tölvukerfi ehf., Árveigu Aradóttur og Bjarna Sigurðsson.
Áfrýjendur greiði óskipt stefnda, Landsbanka Íslands hf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júní 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 13. júní s.l., hefur Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, f.h. Landsbanka Íslands hf., útibú 162, kt. 710169-1449, Strandgötu 1, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Bjarna Sigurðssyni, kt. 080773-5609, Flétturima 7, Reykjavík, persónulega og sem formanni stjórnar f.h. Tölvakerfa ehf., kt. 630890-2099, Skarðshlíð 17, Akureyri, Árveigu Aradóttur, kt. 261175-4289, Flétturima 7, Reykjavík, og Gunnlaugi Jónssyni, kt. 270472-3469, Otrateigi 6, með stefnum birtum 30. október, 9. nóvember og 17. nóvember 2000.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi Tölvukerfi ehf. greiði stefnanda kr. 1.225.530,10 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 06.06.2000 til greiðsludags. Stefndu Bjarni Sigurðsson og Árveig Aradóttir greiði stefnanda kr. 900.000,00 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 06.06.2000 til greiðsludags. Stefndi Gunnlaugur Jónsson greiði stefnanda kr. 250.000,00 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 06.06.2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eftir framlögðum málskostnaðarreikningi að upphæð kr. 205.042,00.
Af hálfu stefnanda hefur málsatvikum verið lýst svo að hin umstefnda skuld sé vegna gjaldfallins yfirdráttar á reikningi nr. 998 við Landsbanka Íslands hf. á Akureyri pr. 06.06.2000 að fjárhæð kr. 1.225.530,10. Bjarni Sigurðsson og Árveig Aradóttir hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð 12.12.97 að fjárhæð kr. 900.000,- auk vaxta og kostnaðar vegna reiknings nr. 162-26-998 og Gunnlaugur Jónsson tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð 23.07.98 allt að fjárhæð kr. 250.000,- auk vaxta og kostnaðar vegna reiknings nr. 162-26-998 og er þeim því stefnt í málinu. Þá er tekið fram að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé gerð krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess.
Stefnandi segir ofangreinda skuld ekki hafa fengist greidda þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Hann byggir kröfu sína á þeirri meginreglu að við gerða samninga beri að standa. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 25/1987 og kröfur um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Í greinargerð stefndu segir það eitt að þau telji Landsbanka Íslands ekki hafa haft heimild til að fylla út þær sjálfskuldarábyrgðir sem um ræðir og krefjast sýknu af málskostnaði. Að öðru leyti hafa ekki verið hafðar uppi varnir af hálfu stefnda.
Niðurstaða.
Stefnandi hefur lagt fram fullnægjandi gögn vegna gjaldfallins yfirdráttar á reikningi nr. 162-26-998 við Landsbanka Íslands og sjálfskuldarábyrgð stefndu vegna hans. Þau gögn eru í samræmi við dómkröfur stefnanda og verða þær því teknar til greina að fullu.
Ennfremur ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem þykir að mati dómsins hæfilega ákveðinn kr. 200.000,00 og er virðisaukaskattur þá innifalinn.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Tölvukerfi ehf. greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., kr. 1.225.530,10. Þar af greiði stefndu Bjarni Sigurðsson og Árveig Aradóttir ásamt stefnda Tölvukerfum ehf. in solidum kr. 900.000,00 og stefndi Gunnlaugur Jónsson ásamt stefnda Tölvukerfum ehf. in solidum kr. 250.000,00. Stefndu greiði dráttarvexti af tilgreindum upphæðum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. júní 2000 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda kr. 200.000,00 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.