Hæstiréttur íslands
Mál nr. 303/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 8. júní 2006. |
|
Nr. 303/2006. |
Sýslumaðurinn á Akureyri(Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Arnar Sigfússon hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, skyldi á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 afplána 30 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006, þar sem mælt var fyrir um að varnaraðili afplánaði 30 daga eftirstöðvar þriggja mánaða fangelsisrefsingar, sem hann hefði hlotið með dómi Héraðsdómi Norðurlands eystra 20. janúar 2005. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Það athugist að refsingin, sem kveðið var á um í hinum kærða úrskurði að varnaraðili skyldi afplána, byggist á dómi Hæstaréttar 20. janúar 2005 í máli nr. 351/2004. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands 2. júní 2006.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, er tilkomið vegna kröfu sýslumannsins á Akureyri, dagsettri 1. júní 2006, þess efnis að X, [kt.], verði með úrskurði gert að afplána 30 daga eftirstöðvar 3 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 20. janúar 2005 og sú afplánun hefjist þegar gæsluvarðhaldsvist sem hann nú sætir líkur. Þann 18. september sl. var X veitt reynslulausn í eitt ár á 30 daga eftirstöðvum þessarar refsingar.
Skipaður verjandi varnaraðila krefst þess að kröfu sýslumanns verði hafnað og kveður skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 ekki verið uppfyllt. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa og þess að hún verði greidd úr ríkissjóði.
Sýslumaður byggir kröfu sína 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Byggt er á því að X hafi gróflega rofið almenn skilyrði reynslulausnar með því að hafa, ásamt félögum sínum A, [kt.] og B, [kt.], ruðst í heimildarleysi inn í íbúð C, [kt.], að D-götu og barið hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði sennilega og hlaut aðra áverka í andliti. Enn hafi ekki reynst unnt að staðreyna áverkana þar sem ekki hafi verið hægt að röntgenmynda andlit hans fyrir bólgum. Þeir hafi þvingað hann með hótunum til að hringja í félaga sinn, E, [kt.] og boða hann á sinn fund. Í því skyni að fá hann til að hringja hafi þeir misþyrmt syni C, F, [kt.]. F hafi verið barinn ítrekað í andlitið meðan hann var að hringja og jafnframt hafi þeir hótað að klippa fingur af C og F með garðklippum, ef hann hlýddi ekki fyrirmælum þeirra. F hafi af árásinni hlotið brot á kinnbeini og augntótt. C hafi hringt í E og hann komið á staðinn og þá umsvifalaust verið barinn niður með hafnaboltakylfu, sparkað hafi verið í hann og litli fingur vinstri handa klipptur af með runnaklippum.
Brot þau sem X sé undir rökstuddum grun um að hafa framið varði við 231. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga og geti varðað allt að 16 ára fangelsi.
Álit dómsins:
Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur vitna um lýsingu atvika og önnur gögn sem rýra trúverðugleika framburðar varnaraðila um atvik. Auk þess ber varnaraðila og öðrum grunuðum í málinu ekki fyllilega saman um hvernig þeir vörðu umræddum morgni. Þá liggur fyrir staðfesting Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 30. maí 2006, um að varnaraðila hafi verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingar svo sem greinir í beiðni sýslumanns.
Það er álit dómsins að skilmerki stafliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga séu uppfyllt og með vísan til þess fellst dómurinn á að varnaraðili skuli afplána 30 daga eftirstöðvar 3 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 20. janúar 2005. Ekki er grundvöllur fyrir því að dómari mæli fyrir um framkvæmd afplánunar refsingarinnar.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
X, [kt.], afpláni 30 daga eftirstöðvar 3 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, dags. 20. janúar 2005.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Arnars Sigfússonar hdl. ákveðst kr. 50.000.