Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


                                     

Föstudaginn 7. júní 2013.

Nr. 365/2013.

Íslandsbanki hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

Héðinsreit ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Frestur

Í hf. höfðaði mál til innheimtu kröfu á hendur H ehf. og kærði úrskurð héraðsdóms þar sem málinu var frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í dómsmáli vegna skaðabótakröfu sem H ehf. hafði lýst við slit B sparisjóðs. Talið var ágreiningslaust að yrðu H ehf. ákvarðaðar skaðabætur úr hendi B sparisjóðs gæti H ehf. nýtt þær til skuldajafnaðar gagnvart kröfu Í. Talið var að niðurstaða þess máls kynni að hafa veruleg áhrif á úrlit máls Í hf. gegn H ehf. Voru því uppfyllt skilyrði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að fresta málinu þar til niðurstaða lægi fyrir um ágreining H ehf. og B sparisjóðs.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í tilteknu máli í Héraðsdómi Reykjavíkur og eftir atvikum í Hæstarétti Íslands. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, Héðinsreit ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. apríl sl., var höfðað 10. maí 2012.

Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

Stefndi er Héðinsreitur ehf., Kringlunni 4-12, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 928.055.319 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. janúar 2012 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt 36 samhljóða veðtryggingarbréfum útgefnum 27. nóvember 2007, allsherjarveð, tryggðum upphaflega með 1. veðrétti í Vesturgötu 64, Reykjavík, fnr. 200-0272 og uppfærslurétti, að fjárhæð 20.000.000 krónur hvert eða samtals að höfuðstól 720.000.000 krónur, en framangreind tryggingarbréf standi samkvæmt efni sínu til tryggingar efndum stefnda gagnvart stefnanda.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst  aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Þá krefst stefndi þess að viðurkenndur verði réttur stefnda til að skuldajafna gagnvart kröfu stefnanda með bótakröfu stefnda að fjárhæð 3.060.000.000 krónur á hendur Byr sparisjóði, kt. 610269-2229, sem er í slitameðferð.

Stefndi krefst málskostnaðar í öllum tilvikum.

Frávísunarkröfu stefnda var hrundið með úrskurði 4. febrúar sl.

Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að máli þessu verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í máli nr. X-90/2012, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eða eftir atvikum að dómur Hæstaréttar Íslands liggi fyrir ef því máli verði skotið þangað.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að kröfu stefnda um frestun málsins verði hafnað þar sem skilyrðum 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt.

I.

Stefndi hugðist reisa 170-190 þjónustuíbúðir og 220 bílastæði á lóðinni Vesturgötu 64 í Reykjavík og gerði hann verksamning við verktakafyrirtækið JÁVERK ehf. þann 21. ágúst 2007 um að byggja á reitnum. Umsamin verklaun voru 4.712.000.000 krónur.

Stefndi gerði fjármögnunarsamning við Byr sparisjóð þar sem samið var um að sparisjóðurinn lánaði stefnda fé til að fullfjármagna byggingarframkvæmdir samkvæmt verksamningnum við JÁVERK ehf. Aðilar gerðu mér sér fyrsta lánssamninginn þann 27. nóvember 2007, þar sem Byr sparisjóður veitti stefnda lán að fjárhæð 600.000.000 krónur, en þar er um að ræða lán það er stefnandi byggir málssókn sína á í máli þessu. Með bréfi 12. júní 2008 rifti Byr sparisjóður fjármögnunarsamningi aðila. Stefndi mótmælti riftuninni, krafðist fullra efnda og áskildi sér allan rétt vegna tjóns sem hann yrði fyrir vegna riftunarinnar. Stefnda var veitt takmarkað byggingarleyfi vegna framkvæmda á Vesturgötu 64. Það haggaði ekki ákvörðun Byrs sparisjóðs um riftun. Stefndi höfðaði mál á hendur Byr sparisjóði og var málið þingfest 25. janúar 2009. Krafðist hann  annars vegar viðurkenningar á því að fjármögnunarsamningur aðila væri í fullu gildi og hins vegar að viðurkennd yrði bótaskylda Byrs sparisjóðs gagnvart stefnda vegna þess tjóns sem stefndi hefði orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu riftunar.

Þann 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið rekstur Byrs yfir og skipaði slitastjórn til að stýra slitum sjóðsins.

Þann 13. október 2010 lýsti stefndi kröfu að fjárhæð 3.060.000.000 krónur í slitabú Byr og lýsti yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfum Byr á hendur stefnda samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi aðila frá 27. nóvember 2007.

Með dómi 15. nóvember 2010 sýknaði Héraðsdómur Reykjaness Byr af áðurgreindum kröfum stefnda.

Þann 2. desember 2010 hafnaði slitastjórn Byr kröfu stefnda með vísan til sýknudóms héraðsdóms. Stefndi mótmælti þeirri afstöðu með bréfi dagsettu 28. mars 2011.

Stefndi áfrýjaði fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness til Hæstaréttar þann 11. febrúar 2011. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti var kröfugerð breytt þannig að einvörðungu var krafist viðurkenningar á bótaskyldu. Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2011 var dómi héraðsdóms snúið við og viðurkennd skaðabótaskylda Byrs gagnvart stefnda vegna tjóns hans sem leiða mætti af riftun fjármögnunarsamningsins.

Í framhaldi af dómi Hæstaréttar átti stefndi í viðræðum við slitastjórn Byr þar sem hann ítrekaði kröfur sínar m.a. með vísan til röksemda í kröfulýsingu og með vísan til dóms Hæstaréttar. Ekki náðist samkomulag og var málinu því vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Upplýst hefur verið að í dómkvaddir hafi verið tveir matsmenn í því ágreiningsmáli til þess að meta ætlað tjón stefnda vegna riftunar framangreinds fjármögnunarsamnings.

Mál það sem rekið er hér fyrir dómi er vegna skuldar stefnda samkvæmt framangreindum lánasamningi útgefnum 27. nóvember 2007, vegna láns upphaflega að fjárhæð 600.000.000 krónur sem greiddar voru út í ISK 50%, EUR 30%, CHF 15% og JPY 5% sem skyldi endurgreiðast með einni afborgun þann 5. janúar 2012. Samkvæmt láni þessu skyldi lánshlutinn í erlendri mynt bera breytilega tólf mánaða LIBOR/URIBOR vexti eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil að viðbættu 3,9% vaxtaálagi. Lánshlutinn í íslenskum krónum skyldi bera breytilega tólf mánaða REIBOR vexti að viðbættu 3,5% vaxtaálagi. Vextir skyldu greiðast á lokagjalddaga lánsins þann 5. janúar 2012.

Vegna óvissu um lögmæti ákvæða lánssamningsins er lúta að tengingu lánsfjárhæðarinnar við þróun gengis erlendra mynta, reiknaði stefnandi lánið allt í íslenskum krónum allt frá stofndegi lánssamningsins. Höfuðstóll lánsins eigi því að bera almenna vexti Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum frá 1. mars 2010 í samræmi við dóma Hæstaréttar um þessi efni.

Krafan sundurliðist nú þannig:

Höfuðstóll                                600.000.000 krónur

SÍ vextir til 5. janúar 2012    328.055.319 krónur

Samtals                                     928.055.319 krónur.

Stefnandi krefst þess í málinu að staðfestur verði veðréttur hans til tryggingar ofangreindum lánssamningi samkvæmt fyrrgreindum tryggingarbréfum. Krafan sé sett fram til þess að stefnandi geti boðið upp fasteignina Vesturgötu 64, Reykjavík, fnr. 200-0272, til lúkningar stefnukröfunni að svo miklu leyti sem veðtryggingarbréfin tryggja kröfuna, en stefndi sé ekki þinglýstur eigandi eignarinnar.

Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila um framangreinda kröfu stefnanda en stefndi telur kröfuna á hinn bóginn greidda með framangreindri skuldajafnaðaryfirlýsingu gagnvart slitastjórn Byrs sparisjóðs.

Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er svo fyrir mælt, að fái dómari vitneskju um að opinbert mál hafi verið höfðað eða opinber rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis og telja megi að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins, og geti hann þá frestað máli af sjálfsdáðum þar til séð sé fyrir enda opinbers máls eða rannsóknar. Í síðari málslið þessarar málsgreinar segir að með sama hætti megi fresta máli ef einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega eða það efni hefur verið réttilega lagt til úrlausnar stjórnvalds. Ágreiningsefni aðila í þessum þætti málsins er um það hvort krafa stefnda um frestun málsins fullnægi þessum skilyrðum. Spurning sem þarf að svara er því hvort það sem kann að verða slegið föstu í ágreiningsmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kunni að hafa verulega þýðingu fyrir úrslit þessa mál.

Eins og áður getur er ekki tölulegur ágreiningur í þessu máli. Þá verður að telja ágreiningslaust að verði stefnda ákvarðaðar skaðabætur í ágreiningsmálinu sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur milli stefnda og slitastjórnar Byrs sparisjóðs þá geti hann nýtt þær bætur til skuldajafnaðar gagnvart kröfum stefnanda á hendur honum, en ganga verður út frá því að kröfur Byrs sparisjóðs á hendur stefnda vegna framangreinds lánasamnings hafi verið færðar yfir til Byrs hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010. Eftir samruna Byrs hf. og Íslandsbanka hf. 1. desember er krafan því eign Íslandsbanka hf., stefnanda máls þessa.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í máli þessu öðrum þræði á því að krafa stefnanda hafi verið greidd með skuldajafnaðaryfirlýsingu hans gagnvart slitastjórn Byrs sparisjóðs sem hafi hafnað kröfu stefnda. Ljóst þykir hins vegar að í þessu máli gagnast stefnda ekki þessi málsástæða nema áður liggi fyrir niðurstaða um bætur í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en sú niðurstaða liggur ekki fyrir.

Í grein 13 í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 um ráðstöfun eigna og skulda Byrs sparisjóðs til Byrs hf. segir m.a.:  “Framsal kröfuréttinda samkvæmt þessari ákvörðun skal ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnunar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans”. Þetta ákvæði er mjög í samræmi við almennar reglur kröfuréttar varðandi aðilaskipti á kröfuréttindum sem ekki eigi að gera stöðu skuldarans verri en fyrir aðilaskiptin. Samkvæmt þessu verður að miða við það að stefndi eigi lögvarinn rétt til að skuldajafna hugsanlegum skaðabótum sem honum verða ákvarðaðar í umræddu dómsmáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur við kröfum á hendur honum sem færðar voru til stefnanda (áður Byrs hf.) með framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010.

Óumdeilt er að stefndi skuldar stefnanda ennþá hina umstefndu kröfu í máli þessu. Hæstiréttur Íslands hefur með dómi sínum 17. nóvember 2011 viðurkennt skaðabótaskyldu Byrs sparisjóðs á tjóni stefnda, Héðinsreits ehf., er leiddi af ólögmætri riftun 12. júní 2008 á fjármögnunarsamningi aðila 9. október 2007. Stefndi hefur lýst áætlaðri bótakröfu í slitastjórn Byrs sparisjóðs og lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfum á hendur stefnda. Slitastjórn Byrs sparisjóðs hafnaði kröfunni og var málinu þá skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem rekið er ágreiningsmál nr. X-90/2012. Dómkvaddir hafa verið matsmenn til að meta tjón stefnda sem leiddi af ólögmætri riftun á fjármögnunarsamningi stefnda og Byrs sparisjóðs samkvæmt framangreindum hæstaréttardómi. Enda þótt krafa stefnanda í máli þessu sé óumdeild sem slík og ekki verði séð að niðurstaða dómsmálsins í Reykjavík komi til með að hafa nein áhrif á niðurstöðu þessa máls að því leyti, verður á hinn bóginn ekki horft framhjá því að niðurstaða þess dómsmáls kynni að hafa áhrif á niðurstöðuna á þann hátt að stefndi kynni á grundvelli hennar að verða sýknaður eða verða dæmdur til að greiða lægri fjárhæð en stefnandi krefst vegna skuldajafnaðarkröfu sinnar. Samkvæmt því verður að telja að niðurstaða ágreiningsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur kunni að hafa veruleg áhrif á úrslit þessa máls að þessu leyti. Þykja því skilyrði vera til þess að verða við kröfu stefnda um frestun málsins á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessu er máli þessu frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í máli nr. X-90/2012 í Héraðsdómi Reykjavíkur og eftir atvikum í Hæstarétti Íslands.

Af hálfu aðila er ekki krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Finnbogi H. Alexandersson kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í máli nr. X-90/2012 í Héraðsdómi Reykjavíkur og eftir atvikum í Hæstarétti Íslands.