Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 1. febrúar 2008. |
|
Nr. 52/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(enginn) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til þriðjudagsins 12. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 29. janúar 2008 og krefst þess aðallega að varnaraðili sæti farbanni allt til þriðjudagsins 26. febrúar 2008 kl. 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Farbann er frelsisskerðing sem vegna ákvæða 67. gr. stjórnarskrárinnar má ekki standa lengur en nauðsyn krefur. Fallast má á með sóknaraðila að enn séu skilyrði fyrir því að varnaraðili sæti farbanni, svo unnt sé að taka ákvörðun um saksókn, þó ekki lengur en ákveðið var í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Hinn 10. janúar 2008 staðfesti Hæstiréttur í máli nr. 12/2008 úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til 29. janúar 2008. Sóknaraðili hafði þá krafist farbanns til 5. febrúar 2008 en héraðsdómur ekki fallist á það tímamark. Í forsendum úrskurðarins var tekið fram, að með vísan til þess sem fram væri komið um framvindu rannsóknarinnar yrði að telja að þrjár vikur nægðu til að ljúka henni.
Kröfu sína um framlengingu farbannsins nú reisir sóknaraðili á því að nýlega hafi fundist hársýni á bifreiðinni, sem talið er að ekið hafi verið á barnið, og séu þau talin tæk til DNA rannsóknar. Hafi sýnin verið send til rannsóknar í Svíþjóð. Í gögnum málsins kemur fram að þessi rannsókn taki 6-8 vikur. Verður ekki séð miðað við önnur sönnunargögn sem aflað hefur verið að niðurstaða hennar geti ráðið úrslitum fyrir ákvörðun um saksókn á hendur varnaraðila. Þá vísar sóknaraðili til þess að beðið sé lokaskýrslu um krufningu. Ekki verður heldur séð að hún geti haft sérstaka þýðingu fyrir þessa ákvörðun. Loks hefur sóknaraðili sagst hafa fengið vísbendingu um vitni, sem sé statt erlendis og þurfi að yfirheyra þegar það komi til landsins. Sé vitnið væntanlegt til landsins í fyrstu viku febrúar. Ekki kemur fram í gögnum málsins hvort þetta er sama vitni og sóknaraðili nefndi þegar hann gerði kröfuna um framlengingu farbanns í máli nr. 12/2008. Þá hefur hann heldur ekki gert grein fyrir því um hvað vitni þetta sé talið geta borið, hvort það sé um atvik að ákeyrslunni á barnið, um ferðir varnaraðila á sama tíma eða önnur atriði. Liggur því ekki fyrir hvaða þýðingu hugsanlegur vitnisburður þess sé talinn geta haft fyrir umrædda ákvörðun.
Hið ætlaða brot sem lögregla rannsakar átti sér stað 30. nóvember 2007. Frá þeim tíma hefur varnaraðili sætt þvingunarráðstöfunum í þágu rannsóknar málsins, fyrst gæsluvarðhaldi í 9 daga en síðan farbanni. Við síðustu framlengingu farbannsins var tekið fram í forsendum úrskurðar að sá tími sem þá var ákveðinn ætti að nægja til að ljúka rannsókn málsins. Í þessu fólst sú afstaða að taka mætti ákvörðun um saksókn innan nefndra tímamarka. Á sóknaraðila hvílir skylda til að sýna fram á að framlengingar á farbanni sé nú þörf á ný enda felst í farbanni takmörkun á frelsi varnaraðila sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að þess sé þörf í þágu meðferðar máls. Ekki verður fallist á að sóknaraðili hafi með framangreindum hætti fært fram fullnægjandi rök fyrir því að hann þurfi nú lengri tíma til að taka ákvörðun um hvort gefa eigi úr ákæru á hendur varnaraðila. Er því að mínum dómi óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að X, [kt.], pólskum ríkisborgara með dvalarstað að [...] verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram farbanni allt til þriðjudagsins 26. febrúar 2008 kl. 16:00.
Krafan er sett fram með vísan til a-liðar og b-liðar 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 10. gr. umferðarlaga nr. 50/ 1987.
Af hálfu kærða er farbannskröfunni mótmælt.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að laust upp úr kl. 17:00 föstudaginn 30. nóvember 2007 hafi bifreið verið ekið á fjögurra ára dreng, A, á mótum Vesturgötu og Birkiteigs í Reykjanesbæ. Ökumaður bifreiðarinnar sem ók á drenginn hafi ekki stöðvað en ekið á brott af vettvangi án þess að huga að drengnum. Drengurinn lést á sjúkrahúsi laugardaginn 1. desember 2007 af þeim áverkum sem hann hlaut. Við eftirgrennslan lögreglu fannst bifreiðin [...], af gerðinni Nissan Sunny, blágræn að lit, kl. rúmlega 17.00 laugardaginn 1. desember og var kærði ökumaður bifreiðarinnar. Kærði var spurður um brotið vinstra framljós á bifreiðinni og sagði lögreglu þá að hann hefði lent í óhappi daginn áður, þ.e. 30. nóvember, en það er dagurinn þegar ekið var á drenginn. Bifreiðin bar merki ákomu vinstra megin að framan og var m.a. framljós þeim megin brotið. Fram kemur í greinargerð lögreglu að kærði hafi ekki gengist við því að hafa ekið á drenginn en mikils ósamræmis hafi gætt í framburði hans, hann orðið margsaga m.a. um það hvar hann var staddur á þeim tíma þegar ekið var á barnið. Þá hafi komið fram ósamrýmanlegir framburðir um það, bæði hjá kærða og vitnum, hvenær og hvernig framljós bifreiðarinnar brotnaði.
Rannsókn lögreglu þyki renna sífellt styrkari stoðum undir það að nefndri bifreið hafi verið ekið á drenginn með ofangreindum afleiðingum, en nýlega hafi tæknirannsókn lögreglu á bifreiðinni hefur leitt í ljós hársýni, sem talin séu tæk til DNA rannsóknar. Hár þessi fundust í dekki bifreiðarinnar, en lögregla telur vísbendingar um, skv. því sem fram kom við krufningu, sem lögregla var viðstödd, að megináverki á höfði barnsins kunni að hafa hlotist af að hjól bifreiðarinnar hafi farið yfir höfuð barnsins. Hársýni þessi hafa verið send til rannsóknastofu í Svíþjóð og ekki sé vitað hvenær niðurstaða rannsóknar berst lögreglu.
Fram kemur í greinargerð lögreglu að rannsókn þessa máls hafi verið umfangsmikil. Eins og málið liggi fyrir nú sé beðið lokaskýrslu um krufningu, sem von sé á í þessari viku skv. upplýsingum frá Rannsóknastofu Háskólans, beðið sé ofangreindrar niðurstöðu DNA rannsóknar frá Svíþjóð og auk þess hafi ekki enn tekist að kanna vísbendingu um vitni, sem lögreglu hafi borist, en yfirheyra þurfi aðila, sem sé staddur erlendis. Sá aðili muni væntanlegur til Íslands í fyrstu viku febrúar.
Kærði sé erlendur maður og þyki mega ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta farbanni sbr. það sem áður kom fram um að hann var á förum alfarinn frá landinu er hann var handtekinn.
Kærði sé grunaður um brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, brot sem varðað geta fangelsi allt að 6 árum svo og brot gegn umferðarlögum.
Í máli verjanda kærða við fyrirtöku kröfunnar kemur fram að hann mótmælir kröfu um farbann með vísan til þess að kærði hafi frá staðfastlega frá upphafi neitað að hafa ekið umræddri bifreið þegar ekið var á drenginn þann 30. nóvember sl., samanber það sem áður greinir og hafi vitni staðfest að hann hafi þá verið staddur á allt öðrum stað.
Með því sem nú hefur verið rakið og með hliðsjón af framlögðum gögnum þykir hafa verið sýnt fram á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Upplýst hefur verið að rannsókn málsins sé langt komin en beðið sé niðurstöðu DNA rannsóknar sem fram fer í Svíþjóð og endanlegrar krufningarskýrslu, auk þess sem nauðsynlegt þyki að yfirheyra vitni sem væntanlegt sé til landsins fyrstu vikuna í febrúar.
Kærði sætti gæsluvarðhaldi frá 2. til 11. desember sl. en var þá úrskurðaður til að sæta farbanni til 8. janúar sl. og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands 13. desember sl. í máli réttarins nr. 649/2007. Þann 8. janúar sl. var kærði enn úrskurðaður til að sæta farbanni og þá til dagsins í dag og var sá úrskurður staðfestur af Hæstarétti 10. janúar sl. Lögregla hefur í beiðni sinni í dag nefnt nokkur atriði til viðbótar þeim sem lágu fyrir þegar kærði var síðast úrskurðaður í farbann 8. janúar sl., sem ljúka þurfi rannsókn á eða fá niðurstöður um. Verður því með hliðsjón af öllu framangreindu og með vísan til þess að kærði er erlendur ríkisborgari talið rétt að beita ákvæði b-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 og gera kærða að sæta áfram farbanni samkvæmt ákvæðum 110. gr. sömu laga, svo að ljúka megi rannsókn og taka ákvörðun um ákæru. Rétt þykir hins vegar að marka farbanni skemmri tíma en krafist er og verður kærða gert að sæta farbanni til þriðjudagsins 12. febrúar 2008 kl. 16:00.
Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, sæti áframhaldandi farbanni allt til þriðjudagsins 12. febrúar 2008 kl. 16:00.