Hæstiréttur íslands
Mál nr. 412/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Óskipt bú
|
|
Mánudaginn 28. ágúst 2006. |
|
Nr. 412/2006. |
A B C og D (Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn E (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Óskipt bú.
E sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn F. Fjögur börn hans, þau A, B, C og D, fóru fram á að búið yrði tekið til opinberra skipta. Ekki var talið að þau hefðu sýnt fram á að E hefði rýrt svo efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn að þau gætu krafist opinberra skipta á grundvelli 1. mgr. 15. gr. erfðalaga. Í umsókn E um leyfi til setu í óskiptu búi hafði ekki verið greint frá því að F og E höfðu gert með sér kaupmála þar sem tilteknar eignir voru gerðar að séreignum F. Ýmsar af þessum eignum voru enn til staðar þegar F lést og gátu þær ekki runnið til óskipta búsins heldur bar að láta þær koma til skipta, sbr. 1. mgr. 11. gr. erfðalaga. Skiptum á dánarbúinu var því ekki með réttu lokið og talið að A, B, C og D væri því heimilt samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 að leita opinberra skipta á búinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú F yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta og þeim dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að „öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að varnaraðila verði tildæmdur málskostnaður óskipt úr hendi sóknaraðila fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti“.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Kemur því krafa hennar um málskostnað í héraði ekki frekar til álita hér fyrir dómi.
I.
Samkvæmt gögnum málsins lést F, sem síðast var til heimilis að X í Reykjavík, 13. mars 2001. Varnaraðili er eftirlifandi eiginkona hans og eiga þau son fæddan 1994, en að auki átti F fjögur fjárráða börn, sem eru sóknaraðilar þessa máls.
Fyrir liggur í málinu að varnaraðili og F gengu í hjúskap 26. september 1990. Áður en þau stofnuðu til hjúskapar gerðu þau kaupmála sama dag, þar sem kveðið var á um að fasteignin að X skyldi vera hjúskapareign þeirra, en fasteignir að Y og Z í Reykjavík yrðu séreignir F, svo og „arfur eftir móður [F], [G]“, sem ekki var gerð nánari grein fyrir. Auk þess skyldi hann eiga að séreign bifreiðirnar [...] og [...], „lóð í Grímsnesi, svo og allt lausafé, sem [F] kemur með í búið“, en það, sem í stað allra þessara séreigna kæmi, skyldi jafnframt vera það. Séreign varnaraðila átti að vera „allir hennar persónulegir munir.“ Af framlögðu eintaki kaupmálans virðist mega ráða að hann hafi verið skrásettur. Þá gerði F erfðaskrá fyrir lögbókanda 8. ágúst 1997, þar sem meðal annars var mælt fyrir um að varnaraðili skyldi eiga rétt á að sitja í óskiptu búi til andláts síns eða svo lengi, sem hún óskaði, en ef til skipta kæmi ætti hún auk lögarfs að taka þriðjung eigna hans að arfi.
Eftir andlát F sótti varnaraðili 23. apríl 2001 um leyfi sýslumannsins í Reykjavík til að sitja í óskiptu búi. Í umsókn hennar, sem sóknaraðilar árituðu ekki um samþykki, var getið um erfðaskrá F frá 8. ágúst 1997, en spurningu í eyðublaði fyrir umsóknina um hvort þau hefðu gert kaupmála var þar svarað neitandi. Í þeim hluta umsóknarinnar, þar sem greina átti frá eignum hjónanna, var getið fasteignanna að X, Z og Y, auk fasteignar að Ö í Æ, og upplýst um fasteignamatsverð þeirra allra, samtals 49.014.000 krónur. Þá var getið innanstokksmuna að andvirði 3.000.000 krónur og fjögurra bifreiða með skráningarnúmerum [...], [...], [...] og [...], sem voru af árgerðum frá 1978 til 1991 og að samanlögðu verðmæti 940.000 krónur. Loks var greint frá tveimur bankareikningum með innistæðu samtals 1.294.489 krónur. Skuldir voru ekki sundurliðaðar, en tiltekið að þær næmu samtals 19.870.000 krónum. Varnaraðila var 7. maí 2001 veitt leyfi til setu í óskipti búi.
Með bréfi til sýslumanns 29. júní 2005 leituðu sóknaraðilar eftir því með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 20/1991 að eignir óskipta búsins og skuldir yrðu skrásettar samkvæmt ákvæðum 17.-23. gr. laganna. Var því borið við í bréfinu að sóknaraðilar teldu sér heimilt að krefjast skipta sér til handa með stoð í 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 vegna óhæfilegrar fjárstjórnar varnaraðila, sem þar var rökstutt nánar með lýsingu á ýmsum ráðstöfunum hennar, meðal annars að hún hafi selt fasteignirnar að X og Z auk bifreiðarinnar [...]. Þá hafi varnaraðili flutt að minnsta kosti eina bifreið, [...], úr landi og jafnvel aðra, [...], svo og verulega fjármuni að öðru leyti, sem hafi verið varið til kaupa á íbúð í Þ. Hún hafi jafnframt keypt íbúð að Q á Seltjarnarnesi. Auk þess bentu sóknaraðilar á að ekki hafi verið getið allra eigna í umsókn varnaraðila um leyfi til setu í óskipti búi, því þar hafi ekki verið nefnd fasteign á Spáni, sem keypt hafi verið 25. nóvember 1997, eða tveir fornbílar, sem geymdir væru að Ö í Æ, en jafnframt teldu sóknaraðilar „peningalegar eignir“ hafa verið vantaldar í umsókninni. Þá hafi skuldir verið oftaldar í henni. Varnaraðili bar fram mótmæli við sýslumann 25. ágúst 2005 gegn þessari beiðni, en bauðst um leið til að veita sóknaraðilum allar upplýsingar um eignastöðu óskipta búsins. Sóknaraðilar ítrekuðu beiðni sína við sýslumann 19. september sama ár. Sýslumaður gerði í tilefni af þessu könnun á eignum með því að afla upplýsinga frá bönkum, fjármálastofnunum, skattstjóra, umferðarstofu og fasteignamati ríkisins og sendi sóknaraðilum með bréfi 18. október 2005 yfirlit um það, sem komið hafi fram. Í yfirliti þessu var greint frá fyrrnefndum fasteignum að Ö, Y og Q, auk þess sem lögmaður varnaraðila hafi upplýst um fasteign í Þ. Engar bifreiðir væru skráðar á nafn varnaraðila eða þess látna hjá umferðarstofu, en lögmaður hennar hafi upplýst um tvær, aðra hér á landi og hina á Spáni, auk tveggja fornbíla, sem geymdir væru í Æ. Þá hafi komið fram upplýsingar frá bankastofnunum um sjö reikninga með innistæðu að fjárhæð samtals 22.886.884 krónur, svo og um tvær skuldir við Íbúðalánasjóð, alls 2.106.669 krónur. Í bréfi til sýslumanns 11. nóvember 2005 kváðust sóknaraðilar telja skrásetningu eigna hvorki hafa verið lokið né framkvæmda í samræmi við nánar tilgreind ákvæði laga nr. 20/1991, enda hafi meðal annars ekkert komið þar fram um fasteign á Spáni og viðunandi upplýsingar skort um fasteign í Þ. Var þess krafist að skrásetningu yrði fram haldið, en tekið þó fram að fallist yrði á að henni yrði frestað meðan lögmaður varnaraðila aflaði gagna um tiltekin atriði. Þessu virðast sóknaraðilar ekki hafa fylgt frekar eftir, en með bréfi til þeirra 5. apríl 2006 tilkynnti sýslumaður að hann liti svo á að ekki væri óskað frekari aðstoðar hans í þessum efnum.
Sóknaraðilar báru fram við Héraðsdóm Reykjavíkur kröfu 3. maí 2006 um að dánarbú F yrði tekið til opinberra skipta. Varnaraðili andmælti þessari kröfu þegar hún var tekin fyrir á dómþingi 19. sama mánaðar og er mál þetta rekið um hana.
II.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki fallist á að sóknaraðilar hafi sýnt fram á að varnaraðili hafi rýrt svo efni óskipta búsins með óhæfilegri fjárstjórn að heimilað geti þeim að krefjast skipta sér til handa á grundvelli 1. mgr. 15. gr. erfðalaga.
Eins og áður var getið greindi varnaraðili ekki frá því í umsókn sinni 23. apríl 2001 um leyfi til setu í óskiptu búi að hún og F hefðu gert fyrrgreindan kaupmála 26. september 1990. Af þeim eignum, sem þar voru svo að bindandi sé gerðar að séreignum F, voru enn ótvírætt til staðar við andlát hans samkvæmt umræddri umsókn varnaraðila fasteignirnar að Y og Z, svo og eftir atvikum einhverjar þeirra bifreiða, sem getið var í umsókninni, hafi þar verið um þær sömu að ræða og áður höfðu borið skráningarnúmerin [...] og [...] eða þær komið í stað annarrar þeirra eða beggja. Af 1. mgr. 11. gr. erfðalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 48/1989, leiðir að þessar eignir gátu ekki runnið til óskipta búsins, heldur bar að láta þær koma til skipta, eftir atvikum samhliða því að varnaraðila væri veitt leyfi til að sitja að öðru leyti í óskiptu búi. Skiptum á dánarbúi F var því ekki með réttu lokið 7. maí 2001 þegar varnaraðila var veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Að þessu virtu er sóknaraðilum heimilt samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 að leita nú opinberra skipta á dánarbúinu. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu þeirra.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Dánarbú F er tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2006.
I
Málið barst dóminum 5. maí sl. og var þingfest 19. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 28. júní sl.
Sóknaraðilar eru A, [...] , B, [...], C, [...] og D, [...].
Varnaraðili er E, [...].
Sóknaraðilar krefjast þess að dánarbú F, [...], er lést 13. mars 2001 og síðast var til heimilis að X í Reykjavík, verði tekið til opinberra skipta. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður.
II
Framangreindur F var faðir sóknaraðila. Þegar hann lést var hann kvæntur varnaraðila. F gerði erfðaskrá 8. ágúst 1997 og segir þar í 1. gr. að varnaraðili skuli eiga rétt á setu í óskiptu búi eftir andlát hans svo lengi sem hún óskar þess, sbr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Sýslumaður veitti varnaraðila leyfi til setu í óskiptu búi 7. maí 2001.
Í umsókn um leyfið gerði varnaraðili grein fyrir eignum búsins og taldi upp sex fasteignir að fasteignamati samtals 49.014.000 krónur, fjórar bifreiðir metnar á 940.000 krónur, innbú metið á 3.000.000 króna og tvo bankareikninga með 1.294.489 króna innstæðu. Skuldir voru taldar 19.870.000 krónur. Í umsókninni var ekki getið um kaupmála sem varnaraðili og F gerðu með sér áður en þau gengu í hjúskap og er dagsettur 26. september 1990. Samkvæmt kaupmálanum voru fasteignir við Y og Z séreign hans svo og arfur eftir móður hans, tvær bifreiðar, lóð í Grímsnesi og allt lausafé, sem hann hafði komið með í búið. Það sem koma myndi í stað þessara eigna yrði á sama hátt séreign hans.
Í júlí 2004 rituðu sóknaraðilar varnaraðila bréf og beiddust þess að búið yrði tekið til opinberra skipta. Féllist varnaraðila ekki á það yrði farið fram á skrásetningu eigna búsins, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Varnaraðili féllst ekki á að búið yrði tekið til opinberra skipta og fóru sóknaraðilar þá fram á það við sýslumann 29. júní 2005 að eignir búsins yrðu skráðar og varð sýslumaður við því. Skráin er dagsett 18. október 2005 og samkvæmt henni eru tilgreindar þrjár fasteignir auk fasteignar í Þ. Tvær bifreiðir, báðar sagðar afskráðar, auk fornbíla án nánari tilgreiningar. Peningaeign er skráð samtals 22.994.964 krónur en skuldir samtals 2.214.749 krónur. Sóknaraðilar tilkynntu sýslumanni í nóvember 2005 að þeir litu svo á að varnaraðili hefði ekki að fullu gert grein fyrir eignum búsins og þegar ekki tókst að afla þeirra var krafist opinberra skipta á búinu.
III
Sóknaraðilar byggja kröfu sína á því að varnaraðili hafi með óhæfilegri fjárstjórn sinni rýrt efni búsins eða gefið tilefni til að óttast að hún muni rýra þau. Vísa þau, máli sínu til stuðnings, til 1. mgr. 15. gr. erfðalaga, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Þá byggja sóknaraðilar á því að tilteknar eignir hafi verið séreignir F og beri að halda þeim utan búsins samkvæmt 11. gr. erfðalaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 20/1991.
Varnaraðili byggir á því að eignir búsins hafi ekki rýrnað í meðförum hennar og ekki sé ástæða til að óttast að svo verði. Varnaraðili hafi farið með eignir búsins eins og henni sé heimilt samkvæmt ákvæðum erfðalaga. Hún hafi selt fasteignir og ýmist keypt nýjar í staðinn eða ávaxti andvirðið á bankareikningum. Þá byggir hún á því að ekki séu lagaskilyrði til að krefjast opinberra skipta þótt maki sitji í óskiptu búi þar sem séu séreignir skammlífari makans.
IV
Varnaraðili situr í óskiptu búi samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá F eins og rakið var. Þegar svo stendur á geta sóknaraðilar krafist skipta ef þeir sanna að varnaraðili rýri efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun.
Sóknaraðilar hafa bent á að varnaraðili hafi selt fasteignir búsins við X í október 2001 á 27.500.000 krónur. Ekki liggja fyrir önnur gögn um hvort þetta hafi verið eðlilegt markaðsverð á þessum tíma eða ekki, en vottorð fasteignasalans sem sá um söluna. Í því kemur fram það mat hans að verðið hafi verið eðlilegt. Jafnframt getur hann þess að eignin hafi verið rækilega auglýst um tveggja mánaða skeið sumarið 2001. Sóknaraðilar halda því hins vegar fram að markaðsverð eignanna sé mun hærra í dag og beri það vott um vanhæfni varnaraðila til að fara með fjármál búsins að hún skyldi selja eignirnar á þessu verði. Hluta andvirðisins var varið til að kaupa fasteign í Þ þaðan sem varnaraðili er ættuð en að öðru leyti mun það varðveitt á banka. Varnaraðili hefur gefið þær skýringar á sölunni að húsið hafi verið of stórt fyrir sig og viðhald þess og umsjón verið sér ofviða.
Það er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðilum að varnaraðili hafi rýrt eignir búsins með því að selja fasteignirnar við X á gangverði á sölutíma þeirra. Það er sóknaraðila að sanna að eignirnar hafi verið seldar á of lágu verði, en sú sönnun hefur ekki tekist og marklaust er að benda á að í dag mætti fá mun hærra verð fyrir þær en á árinu 2001. Þá er ekki annað leitt í ljós en að andvirðið sé varðveitt á banka að undanskilinni fjárhæð sem notuð var til kaupa á fasteign í Þ og er þar af leiðandi í eigu búsins. Sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að sú ráðstöfun hafi rýrt efni búsins.
Þá voru í eigu búsins við andlát F fasteignir við Y og í Æ og íbúð við Z. Tvær fyrrtöldu eignirnar eru enn í eigu búsins, en íbúðin við Z var seld og íbúð á Seltjarnarnesi keypt í staðinn. Af gögnum málsins má ráða að hún sé verðmeiri en sú sem seld var. Samkvæmt skattframtali varnaraðila fyrir árið 2006 eru þessar þrjár fasteignir í eigu hennar. Verður ekki séð að framangreindar ráðstafanir varðandi fasteignirnar hafi rýrt efni búsins.
Loks er getið um eign á Spáni, en ágreiningur er með aðilum um hvort hún sé séreign varnaraðila eða tilheyri búinu. Í þessu máli verður ekki skorið úr þeim ágreiningi en engin gögn eru um annað en að eignin sé til staðar og tiltæk búinu verði niðurstaðan sú að hún tilheyri því.
Þegar varnaraðili sótti um leyfi til setu í óskiptu búi tilgreindi hún fjórar bifreiðar í eigu þess. Þær eru af árgerðum 1978, 1986, 1989 og 1991. Tíminn rýrir verðgildi bifreiðanna jafnt og þétt, en ekki hefur verið sýnt fram á að varnaraðili hafi sjálf gert eitthvað í þá veru. Í umsókninni er innbú metið á 3.000.000 króna en engin gögn eru í málinu um það að öðru leyti, hvorki hvaða munir tilheyrðu því þá eða gera það nú.
Við eignaskráningu sýslumanns reyndust innstæður búsins í bönkum vera 22.994.964 krónur og skuldir 2.214.749 krónur. Samkvæmt skattframtali varnaraðila fyrir árið 2006 nema innstæður í bönkum 23.809.984 krónum og skuldir eru 2.058.865 krónur. Hefur hagur búsins þannig vænkast frekar heldur en hitt.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ósannað að varnaraðili hafi rýrt efni búsins. Þá hafi engin rök verið leidd að því að ástæða sé til að óttast að hún muni gera það. Kröfu sóknaraðila um að búið verði tekið til opinberra skipta á þessum grundvelli er því hafnað.
Þá byggja sóknaraðilar á því að tilteknar eignir hafi verið séreignir F og tilheyri þær ekki búinu. Ekki séu því skilyrði til að varnaraðili sitji í óskiptu búi hvað þessar eignir varðar. Í 11. gr. erfðalaga er fjallað um þær eignir sem teljast til óskipts bús, en það eru hjúskapareignir beggja hjóna og séreign sem samkvæmt ákvæðum laga eða kaupmála á að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu. F og varnaraðili gerðu með sér kaupmála áður en þau gengu í hjúskap og samkvæmt honum eru tilteknar eignir séreign F. Ekki verður séð af beiðni varnaraðila um leyfi til setu í óskiptu búi að hún hafi getið um kaupmálann og þar með að hluti af eignum búsins væru séreignir F. Í erfðalögum eru hins vegar ekki ákvæði sem heimila erfingjum að krefjast opinberra skipta á þeim grundvelli að veitt hafi verið leyfi til setu í óskiptu búi með eignum sem ætti að skipta. Það verður því ekki skorið úr um það í þessu máli hvort skilyrði hafi á sínum tíma verið til þess af hálfu sýslumanns að veita varnaraðila leyfi til setu í óskiptu búi með öllum eftirlátnum eigum F eða hvort fella eigi búsetuleyfið úr gildi að einhverju leyti eða öllu. Það verður því einnig að hafna því að taka búið til opinberra skipta á þessum grundvelli.
Samkvæmt öllu framansögðu er kröfu sóknaraðila hafnað en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kröfu sóknaraðila er hafnað en málskostnaður fellur niður.