Hæstiréttur íslands

Mál nr. 624/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 30. apríl 2015.

Nr. 624/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum. Brot X gegn A, fyrst er hún var 11 ára og á ný þegar hún var 15 ára, voru talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 200. gr. sömu laga, en brot hans gegn B, sem þá var 19 ára, var talið varða við síðastgreinda ákvæðið. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að hann hefði ekki áður hlotið dóm sem áhrif hefði á ákvörðun refsingar hans. Var refsing X ákveðin fangelsi í 3 ár og honum gert að greiða skaðabætur til handa A að fjárhæð 900.000 krónur og B að fjárhæð 600.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af ákæru 27. desember 2013 og refsimildunar. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.

B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.

Ákærði hefur ekki áður hlotið dóm sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar hans. Með þeirri athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þar á meðal um einkaréttarkröfur, enda hafa engin gögn verið lögð fram um afleiðingar brota ákærða á brotaþola.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns beggja brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að samkvæmt gögnum málsins liðu 9 mánuðir frá útgáfu áfrýjunarstefnu og þar til málsgögn voru afhent Hæstarétti. Hefur engin haldbær skýring verið gefin á þeim óhæfilegu töfum sem urðu hjá embætti ríkissaksóknara við meðferð málsins.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 844.272 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2014.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 27. febrúar síðastliðinn, var höfðað með tveimur ákærum ríkissaksóknara. Fyrri ákæran er gefin út 27. desember 2013, á hendur X, kennitala [...], [...], [...],

„fyrir neðangreind kynferðisbrot gegn dætrum sínum A og B svo sem hér greinir:

1.                   Með því að hafa, á heimili ákærða að [...] í [...], í eitt skipti árið 2005 þegar A var 11 ára gömul og lá í rúmi ákærða, strokið stúlkunni innanklæða og káfað á brjóstum hennar, sett hendi stúlkunnar ofan í nærbuxur ákærða og látið hana strjúka getnaðarlim sinn, strokið kynfæri hennar og  stungið fingri sínum inn í leggöng stúlkunnar.

Telst brot ákærða varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga.

2.                   Með því að hafa vorið 2009, þegar A var 15 ára gömul, káfað á brjóstum hennar utanklæða, þar sem hún lá sofandi í sófa á heimili ákærða, að [...] í [...].

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3.                   Með því að hafa sumarið 2009, á heimili ákærða að [...] í [...], þegar B var 19 ára, káfað á lærum hennar þar sem hún lá í rúmi ákærða, og ítrekað reynt að káfa á kynfærum hennar.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og og greiðslu sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

                A, kt. [...], gerir þá kröfu að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. maí 2013 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

                B, kt. [...], gerir þá kröfu að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

                Síðari ákæran er gefin út 28. janúar 2014 á hendur ákærða „fyrir kynferðisbrot með því að hafa í tvígang, annarsvegar 21. júlí 2013 að [...], [...], og hinsvegar hinn 15. ágúst sama ár, að [...], [...], greitt samtals kr. 50.000 fyrir vændi.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og og greiðslu sakarkostnaðar.“

                Ákærði hefur játað sök samkvæmt fyrri ákærunni að hluta til eins og fram kemur í kaflanum hér á eftir. Hann hefur játað sök samkvæmt síðari ákærunni. Hann krefst vægustu refsingar. Þess er krafist að bótakröfunum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda.

II

                Málavextir varðandi fyrstu tvo liði ákærunnar eru þeir að 16. maí 2013 kom brotaþolinn til lögreglu og kærði föður sinn, ákærða í málinu, fyrir kynferðisbrot þau sem lýst er í þessum liðum ákærunnar. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. júní kannaðist ákærði við að hafa þuklað á brotaþola á heimili sínu sem nefnt er í fyrsta lið ákæru. Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki muna nákvæmlega hvað hefði gerst en kannaðist við að hafa strokið stúlkunni um magann og brjóstin. Einnig kvaðst hann muna eftir að hafa sett hendi stúlkunnar ofan í nærbuxur sínar en kannaðist ekki við önnur tilvik sem í ákæruliðnum greinir. Varðandi atvikið, sem um getur í öðrum lið ákærunnar, kannaðist ákærði einnig við að það hefði gerst á þeim stað sem í ákæru getur. Kvað hann mikla áfengisneyslu sína vera skýringuna.

                Málavextir varðandi þriðja lið ákærunnar eru þeir að brotaþoli kom til lögreglu 4. júlí 2013 og lagði fram kæru á hendur ákærða, föður sínum, fyrir það sem um getur í ákæruliðnum. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 11. september og kvaðst hann hafa verið drukkinn heima hjá sér þegar móðir brotaþola hafi komið með hana til hans. Brotaþoli hafi einnig verið drukkin. Ákærði kvað sig og brotaþola hafa sofnað í sama rúmi og kannaðist við að hafa þá káfað á henni.

                Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brotin sem honum eru gefin að sök í ákærunni frá 28. janúar síðastliðnum og er játning hans studd sakargögnum. Með vísun til 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 verða málavextir varðandi þann kafla því ekki reifaðir.

III

                Við aðalmeðferð játaði ákærði að hafa gert það við brotaþola, dóttur sína, sem um getur í 1. lið ákæru, nema að hafa strokið kynfæri hennar og sett fingur sinn inn í leggöng hennar. Hann kvað þetta hafa gerst á þáverandi heimili sínu sem nefnt er í ákæruliðnum. Hann kvaðst hafa komið drukkinn heim og haldið áfram að drekka þar. Hann kvað brotaþola hafa verið í heimsókn hjá sér, eins og hún hafi verið aðra hverja helgi á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa búið einn á þessum tíma. Hann kvað brotaþola hafa verið sofandi í rúmi í íbúðinni og hefði hann farið inn til hennar og gert það sem hann játaði að hafa gert. Hún hefði sofið í sama rúmi og hann. Eftir að þetta gerðist kvað hann hana hafa hætt að koma til sín um nokkurra ára skeið. Spurður af verjanda sínum kvaðst ákærði halda að hann hefði gert þetta vegna þess að hann hefði ruglast á brotaþola og þáverandi kærustu sinni. Ákærði var spurður nánar um þetta og ítrekaði hann þá játningu sína og þá skýringu að hann hefði verið drukkinn.

                Ákærði kvað móður brotaþola hafa hringt í þáverandi kærustu sína og sagt henni frá því sem brotaþoli hefði sagt að gerst hefði. Þá hefði verið liðinn einhver tími frá því að þetta gerðist.

                Ákærði neitaði sök í 2. ákærulið. Hann kvaðst muna eftir þessu atviki og hefði hann strokið um bak, höfuð og maga brotaþola. Í þetta skipti hefði hann komið drukkinn heim og vakið brotaþola við heimkomuna. Hann taldi líklegast að brotaþoli, sem var sofandi í sófa í stofunni, hefði legið á bakinu. Framburður brotaþola hjá lögreglu var borinn undir ákærða en þar kemur fram að hún hefði snúið sér á magann þegar hún hafi orðið vör við strokur hans á brjóst sér. Hann kvað strokur þessar ekki hafa verið í kynferðislegum tilgangi og hann hafi ekki ætlað að vekja hana. Þá var borið undir ákærða að brotaþoli hefði sagt móður sinni frá þessu þennan sama dag og hefði málið þá aftur verið rætt innan fjölskyldunnar. Hann kvað stjúpföður brotaþola hafa komið heim til sín og rætt við sig um brotaþola. Kvað ákærði  stjúpföðurinn hafa sagt að allt yrði gott aftur ef hann færi í áfengismeðferð. Eftir að þetta gerðist hefðu samskipti sín og brotaþola hætt um alllangan tíma. Ákærði kvað sig og brotaþola ekki ræðast við í dag.

                Ákærði neitaði sök í 3. ákærulið. Hann kvað móður brotaþola hafa komið með hana á heimili sitt seint um nótt. Hann hefði verið drukkinn. Brotaþoli hefði einnig verið út úr drukkin og hefði móðirin beðið um að hún fengi að gista hjá sér þar eð hún réði ekkert við hana. Ákærði kvað brotaþola hafa farið inn í herbergi að sofa og eins hefði hann farið að sofa í sama rúmi. Ákærði viðurkenndi að hafa strokið brotaþola um lærin og eins að hafa strokið henni um bak og maga. Hann neitaði að hafa reynt að káfa á kynfærum brotaþola, en hann hefði hugsanlega komið nálægt kynfærum er hann strauk henni um lærin. Hann kvað brotaþola hafa verið í bol eða skyrtu og nærbuxum. Ákærði kvaðst hafa talið brotaþola hafa verið sofandi þegar hann strauk henni. Borið var undir ákærða það sem brotaþoli segir um að hún hafi verið að ýta honum í burtu og kvað hann hana líklega hafa reynt að ýta sér í burtu. Eins staðfesti hann það sem hann hafði borið hjá lögreglu um að hún hefði beðið hann um að hætta. Um morguninn hefði vinkona brotaþola sótt hana. Eftir þetta hefðu samskipti hans og brotaþola slitnað og engin verið síðan.

                Ákærði ítrekaði játningu sína á því sem honum er gefið að sök í ákæru, útgefinni 28. janúar síðastliðinn.

                Fyrri brotaþoli bar varðandi 1. ákærulið að hún hefði verið í heimsókn hjá föður sínum, ákærða, sem hefði verið drukkinn og farið niður í bæ. Hún kvaðst hafa farið að sofa í rúmi sem þau hefðu bæði sofið í. Hún kvaðst hafa vaknað við að ákærði hefði komið heim en farið aftur að sofa þegar ákærði hefði haldið áfram að drekka í stofunni. Brotaþoli kvaðst hafa vaknað við að ákærði hefði verið að strjúka á henni höndina. Hann hefði síðan farið að káfa á sér og strokið á sér brjóstin. Í fyrstu hefði hann strokið henni utan klæða en síðan innanklæða. Síðan hefði hann tekið hönd hennar og sett hana ofan á nærbuxur sínar, en síðan sett hana inn fyrir og hreyft hana til og frá þannig að hún hefði strokið á honum liminn. Þessu næst hefði ákærði lyft náttkjól hennar og káfað á brjóstum hennar en fært sig síðan neðar og farið inn fyrir nærbuxurnar og strokið kynfæri hennar. Loks hefði hann stungið fingri inn í leggöng hennar. Meðan á þessu stóð hafi ákærði haldið hönd hennar á lim sínum. Ákærði hefði haldið áfram að strjúka henni og kvaðst hún hafa látið sem hún svæfi, enda kvaðst hún ekki hafa skilið hvað hann væri að gera. Hún hefði svo byrjað að hreyfa sig og þá hefði ákærði hætt, lagst og sofnað eða dáið áfengisdauða. Brotaþoli kvaðst hafa farið inn á baðherbergi og læst sig þar inni. Þar hefði hún farið að hágráta og viljað fara heim. Hún hefði síðan farið aftur inn í rúm og farið að sofa en vaknað snemma morguninn eftir og látið sem ekkert hefði gerst. Ákærði hefði verið þunnur og líka látið sem ekkert hefði gerst. Hún kvaðst svo hafa verið hjá honum fram á kvöld er hún hefði farið heim til sín með áætlunarvagni. Eftir þetta hefði hún haldið áfram að vera hjá ákærða aðra hverja helgi en hún hefði átt í erfiðleikum með náin samskipti við hann. Þá hefði hún frekar viljað vera hjá stjúpmóður sinni eða að fá stjúpsystur sínar til að gista með sér til að þurfa ekki að vera ein með ákærða.

                Brotaþoli kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessu í janúar 2006. Þá hefði amma hennar verið í heimsókn og kvaðst brotaþoli þá hafa fengið kast og byrjað að gráta. Um kvöldið þennan sama daga, þegar hún var komin inn í herbergi sitt, hefði hún sent móður sinni smáskilboð og þannig sagt henni hvað ákærði hefði gert. Síðan hefði hún sagt móðurinni hvað hefði gerst, en þó ekki sagt henni allt. Hún hefði sagt henni þá að ákærði hefði káfað á sér, en þegar hún var orðin 17 ára hefði hún sagt móður sinni allt. Hún hefði ekki sagt allt vegna þess að hún hefði ekki trúað því að þetta hefði getað gerst. Það hefði verið fyrst eftir að hún hafði verið dáleidd, 17 ára gömul, að hún hefði áttað sig á hvað hefði gerst. Þangað til hefði hún viljað útiloka þetta. Hún kvað bæði móður sína og ömmu hafa orðið mjög reiðar vegna þessa. Í framhaldinu hefði stjúpfaðir sinn hringt í þáverandi kærustu ákærða og sagt henni hvað hefði gerst. Kærastan hefði rætt við ákærða og sagt honum hvað brotaþoli hefði sagt. Ákærði hefði orðið alveg miður sín og sagt að hann hefði ruglast á þeim, brotaþola og kærustunni. Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa farið til geðlæknis og viljað bæta fyrir þetta en áfengisneysla hans hefði ekkert lagast.

                Varðandi 2. ákærulið bar brotaþoli að hún hefði verið í heimsókn hjá ákærða. Þau hefðu verið að horfa á sjónvarpið og ákærði hefði verið að drekka. Ákærði hefði þá farið að rekja raunir sínar og jafnframt að segja henni frá sambúð sinni og móður hennar. Eins hefði hann sagt að hann gæti ekki misst brotaþola, hann hefði misst svo marga. Svona hefði ákærði alltaf talað þegar hann hefði verið drukkinn. Í þetta skipti hefði ákærði farið út í bæ að skemmta sér og skilið hana eftir þegar hann hafi verið búinn að rekja fyrir henni framangreint. Hún kvaðst svo hafa farið að sofa í sófa þar sem hún hefði alltaf sofið. Um nóttina hefði hún svo vaknað við læti í ákærða er hann var að koma heim. Þá hefði hann sest við hliðina á henni í sófanum og reynt að vekja hana. Hann hefði byrjað að strjúka hana og hafi káfað á brjóstum hennar utanklæða. Hún kvaðst ekki hafa leyft honum að gera meira heldur snúið sér á hliðina og þóst vera sofandi. Ákærði hefði setið hjá sér um tíma grenjandi en síðan farið inn í herbergi að sofa. Brotaþoli kvað ákærða einnig hafa strokið sér um höfuð og bak, en hún hefði snúið andlitinu í bak sófans. Um morguninn kvaðst brotaþoli hafa hringt í stjúpföður sinn er hafi komið og sótt hana. Þegar heim var komið hefði hún látið sem ekkert væri en nokkrum dögum síðar hefði hún sagt móður sinni frá því sem ákærði hefði sagt sér um sambúð þeirra og eins hefði hún þá sagt henni að ákærði hefði káfað á sér. Eftir þetta kvaðst brotaþoli hafa ákveðið að fara ekki oftar til ákærða. Hún kvaðst þó hafa hitt ákærða einu sinni og hefði hún sagt honum að hún vildi ekki vera hluti af áfengisruglinu í honum og eins að hún gæti ekki fyrirgefið honum, enda hefði hann ekki beðist fyrirgefningar.

                Stjúpföðurnum hefði verið sagt frá þessu og hefði hann aftur hringt í kærustu ákærða, en þetta hefði ekki verið tilkynnt til lögreglu, enda kvaðst brotaþoli ekki hafa viljað það. Hún kvaðst ekki hafa viljað sjá ákærða aftur og eins hefði hún ekki leitað sér aðstoðar heldur lokað sig inni. Þá kvaðst brotaþoli ekki geta borið um það sem um er fjallað í 3. ákærulið, en hún kvaðst þó hafa fundið á sér að eitthvað hefði gerst milli ákærða og systur hennar.

                Síðari brotaþoli bar að í umrætt sinni hefði hún verið að skemmta sér með vinkonum sínum og hefði móðir sín sótt sig. Brotaþoli kvaðst hafa verið drukkin og þar eð móðir hennar hefði ekki viljað fá hana heim hefði hún farið með hana til föður síns, ákærða, sem einnig var drukkinn. Hún kvað systur sína, hinn brotaþolann í málinu, hafa verið sofandi í sófa og því hefði hún orðið að sofa í sama rúmi og ákærði. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög drukkin en þó muna hvað hefði gerst. Hún kvað ákærða hafa verið að káfa á sér og hefði hún reynt að ýta honum frá sér sem hefði gengið erfiðlega vegna þess hversu drukkin hún hafi verið. Hún kvað hann hafa káfað á sér í klofinu, á lærunum, á maganum og alls staðar á líkamanum. Þrátt fyrir að hún hefði bæði verið þreytt og máttlaus hefði hún reynt að ýta honum frá sér en að lokum hefði hún sofnað. Hún kvað ákærða ekki hafa hætt að káfa á sér þrátt fyrir að hún hefði verið að ýta honum frá sér. Hún kvað þau hafa legið hlið við hlið í rúminu og taldi hún að ákærði hefði mjög fljótt byrjað að káfa á sér eftir að þau voru lögst. Þá kvað hún hann hafa snert kynfæri sín í upphafi en síðan hefði henni tekist að ýta honum í burtu. Þegar hún vaknaði hefði ákærði verið sofandi í rúminu. Hún kvaðst strax hafa farið inn á baðherbergi og hringt í móðursystur sína og sagt að hún væri hjá ákærða og hann hefði reynt að káfa á henni eða reynt að gera eitthvað við hana. Móðursystirin hefði sagt henni að koma og kvaðst þá brotaþoli hafa sagt henni að hún mætti ekki segja neinum hvað hefði gerst. Strax á eftir kvaðst hún hafa hringt í vinkonu sína sem hafi komið og sótt hana. Allan tímann kvaðst hún hafa beðið inni á baðherbergi. Brotaþoli kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hún hefði sagt við vinkonu sína en hún mundi eftir að hafa sagt hvað hefði gerst. Þá kvaðst hún hafa sagt móður sinni frá þessu þennan sama dag, það er að ákærði hefði káfað á sér og reynt að snerta sig.

                Móðir fyrri brotaþola bar að í janúar 2006 hafi hún fengið smáskilboð frá dóttur sinni og fundist það skrýtið þar sem hún hafi vitað að hún væri í herbergi sínu. Í framhaldinu hefði brotaþoli sagt sér að ákærði, faðir hennar, hefði leitað á sig um þremur til fjórum mánuðum áður. Brotaþoli hefði sagt sér að ákærði hefði leitað á sig og farið inn á hana eins og hún orðaði það. Á þessum tíma hefði dóttir hennar ekki farið nánar út í smáatriði enda hefði hún verið grátandi og sagt að hún hefði ekki þorað að segja henni frá þessu fyrr. Brotaþoli hefði þó sagt að hún hefði verið sofandi uppi í rúmi er ákærði hefði komið upp í og lagst hjá henni, Hann hefði svo farið ofan í nærbuxur hennar, stungið fingri inn í leggöng og káfað á brjóstum hennar. Meira hefði hún ekki sagt sér, en móðirin kvaðst hafa sagt móður sinni og sambýlismanni sínum strax frá þessu. Þau hafi rætt hvað ætti að gera og varð úr að sambýlismaður móðurinnar hringdi í kærustu ákærða og ræddi við hana um þetta. Það hafi verið daginn eftir að brotaþoli sagði sér frá þessu. Kærastan mun hafa rætt við ákærða sem í framhaldinu hefði leitað sér hjálpar hjá geðlækni. Í kjölfarið hefði brotaþoli ekki heimsótt ákærða. Málið hafi hins vegar ekki verið kært vegna þess að brotaþoli hafi ekki viljað það þá. Þá hafi ákærði komið með þá skýringu að hann hefði ruglast á brotaþola og kærustunni og eins hefði hann verið drukkinn. Þessari skýringu ákærða hafi verið trúað og eins því að hann væri að leita sér hjálpar. Þá kom og fram hjá móðurinni að eftir þetta hefði brotaþoli ekki gist hjá ákærða nema kærasta hans gisti þar líka.

                Varðandi atvikið í 2. ákærulið bar móðirin að hún hefði frétt af því tveimur dögum eftir að það hafði gerst. Brotaþoli hefði þá gist hjá ákærða sem hefði verið á fylliríi og farið að ræða fortíð þeirra og segja brotaþola hvað hann hefði gert á sinn hlut. Brotaþoli hefði sofnað í sófa og ákærði hefði komið að og reynt að káfa á brjóstum hennar. Hún hefði getað snúið sér við og ýtt honum frá sér. Eins og í fyrra sinnið hefði brotaþoli ekki viljað kæra. Hún hefði ekki treyst sér til þess og eins hefði hún viljað hlífa ákærða. Brotaþoli hefði hins vegar frétt að fleiri stúlkur hefðu lent í þessu sama hjá ákærða og þess vegna lagt fram kæru, enda hefði hún ekki viljað hafa það á samviskunni að hafa ekki sagt til hans.

                Stjúpfaðir fyrri brotaþola bar að sambýliskona hans hefði sagt sér frá því sem um er fjallað í 1. ákærulið. Hann kvaðst hafa ráðfært sig við starfsfólk Stígamóta og eins rætt við kærustu ákærða. Í kjölfarið hefði verið upplýst að ákærði hefði leitað sér aðstoðar hjá geðlæknum. Varðandi atvikið í 2. ákærulið kvað hann brotaþola hafa sagt sér frá þessu. Hann hefði þá farið og rætt þetta við ákærða á rólegum nótum eins og hann orðaði það. Fljótlega eftir þetta hefðu samskipti ákærða og brotaþola hætt. Hann kvað Stígamót hafa viljað kæra málið eftir að fyrra tilvikið kom upp, en ákveðið hefði verið að gera það ekki heldur gefa ákærða kost á að bæta ráð sitt. Það hefði hins vegar ekki dugað til. Það hefði svo verið brotaþoli sem sjálf hafi ákveðið að kæra málið. Þá hafi verið greinilegt um nokkurn tíma að henni hafi liðið mjög illa.  

                Fyrrum kærasta ákærða bar að fyrri brotaþoli hefði sagt frá því sem greinir í 1. ákærulið og þá hefði móðir hennar hringt í sig og sagt sér frá því. Það hafi verið um tveimur árum eftir að það átti að hafa gerst. Þá hafi þetta verið talið fálm í drukknum manni. Fyrir fjórum árum hafi hins vegar komið upp önnur atvik sem ekki er ákært fyrir. Í framhaldi af þeim hefði hún hringt í mæður beggja brotaþola og þá hefði sér verið sagt allt sem átti að hafa gerst. Hún kvaðst hafa rætt þessi mál við fyrri brotaþola sem hafi sagt sér að hún hefði vaknað við það að brotaþoli hefði verið að reyna að komast ofan í nærbuxur hennar. Brotaþoli sagði að honum hefði tekist þetta en hún taldi hana ekki hafa sagt sér að hann hefði komist inn í leggöng hennar. Þá hefði komið fram hjá brotaþola að hún hefði frosið. Þegar móðir fyrri brotaþola hefði sagt sér frá þessu hefði hún rætt þetta við ákærða sem hafi sagt að hann hefði talið brotaþola vera einhverja aðra konu og „þannig hefði verið sópað yfir þetta þá“ eins og hún orðaði það. Varðandi ákæruefni 2. liðar kvað hún brotaþola hafa sagt sér frá því að ákærði hefði reynt að komast inn á hana en ekki lýsti hún því nánar nema hvað hún hefði streist á móti. Síðari brotaþoli hafi sagt sér að eitthvað hefði gerst en ekkert meira en það.

                Dóttir kærustunnar bar að fyrri brotaþoli hefði sagt sér að hún hefði verið sofandi í sófa undir sæng á þeim stað sem um getur í 2. ákærulið er ákærði hafi farið undir sængina og káfað á sér. Ekki gat hún borið um hvar hann hefði káfað á henni. Varðandi síðari brotaþola bar hún að brotaþolinn hefði sagt sér að hún hefði þurft að berja ákærða af sér, en hann hefði verið að reyna að káfa á henni. Þau hefðu bæði verið drukkin í sama rúmi. Þetta hefði ekki verið nákvæm lýsing, enda hefði þetta verið eins og brotaþoli vildi ekki muna þetta.

                Móðursystir síðari brotaþola bar að hún hefði hringt í sig um morguninn og sagst vera hjá ákærða. Hún hefði sagt sér að hún hefði vaknað við það að hann hefði verið með einhverja kynferðislega tilburði við hana. Brotaþoli hefði ekki lýst áreitninni nákvæmlega en þó sagt að ákærði hefði farið upp í til hennar og káfað á brjóstum hennar. Brotaþoli hefði lokað sig inni á baðherbergi með síma og hefði hún hringt í sig þaðan. Hún hefði átt mjög erfitt með að tjá sig um þetta. Móðursystirin kvaðst hafa sagt henni að koma sér út, taka leigubíl og koma til sín. Brotaþoli hefði hins vegar hringt í vinkonu sína sem hefði sótt hana og hefðu þær verið saman fram eftir degi. Síðar um daginn hefði svo brotaþoli komið til sín og verið í miklu uppnámi. Henni hefði liðið mjög illa, verið með oföndun og legið í fósturstellingu í fanginu á sér. Móðursystirin kvaðst hafa reynt að spyrja brotaþola að því hvað hefði gerst en hún hefði ekki viljað ræða það og sagt hvað eftir annað „ég vil ekki tala um þetta“. Brotaþoli hefði ekki viljað segja móður sinni frá þessu og ekki kæra ákærða. Kvaðst móðursystirin hafa ákveðið að virða það. Eftir að þetta gerðist hefði brotaþoli orðið mjög eirðarlaus og kvíðin. Móðursystirin kvað þær alltaf hafa verið mjög nánar.

                Móðir síðari brotaþola bar að dóttir hennar hefði brotnað niður heima hjá þeim, en ekki mundi hún hvenær það hafi verið. Hún hefði sagt hvað eftir annað „ég vildi þetta ekki, ég vil þetta ekki“ en móðirin kvaðst þó muna þetta allt frekar óljóst. Þá hefði hún og sagt „þið megið ekki verða reið“. Varðandi það sem ákært er fyrir í 3. ákærulið kvað móðirin erfiðleika hafa verið milli sín og brotaþola og taldi hún sig hafa ekið brotaþola heim til ákærða en ekki mundi hún það. Brotaþoli hefði verið undir áhrifum áfengis að því er hún taldi sig muna en ekki kvaðst hún muna hvernig ástatt hafi verið með ákærða. Hún kvað brotaþola ekki hafa verið í miklum samskiptum við ákærða á þessum tíma. Þá kvaðst hún ekki hafa fengið nákvæma lýsingu á því sem á að hafa gerst.

                Vinkona síðari brotaþola bar að hún hefði sagt sér síðastliðið sumar að ákærði hefði farið inn á hana á þeim tíma sem um er fjallað í 3. ákærulið, það er farið inn undir nærbuxur hennar. Jafnframt hefði brotaþoli sagt sér að hún hefði sagt henni frá þessu áður og vinkonan kvað sér hafa liðið eins og hún ætti að muna eftir því en hún hefði ekki gert það. Vinkonan kvað aðra vinkonu hafa sótt brotaþola til ákærða á þessum tíma og komið með hana heim til sín.

                Önnur vinkona síðari brotaþola bar að brotaþolinn hefði hringt í sig einn morgun og beðið sig um að sækja sig til ákærða. Brotaþoli hefði ekki getað sagt sér af hverju. Hún hefði sótt hana og þá hefði brotaþoli sagt sér að ákærði hefði káfað á henni en ekki sagði brotaþoli frá því hvar hann hefði káfað, enda hefði hún átt mjög erfitt með að segja frá þessu. Þó hefði ákærði átt að hafa reynt að losa brjóstahaldarann. Hún kvað brotaþola hafa verið í mjög miklu áfalli og eins og ekki áttað sig á því hvað hefði gerst. Vinkonan kvaðst hafa ekið brotaþola heim til sín. Þá kvaðst hún hafa rætt þetta lauslega við brotaþola síðar og þar með hvort hún ætlaði að kæra.

IV

                Ákærði hefur játað að hafa strokið dóttur sinni, brotaþola sem nefndur er í 1. ákærulið, innanklæða, káfað á brjóstum hennar, sett hendi hennar ofan í nærbuxur sínar og látið hana strjúka getnaðarlim sinn á þeim stað og þeirri stund sem um getur í ákæruliðnum. Hann hefur hins vegar neitað að hafa strokið kynfæri hennar og stungið fingri inn í leggöng hennar.

                Hér að framan var rakin skýrsla brotaþola og móður hennar. Þar kemur fram að brotaþoli skýrði móður sinni frá því sem gerst hafði í janúar 2006 og mun það hafa verið nokkrum mánuðum eftir að atvik máls áttu sér stað. Móðirin sagði stjúpföður brotaþola frá þessu sem aftur sagði kærustu ákærða eins og rakið var. Móðir brotaþola kvað dóttur sína hafa sagt sér að ákærði hafi „notað fingur“ á kynfæri hennar. Önnur vitni gátu ekki borið um það tiltekna atriði. Skýrt kom fram í framburði brotaþola fyrir dóminum að hún myndi mjög vel eftir að ákærði hefði stungið fingri sínum í kynfæri hennar, þetta væri það sem hún myndi best. Hefði það haft mikil áhrif á líðan hennar. Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dóminum. Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða er hins vegar til þess að líta að hann var ölvaður er meint brot átti sér stað. Bar hann ítrekað við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. júní 2013 að hann myndi þar af leiðandi atburði takmarkað. Við yfirheyrsluna var lýsing brotaþola á því að ákærði hefði strokið kynfæri hennar og sett fingur í leggöng hennar borin undir ákærða og svaraði hann þá til að hann myndi ekki eftir þessu. Fyrir dómi neitaði ákærði hins vegar afdráttarlaust þessari háttsemi. Aðspurður kvaðst hann muna atvik að öllu leyti núna. Þegar öll framangreind atriði eru virt leggur dómurinn trúverðugan framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu, sem fær stuðning í framburði móður hennar, og telur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau brot er í 1. ákærulið greinir. Verður hann því sakfelldur samkvæmt þeim ákærulið. Hér var um einn samfelldan verknað að ræða og varðar hann við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða verður því ekki jafnframt refsað fyrir brot gegn 2. mgr. sömu greinar.

Sérálit Arngríms Ísberg:

                Það er mitt mat að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi. Á það er hins vegar að líta að ákærði var ekki ótrúverðugur er hann neitaði að hafa strokið kynfæri brotaþola og stungið fingri inn í leggöng hennar. Framburður brotaþola styðst ekki við annað en frásögn móður hennar sem bar að brotaþoli hefði sagt sér í janúar 2006, nokkrum mánuðum eftir atvikið, hvað ákærði hefði gert á hlut hennar. Það líða síðan meira en 7 ár þar til brotaþoli gefur skýrslu hjá lögreglu. Gegn neitun ákærða tel ég því ósannað að hann hafi strokið kynfæri brotaþola og stungið fingri í leggöng hennar og tel ég að sýkna eigi hann af þessum atriðum ákæruliðsins.

                Ákærði neitaði sök í 2. ákærulið en kannaðist við að hafa strokið brotaþola um bak, maga og höfuð í greint sinn þar sem hún lá sofandi í sófa á heimili hans. Þetta hafi bara verið strok og ósköp eðlilegt. Hér að framan var gerð grein fyrir því að brotaþoli sagði móður sinni og stjúpa frá þessu atviki mjög skömmu eftir að það átti að hafa gerst eins og þau hafa borið. Sem fyrr er það mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dóminum. Við mat á framburði ákærða er hins vegar að líta til þess að við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. júní 2013 kvaðst ákærði, þegar lýsing brotaþola á atvikum eins og þeim er lýst í ákæru var borin undir hann, „ráma í þetta“ og að þetta hafi bara verið „fyllerísrugl“. Fyrir dómi kvaðst hann hins vegar muna atvik betur núna. Með hliðsjón af framangreindu er að mati dómsins ekki óvarlegt að leggja til grundvallar úrlausn málsins trúverðuga frásögn brotaþola um að ákærði hafi káfað á brjóstum hennar eins og hann er ákærður fyrir. Styðst frásögn hennar við framburð móður hennar og stjúpa auk þess sem ákærði hefur kannast við fyrir dóminum að hafa strokið henni, m.a. um maga, þótt hann telji að ekki hafi falist í því neitt kynferðislegt. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

                Ákærði neitar einnig sök í 3. ákærulið en hefur þó viðurkennt að hafa strokið brotaþola um bak, maga og læri. Hann neitaði að hafa reynt að káfa á kynfærum hennar en bar þó að hann kynni að hafa hugsanlega komið nálægt kynfærum hennar er hann strauk henni um lærin. Hann gaf þá skýringu á háttsemi sinni að þetta hafi verið saklaust káf eða strok. Brotaþoli bar að hafa hvað eftir annað reynt að ýta ákærða í burtu eins og rakið var. Ákærði bar að hún hefði líklega verið að ýta sér í burtu en sem fyrr var hann drukkinn og brotaþoli reyndar líka. Hér að framan var gerð grein fyrir viðbrögðum brotaþola eftir að hún vaknaði og við hverja hún ræddi. Framburður þeirra var og rakinn. Við mat á trúverðugleika ákærða er til þess að líta að við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. júní 2013, í tilefni af kæru fyrri brotaþola, var hann spurður um hvort hann hefði brotið kynferðislega gegn síðari brotaþola og svaraði hann því til að það hefði hann gert. Hann var á þeim tímapunkti þó ekki tilbúinn til að lýsa því frekar þar sem ekki lá fyrir kæra frá síðari brotaþola. Eftir að kæran var lögð fram viðurkenndi ákærði við yfirheyrslu hjá lögreglu 11. september 2013 „þukl og káf“ gagnvart brotaþola en kvaðst ekki muna atvik nánar. Aðspurður um hvort hann hafi káfað á kynfærum hennar svaraði hann því til að ef hún segði það hlyti hann að hafa gert það. Hefur framburður ákærða um brot þau sem um getur í ákærulið 3 því verið óstöðugur. Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi sem styðst við framburð ákærða að nokkru leyti og fær auk þess stuðning í framburði vitna. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um það sem hann er ákærður fyrir í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

                Ákærði hefur skýlaust játað sök samkvæmt síðari ákærunni og styðst játning hans við gögn málsins. Hann verður því sakfelldur samkvæmt henni en brot hans eru þar rétt færð til refsiákvæðis.

                Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Hann hefur verið sakfelldur fyrir þrjú alvarleg brot gegn dætrum sínum. Þau voru öll framin á heimili hans þar sem þær máttu með réttu álíta sig öruggar. Það er og komið fram í málinu að dráttur á að kæra brotin hafi meðal annars stafað af því að aðstandendur stúlknanna töldu ákærða ætla að taka á vanda sínum, en hann brást því trausti. Þá hefur ákærði og verið sakfelldur fyrir vændiskaup. Ákærði hefur játað brot sín að hluta og er tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfilega ákveðin 3 ára fangelsi.

Sérálit Arngríms Ísberg:

                Með hliðsjón af játningu ákærða á alvarlegustu sakargiftum málsins, og að teknu tilliti til þeirra ákæruatriða sem ég tel að eigi að sýkna hann af, tel ég refsingu hans hæfilega ákveðna 2 ára fangelsi.

                Með brotum sínum olli ákærði brotaþolum miska er þær eiga rétt á að fá bættan. Þykja bætur til fyrri brotaþola hæfilega ákveðnar 900.000 krónur og bætur til síðari brotaþola 600.000 krónur. Bæturnar skulu bera vexti eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafa fyrri brotaþola 26. júní 2013 og bótakrafa síðari brotaþola 11. september sama ár. Miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá birtingunni.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

                Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Kolbrún Sævarsdóttir og Símon Sigvaldason.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár.

                Ákærði greiði A 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. maí 2013 til 26. júlí 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.       

                Ákærði greiði B 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til 11. október 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.       

                Ákærði greiði 80.140 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 480.037 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 251.000 krónur.