Mál nr. 628/2015
- Dómur
- Endurupptaka
- Stjórnsýslunefnd
- Stjórnarskrá
- Frávísun frá Hæstarétti
Með úrskurði endurupptökunefndar var fallist á beiðni H um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2014. Niðurstaða nefndarinnar var reist á því annars vegar að héraðsdómur í málinu hafði ekki verið birtur fyrir H samkvæmt 156. gr., sbr. 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og hins vegar að H hafði ekki undirritað yfirlýsingu um áfrýjun, sem bjó að baki áfrýjunarstefnu ríkissaksóknara, þótt gert hafði verið ráð fyrir því í texta hennar, en í stað þess hafði S, verjandi hans í héraði, ritað undir hana. Hefði yfirlýsingin þannig ekki fullnægt ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 199. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt endurupptökunefnd, sem samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla væri sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd, væru meðal annars með 215. gr. laga nr. 88/2008 fengin viðfangefni, sem vörðuðu úrlausn dómsmála, fengi það því ekki breytt að dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar. Yrði á þeim grunni að taka afstöðu til þess hvort lög hefðu með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd hafði komist að í úrskurði sínum. Talið var að störfum S sem verjanda H í héraði hefði lokið við uppkvaðningu héraðsdómsins, sbr. 5. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn yrði, að virtum samskiptum H og S í framhaldi af uppkvaðningu héraðsdóms, að líta svo á að H hefði veitt S umboð, sem félli undir ákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn, til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart ríkissaksóknara og dómstólum vegna áfrýjunar dómsins. Gæta yrði að því að birting héraðsdóms fyrir ákærðum manni hefði þau áhrif ein að frestur hans samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 til að lýsa yfir áfrýjun dómsins byrjar að líða við birtinguna, en af því markast um leið hvenær fyrst megi fullnægja ákvæðum dómsins um refsingu og önnur viðurlög, sbr. 4. mgr. 185. gr. sömu laga. Hefði ríkissaksóknara mátt líta svo á þegar yfirlýsing um áfrýjun í nafni H hefði borist, án þess að héraðsdómurinn hefði áður verið birtur fyrir honum samkvæmt 156. gr. laga nr. 88/2008, að H væri nægilega kunnugt um efni dómsins til að honum væri fært að taka ákvörðun um hvort hann myndi una honum eða áfrýja. Í framkvæmd við áfrýjun héraðsdóma í sakamálum hefði lengi tíðkast að telja lögmann bæran um að standa að yfirlýsingu til ríkissaksóknara um áfrýjun án þess að lögð væri fram sérstök yfirlýsing ákærða sjálfs um áfrýjun eða skriflegt umboð hans til lögmannsins í þessu skyni. Hefðu þau tilvik um árabil í raun verið í meiri hluta. Í því ljósi yrði að líta svo á að slíkt verk mætti í skilningi 2. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 telja venjulegt til að gæta hagsmuna ákærðs manns fyrir dómi. Samkvæmt framansögðu hefðu því ekki að lögum verið skilyrði til að verða við beiðni H um endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti. Þá var talið að með 3. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008 hefði löggjafinn falið nefnd, sem heyrir undir framkvæmdarvald ríkisins, hlutverk sem gæti náð til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla. Sú skipan væri andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar og væri því lagaákvæðið, sem leiddi til hennar, ekki gild réttarheimild og yrði þess vegna ekki beitt. Samkvæmt því gæti úrskurður endurupptökunefndar ekki orðið til þess að fyrri dómur Hæstaréttar hefði fallið úr gildi. Af þeim sökum var málinu vísað frá Hæstarétti, en af því leiddi að dómur réttarins í máli nr. 356/2014 stóð í öllum atriðum óhaggaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Með bréfi til endurupptökunefndar 29. júlí 2015 leitaði ákærði eftir því að hæstaréttarmálið nr. 356/2014, sem dómur var kveðinn upp í 30. apríl 2015, yrði endurupptekið. Nefndin varð við þeirri beiðni 31. ágúst sama ár. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 4. september 2015 vegna endurupptöku málsins sem birt var fyrir ákærða og brotaþola.
Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd frá því sem hún var ákveðin með hinum áfrýjaða dómi sem var kveðinn upp 11. apríl 2014.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.
Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara 30. ágúst 2013, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 27. september 2010 slegið með hafnarboltakylfu í rúðu í vinstri framhurð nánar tiltekinnar bifreiðar, en brotaþoli hafi setið inni í henni í ökumannssæti. Hafi rúðan mölbrotnað og glerbrot þeyst í augu brotaþola með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið skurði á hornhimnu á báðum augum og augasteinn skaddast í öðru þeirra, en af þessu hafi hann blindast á öðru auga og sjón hans orðið 20% á hinu. Þegar brotaþoli hafi svo stigið í framhaldi af þessu út úr bifreiðinni hafi ákærði slegið í öxl hans með kylfunni. Í ákæru var jafnframt greint frá einkaréttarkröfu brotaþola, sem krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda ákærða vegna tjóns af áverkum sem hann kvaðst hafa hlotið á framangreindan hátt.
Í hinum áfrýjaða dómi var talið sannað að ákærði, sem neitaði sök, hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru. Með því að ósannað þótti á hinn bóginn að ákærði hafi haft ásetning til að valda brotaþola svo miklum áverkum á augum, sem raun varð á, var háttsemi ákærða að því leyti heimfærð til 219. gr. almennra hegningarlaga, en að öðru leyti var hún talin varða við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í eitt ár, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Jafnframt var viðurkennd skaðabótaskylda ákærða við brotaþola vegna líkamstjóns þess síðarnefnda og ákærða gert að greiða sakarkostnað að mestu leyti.
Ríkissaksóknara barst 8. maí 2014 yfirlýsing um áfrýjun, sem nánar verður vikið að hér síðar, en á grundvelli hennar leit hann svo á að ákærði skyti málinu til Hæstaréttar og gaf því til samræmis út áfrýjunarstefnu 12. maí 2014. Málsgögn bárust réttinum 2. janúar 2015, en sem fyrr segir felldi hann dóm á málið 30. apríl sama ár. Í dóminum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða, svo og um einkaréttarkröfu og sakarkostnað. Bæði brot ákærða voru á hinn bóginn talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing hans ákveðin fangelsi í átján mánuði og áfrýjunarkostnaður allur lagður á hann.
Ákærði fór þess á leit við endurupptökunefnd 29. júlí 2015 að málið yrði endurupptekið fyrir Hæstarétti og færði hann fyrir þeirri beiðni tvær ástæður. Annars vegar vísaði ákærði til þess að hann hafi ekki verið viðstaddur uppsögu dóms í héraði og hefði eins og atvikum var háttað því borið samkvæmt 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að birta dóminn fyrir honum eftir ákvæðum 156. gr. sömu laga. Það hafi ekki verið gert og gæti ekki staðist að dóminum hafi verið áfrýjað án þess að hann hafi verið birtur ákærða, enda hafi dómurinn án birtingar ekki réttaráhrif gagnvart honum. Hins vegar byggði ákærði á því að yfirlýsing um áfrýjun, sem bjó að baki áfrýjunarstefnu ríkissaksóknara 12. maí 2014, hafi ekki uppfyllt ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Yfirlýsingin hafi borið með sér að hún hafi verið send „til bráðabirgða“ og stafaði ekki frá ákærða þótt „form hennar gerði ráð fyrir því“, en ekki hafi mátt líta svo á að verjandi hans í héraði, sem ekki hafi verið hæstaréttarlögmaður, hafi haft stöðuumboð til að áfrýja héraðsdóminum í þágu ákærða. Hafi af báðum þessum ástæðum verið verulegir annmarkar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Þeir hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins, enda hefði að réttu lagi átt að vísa því frá Hæstarétti í stað þess að kveða upp efnisdóm. Væri því fullnægt skilyrðum til endurupptöku samkvæmt d. lið 1. mgr. 211. gr. og 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, eins og þeim var breytt með 4. og 8. gr. laga nr. 15/2013.
Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærða með úrskurði 31. ágúst 2015. Þar var meðal annars vísað til þess að hvorki hafi ákærði verið viðstaddur uppkvaðningu héraðsdóms né dómurinn verið birtur fyrir honum síðar, en gögn málsins bæru þó með sér að honum hafi verið kunnugt um niðurstöðu dómsins, hann hafi verið ósáttur við hana og haft hug á að áfrýja. Þá hafi ákærði ekki undirritað yfirlýsingu um áfrýjun, þótt gert hafi verið ráð fyrir því í texta hennar, en þess í stað hafi verjandi ákærða í héraði ritað undir hana. Þar hafi verið tekið fram að frumrit yfirlýsingarinnar yrði sent ríkissaksóknara þegar verjandanum bærist það, en það hafi aldrei verið gert. Í úrskurðinum sagði síðan: „Þau lagaákvæði sem hér hefur verið fjallað um, 3. mgr. 185. gr., sbr. 156. gr. og 2. mgr. 199. gr. laga um meðferð sakamála kveða afdráttarlaust á um að dómfelldi komi sjálfur að málum, við birtingu dóms og við yfirlýsingu um áfrýjun, þar með talið yfirlýsingu um hvern hann óski eftir að fá skipaðan sem verjanda eða hvort hann hafi hug á að verja sig sjálfur. Kveðið er á um það sérstaklega á hvern máta bregða má frá því að birta dóm fyrir dómfellda. Þá gera lög ekki ráð fyrir að stöðuumboð lögmanns eitt og sér dugi til að lýsa yfir áfrýjun. Hér er að mati endurupptökunefndar um slík grundvallarréttindi að ræða að það verður að vera hafið yfir allan vafa að dómfellda sé kunnugt um efni dóms svo honum sé unnt að taka upplýsta afstöðu til dómsniðurstöðu, hvort henni skuli una eða æskja áfrýjunar. Þá má enginn vafi leika á vilja dómfellda til áfrýjunar, í hvaða skyni áfrýjað er né á því hvern hann kýs til að gæta hagsmuna sinna fyrir Hæstarétti. Öll þess atriði eru órjúfanlegur þáttur í réttlátri málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Fyrirliggjandi eru í málinu gögn sem gefa til kynna að endurupptökubeiðanda hafi verið kunnugt um dóm héraðsdóms og hafi haft hug á áfrýjun. Í ljósi þess hve afdráttarlaust er kveðið á um framkvæmd birtingar, tilkynningu um áfrýjun og tilnefningu verjanda ef um slíka á að vera að ræða, nægja þessar vísbendingar á hinn bóginn ekki gegn mótmælum endurupptökubeiðanda til þess að fullyrt verði að ákvæðum laga sé fullnægt í þessum efnum. Með vísan til framangreindra ágalla er lúta bæði að birtingu og áfrýjun dóms héraðsdóms er óhjákvæmilegt að telja að skilyrði d-liðar 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt, að verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Sýnist í þessum efnum áhorfsmál hvort efnisdómur hefði verið lagður á málið ef komið hefði til umfjöllunar fyrir Hæstarétti að dómur héraðsdóms hafi hvorki verið birtur né yfirlýsing frá dómfellda um áfrýjun lægi fyrir. Ber því með vísan til alls ofanritaðs að fallast á endurupptöku dóms í hæstaréttarmáli nr. 356/2014 sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 30. apríl 2015.“
II
Þegar héraðsdómur í málinu var kveðinn upp á dómþingi 11. apríl 2014 var sótt þing af hálfu ákæruvaldsins, en hvorki af hálfu ákærða né brotaþola. Eftir uppsögu dómsins var fært í þingbók að lögreglu yrði falið að birta hann. Síðdegis sama dag sendi verjandi ákærða í héraði, Stefán Karl Kristjánsson, sem þá var héraðsdómslögmaður, tölvubréf til ákærða, sem mun á þeim tíma hafa verið búsettur í Noregi. Í bréfinu var því fyrst lýst að lögmaðurinn hafi árangurslaust reynt að ná símsambandi við ákærða, en síðan var greint frá því að dómur hafi gengið í málinu þá um morguninn og að hann fylgdi með bréfinu. Kvaðst lögmaðurinn mundu hafa viljað ræða við ákærða um niðurstöðuna, en hann hafi verið sakfelldur fyrir líkamsárás, þó þannig að talið væri sannað að hann hafi ekki haft ásetning til að valda því tjóni sem varð. Ákærði hafi fengið „12 mánaða dóm“, sem væri að fullu bundinn skilorði til tveggja ára, þannig að refsing félli niður að þeim tíma liðnum ef ákærði gerði ekkert af sér. Þá væri viðurkennd skaðabótaskylda ákærða við brotaþola, sem gæti á þeim grunni höfðað skaðabótamál gegn honum. Ítrekaði lögmaðurinn síðan að dómurinn fylgdi með bréfinu og tók fram að hann gæti svarað spurningum ákærða „strax eftir helgina“, en ákærði ætti þrjá möguleika þegar honum „verður birtur dómurinn með formlegum hætti“, í fyrsta lagi að una dómi, í öðru lagi að lýsa yfir áfrýjun og í þriðja lagi að taka frest, en hann væri „í 28 daga frá því að þér er birtur dómurinn.“
Ákærði sendi lögmanninum tölvubréf 5. maí 2014 með yfirskriftinni: „Áfríun“. Meginmál bréfsins var svohljóðandi: „sæll þarft þú ekki að senda mér gögn til að skrifa undir það tekur mig tíma að finna skanna til að senda á hér og senda til baka tíminn líður svo fljótt 28 dagar að verða búnir“. Aftur sendi ákærði tölvubréf til lögmannsins 7. maí 2014 með sömu yfirskrift, en þar sagði: „sendu mér gögn til að áfria málinu“. Lögmaðurinn svaraði ákærða síðar sama dag með svohljóðandi tölvubréfi: „Þar sem ekki er búið að birta þér dóminn þá getur þú verið rólegur. En áfrýjunaryfirlýsing kemur til þín á morgun.“ Þessu svaraði ákærði um hæl með tölvubréfi, þar sem hann baðst afsökunar, kvaðst hafa verið orðinn stressaður og þakkaði lögmanninum fyrir. Lögmaðurinn sendi síðan ákærða tölvubréf 8. maí 2014, þar sem sagði: „Hér er áfrýjunaryfirlýsingin. Kvittaðu undir og sendu mér hana svo til baka skannaða og einnig í pósti“. Síðar sama dag sendi lögmaðurinn tölvubréf til skrifstofu ríkissaksóknara og sagði þar að meðfylgjandi væri „áfrýjunaryfirlýsing Hannibals Sigurvinssonar“, en óskað væri eftir að móttaka bréfsins yrði staðfest.
Ætla verður að yfirlýsing um áfrýjun, sem lögmaðurinn vísaði til í tölvubréfinu til ákærða 8. maí 2014, hafi verið samhljóða þeirri, sem lögmaðurinn sendi samkvæmt framansögðu til ríkissaksóknara sama dag, en sú yfirlýsing var meðal gagna málsins við upphaflega meðferð þess fyrir Hæstarétti. Yfirskrift skjalsins var: „Yfirlýsing um áfrýjun“ og hljóðaði meginmál þess svo: „Ég undirritaður, Hannibal Sigurvinsson ... með aðsetur í Noregi, lýsi því yfir, að ég áfrýja til Hæstaréttar Íslands dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. S-770/2013: Ákæruvaldið gegn Hannibal Sigurvinssyni, uppkv. 11. apríl 2014 af Jóni Höskuldssyni, héraðsdómara, Kristni Halldórssyni, héraðsdómara og Guðmundi Viggóssyni, augnlækni. Með dómi var ég sakfelldur og dæmdur í fangelsi í tólf mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, og dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá var viðurkennd bótaskylda vegna líkamstjóns brotaþola, A. Dómur hefur ekki verið birtur mér með lögformlegum hætti, en ég hef fengið hann í hendur. Ég uni ekki sakfellingu og áfrýja dómi til að fá henni hnekkt. Dómi er áfrýjað, aðallega, til þess að fá dóm ómerktan og málinu vísað til héraðsdóms, til vara, til endurskoðunar á niðurstöðum á beitingu réttarreglna og mati á sönnunargildi framburða, en til þrautavara, til mildunar refsingar. Þá er ennfremur niðurstöðum dóms um viðurkenningu á óskiptri bótaskyldu gagnvart brotaþola, A, áfrýjað, aðallega, til frávísunar, en til vara, til lækkunar óskertra bóta. Um áfrýjun er vísað til a-; b-; c- og d-liða 196. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Vilji minn er að Kristján Stefánsson, hrl. verði skipaður verjandi minn fyrir Hæstarétti Íslands.“ Neðan við þennan texta voru rituð í tveimur línum orðin: „Gert í Noregi,“ og „Virðingarfyllst“, en þar fyrir neðan var lína og undir henni vélritað nafn ákærða. Enn neðar á skjalinu sagði eftirfarandi: „Yfirlýsing þessi er send Hæstarétti að beiðni Hannibals á grundvelli heimildar undirritaðs. Frumrit verður sent Ríkissaksóknara um leið og það berst skrifstofu okkar.“ Þennan síðastgreinda texta undirritaði Stefán Karl Kristjánsson héraðsdómslögmaður 8. maí 2014 „F.h. ákærða“, en neðst á skjalinu kom fram að því væri beint til ríkissaksóknara.
Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti hefur ekki legið fyrir önnur yfirlýsing um áfrýjun en sú sem að framan var lýst. Áfrýjunarstefna, sem ríkissaksóknari gaf sem fyrr segir út 12. maí 2014 á grundvelli yfirlýsingarinnar, var ekki birt fyrir ákærða, enda ekki þörf á því, sbr. 3. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008. Hún var á hinn bóginn birt fyrir brotaþola 15. maí 2014 og send Hæstarétti með bréfi ríkissaksóknara 21. sama mánaðar, þar sem fram kom að ákærði hafi óskað eftir að Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi sinn fyrir réttinum, auk þess sem tekið var fram hver myndi flytja málið af hálfu ákæruvaldsins. Hæstiréttur skipaði ákærða verjanda í samræmi við þetta 23. maí 2014. Hvorki verður séð af gögnum málsins að frekari bréfaskipti hafi orðið um áfrýjun héraðsdómsins fyrr en eftir að dómur Hæstaréttar í málinu var kveðinn upp 30. apríl 2015 né að vikið hafi verið að atriðum í tengslum við hana í málatilbúnaði aðila við upphaflega meðferð málsins fyrir réttinum.
Í málinu liggur fyrir tölvubréf 9. júlí 2015 frá núverandi verjanda ákærða til Stefáns Karls Kristjánssonar, sem þá var orðinn hæstaréttarlögmaður. Í bréfinu kom fram að ákærði hafi lýst því að hann hafi verið í sambandi við Stefán um hugsanlega áfrýjun eftir að héraðsdómur gekk í málinu 11. apríl 2014, en Stefán hafi sagt að ekki þyrfti að taka ákvörðun um áfrýjun fyrr en dómurinn hefði verið birtur fyrir ákærða. Hafi ákærði af þessum sökum ekki óskað eftir því að Stefán áfrýjaði héraðsdóminum og aldrei hafi verið minnst á að Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður yrði verjandi ákærða fyrir Hæstarétti. Eftir þetta hafi tíminn liðið „án þess að nokkuð bólaði á birtingu dómsins“ og hafi ákærði smám saman hætt að hugsa um málið. Í byrjun maí 2015 hafi hann á hinn bóginn komist „að því fyrir tilviljun að dómur hefði fallið í Hæstarétti.“ Honum hafi verið „eðlilega illa brugðið og ekki bætti úr að niðurstaðan var mjög óhagstæð fyrir hann miðað við fyrri dóm.“ Í bréfinu var síðan vikið að yfirlýsingunni um áfrýjun, sem Stefán undirritaði samkvæmt áðursögðu 8. maí 2014, og tekið fram að eftir frásögn ákærða hafi Stefán ekki haft „umboð eða heimild frá honum til að áfrýja umræddu máli.“ Var skorað á Stefán að afhenda yfirlýsinguna um áfrýjun með undirritun ákærða, svo og afrit „heimildar“ frá ákærða sem Stefán hafi vísað til í texta við undirskrift sína undir yfirlýsinguna.
Stefán Karl Kristjánsson svaraði framangreindu tölvubréfi samdægurs og kvað „tölvupóstsamskipti vegna mála Hannibals“ fylgja svarinu. Í þeim mætti sjá bréfaskipti hans og ákærða dagana 5. til 8. maí 2014, þar sem fram kæmi vilji ákærða til að áfrýja héraðsdóminum, að hann ætti erfitt með að fá aðgang að svonefndum skanna til að taka tölvutæka mynd af áfrýjunaryfirlýsingunni með undirritun sinni og að nafn Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns hafi komið fram sem verjandi ákærða fyrir Hæstarétti. Kvaðst Stefán hafa sent „áfrýjun hans“ til ríkissaksóknara „þar sem vilji hans er að áfrýja málinu.“ Þetta hafi verið gert vegna vandkvæða ákærða við að gera þetta sjálfur „en í fullu samráði við hann eftir samtöl við hann.“ Þá var þess getið að ákærði hafi komið á skrifstofu Stefáns nokkrum sinnum eftir þetta, meðal annars vegna annars tiltekins málefnis, en ákærða hafi verið „ávallt kunnugt um að málið sætti áfrýjun.“ Einnig hafi þeir átt í samskiptum í janúar 2015 um gagnaöflun í tengslum við skil greinargerðar fyrir Hæstarétti og hafi ákærði verið „upplýstur um ástæður þess að við þurftum upplýsingar“. Loks var þess getið að ákærði virtist ekki hafa sent Stefáni undirritað eintak af yfirlýsingunni um áfrýjun, en „vilji hans til áfrýjunar var skýr og settur fram skriflega og í samtölum okkar.“ Hafi ákærði jafnframt verið „alla tíð upplýstur um að mál hans væri til vinnslu og að Kristján Stefánsson hrl. myndi annast um málarekstur“, auk þess sem ákærði hafi haft „undir höndum áfrýjunaryfirlýsinguna.“
III
Með lögum nr. 15/2013 voru gerðar breytingar á lögum nr. 15/1998 um dómstóla, lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 15/2013 var nýrri grein, sem varð 34. gr., bætt í lög nr. 15/1998 og eru þar ákvæði um endurupptökunefnd. Eftir breytingu, sem var gerð á þessari nýju grein með 35. gr. laga nr. 78/2015, er mælt svo fyrir í 1. mgr. hennar að endurupptökunefnd sé sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem taki ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í héraði eða fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 sitja í endurupptökunefnd þrír aðalmenn, einn tilnefndur af Hæstarétti, annar tilnefndur af dómstólaráði og sá þriðji kosinn af Alþingi, en hver nefndarmaður er síðan skipaður af innanríkisráðherra til sex ára í senn, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Í 6. mgr. hennar er mælt fyrir um að meiri hluti nefndarinnar taki ákvarðanir hennar, þær skuli rökstuddar og birtar opinberlega eftir að þær hafi verið kynntar aðilum máls. Þá er í 7. mgr. tekið fram að ákvörðun nefndarinnar um að hafna beiðni um endurupptöku sé endanleg og verði henni ekki skotið til dómstóla. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. fer um endurupptöku máls að öðru leyti eftir lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála.
Í 211. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um heimildir til endurupptöku sakamáls, sem dæmt hefur verið í héraði án þess að dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Samkvæmt 1. mgr. 214. gr. sömu laga tekur endurupptökunefnd ákvörðun í slíkum tilvikum um hvort mál verði endurupptekið. Sé beiðni um endurupptöku tekin til greina skal fyrri dómur í málinu falla úr gildi, í heild eða að hluta, nema nefndin ákveði að réttaráhrif hans haldist þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp. Í 215. gr. laganna eru ákvæði um endurupptöku sakamáls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar gilda sömu skilyrði fyrir endurupptöku máls í Hæstarétti og fram koma í 211. gr. laganna. Þá er í 3. mgr. 215. gr. vísað til fyrrnefndrar 1. mgr. 214. gr. um ákvörðun endurupptökunefndar.
Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 15/1998 segir sem fyrr greinir að endurupptökunefnd sé sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd. Þótt nefndinni, sem heyrir samkvæmt þessu undir framkvæmdarvald ríkisins, séu meðal annars með 215. gr. laga nr. 88/2008 fengin viðfangsefni, sem varða úrlausn dómsmála, fær það því ekki breytt að dómstólar eiga eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar. Verður á þeim grunni að taka afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í úrskurði sínum 31. ágúst 2015 um endurupptöku þessa máls.
IV
Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 skal verjandi ákærða í sakamáli skipaður eða tilnefndur úr hópi lögmanna, en skipun verjanda við meðferð máls fyrir héraðsdómi fellur sjálfkrafa úr gildi þegar dómur er kveðinn upp, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga. Gæti lögmaður hagsmuna ákærða í tengslum við sakamál að gengnum héraðsdómi, en án þess að lögmaðurinn hafi verið skipaður verjandi fyrir Hæstarétti eftir áfrýjun dómsins, sbr. 5. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008, er óhjákvæmilegt að líta svo á að um þá hagsmunagæslu fari eftir ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn, svo og öðrum almennum reglum um störf þeirra.
Í samræmi við það sem að framan segir lauk störfum Stefáns Karls Kristjánssonar sem verjanda ákærða þegar hinn áfrýjaði dómur hafði verið kveðinn upp 11. apríl 2014. Af fyrrgreindum tölvubréfum, sem fóru milli ákærða og Stefáns 5. til 8. maí sama ár, verður á hinn bóginn að líta svo á að ákærði hafi í framhaldi af þessum lokum starfa Stefáns sem verjanda veitt honum umboð sem lögmanni til að gæta hagsmuna sinna gagnvart ríkissaksóknara og dómstólum með því að hlutast til um áfrýjun dómsins. Um það umboð giltu samkvæmt áðursögðu reglur laga nr. 77/1998.
Samkvæmt 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 telst héraðsdómur birtur fyrir ákærða ef hann sækir þing við uppkvaðningu dómsins og honum stendur annaðhvort til boða endurrit dómsins þá þegar eða farið hefur verið með málið fyrir dómi eftir ákvæðum 1. mgr. 164. gr. sömu laga. Sé héraðsdómur ekki birtur á þennan hátt og ákærða eru þar gerð önnur eða þyngri viðurlög en sekt eða upptaka eigna, sem svara til áfrýjunarfjárhæðar í einkamáli, skal birta honum dóminn eftir reglum 156. gr. laganna. Frá síðastnefndum fyrirmælum 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008, sem áttu við í tilviki ákærða, eru ekki gerðar undantekningar eftir hljóðan laganna. Að því verður á hinn bóginn að gæta að birting héraðsdóms fyrir ákærðum manni hefur þau áhrif ein að frestur hans samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 til að lýsa yfir áfrýjun dómsins byrjar að líða við birtinguna, en af því markast um leið hvenær fyrst megi fullnægja ákvæðum dómsins um refsingu eða önnur viðurlög, sbr. 4. mgr. 185. gr. sömu laga. Í máli þessu barst ríkissaksóknara 8. maí 2014 yfirlýsing um áfrýjun í nafni ákærða án þess að héraðsdómurinn frá 11. apríl sama ár hafi áður verið birtur fyrir honum. Á þeim grunni mátti ríkissaksóknari líta svo á að ákærða væri þegar orðið nægilega kunnugt um efni dómsins til að honum væri fært að taka ákvörðun um hvort hann mundi una dóminum eða áfrýja. Með yfirlýsingunni frestaðist einnig sjálfkrafa fullnusta dómsins, sbr. 4. mgr. 185. gr. og lokamálslið 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Verði litið svo á að yfirlýsingin um áfrýjun dómsins hafi verið gild að lögum gat þegar af þessum ástæðum engu skipt að hann hafi ekki verið birtur fyrir ákærða eftir 156. gr. laga nr. 88/2008.
Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að líta verði svo á að ákærði hafi í framhaldi af uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms veitt Stefáni Karli Kristjánssyni umboð, sem féll undir ákvæði laga nr. 77/1998, til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart ríkissaksóknara og dómstólum vegna áfrýjunar dómsins. Í 2. mgr. 21. gr. þeirra laga er mælt svo fyrir að sé ekki sýnt fram á annað feli umboð aðila til lögmanns í sér heimild til að gera hvað eina, sem venjulegt megi telja, til að gæta hagsmuna aðilans fyrir dómi. Í framkvæmd við áfrýjun héraðsdóma í sakamálum hefur lengi tíðkast að telja lögmann bæran um að standa að yfirlýsingu til ríkissaksóknara um áfrýjun sakamáls án þess að lögð sé fram sérstök yfirlýsing ákærða sjálfs um áfrýjun eða skriflegt umboð hans til lögmannsins í þessu skyni. Hafa þau tilvik um árabil í raun verið í meiri hluta. Í því ljósi verður að líta svo á að slíkt verk megi í skilningi 2. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 telja venjulegt til að gæta hagsmuna ákærðs manns fyrir dómi. Í máli þessu hefur ákærði ekki sýnt fram á að Stefán Karl Kristjánsson hafi farið út fyrir umboð sitt með því að koma á þennan hátt á framfæri fyrir hans hönd yfirlýsingunni 8. maí 2014 um áfrýjun. Ríkissaksóknara var því rétt að gefa út á grundvelli yfirlýsingarinnar áfrýjunarstefnu í málinu 12. maí 2014, en að þessu bar Hæstarétti jafnframt að gæta að eigin frumkvæði við meðferð málsins sem lauk með dómi hans 30. apríl 2015.
Samkvæmt framansögðu voru því ekki að lögum skilyrði til að verða við beiðni ákærða um endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti, svo sem endurupptökunefnd ákvað að gera. Í 3. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008 er sem fyrr segir kveðið á um að slík ákvörðun hafi meðal annars í för með sér að fyrri dómur Hæstaréttar falli úr gildi hafi endurupptökunefnd ekki mælt fyrir um að hann haldi gildi sínu þar til nýr dómur er kveðinn upp, en það var ekki gert í þessu tilviki. Með þessum reglum hefur löggjafinn falið nefnd, sem heyrir eins og áður segir undir framkvæmdarvald ríkisins, hlutverk sem getur náð til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla. Sú skipan er andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar og er því lagaákvæðið, sem leiðir til hennar, ekki gild réttarheimild og verður þess vegna ekki beitt. Samkvæmt því gat úrskurður endurupptökunefndar 31. ágúst 2015 ekki orðið til þess að fyrri dómur Hæstaréttar hafi fallið úr gildi. Af þeim sökum ber að vísa máli þessu frá Hæstarétti, en af því leiðir að dómur réttarins 30. apríl 2015 í máli nr. 356/2014 stendur í öllum atriðum óhaggaður.
Samkvæmt 6. mgr. 215. gr., sbr. 4. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008 ber að fella á ríkissjóð sakarkostnað vegna endurupptöku þessa máls fyrir Hæstarétti. Fer um málsvarnarlaun verjanda ákærða eftir því sem í dómsorði greinir, en í fjárhæð þeirra er innifalinn virðisaukaskattur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 930.000 krónur.
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2015 |
Nr. 356/2014.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Hannibal Sigurvinssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás.
H var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið hafnaboltakylfu í hliðarrúðu bifreiðar, sem A sat í, með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði og glerbrot þeyttust í andlit A, sem hlaut alvarlega áverka á augum. Þá var H talinn hafa brotið gegn sama ákvæði með því að slá til A með hafnaboltakylfunni eftir að hinn síðarnefndi hafði stigið út úr bifreiðinni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ásetningur H til verksins hefði verið einbeittur og árásin fólskuleg. Þá ætti hann sér engar málsbætur. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að sök verði skipt.
Brotaþolinn A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, einkaréttarkröfu brotaþola og sakarkostnað.
Ákærði veittist með vísvitandi ofbeldi að brotaþola með því að slá með hafnaboltakylfu í hliðarrúðu bifreiðar, sem hann sat í, með þeim afleiðingum að rúðan mölbrotnaði og glerbrot þeyttust á brotaþola og í bæði augu hans, sem leiddi til þess að hann hlaut alvarlega áverka á þeim. Stóð ásetningur ákærða til ofbeldisbrots gagnvart brotaþola, en virða verður hinar alvarlegu afleiðingar þess honum til gáleysis. Varðar brot hans við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig verður heimfærð undir sömu lagagrein sú háttsemi ákærða að hafa, eftir að brotaþoli var kominn út úr bifreiðinni, slegið til hans með hafnaboltakylfunni, sem verður að teljast hættulegt vopn, þannig að hún lenti í öxl brotaþola.
Ásetningur ákærða til verksins var styrkur og einbeittur og árásin fólskuleg. Hann olli brotaþola alvarlegum augnskaða og er alls óvíst hvort hann muni endurheimta sjón og ef svo verður að hve miklu leyti. Eins og rakið er í héraðsdómi varð veruleg töf á meðferð málsins, bæði hjá lögreglu og ákæruvaldi, sem ákærða verður ekki um kennt. Er málsmeðferðin í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þegar litið er til þess hve brot ákærða var alvarlegt og að því virtu hvaða refsing er lögð við því er ekki fært að skilorðsbinda hana. Samkvæmt þessu og með vísan til 1., 2., 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða, sem á sér engar málsbætur, ákveðin fangelsi í 18 mánuði og hefur þá verið tekið tillit til þess óhæfilega dráttar, sem orðið hefur á meðferð málsins.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Hannibal Sigurvinsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en að öðru leyti skal hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 527.649 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 30. ágúst 2013 á hendur Hannibal Sigurvinssyni, kennitala [...], [...], [...], „fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 27. september 2010, á bifreiðastæði framan við íbúðarhúsið [...] í Hafnarfirði, veist með ofbeldi A en ákærði sló með hafnaboltakylfu í hliðarrúðu bifreiðarinnar [...] ökumannsmegin, vitandi að A sat þar fyrir innan í ökumannssæti, með þeim afleiðingum að rúðan mölbrotnaði og glerbrot þeyttust á A og í bæði augu hans. Er A steig út úr bifreiðinni í kjölfarið, sló ákærði með hafnaboltakylfunni í vinstri öxl hans. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A hlaut um 5 mm langan skurð ofarlega á hornhimnu vinstra auga og skaddaðan augastein, og varð A blindur á vinstra auga og með 20% sjón á hægra auga.“
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir A, kennitala [...], kröfu um að viðurkennd verði bótaskylda ákærða vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut 27. september 2010 er ákærði veittist að honum með ofbeldi með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlega augnáverka, auk annars tjóns.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði bundin skilorði. Þá er þess krafist að bótakröfu A verði vísað frá dómi. Verjandi ákærða krefst þóknunar sér til handa.
I
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning klukkan 14.31 um að maður hefði fengið glerbrot í auga þegar rúða brotnaði í bifreið. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var sjúkrabifreið þá þegar komin á staðinn og brotaþoli inni í sjúkrabifreiðinni. Samkvæmt upplýsingum sjúkraflutningamanna hafi einhver glersalli verið í augum brotaþola og hafi þeir ætlað að drífa sig á slysadeild með hann ásamt B, félaga brotaþola. Vinur þeirra, C, varð eftir á vettvangi. Bifreiðin [...] var á vettvangi og mátti sjá að rúða í bílstjórahurð var brotin. Einnig mátti sjá ákomu á álramma í kringum rúðu. Glersalli lá á bifreiðastæðinu við hlið bifreiðarinnar og einnig fyrir aftan hana. Að sögn C hafi ákærði komið þarna að og brotið rúðuna með hafnaboltakylfu. Vitnið C sagði að hann, brotaþoli og B hafi verið inni í bifreiðinni og hafi brotaþoli setið undir stýri. Hafi brotaþoli ætlað að bakka og þá hafi ákærði komið og lamið í rúðuna með hafnaboltakylfu með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði. Brotaþoli hafi rokið út úr bifreiðinni og hafi ákærði lamið aftur í átt að brotaþola og taldi C höggið hafa lent í andlitinu á brotaþola. Að þessu loknu hafi ákærði farið á brott í grænum [...].
Haft hafi verið símasamband við brotaþola 30. september, sem þá hafi enn verið á sjúkrahúsi. Hafi brotaþoli kveðið forsögu málsins vera þá að hann hafi unnið hjá ákærða þar til í júlí síðastliðinn þegar ákærði hafi sagt honum upp störfum. Ákærði hafi skuldað honum laun í einn mánuð fyrir vinnu. Við brottreksturinn hafi brotaþoli farið af staðnum og skilið eftir opið. Ákærði hafi sagt að það hefði verið brotaþola að kenna að brotist hafi verið inn í fyrirtækið og stolið verkfærum fyrir 500.000 – 1.000.000 króna. Hafi ákærði hótað brotaþola handrukkurum og einnig hafi hann hótað foreldrum brotaþola. Þá hafi ákærði greinilega setið fyrir brotaþola sem hafi verið út í bifreið foreldra sinna með vinum sínum að skipta um útvarp þegar einn vina hans segi: „Þarna kemur einhver maður.“. Hafi brotaþoli þá litið til vinstri í sama mund og ákærði lemur með hafnaboltakylfu í rúðuna með þeim afleiðingum að glerbrotin fóru um allt og þar á meðal í augu brotaþola. Kvaðst brotaþoli hafa farið út úr bifreiðinni og þá hafi ákærði slegið aftur til hans en brotaþoli segist hafa náð að grípa í kylfuna. Þá hafi ákærði farið. Þá er haft eftir brotaþola að hann hafi farið í aðgerð strax við komuna á sjúkrahúsið og hafi hún tekið átta klukkustundir. Hann sæi ekkert með vinstra auganu en eitthvað örlítið með hægra auga. Hann hafi haft mikla verki í augunum um nóttina og ekkert sofið vegna þess.
Vitnið A, brotaþoli, kærði atvikið og gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 4. október 2010. Hann greindi frá því að upphaf málsins væri að í maí síðastliðinn hefði hann byrjað að vinna hjá ákærða á bílaverkstæðinu [...] og unnið þar fram að fyrstu helginni í júlí. Hefði brotaþoli ekki fengið greidd laun fyrir vinnu sína og ítrekað gengið eftir því en skuldin hefði verið 170.000 krónur fyrir júnímánuð. Þann 5. júlí hafi brotaþoli gengið út og skilið verkstæðið eftir mannlaust. Nokkrum dögum síðar hafi ákærði hringt í hann og borið á hann að hann hafi stolið verkfærum og hjólbörðum af verkstæðinu fyrir 300.000 krónur. Nokkrum dögum síðar hafi ákærði hringt aftur og þá sakað hann um að hafa stolið verkfærum fyrir 600.000 krónur. Hafi ákærði hótað brotaþola líkamsmeiðingum. Þá hafi ákærði hringt á heimili brotaþola og spurt um það hvort brotaþoli væri með verkfæri frá honum. Hafi ákærði hótað móður brotaþola og sagt að yrði verkfærunum ekki skilað myndi það bitna á fjölskyldu brotaþola. Kvaðst brotaþoli ekki hafa stolið frá ákærða en vilja fá greidd laun fyrir júní sem hann hafi ekki fengið utan 50.000 króna sem greiddar hafi verið 10. júlí 2010. Þegar atvikið átti sér stað var brotaþoli að laga útvarpið í bifreið foreldra sinna. Með honum hafi verið tveir kunningjar hans, C og B. Kvaðst brotaþoli hafi setið í ökumannssæti bifreiðarinnar þegar C hafi allt í einu kallað: „[...]“ Brotaþoli hafi séð hvar ákærði hafi komið hlaupandi með hafnaboltakylfu að bílnum og hafi hann þá ræst bílinn, sett í bakkgír og ekið aftur á bak. Kvaðst brotaþoli hafa síðan horft út um hliðarrúðuna og séð hvar ákærði hafi lamið með hafnaboltakylfunni í rúðuna og hafi hann náð að setja höndina fyrir en glerbrot hafi þó farið í bæði augu hans. Brotaþoli hafi þá opnað hurðina og þá hafi ákærði lamið hann með kylfunni í vinstri öxlina og öskrað: „Dótið mitt.“. Ákærði hafi ætlað að slá hann með kylfunni en brotaþoli kveðst hafa tekið í kylfuna og varist högginu og sagt ákærða að hann væri ekki með nein verkfæri frá honum. Þá hafi C og B komið út úr bifreiðinni og ákærði þá farið í burtu á bifreið sinni.
Brotaþoli gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 7. september 2011 og greindi frá því að hann hefði litið upp þegar C hafi kallað [...] og um leið hafi ákærði brotið hliðarrúðuna með hafnaboltakylfu og glerbrotin lent í andliti hans. Hann hafi náð að starta bifreiðinni í gang en bíllinn hafi síðan runnið aftur á bak og þar hafi hann farið út úr bifreiðinni. Það sé skýringin á því að glerbrot hafi verið á tveimur stöðum. Fyrst þegar ákærði hafi brotið rúðuna og síðan þegar hann opnaði hurðina en þá hafi glerbrot dottið niður á bílastæðið.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 20. október 2010. Kvaðst ákærði hafa verið að aka og þá mætt brotaþola. Þar sem ákærði hafi þurft að ræða við brotaþola hafi hann snúið við og fylgt brotaþola eftir. Hafi brotaþoli lagt í stæði og segir ákærði að hann hafi farið úr bifreið sinni til að ræða við brotaþola en þá hafi brotaþoli bakkað bílnum á ákærða. Hafi ákærði þá ýtt með vinstri hendi í hliðarglugga ökumannsmegin og við það hafi rúðan brotnað. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa verið með hafnaboltakylfu eins og honum hafi verið kynnt að vitni hafi borið. Þá kvað ákærði að brotaþoli hafi farið út úr bílnum en engin átök hafi verið þeirra á milli heldur hafi brotaþoli verið með handapat en ákærði kvaðst hafa náð að slá það frá sér án þess að koma við brotaþola. Þá kvað ákærði það ekki vera rétt að hann hafi gengið beint að bílnum með hafnabolakylfu. Hann hafi verið á rauðum [...] en hann eigi grænan [...] en sá bíll sé númerslaus á bak við heimili hans. Hafi númerin verið tekin af „um daginn“. Spurður um tengsl hans við brotaþola bar ákærði að hann hefði unnið hjá honum á dekkjaverkstæðinu AutoCar í „dekkjatörninni“ ásamt C. Hafi brotaþoli unnið út júní en hafi þá hætt. Hafi ákærði fengið upplýsingar um það að brotaþoli hefði brotist inn hjá honum eftir að hann var hættur og væri það mál í rannsókn hjá lögreglu. Ekkert hefði komið út úr þeirri rannsókn og hefði ákærði verið orðinn langþreyttur á aðgerðarleysi lögreglu og því viljað ræða sjálfur við brotaþola. Það hafi verið það sem hann var að gera 27. september en hann hafi ekki ætlað að valda brotaþola neinum skaða.
Vitnið D lýsti því í skýrslu hjá lögreglu að hún hefði verið stödd á heimili sínu og heyrt mikinn hávaða fyrir utan húsið. Þegar hún hafi litið út um gluggann hafi hún séð hvar brotaþoli hafi verið fyrir utan bíl foreldra hans en annar maður hafi verið að ganga frá, en hún hafi ekki getað greint frá því hvort sá aðili hafi verið með eitthvað í höndunum. Hafi sá farið upp í [...] jeppa gráan að lit. Hún hafi séð aftan á manninn og því ekki séð hann vel þannig að hún gæti þekkt hann aftur. Brotaþoli hafi kallað: „Gerið eitthvað strákar,“ en hann hafi haldið fyrir andlit sér og síðan hafi hann hlaupið inn til foreldra sinna með hendurnar fyrir andlitinu. Vitnið kvaðst oft hafa séð þennan sama jeppa þar sem honum hafi verið lagt í hrauninu skammt frá en þá hafi einhver maður setið í bílnum eins og hann væri að bíða eftir einhverjum.
Vitnið C sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu, sem tekin var 12. október 2010, að hann hefði setið inni í bíl foreldra brotaþola. Hefði hann setið í farþegasæti við hliðina á ökumanni. Hefði brotaþoli farið út úr bifreiðinni og hann þá séð ákærða koma gangandi til þeirra. Hann hafi sagt við brotaþola: „Hannibal er að koma.“ Brotaþoli hafi þá sest aftur inn í bílinn en ákærði hafi gengið að ökumannshurðinni og lamið í rúðuna með kylfu sem hann hafi verið með. Um hafi verið að ræða stóra hafnaboltakylfu. C kvað ákærða hafa lamið einu sinni í hliðarrúðuna og brotið hana á sama tíma og brotaþoli hafi reynt að bakka bílnum. Hafi brotaþoli þá stöðvað bílinn og farið út úr bílnum. Ákærði hafi þá slegið aftur í brotaþola með hafnaboltakylfunni en á sama tíma hafi hann kallað í ákærða og spurt hvað honum gengi til. Hafi ákærði þá forðað sér. C bar að ákærði hefði lamið brotaþola tvisvar til þrisvar eftir að hann kom út úr bílnum en brotaþoli hafi náð að verjast höggunum. C kvaðst kannast við ákærða frá því að hann hafi verið að vinna hjá honum á bílaverkstæði. Spurður um ástæðu þess að ákærði hafi ráðist að brotaþola kvað vitnið að deilur hefðu verið á milli þeirra. Brotaþoli segi ákærða skulda sér laun en ákærði hafi sakað brotaþola um að hafa brotist inn á verkstæðið og stolið þaðan miklum verðmætum.
Vitnið B lýsti því í skýrslu hjá lögreglu, sem tekin var 12. október 2010, að brotaþoli hefði verið að gera við útvarp í bifreið foreldra sinna. Hafi hann setið í aftursæti fyrir aftan ökumann. Allt í einu hafi hann séð hvar ákærði kom hlaupandi til þeirra með stóra hafnaboltakylfu sem hann hafi lamið með í hliðarrúðu bílsins þar sem brotaþoli hafi setið. Rúðan hafi brotnað og þá hafi brotaþoli farið út úr bílnum. Hafi hann séð að brotaþoli hafi náð að taka í kylfuna. B kvaðst kannast við ákærða frá því að hann hafi heimsótt brotaþola og C sem hafi unnið hjá ákærða síðastliðið vor. Deilur hafi verið á milli ákærða og brotaþola um laun sem brotaþoli kvað ákærða skulda sér.
Í viðtalsskýrslu lögreglu 4. október 2012 er haft eftir vitninu C að hann hafi setið í framsæti bifreiðarinnar við hlið ökumanns sem hafi verið brotaþoli, en B hafi setið í aftursæti. Einnig að ákærði hafi reynt að berja brotaþola með kylfunni eftir að brotaþoli var kominn út úr bifreiðinni. Hann muni ekki hvort brotaþoli hafi gengið inn til sín eða hvort hann hafi stutt hann, en eftir því sem hann muni best hafi brotaþoli farið inn á salerni til að skola augun með vatni. Spurður um það hvort vitnið hafi séð áverka á brotaþola sagði vitnið að augun á honum hafi verið galopinn en ekkert blóð.
II
Fyrir liggur áverkavottorð E sérfræðings, dagsett 12. október 2010. Þar kemur fram að brotaþoli hafi komið á augndeild Landspítala Háskólasjúkrahúss 27. september sama ár með göt á hornhimnum beggja augna. Hafi hann verið með um það bil 5 mm skurð ofarlega temporalt á hægri hornhimnu. Sárkanturinn hafi verið tættur og vantað búta af hornhimnu í sárabrúnirnar. Ekki hafi fundist glerbrot, hvorki við skoðun né í aðgerð, þegar skurðurinn hafi verið saumaður. Á vinstra auga hafi brotaþoli verið með rúmlega 5 mm skurð ofarlega á hornhimnu og hafi brúnir skurðarins einnig verið töluvert tættar og búta úr hornhimnu hafi vantað í sárkanta. Þá hafi vantað hluta úr augasteini vinstra augans og hafi hann verið kominn með traumatiskan cataract þarna fljótlega eftir áverkann og hafi glerhlaup legið út í gegnum skurðinn. Á MRI-myndum teknum fyrir aðgerð hafi vaknað sterkur grunur um retinal/choridal blæðingar. Ekki hafi sést neinn aðskotahlutur, hvorki á MRI-rannsókn né í aðgerðinni. Ekki hafi þó verið farið inn í glerhlaup og leitað þar.
Einnig segir í vottorðinu að athygli veki, varðandi áverka brotaþola, að hann hafi fengið skurð í bæði augu sem sé mjög óvanalegt. Það hvað sárabarmarnir í báðum augum hafi verið tættir bendi til þess að það sem hafi valdið götunum hafi ekki verið mjög beitt, en stungist á mikilli ferð í augun. Ásamt því að hann skuli hafa hlotið skurði á báðum augum ofarlega á staði sem venjulega séu huldir augnlokum án þess að áverkar sjáist á augnlokum eða í andliti veki það einnig athygli að skurðirnir á augunum séu ekki eins staðsettir það er að segja á hægra auganu sé skurðurinn uppi og hliðlægt, en á vinstra auganu sé hann ofan til fyrir miðju. Allt þetta og það að brotaþoli hafi ekki verið með neina áverka í andliti veki grun um að áverkarnir geti hafa hlotist með öðrum hætti en brotaþoli tilgreini. Einnig liggur fyrir læknisvottorð F sérfræðings, dagsett 22. nóvember 2011. Þar segir að við útskrift af augndeild 1. október 2010 hafi sjónskerpa á hægra auga einungis verið 0,1 og á vinstra auga einungis handhreyfing við augað. Síðan hafi sjúklingi verið fylgt eftir reglubundið á augndeildinni. Sárin hafi hafst nokkuð vel við og hafi verið unnt að fjarlægja nokkra sauma en sjónskerpa sjúklings hafi lítið batnað, enda hafi vinstri augasteinn eyðilagst við slysið og sá hægri hafi orðið talsvert skýjaður með tímanum og mun fyrirsjáanlega þurfa að skipta um augasteina á báðum augum.
Í vottorði F augnlæknis, dagsettu 30. mars 2014, segir að fyrir liggi að unnt sé að gefa brotaþola fulla sjón á bæði augu með hörðum linsum en þrátt fyrir það sé ekki fullur sigur unninn því að eftir að brotaþoli fái réttu linsurnar taki við alllangur aðlögunartími þar sem brotaþoli þurfi að venjast linsunum og byggja upp þol fyrir þeim og geti það reynst brotaþola erfitt og jafnvel ókleift. Reynslan sé sú að 40-50% þeirra sem reyna að venjast hörðum linsum gefist upp á því. Reynslan ein næstu mánuði muni leiða þetta í ljós.
III
Hinn 21. júní 2012 var G augnlæknir dómkvaddur eftir beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til „að yfirfara læknisfræðileg gögn í málinu og leggja hlutlaust mat á áverka kæranda málsins út frá verknaðarlýsingu kæranda, vitna og kærða.“ Þá sendi skipaður verjandi ákærða matsmanni þrjár spurningar með tölvubréfi 15. ágúst 2012. Í forsendum matsmanns segir meðal annars að samkvæmt frásögn brotaþola og vitna þá hafi brotaþoli horft út um rúðuna þegar ákærði sló kylfunni í hana svo að hún splundraðist. Viðbrögð brotaþola þegar hann hafi séð ákærða koma bendi til að hann hafi óttast ákærða og þegar menn séu óttaslegnir séu það hin náttúrulegu viðbrögð að augun opnast meira og ljósopin víkki. Auk þess hafi brotaþoli setið inni í bílnum meðan ákærði hafi staðið fyrir utan og því hafi brotaþoli trúlega horft upp á við og þá lyftist augnlokin. Fjarlægð andlits boraþola frá rúðunni geti varla hafa verið meiri en 30-40 cm og ekki sé ólíklegt að kylfan hafi fylgt brotunum eftir eitthvað inn í bílinn og ýtt á eftir þeim. Það að ekki hafi verið glerbrot til staðar þegar brotaþoli fór í aðgerðina geti skýrst af því að bæði forhólfsvökvi og tár hafi vafalaust flætt út úr augum hans og þannig skolað þau. Hugsanlega hafi líka eitthvað verið skolað eða þurrkað úr augunum á leiðinni í aðgerðina. Þá segir orðrétt: „Niðurstaða mín er því sú að líklegt sé að augu A hafi verið galopin og glærurnar því mikið til óvarðar af augnlokum þegar höggið reið á rúðunni og glerbrot af ýmsum stærðum þeyttust framan í hann frá kylfunni af stuttu færi. Það er því mitt mat að áverkarnir á augum A geti vel hafa orðið með þeim hætti sem hann og fleiri vitni hafa lýst. Það er að segja að glerbrot frá hinni brotnu rúðu hafi skorið og tætt glærur hans í sundur.“
IV
Ákærði lagði fram skriflega greinargerð í málinu samkvæmt heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar segir meðal annars að lögregla hafi ekki rannsakað málið að neinu leyti en látið nægja að taka skýrslur af ákærða, brotaþola og vitnum. Myndir teknar á vettvangi sýni glerbrot fyrir utan bifreiðina en ekki hvort þau hafi verið að finna inni í bifreiðinni. Þá hafi ekki verið upplýst hvers eðlis gler í rúðum bifreiðarinnar sé eða með hvaða hætti það brotni, inn eða út. Ekki sé upplýst hvers vegna glerbrot sé að finna á tveimur stöðum. Lögregla hafi ekki tekið skýrslu af sjúkraflutningamönnum en í frumskýrslu lögreglu komi fram að lögregla hafi fengið upplýsingar um að þeir hafi séð glersalla í augum brotaþola. Þá sé ekki upplýst um aðgerðir sjúkraflutningamanna, þar með talið hvort þeir hafi skolað úr augum brotaþola. Rannsókn hafi ekki farið fram á því hvort ákærði eigi hafnaboltakylfu og ekkert vitnanna lýsi því hvort um álkylfu eða trékylfu hafi verið að ræða.
Einnig segir að ákærði hafni niðurstöðum matsgerðarinnar þar sem hann telji að matsmaður hafi farið út fyrir hlutverk sitt. Matsmaður gefi sér ákveðnar staðreyndir og fari inn á svið tæknideildar lögreglu. Þá styðjist matsmaður við ranga íþróttagrein þegar hann afli sér upplýsinga um meðalhögghraða.
Sýknukrafa ákærða er á því byggð að hann hafi ekki gerst sekur um líkamsárás á brotaþola, hvorki af ásetningi eða gáleysi. Vísað er til þess að ákærði hafi gert grein fyrir málsatvikum og hafni því að hafa borið hafnaboltakylfu. Ákærði kveðst mögulega hafa brotið rúðu með hendinni þegar hann hafi brugðist við tilraun brotaþola til þess að aka á hann. Þá hafni ákærði því að hafa gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða önnur ákvæði laganna og mótmælir bótaskyldu í málinu.
V
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann greindi frá því að hann hefði verið á ferð í Hafnarfirði og þá mætt brotaþola og tveimur öðrum mönnum. Hann hafi þurft að tala við brotaþola og því elt bifreið hans að bílastæði við einhverja blokk upp með Læknum. Hafi hann lagt bifreið sinni þar skammt frá og labbað að bifreið þeirri sem brotaþoli var í en þá hafi brotaþoli bakkað á hann og keyrt hann niður og hafi rúðan í bifreiðinni brotnað við það. Þá stekkur hann brjálaður út úr bílnum og þá hafi ákærði ákveðið að fara í burtu, enda hafi hann ekki ætlað að lenda í slagsmálum við þessa stráka. Ákærði kvað aðdragandann að þessu hafa verið þann að brotaþoli hafi unnið um tíma á verkstæði hjá ákærða og hreinsað öll tæki út úr verkstæðinu. Það hafi verið tveimur mánuðum áður og hafi ákærði kært brotaþola til lögreglu fyrir þjófnað. Brotaþoli hafi látið sig hverfa og hafi ákærði ekki séð brotaþola fyrr en hann hafi mætt honum þennan dag. Hafi hann ætlað að tala við hann og fá tækin aftur en það hafi endað með þessu óhappi. Ákærði neitaði því að hafa haft samband við brotaþola í síma vegna þjófnaðarins. Ákærði kvað að bifreiðinni hefði verið lagt í stæði þegar hann hafi komið þar að og hefði hann verið kominn út á mitt bílastæðið þegar brotaþoli hafi bakkað á fullu á ákærða. Hafi hann sett höndina fyrir sig en fallið við og skorist við það. Olnboginn og höndin hafi farið í rúðuna og brotið hana. Þá hafi brotaþoli stöðvað bifreiðina og stigið út með látum. Ákærði neitaði því að hafa verið með hafnaboltakylfu og kvaðst hvorki eiga slíka kylfu né hafa haft hana meðferðis. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við neina áverka á brotaþola og ekki veitt honum neina áverka og ekki snert ákærða eða veitt honum nein högg.
Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa verið að tengja útvarp í bifreið foreldra sinna þegar C, sem setið hafi í farþegasæti við hlið brotaþola, öskrar að ákærði sé að koma með hafnaboltakylfu. Brotaþoli kvaðst hafa orðið hræddur, enda hefði ákærði hótað honum margoft, og startað bílum og bakkað um tvo metra þegar hafnaboltakylfa kemur á fleygiferð í gegnum rúðuna. Brotaþoli kvaðst hafa sett höndina upp en ekki nógu vel og hafi augasteinarnir splundrast við þetta. Brotaþoli hafi stigið út úr bílnum en þá hafi ákærði slegið hann með kylfunni í öxlina og sagt: „Hvar er dótið mitt.“ Hafi brotaþoli öskrað, enda hefði hann fundið mikinn sársauka í augunum. Þá hafi ákærði lamið aftur en brotaþoli náð að grípa í kylfuna. Í því hafi vinir hans komið út úr bifreiðinni og nágranni hans og öskrað á ákærða. Þá hafi brotaþoli farið inn til sín og skvett vatni í augun og hringt hafi verið á sjúkrabíl sem hafi komið eftir um þrjár mínútur. Brotaþoli bar að ákærði hefði ítrekað hótað sér og fjölskyldu sinni eftir atvikið. Ákærði hefði sakað brotaþola um að hafa stolið frá sér vélum og verkfærum af verkstæðinu fyrir milljónir. Spurður greindi brotaþoli frá því að hann hefði séð ákærða koma að bílnum, sem hann var í, frá hægri með hafnaboltakylfu, trékylfu. Hann hefði startað bílnum og sett í bakkgír og eins og sjá megi af ljósmyndum hafi hann verið búinn að bakka um það bil tvo metra þegar ákærði hefði verið kominn vinstra megin við bílinn og lemur hafnaboltakylfunni á fleygiferð í rúðuna. Spurður nánar kvað brotaþoli að um hefði verið að ræða trékylfu af stærstu gerð, líklega um einn metra að lengd. Kylfan sjálf hafi ekki farið í hann þegar hann var inni í bílnum. Kylfuna hefði hann séð áður milli framsæta í bifreið ákærða, þeirri sem hann kom á, vínrauðum Cherokee.
Vitnið B kom fyrir dóminn og greindi frá því að hann hefði verið með brotaþola og C í bifreið á bílastæði við [...] þegar vitnið hafi séð ákærða koma að bílnum með hafnaboltakylfu og slá beint í rúðuna hjá brotaþola og glerbrotin hafi farið yfir allan bílinn. Vitnið hafi fært sig hægra megin í bílinn og séð brotaþola fara út úr bifreiðinni með höndina fyrir sér. Vitnið kvaðst hafa beðið í nokkrar sekúndur en svo hafi hann einnig farið út úr bifreiðinni og séð brotaþola vera að verja sig en ákærði hafi verið með kylfu á lofti og fer að sínum bíl og keyrir í burtu. Eftir það fóru allir inn til foreldra brotaþola og var brotaþoli mjög kvalinn í augum. Spurður um hafnaboltakylfuna kvað vitnið sig minna að hún hefði verið blá að lit, úr áli og um metri að lengd. Vitnið hafi fyrst orðið vart við að rúðan brotnaði og glerbrot þyrluðust yfir bílinn. Vitnið kvaðst fyrst hafa séð ákærða þegar hann hafi farið út úr bílnum. Hafi ákærði verið með kylfu og að labba í áttina að sínum bíl. Höggið á rúðuna hafi verið frekar fast. Bíllinn hafi verð kyrrstæður. Vitnið heyrði nafn ákærða hrópað. Vitnið kvaðst vita um forsöguna en ekki vita til þess að brotaþoli hafi tekið hluti af ákærða. Vitnið sá brotaþola grípa í kylfuna. Vitnið taldi að ákærði hefði gert sér grein fyrir því sem gerst hefði.
Vitnið H rannsóknarlögreglumaður ritaði frumskýrslu í málinu og kvaðst muna eftir því að bílinn hefði verið inni í bílastæði gegnt húsinu þegar komið hafi verið á vettvang. Vitnið kvaðst hafa fengið upplýsingar um að brotaþoli hefði fengið glersalla í auga en farið hefði verið með brotaþola af vettvangi. Ekki hafi verið talin ástæða til að kalla til tæknideild lögreglu til að rannsaka vettvanginn. Vitnið gat ekki fullyrt um ástæðu þess að glersalli hefði verið á tveimur stöðum á bílastæðinu. Hún kvað lögreglu ekki hafa fært bílinn til því að þá hefði þess verið getið í frumskýrslu lögreglu. Þá mundi vitnið ekki hvort athugað hefði verið hvort glersalli væri inni í bifreiðinni. Vitnið staðfesti frumskýrsluna í málinu.
Vitnið C gaf skýrslu fyrir dómi. Hann greindi frá því að hann hefði verið með B og brotaþola sem var að laga græjurnar í bíl foreldra sinna. Vitnið kvaðst vita að ágreiningur væri á milli brotaþola og ákærða. Vitnið bar að það hefði séð ákærða koma með hafnaboltakylfu. Brotaþoli hafi reynt að bakka þegar hann hafi séð ákærða sem þá hafi dúndrað kylfunni í bílrúðuna. Vitnið kvaðst hafa stokkið út úr bílnum og séð ákærða lemja brotaþola tvisvar í viðbót. Annað höggið hafi farið í öxlina á brotaþola en hitt í höfuðið en brotaþoli hafi náð að blokkera það þannig að það hafi ekki verið alvarlegt. Vitnið kvaðst hafa kallað til ákærða: „Hvað ertu að gera,“ og þá hafi ákærði hætt og farið í burtu. Vitnið bar að það hefði fylgt brotaþola heim. Þeir hafi fyrst haldið að ekkert væri að honum, enda hefðu þeir ekki gert sér grein fyrir því að brotaþoli hefði fengið glerbrotin í augun. Aðspurt kvaðst vitnið hafa séð hafnaboltakylfuna og að hún lenti í rúðunni sem hafi mölbrotnað. Hafi ákærði slegið af miklu afli með kylfunni. Viðbrögð brotaþola hafi verið að taka um augun og stökkva beint út úr bílnum. Kylfan hafi verið um einn metri að lengd og úr áli. Vitnið kvaðst vita til þess að ákærði hefði hótað brotaþola fyrir atburðinn og þess vegna hefði hann aðvarað brotaþola þegar hann hafi séð ákærða koma.
Vitnið I gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að brotaþoli hefði komið hlaupandi inn í íbúðina og sagt að hann sæi ekkert. Hún kvaðst hafa sett vatn í lófa sinn og skvett því framan í brotaþola en það hefði engu breytt. C og B hefðu einnig komið í íbúðina og nágranninn D. Hringt hefði verið í lögreglu og sjúkrabíl. Vitnið greindi frá vitneskju sinni um forsögu málsins og ágreining á milli brotaþola og ákærða vegna launa. Einnig frá hótunum af hendi ákærða og ásökunum um þjófnað.
Vitnið J kom fyrir dóm og greindi frá því að brotaþoli hefði komið í íbúðina og sagst vera blindur af völdum ákærða. Hann hefði slegið með kylfu í rúðuna á bílnum. C og B hafi verið á vettvangi. Hann kvað brotaþola vera breyttan, skapvondan og þunglyndan. Brotaþoli hafi reynt að skola augun með vatni. Vitnið greindi frá hótunum sem þau hefðu fengið vegna ágreinings brotaþola og ákærða. Einnig ásökunum um þjófnað.
Vitnið K sjúkraflutningamaður gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst ekki muna nein smáatriði frá útkalli í [...] í Hafnarfirði, enda væri langt um liðið, annað en að maður hefði verið í bíl og allt fullt af glerbrotum og kvartað yfir áverkum á augum. Vitnið mundi ekki hvort augu brotaþola hefðu verið skoluð. Vitnið kvaðst hafa skrifað skýrslu um útkallið þar sem fram kæmi umkvörtun brotaþola. Þá kvaðst vitnið ekki muna hvort brotaþoli hefði nuddað augun en það væru ekki óeðlileg viðbrögð.
Vitnið E augnlæknir kom fyrir dóm og greindi frá því að hann hefði tekið á móti brotaþola þegar hann hafi komið á augndeild Landspítalans en þangað hefði hann komið af slysadeild. Áverkar brotaþola hefðu verið alvarlegir, hann hefði verið með göt á hornhimnu beggja augna og á hægra auga hefði brotaþoli verið með sundurtættan skurð í gegnum hornhimnuna sem var hliðlægt ofan til. Vef vantaði í hornhimnuna sjálfa. Vitnið kvað áverkann hafa verið á stað sem væri venjulega hulið af augnlokinu. Á vinstra auga hafi brotaþoli einnig verið með sundurtættan skurð til hliðar, ekki í miðju og undir augnlokinu. Hluta af augasteininum sjálfum hafi vantað. Augað sé vökvafyllt og það sem gerist þegar gat komi á hornhimnuna sé það að vökvinn tæmist úr og þá komi lithimnan sem gefi auganu lit og fylli upp í gatið og verði eins konar bót og stífli. Framhluti augans verði tómur og þannig hafi það verið hjá brotaþola. Vitnið framkvæmdi aðgerð á brotaþola. Það hefði verið svolítið bras að sauma skurðina af því að vefi hefði vantað í og því hefði verið erfitt að ná þessu saman, það er að loka báðum augum. Vitnið kvaðst hafa skoðað brotaþola fyrst á eftir en síðan hefði hann farið til F augnlæknis. Vitnið bar að engin glerbrot hefðu fundist á brotaþola eða inni í augum. Þá hefði útlit áverkanna verið sérstakt, því ef þú kemur með eitthvað oddhvasst, eitt högg, þá er það skurður eins og eftir hnífsblað eða svoleiðis. Þá eru skarpir kantar, en þannig hafi það ekki verið hjá brotaþola, heldur eins og eitthvað sljótt, eitthvað ekki oddhvasst, hefði farið þarna í gegn. Spurður um það hvort áverkarnir samrýmdust því að einhver glermassi, líkt og þegar rúða brotnar, eða eitthvað slíkt, hefði lent á brotaþola, neitaði vitnið því, auk þess sem áverkarnir hefðu komið sitt úr hvorri áttinni og á svæði sem er hulið af augnlokunum, en ekkert hafi verið að sjá á þeim. Vitnið kvað ólíklegt að áverkar á augum brotaþola væru af þeim völdum sem brotaþoli lýsir, það er eftir glerbrot. Það væri ólíklegt en ekki útilokað. Áverkarnir litu út eins og eitthvað ekki oddhvasst hafi tætt gat á augað en hvernig það hafi gerst kvaðst vitnið ekki vita, en það hefði komið af miklu höggi. Vitnið taldi afar ósennilegt að áverkar á brotaþola væru af þeim völdum að glerbrotum á höndum á manni hefði verið nuddað í augun. Hornhimna augans væri sterkur vefur og mikið þyrfti til að fara í gegnum hana. Ákveðið afl þyrfti til þess, eitthvað á fleygiferð, eða ýtt af miklu afli. Vitnið staðfesti læknabréf, dagsett 28. október 2010, sem það ritaði og væri aðgerðarlýsing. Einnig staðfesti vitnið vottorð, dagsett 12. október 2010.
Vitnið F augnlæknir bar fyrir dómi að hann hefði fyrst séð brotaþola í byrjun desember 2010. Eftir það hafi verið ætlunin að brotaþoli kæmi í eftirlit einu sinni í mánuði næstu mánuðina sem hann gerði oftast nær. Það hafi þó komið fyrir að brotaþoli hafi ekki mætt í tíma sem honum hafi verið gefnir. Eftirlitið hafi falist í því að líta eftir saumum og því hvort merki væri um bólgur eða sýkingar. Til stóð fyrstu mánuðina að gera aðgerð á brotaþola, fyrst og fremst hornhimnuflutninga, en það breyttist síðar þar sem skynsamlegt var talið að reyna að skipta um augastein áður en gerður yrði hornhimnuflutningur. Þá kom fram hjá vitninu að í janúar 2013 hefði E gert augasteinsaðgerð á hægra auga brotaþola og að í framhaldinu hafi vitnið prófað að setja á hann harða snertilinsu til að athuga hvað hægt væri að fá góða sjón, meðal annars með tilliti til þess að ekki væri nauðsynlegt að gera hornhimnuflutning. Með linsunni batnaði sjónin umtalsvert og virtist fara í 70%. Úr varð að linsan var pöntuð en brotaþoli leysti ekki út linsuna. Það dróst í marga mánuði. Þá bar vitnið að brotaþoli hefði ekki komið til sín lengi og því vissi hann ekki stöðuna á brotaþola núna enda hefði vitnið ekki hitt brotaþola í eitt ár. Þá vissi vitnið til þess að brotaþoli hefði ekki komið á augndeildina frá því í febrúar 2013. Vitnið staðfesti vottorð sem það skrifaði 9. desember 2010.
Vitnið G, augnlæknir og dómkvaddur matsmaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvað helstu niðurstöður matsins vera þær að áverkar brotaþola væru vissulega óvenjulegir. Í frásögn brotaþola og vitna komi fram að hafnaboltakylfu hefði verið slegið í rúðu bílsins og glerbrotin þeyst framan í brotaþola. Niðurstaða væri að þrátt fyrir að áverkarnir væru óvenjulegir þá gætu atvikin hafa orðið með þeim hætti sem lýst sé þótt almennt mætti búast við annars konar áverkum. Fínkurlað gler úr brotnum rúðum er almennt ólíklegt til að valda svona miklum skaða eftir því sem vitnið hafði kynnt sér. Verði hert gler fyrir miklu höggi þá splundrast það skyndilega eins og það feli í sér sprengikraft. Niðurstaða vitnisins er að miðað við fjarlægð frá rúðunni sé viðkomandi að fá á sig meiri massa, meira samhangandi gler en þegar rúða er búin að splundrast. Brotin eru með hvössum köntum og eru skerandi en eru lítil, 3-5 mm, þannig að það væri lítill massi ef einu slíku broti væri kastað framan í viðkomandi og þá þyrfti mjög mikla orku til að valda svona skaða. Öðru máli gegni um mörg brot sem koma af miklu afli þá gætu þau valdið þessum skaða. Hafi það verið ályktun vitnisins. Þá kom fram hjá vitninu að eftir því sem það hefði kynnt sér þyrfti mikið og snöggt högg til að brjóta rúðu og taldi vitnið að þungt hnefahögg dygði ekki eða að reka sig óvart í rúðuna. Það þyrfti þá að vera mjög fast högg. Þá kvaðst vitnið geta tekið undir það sem E skrifi í sínu vottorði. Sérkennilegt sé að fá svona áverka á augun án þess að um aðra áverka í andliti sé að ræða. Augun séu þó mun viðkvæmari en húðin. Áverkinn á augunum er þó eins og búast mætti við, það er skerandi en samt ekki eins og eftir hníf. Aðspurt kvað vitnið það ekki vera skrýtið að gler hefði ekki fundist í auga brotaþola. Það væri algengt við áverka á auga að það skerst í sundur og dettur svo út aftur því að um leið og það skerst vegna þrýstings, svipað eins og skorið væri í blöðru fulla af vatni, þá pusast út vökvinn úr auganu. Sárið skolast strax og lithimnan og fleira getur komið út í sárið. Vitnið staðfesti matsgerð sína fyrir dómi.
Vitnið D kom fyrir dóm og greindi frá því að hún hefði kíkt út um glugga á heimili sínu og séð mann vera að ráðast á nágranna sinn sem hafi verið kominn út úr bílnum og að búið var að brjóta rúðu í bílnum. Árásarmaðurinn hafi verið með kylfu og verið að ráðast á brotaþola sem var með vinum sínum sem stóðu hjá og gerðu ekkert. Eftir það sá vitnið brotaþola hlaupa inn í húsið og þá hafi það farið fram á stigagang og séð brotaþola allan í blóði og foreldra hans að hringja í sjúkrabíl. Nánar spurð bar vitnið að í upphafi hefði hundurinn hennar gelt mikið við gluggann og þá hafi hún kíkt út og séð mann með kylfu vera að ráðast á brotaþola sem hafi verið að koma út úr bílnum. Eftir að hann hafi verið kominn út hafi árásarmaðurinn slegið brotaþola nokkrum sinnum með kylfunni. Eftir það hljóp brotaþoli inn. Hafi brotaþoli haldið fyrir andlitið og verið slegið aftan í hann. Vitnið kvaðst hafa séð að árásarmaðurinn hafi farið inn í sinn bíl, grænan [...] jeppa, sem vitnið kvaðst hafa séð nokkrum sinnum áður fyrir utan húsið eins og verið væri að bíða eftir brotaþola. Hafi það verið nokkrum dögum áður. Íbúð vitnisins væri á annarri hæð og snéru gluggarnir út að bílastæðinu við húsið. Vitnið kvaðst aðspurt hafa séð blóð á brotaþola og vita til þess að hann hefði fengið glerbrot í augun en ekki séð aðra áverka. Um fjarlægðina frá glugganum að bílastæðinu þar sem bílinn hafi verið taldi vitnið vera fjóra metra.
Vitnið L, sjúkraflutningamaður og varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, gaf skýrslu fyrir dómi en kvaðst muna lítið eða ekki neitt frá þessu útkalli. Kvaðst vitnið ekki geta borið neitt um ástand brotaþola. Að sögn brotaþola hafi hann fengið glerbrot í auga og að reynt hafi verið að skola úr þeim. Vitnið kvaðst ekki hafa fyllt úr sjúkraflutningablað vegna útkallsins.
VI
Samkvæmt ákæru ríkissaksóknara er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa 27. september 2010 á bifreiðastæði framan við [...] í Hafnarfirði veist með ofbeldi að brotaþola en ákærði er sakaður um að hafa slegið með hafnaboltakylfu í hliðarrúðu bifreiðar ökumannsmegin vitandi að brotaþoli sat í ökumannssæti, með þeim afleiðingum að rúðan mölbrotnaði, glerbrot þeyttust á brotaþola og í bæði augu hans. Þá er ákærða gefið að sök að hafa slegið brotaþola með kylfunni í vinstri öxl hans eftir að hann hafði stigið út úr bifreiðinni.
Ákærði neitar sök. Hann hefur viðurkennt að hafa mætt brotaþola á akstri í Hafnarfirði. Hafi hann elt bifreið brotaþola á bílastæði við [...] til þess að ræða við hann um ætlaðan þjófnað brotaþola á munum af verkstæði því sem ákærði rak og brotaþoli vann á. Hafi ákærði gengið að bifreiðinni en þá hafi brotaþoli skyndilega bakkað bifreiðinni á ákærða og keyrt hann niður. Ákærði hafi sett höndina fyrir sig en fallið við það og skorist. Hafi rúða í bifreiðinni brotnað við það að ákærði ýtti í rúðuna. Brotaþoli hafi stokkið brjálaður út úr bifreiðinni en ekkert hafi verið hægt að ræða við hann og því hafi ákærði farið af vettvangi. Ákærði neitar því að hafa verið með eða slegið með hafnaboltakylfu í rúðuna með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Kvaðst ákærði ekki eiga slíka kylfu og er vörn hans byggð á því að atvik hafi verið með þeim hætti sem hann lýsir.
Brotaþoli, A, bar um það, bæði í skýrslu sinni hjá lögreglu og fyrir dómi, að ákærði hefði verið með hafnaboltakylfu og slegið henni af miklu afli í hliðarrúðu bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að rúðan hafi mölbrotnað og glerbrot farið í bæði augu hans. Eftir það hafi brotaþoli farið út úr bifreiðinni en þá hafi ákærði slegið hann með kylfunni í öxlina og síðan ætlað að slá hann í andlitið en þá hafi brotaþoli náð að grípa í kylfuna og verjast högginu. Vitnið kvaðst kannast við hafnaboltakylfuna sem ákærði hefði notað þar sem vitnið hefði séð kylfuna áður á milli framsæta í bifreið ákærða. Vitnin C og B voru í bifreiðinni með brotaþola og báru báðir um það fyrir dómi að ákærði hefði slegið með hafnaboltakylfu í rúðuna og brotið hana. Þá fullyrti vitnið D að hún hefði séð mann með kylfu ráðast á brotaþola fyrir utan bifreiðina og hefði rúða í bifreiðinni þá verið brotin.
Samkvæmt þessu staðfestir framburður C, B og D, auk framburðar brotaþola, að ákærði var með hafnaboltakylfu á vettvangi og sló með henni í hliðarrúðu bifreiðarinnar með fyrrgreindum afleiðingum. Engu breytir í þessu sambandi þótt vitnum beri ekki nákvæmlega saman um það hvort um hafi verið að ræða tré- eða álkylfu eða hvernig hún hafi verið á litinn. Á litljósmynd, sem er hluti af frumskýrslu H rannsóknarlögreglumanns í málinu, má vel greina ákomu á álramma á bílhurðinni ökumannsmegin umhverfis hina brotnu rúðu sem getur verið eftir högg. Þá sýna myndir með skýrslunni glersalla á tveimur stöðum, það er við bifreiðina og nokkru fyrir aftan hana.
Ákærði hefur borið um það að hann hafi ætlað að ræða við brotaþola og gengið að bílnum í því skyni en þá hafi brotaþoli skyndilega bakkað bílnum á ákærða og fellt hann. Hafi ákærði þá ýtt með vinstri hendi í hliðarrúðuna ökumannsmegin og við það hafi rúðan brotnað. Að mati dómsins eru skýringar ákærða á því hvernig rúðan brotnaði ótrúverðugar og verður ekki á þeim byggt gegn framburði áðurgreindra vitna og brotaþola sem þykja hafa gefið trúverðugar skýringar á því hvernig rúðan brotnaði. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið þykir að mati dómsins sannað, þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði var með hafnaboltakylfu í umrætt sinn og sló með henni í hliðarrúðu bifreiðarinnar [...] ökumannsmegin með þeim afleiðingum að rúðan mölbrotnaði.
Vitnið C, sem sat við hlið brotaþola í bifreiðinni, bar um það fyrir dómi að hann hefði séð ákærða slá brotaþola tvisvar. Hafi annað höggið farið í öxlina á brotaþola en hitt í höfuðið en það högg hafi brotaþoli náð að koma í veg fyrir. Vitnið D bar að hún hefði séð mann með kylfu slá brotaþola „nokkrum sinnum“. Vitnið bar að brotaþoli hefði haldið fyrir augun og að árásarmaðurinn hefði slegið brotaþola „aftan í hann“. Samkvæmt þessu þykir sannað, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með framburði vitnanna C, D og brotaþola sjálfs, að ákærði hafi slegið með kylfunni í öxl brotaþola eftir að brotaþoli var kominn út úr bifreiðinni. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru að veitast að brotaþola með ofbeldi og slá í öxl brotaþola með hafnaboltakylfu. Telst brot hans réttilega heimfært undir ákvæði 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Vitni hafa borið um aðdragandann að því að ákærði veittist að brotaþola í umrætt sinn. Brotaþoli heldur því fram að ákærði hafi ekki að fullu greitt honum fyrir vinnu á bílaverkstæði og hafi brotaþoli ítrekað gengið eftir því að ákærði greiddi honum skuldina. Ákærði hefur á hinn bóginn borið brotaþola þeim sökum að hafa stolið munum af verkstæðinu fyrir mörg hundruð þúsund krónur við starfslok sín á verkstæðinu. Þá kom fram hjá brotaþola fyrir dómi að ákærði hefði hótað honum líkamsmeiðingum ef hann skilaði ekki munum sem ákærði taldi að hann hefði tekið af verkstæðinu. Samkvæmt framburði foreldra brotaþola og vitnanna C og B var þeim kunnugt um þessar hótanir ákærða vegna hins ætlaða þjófnaðar.
Sú háttsemi ákærða að slá með kylfu í rúðuna, vitandi það að brotaþoli sat í ökumannssæti bifreiðarinnar í aðeins nokkurra sentímetra fjarlægð frá rúðunni, var gáleysisleg og vítaverð, enda var ákærða eða mátti vera ljóst að háttsemi hans væri til þess fallin að valda skaða á líkama brotaþola. Í ákæru og vottorði E augnlæknis 12. október 2010 segir að brotaþoli hafi hlotið 5 mm langan skurð ofan til og hliðlægt á hornhimnu hægra auga, rúmlega 5 mm langan skurð ofarlega á hornhimnu vinstra auga og skaddaðan augastein. Hafi brotaþoli orðið blindur á vinstra auga en sé með 20% sjón á hægra auga. Samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns í málinu er líklegt að augu brotaþola hafi verið galopin og glærurnar því mikið til óvarðar af augnlokunum þegar höggið reið á rúðuna og glerbrot þeyttust framan í brotaþola frá kylfunni af stuttu færi. Geti áverkar á augum brotaþola vel hafa orðið með þeim hætti sem hann og fleiri vitni lýsi, það er að glerbrot frá hinni brotnu rúðu hafi skorið og tætt glærurnar í sundur. Vitnið E augnlæknir bar um það fyrir dómi að sjaldgæft væri að fá gat á bæði augu án áverka annars staðar á andliti og augnlokum en það væri alls ekki útilokað. Það er hins vegar mat dómsins að enginn minnsti vafi sé á því að augnáverkar þeir sem brotaþoli varð fyrir hafi orðið vegna glerbrota sem hafi kastast af miklu afli í augu hans þegar fremri hliðarrúða í bifreið þeirri sem brotaþoli sat í brotnaði af völdum ákærða. Í því sambandi þarf að hafa í huga að stefna augnskurðanna út frá miðju hvors auga fyrir sig er ekki óvenjuleg ef tekið er tillit til kúlulags augnanna og því er líklegt að ákoman hafi komið úr sömu átt á bæði augun en ekki sitt úr hvorri áttinni. Fram er komið það mat dómsins að sannað sé með framburði brotaþola og tveggja vitna að ákærði hafi slegið með hafnaboltakylfu í hliðarrúðu bifreiðarinnar [...] ökumannsmegin og mölbrotið hana. Þrátt fyrir það er að mati dómsins ósannað að ákærði hafi af ásetningi ætlað að valda brotaþola svo miklu líkamstjóni sem raun varð, en það er skilyrði þess að brot ákærða verði heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þannig er ósannað að ákærði hafi vísvitandi og af ásetningi ætlað að valda brotaþola þeim áverkum sem lýst er að framan. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga vegna afleiðinganna. Hins vegar þykir ákærði hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með vítaverðri og gáleysislegri háttsemi sinni.
VII
Ákærði er fæddur á árinu 1965. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að sannað þykir að ákærði hafi veist að brotaþola með ofbeldi og slegið hann með hafnaboltakylfu í öxlina. Ekki þykir sannað að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að valda brotaþola þeim alvarlegu áverkum sem hann hlaut þegar glerbrot þeyttust í bæði augu brotaþola. Við það er miðað að ákærði hafi valdið brotaþola tjóni af gáleysi og fram er komið að ákærði hafi með háttsemi sinni unnið sér til refsingar samkvæmt 2. mgr. 218. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir liggur að brotaþoli varð fyrir miklum skaða á báðum augum af völdum árásar ákærða. Er því lýst í vottorði augnlæknanna E og F. Í vottorði þess síðarnefnda 30. mars síðastliðinn kemur fram að unnt væri að veita brotaþola fulla sjón á báðum augum með því að nota harðar linsur en slíkt þurfi langan aðlögunartíma og ekki sé ljóst fyrirfram hvernig til takist. Er því óljóst hvort og þá eftir atvikum að hve miklu leyti brotaþoli fær bata í framtíðinni.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til 1., 2. og 3. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það horfir til refsiþyngingar að ekkert er fram komið í málinu sem réttlætir hina harkalegu og fyrirvaralausu árás á brotaþola. Á hinn bóginn er til þess að líta að ákærði hefur ekki áður hlotið dóm fyrir refsiverða háttsemi. Þá verður ekki litið fram hjá því að mál þetta hefur dregist úr hófi fram. Rannsókn lögreglu á málinu var lokið í október 2012, eða rúmum tveimur árum eftir að atvik máls gerðust. Er sá dráttur á málsmeðferð ámælisverður og andstæður 2. málslið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Matsgerð dómkvadds matsmanns lá fyrir í september 2012 en ákæra var ekki gefin út fyrr en 30. ágúst 2013 eða tæpu ári eftir að rannsókn málsins lauk. Fyrir liggur að óhóflegur og að mestu óútskýrður dráttur varð á málinu fyrir útgáfu ákæru sem ákærða verður með engu móti kennt um. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
VIII
Af hálfu brotaþolans A er þess krafist að viðurkennd verði bótaskylda ákærða vegna þess líkamstjóns sem brotaþoli hlaut 27. september 2010 vegna líkamsárásar ákærða. Ákærði krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Af hálfu brotaþola er byggt á því að ákærði hafi með tilefnislausri og fyrirvaralausri líkamsárás valdið brotaþola alvarlegu líkamstjóni, sem haft hafi mikil áhrif á líf hans og lífsgæði. Hann sé nánast blindur á báðum augum, geti ekkert unnið og lítið gert nema með aðstoð annarra. Hann hafi þurft að undirgangast margar skurðaðgerðir á augunum, sem hafi þó lítið bætt sjónina. Byggt er á því að brot ákærða gegn brotaþola hafi verið mjög gróft og hafi haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir hann, líkamlegar og andlegar. Hafi ákærði með broti sínu valdið brotaþola bæði tímabundnu og varanlegu tjóni, miska og fjártjóni, sem ákærði beri ábyrgð á vegna saknæmrar og refsiverðrar háttsemi sinnar, sbr. 172. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og skaðabótalög nr. 50/1993.
Í lið VI hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og valdið brotaþola líkamstjóni. Tjón brotaþola af þessari háttsemi ákærða er enn ekki að fullu komið fram og gerir brotaþoli því kröfu um að bótaskylda ákærða í málinu verði viðurkennd með dómi. Fram er komið að ákærði er sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir. Að því virtu verður fallist á kröfu brotaþola eins og nánar segir í dómsorði.
IX
Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins. Samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda nemur þegar útlagður sakarkostnaður 129.600 krónum sem er kostnaður vegna matsgerðar dómkvadds matsmanns, G augnlæknis. Verður ákærði dæmdur til að greiða þá fjárhæð sem og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 670.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá ber ákærða enn fremur að greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ekki þykja efni til að gera ákærða að greiða kostað vegna læknisvottorðs F augnlæknis, sem dagsett er 30. mars síðastliðinn, það er 60.000 krónur, en vottorðið var lagt fram við framhaldsaðalmeðferð málsins degi síðar. Ákærði greiði því samtals 1.050.600 krónur í sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Höskuldsson, sem dómsformaður, og Kristinn Halldórsson og Guðmundur Viggósson augnlæknir. Dómsformaður tók við meðferð málsins 12. febrúar 2014 en hafði engin afskipti af málinu fyrir þann tíma.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Hannibal Sigurvinsson, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Viðurkennd er bótaskylda ákærða vegna þess líkamstjóns brotaþola, A, sem leiddi af brotum ákærða 27. september 2010.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.050.600 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 670.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.