Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/2008
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 481/2008. |
Íslandspóstur hf. (Kristín Edwald hrl.) gegn Kristrúnu Kristjánsdóttur (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.
K slasaðist við störf fyrir Í. Var hún að fara út úr húsakynnum Í með póstburðarkerru er hún féll af rampa við dyrnar. Handrið sem rampinn var girtur af með hafði verið fjarlægt vegna viðgerðar. Talið var að Í þyrfti að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið fyrr en of seint og það hafi þar með ekki verið rannsakað. Var framburður K um slysið því lagður til grundvallar. Talið var að ástæða slyssins hafi verið sú að handrið vantaði á rampann. Bæri Í ábyrgð á því sem fasteignareigandi. Væru aðstæður ekki forsvaranlegar án handriðs og til þess fallnar að skapa hættu, en ekki væru efni til að fella sök vegna slyssins að hluta á K. Var fallist á kröfu K um viðurkenningu á því að Í bæri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefndu 25. nóvember 2004 og málskostnaður verði felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Íslandspóstur hf., greiði stefndu, Kristrúnu Kristjánsdóttur, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2008.
Mál þetta, sem var dómtekið 29. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristrúnu Kristjánsdóttur, Unufelli 35, Reykjavík á hendur Íslandspósti hf., Stórhöfða 29, Reykjavík, með stefnu birtri 21. nóvember 2007.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni, sem hún hlaut 25. nóvember 2004. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað.Stefndi krefst þess til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir.
Stefnandi hefur starfað hjá stefnda í rúma tvo áratugi. Stefndi rekur póstdreifingarstöð við Þönglabakka í Reykjavík en starfsstöðin er í sama húsi og Strætó bs. Á hlið hússins er hurð og utan við hurðina er pallur, sem er ca 50 55 cm hár, með aflíðandi rampa sem hugsaður er í þeim tilgangi að bréfberar eigi auðvelt með að koma þungum póstkerrum niður pallinn fyrir framan hurðina. Pallurinn eða rampinn var girtir af með handriði. Þegar slysið átti sér stað hafði handriðið verið fjarlægt til viðgerðar, þar sem ekið hafði verið á það. Ekkert bráðabirgðahandrið var sett upp í staðinn.
Hinn 25. nóvember 2004 varð stefnandi fyrir slysi. Ágreiningur er með málsaðilum um það á hvaða hátt slysið hafi orðið. Stefnandi segir fyrir dómi að hún hafi verið að fara út úr húsinu með póstburðarkerru og ýtt henni á undan sér. Hún hafi þurft að fara yfir lítinn þröskuld og þá ýtt á kerruna sem hafi farið fram af rampanum beint fyrir framan dyrnar. Í tilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlitsins, dags. 7. desember 2004, og tilkynningu um slys til Tryggingastofnunar ríkisins, dagsett sama dag, kemur fram önnur lýsing og eru þær samhljóða. „Kristrún var að fara út með póstinn, til útburðar í kerru. Beygir of snemma fram af rampi, þar sem handrið hafði verið fjarlægt, kerran steyptist fram af og Kristrún á eftir.“ Engin rannsókn fór fram á slysi þessu.
Stefnandi var flutt á slysadeild. Í greinargerð Brynjólfs Jónssonar læknis, dags. 26. mars 2007, kemur fram að teknar hafi verið röntgenmyndir af stefnanda við komuna á slysadeild og hafi þá komið í ljós að brot var í efra enda sköflungs vinstra megin. Var brotið tilfært, kurlað og var brotið inn í hnéliðinn á mörgum stöðum og ytri liðþófi úr lagi genginn. Aðgerð var gerð á brotinu samdægurs, opnað inn á liðinn og liðþófi færður til og saumaður að liðböndum og liðpoka utan til. Að lokum var gips sett á fótinn og stefnandi undirgekkst langvarandi gipsmeðferð. Stefnandi lá á sjúkrahúsi til 23. desember 2004. Í október 2006 mun stefnandi enn hafa haft óþægindi í hnénu og ekki getað gengið lengri vegalengdir án þess að finna til. Tiltekið er í bréfinu að stöðugleikapunkti sé náð.
Nefnd tilkynning, dags 7. desember 2004 til Vinnueftirlitsins, barst ekki fyrr en 22. febrúar 2005, sbr. bréf frá Vinnueftirlitinu, dags. 17. nóvember 2006. Þar kemur fram að vinnuslysið hafi ekki verið rannsakað af Vinnueftirlitinu sökum þess að tilkynningin hafi borist stofnuninni of seint.
Hinn 30. mars 2007 sendi stefnandi Sjóvá-Almennum tryggingum hf. tjónstilkynningu þar sem slysinu er lýst á þann hátt að hún hafi verið að ganga út úr dreifingastöðinni með kerru fulla af pósti. Pallurinn sé ca 50- 55 cm hár og handriðið hafi verið fjarlægt án þess að hún tæki eftir því. Kerran hafi farið út af brúninni og hún með henni.
Með bréfi 9. maí 2007 var krafist viðurkenningar á bótaskyldu á grundvelli ábyrgðartryggingar stefnda hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Með bréfi frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., dags. 28. september 2007, var þeirri kröfu hafnað en fallist á að stefnandi ætti rétt á greiðslu úr slysatryggingu launþega hjá félaginu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að stefndi beri skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu reglunnar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna. Íslandspóstur er eigandi eignarhluta 0103 með fastanúmerið 2234680 í fasteigninni Þönglabakka 4, sbr. yfirlýsing til þinglýsingar dags. 13. maí 1998 sem móttekin var hjá sýslumanninum í Reykjavík 12. júní 1998. Umræddur eignarhluti er í suðausturhluta 1. hæðar hússins.
Stefnandi heldur því fram að á fasteignareigendum hvíli rík aðgæsluskylda til þess að rækja viðhald og umhirðu með fasteigninni til að koma í veg fyrir að þeir sem erindi eiga í eða út úr fasteign verði ekki fyrir tjóni. Vinnustaður skal þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar.
Stefnandi segir þennan pall vera mjög þröngan og vart breiðari en svo að hjólastóll komist fyrir á honum. Myndir sem liggja fyrir í málinu sýni það. Engu að síður var lagt fyrir bréfbera að fara þessa leið út úr póstdreifingarstöðinni með þungar póstburðarkerrur. Þegar handriðið hafði verið fjarlægt voru aðstæðurnar á pallinum verulega hættulegar og í raun tímaspursmál hvenær slys yrði. Rík skylda hvíldi því á stefnda að bregðast skjótt við og setja handriðið upp aftur.
Í bréfi Sjóvár-Almennra trygginga hf., dags. 28. september 2007, segir svo: „Skv. upplýsingum frá vátryggingataka hafði umrætt handriði verið fjarlægt af verktaka á vegum Strætó BS en umsjónarmaður hússins á þessum tíma var starfsmaður Strætó BS. Yfirmenn Íslandspósts fengu ekki vitneskju um að til stæði að fjarlægja handriðið og höfðu því ekki kost á að tilkynna starfsmönnum um það.“ Stefnandi segir að það liggi fyrir að vanrækt var að tilkynna um slysið til Vinnueftirlits ríkisins, þvert gegn fyrirmælum 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í nefndu lagaákvæði er lögð sú skylda á atvinnurekanda, að tilkynna til Vinnueftirlitsins, án ástæðulausrar tafar, öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys, þar sem líkur eru á, að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna innan sólarhrings. Jafnframt er lögð skylda á atvinnurekanda, að tilkynna slys skriflega innan viku.
Stefnandi telur að það hefði engum getað dulist að fyrirsjáanlegt var að afleiðingar slyssins yrðu varanlegt heilsutjón stefnanda. Þrátt fyrir það vanrækti stefndi að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins þegar það átti sér stað. Á því er byggt af hálfu stefnanda að af þessum sökum beri stefndi hallann af því ef málsatvik teljist ekki nægjanlega upplýst, t.a.m. um hæð og breidd pallsins og varðandi það hve lengi umræddur pallur hafði verið án handriðs áður en slysið varð.
Stefnandi byggir á því að það breyti engu varðandi bótaábyrgð stefnda þó að verktaki á vegum Strætó BS, sem er með skrifstofur á efstu hæð hússins, hafi fjarlægt umrætt handrið. Fyrirsvarsmenn stefnda vissu eða máttu vita að veruleg slysahætta var því samfara að fjarlægja handriðið. Það leysir húseiganda eða eiganda atvinnurekstrar ekki undan skaðabótaskyldu, þótt verktaki, sem fenginn er til að vinna verk sem húseiganda er skylt að framkvæma, vinni verkið ekki eins og honum ber og af verði tjón.
Stefnandi byggir á því að vanræksla stefnda við að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir hafi leitt til þess að aðstæður á umræddum palli hafi orðið svo varhugaverðar að þær verði að teljast saknæmar. Hefði handriðið verið til staðar hefði slysið ekki átt sér stað. Strax í kjölfar slyssins var sett nýtt handrið í kringum pallinn og rampann. Sú aðgerð sýnir að fyrirsvarsmenn stefnda hafa áttað sig á því, sem hverjum manni mátti vera ljóst, að umtalsverð slysahætta var því samfara að hafa pallinn og rampann óvarinn, eins og í ljós kom.
Stefnandi bendir á að í áðurnefndu bréfi Sjóvár-Almennra trygginga hf., dags. 28. september 2007, sé því haldið fram að „af lýsingu á slysinu að ræða virðist mega rekja það til aðgæsluleysis tjónþola sjálfs“. Í bréfinu er þetta rökstutt með þeim hætti, að stefnanda hafi mátt vera ljóst þegar út var komið að handriðið vantaði og henni hafi því borið að gæta að sér er hún dró póstkerruna á eftir sér niður rampann.
Þessari fullyrðingu er harðlega mótmælt. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til annars en að stefnandi hafi farið að öllu með gát og gengið varlega um. Umræddur pallur er sem fyrr segir mjög þröngur. Af þeim sökum var ekki um annað að ræða fyrir bréfbera sem leið áttu út úr póstdreifingarstöðinni með þungar kerrur en að draga póstburðarkerrurnar á eftir sér út um hurðina og út á þröngan pallinn. Handrið hafði verið í kringum pallinn og hinn aflíðandi rampa um árabil og því alls ekki óeðlilegt að stefnandi hafi ekki veitt því athygli að handriðið hafi verið fjarlægt. Sönnunarbyrðin um að stefnandi hafi sýnt af sér óaðgæslu eða farið að öðru leyti ógætilega um hvílir á stefnda.
Málskostnaðarkrafa er gerð með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Sýknukrafan er byggð á tveimur málsástæðum. Í fyrsta lagi á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða annarra atvika sem stefndi bera skaðabótaábyrgð á að lögum. Í öðru lagi byggir stefndi á því að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu vegna eigin sakar. Um ábyrgð stefnda fer samkvæmt sakarreglunni. Er því mótmælt að beita skuli ströngu sakarmati gagnvart stefnda eins og stefnandi byggir á.
Varðandi fyrri málsástæðuna fyrir sýknu tekur stefndi fram að samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar ber stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að víkja frá þessari meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefnda.
Stefndi byggir á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til háttsemi stefnda eða atvika sem stefndi beri ábyrgð á og því er sérstaklega mótmælt af stefnda að viðhald og umhirða með fasteigninni hafi verið vanrækt í umrætt sinn. Þvert á móti hefur stefndi gætt fyllsta öryggis í hvívetna við starfsemi sína.
Stefndi bendir á að umrætt handrið var ekki fjarlægt af stefnda heldur af umsjónarmanni fasteignarinnar, starfsmanni Strætó bs., en félagið hefur einnig undir höndum starfsemi í húsinu. Handriðið var fjarlægt á vegum Strætó bs. eftir að ekið hafði verið á það og hafði handriðið verið sent í viðgerð. Ákvörðunin um að fjarlægja handriðið var því hvorki tekin af stefnda, né í nokkru samráði við hann. Að auki bendir stefndi á að nauðsynlegt hafi verið að fjarlægja handriðið svo unnt væri að lagfæra það. Var því óhjákvæmilegt að pallurinn yrði án handriðs í stuttan tíma á meðan viðgerð stóð yfir en handriðið var endurreist við fyrsta tækifæri. Stefndi mótmælir því sérstaklega þeirri ályktun stefnanda að handriðið hafi ekki verði sett upp aftur eins fljótt og kostur var.
Stefndi mótmælir því að pallurinn, sem handriðið var á, sé þröngur og hættulegur almennri umferð. Þvert á móti er pallurinn mjög breiður og rúmgóður svo engin hætta ætti að skapast undir venjulegum kringumstæðum við umferð gangandi vegfarenda um pallinn, sé varlega farið. Líkt og sjá má af ljósmyndum sem teknar voru af pallinum er hann mjög aðgengilegur og alls ekki hærri en nauðsynlegt er. Þá bendir stefndi á að hæð pallsins við inngang í húsið hefur engin áhrif á meinta hættueiginleika hans í þessu tilviki þar sem stefnandi féll við hinn enda pallsins, þar sem hann er mun lægri.
Þá mótmælir stefndi því að hann geti borið hallann af meintum sönnunarskorti í málinu þar sem óhapp stefnanda hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins samdægurs eða daginn eftir. Óhappið var tilkynnt til Vinnueftirlitsins skriflega þann 7. desember 2004, eða 12 dögum eftir óhappið. Ástæða þess er sú að starfsmaður stefnda, sem sá um að senda tilkynninguna vildi skrifa tilkynninguna, og þar með lýsingu á atvikinu, í samráði við stefnanda og gerði hún það hinn 7. desember, eins og áður segir. Þar sem engin vitni urðu að óhappinu var óhjákvæmilegt að skrifa lýsingu af óhappinu samráði við stefnanda. Tilkynningarnar til Vinnueftirlitsins og Tryggingastofnunar ríkisins voru unnar samhliða og bornar undir stefnanda, sem samþykkti þær á framangreindum degi. Þessu til viðbótar bendir stefndi á að framangreindur dráttur á tilkynningu til Vinnueftirlitsins breytti engu um fyrirliggjandi upplýsingar um tildrög óhappsins eða orsakir þess. Staðurinn þar sem stefnandi féll hefur verið óbreyttur síðan á slysdegi, að því frátöldu að handriðinu hefur verið komið fyrir aftur. Pallurinn sem stefnandi féll af og kantur hans eru óbreyttir og því er hægt að gera sér góða grein fyrir orsökum óhappsins nú, rétt eins og á slysdegi, séu þau á huldu.
Stefndi mótmælir því að hann, eða starfsmenn hans, hafi sýnt af sér vanrækslu í umrætt sinn sem talist getur saknæm. Eins og að framan greinir þá annaðist stefndi ekki viðgerð og uppsetningu handriðsins auk þess sem ekkert liggur fyrir um það að viðgerð hafi tekið lengri tíma en eðlilegt getur talist. Að minnsta kosti hafi sá dráttur ekki verið á ábyrgð stefnda.
Stefndi byggir á því að orsök óhapps stefnanda hafi verið sú að stefnandi beygði of snemma fram af pallinum og því hafi hún slasast. Staðfestingu þess efnis má finna í slysatilkynningum, annars vegar til Vinnueftirlitsins og hins vegar til Tryggingastofnunar ríkisins. Atvikalýsingin í þessum tilkynningum var unnin í samráði við stefnanda og staðfest af henni en í lýsingunni kemur fram að hún hafi verið „að fara út með póstinn til útburðar í kerru þegar hún beygir of snemma fram af rampi, þar sem handrið hafði verið fjarlægt“. Er útilokað að stefndi geti borið skaðabótaábyrgð á þessari atburðarás en stefnanda var ljóst, eða mátti vera ljóst, að handriðið var ekki til staðar þegar hún beygði of snemma fram af pallinum. Á þeim tíma hafði handriðið ekki verið þarna í u.þ.b. 10 daga en, eins og ljósmyndir af vettvangi bera með sér, er handriðið mjög áberandi. Stefnandi hafði á hverjum degi gengið upp pallinn, og þar með fram hjá þeim stað, sem handriðið stóð, á leið sinni til vinnu en allir starfsmenn stefnda gengu inn um innganginn við enda pallsins við komu sína til vinnu. Líkt og yfirlit yfir vinnuástundun stefnanda ber með sér þá hafði stefnandi mætt til vinnu alla virka daga fyrir óhappið og liggur því fyrir að hún hafði gengið upp og niður pallinn mörgum sinnum á þessu tímabili. Má því telja útilokað að stefnandi hafi ekki veitt því athygli að handriðið væri farið, eins og fullyrt er í stefnu.
Samkvæmt framansögðu liggur ekki annað fyrir en að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið fullnægjandi og að ekki hafi verið fyrir hendi sérstök slysahætta þar sem stefnandi féll. Óhapp stefnanda varð einfaldlega vegna óhappatilviljunar sem stefndi beri ekki ábyrgð á.
Telji dómurinn að ekki hafi verið um óhappatilviljun að ræða, byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Gáleysi stefnanda er orsök óhappsins.
Stefndi fullyrðir að tjón stefnanda megi að öllu leyti rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfrar. Stefnandi var 65 ára þegar óhappið varð og hafði hún starfað hjá stefnda í rúma tvo áratugi. Þar af hafði stefnandi starfað á starfsstöðinni í Þönglabakka frá því stefndi flutti starfsemi sína þangað árið 1996. Í ljósi aldurs stefnanda, þekkingar hennar og reynslu mátti henni vera fullkunnugt um aðstæður svo að hún þyrfti að sýna aðgát í umrætt sinn. Stefndi ítrekar að umrætt handrið hafði verið fjarlægt u.þ.b. 10 dögum áður en stefnandi slasaðist og hafði stefnandi mætt til vinnu nær alla þá daga. Þetta vissi stefnandi, eða mátti a.m.k. vita, og gaf það stefnanda tilefni til þess að gæta sérstakrar varúðar á leið sinni niður pallinn. Á þetta ekki síst við þegar þung byrði er handleikin. Þá skal það jafnframt ítrekað að samkvæmt lýsingu stefnanda sjálfrar þá verður óhappið alfarið rakið til þess að hún beygði of snemma fram af pallinum og hafði því ekki áttað sig á því að hún væri ekki komin á enda hans. Verður það alfarið metið til eigin sakar stefnanda.
Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda, gerir hann þá kröfu til vara og þrautavara að hann verði aðeins talin skaðabótaskyldur að hluta vegna óhapps stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður. Kröfu sína byggir stefndi á þeirri málsástæðu að stefnandi verði sjálf að bera tjón sitt að hluta vegna eigin sakar. Hafa röksemdir varðandi eigin sök verið raktar hér að framan og vísast til málsástæðna sem hér hafa verið tilteknar varðandi sjónarmið um eigin sök stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola, reglna um sönnun og sönnunarbyrði auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Meðal málsaðila er ágreiningur um það hvernig og nákvæmlega hvar slys stefnanda varð hinn 25. nóvember 2004. Stefnandi hélt því fram fyrir dómi að hún hefði farið fram af rampanum beint fyrir framan dyrnar, þar sem rampinn er hæstur. Í tilkynningum til Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnueftirlitsins, sem báðar eru dagsettar 7. desember 2004, kemur fram að stefnandi hafi beygt of snemma fram af rampanum. Þar er rampinn mun lægri, án þess að fyrir liggi hve hár hann sé. Þessar tilkynningar eru samdar af starfsmanni stefnda, en fyrir dómi kvaðst hún hafa haft símasamband við stefnanda um atvikin.
Slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlitsins fyrr en með tilkynningu dags 7. desember 2004, er barst stofnunni 22. febrúar 2005. Því liggur fyrir að slysið var ekki rannsakað af Vinnueftirlitinu, svo sem bar að gera samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hefði rannsókn farið fram hefði legið fyrir í málinu hversu breiður og hár rampinn er. Þá hefði einnig legið fyrir hvort inntak vegna brunaslanga, sem skagar út úr veggnum u.þ.b. á móts við þann stað er stefndi kveður stefnanda hafa farið fram af, hafi haft einhver áhrif. Hægt hefði verið að taka skýrslu af þeim aðila er kom að stefnanda og lét vinnufélaga hennar vita og líklegra er að legið hefði fyrir nákvæmlega hvar stefnandi lá á gangstéttinni fyrir neðan og upplýst hefði verið um hve þung póstburðarkerra stefnanda var í umrætt skipti. Þá hefði einnig verið hægt að upplýsa hversu lengi handriðið hefði vantað á rampann. Dómurinn telur því að stefndi verði að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið og það hafi þar með ekki verið rannsakað. Verður því að leggja framburð stefnanda til grundvallar.
Stefnandi kveðst hafa ýtt kerrunni, sem er á hjólum, yfir lítinn þröskuld. Eðli máls samkvæmt þarf smáátak til að koma kerrunni yfir þröskuldinn. Hefði handrið verið til staðar hefði það stoppað kerruna. Ástæða slyssins er því sú að handriðið vantaði á rampann. Á því bar stefndi ábyrgð sem fasteignareigandi. Engu skiptir þótt sameigandi stefnda hafði tekið handriðið niður. Að mati dómsins skiptir ekki máli þótt stefnandi hafi gengið um þennan inngang oft áður og hafi vitað að handritið vantaði. Það sem skiptir máli er að vinnuaðstæður stefnanda eru þannig að henni bar að fara með þunga kerru á hjólum yfir lítinn þröskuld, inn á rampa sem er u.þ.b meters breiður, samkvæmt framburði dreifingarstjóra stefnda, síðan að beygja til hægri til að keyra póstkerruna niður rampann. Dómurinn telur að án handriðs séu þessar aðstæður ekki forsvaranlegar og til þess fallnar að skapa hættu. Það er því niðurstaða dómsins að stefnda beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda sem hún hlaut 25. nóvember 2004. Í ljósi málsatvika og þess sem að framan greinir, er því hafnað að stefnandi hafi átt einhverja sök á tjóni sínu.
Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála og í samræmi við framangreinda niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Hugi Bjarnason hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Kristín Edwald hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð
Viðurkennt er að stefndi, Íslandspóstur hf., beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda, Kristrúnar Kristjánsdóttir, sem hún hlaut 25. nóvember 2004.
Stefndi greiða stefnanda 850.000 kr. í málskostnað.