Hæstiréttur íslands

Mál nr. 628/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Veðréttur
  • Aðfararheimild
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Fimmtudaginn 3. október 2013.

Nr. 628/2013.

Íslandsbanki hf.

(Ásgerður Þ. Hannesdóttir hdl.)

gegn

Arnarborg eignarhaldsfélagi ehf.

(enginn)

Kærumál. Veðréttur. Aðfararheimild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kært var ákvæði í úrskurði héraðsdóms þar sem kröfu Í hf. um viðurkenningu á rétti hans til að fá gert fjárnám í fasteigninni var vísað frá dómi af sjálfsdáðum með vísan til þess að með staðfestingu veðréttar Í hf. í fasteigninni hefði hann þegar fengið þá fjárnámsheimild sem hann leitaði eftir og skorti hann því lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kröfu sína. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að það tryggingarbréf sem um ræddi hefði hvorki að geyma beina aðfararheimild né beina uppboðsheimild. Taldi rétturinn að dómur á hendur A ehf. um viðurkenningu á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfi í fasteign gæti ekki veitt Í hf. heimild til aðfarar, enda fæli dómur um þetta efni ekki í sér fyrirmæli um skyldu sem framfylgt yrði með slíkri gerð. Samkvæmt því var Í hf. talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um fjárnám í fasteigninni og var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. ágúst 2013, þar sem staðfestur var veðréttur sóknaraðila samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 29. október 2009, tryggðu með 3. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bjargi 123616 í Mosfellsbæ með fastanúmerið 208-1867, fyrir 5.413.147 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. mars 2012 til greiðsludags. Á hinn bóginn var kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á rétti hans til að fá gert fjárnám í fyrrgreindri fasteign vísað frá dómi af sjálfsdáðum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á rétti hans til að fá gert fjárnám í fyrrgreindri fasteign, og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómi krafðist sóknaraðili viðurkenningar á 3. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bjargi 123616, Mosfellsbæ, fyrir 5.579.091 krónu samkvæmt tryggingarbréfi 29. október 2009 auk tilgreindra vaxta frá 30. mars 2012 til greiðsludags. Jafnframt því að krefjast staðfestingar veðréttarins krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili yrði dæmdur til að þola að fjárnám yrði gert í fasteigninni fyrir sömu fjárhæð og vöxtum og í umræddri viðurkenningarkröfu sóknaraðila á veðrétti hans. Héraðsdómur féllst á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á veðréttinum fyrir 5.413.147 krónum, en  komst að þeirri niðurstöðu að með staðfestingu veðréttarins í fasteigninni hafi sóknaraðili þegar fengið þá fjárnámsheimild sem hann leitaði eftir. Hafi sóknaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína um fjárnám í eigninni og var henni vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

Umrætt tryggingarbréf hefur hvorki að geyma beina aðfararheimild gagnvart veðsala samkvæmt 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 né beina uppboðsheimild samkvæmt 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Dómur á hendur varnaraðila um viðurkenningu á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfinu í fyrrnefndri fasteign getur ekki veitt sóknaraðila heimild til aðfarar samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, enda fæli dómur um þetta efni ekki í sér fyrirmæli um skyldu, sem framfylgt yrði með slíkri gerð, sbr. dóm Hæstaréttar 11. mars 1999 í máli nr. 90/1999, sem birtur er á bls. 1073 í dómasafni það ár. Sóknaraðili hefur því lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um fjárnám í fasteigninni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Hið kærða ákvæði dómsins verður því fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um að vísa af sjálfsdáðum frá dómi kröfu sóknaraðila, Íslandsbanka hf., um viðurkenningu á rétti hans til að fá gert fjárnám í fasteigninni Bjargi 123616, Mosfellsbæ, er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að þessu leyti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 23. ágúst 2013.

Þetta mál, sem var dómtekið 21. febrúar 2013, en endurupptekið og dómtekið á ný 30. maí 2013, er höfðað af Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu, birtri 1. febrúar 2013, á hendur Arnarborg eignarhaldsfélagi ehf., kt. 590109-2230, Ási, Mosfellsbæ.

Dómkröfur: Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að þola viðurkenningu á 3. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bjargi 123616, Mosfellsbæ, fastanr. 208-1867, fyrir 5.579.091 kr., samkvæmt tryggingarbréfi nr. 549-131923, útgefnu 29. október 2009, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 30. mars 2012 til greiðsludags.

Auk þess krefst stefnandi að hið stefnda félag verði dæmt til að þola að fjárnám verði gert í fasteigninni Bjargi 123616, Mosfellsbæ, fastanr. 208-1867, fyrir 5.579.091 kr., auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 30. mars 2012 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Málsatvik og málsástæður: Stefnandi kveður að með tryggingarbréfi nr. 549-131923, útgefnu 29. október 2009, af Hótel Laxnesi ehf., nú Ás Hótel Motel ehf., hafi fasteignin Bjarg 123616 verið sett að veði, til tryggingar á skuldum útgefanda við Íslandsbanka hf., auk dráttarvaxta og alls kostnaðar við innheimtuaðgerðir. Tryggingarbréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 5.000.000 kr., bundið við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, miðað við grunnvísitöluna 346,9 stig. Sé tryggingarbréfið nú áhvílandi á 3. veðrétti.

Við gjaldfellingu á framangreindu tryggingarbréfi, 30. mars 2012, hafi vísitala neysluverðs miðað við grunnvísitölu verið 387,1 stig og þar af leiðandi sé uppreiknaður höfuðstóll 5.579.091 kr., eins og getið sé í dómkröfum. Sé dráttarvaxta krafist frá gjaldfellingardegi í samræmi við skilmála tryggingarbréfsins.

Skuld sú, sem tryggð sé með tryggingarbréfinu, sé til komin vegna tékkareiknings nr. 549-26-477 sem stofnaður hafi verið af Ás Hótel Motel ehf. 12. ágúst 2008. Hinn 30. mars 2012 hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið 5.047.865 kr. og hafi reikningnum þá verið lokað. Hinn 26. október 2012 hafi eftirstöðvar skuldarinnar, með dráttarvöxtum og kostnaði, numið 6.208.456 kr.

Fjárhæð tryggingarbréfsins sé því stefnt miðað við gjaldfellingardag, 30. mars 2012. Á þeim degi hafi vísitala neysluverðs til verðtryggingar verið 387,1 stig og dráttarvextir miðist við þá dagsetningu í dómkröfum, sbr. heimild í tryggingarbréfinu er segi að við vanefnd sé heimilt að fella alla skuldina á gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og ganga að veðinu.

Hið stefnda félag sé eigandi hinnar veðsettu eignar samkvæmt veðbandayfirliti. Þar sem skuld Áss Hótels Motels ehf. við stefnanda hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir sé stefnanda nauðsynlegt að nýta veðrétt sinn samkvæmt tryggingarbréfinu.

Þar sem tryggingarbréf stefnanda teljist ekki bein uppboðsheimild, samkvæmt 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sé honum nauðsynlegt að höfða mál þetta bæði til viðurkenningar á réttindum hans í fasteign stefndu og til að fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfu sinni til þess að unnt sé að gera fjárnám í eign stefndu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Aðeins á þeim grundvelli geti stefnandi öðlast beina uppboðsheimild gagnvart stefndu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. fyrrgreindra laga um nauðungarsölu.

Ás Hótel Motel ehf. hafi með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur verið tekið til gjaldþrotaskipta 30. mars 2012. Engar eignir hafi fundist í búinu og hafi skiptum verið lokið 19. júní 2012, skv. 155. gr. laga nr. 21/1991, án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar.

Þar af leiðandi höfði stefnandi þetta mál gagnvart stefnda, annars vegar til að þola viðurkenningu á veðréttinum og hins vegar til viðurkenningar á því að veðrétturinn standi fyrir fyrrnefndri kröfu stefnanda gagnvart Ási Hóteli Moteli ehf. að því marki sem hámarksfjárhæð tryggingarbréfsins nái til.

Lagarök: Stefnandi kveðst vísa til almennra reglna veðréttarins auk laga um aðför nr. 90/1989. Samkvæmt lögum þessum sé stefnanda nauðsynlegt að fá viðurkenningu fyrir veðrétti sínum og heimild til aðfarar á grundvelli dómsins svo fullnusta megi veðið með aðför. Þá sé vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Kröfuna um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna sé stefnandi ekki virðisaukaskattskyldur. Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Niðurstaða: Af hálfu hins stefnda félags hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er því þó löglega stefnt. Ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt fram komnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.

Eins og fram hefur komið eru dómkröfur stefnanda á hendur stefnda þær að félagið verði dæmt til að þola viðurkenningu á 3. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bjargi 123616 í Mosfellsbæ. Þá er þess krafist að hið stefnda félag verði dæmt til að þola að fjárnám verði gert í sömu fasteign. Skilja verður málatilbúnað stefnanda á þá leið að hann krefjist þess að staðfestur verði veðréttur hans í eign stefnda, fasteigninni Bjargi 123616 í Mosfellsbæ, og að viðurkenndur verði réttur hans til að fá gert fjárnám í sömu eign. Með staðfestingu veðréttar stefnanda í eign hins stefnda félags hefur stefnandi þegar fengið þá fjárnámsheimild sem hann sækir með síðari lið kröfu sinnar gagnvart félaginu. Hann þykir því ekki hafa sjálfstæða lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kröfu, að viðurkenndur verði réttur hans til að fá gert fjárnám í eigninni. Verður þeirri kröfu stefnanda því vísað frá dóminum af sjálfsdáðum.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að þola viðurkenningu á 3. veðrétti og uppfærslurétti í umræddri fasteign fyrir 5.579.091 kr. Upphæð skuldar stefnda er 5.047.865 kr. og er hún tryggð með tryggingarbréfi uppreiknuðu að fjárhæð 5.579.091 kr. Samkvæmt stefnu námu eftirstöðvar skuldarinnar 6.208.456 kr. Framlögð gögn sýna að stefnandi reiknar inn í þá fjárhæð dráttarvexti að fjárhæð 360.782 kr., málskostnað að fjárhæð 635.887 kr., kostnað vegna veðbókarvottorðs að fjárhæð 1.500 kr., kostnað vegna skráningar í vanskilaskrá að fjárhæð 3.000 kr., kostnað vegna kröfulýsingar að fjárhæð 5.200 kr., vexti af kostnaði að fjárhæð 2.547 kr. og virðisaukaskatt að fjárhæð 151.675 kr. Stefnandi hefur ekki fært nein rök fyrir þeim málskostnaði sem hann leggur við höfuðstól kröfunnar, sem nemur með virðisaukaskatti 787.562 kr. Sama á við um vexti af kostnaði og kostnað vegna kröfulýsingar. Af þeim sökum er ekki hægt að fallast á þann hluta af fjárhæð veðkröfu hans. Fallist er á að inni í fjárhæðinni skuli vera höfuðstóll að fjárhæð 5.047.865 kr., dráttarvextir að fjárhæð 360.782 kr. og kostnaður vegna veðbókarvottorðs og vanskilaskrár að fjárhæð 4.500 kr., samtals að fjárhæð 5.413.147 kr. Að þessu virtu verður krafa stefnanda um staðfestingu veðréttar og uppfærsluréttar tekin til greina.

Málskostnaður ákveðst 145.500 kr. Við ákvörðun hans var tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Kolbrún Birna Árdal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Staðfestur er veðréttur stefnanda samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 29. október 2009, tryggðu með 3. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bjargi 123616 í Mosfellsbæ, með fastanúmerið 208-1867, fyrir fjárhæð sem nemur 5.413.147 kr., auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 30. mars 2012 til greiðsludags.

Kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti hans til að fá gert fjárnám í fasteigninni Bjargi 123616 í Mosfellsbæ er vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Stefndi greiði stefnanda 145.500 kr. í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.