Hæstiréttur íslands

Mál nr. 201/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Hlutafélag
  • Firmaritun
  • Umboð
  • Ábyrgð
  • Kröfugerð
  • Skipting sakarefnis


Föstudaginn 10. júní 2011.

Nr. 201/2011. 

Kaupthing Singer & Friedlander

(Isle of Man) Limited

(Gunnar Jónsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Ólafur Garðarsson hrl.

Þröstur Ríkharðsson hdl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Hlutafélög. Firmaritun. Umboð. Ábyrgð. Kröfugerð. Skipting sakarefnis.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu KS að fjárhæð 463.200.000 sterlingspund, sem hann lýsti á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar K frá 17. september 2007 við slit K. Ábyrgðaryfirlýsingin var til komin vegna kaupa KH, dótturfélags K, á félaginu D á Mön af DH, en D mun eftir kaupin hafa verið sameinað KS. Hélt KS því fram að yfirlýsingin hefði verið forsenda fyrir því að fallist yrði á kaupin af hálfu DH og fjármálaeftirlitsins á Mön. Ábyrgðaryfirlýsingin var undirrituð af I sem „an authorised signatory“, en hann gegndi þá starfi forstjóra K á Íslandi. Samkvæmt skjali, útgefnu af K 29. september 2006, sem bar heitið „Listi yfir undirritunarheimildir“, féll I í flokk A og hafði þar með heimild til að skuldbinda félagið í öllum málum. Í yfirlýsingunni var því lýst yfir að K ábyrgðist að efna skuldbindingar KS, sem væri dótturfélag K, að því marki sem KS yrði ófær um að greiða með eigin eignum réttmætar kröfur á hendur honum. KS reisti kröfu sína á því að yfirlýsingin fæli í sér skuldbindingu sem forstjórinn hefði haft umboð til að gangast undir fyrir hönd K. K bar á hinn bóginn fyrir sig að yfirlýsingin hefði falið í sér ráðstöfun, sem stjórn félagsins hefði ein verið bær til að taka ákvörðun um. Það umboð, sem forstjórinn hefði haft til að skuldbinda félagið, hefði ekki tekið til þeirrar ráðstöfunar sem hér um ræddi. Greindi aðila því á um hvort umboð I til að rita firma K leiddi til þess að K væri bundinn við ábyrgðaryfirlýsinguna vegna 1. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Talið var að umboð I til að rita firma K hefði ekki verið takmarkað á þann hátt að fleiri en einn færu með ritunarréttinn í sameiningu, sbr. 3. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995, sem þó hefði verið heimilt. Þá væri sú meginregla 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 skýr að löggerningur manns, sem kæmi fram fyrir hönd hlutafélags í skjóli umboðs til að rita firma þess, væri bindandi, en undantekningarákvæði 1. töluliðar þeirrar málsgreinar tæki einungis til takmarkana á heimild umboðsmanns, sem ákveðnar væru í sömu lögum. Þau hefðu ekki að geyma takmörkun á heimild umboðsmanns til að rita firma sem miðaði við eðli og umfang ráðstafana hans. Þá var talið að ekki skipti máli sú varnarástæða K að takmarkanir á umboði forstjórans hefðu falist í ráðningarsamningi hans og innri útlánareglum samkvæmt regluhandbók K, en sú skylda yrði ekki lögð á viðsemjanda hlutafélags að kynna sér gögn, sem sneru inn á við, en væru ekki hluti þess umboðs sem kynnt væri út á við. Ekki var fallist á með K að heimfæra bæri takmarkanir á heimild umboðsmanns, sem fram kæmu í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995, upp á heimildir samkvæmt rétti til að rita firma. Að virtu þessu öllu var talið að yfirlýsing K um ábyrgð fæli í sér bindandi skuldbindingu gagnvart KS, sem leiddi til þess að krafa KS var tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2011, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem hann lýsti á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar frá 17. september 2007 við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 24. maí 2011.

I

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tók það yfir vald hlutahafafundar í varnaraðila, vék stjórn félagsins þegar frá störfum og skipaði því skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnarinnar. Varnaraðila var síðan skipuð slitastjórn 25. maí 2009, sem gaf út innköllun til lánardrottna félagsins og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember 2009. Sóknaraðili lýsti degi fyrr kröfu við slit varnaraðila að fjárhæð 463.200.000 sterlingspund með nánar tilgreindum vöxtum frá 30. desember 2009. Henni var aðallega lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Slitastjórn hafnaði kröfunni og tókst ekki að jafna ágreining um viðurkenningu hennar. Af þeim sökum beindi slitastjórnin 30. mars 2010 ágreiningi aðilanna til héraðsdóms. Í þinghaldi 7. janúar 2011 féll sóknaraðili frá kröfu um að fá notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laganna, en heldur sig við að hún verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr.

Í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms kom fram að aðilarnir hafi orðið sammála um að ágreiningur í málinu „yrði afmarkaður við gildi ábyrgðar“ varnaraðila, enda ekki ljóst á því stigi hverjar yrðu endanlegar heimtur úr hendi sóknaraðila, sem sætir slitum á Bretlandseyjum. Við slit sóknaraðila mun liggja fyrir að hann eigi ekki fyrir skuldum. Þá segir í greinargerð varnaraðila til héraðsdóms að ágreiningur í þessum þætti málsins snúi eingöngu að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila, en aðilar séu sammála um að „fresta ágreiningi um fjárhæð kröfunnar“ þar til leyst hefði verið úr fyrrnefnda ágreiningsefninu. Í úrskurði héraðsdóms greinir frá þessari tilhögun kröfugerðar með vísan til greinargerða aðilanna án frekari umfjöllunar.

Fyrir málsmeðferð eins og að framan greinir er engin heimild, enda miða lög nr. 21/1991 að því að ágreiningi um viðurkenningu lýstrar kröfu við gjaldþrotaskipti verði til fullnaðar ráðið til lykta í einu máli sé slíkum ágreiningi beint til dómstóla. Til þess verður á hinn bóginn að líta að samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur dómari ákveðið eftir ósk annars eða beggja aðila að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekin atriði máls meðan önnur atriði þess hvíli og bíði þess að verða dæmd. Með þessu er gengið út frá að mál sé höfðað um sakarefni í heild og taki þannig bæði til greiðsluskyldu málsaðila og fjárhæðar, sem honum beri að inna af hendi, en dómari geti hvort heldur við þingfestingu máls eða þegar tekið hafi verið til varna í því og eftir ósk annars eða beggja málsaðila ákveðið að skipta sakarefninu þannig að fyrst verði aðeins leyst úr ágreiningi um greiðsluskyldu. Heimilt er að fara á þennan hátt með mál, sem rekið er fyrir dómi eftir sérreglum XXIV. kafla laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laganna. Af greinargerðum aðila þessa máls í héraði er ljóst að fyrirmælum 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 var ekki fylgt til enda, heldur höfðu þeir fyrirfram sammælst um að leggja aðeins hluta ágreinings síns um kröfu sóknaraðila fyrir héraðsdóm í þeim búningi, sem fram er komið. Þótt ekkert sé fært í þingbók um ákvörðun héraðsdómara, sem gert er ráð fyrir í lagaákvæðinu, verður að líta svo á að í úrskurði hans felist að hann hafi fallist á að fara með málið eins og réttilega hefði verið staðið að því að skipta sakarefninu þótt það hafi verið lagt fyrir hann með þeim hætti, sem að framan greinir. Fyrir Hæstarétti hafa báðir aðilar lýst yfir að þeir líti svo á að fyrir héraðsdómi hafi sakarefni í málinu í reynd verið skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu öllu virtu er ekki alveg næg ástæða til að láta þennan annmarka leiða til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

II

Krafa sóknaraðila er reist á yfirlýsingu um ábyrgð 17. september 2007, sem undirrituð var af Ingólfi Helgasyni sem „an authorised signatory“, en hann gegndi þá starfi forstjóra varnaraðila á Íslandi. Yfirlýsingin er tekin upp orðrétt í úrskurði héraðsdóms. Þar var lýst yfir að varnaraðili ábyrgðist að efna skuldbindingar sóknaraðila, sem væri dótturfélag þess fyrrnefnda, að því marki sem sóknaraðili yrði ófær um að greiða með eigin eignum réttmætar kröfur á hendur honum. Í lok yfirlýsingarinnar var tekið fram að ábyrgðin væri réttilega útgefin og afhent af hálfu varnaraðila. Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að yfirlýsingin feli í sér skuldbindingu, sem forstjórinn hafi haft umboð til að gangast undir fyrir hönd varnaraðila. Varnaraðili ber á hinn bóginn fyrir sig að yfirlýsingin skuldbindi hann ekki, en skjalið hafi hvorki verið lagt fyrir stjórn félagsins til samþykktar né hafi hún haft vitneskju um yfirlýsingu forstjórans. Hún hafi falið í sér ráðstöfun, sem stjórn félagsins hafi ein verið bær til að taka ákvörðun um. Það umboð, sem forstjórinn hafði til að skuldbinda félagið, hafi ekki tekið til þeirrar ráðstöfunar sem hér um ræðir.

Þegar atvik málsins urðu mun sóknaraðili að öllu leyti hafa verið í eigu félagsins Kaupthing Holding (Isle of Man) Limited, sem var með sama hætti í eigu varnaraðila. Sóknaraðili taldist þannig vera hluti af samstæðu hans. Ábyrgðin 17. september 2007 var til komin vegna kaupa Kaupthing Holding (Isle of Man) Limited á félaginu The Derbyshire (Isle of Man) Limited, sem nefnt var Derbyshire Offshore og mun hafa verið dótturfélag Derbyshire Building Society. Starfsemi dótturfélagsins mun einkum hafa falist í að taka við og ávaxta innlán viðskiptamanna og naut það ábyrgðar móðurfélagsins. Aðdragandi þess að yfirlýsingin 17. september 2007 var gefin er rakinn í úrskurði héraðsdóms, en sóknaraðili telur hann skipta miklu við úrlausn málsins. Í úrskurðinum er meðal annars greint frá samskiptum varnaraðila við fyrirsvarsmenn erlendu félaganna, sem tengjast málinu, og fjármálaeftirlitið á Mön, svo og hvað þeir hafi talið felast í yfirlýsingunni. Þá sagði Ingólfur Helgason í skýrslu fyrir dómi að kaupin á Derbyshire Offshore hafi verið í samræmi við þá stefnu varnaraðila að „sækja í rekstur sem væri með innlán og eignast hann“ og að honum hafi verið tjáð að ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið nauðsynlegur hluti af kaupunum, sem forstjóri bankans hafi haft fulla heimild til að ganga frá „með þessum hætti eins og vant var“. Stjórn varnaraðila samþykkti 25. október 2007 að kaupa öll hlutabréfin í The Derbyshire (Isle of Man) Limited og óumdeilt er að samningur hafi verið undirritaður 9. nóvember sama ár á milli Kaupthing Holding (Isle of Man) Limited, Derbyshire Building Society og varnaraðila um kaup þess fyrstnefnda á umræddum hlutabréfum. Derbyshire Offshore mun eftir kaupin hafa verið sameinað sóknaraðila og fékk varnaraðili litlu síðar til sín meiri hluta samanlagðra innlána hjá félaginu og nýtti í starfsemi sinni. Í málatilbúnaði sóknaraðila er meðal annars á því byggt að ábyrgð varnaraðila samkvæmt yfirlýsingunni 17. september 2007 hafi komið í stað sams konar ábyrgðar Derbyshire Building Society á skuldbindingum Derbyshire Offshore og verið forsenda fyrir því að fallist yrði á kaupin af hálfu seljanda og fjármálaeftirlitsins á Mön.

III

Meðal gagna málsins er skjal, útgefið af varnaraðila 29. september 2006, sem samkvæmt niðurlagi í fyrirsögn ber heitið „Listi yfir undirritunarheimildir.“ Texti skjalsins hefst á orðunum: „Til samstarfsbanka okkar, bankamanna, umsjónaraðila framsala og gagnaðila,“ en síðan segir að listinn tilgreini umboð og heimildir starfsmanna til að annast tiltekin viðskipti, sem varði varnaraðila, og að í viðauka séu nöfn þessara starfsmanna og rithandarsýnishorn. Heimildir samkvæmt listanum skyldu gilda frá 1. nóvember 2006 og var þeim skipt í níu flokka, sem merktir voru með bókstöfunum A til I, en ríkastar heimildir voru veittar þeim, sem féllu í flokk A og síðan takmarkaðri eftir því sem lengra kom í stafrófinu. Um flokk A var tekið fram að undirritun fimm stjórnarmanna varnaraðila skuldbindi hann í öllum málum. Í sama flokk féllu einnig þrír menn, sem í fyrirsögn voru nefndir „forstjórar“, en umboð þeirra hljóðaði svo: „Formaður stjórnar, forstjóri samstæðunnar ... og forstjóri bankans á Íslandi ... fara með prókúru fyrir félagið og hafa hver fyrir sig og sameiginlega heimild til að skuldbinda félagið í öllum málum, þ.á m. til að selja og veðsetja fasteignir félagsins. Formanni stjórnar, forstjóra samstæðunnar og forstjóra er hverjum fyrir sig og sameiginlega heimilt að tilnefna aðra fyrir sína hönd til að fara með þær heimildir sem hér eru upp taldar.“ Með fylgdu rithandarsýnishorn þessara þriggja manna, þar á meðal Ingólfs Helgasonar forstjóra varnaraðila á Íslandi. Listinn var sendur fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og móttekinn 17. október 2007.

Málsástæður sóknaraðila eru meðal annars reistar á því að Ingólfur Helgason hafi haft ótvírætt umboð út á við til að binda varnaraðila við þá ábyrgð, sem krafan er reist á. Hann hafi haft allt í senn, umboð til að rita firmað, prókúruumboð og stöðuumboð sem forstjóri varnaraðila á Íslandi og viðsemjandi varnaraðila mátt treysta því að formleg heimild hans væri ekki bundin takmörkunum, sem hún bæri ekki með sér. Umboð til að rita firma feli í sér víðtækastar heimildir til að skuldbinda umbjóðandann, en að því frágengnu sé varnaraðili bundinn við ábyrgðaryfirlýsinguna 17. september 2007 vegna prókúruumboðs forstjórans eða stöðuumboðs hans.

Í greinargerð varnaraðila í héraði var meðal annars tekið fram að samkvæmt undirritunarlistanum hafi forstjórinn á Íslandi haft heimild til að binda varnaraðila í hvaða máli sem væri. Stjórn varnaraðila hafi á hinn bóginn verið óheimilt að lögum að framselja vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir án nokkurra takmarkana. Undirritunarlistinn hafi ekki verið bundinn neinum takmörkunum hvað varði forstjóra varnaraðila á Íslandi um að mat stjórnar á einstökum skuldbindingum þyrfti til, en mat á ráðstöfunum, sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, megi ekki fela forstjóra heldur verði það að liggja hjá stjórn félags. Enginn vafi leiki á að sú ráðstöfun forstjórans að gefa út ábyrgðina án samþykkis stjórnar varnaraðila hafi verið óvenjuleg og mikils háttar, sem sjáist glöggt af því að krafa sóknaraðila á grundvelli hennar við slit varnaraðila nemi tæplega 90.000.000.000 krónum. Heimild til að veita ábyrgðina hafi því ekki rúmast innan umboðs sem forstjórinn hafi haft til að sjá um þann daglega rekstur sem hann hafi átt að annast á Íslandi. Til stuðnings þessari málsástæðu vísar varnaraðili jafnframt til dóms Hæstaréttar 24. september 2009 í máli nr. 678/2008. Af hálfu varnaraðila var málsástæðu um takmarkanir að lögum á umboði forstjórans lýst nánar fyrir Hæstarétti með því að þær felist í 1. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sem verði að skýra með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 74. gr. sömu laga og þeim takmörkunum á umboði framkvæmdastjóra, sem felist í 2. mgr. 68. gr. laganna.

IV

Í 1. tölulið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 segir að ef sá sem kemur fram fyrir hönd félags samkvæmt 74. eða 75. gr. gerir löggerning fyrir hönd þess bindi sá gerningur félagið nema hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni, sem ákveðnar séu í sömu lögum. Í tilvitnaðri 74. gr. er í 1. mgr. mælt fyrir um að stjórn komi fram út á við fyrir hönd félags og riti firma þess og samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er henni heimilt að veita stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til að rita firma félagsins, svo framarlega sem öðru vísi sé ekki ákveðið í samþykktum þess. Þá segir í 75. gr. að framkvæmdastjóri geti ávallt komið fram fyrir hönd félags í málum sem séu innan verksviðs hans samkvæmt 68. gr. laganna.

Að framan var þess getið að aðilana greinir á um hvort umboð Ingólfs Helgasonar til að rita firma varnaraðila bindi þann síðastnefnda við ábyrgðaryfirlýsinguna 17. september 2007 vegna 1. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995. Um það er þess að gæta að ákvæðið var fært í núgildandi horf með 60. gr. laga nr. 137/1994 um breyting á lögum nr. 32/1978 um hlutafélög og voru lögin svo breytt endurútgefin sem lög nr. 2/1995. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 137/1994, sagði að það væri þáttur í aðlögun Íslands að ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið, en þar væri um að ræða ákvæði hans um félagarétt. Í 77. gr. samningsins er um þetta vísað til XXII. viðauka við hann, þar sem er að finna upptalningu á tilskipunum EB sem miða að því að samræma réttarreglur ríkja á sviði félagaréttar. Í athugasemdum, sem fylgdu 60. gr. í áðurnefndu frumvarpi, kom fram að lagt væri til að sett yrðu ítarlegri ákvæði um umboðsreglur en áður hafi verið í lögum um hlutafélög til samræmis við 1. og 2. mgr. 9. gr. þágildandi 1. félagaréttartilskipunar 68/151/EB, en hún var ein þeirra tilskipana sem vísað var til í XXII. viðauka við EES-samninginn. Efni 9. gr. þessarar tilskipunar miðaði að því að tryggja réttaröryggi viðsemjanda hlutafélags í lögskiptum við það og takmarka eins og framast væri unnt þær ástæður, sem valdið gætu ógildi samnings, sem gerður hafi verið í nafni þess. Þennan bakgrunn verður að hafa í huga við skýringu á þeim ákvæðum laga nr. 2/1995, sem hér reynir á.

V

Samþykktir fyrir varnaraðila eru meðal málskjala, en í þeim var mælt fyrir um heimildir stjórnar félagsins og tiltekinna starfsmanna til að skuldbinda það. Varnaraðili ber ekki fyrir sig þá málsástæðu að heimildir einstakra starfsmanna, sem veittar voru með undirritunarlistanum 29. september 2006, hafi ekki samrýmst fyrirmælum samþykktanna og gengið lengra en þar sagði. Kemur þetta atriði því ekki til álita við úrlausn um það hvort undirritun forstjórans á ábyrgðaryfirlýsinguna 17. september 2007 hafi samrýmst 74. gr. og 77. gr. laga nr. 2/1995.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995 má takmarka réttinn til að rita firma á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu, en aðra takmörkun á ritunarrétti er ekki unnt að skrá. Áður hefur verið greint frá efni þess umboðs, sem Ingólfi Helgasyni var veitt í undirritunarlista varnaraðila, en þar var skýrt kveðið á um að þeir þrír menn, sem nefndir voru „forstjórar“ hefðu umboð hvort heldur til að rita firmað í sameiningu eða hver fyrir sig. Umboð Ingólfs til að rita firma varnaraðila var því ekki takmarkað með þeim hætti, sem þó hefði verið heimilt.

Sú meginregla 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 er skýr að löggerningur manns, sem kemur fram fyrir hönd hlutafélags í skjóli umboðs til að rita firma þess, bindur það, en undantekningarákvæði 1. töluliðar þeirrar málsgreinar tekur einungis til takmarkana á heimild umboðsmanns, sem ákveðnar eru í sömu lögum. Þau hafa ekki að geyma takmörkun á heimild umboðsmanns til að rita firma sem miði við eðli eða umfang ráðstafana hans, svo sem varnaraðili ber fyrir sig í málinu. Þessi málsástæða hans er því haldlaus og lögin hafa heldur ekki að geyma aðrar takmarkanir á heimild umboðsmanns til að rita firma, sem leysi varnaraðila undan þeirri skuldbindingu sem stofnað var til með ábyrgðaryfirlýsingunni 17. september 2007. Þá skiptir ekki máli sú varnarástæða hans að takmarkanir á umboði forstjórans hafi falist í ráðningarsamningi hans og innri útlánareglum samkvæmt regluhandbók varnaraðila, en sú skylda verður ekki lögð á viðsemjanda hlutafélags að kynna sér gögn, sem snúa inn á við, en eru ekki hluti þess umboðs sem kynnt er út á við. Fyrir héraðsdómi bar varnaraðili ekki fyrir sig ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995 og skiptir það þegar af þeirri ástæðu engu fyrir úrslit málsins.

Varnaraðili ber loks fyrir sig að heimfæra beri takmarkanir á heimild umboðsmanns, sem fram koma í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995, upp á heimildir samkvæmt rétti til að rita firma og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar 24. september 2009 í máli nr. 678/2008. Úrlausnarefni þess máls laut ekki að takmörkun á heimild umboðsmanns gagnvart viðsemjanda hlutafélags, sbr. 74. og 77. gr. laganna, heldur því hversu víðtækar heimildir stjórn félags gat veitt umboðsmanni þannig að bindandi væri gagnvart einstökum hluthöfum í félaginu. Ágreiningurinn laut því að innri málefnum viðkomandi félags og takmörkun á heimild stjórnar til að veita framkvæmdastjóra umboð samkvæmt 68. gr. laga nr. 2/1995 og sérstakt umboð, en ekki að takmörkun á rétti til að rita firmað. Samkvæmt því verður ekki fallist á með varnaraðila að nefndur dómur Hæstaréttar skipti máli sem fordæmi við úrlausn ágreinings aðilanna. Að virtu öllu, sem að framan greinir, fól yfirlýsing varnaraðila 17. september 2007 um ábyrgð í sér bindandi skuldbindingu gagnvart sóknaraðila, sem leiðir til þess að krafa þess síðarnefnda í málinu verður tekin til greina.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Krafa sóknaraðila, Kaupthing Singer & Friedlander (Isle of Man) Limited, á grundvelli yfirlýsingar um ábyrgð 17. september 2007, sem lýst var við slit varnaraðila, Kaupþings banka hf., er viðurkennd sem krafa með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2011.

I.

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 25. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun sem birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 30. júní 2009. Frestur til kröfulýsinga var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 30. desember sama ár. Sóknaraðili, Kaupthing Singer & Friedlander Isle of Man Limited, Douglas, Mön, lýsti kröfu við slit varnaraðila, og var kröfulýsing móttekin 29. desember og færð á kröfuskrá sem krafa nr. 20100102-0695. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, alls að fjárhæð 463,2 milljónir sterlingspunda, og byggðist hún á ábyrgðaryfirlýsingu, svokallaðri „Parental Guarantee“, sem útbúin var í Kaupþingi banka hf. og undirrituð 17. september 2007. Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni ábyrgist Kaupþing banki hf. lögmætar skuldbindingar Kaupthing Singer & Friedlander Isle of Man Limited, sem ekki fást greiddar með eignum þess síðarnefnda.     

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni með bréfi 18. janúar 2010 og mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu. Á fundi, sem haldinn var 2. mars 2010 í því skyni að jafna ágreining aðila um kröfuna, ítrekaði slitastjórn fyrri afstöðu sína og taldi verulegan vafa leika á því að ábyrgðaryfirlýsingin væri bindandi fyrir Kaupþing banka hf., enda fælist í henni ráðstöfun sem bæði væri óvenjuleg og mikils háttar. Þar sem stjórn bankans hefði heldur ekki fjallað um eða samþykkt þá ráðstöfun sem fælist í yfirlýsingunni áleit slitastjórn hana óskuldbindandi samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Þá var það og mat slitastjórnar að þótt ábyrgðaryfirlýsingin yrði talin skuldbindandi fyrir bankann gæti krafan ekki notið hærri rétthæðar en sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem ágreiningur aðila varð ekki jafnaður var málinu vísað til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 14. júní 2010.

Í greinargerð sinni til dómsins gerði sóknaraðili aðallega kröfu um að afstöðu varnaraðila til kröfu hans yrði hrundið og breytt á þá leið að krafan yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Til vara gerði hann kröfu um að krafan yrði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Í þinghaldi í málinu 7. janúar sl. ákvað sóknaraðili að falla frá aðalkröfu sinni, en halda þess í stað fast við kröfu sína um að krafan yrði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá áréttaði hann kröfu sína um málskostnað úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Endanleg krafa varnaraðila er sú að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Samkvæmt greinargerðum beggja aðila eru þeir sammála um að leggja til hliðar ágreining um fjárhæð kröfunnar, en leggja þess í stað fyrir dóminn aðeins það ágreiningsefni hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli fyrrnefndrar ábyrgðaryfirlýsingar.

Í bréfi slitastjórnar til dómsins var tekið fram að auk sóknaraðila og varnaraðila ættu aðild að málinu ýmsir kröfuhafar sem mótmælt hefðu því að krafa sóknaraðila yrði viðurkennd sem forgangskrafa. Í þinghaldi 7. janúar og 8. febrúar sl. féllu síðastgreindir aðilar frá aðild sinni að málinu. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. febrúar sl.

II.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik í megindráttum sem hér greinir:

Sóknaraðili, Kaupthing Singer & Friedlander Isle of Man Limited, er fjármálafyrirtæki í slitameðferð með aðsetur á eynni Mön. Fyrirtækið er hluti af samstæðu varnaraðila, Kaupþingi banka hf., en að öllu leyti í eigu félagsins Kaupthing Holding (Isle of Man), sem aftur er að öllu leyti í eigu varnaraðila. Við slitameðferð sóknaraðila hefur komið í ljós að eignir fyrirtækisins duga ekki til að greiða útistandandi skuldir. Því hefur sóknaraðili lýst kröfu við slit varnaraðila fyrir þeim mismun, og byggir á því að varnaraðili beri ábyrgð á öllum útistandandi skuldum fyrirtækisins á grundvelli tiltekinna yfirlýsinga þess efnis. Slitastjórn varnaraðila hefur hins vegar hafnað því að varnaraðili beri nokkra ábyrgð á skuldbindingum sóknaraðila.

Sumarið 2007 hafði varnaraðili hug á því að auka umsvif sín og samkeppni um viðskiptavini við önnur fjármálafyrirtæki á eynni Mön. Sem lið í því hugðist hann m.a. taka þar yfir starfsemi annarra fjármálafyrirtækja. Upphaflega stóð til að taka yfir starfsemi Nationwide International, sem var dótturfélag Nationwide Building Society, og má af ýmsum framlögðum tölvubréfum starfsmanna sóknaraðila sjá að undirbúningur var hafinn að kaupum og yfirtöku á Nationwide International. Í einu tölvubréfanna, sem dagsett er 24. ágúst 2007, frá Henrik Gustafssyni, starfsmanni sóknaraðila, til framkvæmdastjóra sóknaraðila, Aidan Doherty, kemur fram að Kaupþing banki hf. muni gefa út samskonar ábyrgð og þá var í gildi hjá Nationwide Building Society, þ.á m. til tryggingar innstæðum viðskiptavina. Fullyrðir sóknaraðili að varnaraðila hafi verið nauðsynlegt að gefa slíka ábyrgð út til þess að yfirtakan gengi eftir.

Eftir tölvupóstsamskipti, fyrri hluta septembermánaðar 2007, milli Guðna Níels Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar hjá varnaraðila, og Aidan Doherty, framkvæmdastjóra sóknaraðila, auk nafngreindra aðila innan lögfræðisviðs varnaraðila, var ábyrgðaryfirlýsing endanlega úr garði gerð og undirrituð 17. september 2007 af framkvæmdastjóra varnaraðila á Íslandi, Ingólfi Helgasyni. Telur sóknaraðili, sem lagði til fyrstu drög að yfirlýsingunni, að orðalag hennar hafi verið sótt í móðurfélagsábyrgð Derbyshire Building Society, sem var í gildi fyrir síðari yfirtöku sóknaraðila á innstæðum í fjármálafyrirtækinu Derbyshire Offshore. Ábyrgðaryfirlýsingin er gefin út á ensku, en hljóðar þannig í íslenskri þýðingu:

„HÉR MEÐ ÁBYRGIST Kaupþing banki hf. (félag skráð á Íslandi með kt. 5600882-0419), sem er með höfuðstöðvar að Borgartúni 19, 105 Reykjavík, að efna skuldbindingar dótturfélags síns, Kaupthing Singer & Friedlander (Isle of Man) Limited (skráningarnr. 3519), sem er með skráða skrifstofu að 5-11 St. Georges Street, Douglas, Isle of Man IM99 1SN, að því marki sem Kaupthing Singer & Friedlander (Isle of Man) Limited er ófært um að greiða skuldir sem byggja á réttmætum kröfum á hendur félaginu með eigin eignum. Ábyrgð þessi skal gilda á meðan Kaupthing Singer & Friedlander  (Isle of Man) Limited er dótturfélag í fullri eigu Kaupþings banka hf. og skal þegar falla úr gildi ef Kaupþing banki hf. selur hlut sinn í Kaupthing Singer & Friedlander (ISLE of Man) í heild eða að hluta.

Þessu til staðfestu hefur ábyrgð þessi verið undirrituð og afhent fyrir hönd Kaupþings banka hf. með tilskildum hætti þann 17. september 2007.“

Ofan við undirritun Ingólfs Helgasonar er skráð að skjalið sé undirritað af prókúruhafa Kaupþings banka hf.

Ábyrgðaryfirlýsingin var send sóknaraðila og í kjölfarið tilkynnti Aidan Doherty Fjármálaeftirlitinu á Mön um hana með bréfi 1. október 2007. Bréfinu fylgdi ljósrit af  ábyrgðaryfirlýsingunni. Varnaraðili staðhæfir að yfirlýsingin hafi hvorki verið lögð fyrir stjórn varnaraðila til samþykktar, né hafi hún verið tekin til umræðu á fundum stjórnarinnar.

Ekkert varð af yfirtökunni á Nationwide International. Varnaraðili sneri sér þá að öðru fjármálafyrirtæki á Mön, Derbyshire Offshore, dótturfélagi Derbyshire Building Society, en undirbúningur að sölu félagsins hafði einnig staðið yfir um sumarið 2007. Í ágúst það ár fékk sóknaraðili í hendur kynningargögn vegna sölu félagsins. Með tölvubréfi frá starfsmanni sóknaraðila 8. október 2007 fengu Sigurður Einarsson, stjórnarformaður varnaraðila, Hreiðar Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri samstæðu varnaraðila, Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar hjá varnaraðila, Steingrímur Kárason, framkvæmdastjóri áhættustýringar varnaraðila, Guðný Arna Sveinsdóttir, fjármálastjóri varnaraðila, og Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Kaupthing Singer & Friedlander UK, kynningarefni og upplýsingar um fyrirhugað tilboð í Derbyshire Offshore. 

Starfsmenn sóknaraðila áttu fund með starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins á Mön vegna fyrirhugaðra kaupa og yfirtöku á félagi þessu 22. október 2007. Í minnisblaði vegna fundarins má sjá að rætt hafi verið um móðurfélagsábyrgð, og tekið fram að slík ábyrgð sé í gildi hjá sóknaraðila. Á stjórnarfundi varnaraðila 25. október 2007 var síðan samþykkt að kaupa öll hlutabréf Derbyshire Offshore og var Sigurði Einarssyni eða Hreiðari  Má Sigurðssyni, sameiginlega og með fullt vald til að tilnefna annan í sinn stað, veitt heimild til að leggja fram bindandi tilboð og til að undirrita öll skjöl í tengslum við tilboðið. Á sama fundi var stjórn varnaraðila afhent kynningarefni tengt yfirtöku á félaginu. Hvergi er þess getið í kynningargögnum, né fundargerð stjórnar varnaraðila frá 25. október 2007, að varnaraðili þurfi að hafa eða leggja til ábyrgð frá móðurfélagi vegna fyrirhugaðra kaupa. Kaupsamningur var undirritaður 9. nóvember 2007 milli Derbyshire Building Society, Kaupthing Holdings (Isle of Man) Limited og varnaraðila um kaup Kaupthing Holding (Isle of Man) Limited á öllu hlutafé Derbyshire Offshore. Hvorki kaupsamningurinn né tilboð varnaraðila eru meðal gagna málsins, en varnaraðili fullyrðir að í kaupsamningi sé ekki kveðið á um að kaupandi þurfi að hafa eða leggja fram móðurfélagsábyrgð.

Í bréfi starfsmanns sóknaraðila, sem sent var Fjármálaeftirlitinu á Mön 5. nóvember 2007 í því skyni að afla samþykkis fyrir kaupunum og yfirtöku á innstæðum í Derbyshire Offshore, var tekið fram að varnaraðili ábyrgðist m.a. allar innstæður í hinu yfirtekna félagi, og myndi sú ábyrgð þannig koma í stað þeirrar ábyrgðar sem áður hefði verið veitt af hálfu Derbyshire Building Society. Hið sama er tekið fram í bréfi til Fjármálaeftirlitsins hér á landi 8. nóvember 2007, sem undirritað er af yfirlögfræðingi og forstöðumanni lögfræðiráðgjafar varnaraðila. Í tölvubréfum milli starfsmanna sóknaraðila og varnaraðila 9. nóvember 2007, þar sem fjallað var um útfærslu á tilkynningum vegna yfirtökunnar, má einnig sjá að gert var ráð fyrir því að greint yrði frá móðurfélagsábyrgð varnaraðila á skuldbindingum sóknaraðila. Í kynningarefni frá sóknaraðila til viðskiptavina vegna yfirtökunnar síðar í nóvember sama ár, svo og í fréttatilkynningu frá varnaraðila af sama tilefni, kemur skýrlega fram að móðurfélagsábyrgð varnaraðila komi í stað móðufélagsábyrgðar Derbyshire Building Society.

Nokkur tölvusamskipti áttu sér stað milli sóknaraðila og varnaraðila í apríl 2008, sem vörðuðu kynningarefni vegna markaðsátaks sóknaraðila á Mön og orðalag þess. Af þeim má sjá að starfsmenn varnaraðila stöldruðu við fullyrðingu sóknaraðila um að öll innlán hjá sóknaraðila nytu fullrar ábyrgðar hjá varnaraðila og óskuðu skýringa á því orðalagi. Að lokum samþykkti þó starfsmaður lögfræðiráðgjafar varnaraðila tiltekið orðalag, sem fól í sér að öll  innlán hjá sóknaraðila nytu einnig ábyrgðar hjá varnaraðila. Meðal gagna málsins eru einnig tölvubréf milli starfsmanna sóknaraðila og varnaraðila frá 7. október 2008, sem varða móðurfélagsábyrgðina. Þar staðfestir starfsmaður lögfræðiráðgjafar varnaraðila að ábyrgðin sé í gildi og að varnaraðili tryggi samkvæmt henni allar skuldbindingar sóknaraðila. Daginn eftir, 8. október 2008, sendi sóknaraðili viðskiptavinum sínum tilkynningu þar sem m.a. var tekið fram að innstæður viðskiptavina væru tryggðar samkvæmt móðurfélagsábyrgðinni. Starfsemi varnaraðila var svo tekin yfir samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008.

Við upphaf aðalmeðferðar gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin Bjarnfreður Heiðar Ólafsson, Gunnar Páll Pálsson og Brynja Halldórsdóttir, öll stjórnarmenn í Kaupþingi banka hf. á árinu 2007. Við sama tækifæri gaf Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri varnaraðila, skýrslu gegnum síma. Verður vísað til framburðar þeirra þyki tilefni til.  

III.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á því að Ingólfur Helgason, þáverandi framkvæmdastjóri varnaraðila á Íslandi, hafi með því að rita undir móðurfélagsábyrgðina fyrir hönd varnaraðila skuldbundið varnaraðila í samræmi við efni ábyrgðarinnar með lagalega bindandi hætti, þar sem hann hafi haft fullnægjandi umboð til þeirrar ráðstöfunar. Telur sóknaraðili að varnaraðila beri að sýna fram á hið gagnstæða og að skýra eigi allan vafa í þeim efnum sóknaraðila í hag.

Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili í fyrsta lagi til þess að Ingólfur Helgason hafi haft fullnægjandi heimild til undirritunar ábyrgðarinnar á grundvelli heimildar til ritunar firma varnaraðila, samkvæmt umboðslista sem stjórn varnaraðila hafi ritað undir og tekið gildi 1. nóvember 2006. Í málinu sé ekki véfengt að umboðslistinn hafi verið í gildi þegar móðurfélagsábyrgðin var undirrituð.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, geti félagsstjórn veitt stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til þess að rita firma félagsins, svo framarlega sem annað sé ekki ákveðið í samþykktum þess. Í 3. mgr. sömu greinar komi fram að ritunarréttinn megi einungis takmarka á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu. Ekki megi því takmarka ritunarréttinn með öðrum hætti. Í II. kafla áðurnefnds umboðslista varnaraðila sé stjórnarformanni varnaraðila, framkvæmdastjóra samstæðunnar og framkvæmdastjóra varnaraðila á Íslandi, annars vegar veitt prókúruumboð og hins vegar heimild til þess að skuldbinda varnaraðila með lagalega bindandi hætti, annaðhvort sameiginlega eða hverjum í sínu lagi. Með öðrum orðum hafi stjórn varnaraðila þar veitt umræddum starfsmönnum annars vegar prókúruumboð og hins vegar heimild til að rita firmað. Þar sem Ingólfur Helgason hafi verið  framkvæmdastjóri varnaraðila á Íslandi þegar móðurfélagsábyrgðin var undirrituð, telur sóknaraðili ljóst að Ingólfur hafi haft þær heimildir til að skuldbinda félagið sem fram komi í II. kafla umboðslistans.

Á grundvelli heimildarinnar til að rita firma varnaraðila hafi Ingólfur skuldbundið varnaraðila með lagalega bindandi hætti í samræmi við efni móðurfélagsábyrgðarinnar, enda veitti firmaritunarrétturinn honum heimild til þess í hverju tilliti. Samkvæmt hlutafélagalögum hafi stjórninni ekki verið heimilt að takmarka heimild Ingólfs að öðru leyti en því að binda hana firmaritunarrétti annarra einstaklinga. Stjórnin hafi hins vegar ekki nýtt sér þá heimild, heldur sérstaklega tekið fram að þar til greindir stjórnarmenn færu annaðhvort með firmaritunarréttinn sameiginlega eða hver í sínu lagi. Heldur sóknaraðili því einnig fram að þessi ráðstöfun hafi ekki varðað aðrar mögulegar takmarkanir á firmaritunarrétti Ingólfs, s.s. á grundvelli þess að annarri stjórnareiningu varnaraðila hafi borið að taka þessa ákvörðun í samræmi við hlutafélagalög. Í því sambandi bendir sóknaraðili sérstaklega á að svo virðist sem Ingólfur hafi ekki verið eiginlegur framkvæmdastjóri varnaraðila í skilningi laga nr. 2/1995. Firmaritunarréttur hans hafi því ekki verið takmarkaður af t.a.m. ákvæðum 68. gr. þeirra laga. Á hinn bóginn hafi Ingólfur í raun komið fram sem framkvæmdastjóri varnaraðila gagnvart sóknaraðila með undirritun móðurfélagsábyrgðarinnar, auk þess sem framsetning umboðslistans hafi gefið það til kynna, þar eð hann sé þar tilgreindur sem framkvæmdastjóri. Þegar litið sé til aðdraganda undirritunar móðurfélagsábyrgðarinnar telur sóknaraðili ljóst að hann hafi verið í góðri trú og algjörlega grandlaus um annað en að Ingólfur hefði umrædda heimild í samræmi við umboðslistann. Sérstaklega komi  fram í ábyrgðinni að Ingólfur riti þar undir fyrir hönd varnaraðila og hafi til þess heimild. Við hlið undirritunarinnar komi og fram að Ingólfur sé bær til þess að rita undir með bindandi hætti fyrir varnaraðila. Fyrir neðan undirritunina sé greint frá stöðu Ingólfs sem framkvæmdastjóra varnaraðila.

Sóknaraðili tekur fram að upphaflega hafi staðið til að varnaraðili semdi ábyrgðaryfirlýsinguna, en í kjölfar fyrirspurnar lögfræðiráðgjafar varnaraðila hafi sóknaraðili lagt til drög að orðalagi ábyrgðarinnar, sem virðast hafa byggst á orðalagi móðurfélagsábyrgðar Derbyshire Building Society. Í kjölfarið hafi drögunum verið breytt af hálfu lögfræðiráðgjafar í endanlegt horf og komið til undirritunar þar til bærs starfsmanns varnaraðila. Í framhaldinu hafi móðurfélagsábyrgðin verið send sóknaraðila, sem sá enga ástæðu til að draga umboð til undirritunar í efa. Háttsettir starfsmenn varnaraðila hafi og verið þeirrar skoðunar að Ingólfur hefði heimild til þess að rita undir ábyrgðina með skuldbindandi hætti fyrir varnaraðila, enda hefði honum vart verið falið að undirrita hana ella. Vísar sóknaraðili í því sambandi m.a. til framburðar Guðna Aðalsteinssonar fyrir „Select Committee of Tynwald on Kaupthing Singer & Friedlander and the Depositors´ Compensation Scheme“ 4. mars 2010.

Sóknaraðili telur að allar síðari athafnir hans, s.s. fréttatilkynningar og tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins á Mön og viðskiptavina sinna, sýni glöggt að hann hafi verið í góðri trú og algjörlega grandlaus um annað en að Ingólfur Helgason hefði umrædda heimild, og þar með í góðri trú um að ábyrgðin væri lagalega bindandi fyrir báða aðila. Í ljósi tilgangs firmaritunarréttar hafi réttur sóknaraðila verið tryggður, þannig að hann hafi mátt treysta því að Ingólfur Helgason hefði fullnægjandi heimild til að skuldbinda varnaraðila. Ekki hafi hvílt frekari skylda á sóknaraðila til þess að leggja sjálfstætt mat á hvort Ingólfur hefði umrædda heimild til samningsgerðar. Í því efni bendir sóknaraðili og á að hugsanleg vanhöld varnaraðila á tilkynningu um firmaritunarréttinn til hlutafélagaskrár geti ekki orðið til þess að rýra rétt sóknaraðila, sem grandlauss þriðji aðila og viðsemjanda varnaraðila.

Auk ofanritaðs kveðst sóknaraðili líta svo á að stjórn varnaraðila hafi vitað eða a.m.k. mátt vita að varnaraðili myndi undirgangast skuldbindinguna samkvæmt móðurfélagsábyrgðinni. Ástæða þessa sé sú að varnaraðili hafi haft augastað á að taka yfir starfsemi Nationwide International á Mön um sumarið 2007. Sú yfirtaka hafi hins vegar ekki gengið eftir og í framhaldinu hafi verið ákveðið að freista þess að taka yfir starfsemi Derbyshire Offshore. Stjórn varnaraðila hafi formlega samþykkt þá yfirtöku á stjórnarfundi 25. október 2007, og telur sóknaraðili að með því samþykki hafi stjórn varnaraðila í raun samþykkt móðurfélagsábyrgðina. Heldur sóknaraðili því fram að samkvæmt breskum lögum sé áskilið að svonefnd „Building Societies“, líkt og Nationwide Building Society (móðurfélag Nationwide International á Mön) og Derbyshire Building Society (móðurfélag Derbyshire Offshore á Mön) hafi í gildi móðurfélagsábyrgð. Hafi varnaraðili á þeim grundvelli veitt móðurfélagsábyrgð sína, enda meginforsenda þess að yfirtakan gæti gengið í gegn. Hefði slík ábyrgð ekki verið veitt, telur sóknaraðili óvíst að Fjármálaeftirlitið á Mön og Fjármálaeftirlitið hér á landi hefðu samþykkt yfirtökuna fyrir sitt leyti, enda hafi þar mest áhersla verið lögð á að innstæður viðskiptavina nytu fullnægjandi tryggingar fyrir og eftir yfirtökuna. Þá megi augljóst vera að markaðssókn varnaraðila á Mön hefði verið dauðadæmd ef legið hefði fyrir að innstæður nytu lakari trygginga en tíðkaðist hjá þeim sem keppt var við. Telur sóknaraðili að stjórn varnaraðila hafi vitað eða a.m.k. mátt vita um þýðingu allra þessara atriða fyrir rekstur sóknaraðila í kjölfar yfirtökunnar. Engu máli skipti hins vegar þótt móðurfélagsábyrgðin hafi upphaflega verið veitt í tengslum við fyrirhugaða yfirtöku á starfsemi Nationwide International, enda hafi hún allt eins nýst við yfirtöku á Derbyshire Offshore, og því óþarft að gefa hana út að nýju. Þá telur sóknaraðili líklegt að þessi atriði hafi verið rædd innan stjórnar varnaraðila í tengslum við fyrirhuguðu yfirtöku á Nationwide International. Ekki sé síður líklegt að þetta hafi verið hluti umræðna stjórnar varnaraðila vegna fyrirhugaðrar yfirtöku Derbyshire Offshore. Eðli málsins samkvæmt eigi sóknaraðili þó örðugt um vik með sönnun á þessum atriðum, enda liggi allar upplýsingar hjá varnaraðila. Einu upplýsingarnar sem sóknaraðili hafi um fundi stjórnar varnaraðila vegna ofangreindra viðskipta séu þær að stjórnin hafi samþykkt yfirtökuna á stjórnarfundi 25. október 2007 og að á þeim fundi hafi legið frammi kynningarefni um stöðu hins svonefnda „Project Dragnet“, þ.e. yfirtökunnar á Derbyshire Offshore. Sérstaka athygli veki hins vegar að kynningarefnið beri einnig yfirskriftina „Progress Update“. Því verði að ætla að yfirtakan hafi áður verið rædd innan stjórnarinnar. Í ljósi framanritaðs telur sóknaraðili að stjórn varnaraðila hafi í raun tekið ákvörðun þess efnis að varnaraðili skyldi veita sóknaraðila móðurfélagsábyrgðina. Að auki bendir sóknaraðili á að margir háttsettir starfsmenn varnaraðila hafi fullkomlega verið meðvitaðir um að gefa ætti út eða gefin hefði verið út móðurfélagsábyrgð gagnvart skuldbindingum sóknaraðila. Vísar hann í því sambandi til framlagðra gagna og bendir sérstaklega á að starfsmenn lögfræðisviðs varnaraðila hafi endanlega útfært móðurfélagsábyrgðina og fengið hana þar til bærum aðila til undirritunar, lýst yfir skuldbindingargildi hennar gagnvart Fjármálaeftirlitinu hér á landi og síðar ítrekað í samskiptum við sóknaraðila staðfest að slík ábyrgð væri í gildi. Fullyrðir sóknaraðili að enginn starfsmanna varnaraðila hafi borið brigður á skuldbindingargildi ábyrgðarinnar. 

Í öðru lagi kveðst sóknaraðili byggja kröfu sína á því að Ingólfur Helgason hafi með því að rita undir móðurfélagsábyrgðina skuldbundið varnaraðila með lagalega bindandi hætti í samræmi við efni ábyrgðarinnar, þar sem hann hafi verið til þess bær og haft til þess fullnægjandi heimild á grundvelli prókúruumboðs samkvæmt umboðslista varnaraðila. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til 25. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, þar sem kveðið sé á um efnisinntak prókúruumboðs. Komi þar fram að prókúruhafi hafi vald til fyrir umbjóðanda að annast allt það er snertir atvinnurekstur hans og rita firmað. Hins vegar megi prókúruhafi hvorki selja né veðsetja fasteignir umbjóðanda síns, nema hann hafi til þess beint umboð.

Samkvæmt II. kafla áðurnefnds umboðslista hafi stjórn varnaraðila veitt Ingólfi Helgasyni, sem framkvæmdastjóra varnaraðila á Íslandi, prókúruumboð, sbr. 4. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga. Á grundvelli þess hafi Ingólfur haft heimild til að annast allt það er snerti rekstur atvinnu varnaraðila og rita firma. Takmörkun prókúruumboðs samkvæmt 25. gr. laga nr. 42/1903 hafi ekki átt við, þar sem Ingólfi hafi samkvæmt umboðslistanum verið veitt beint umboð til þess m.a. að selja og veðsetja fasteignir varnaraðila. Frekari takmarkanir hafi stjórn varnaraðila ekki mátt gera á umboðinu samkvæmt 27. gr. sömu laga, hvorki efnislegar né tímabundnar, ætti það að vera gilt gagnvart grandlausum þriðja aðila. Hafi svo ekki verið gert og því augljóst að umboðslistanum hafi verið ætlað að hafa gildi að þessu leyti gagnvart grandlausum þriðja aðila. Telur sóknaraðili að ráðstöfun Ingólfs, sem fólst í því að rita undir móðurfélagsábyrgðina fyrir hönd varnaraðila, hafi fallið innan heimildar hans samkvæmt prókúruumboðinu. Ábyrgðin hafi tengst atvinnurekstri varnaraðila, þar eð tilgangur varnaraðila samkvæmt þeim samþykktum sem í gildi hafi verið þegar móðurfélagsábyrgðin var undirrituð, hafi verið „fjármálaþjónusta og önnur sú starfsemi sem rekin verður í eðlilegum tengslum við hana“, eins og segi í samþykktum félagsins. Ábyrgðin hafi verið undirrituð í samræmi við þann tilgang, enda markmið útgáfu hennar að auka fjármálaþjónustu varnaraðila og aðra starfsemi í eðlilegum tengslum við hana, og greiða þannig fyrir frekari umsvifum sóknaraðila á Mön, í því skyni að styrkja lausafjárstöðu varnaraðila.

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að Ingólfur Helgason hafi með undirritun sinni skuldbundið varnaraðila með lagalega bindandi hætti á grundvelli stöðu og umboðs síns, sem framkvæmdastjóri varnaraðila. Hafi sóknaraðili verið grandlaus um annað en að ábyrgðin væri undirrituð af einstaklingi í stöðu framkvæmdastjóra félagsins, enda hafi Ingólfur ritað undir sem þar til bær starfsmaður og framkvæmdastjóri varnaraðila. Þar sem afmarka verði stöðuumboðið út frá sóknaraðila, þurfi að taka til skoðunar hvort umrædd ráðstöfun, þ.e. undirritun móðurfélagsábyrgðarinnar og skuldbindingargildi hennar gagnvart varnaraðila, hafi rúmast innan stöðuumboðs framkvæmdastjóra varnaraðila.

Að dómi sóknaraðila féll undirritun móðurfélagsábyrgðarinnar undir hefðbundna ráðstöfun framkvæmdastjóra, í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.  Í því sambandi leggur hann sérstaka áherslu á þá staðreynd að á þessum tíma var varnaraðili langstærsta félag á Íslandi og með stærstu fjármálafyrirtækjum á Norðurlöndunum. Ljóst megi því vera að allar ráðstafanir framkvæmdastjórans hafi verið stærri í sniðum en ráðstafanir í öðrum félögum á Íslandi. Í ráðstöfuninni hafi falist fjárhagsleg skuldbinding varnaraðila, sem verið hafi í samræmi við tilgang hans, og hafi framkvæmdastjóri ritað undir ábyrgðaryfirlýsinguna með hagsmuni varnaraðila að leiðarljósi. Sú ráðstöfun geti ekki talist óvenjuleg, að virtu eðli, tegund og umsvifum starfsemi varnaraðila. Ekki geti hún heldur talist mikils háttar, þegar tekið sé mið af heildarumsvifum og rekstrargrundvelli varnaraðila, en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 hafi heildareignir félagsins verið rúmlega 5.000 milljarðar íslenskra króna. Krafa sóknaraðila samkvæmt móðurfélagsábyrgðinni nemi hins vegar 463,2 milljónum sterlingspunda, eða sem svari til um rúmlega 59 milljarða íslenskra króna miðað við skráð miðgengi sterlingspunda hjá Seðlabanka Íslands fyrir árið 2007. Skuldbindingin hafi því svarað til um 1% af heildareignum varnaraðila, sem vart geti talist mikils háttar í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995, eða haft verulega þýðingu fyrir varnaraðila. Í þessu ljósi áréttar sóknaraðili að ráðstöfunin hafi fallið innan marka umboðs Ingólfs Helgasonar.

Í fjórða lagi reisir sóknaraðili kröfu sína á því að Ingólfur Helgason hafi skuldbundið varnaraðila í samræmi við efni ábyrgðarinnar með lagalega bindandi hætti á grundvelli stöðuumboðs samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Telur sóknaraðili að umrædd ráðstöfun hafi verið venjuleg, miðað við þá stöðu sem Ingólfur gegndi hjá varnaraðila, enda hafi hann verið einn lykilstarfsmanna í langstærsta félagi á Íslandi. Þá hafi ráðstöfunin verið innan skynsamlegra marka, að teknu tilliti til efnahags félagsins, og hafi því ekki haft verulega þýðingu fyrir starfsemina.

Jafnvel þótt litið yrði svo á að ráðstöfunin hafi ekki verið venjuleg, telur sóknaraðili að hún falli engu að síður innan stöðuumboðs Ingólfs á grundvelli lögmætra væntinga sóknaraðila um skuldbindingargildi móðurfélagsábyrgðarinnar. Verði niðurstaðan hins vegar sú að ekki sé fullnægt skilyrðum stöðuumboðs samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936, byggir sóknaraðili á því að Ingólfur hafi samt sem áður haft stöðuumboð, þar sem undanfarandi, samhliða og eftirfarandi háttsemi varnaraðila hafi gert það að verkum að sóknaraðili hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að Ingólfur hafi raunverulega haft umboðið og heimild til að skuldbinda varnaraðila á þann hátt sem hann gerði með undirritun sinni. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi engar athugasemdir gert við umboðið eða skuldbindinguna fyrr en með bréfi slitastjórnar varnaraðila 18. janúar 2010, eða um tveimur og hálfu ári eftir undirritun hennar. Varnaraðili hafi þannig engin afskipti haft af ráðstöfun Ingólfs, og skipti þá ekki máli hvort það hafi verið gert meðvitað eða ómeðvitað. Með því hafi varnaraðili samþykkt ráðstöfunina, og þar með skuldbindingargildi móðurfélagsábyrgðarinnar.

Verði ekki fallist á framangreind rök byggir sóknaraðili einnig á því að varnaraðili beri ábyrgð á öllum skuldbindingum sóknaraðila samkvæmt yfirlýsingu Hreiðars Más Sigurðssonar, þáverandi framkvæmdastjóra samstæðu varnaraðila, til Fjármálaeftirlitsins á Mön 29. júní 2005. Telur sóknaraðili að Hreiðar Már hafi haft heimild til þess að skuldbinda félagið með þessum hætti og vísar í því sambandi til allra framangreinda sjónarmiða og málsástæðna varðandi umboð og heimild Ingólfs Helgasonar til þess að skuldbinda varnaraðila með löglega bindandi hætti.   

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að undirritun Ingólfs Helgasonar á ábyrgðaryfirlýsinguna hafi ekki rúmast innan umboðs hans, eða telji að ráðstöfunin hafi ekki verið venjuleg, byggir sóknaraðili á því að Ingólfur beri skaðabótaábyrgð gagnvart sóknaraðila, grandlausum þriðja aðila, á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir. Því til stuðnings vísar hann til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 og almennu skaðabótareglunnar. Hafi stjórn varnaraðila hins vegar verið óheimilt að veita Ingólfi umboðið samkvæmt umboðslista varnaraðila, er á því byggt að þeir stjórnarmenn, sem rituðu undir umboðslistann, beri skaðabótaábyrgð gagnvart sóknaraðila vegna þeirrar ólögmætu ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 og almennu skaðabótaregluna. Í báðum tilvikum svari tjón sóknaraðila til fjárhæðar kröfu hans í bú varnaraðila. Varnaraðili beri hins vegar endanlega ábyrgð á skaðaverkinu, og þar með á tjóni sóknaraðila, á grundvelli meginreglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

Að síðustu er krafa sóknaraðila á því reist að móðurfélagsábyrgðin hafi leitt til óréttmætrar auðgunar varnaraðila, sem honum beri að standa sóknaraðila skil á. Því til skýringar vísar sóknaraðili til þess að ábyrgðin hafi verið grundvallarforsenda yfirtökunnar á Derbyshire Offshore, sem leiddi til þess að lausafjárstaða varnaraðila hafi batnað til mikilla muna. Þannig hafi stór hluti fjármuna í formi innstæðna runnið frá sóknaraðila til varnaraðila vegna yfirtökunnar og í kjölfar hennar. Sem dæmi megi nefna millifærslu að fjárhæð 321 milljón sterlingspunda frá sóknaraðila til varnaraðila 27. desember 2007, sem staðið hafi í beinum tengslum við yfirtökuna. Þá hafi móðurfélagsábyrgðin og orðið til þess að þáverandi viðskiptavinir sóknaraðila hafi haldið þar áfram viðskiptum sínum, auk þess sem hún hafi óhjákvæmilega orðið til þess að fjölga viðskiptavinum. Á þessu hafi varnaraðili auðgast og nemi auðgun hans a.m.k. lýstri fjárhæð kröfu sóknaraðila. Eðli málsins samkvæmt standi það varnaraðila þó nær að sýna fram á raunverulega auðgun, eða eftir atvikum að auðgunin hafi verið minni eða jafnvel engin.  

Sóknaraðili telur að krafa hans eigi að njóta rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. 

IV.

Varnaraðili segir óumdeilt að Ingólfur Helgason, framkvæmdastjóri varnaraðila á Íslandi, hafi bæði haft prókúruumboð frá stjórn varnaraðila og heimild til að rita firmað. Þær heimildir sem í því fólust hafi þó verið bundnar lögum samkvæmt við daglegan rekstur og hafi því ekki náð til ráðstafana sem töldust óvenjulegar eða mikils háttar. Með ýmsum hætti hafi því heimildir framkvæmdastjórans til að koma fram fyrir hönd og skuldbinda varnaraðila verið takmarkaðar. 

Í ráðningarsamningi Ingólfs Helgasonar komi fram að hann beri ábyrgð á rekstri Kaupþings banka hf. á Íslandi og beri sem slíkur ábyrgð á daglegum rekstri hans á Íslandi og framfylgi við það stefnu og fyrirmælum stjórnar. Sérstaklega sé tekið fram að daglegur rekstur feli ekki í sér óvenjulegar eða sérlegar aðgerðir, og að slíkar aðgerðir megi framkvæmdastjóri einungis grípa til að fenginni sérstakri heimild stjórnar bankans. Fyrir liggi í máli þessu að engin slík heimild hafi verið fyrir hendi þegar ábyrgðaryfirlýsingin var undirrituð, né hafi hennar verið aflað eftir á. Vert sé einnig að vekja á því athygli að samkvæmt ráðningarsamningi og skipuriti hafi Ingólfur heyrt undir forstjóra samstæðu varnaraðila, Hreiðar Má Sigurðsson. Þá heyrðu erlend dótturfélög og starfsemi þeirra ekki undir daglegan rekstur bankans á Íslandi, heldur féll sú starfsemi að öllu leyti undir svið forstjóra samstæðunnar, eins og sjá megi í ráðningarsamningi Hreiðars Más Sigurðssonar. Starfsemi sóknaraðila á eyjunni Mön var því ekki á ábyrgðarsviði Ingólfs Helgasonar, en féll undir forstjóra samstæðunnar, Hreiðar Má Sigurðsson.

Varnaraðili bendir einnig á að í 22. gr. samþykkta Kaupþings banka hf. komi fram að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur. Þar segi einnig að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, og að slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn. Eins og áður sé getið hafi engin slík heimild legið fyrir frá stjórn varnaraðila. Vekur varnaraðili athygli á því að samþykktir séu æðstu reglur innan hvers félags, og verði þeim ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi eða aukafundi með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða frá hluthöfum er ráði a.m.k. 2/3 hlutafjár, en einnig að samþykktir félagsins hafi verið öllum aðgengilegar á heimasíðu þess, bæði á ensku og íslensku. Sóknaraðili geti því vart borið fyrir sig að honum hafi ekki mátt vera ljóst eða ekki getað kynnt sér hver valdmörkin væru milli framkvæmdastjóra og stjórnar varnaraðila. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á tölvupóst frá framkvæmdastjóra sóknaraðila 13. september 2007, en þar óski sá síðarnefndi eftir því að ábyrgðaryfirlýsingin verði send stjórn varnaraðila til undirritunar. Samkvæmt því megi leiða að því líkur að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita að stjórn varnaraðila væri ein bær um að undirrita ábyrgðaryfirlýsinguna.

Varnaraðili telur að sóknaraðili geti varla í máli þessu talist hafa stöðu grandlauss þriðja aðila. Í því sambandi bendir hann á að sóknaraðili hafi verið starfandi fjármálafyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu frá Mön. Góðu og gegnu fjármálafyrirtæki, sem var að taka á móti slíkri skuldbindingu sem í ábyrgðaryfirlýsingunni fólst, hefði átt að vera kunnugt um að það væri aðeins á færi stjórnar að veita slíka skuldbindingu, og átti því að ganga úr skugga um að heimild frá stjórn lægi fyrir áður en félagið byggði einhvern rétt á henni. Er á því byggt að það hafi a.m.k. verið gáleysi af hálfu sóknaraðila að ganga ekki úr skugga um að þessi heimild stjórnar lægi fyrir.

Að mati varnaraðila leikur ekki vafi á því að umþrætt ábyrðaryfirlýsing var bæði óvenjuleg og mikils háttar, og ekki hluti af daglegum rekstri varnaraðila. Undirritun hennar féll því ekki undir þá heimild sem framkvæmdastjóra varnaraðila á Íslandi hafði verið veitt af stjórn félagsins á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Þá mótmælir varnaraðili sem rangri og án lagastoðar þeirri málsástæðu sóknaraðila að réttur til að rita firma veiti framkvæmdastjóra félags ótakmarkaða heimild til að binda félagið í hverju tilliti, enda sé valdsvið framkvæmdastjóra skýrlega takmarkað við daglegan rekstur samkvæmt 2. mgr. 68. gr. sömu laga.

Kröfu sinni til frekari stuðnings byggir varnaraðili á því að í 21. gr. samþykkta Kaupþings banka hf. komi fram að stjórn félagsins skuli setja reglur um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra, þar sem m.a. komi fram mörk lánaheimilda framkvæmdastjóra. Reglur þessar sé að finna í regluhandbók varnaraðila (e. Internal Control and Procedural Handbook), sem samþykkt hafi verið af stjórn varnaraðila. Þar sé að finna bindandi reglur fyrir starfsmenn bankans, er varði m.a. útlánareglur og áhættustýringu. Þannig sé í kafla 3.3 fjallað um útlánaáhættu, og falli ábyrgðir undir útlánaáhættu samkvæmt gr. 3.3.1. Í gr. 3.3.3 sé fjallað um heimildir til að veita útlán, en ekki sé þar að finna sérstaka útlánaheimild til handa framkvæmdastjóra varnaraðila á Íslandi. Í gr. 3.3.4.4, sem fjalli um útlánaheimildir fyrir lánanefnd viðskiptabankasviðs, komi þó fram að framkvæmdastjóri varnaraðila á Íslandi hafi heimild til að veita vissum aðilum lánaheimild, allt að 40.000.000 króna. Sérstaklega sé þar tekið fram að allar lánveitingar yfir 40.000.000 króna þurfi að bera undir nefndina. Í samræmi við skilgreiningu á útlánaáhættu í gr. 3.3.1 telur varnaraðili ljóst að heimild Ingólfs Helgasonar, hafi hann yfirhöfuð haft heimild til að samþykkja og/eða veita ábyrgð, hafi einnig verið bundin við 40.000.000 króna hámark. Þessi ályktun fái einnig stoð í nýjum útlánareglum, sem tóku gildi 27. september 2007, en þar sé í gr. 3.3.3.3.4 sérstaklega fjallað um útlánaheimild framkvæmdastjóra varnaraðila á Íslandi, og komi þar fram að útlánaheimild til einstaks aðila sé að hámarki bundin við 40.000.000 krónur. Með því að skrifa undir ábyrgðaryfirlýsinguna 17. september 2007 telur varnaraðili að Ingólfur Helgason hafi ekki aðeins farið út fyrir þau valdmörk sem lög um hlutafélög nr. 2/1995 höfðu sett honum, heldur hafi hann einnig klárlega farið út fyrir þau heimildarmörk sem honum voru sett samkvæmt innri reglum varnaraðila. Hafi sóknaraðila mátt vera það ljóst.

Varnaraðili hafnar því að svokallaður umboðslisti eða undirskriftalisti frá 1. nóvember 2006 hafi falið í sér lögmætt umboð til handa framkvæmdastjóra bankans á Íslandi til að binda varnaraðila við óvenjulega og mikils háttar ráðstöfun, án samþykkis stjórnar. Byggir hann á því að varnaraðili sé ekki bundinn af slíkum ráðstöfunum samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 77. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.

Í umræddum lista hafi verið tilgreindar heimildir einstakra aðila innan varnaraðila til að undirrita skjöl og löggerninga fyrir hönd varnaraðila. Þannig hafi framkvæmdastjóri bankans á Íslandi haft sömu heimildir og stjórnarformaður og forstjóri samstæðu varnaraðila til að binda varnaraðila í hvaða máli sem er, þ.á m. til að selja og veðsetja fasteignir félagsins. Þrátt fyrir að Ingólfi Helgasyni hafi þar verið veittar mjög rúmar heimildir af hálfu stjórnar, leggur varnaraðili áherslu á að stjórn bankans hafi að lögum verið óheimilt að framselja vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir. Umboðslistinn hafi ekki verið bundinn neinum takmörkunum að því er varðar framkvæmdastjóra bankans á Íslandi og hafi hann þannig í raun falið í sér opna heimild hans til að skuldbinda bankann, án þess að fyrir lægi mat stjórnar á þeim skuldbindingum. Að dómi varnaraðila verði mat á ráðstöfunum, sem teljist óvenjulegar eða mikils háttar, ekki falið framkvæmdastjóra einum, heldur verði slíkt mat að liggja hjá stjórn viðkomandi félags. Einu gildi þá hvort viðkomandi aðili beri starfstitilinn framkvæmdastjóri eða forstjóri, enda starfssviðið það sama. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 678/2008, sem hann telur skýrt fordæmi við úrlausn málsins.

Á því er byggt að útgáfa og undirritun ábyrgðaryfirlýsingar 17. september 2007, þar sem varnaraðili ábyrgðist allar skuldbindingar sóknaraðila, hafi verið óvenjuleg og mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Í því sambandi vísar varnaraðili til þess að ábyrgðaryfirlýsingin hafi í raun verið opinn tékki og átt að ábyrgjast allar skuldbindingar sóknaraðila, án nokkurra takmarkana. Sóknaraðili hafi lýst kröfu í bú varnaraðila undir ábyrgðaryfirlýsingunni, að fjárhæð 88.508.256.000 íslenskar krónur, og því einsýnt að útgáfa og undirritun hennar hafi verið óvenjuleg og mikils háttar ráðstöfun, um leið og sú ráðstöfun hafi ekki fallið undir þann daglega rekstur sem framkvæmdastjóri varnaraðila á Íslandi átti að annast. Krafa sóknaraðila nemi þannig rúmlega tvö þúsund og tvö hundruðfaldri hámarksfjárhæð lánaheimildar Ingólfs Helgasonar samkvæmt áðurnefndri regluhandbók varnaraðila. Beri hér einnig að líta til þess að umrædd ábyrgðaryfirlýsing sé eina sinnar tegundar innan bankans og hafi engar aðrar sambærilegar ábyrgðir verið veittar til annarra dótturfélaga varnaraðila eða félaga innan samstæðunnar, hvað þá til þriðja aðila. Ábyrgðin hafi ekki heldur verið skráð í neinum lánakerfum varnaraðila né hennar getið í ársreikningi félagsins. Telur varnaraðili að í engum skilningi sé um hefðbundna ábyrgð að ræða, sem hafi tíðkast í daglegri starfsemi varnaraðila sem viðskiptabanka. Þá mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið grundvöllur og forsenda þess að varnaraðili gæti gengið frá kaupum á Derbyshire Offshore. Þvert á móti komi skýrt fram á minnisblaði vegna fundar Fjármálaeftirlitsins á Mön með fulltrúa Derbyshire Offshore, að móðurfélagsábyrgð kaupanda væri ekki forsenda fyrir sölu, heldur færi slíkt eftir stöðu kaupanda. Þar sem sóknaraðili hélt því hins vegar ávallt fram gagnvart Fjármálaeftirlitinu á Mön að slík gild ábyrgð væri til staðar frá varnaraðila, reyndi aldrei á það hvort eftirlitið gerði slíka ábyrgð að skilyrði fyrir kaupum á Derbyshire Offshore. Byggir varnaraðili á því að á sóknaraðila hvíli sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið.

Varnaraðili mótmælir einnig sem rangri þeirri fullyrðingu sóknaraðila að útgáfa ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi ekki talist mikils háttar, þar sem hún hafi eingöngu svarað til lítils hluta eigna varnaraðila. Þvert á móti telur hann að með réttu megi halda því fram að útgáfa ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi svarað til stórrar áhættuskuldbindingar hjá bankanum, og jafnvel farið yfir hámark slíkrar áhættuskuldbindingar samkvæmt lögum. Í því efni vísar hann til þess að áhætta (áhættuskuldbinding) sé skilgreind í 2. mgr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, og falli veitt ábyrgð vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslegra tengdra aðila þar undir. Stór áhætta sé áhætta sem nemi 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Miðað við eiginfjárgrunn varnaraðila 30. september 2007, þ.e. 464.851.925.000 krónur, nemi krafa sóknaraðila 19% af eiginfjárgrunni. Ljóst sé því að áhætta varnaraðila vegna ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi verið veruleg. Sé hins vegar miðað við heildarskuldbindingar sóknaraðila, sem samkvæmt kröfulýsingu hans 30. desember 2009 voru u.þ.b. 221.996.744.000 sterlingspund, teljist áhætta varnaraðila vera 47,7% af eiginfjárgrunni, og því langt yfir leyfilegum mörkum stórrar áhættuskuldbindingar. Hámark slíkrar áhættu sé 25% vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002. Gildi hér einu þótt ábyrgðaryfirlýsingin sem slík hafi mögulega ekki fallið undir ákvæði 30. gr. laganna, þar sem um áhættu innan samstæðu sé að ræða. Telur varnaraðili að vegna þeirrar gríðarlegu skuldbindingar sem í henni fólust leiki ekki vafi á að hún teljist óvenjuleg og veruleg. Um leið kveðst varnaraðili ekki sjá hvernig hægt sé að halda því fram að skuldbinding upp á rúma 88 milljarða geti talist venjuleg og/eða lítils háttar.

Við mat á ráðstöfuninni sem slíkri telur varnaraðili að einnig beri að horfa til þess að ábyrgðaryfirlýsingin hafi í raun verið ótakmörkuð og án fjárhæða. Því hefði tap sóknaraðila, sem ábyrgðaryfirlýsingunni var ætlað að bæta, allt eins getað orðið hærri fjárhæð en þeir 88 milljarðar króna sem sóknaraðili lýsi í bú varnaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar enga beina stjórn eða tækifæri haft til að takmarka þær skuldbindingar sem sóknaraðili hafi undirgengist í  rekstri sínum. Engu að síður hafi honum verið ætlað að bera beina og óskilyrta ábyrgð á þeim öllum. Sýni það aftur hversu óvenjuleg og mikils háttar þessi ráðstöfun var fyrir varnaraðila.

Í þessu sambandi telur varnaraðili að einnig beri hér að horfa til útlánareglna bankans. Eini aðilinn innan hans, fyrir utan stjórn, sem mögulega gat lánað slíkar fjárhæðir hafi verið lánanefnd stjórnar, en nefndinni bar að fjalla um lánveitingar (þ.m.t. ábyrgðir) sem námu yfir 165.000.000 evrum (27.922.950.000 íslenskum krónum) og að lögbundnu hámarki, þ.e. 25% af eiginfjárgrunni. Fyrir liggi hins vegar að umrædd ábyrgðaryfirlýsing hafi þó aldrei komið til umræðu eða samþykktar á fundum lánanefndar stjórnar varnaraðila á árinu 2007. 

Við mat á því hvort umrædd ráðstöfun teljist óvenjuleg og veruleg telur varnaraðili að jafnframt beri að horfa til stöðu kröfuhafa varnaraðila. Þannig hafi þeir kröfuhafar sem lánuðu móðurfélaginu, þ.e.a.s. varnaraðila, mátt treysta því að skuldbindingar þess væru ekki umfram það sem fram kæmi í ársreikningum þess. Einnig hafi þeir mátt treysta því að varnaraðili bæri eingöngu ábyrgð á skuldbindingum útibúa sinna, en að öll dótturfélög þess stæðu sjálfstæð og að engin bein ábyrgð væri þar á milli. Ein af höfuðröksemdum þess að hafa starfsemi erlendis í dótturfélögum sé einmitt sú að minnka beinar skuldbindingar á móðurfélagið hérlendis. Allar undantekningar frá þeirri meginreglu að móðurfélag beri ekki beina ábyrgð á skuldbindingum dótturfélags verði því að teljast óvenjulegar og verulegar. Eigi það sérstaklega við í þessu tilfelli, þar sem um sé að ræða kröfu á varnaraðila upp á 88 milljarða íslenskra króna.

Að öllu ofangreindu virtu telur varnaraðili sig ekki bundinn við þann gerning sem fólst í undirritun ábyrgðaryfirlýsingarinnar, þar sem þáverandi framkvæmdastjóri varnaraðila á Íslandi hafi farið út fyrir þær heimildir sem honum voru ákveðnar lögum samkvæmt, sbr. 1. tl. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995.

Varnaraðili mótmælir enn fremur, sem rangri og án lagastoðar, þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili verði bundinn samkvæmt efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar á grundvelli athafnaleysis. Vísar hann í þeim efnum til fyrri málsástæðna og leggur áherslu á að þar til bærir aðilar innan bankans hafi hvorki fyrr né síðar samþykkt ábyrgðaryfirlýsinguna með neinum hætti. Þá telur hann ekki óeðlilegt að ekki hafi komið fram athugasemdir við ábyrgðaryfirlýsinguna fyrr en við afstöðu slitastjórnar, enda hafi hún hvergi verið skráð í kerfum bankans og að því er virðist einungis farið um hendur fárra aðila innan hans. Einnig áréttar varnaraðili að umrædd ábyrgðaryfirlýsing hafi aldrei verið lögð fyrir stjórn varnaraðila né lánanefnd stjórnar til umræðu eða samþykktar. Stjórn varnaraðila hafi ekki haft vitneskju um hana og hafi því ekkert tilefni haft til aðgerða. Geti hún því með engu móti bundið varnaraðila vegna meints athafnaleysis. Breyti hér engu þótt almennir starfsmenn varnaraðila hafi ekki gert athugasemdir við gildi hennar, þ.á m. starfsmenn lögfræðisviðs varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er því einnig harðlega mótmælt að í bréfi Hreiðars Más Sigurðssonar til Fjármálaeftirlitsins á Mön hafi falist einhvers konar ábyrgðaryfirlýsing til handa sóknaraðila vegna allra skuldbindinga félagsins. Telur hann að umrætt bréf feli ekki í sér meira en viljayfirlýsingu til handa viðkomandi yfirvöldum um að varnaraðili muni styðja við sóknaraðila, komi til þess að slíkt þurfi. Megi ljóst vera að slík viljayfirlýsing hafi ekkert gildi þegar varnaraðili sjálfur er ófær um að mæta eigin fjárhagslegu skuldbindingum og er í slitameðferð. Þá er á það bent að umrætt bréf hafi verið skrifað um mitt ár 2005 og standi það í engum tengslum við ágreiningsefni þessa máls, þ.e. gildi ábyrgðaryfirlýsingar til handa sóknaraðila frá 17. september 2007. Verði hins vegar talið að umrætt bréf feli í sér einhvers konar skuldbindingu af hálfu varnaraðila, telur varnaraðili ljóst að slík skuldbinding beinist eingöngu að Fjármálaeftirlitinu á Mön og/eða viðkomandi yfirvöldum, en ekki gagnvart sóknaraðila sjálfum, og geti hann því engan rétt byggt á bréfinu.

Þeirri málsástæðu sóknaraðila, að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, verði ábyrgðaryfirlýsingin ekki talin skuldbindandi, mótmælir varnaraðili einnig og telur hana bæði vanreifaða og órökstudda. Grundvallarskilyrði skaðabótaskyldu séu ekki uppfyllt í málinu. Þannig liggi ekki fyrir að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni, hvert það tjón sé og hvernig megi rekja það til saknæmrar háttsemi starfsmanna varnaraðila, sem varnaraðili eigi að bera ábyrgð á. Þá liggi ekki fyrir beint orsakasamband milli hinnar meintu saknæmu háttsemi og meints tjóns sóknaraðila. Ekki liggi heldur fyrir að hið meinta tjón sé bein afleiðing af háttsemi varnaraðila eða starfsmanna hans. Loks mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili geti talist grandlaus þriðji aðili eins og hann haldi fram og vísar í því efni til fyrri reifunar. Byggir varnaraðili einnig á því að það færi gegn tilgangi ákvæðis 77. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, ef samþykkt yrði að félag sem ekki yrði talið bundið við tiltekinn löggerning á grundvelli 1. tl. 1. mgr. ákvæðisins, yrði talið skaðabótaskylt vegna þess að löggerningurinn komst ekki á. Yrði slíkt viðurkennt hefði ákvæði 77. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, engan tilgang, eða a.m.k. mjög takmarkaðan tilgang.

Að endingu mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila, er byggir á óréttmætri auðgun, og telur hana vanreifaða og í grundvallaratriðum ranga. Sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á hvernig varnaraðili eigi að hafa auðgast, verði ábyrgðaryfirlýsingin talin óskuldbindandi. Þá hafi sóknaraðili heldur ekki rökstutt eða sýnt fram á að slík auðgun hafi verið á kostnað sóknaraðila. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að sóknaraðili tengi auðgunina að öllu leyti við innstæður viðskiptavina sinna, þ.e. að þær hafi aukist á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Hins vegar hafi sóknaraðili engan reka gert að því að sýna fram á eða útskýra hvernig kröfu hans, sem er fyrir öllum skuldbindingum sóknaraðila (þ.e. mismun á eigna- og skuldastöðu), megi eingöngu rekja til aðila sem lögðu inn fé á innlánsreikninga sóknaraðila í trausti ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Þvert á móti geri sóknaraðili kröfu um greiðslu á öllum skuldbindingum félagsins, óháð því hvernig þær séu tilkomnar og óháð því hvort þær hafi orðið til fyrir eða eftir útgáfu ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Þá ítrekar varnaraðili fyrri mótmæli sín við þeirri fullyrðingu sóknaraðili að ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið forsenda yfirtöku á Derbyshire Offshore, enda sé hún röng.

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til 68., 74. og 77. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, en einnig almennt til lögfestra og ólögfestra meginreglna á sviði skaðabótaréttar, og þá sérstaklega til meginreglunnar um skaðabætur utan samninga, sbr. sakarregluna. Málskostnaðarkrafa hans styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

V.

Í máli þessu deila aðilar um gildi ábyrgðaryfirlýsingar, sem Ingólfur Helgason, þáverandi framkvæmdastjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi, gaf út 17. september 2007. Efni yfirlýsingarinnar og aðdraganda að gerð hennar hafa verið gerð skil hér að framan. Byggir sóknaraðili einkum á því að Ingólfur hafi haft fullnægjandi umboð til að skuldbinda varnaraðila í samræmi við efni ábyrgðarinnar með lagalega bindandi hætti, enda hafi hann gegnt starfi framkvæmdastjóra og bæði haft prókúruumboð fyrir félagið og heimild til að rita firma þess. Varnaraðili hafnar því hins vegar að Ingólfur hafi haft umboð til að skuldbinda félagið með þeim hætti sem ábyrgðaryfirlýsingin kvað á um.

Samkvæmt ráðningarsamningi var Ingólfur Helgasonar ráðinn forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og bar hann ábyrgð á rekstri bankans hér á landi, ásamt stjórn. Um starf forstjórans segir m.a. svo í ráðningarsamningi: „Forstjóri bankans og stjórn hans bera sameiginlega ábyrgð á stjórn bankans. Forstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri og framfylg[ir] við það fyrirmælum og stefnu stjórnar. Daglegur rekstur felur ekki í sér óvenjulegar eða sérlegar aðgerðir. Forstjóri gríp[ur] einungis til slíkra aðgerða að fenginni sérstakri heimild stjórnar bankans, nema ómögulegt reynist að bíða ákvarðana stjórnar án þess að rekstur bankans hljóti verulegan skaða af. Í slíkum tilvikum skal tafarlaust tilkynna stjórn bankans um slíkar aðgerðir.“ Þá segir þar að Ingólfur heyri undir stjórn Kaupþings Banka hf. á Íslandi og forstjóra Kaupþings samstæðunnar. Að öðru leyti fari um starfssvið hans eftir samþykktum félagsins. Um starf framkvæmdastjóra er fjallað í 22. gr. samþykkta fyrir Kaupþing banka hf., og er því efnislega lýst með sama hætti og hér að ofan.

Meðal gagna málsins er einnig ráðningarsamningur Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra samstæðu Kaupþings banka hf. Aðalverkefni hans var að sjá um daglega starfsemi bankans, sem samstæðu, og samræma starfsemi hinna ýmsu eininga innan samstæðunnar. Tekið er fram í samningnum að auk starfsemi á Íslandi reki bankinn alþjóðlegar skrifstofur og dótturfélög í Evrópu og Bandaríkjunum. Með sama hætti og í ráðningarsamningi Ingólfs Helgasonar er mælt fyrir um að daglegur rekstur forstjórans nái ekki til óvenjulegra eða sérstakra ráðstafana, og þurfi hann sérstaka heimild stjórnar til slíkra ráðstafana.

Í skýrslu sinni fyrir dómi staðfesti Ingólfur Helgason að hann hefði borið ábyrgð á innlendri starfsemi Kaupþings banka hf., og hefði bankinn verið rekinn sem deild innan móðurfélagsins, þ.e. Kaupþings samstæðunnar. Næsti yfirmaður hans hafi verið forstjóri samstæðunnar, Hreiðar Már Sigurðsson, sem jafnframt hefði borið ábyrgð á erlendri starfsemi bankans. Kvaðst hann því ekki með beinum hætti hafa haft með erlenda starfsemi að gera, þótt hann teldi sig engu að síður hafa haft heimild til að rita undir ábyrgðaryfirlýsinguna á grundvelli fyrirliggjandi undirskriftarlista stjórnar bankans. Sagði hann að stjórn félagsins hefði bætt nafni sínu á þann lista vegna tíðra ferðalaga Hreiðars Más. Tók hann einnig fram að hann væri þess fullviss að hann hefði borið efni yfirlýsingarinnar undir Hreiðar Má áður en hann undirritaði hana. Hins vegar sagðist hann ekki vita til þess að yfirlýsingin hafi verið borin undir stjórn félagsins. Enginn þeirra stjórnarmanna, sem gáfu skýrslu fyrir dóminum, minntist þess heldur að stjórn félagsins hefði fjallað um ábyrgðaryfirlýsinguna eða samþykkt hana. Ágreiningslaust er að í fundargerðum Kaupþings banka hf. er ekki að finna samþykkt stjórnar fyrir umræddri ábyrgðaryfirlýsingu.

Fram er komið að þáverandi framkvæmdastjóri sóknaraðila, Aidan Doherty, og starfsmenn varnaraðila skiptust á tölvuskeytum í byrjun september 2007, þar sem fjallað var um þýðingu móðurfélagsábyrgðar við fyrirhugðuð kaup varnaraðila á fjármálafyrirtækjum á Mön, svo og orðalag fyrirhugaðrar ábyrgðaryfirlýsingar. Eftir því sem næst verður komist voru fyrstu drög að orðalagi hennar sótt í ábyrgðaryfirlýsingu sem gefin hafði verið út af Derbyshire Building Society. Sú ábyrgðaryfirlýsing er meðal gagna málsins, en er að því leyti frábrugðin þeirri yfirlýsingu sem hér er fjallað um, að þar er tekið fram að hún sé undirrituð með heimild stjórnar. Af framlögðum tölvupóstum má einnig sjá að upphaflega var gert ráð fyrir því að stjórn varnaraðila samþykkti ábyrgðaryfirlýsinguna. Af ókunnum ástæðum var þó horfið frá því á síðari stigum. Hins vegar kemur fram í tölvupósti frá Aidan Doherty 13. september 2007 til Guðna Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar hjá varnaraðila, að hann samþykki orðalag yfirlýsingarinnar, en bætir því við að hún geti tekið gildi þegar hann [þ.e. Guðni] hafi fengið samþykki stjórnarinnar í Reykjavík. Verður helst af því ráðið að þáverandi framkvæmdastjóri sóknaraðila hafi a.m.k. verið þess meðvitaður að stjórn félagsins þyrfti að samþykkja yfirlýsinguna til þess að hún öðlaðist gildi. Til þess kom þó ekki, þar sem Ingólfur Helgason ritaði einn undir yfirlýsinguna, án þess að hún væri borin undir stjórn varnaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal annast um að skipulag og starfsemi félagsins sé jafnan í réttu og góðu horfi. Þá segir þar að félagsstjórn og framkvæmdastjóri fari með stjórn félagsins. Í 2. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Tekið er þar fram að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, og geti framkvæmdastjórinn aðeins gert slíkar ráðstafanir samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða þeirrar ákvörðunar stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal þó félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Að þessu leyti er 22. gr. samþykkta Kaupþings banka hf. samhljóða tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995.

Ekki er um það deilt að stjórn Kaupþings banka hf. hafði bæði veitt Ingólfi Helgasyni prókúruumboð fyrir félagið og heimild til að rita firma þess, sbr. 4. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995. Var það gert með lista yfir undirritunarheimildir frá stjórn félagsins, sem gefinn var út 1. nóvember 2006. Í II. kafla þess lista segir að formaður stjórnar, forstjóri samstæðunnar og forstjórinn á Íslandi skuli fara með prókúruumboð og hafa sameiginlega eða hver fyrir sig heimild til að skuldbinda félagið í öllum málum, þ.á m. til að selja og veðsetja fasteignir félagsins. Þrátt fyrir víðtækar heimildir forstjóra voru þær engu að síður bundnar þeim takmörkunum að þær tóku ekki til ráðstafana sem voru óvenjulegar eða mikils háttar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 og 22. gr. samþykkta félagsins. Í slíkum tilvikum bar forstjóranum að leita heimildar stjórnar eða tilkynna stjórn tafarlaust um þá ráðstöfun, gæfist ekki ráðrúm til þess fyrir fram. Gat stjórn félagsins hvorki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um slíkar ráðstafanir, né hafði hún vald til að fela framkvæmdastjóra mat á því hvort þær ráðstafanir rúmuðust innan starfssviðs hans. Vísast í þessu efni til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 678/2008, sem upp var kveðinn 24. september 2009. Er dómurinn skýrt fordæmi við úrlausn þessa máls.

Í umræddri ábyrgðaryfirlýsingu fólst að varnaraðili ábyrgðist að efna skuldbindingar sóknaraðila að því marki sem sóknaraðili væri ófær um að greiða skuldir sem byggðu á réttmætum kröfum á hendur félaginu með eigin eignum. Ekkert liggur fyrir um eigna- og skuldastöðu sóknaraðila á þeim tíma sem yfirlýsingin var gefin út, né um umfang starfsemi hans. Hins vegar er fram komið að yfirlýsingin var liður í því að auka tiltrú viðskiptavina sóknaraðila á öryggi innstæðna vegna áforma varnaraðila um aukin umsvif í bankastarfsemi á eynni Mön. Gengju þau áform eftir, svo sem raunin varð með kaupum varnaraðila og yfirtöku á fjármálafyrirtækinu Derbyshire Offshore, fór ekki á milli mála að sú áhætta sem fólst í yfirlýsingunni jókst að sama skapi. Yfirlýsingin var að auki ekki sérstaklega bundin við kaup eða yfirtöku á einu tilgreindu fjármálafyrirtæki, heldur fól hún í raun í sér hvers kyns skuldbindingar sem sóknaraðili kynni að stofna til í framtíðinni, hvort sem var vegna kaupa á ótilgreindum fjölda fjármálafyrirtækja eða af öðru tilefni. Í því ljósi er það mat dómsins að ábyrgðaryfirlýsingin sé bæði óvenjuleg og mikils háttar ráðstöfun, sem aðeins stjórn varnaraðila gat heimilað. Með undirritun sinni á umrædda ábyrgðaryfirlýsingu fór Ingólfur Helgason því út fyrir þær heimildir sem hann hafði til að rita firmað á grundvelli 74. og 75. gr. laga nr. 2/1995, sbr. og 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Um leið fór hann út fyrir þær heimildir sem fólust í prókúruumboði hans, enda takmarkaðist það umboð bæði af fyrirmælum 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995, en einnig af 22. gr. samþykkta Kaupþings banka hf. og ráðningarsamningi hans. Skiptir þá engu máli þótt Ingólfur kunni áður að hafa ráðfært sig við forstjóra samstæðunnar, enda hafði hann ekki heldur heimild til að samþykkja slíka ráðstöfun án samþykkis stjórnar. Reyndar er með öllu ósannað að Ingólfur hafi áður ráðfært sig við forstjóra samstæðunnar. Ekki þykir heldur hald í þeirri málsástæðu sóknaraðila að vegna undanfarandi, samhliða og eftirfarandi athafnaleysis varnaraðila hafi sóknaraðili haft réttmæta ástæðu til að ætla að Ingólfur hafi haft heimild til að skuldbinda varnaraðila í samræmi við efni yfirlýsingarinnar. Er þá sérstaklega til þess horft að ekkert í gögnum málsins bendir til þess að stjórn varnaraðila hafi haft vitneskju um yfirlýsinguna. Gafst stjórninni því ekki tilefni til að fjalla um hana eða bregðast við henni ef svo bar undir. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að umrædd ábyrgðaryfirlýsing skuldbindi varnaraðila, sbr. 1. tl. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.

Sóknaraðili byggir einnig á því að varnaraðili beri ábyrgð á skuldbindingum sóknaraðila á grundvelli yfirlýsingar Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra samstæðu Kaupþings banka hf., til Fjármálaeftirlitsins á Mön 29. júní 2005. Í yfirlýsingunni kemur fram að það samrýmist viðskiptalegum hagsmunum Kaupþings banka hf. að Singer & Friedlander (Isle of Man) Limited haldi áfram að greiða skuldir sínar eftir því sem þær falli í gjalddaga og efni skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum. Því viðurkenni Kaupþing banki hf. að bankanum beri skylda, umfram þær lagalegu skyldur sem á honum kunni að hvíla, til að verja fjárhagslegan stöðugleika og til að tryggja að félagið sé ávallt í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar.  

Ekki liggur fyrir hvert var tilefni þessarar yfirlýsingar. Hins vegar ber hún með sér að henni er beint að Fjármálaeftirlitinu á Mön og tekur hún aðeins til skuldbindinga Singer og Friedlander, en ekki sóknaraðila í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu getur sóknaraðili ekki byggt rétt á yfirlýsingunni. Hefur hún því enga þýðingu við úrlausn málsins.

Krafa sóknaraðila er einnig á því reist að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir, telji dómurinn að umrædd ábyrgðaryfirlýsing skuldbindi ekki varnaraðila af þeirri ástæðu að Ingólfur Helgason hafi farið út fyrir umboð sitt við undirritun hennar. Svari tjón sóknaraðila þá til fjárhæðar kröfu hans við slit varnaraðila. Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, og almennu skaðabótareglunnar.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 er það skilyrði fyrir bótaábyrgð á grundvelli 1. mgr. sömu greinar að þriðji maður hafi verið grandlaus um að sá sem löggerning gerði hafi eigi haft nægilegt umboð til að gera hann. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því að tölvupóstur frá þáverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila, Aidan Doherty, bendi til þess að hann hafi talið að stjórn varnaraðila þyrfti að samþykkja ábyrgðaryfirlýsinguna til þess að hún öðlaðist gildi. Þá hlaut honum einnig að vera kunnugt um að erlend starfsemi bankans féll ekki undir starfssvið Ingólfs Helgasonar, en var í verkahring forstjóra samstæðunnar, Hreiðars Más Sigurðssonar. Hvort tveggja gaf þáverandi framkvæmdastjóra réttmæta ástæðu til að ganga úr skugga um gildi yfirlýsingarinnar. Það gerði hann þó ekki. Fyrir vikið þykir óvarlegt að slá því föstu að sóknaraðili hafi verið grandlaus um heimildarskort Ingólfs við undirritun yfirlýsingarinnar. Verður bótaábyrgð því hvorki reist á 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 né almennu skaðabótareglunni. Jafnframt telur dómurinn að á skorti að uppfyllt séu að öðru leyti skilyrði fyrir bótaábyrgð varnaraðila á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, og er þá sérstaklega til þess litið að ekki er sýnt fram á að meint tjón sé afleiðing af háttsemi varnaraðila eða starfsmanna sem hann beri ábyrgð á. Eru því engin efni til að fallast á að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni sóknaraðila vegna heimildarskorts Ingólfs Helgasonar við undirritun títtnefndrar ábyrgðaryfirlýsingar. Því síður standa rök til þess að varnaraðili teljist bótaskyldur vegna ákvörðunar stjórnar bankans um að veita Ingólfi Helgasyni prókúruumboð og umboð til að rita firma félagsins með undirskriftarlista sínum frá 1. nóvember 2006.

Tekið er undir það með varnaraðila að málsástæða sóknaraðila, þess efnis að móðurfélagsábyrgðin hafi leitt til óréttmætrar auðgunar, er vanreifuð. Þannig hefur sóknaraðili ekki fært sönnur á þá fullyrðingu sína að ábyrgðin hafi verið forsenda fyrir yfirtöku og kaupum varnaraðila á fjármálafyrirtækinu Derbyshire Offshore og áframhaldandi og auknum viðskiptum viðskiptavina. Ekki hefur hann heldur sýnt fram á að móðurfélagsábyrgðin hafi verið nauðsynleg forsenda þess að varnaraðili millifærði háar fjárhæðir til sín í kjölfar yfirtökunnar. Loks ber fjárhæð kröfunnar og sundurliðun hennar í kröfulýsingu þess vitni að með henni er sóknaraðili að krefjast greiðslu allra skuldbindinga sem ekki verða greiddar með eignum sóknaraðila, en ekki aðeins þeirra innstæðna sem hann heldur fram að varnaraðili hafi millifært í kjölfar yfirtökunnar. Í því ljósi verður þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað.  

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að hafna beri kröfu sóknaraðila, sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila. Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 1.100.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, Kaupthing Singer & Friedlander Isle of Man Limited, sem lýst var á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar frá 17. september 2007 við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings banka hf., er hafnað.

 Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.100.000 krónur í málskostnað.