Hæstiréttur íslands
Mál nr. 675/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Vitni
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 21. júní 2010. |
|
Nr. 675/2009. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson settur saksóknari) gegn X (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Líkamsárás. Vitni. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið A í andlitið með glerglasi. Í málinu var talið að ekki hefði verið færð fram lögfull sönnun um að X hefði framið það afbrot sem hann var ákærður fyrir og var hann sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
A hefur skilað greinargerð til Hæstaréttar og krefst þess að ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og vexti verði staðfest og að ákærði verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar málsins, en til vara sýknu. Að því fágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá gerir hann kröfu um að skaðabótakröfu A verði aðallega vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
I
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er annars vegar reist á því að frumrannsókn lögreglu sé áfátt sem og sönnunarfærslu ákæruvalds fyrir dómi. Hins vegar telur hann mat héraðsdóms á trúverðugleika vitna rangt og að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ætlaðir annmarkar á frumrannsókn lögreglu og sönnunarfærslu ákæruvalds fyrir dómi eru atriði sem koma til meðferðar við mat á því hvort ákæruvaldið hefur fullnægt sönnunarskyldu sinni í málinu samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 en geta ekki leitt til ómerkingar héraðsdóms. Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að héraðsdómur metur framburð vitnanna E og D ótrúverðugan. Ekki verður talið að niðurstaða málsins ráðist af framburði þessara vitna. Hér á eftir verður vikið að forsendum héraðsdóms að því er varðar vitnisburð A og B. Forsendur dómsins, sem að þessu lúta, eru þess háttar að unnt er að fjalla um þær fyrir Hæstarétti án tillits til mats á trúverðugleika vitnanna. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að fallast á með ákærða að nauðsynlegt hafi verið að beita heimild 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 til þess að fjölskipa héraðsdóm. Verður aðalkröfu ákærða því hafnað.
II
Í málinu liggur fyrir að árásarþoli, vitnið A, og vitnið B báru ekki á staðnum kennsl á mann þann sem veitti A áverkana. Í frumskýrslu lögreglu af vettvangi er haft eftir A að nokkra menn hafi borið að þar sem hann og B ræddu saman. Einn úr hópnum muni heita C og hafa verið með B í [...]skóla. Hafi C ásamt öðrum farið að skipta sér af. Muni C hafa farið að ýta við A sem hafi ýtt á móti en verið sleginn í andlitið með glasi. Hann hafi ekki vitað hver hafi slegið sig með glasinu. Í skýrsluna er einnig skráð: „Erfiðlega gekk að fá framburð frá B vegna ástands og uppnáms en hún gat ekki gefið lýsingu á geranda né öðrum en sagði að C hefði verið á vettvangi með árásarmanni.“ Í skýrslu sem A gaf hjá lögreglu daginn eftir, þegar hann bar fram kæru á hendur ákærða og nafngreindi hann, kvaðst hann hafa verið „nokkuð ölvaður og B var mjög ölvuð.“ Fyrir dómi staðfesti vitnið að hafa haft þessi ummæli við lögreglu.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi kvaðst A hafa komist að nafni ákærða í gegnum G. Hefði hann beðið G að hringja í C, sem G hafi þekkt, til að fá upplýsingar um manninn sem hefði verið í fylgd með honum. Þaðan væri nafn ákærða komið. Í skýrslu sem G gaf hjá lögreglu 25. nóvember 2008 kvaðst hann hafa hringt í C og spurt „hvort það gæti verið að hann hafi verið með X í bænum þessa nótt“. Hefði C kannast við það. Fyrir dómi kvaðst G sjálfur hafa verið með C félaga sínum á veitingastaðnum [...] þetta kvöld. Hefði hann síðar um kvöldið séð hann „með X strákur sem ég man úr [...]“. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst C muna eftir símtali við G en ekki eftir efni þess. Voru þetta efnislega sömu svör og hann hafði gefið lögreglu 22. nóvember 2008.
Fram er komið í málinu að vitnin A og B skoðuðu ljósmyndir af ákærða áður en þau voru kvödd til myndsakbendingar hjá lögreglu 19. maí 2009. Að auki bar B fyrir dómi að hún hefði kannast við ákærða, sem verið hefði í sama grunnskóla og hún. Hefði hún ekki séð hann í mörg ár. „Ég hafði séð hann áður en ég kveikti ekki alveg strax en ég hafði séð andlitið áður.“ Af þessu er ljóst að við myndsakbendinguna voru þessi vitni ekki endilega að benda á mann, sem þau hefðu séð á vettvangi, heldur frekar þann sem þau höfðu síðar á grundvelli eigin athugana talið að hefði veitt A áverkana. Af þessu leiðir að myndsakbendingin hefur ekki þýðingu fyrir sönnunarfærslu ákæruvalds á hendur ákærða, og fá því forsendur héraðsdóms að því er þetta varðar ekki staðist.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er lagt upp úr framburði vitnisins G um hvað vitnið C eigi að hafa sagt við hann í símtali og endursögn G á ætluðum ummælum C lögð til grundvallar. Sá síðarnefndi kom sjálfur fyrir dóm og svaraði spurningum um samtalið. Verður ekki fallist á að við þessar aðstæður sé unnt að byggja á nefndri endursögn viðmælanda hans um samtalið.
III
Þegar gögn málsins eru virt í heild virðist málið liggja þannig fyrir, að vitnin A og B hafi ekki getað gefið lýsingu á árásarmanninum. Athugun þeirra sjálfra hafi, fyrir tilverknað vitnisins G, leitt til þess að þau felldu grun á ákærða og A beindi kæru sinni að honum. Virðist ábending G um ákærða geta hafa helgast af því að hann kvaðst sjálfur hafa séð vitnið C í félagsskap ákærða á veitingastað í nágrenninu fyrr um kvöldið. Bendir orðalag í fyrrgreindri lögregluskýrslu G til þess að hann hafi sjálfur af þessari ástæðu nefnt ákærða til sögunnar í símtalinu við C. Vitnið C hefur, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, staðfest að ákærði hafi ráðist á A. Er með hliðsjón af öllu þessu ekki unnt að fallast á með ákæruvaldinu að lögfull sönnun hafi verið færð fram í málinu um að ákærði hafi framið það afbrot sem hann er ákærður fyrir. Verður hann því sýknaður af ákærunni.
Af þessu leiðir að bótakröfu A verður vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Staðfest verður fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði og réttargæslumanns brotaþola. Greiðast þær fjárhæðir úr ríkissjóði.
Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var Jón Höskuldsson hæstaréttarlögmaður fyrst skipaður verjandi ákærða og skilaði hann greinargerð af hans hálfu til réttarins. Síðar var sú skipun felld niður og Guðmundur Ágústsson hæstaréttarlögmaður skipaður í staðinn. Flutti hann málið munnlega fyrir Hæstarétti. Með hliðsjón af þessu verður báðum verjendunum ákveðin málflutningsþóknun fyrir Hæstarétti að viðbættum virðisaukaskatti svo sem í dómsorði greinir. Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins í málinu.
Skaðabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, og þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði, Ólafs Gústafssonar hæstaréttarlögmanns, skulu vera óröskuð.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðra verjenda ákærða fyrir Hæstarétti, Jóns Höskuldssonar og Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanna, 188.250 krónur til hvors.
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
Þótt ýmsa annmarka megi finna á rannsókn lögreglu á broti því sem ákært er fyrir, einkum rannsókn á vettvangi þess, tel ég að það eigi ekki að leiða til ómerkingar héraðsdóms. Ég tel einnig að ekki sé ástæða til að ómerkja héraðsdóminn þótt fram hafi komið að faðir eins vitnisins hafi utan réttar látið að því liggja við sækjanda málsins í héraði að reynt hafi verið að hafa áhrif á framburð þess vitnis, enda ræður það ekki úrslitum við ákvörðun um sakfellingu.
Sakfelling héraðsdóms er reist á framburði tveggja vitna, brotaþola og konu sem hann átti í samræðum við er ákærða bar þar að ásamt öðrum manni. Framburður þessara vitna er efnislega samhljóða um það sem máli skiptir og sætir mat á trúverðugleika hans ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ég tel að nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Ég tel því að staðfesta eigi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á þeirri refsingu sem ákærða var dæmd í héraði og verður hún því ekki endurskoðuð til þyngingar, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Ég tel að staðfesta eigi héraðsdóminn einnig að öðru leyti og dæma ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I
Héraðsdómur reisir sakfellingu sína á því að framburður kæranda og B um líkamsárás á kæranda hafi verið trúverðugur. Um leið hafnar dómurinn framburði tveggja félaga ákærða, D og E, sem bera að þeir hafi verið með ákærða umrædda nótt á veitingastaðnum [...] á þeim tíma er líkamsárás á kæranda átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn [...]. Er sérstaklega rökstutt hvers vegna framburður E telst ótrúverðugur. Jafnframt hafnar dómurinn framburði vitnisins C um samskipti hans við vitnið G.
Ýmsir annmarkar voru á rannsókn málsins hjá lögreglu. Hefði betri rannsókn getað leitt til þess að málið hefði verið betur upplýst. Einkum er það ámælisvert að ekki var aflað upptaka úr eftirlitsvélum sem ætti að hafa verið unnt. Fram er komið að líklega verður ekki bætt úr þessu nú þó ekki verði um það fullyrt.
Framburður vitnisins C fyrir dómi staðfesti ekki frásögn G um að C hefði sagt við G að hann hafi verið með ákærða á vettvangi umrætt sinn og að ákærði hafi ráðist á kæranda. Bæði kærandi og B bera að svo hafi verið, en vitnið C kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir atvikum. Við skýrslugjöf C fyrir dómi virðist sem sækjandi málsins í héraði hafi talið mögulegt að sakborningur hefði torveldað rannsókn málsins með því að hafa haft áhrif á vitnið, en í þinghaldinu spurði sækjandi vitnið eftirfarandi spurningar: „Hefur þér eitthvað verið hótað vegna þessa máls ef þú kæmir fyrir dóm?“ Svar vitnisins var svofellt: „Ekki neitt. Ég veit ekkert hvað pabbi er að bulla þar.“ Síðar lætur sækjandi það koma fram að faðir vitnisins hafi sagt sér „áðan“ að bifreið vitnisins hafi verið skemmd. Vitnið þvertók fyrir þetta en á honum var að skilja að bifreið hans hafi verið skemmd, en „ekkert út af þessu“, eins og hann komst að orði og bætti jafnframt við að hann vissi ekki hvenær bifreiðin skemmdist.
Niðurstaða héraðsdóms er reist á mati á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna fyrir dómi. Slíkt mat héraðsdóms sætir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Telji Hæstiréttur að líkur séu á því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera rangt svo að einhverju skipti við úrlausn máls getur rétturinn fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Við þetta mat ber að hafa í huga að hér er aðstaðan ekki sú að ákærði og kærandi séu einir til frásagnar um atvik, heldur eiga að hafa verið fleiri vitni að þeim og er alls ekki útséð um hver sé rétt efnisniðurstaða málsins. Þá virðist vera skortur á nauðsynlegum gögnum eða upplýsingum sem fram gátu komið við meðferð málsins í héraði og skipt geta máli við mat á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna. Við þetta mat er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort faðir vitnisins C, og eftir atvikum fleiri vitni, geti borið um að ákærði hafi reynt að hafa áhrif á framburð C. Er því ekki rétt að ákveða um sekt eða sýknu ákærða án þess að frekari meðferð fari fram fyrir héraðsdómi. Þegar alls þessa er gætt tel ég óhjákvæmilegt að fella úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram fyrir þremur héraðsdómurum og leyst verði úr máli á ný.
Samkvæmt þessu tel ég einnig að ákvörðun um sakarkostnað í héraði eigi að bíða þess að efnisdómur gangi þar á ný, en allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði.
II
Að virtum þeim atriðum sem rakin eru í atkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar tel ég að eins og mál þetta liggur fyrir nú sé slíkur vafi um sekt ákærða að sýkna verði hann af sakargiftum, sbr. 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008, vísa skaðabótakröfu frá héraðsdómi og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð eins og greinir í því atkvæði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 15. júní 2009 á hendur X, kennitala [...], Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 19. október 2008, fyrir utan veitingastaðinn [...], [...], við [...], Reykjavík, slegið A í andlitið með glerglasi með þeim afleiðingum að hann hlaut nokkra skurði vinstra megin í andlitið, meðal annars einn 6 ½ sm skurð og einn 3 ½ sm skurð.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta, samtals að fjárhæð 1.150.269 krónur, sem skiptist í bætur vegna læknis-, lyfja- og sjúkraflutningakostnaðar að fjárhæð 50.669 krónur, miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að fjárhæð 99.600 krónur, með vsk. Auk þess er krafist vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af ofangreindri fjárhæð frá 19. október 2008 til birtingar ákæru en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi þess að bótakröfu í málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð verulega. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá aðfaranótt sunnudagsins 19. október 2008, sem miðar við tilkynningu til lögreglu klukkan 4:40, var á þeim tíma óskað eftir aðstoð lögreglu að bifreiðastæðahúsi við [...] í Reykjavík. Í frumskýrslu kemur fram að á vettvangi hafi lögreglumenn hitt fyrir B og A. Var A með djúpan skurð á vinstri kinn, alblóðugur og mikið blóð á gangstétt. Kom fram að þau A og B hefðu átt í samræðum vegna sambandsslita er nokkra menn hefði borið að garði. Einn úr hópnum héti C, fæddur árið 1987 og hefði verið samtíða C í [...]skóla. Hefði hann farið að skipta sér af og farið að ýta við A, sem hefði ýtt á móti og verið sleginn í andlitið með glasi. Ekki vissi A hver hefði slegið hann með glasinu, en það hefði brotnað við þetta með þeim afleiðingum að hann hlaut fyrrgreinda áverka. Var A fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Frumskýrslu fylgja ljósmyndir af áverkum hans.
Meðal rannsóknargagna málsins er læknisvottorð Hlyns Þorsteinssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 23. október 2008, þar sem kemur fram að A hefði komið á deildina umrædda nótt klukkan 5:17. Við skoðun hafi verið fjórir minni skurðir vinstra megin á andliti og einn stærri. Stærsti skurðurinn hafi verið um 6 ½ sentímetrar og farið inn í gegnum húð og sést niður í munnvatnskirtil. Ekki hafi verið að sjá að neitt læki úr kirtlinum. Síðan hefði verið um 3 ½ sentímetra sár og þrír skurðir sem hefðu verið um ½ sentímetri hver. Þurfti að sauma stærsta skurðinn með 20 sporum, en þann næststærsta með 10 sporum. Þá hefðu verið sett nokkur spor í minni skurðina þrjá.
Mánudaginn 20. október 2008 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Sagði hann að í umrætt sinn hefðu þau B verið að deila um sambandsslit sín sem hefðu orðið nokkrum vikum fyrr. Hefðu þau bæði verið ölvuð. Þarna hefðu komið að tveir piltar og muni annar heita C, gamall bekkjarfélagi B frá í barnaskóla. Hinn pilturinn hefði verið ákærði. Sagðist A hafa komist að nafni hans eftirá, þar sem frændi hans hefði hringt í C og fengið nafn hans. C hefði farið að skipta sér af deilum A og B með því að ýta við A. Sagðist A hafa ýtt á móti, en engin högg hefðu gengið á milli þeirra. Þetta hefði staðið yfir í örfáar sekúndur. Skyndilega hefði ákærði undið sér framan að A og hefði hann fengið mikið högg í andlitið. Ákærði hefði haldið á bjórglasi sem hann sló á vinstri kinn og kjálka og brotnaði glasið við þetta. Hefði hann vankast verulega, sundlað og fallið í götuna. Hann hefði heyrt C og ákærða ræða eitthvað saman, en síðan hefðu þeir horfið á braut. Sagðist A ekki hafa heyrt hvað þeim fór á milli. Aðvífandi vegfarandi hefði hringt í lögreglu.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 13. nóvember 2008 og vísaði hann sakargiftum á bug. Ákærði sagðist hvorki kannast við kæranda málsins né að hafa lent í útistöðum við hann og ekki heldur kannast við að hafa verið á [...] eða við [...] á þessum tíma.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu á ný þann 19. maí 2009. Sagðist hann muna að hann hefði verið að skemmta sér umrædda nótt, en hvorki muna hvar hann var né með hverjum. Þá sagðist hann vita hver C væri, en engar líkur væru á því að hann hefði verið með honum um nóttina.
Meðal gagna málsins er skýrsla lögreglu um myndsakbendingu sem A og B tóku þátt í og fór fram 22. maí 2009. Við myndsakbendinguna sögðust A og B bæði bera kennsl á ákærða á ljósmynd sem þann mann sem hefði verið valdur að líkamsrárásinni.
Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá að hann hefði verið að skemmta sér nóttina sem um ræðir ásamt vinum sínum, D og E. Þeir hefðu verið við drykkju hjá félaga sínum, en farið eftir það niður í miðbæ, litið inn á veitingastaðinn [...], en síðan farið á veitingastaðinn [...] þar sem þeir hefðu verið uns staðnum lokaði undir morgun. Sagðist ákærði hafa rætt aðeins við félaga sína utan við veitingastaðinn, en síðan farið heim til kærustu sinnar, F, og hefði klukkan þá verið á bilinu sex til sjö um morguninn. Ákærði sagðist þekkja C síðan í grunnskóla, en ekki muna til þess að hafa hitt hann þessa nótt. Hann sagðist ekki hafa tekið þetta mál alvarlega eftir að hann var kallaður til yfirheyrslu. Það hefði verið rétt sem kom fram í skýrslu hans hjá lögreglu 19. maí sl. að hann myndi ekki með hverjum hann hefði verið þessa nótt. Það hefði hins vegar rifjast upp fyrir honum síðar. Ákærði sagðist vita hver B væri, en þau hefðu verið samtíða í [...]skóla og [...]skóla. Nánar spurður um tímasetningar sagðist ákærði hafa komið niður í miðbæ um klukkan tvö um nóttina. Hann hefði verið á [...] á bilinu klukkan fjögur til fimm þegar atvikið átti sér stað.
A sagði þau B hafa staðið upp við húsvegg við veitingastaðinn [...] við [...] og hefðu þau verið að deila um sambandsmál sín. B hefði litið upp og heilsað manni með nafninu C. Sagðist vitnið þá hafa snúið sér við og séð tvo menn koma gangandi frá [...]. Hefði það verið nefndur C, sem vitnið kannaðist við, og með honum lágvaxnari, dökkhærður maður, sem hann viti nú að er ákærði. Hefði C komið upp að honum og sett í hann öxlina. Einhverjar stimpingar hefðu orðið á milli þeirra í nokkrar sekúndur, þó ekki þannig að hnefahögg gengju á milli. Þegar þessu sleppti hefði hann snúið sér frá C og litið til ákærða, sem hefði slegið hann með glasinu svo að hann féll í jörðina. Mennirnir hefðu staðið einhverja stund yfir honum, en síðan tekið til fótanna. Vegfarandi sem kom að hefði hringt á lögreglu.
A sagðist hafa komist að nafni ákærða í gegnum G, sem væri bróðursonur stjúpföður síns. Hann hefði vitað að G þekkti C og hefði G verið beðinn um að hringja í hann til að fá upplýsingar um manninn sem hafði verið í fylgd með honum. Þaðan væri nafn ákærða komið. Þegar hann fékk nafn ákærða frá G hefði hann viljað ganga úr skugga um að hann væri rétti maðurinn áður en hann færi að kæra hann til lögreglu. Því hefði hann slegið nafni ákærða upp á netinu daginn eftir atvikið, fundið litla mynd af honum og þá hefði enginn vafi verið í hans huga. Skýrsla um myndsakbendingu var borin undir A og sagðist hann þess fullviss að myndin sem hann hefði bent á væri af árásarmanninum.
B sagði þau A hafa verið að ræða saman utan við veitingastaðinn [...] þegar C hefði gengið þar fram hjá ásamt árásarmanninum. Hún hefði heilsað C, sem hún kannaðist við frá því þau voru saman í [...]skóla fyrir mörgum árum. Mennirnir hefðu gengið til þeirra og hefði C stjakað við A, sem stjakaði á móti og hófust stimpingar á milli þeirra. Þá hefði hinn maðurinn komið að og þrykkt bjórglasi í andlit A sem féll við það alblóðugur í jörðina. Hefðu mennirnir þá hlaupið í burtu. B sagðist hafa kannast við andlit ákærða á vettvangi, en ekki áttað sig á því hvar hún hefði séð hann. Hún vissi nú að hann hefði gengið í sama grunnskóla og hún, þ.e. [...]skóla og [...]skóla. Hún myndi ekki vel eftir honum, enda hefði hann verið yngri nemandi. Skýrsla um myndsakbendingu var borin undir B og sagðist hún þess fullviss að myndin sem hún hefði bent á væri af stráknum sem þrykkti bjórglasinu í andlit A. Hún hefði áður séð mynd af þessum manni. Eftir að G hefði sagt þeim frá samtali þeirra C hefði hún flett upp á internetinu mynd af þeim manni sem hann hefði sagst hafa verið með þetta kvöld. Hún hefði strax séð að þetta var árásarmaðurinn og væri ekki í neinum vafa um það.
Kristján Friðþjófsson lögreglumaður gerði grein fyrir framkvæmd myndsakbendingar. Kristján sagði vitni ekki vera látin bera kennsl á grunaða við myndsakbendingu ef það hefði áður séð mynd af hinum grunaða í myndasafni lögreglu. Hann treysti sér ekki til að segja til um hvaða áhrif það hefði á niðurstöðu myndsakbendingar ef vitni hefði áður séð mynd af hinum grunaða á netinu. Vitni gæti allt eins hafa séð viðkomandi niðri í bæ eða á veitingastað og þekkt hann aftur þar.
G sagðist hafa verið á veitingastaðnum [...] kvöldið sem um ræðir ásamt C, félaga sínum. Hann hefði misst sjónar af C, en séð hann síðar um kvöldið á efri hæð veitingastaðarins. Hann hefði þá verið í fylgd með ákærða, sem G kannaðist við úr [...]. Daginn eftir þetta hefði H föðurbróðir hans, faðir A, hringt í hann og spurt hvort hann hefði verið með C vini sínum um kvöldið. Þegar hann hefði játað því hefði H spurt hvort C hefði verið í fylgd með lágvöxnum, dökkhærðum, skegghærðum strák. Hefði hann þá sagt H að C hefði verið með ákærða. Hann hefði jafnframt farið á facebook og fundið mynd af ákærða, sent hana H, sem sýndi A og hefði A þar þekkt árásarmanninn. G sagðist hafa hringt í C eftir þetta og rætt við hann. Í þessu samtali hefði rifjast smátt og smátt upp fyrir C að hann hefði hitt ákærða og séð hann stugga við hávöxnum dökkhærðum manni, eða að hávaxni dökkhærði maðurinn hefði stuggað við ákærða. Ekki hefði komið skýr mynd af atvikum, en komið hefði fram hjá C að hann væri búinn að vera að drekka mikið og hefði verið í óreglu. G sagði þá C hafa verið saman í samkvæmi heima hjá honum um kvöldið og farið saman á veitingastaðinn [...]. Hann sagðist kannast við ákærða úr [...], en hann hefði búið rétt hjá C og hefðu þeir oft verið saman.
E sagðist hafa verið með ákærða og D við drykkju þetta kvöld. Þeir hefðu farið niður í miðbæ um klukkan tvö um nóttina, farið á veitingastaðinn [...] þar sem þeir gengu einn hring, en síðan farið á [...], þar sem þeir dvöldu uns staðnum lokaði um klukkan sex. Þeir hefðu spjallað aðeins saman fyrir utan og farið svo heim. E sagðist hafa verið með ákærða allan tímann sem þeir dvöldu á [...]. Þeir hefðu aldrei orðið viðskila, ekki einu sinni til að fara á salerni. Þeir hefðu alltaf staðið allir saman upp til að fara á barinn og sest allir saman niður aftur. Hann sagðist kannast við C, en ekki hafa séð hann þarna um kvöldið.
D sagðist hafa verið með þeim ákærða og E þetta kvöld og hefðu þeir verið við drykkju hjá félaga sínum í [...]. Þeir hefðu farið niður í miðbæ um klukkan tvö, litið inn á [...] og gengið einn hring þar, en verið komnir á [...] þegar klukkan var gengin um tuttugu mínútur í þrjú. Þar hefðu þeir verið þangað til staðnum lokaði um klukkan hálf sjö. Þeir hefðu spjallað saman fyrir utan í 10 mínútur eða svo, áður en þeir skildu. Hann hefði verið með ákærða og E eiginlega allan tímann sem þeir voru inni á [...]. Þeir hefðu setið við borð á efri hæðinni og verið að drekka. Þeir hefðu alltaf verið saman nema þegar einhver þeirra fór á salerni eða á barinn til sækja bjór. Þeir hefðu aldrei orðið viðskila nema í fjórar til fimm mínútur í einu.
F, fyrrverandi unnusta ákærða, sagði hann hafa komið heim til sín milli klukkan sex og sjö þennan morgun og hefði hún hleypt honum inn. Hún hefði ekki orðið vör við neitt óvenjulegt í fari hans.
C sagðist ekkert muna eftir þessu kvöldi. Hann hefði verið að skemmta sér með félögum sínum, en síðan fengið „blackout“. Hann kannaðist ekki við að hafa verið með G þetta kvöld. Hann sagðist þekkja ákærða, sem væri æskufélagi sinn. Hann kannaðist við að hafa rætt við G í síma um þá atburði sem um ræðir. Hann hefði sagt G að hann vissi ekki hvað hefði gerst. Hann myndi ekki eftir að hafa sagt G að ákærði hefði verið með honum þetta kvöld og lent í átökum. Hann sagðist kannast við B, en ekki minnast þess að hafa verið á vettvangi og ýtt við brotaþola eins og hún hefði lýst. Hann sagðist ekki muna hvort hann hefði verið á [...] þessa nótt.
Hilmir Þór Kolbeins lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti frumskýrslu í málinu. Þá staðfesti Hlynur Þorsteinsson læknir læknisvottorð sem hann hafði ritað.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og segist ekki hafa verið á vettvangi í umrætt sinn. Hefur ákærði borið að hann hafi verið á veitingastaðnum [...] við [...9 þegar líkamsárásin átti sér stað.
A og B báru kennsl á ákærða sem árásarmanninn við myndsakbendingu hjá lögreglu. Hafa þau borið að C, sem þau þekktu bæði, hafi verið með ákærða í för þegar hann veittist að A. G hefur borið að hann hafi séð ákærða ásamt C á veitingastaðnum [...] þessa nótt. Þá hafi C upplýst hann í símtali sem þeir áttu daginn eftir að hann hefði verið með ákærða í för og séð hann stugga við hávöxnum dökkhærðum manni, eða þann mann stugga við ákærða. C hefur borið fyrir sig minnisleysi um atvik að þessu leyti. Hefur hann sagst hvorki muna atburði næturinnar sökum áfengisneyslu, né minnast þess að hafa upplýst G um það sem að framan greinir.
Fram er komið að A og B höfðu séð mynd af ákærða á internetinu áður en til myndsakbendingar kom. Hefur A borið að hann hafi leitað að mynd af ákærða eftir að hafa fengið nafn hans uppgefið til að forða því að hann kærði rangan mann til lögreglu. B hefur borið að hún hafi kannast við ákærða þegar á vettvangi, en ekki komið honum fyrir sig. Hún hefði strax séð að myndin sem hún sá á internetinu var af árásarmanninum og væri hún ekki í neinum vafa um það. Þykir þetta atriði ekki rýra niðurstöðu myndsakbendingar svo að ekki verði á henni byggt.
E og D hafa borið um að hafa verið með ákærða á veitingastaðnum [...] umrædda nótt. Þykir dóminum afar ótrúverðugur framburður E um að þeir þrír hafi fylgst að sem einn maður allan þann tíma sem þeir dvöldu á veitingastaðnum, þar með talið þegar þeir fóru á salerni og á barinn til að kaupa drykki. Verður ekki á þeim framburði byggt, enda er hann í andstöðu við framburð D að þessu leyti, sem bar að þeir hefðu nokkrum sinnum orðið viðskila þó að í stutta stund væri. Þá er til þess að líta að vettvangur árásarinnar er skammt frá veitingastaðnum þar sem ákærði og félagar hans dvöldu.
Að virtum þeim atriðum sem rakin hafa verið er að mati dómsins sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi verið með C á vettvangi í umrætt sinn, veist þar að A eins og lýst er í ákæru og valdið honum þeim áverkum sem þar getur. Í ljósi þess að ákærði beitti glasi sem vopni var árásin sérstaklega hættuleg. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur í febrúar 1989. Hann var 5. september 2008 dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið mann í andlitið með glerflösku svo að af hlutust nokkrir áverkar. Ákærði hefur rofið skilorð þessa refsidóms. Verður skilorðsdómurinn tekinn upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir bæði brotin. Verður refsing ákærða ákveðin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Árás ákærða á A var tilefnislaus og stórhættuleg. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Ekki er ástæða til þess að skilorðsbinda refsinguna.
A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.150.269 krónur auk vaxta. Er krafan sundurliðuð þannig:
1. Bætur vegna læknis-, lyfja- og sjúkraflutningskostnaðar 50.000 krónur
2. Miskabætur 1.000.000 krónur
3. Kostnaður vegna lögmannsaðstoðar með vsk. 99.600 krónur
Krafa um bætur vegna læknis-, lyfja- og sjúkraflutningskostnaðar er studd viðhlítandi gögnum og verður dæmd eins og hún er fram sett. A hlaut verulega áverka af atlögu ákærða og kemur fram í læknisvottorði Þóris S. Njálssonar, lýtalæknis, að hann muni bera ör í andliti um ókomin ár. Að því virtu og með hliðsjón af dómaframkvæmd þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Ólafur Gústafsson hæstaréttarlögmaður var skipaður réttargæslumaður brotaþola við dómsmeðferð málsins. Ákvörðun þóknunar fyrir réttargæslu tekur mið af kostnaði lögmannsins við gerð bótakröfu og meðferð málsins fyrir dómi. Verður ákærði dæmdur til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 550.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 19. október 2008 til 29. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 404.625 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ólafs Gústafssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði ákærði 27.200 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara.
Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði.
Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 550.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. október 2008 til 29. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 611.825 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 404.625 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ólafs Gústafssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.