Hæstiréttur íslands

Mál nr. 12/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 12/2004.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf. og

Ólafi Elíasi Ólafssyni

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur.

Deilt var um sakarskiptingu vegna árekstrar bifreiðanna Y og P. Á grundvelli þess sem fyrir lá í málinu, og eins og sönnunarstöðu var háttað, varð að miða við að bifreiðin P hefði verið komin það nærri stöðvunarlínu við umrædd gatnamót að ökumanni hennar hafi ekki borið að stöðva bifreiðina er gult ljós kviknaði á götuvita, heldur hafi hún mátt halda áfram för í samræmi við síðari hluta 5. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra. Ökumanni Y hafi því eins og hér stóð á, borið að veita P forgang í samræmi við 6. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1987.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2004. Krefst hann þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 959.782 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi að stefndu verði dæmdir til greiðslu lægri fjárhæðar. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.

I.

Eins og rakið er í héraðsdómi skullu bifreiðarnar YI-098 og PU-578 saman á gatnamótum Geirsgötu og Tryggvagötu í Reykjavík 16. október 2000. Á gatnamótunum eru umferðarljós. Var bifreiðinni PU-578 ekið á vinstri akrein austur Geirsgötu en bifreiðinni YI-098 hafði verið ekið vestur Geirsgötu og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri til suðurs inn á Tryggvagötu. Áfrýjandi var vátryggjandi bifreiðarinnar YI-098 og greiddi eiganda hennar andvirði bifreiðarinnar eftir áreksturinn. Heldur hann því fram að bifreiðinni PU-578 hafi verið ekið yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi. Fallist dómurinn ekki á þá fullyrðingu verði við það að miða að ökumaður nefndrar bifreiðar hafi eigi að síður átt að stöðva bifreiðina við gatnamótin eftir að gult ljós kviknaði á götuvitanum gegnt honum, í stað þess að aka áfram gegn gulu ljósi. Af hálfu stefndu, sem eru vátryggjandi og eigandi bifreiðarinnar PU-578, er því haldið fram að gult ljós hafi kviknað svo skömmu áður en þeirri bifreið var ekið yfir stöðvunarlínu við gatnamótin að ökumaður hennar hafi átt þess eins úrkosta að halda áfram yfir þau.    

Bifreiðin YI-098 er fólksbifreið af tegundinni Peugeot 206 en bifreiðin PU-578 jeppi af tegundinni Nissan Patrol. Er síðarnefnda bifreiðin mun þyngri og af framlögðum gögnum virðist sem hún hafi skemmst lítið, en bifreiðin YI-098 töluvert og þá aftarlega á hægri hlið, aðallega við afturhjól. Ekki nýtur við uppdráttar lögreglu af vettvangi og verður því ekki fullyrt nákvæmlega hvar á gatnamótunum áreksturinn varð. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að umræddar bifreiðar hafi verið í ólagi fyrir áreksturinn. Akstursskilyrði voru ágæt, dagsbirta, en blautt á götu. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu mældust hemlaför eftir bifreiðina PU-578 3,8 metrar. Af ljósmyndum af vettvangi, teknum skömmu eftir áreksturinn, má ráða að við áreksturinn hafi bifreiðin YI-098 kastast nokkra metra til suðurs þar sem hún lenti á umferðareyju milli akreina á Tryggvagötu og sneri þar öndvert við fyrri akstursstefnu. Málsaðilar eru sammála um að miða við að bifreiðinni PU-578 hafi verið ekið með löglegum hámarkshraða austur Geirsgötu, eða 50 km á klukkustund.

Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt fram skrifleg svör Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í véla- og iðnaðarverkfræði við eftirfarandi spurningum áfrýjanda, sem samkvæmt greinargerð prófessorsins voru svohljóðandi: „1. Ef bifreið er bíllengd frá stöðvunarlínu á leið austur Geirsgötu þegar gula ljósið kviknar gagnvart þeirri bifreið og bifreiðin er á 50 km miðað við klukkustund, hvar er sú bifreið þegar rauða ljósið kviknar miðað við að bifreiðin aki áfram til austurs á sama hraða. 2. Hvað fer bifreið á 50 km/klst hraða langa leið á hverri sekúndu. 3. Hvað tekur það bifreið margar sekúndur að taka af stað úr kyrrstöðu austan gatnamóta Tryggvagötu/Geirsgötu og komast í þá stöðu sem bifreiðin YI-098 var er ekið var á þá bifreið með þeim hætti sem fram kemur í lögregluskýrslu um árekstur bifreiðanna PU-578 og YI-098 þann 16.10.2000. Gert er ráð fyrir að viðkomandi bifreið hafi stöðvast austan gatnamótanna á vestur leið við stöðvunarlínu og að bifreiðin taki af stað og aki inn á gatnamótin og beygi síðan til vinstri áleiðis inn í Tryggvagötu.“

Í svörum prófessorsins segir meðal annars: „1. Staðsetning bifreiðar þegar rauða ljósið kviknar. Tíminn sem líður frá því að gula ljósið kviknar og þar til rauða ljósið kemur er lágmark 3 sekúndur. Bifreið sem ekur á stöðugum hraða 50 km/klst eða 13.9 m/sek. fer á þessum 3 sekúndum vegalengdina 41.6 m. ... 3. Tími sem tekur bifreið úr kyrrstöðu að aka ákveðna vegalengd. Bifreiðin Peugeot 206 getur náð hámarkshröðun sem er á bilinu 1.5 m/sek² til 2.2 m/sek². Ef reiknað er með að bifreiðin YI-098 var staðsett 2 m frá gangbrautarljósum ... er vegalengdin frá kyrrstöðu og að þeim stað sem áreksturinn varð á bilinu 10-16 m. Bifreið sem fer úr kyrrstöðu og er með hröðun sem táknuð er með bókstafnum a [m/sek²] fer vegalengdina s [m] á tímanum t [sek] samkvæmt líkingunni t  =  Ef vegalendin er 10 m og hröðunin 2.0 m/sek² verður tíminn 3.2 sek og er það líklega stysti tíminn sem gat liðið. Ef vegalengdin er 16 m og hröðunin 1.0 m/sek² er tíminn 5.6 sek. Líklega er það lengsti tími sem gat liðið. ... Líklegast er að tíminn sem tekur bifreiðina YI-098 að aka úr kyrrstöðu, að þeim stað þar sem ekið er á hana, hafi verið 4.3 sek. Er þá miðað við að hún hafi hröðun 1.5 m/sek² og fari vegalengdina 14 m áður en ekið er á hana.“

Af hálfu áfrýjanda var lagt fram svarbréf Reykjavíkurborgar þar sem segir meðal annars að „hringurinn á ljósastýringunni á þessum gatnamótum eru 75 sek.” Þá kemur fram að frá því að græn ökuljós slokkna fyrir umferð austur/vestur Geirsgötu og þar til græn ökuljós kvikna fyrir umferð norður/suður Tryggvagötu líði 7 sekúndur. Sami tími líði frá því að græn ökuljós slokkna fyrir umferð norður/suður Tryggvagötu og þar til að græn ökuljós kvikna fyrir umferð austur/vestur Geirsgötu. Nánar segir að gula ljósið, sem komi eitt sér eftir grænt ljós, logi í 3 sekúndur, rautt ljós sé á öllum vitum í einu í 2 sekúndur, en gula ljósið, er logi samtímis rauðu ljósi áður en skipti yfir í grænt ljós, logi í 2 sekúndur, en samtals gerir þetta 7 sekúndur.

II.

Framburður ökumanna bifreiðanna, hjá lögreglu og fyrir dómi, er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, en líta ber til  þess að skýrslugjöf fyrir dómi fór fram um þremur árum eftir áreksturinn. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var á vettvangi haft eftir Guðrúnu Gunnarsdóttur, ökumanni PU-578, að hún hafi „átt skammt ófarið að gatnamótunum“ er kviknað hafi gult ljós á eftir grænu og hún ákveðið að halda áfram. Kvaðst hún hafa séð að bifreiðin YI-098 hafi verið kyrrstæð „inni á gatnamótunum“ og hafi hún talið víst að ökumaður hennar myndi bíða eftir að hún æki framhjá. Það hafi hann ekki gert heldur ekið í veg fyrir hana er hún ók inn á gatnamótin. Þá var bókað eftir henni að hún hafi veitt því athygli að í „sama mund og áreksturinn varð þá hafi kviknað rautt ljós fyrir akstursstefnu hennar.“ Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir Ellert Þór Júlíussyni, ökumanni bifreiðarinnar YI-098, að hann hafi ekið vestur Geirsgötu og ætlað að beygja suður Tryggvagötu. Hafi hann ekið inn á gatnamótin á grænu ljósi, en stöðvað þar vegna umferðar austur Geirsgötu. Hafi hann aftur tekið af stað eftir að rautt ljós kviknaði fyrir umferð austur Geirsgötu. Kveðst hann hafa séð til ferða PU-578 þar sem bifreiðinni var ekið austur Geirsgötu að gatnamótunum, en talið víst að bifreiðin myndi vera stöðvuð við ljósin. Ekki rituðu ökumenn bifreiðanna undir það sem bókað var eftir þeim á vettvangi, en þeir gáfu formlega skýrslu, með réttarstöðu kærðra, hjá lögreglu í desember sama árs. Framburður Ellerts Þórs þá var á sömu lund og samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar. Guðrún sagðist við þá skýrslugjöf hafa „verið rétt ókomin“ að gatnamótunum er gult ljós kviknaði á eftir grænu ljósi. Hins vegar hafi bifreiðin YI-098 þá ekki verið komin yfir stöðvunarlínu eins og ökumaður hennar hélt fram. Kvað hún „að þegar bifreiðarnar hafi skollið saman hafi hún litið á götuvitann og séð þá um leið að umferðarljósin hafi verið að skipta frá gulu yfir í rautt umferðarljós gagnvart umferð austur Geirsgötu.“ Fyrir dómi bar Guðrún á sama veg um málsatvik, en nefndi þó að sér hefði virst sem ökumaður bifreiðarinnar YI-098 hafi tekið „krappa beygju alveg upp við ljósin“. Fyrir dómi bar Ellert Þór líkt og áður og ítrekaði að hann hafi talið bifreiðina PU-578 svo langt frá gatnamótunum er gula ljósið kviknaði á götuvitanum að hann hafi alls ekki búist við að henni yrði ekið yfir gatnamótin. Þá hafi grænt ljós verið kviknað fyrir umferð til suðurs er hann tók aftur á stað á gatnamótunum.

Vitnið Svan Friðgeirsson bar fyrir lögreglu að hann hafi litið á umferðarljósin gagnvart umferð vestur Geirsgötu og þá séð að þau hafi verið að skipta frá gulu yfir í rautt í sömu mund og bifreiðinni PU-578 var ekið inn á gatnamótin. Fyrir dómi kvaðst hann ekkert geta fullyrt um þetta atriði. Til þess verður að líta að framburður vitnisins er ónákvæmur um málsatvik auk þess sem hann kvaðst ekki hafa séð áreksturinn.

III.

Eins og að framan er nefnt logar gult ljós á götuvita eitt sér í 3 sekúndur, eftir að hið græna er slokknað. Á þeim tíma fer bifreið, sem ekið er með hraðanum 50 km á klukkustund, 41,6 metra. Þegar litið er til framlagðra ljósmynda um staðsetningu bifreiðanna eftir áreksturinn, framangreindra gagna frá Reykjavíkurborg um ljós á götuvitum og útreikninga Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors, byggðum á ætluðum hraða og hröðun bifreiða þeirra sem við sögu komu, verður ekki byggt á framburði ökumanns bifreiðarinnar PU-578 um að bifreiðin YI-098 hafi ekki verið komin yfir stöðvunarlínu við gatnamótin er bifreiðinni PU-578 var ekið inn á þau. Verður því miðað við framburð ökumanns bifreiðarinnar YI-098 um það atriði. Hins vegar styðja gögn málsins ekki nægilega framburð þess síðarnefnda um að bifreiðinni PU-578 hafi verið ekið yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi. Verður því að telja slíkt ósannað, en miða þess í stað við að gult umferðarljós fyrir umferð austur Geirsgötu hafi logað er síðargreind bifreið ók inn á gatnamótin.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skal ökumaður hafa sérstaka aðgát við vegamót. Samkvæmt 6. mgr. sömu greinar ber ökumanni, sem ætlar að beygja á vegamótum, að veita forgang þeirri umferð, sem á móti kemur. Í 5. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra, sem sett er á grundvelli 84. gr. umferðarlaga, kemur fram að gult ljós eitt sér merkir að nema skuli staðar. Það gefur til kynna að brátt skipti yfir í rautt ljós, en hefur að öðru leyti sömu merkingu og rautt ljós. Í síðari hluta 5. mgr. 34. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að ökumaður skuli þó ekki nema staðar ef hann, þegar skipt er úr grænu ljósi í gult, er kominn það langt fram að stöðvun muni hafa í för með sér hættu. Samkvæmt framangreindum ákvæðum hvíldi í greint sinn sérstök aðgæsluskylda á ökumönnum beggja bifreiðanna. Eins og að framan greinir var ekki gerður uppdráttur af vettvangi og er óvíst hvar nákvæmlega á gatnamótunum áreksturinn varð. Er framlögðum gögnum raunar áfátt um fleiri atriði er máli gætu skipt. Verður að skoða málsatvik og gögn málsins í því ljósi. Af þeim nýju gögnum, sem lögð voru fyrir Hæstarétt og tíunduð hafa verið, er heldur ekki unnt að álykta hvar bifreiðarnar voru nákvæmlega er gula ljósið kviknaði fyrir umferð austur Geirsgötu. Líta ber til þess hversu langan veg bifreið á 50 km hraða á klukkustund fer á sekúndu hverri. Eins og sönnunaraðstöðu er háttað og samkvæmt öllu framanrituðu verður að miða við að bifreiðin PU-578 hafi verið komin það nærri stöðvunarlínu að ökumanni hennar hafi ekki borið að stöðva bifreiðina er gult ljós kviknaði á götuvitanum, heldur hafi hún mátt halda áfram för í samræmi við ákvæði síðari hluta 5. mgr. 34. gr. framangreindrar reglugerðar. Bar ökumanni bifreiðarinnar YI-098, eins og hér stóð á, að veita bifreiðinni PU-578 forgang í samræmi við 6. mgr. 25. gr. umferðarlaga.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður  niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefndu, Tryggingamiðstöðinni hf. og Ólafi Elíasi Ólafssyni, samtals 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003.

I

        Málið var höfðað 30. apríl sl. og tekið til dóms 1. október sl.

        Stefnandi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

        Stefndu eru Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6, Reykjavík og Ólafur Elías Ólafsson, Tjarnarmýri 6, Seltjarnarnesi.

        Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 959.782 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2001 til 1. júlí s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.   Til vara er krafist lægri fjárhæðar en með sömu vöxtum.  Loks er krafist málskostnaðar.

        Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla. Jafnframt er þess krafist að í því tilviki beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

 

II

        Málavextir eru þeir að 16. október 2000 varð árekstur með bifreiðunum YI-098, sem er fólksbifreið af Peugeot gerð, eign Ellerts Þórs Júlíussonar sem var ökumaður, og bifreiðinni PU-578, sem er jeppi af Nissan gerð, sem var skráð eign stefnda, Ólafs Elíasar, en ökumaður var eiginkona hans, Guðrún Gunnarsdóttir.  Hér á eftir verður rætt um fólksbifreiðina og jeppann. 

        Nánar er atvikum lýst svo í stefnu að fólksbifreiðinni hafi verið ekið vestur Geirsgötu í Reykjavík og hafi ökumaður ætlað að beygja til vinstri inn í Tryggvagötu.  Ökumaðurinn kvaðst hafa ekið inn á gatnamótin og stöðvað vegna umferðar austur Geirsgötu.  Þegar rautt ljós hafi kviknað hafi hann ekið af stað en þá hafi komið mikið högg aftan til á hægri hlið bifreiðar hans.  Ökumaður kvaðst hafa séð til jeppa vestan gatnamótanna en talið að ökumaður hans myndi stöðva.  Ökumaður jeppans kvaðst viss um að fólksbifreiðinni hefði verið ekið inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi.

        Lögreglan tók niður framburð ökumanna og vitnis á vettvangi og þar er haft eftir öku­manni fólksbifreiðarinnar að hann hafi ekið vestur Geirsgötu og ætlað að beygja suður Tryggvagötu.  Hann hafi komið að grænu ljósi á gatnamótunum og því ekið inn á þau en þurft að stöðva þar vegna umferðar austur Geirsgötu.  Þegar rautt ljós hafi kviknað fyrir umferð um Geirsgötu kvaðst hann hafa ekið af stað áleiðis í beygjuna til að klára hana og þá hafi komið mikið högg á aftanverða hægri hlið fólksbifreiðarinnar.  Öku­maðurinn kvaðst hafa séð til ferða jeppans þar sem honum var ekið austur Geirsgötu að gatnamótunum en talið víst að ökumaður hans myndi stöðva við þau.  Eftir ökumanni jeppans er haft á vettvangi að hún hafi ekið austur Geirsgötu eftir vinstri akrein og ætlað áfram yfir gatnamót Tryggvagötu.  Þegar hún hafi átt skammt ófarið að gatnamótunum hafi kviknað gult ljós á eftir grænu og hún því ákveðið að halda áfram.  Hún sagðist hafa séð fólksbifreiðina kyrrstæða inni á gatnamótunum og talið víst að ökumaður hennar myndi bíða.  Í sama mund og hún hafi ekið inn á gatna­mótin hafi hún séð fólksbifreiðinni beygt.  Hún hafi reynt að koma í veg fyrir árekstur með því að hemla en það ekki dugað til. 

        Á vettvangi hafði lögreglan tal af vitninu, Svan Friðgeirssyni, sem kvaðst hafa verið statt á suðausturhorni gatnamótanna og gengið til vesturs yfir Tryggvagötu að suð­vesturhorni gatnamótanna.  Vitnið sagðist nær hafa verið komið yfir gangbrautina þegar rautt ljós hafi kviknað fyrir það.  Um leið kvaðst það hafa litið til vesturs og séð bifreið ekið austur Geirsgötu á talsvert mikilli ferð.  Vitnið kvaðst hafa litið á um­ferðar­ljósin og veitt því athygli að augnabliki áður en bifreiðinni var ekið inn á gatna­mótin hafi kviknað rautt ljós fyrir ökumann hennar og augnabliki síðar hafi orðið harður árekstur inni á gatnamótunum.

        Við framhaldsrannsókn lögreglu bar framangreindur Ellert Þór á sama hátt og að framan var rakið en Guðrún Gunnarsdóttir bar að hafa ekið bifreiðinni austur Geirs­götu, eins og rakið var, en þegar hún hafi verið rétt ókomin að gatnamótum Tryggva­götu hafi kviknað gult ljóst á götuvita á eftir grænu.  Hún segir í skýrslunni að hún hafi ekið inn á gatnamótin gegn gulu umferðarljósi og séð fólksbifreiðina bíða við stöðv­unarlínu á vinstri akrein.  Fólksbifreiðin hafi ekki verið komin fram yfir stöðv­un­arlínu.  Síðan segir Guðrún að þegar hún hafi verið komin inn á gatnamótin hafi öku­maður fólksbifreiðarinnar allt í einu ekið af stað inn á gatnamótin í veg fyrir hana og beygt til vinstri austur Tryggvagötu.  Hún hafi hemlað en ekki náð að koma í veg fyrir árekst­urinn.  Enn fremur bar hún að þegar bifreiðarnar hafi skollið saman hafi hún litið á götuvitann og séð þá um leið að umferðarljósin hafi verið að skipta frá gulu yfir í rautt gagnvart umferð austur Geirsgötu.

        Lögreglan tók einnig skýrslu af framangreindum Svan og er haft eftir honum í fram­burðarskýrslu að hann hafi gengið vestur Geirsgötu eftir gangstétt sunnan megin við götuna og þegar hann hafi komið að gatnamótum Tryggvagötu og Geirsgötu hafi hann gengið áfram vestur Geirsgötu, þvert yfir Tryggvagötu þar sem grænt gönguljós hafi verið þvert á Tryggvagötu.  Þegar hann var kominn hálfa leið yfir Tryggvagötu hafi gönguljósið skipt yfir á rautt og hann haldið áfram yfir götuna.  Þegar Svan var rétt ókominn upp á gangstéttina vestan Tryggvagötu hafi hann litið á umferðarljósin og séð að ljósin hafi verið að skipta frá gulu yfir á rautt gagnvart umferð vestur Geirs­götu.  Í sama mund hafi jeppa verið ekið fram hjá honum inn á gatnamótin austur Geirs­götu en hann kvaðst ekki geta sagt hvort bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu um­ferðarljósi þar sem ljósin hafi verið að skipta frá gulu yfir í rautt umferðarljós er jepp­anum hafi verið ekið inn á gatnamótin.  Í nánast sama mund hafi árekstur orðið með bifreiðunum en Svan kvaðst ekki hafa séð áreksturinn eða hvaðan fólksbifreiðin hafi komið.

        Vegna ágreinings um bótaskyldu var mál þetta lagt fyrir tjónanefnd vá­trygg­inga­fél­aganna sem komst að þeirri niðurstöðu að öll sök lægi hjá ökumanni jeppans.  Nefndin breytti niðurstöðu sinni á grundvelli nýrra gagna og taldi alla sök vera hjá öku­manni fólksbifreiðarinnar.  Málið var síðan lagt fyrir úrskurðarnefnd  í vá­trygg­ingarmálum og varð niðurstaða hennar að ökumaður jeppans ætti alla sök.  Stefndi, sem tryggir bifreið meðstefnda, Ólafs Elíasar, lögboðinni ábyrgðartryggingu, hefur neitað að hlíta niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar og reyndar frá upphafi hafnað allri bóta­ábyrgð gagnvart eiganda fólksbifreiðarinnar, sem var húftryggð hjá stefnanda.  Stefn­andi kveðst hafa greitt eiganda bifreiðarinnar andvirði hennar og krefur stefnda um þá upphæð í málinu.  Nánar sundurliðar hann stefnufjárhæðina þannig að stað­greiðslu­verð bifreiðarinnar hafi verið talið 1.260.000 krónur en söluverð hennar hafi verið eftir áreksturinn 337.400 krónur sem komi til frádráttar.  Kostnaður við bíla­leigu­bifreið til handa eiganda bifreiðarinnar var 34.800 krónur og kostnaður við flutning hennar var 2.382 krónur.  Þegar þessir kostnaðarliðir bætast við söluverð bif­reið­arinnar fæst stefnufjárhæðin.

 

        Af hálfu stefndu eru gerðar þær athugasemdir við framangreinda mála­vaxta­lýs­ingu að ökumaður jeppans hafi að eigin frumkvæði gert athugasemdir við það sem haft er eftir henni í frumskýrslu lögreglunnar.  Þessar athugasemdir hafi hún lagt fram 20. október 2000 eða 4 dögum eftir að áreksturinn varð.  Athugasemdirnar séu í fullu sam­ræmi við það sem fram komi í framburðarskýrslu hennar, sem var rakin hér að framan.  Þá vekja stefndu og athygli á því að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi fellt niður sektarboð á hendur ökumanni jeppans á grundvelli þess sem fram kom í rann­sókn lögreglunnar á árekstrinum og telja hana því ekki hafa brotið gegn um­ferð­ar­lögunum.

 

III

        Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að jeppabifreið stefnda, Ólafs Elíasar, hafi verið ekið inn á gatnamót Tryggvagötu og Geirsgötu gegn rauðu ljósi og því andstætt 2. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra.  Teljist ekki sannað að jeppanum hafi verið ekið gegn rauðu ljósi byggir stefnandi á því að honum hafi verið ekið gegn gulu ljósi og þá andstætt 5. mgr. 34. gr. sömu reglugerðar sem beri að skilja á þann veg að ekki stafi meiri hætta af því að aka inn á gatnamót gegn gulu ljósi en að nema staðar svo sem boðið sé í 1. ml. 5. mgr. 34. gr. reglu­gerð­ar­innar.   Þá er og á því byggt að akstur ökumanns jeppans hafi og verið andstæður 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og c, d og h liðar 2. mgr. sömu greinar en öku­maður jeppans hafi viðurkennt að hafa ekið á 50 km hraða inn á gatnamótin en ak­braut hafi verið blaut.  Bendir stefnandi á að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi verið nær búinn að ljúka beygju inn á Tryggvagötu þegar jeppinn hafi lent með miklu afli aftast á hægri hlið fólksbifreiðarinnar og kastað henni upp á umferðareyju.  Með hlið­sjón af framangreindu telji stefnandi að leggja beri alla sök á ökumann jeppans, sbr. 89. gr. umferðarlaga.

 

        Stefndu byggja sýknukröfu sína aðallega á því að ósannað sé að ökumaður jeppans hafi ekið gegn rauðu ljósi.  Þessu til stuðnings vísa þeir til framburðar öku­manns­ins svo og  til framburðar vitnisins, Svans Friðgeirssonar, hjá lögreglu.  Verði ekki fallist á framangreint byggja stefndu á því að samkvæmt framburði ökumanns jepp­ans hafi fólksbifreiðin verið kyrrstæð við stöðvunarlínu og því ekið í veg fyrir jepp­ann.  Af þessu leiði að telji stefnandi að ökumaður jeppans hafi ekið yfir gatna­mótin í andstöðu við ákvæði 5. mgr. 34. gr. fyrrnefndrar reglugerðar sé með hliðsjón af framburði ökumannsins allt eins líklegt að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi einnig brotið gegn þessu ákvæði. 

        Þá byggja stefndu sýknukröfu sína á því að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi brotið gegn 6. og 7. mgr. 25. gr. umferðarlaga.  Í 7. mgr. komi skýrt fram að öku­maður, sem nálgist eða aki inn á vegamót, skuli haga akstri sínum þannig að hann valdi ekki umferð á veginum, sem hann fer yfir, óþarfa óþægindum, ef hann neyðist til að nema staðar.  Einnig komi þar fram að á vegamótum þar sem umferð sé stjórnað með umferðarljósum megi ökumaður eigi aka inn á vegamótin gegn grænu ljósi ef honum megi vera ljóst af aðstæðum að hann muni eigi komast yfir vegamótin áður en grænt ljós kvikni fyrir umferð úr þverstæðri átt.  Í 6. mgr. komi fram að ökumaður, sem ætli að beygja á vegamótum, skuli veita umferð sem komi á móti forgang.  Þá vísa stefndu enn fremur til sömu ákvæða framangreindrar reglugerðar og stefnandi en telja að þau verði að túlka þannig að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi með akst­urs­lagi sínu brotið gegn  þeim ákvæðum en ekki ökumaður jeppans. 

 

IV

        Ökumaður jeppabifreiðar stefnda, Ólafs Elíasar, þegar áreksturinn varð, var eigin­kona hans, Guðrún Gunnarsdóttir.  Hún bar að hafa ekið austur Geirsgötu á vinstri ak­rein á 50 km hraða.  Þegar hún kom að ljósunum á mótum Geirsgötu og Tryggvagötu voru þau að skipta úr grænu yfir í gult og taldi hún sig myndu hafa getað komist yfir gatna­mótin á gulu ljósi.  Hún kvaðst hafa ekið yfir stöðvunarlínuna en þegar hún hafi verið komin eins og bíllengd austur fyrir hana hafi fólksbifreið, sem hafi verið kyrr­stæð við gangbrautarljós austan gatnamótanna, tekið krappa beygju upp við ljósin og ekið í veg fyrir sig.  Um leið og áreksturinn varð kvaðst hún hafa tekið eftir því að ljósin skiptu yfir í rautt.  Hún kvað ökumann fólksbifreiðarinnar hafa fyrst tekið af stað þegar hún hafi verið komin inn á gatnamótin, yfir línu, sem afmarkar gangbraut á þeim. 

        Ökumaður fólksbifreiðarinnar, Ellert Þór Júlíusson, bar að hann hafi komið að gatna­mótunum að austan og þar sem grænt ljós hafi logað hafi hann ekið inn á mið gatna­mótin og stöðvað þar eð umferð var á móti.  Hann kvaðst hafa verið búinn að beygja 10 - 15°.  Þegar rautt ljós hafi kviknað hafi hann séð jeppa í allnokkurri fjar­lægð og mat hann það svo að hann myndi ekki komast yfir gatnamótin á grænu ljósi.  Hann hafi svo ekið af stað og tekið vinstri beygju eins og hann hafi ætlað sér en þá fengið jeppann í hliðina á sinni bifreið.  Ellert Þór kvaðst hafa verið að taka beygju inn í Tryggvagötuna en ekki krappa beygju (u-beygju).

        Svan Friðgeirsson var á leið norður ( í lögregluskýrslu, sem vitnað var til hér að framan er sagt vestur og þýðir hið sama) yfir gangbraut á Geirsgötu þegar áreksturinn varð.  Hann bar að hafa gengið yfir Geirsgötuna til norðurs og þá hafi logað grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur en þegar hann hafi verið kominn á eyjuna á milli ak­rein­anna hafi kviknað rautt ljós fyrir hann.  Hann kvaðst hafa haldið áfram og þegar hann hafi verið kominn tvö til þrjú skref inn á gangstéttina að norðan þá hafi hann séð til ferða jeppa, er hafi komið á nokkurri ferð og ekið í austurátt.  Rétt á eftir hafi hann heyrt hljóð, litið við og séð að árekstur hafði orðið.  Hann kvaðst ekki hafa séð stöðu um­ferðarljósanna þegar jeppanum var ekið inn á gatnamótin.  Svan kvaðst ekki hafa tekið eftir fólksbifreiðinni fyrr en eftir áreksturinn.  Hann minntist þess því ekki að hún hafi verið kyrrstæð við gatnamótin á meðan hann var að ganga yfir þau.

        Samkvæmt framburði Ellerts Þórs hafði hann ekið inn á gatnamótin og beðið þar til að geta ekið inn í Tryggvagötu.  Framburður Svans styður þetta en hann varð ekki var við fólksbifreiðina á leið sinni norður yfir Geirsgötuna.  Verður við úrlausn máls­ins byggt á þessu þrátt fyrir framburð Guðrúnar um stöðu fólksbifreiðarinnar þegar hún ók inn á gatnamótin.  Eins og rakið var ber þeim Ellert Þór og Guðrúnu ekki saman um stöðu umferðarljósanna þegar hún ók inn á gatnamótin og Svan sá ekki stöðu þeirra á því augnabliki.  Samkvæmt þessu verður engu slegið föstu um hvaða um­ferðarljós hafi logað er Guðrún ók inn á gatnamótin og verður úrlausn málsins ekki á því byggð.  Ákvæði reglugerðar nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra koma því ekki til álita við úrlausn málsins. 

        Í 4. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er boðið að þegar ökumenn stefni svo, að leiðir þeirra skerist á vegamótum skuli sá þeirra, er hefur hinn sér á hægri hönd, veita honum forgang.  Í 5. mgr. sömu greinar er nánar fjallað um skyldur þess, sem veita á forgang og segir að hann megi því aðeins aka áfram, að það sé unnt án hættu fyrir önnur ökutæki miðað við hvar þau séu stödd, fjarlægð þeirra og hraða.  Í 6. mgr. sömu greinar segir að þegar ökumaður ætli að beygja á vegamótum beri honum að veita þeirri umferð forgang, sem á móti komi og stefni svo að skeri hans leið.  Loks segir í 7. mgr. sömu greinar að ökumaður, sem nálgast eða ekur inn á vegamót, skuli haga akstri sínum þannig, að hann valdi ekki umferð á veginum, sem hann fer yfir, óþarfa óþægindum, ef hann neyðist til  að nema þar staðar. 

        Hér að framan var það rakið að Guðrún kvaðst hafa ekið á 50 km hraða inn á gatna­mótin og styðst það við framburð Svans, er kvað jeppann hafa verið á nokkurri ferð.  Ellert Þór bar að hafa séð til ferða jeppans áður en hann kom á gatnamótin og er það niðurstaða dómsins, með vísun til framangreindra ákvæða umferðarlaganna, að hann hefði ekki átt að taka af stað fyrr en útséð var með hvort jeppinn myndi stöðva við gatnamótin eða ekki.  Hann beið hins vegar ekki þar til útséð var með það og á því sök á árekstrinum.  Stefndu verða því sýknaðir af kröfu stefnanda en málskostnaður skal falla niður.

 

        Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

Dómsorð

        Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Ólafur Elías Ólafsson, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., en málskostnaður fellur niður.