Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 12. júlí 2013. |
|
|
Nr. 469/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Samkvæmt gögnum málsins voru ekki talin efni til að fallast á kröfu X um að mæla fyrir um dvöl hans á sjúkrahúsi í stað gæsluvarðhalds enda bæri samkvæmt 22. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga að veita honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu meðan á gæsluvarðhaldinu stæði, sbr. 2. mgr. 77. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. júlí 2013 kl. 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að í stað gæsluvarðhalds verði mælt fyrir um að honum verði gert að dvelja á sjúkrahúsi, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur. Samkvæmt gögnum málsins eru ekki efni til að mæla fyrir um dvöl varnaraðila á sjúkrahúsi í stað gæsluvarðhalds, enda ber samkvæmt 22. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga að veita honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. 2. mgr. 77. gr. sömu laga. Að þessu gættu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi til þess tíma er þar greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. júlí 2013, kl. 16.00, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað Komi til gæsluvarðhalds verði kærði í því tilviki vistaður á sjúkrastofnun með vísan til 1. magr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að [... ] hafi kærði hlotið 14 mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-[...] vegna hegningarlaga, vopna- og umferðarlagabrota. Þar hafi kærði rofið 10 mánaða fangelsisdóm frá Héraðsdómi Suðurlands vegna ráns og umferðarlagabrots frá [...] 2012. Dómurinn frá 21. júní sl. hafi verið birtur kærða 3. júlí sl. og hafi hann tekið sér 4 vikna áfrýjunarfrest. Kærði sé nú grunaður um eftirgreind brot í félagi, en hann hafi verið handtekinn á Selfossi í gær:
Mál lögreglu nr. 007-2013-34385, frelsissvipting, ólögmæt nauðung og líkamsárás.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar ætlaða frelsissviptingu, ólögmæta nauðung eftir atvikum og líkamsmeiðingar gegn A aðfaranótt mánudagsins 1. júlí sl. Síðar sama dag hafi lögregla verið kölluð að slysadeild Landsspítala þar sem A og faðir hans hafi verið staddir, en þar hafi A tjáð lögreglu að hann hefði orðið fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og verið byrlað lyf gegn vilja sínum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi A verið illa útleikinn, bólginn og blóðugur í framan og undir áhrifum lyfja.
Samkvæmt frásögn brotaþola hafi hann verið að heimili sínu [...] í [...] þegar 4 menn ruddust inn í íbúðina og byrjuðu að berja hann, en hann hafi kannast við tvo þessara aðila, kærða X og annan sem hann hafi ekki getað nafngreint. Hafi þeir verið vopnaðir kylfum og töngum og hafi þeir leitt hann út úr íbúðinni í bifreið, sem hafi verið ekið í [...] líklega að bökkunum ([...]) og þar hafi meðkærði Y slegist í hópinn og hafi þeir síðan ekið að [...] í [...] að heimili föður Y. Þar hafi hann verið bundinn á höndum og fótum og hafi honum verið misþyrmt með barsmíðum og spörkum og þvingaður til að gleypa 20 töflur af óþekktu lyfi. Þá hafi hann verið sprautaður í rassinn með óþekktu lyfi. Eftir þetta hafi kærði Y og annar aðili ekið með hann að [...] á [...], á heimili meðkærða Z, og þar hafi þeir m.a. slegið A með belti í bakið og gengið í skrokk á honum og í framhaldinu afklætt og sett hann í svartan ruslapoka niður í kjallara hússins. Þar hafi hann verið keflaður og bundinn við staur, en kærðu síðan yfirgefið vettvang. Lögreglan hafi farið í húsleit að [...], en lýsing sem brotaþoli hafi gefið á slysadeild gat átt við það hús, en í húsinu hafi verið vel falinn kjallari. Í ruslatunnu hafi fundist ruslapoki sem hafði verið klipptur til, sem og mél sem brotaþoli hafi lýst að hafi verið sett upp í sig. A hafi síðan verið losaður af aðila sem virtist hafa verið í húsinu, en sá hafi verið mjög skelkaður. Í kjölfarið hafi A hringt í föður sinn sem hafi náð í hann og hafi þeir farið á slysadeildina. Þegar lögreglan hafi rætt við A á spítalanum hafi mátt sjá spotta lafa frá munni hans og hafi verið upplýst af lækni að þegar hann hafi verið saumaður á slysadeildinni þá hafi komið í ljós að efri vör A hafði verið saumuð saman og þegar spottarnir hafi verið teknir úr þá hafi vörin dottið niður. Samkvæmt frásögn brotaþola þá hafi kærðu verið að tala um það sín á milli að klippa vörina af þar sem hún hékk, en einn af þeim hafi talið sig geta saumað vörina á. Samkvæmt lögreglu hafi mátt sjá sár á andliti A sem gátu verið eftir tangir, en kærði hafi verið klipinn víðsvegar um líkamann. Einnig hafi framtönn A hafi verið brotin. Einnig hafi mátt sjá djúpar rauðar rákir eftir belti á baki hans. Samkvæmt vottorði læknis sem nú liggi fyrir virðist sem brotaþola hafi verið misþyrmt og hann beittur grófu ofbeldi. Kærði hafi neitað sök og kannist ekki við ætlað brot og gefi engar skýringar hvar hann hafi verið þegar atvikið átti sér stað.
Brotaþoli sé farinn úr landi og hafi ekki formleg skýrsla verið tekin af honum. Lögregla hafi náð símasambandi við brotaþola, en hann kvaðst mjög hræddur við kærða og meðkærðu.
Ætlað sakarefni sé einkum talið varða við 218. gr., 226. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varði alvarlega líkamsárás, frelsissviptingu og eftir atvikum ólögmæta nauðung.
Kærði Y sé undir rökstuddum grun ásamt meðkærðu, að hafa frelsissvipt og gengið í skrokk á A. Eftir sé að taka skýrslur af meðkærðu og frekari skýrslu af kærða og af vitnum og skýrslu af brotaþola en rannsókn sé á frumstigi. Þá liggi fyrir að brotaþoli hafi farið af landi brott vegna hótana og hræðslu við kærða og meðkærðu.
Mál lögreglu nr. 007-2013-34747, líkamsárás, frelsissvipting og ólögmæt nauðung.
Kærði sé einnig undir rökstuddum grun að hafa með grófu ofbeldi ásamt meðkærða Y ásamt fleiri aðilum gengið í skrokk á B í byrjun júlí sl., en lögregla hafi fengið upplýsingar frá föður brotaþola þann 3. júlí sl. að honum hafi verið haldið nauðugum að [...] þar sem gengið hafi verið í skrokk á honum af 4 mönnum með kylfum, skærum og dúkahníf. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi þar verið fyrir B og hafi mátt sjá áverka á B í andliti. Hafi hann verið bólginn í framann, með skurð hægra megin við kinnbein, bólgin við hægra auga og kjálka, greinileg blæðing inn í hægra auga. Einnig hafi hann verið með fjölda skurða á vinstri handlegg. B hafi ekki viljað segja hverjir hefðu verið að verki, en hann hafi hvorki játað né neitað að kærði og meðkærði, Y, hefðu verið einir af árásarmönnunum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu virðist umrædd árás og frelsissvipting hafa átt sér stað þremur dögum áður. Eftir sé að taka frekari skýrslur af kærða og skýrslur af meðkærðu og skýrslur af brotaþola og vitnum. Ætlað sakarefni sé talið varða við 218. gr. almennra hegningarlaga, og eftir atvikum 225. gr. og eða 226. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hafi neitað sök og kannast ekki við umætt atvik.
Mál lögreglu nr. 007-2013-32976, líkamsárás.
Kærði sé grunaður um að hafa 23. júní sl., utandyra við veitingastaðinn [...], [...] í Reykjavík, skallað C í andlitið þannig að hann hafi nefbrotnað. Myndband liggi fyrir í málinu og vitni hafi verið að árásinni, sem hafi lýst atvikum skilmerkilega, en eftir sé að yfirheyra kærða. Ætlað brot varðar við 218. gr. almennra hegningarlaga.
Mál lögreglu nr. 007-2013-25418, kynferðisafbrot, nauðgun.
Þann 21. maí sl., hafi verið lögð fram kæra um nauðgun, þar sem kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa 12. maí sl., ásamt meðkærða Y, nauðgað D, fæddri [...] að [...] í [...]. Málið sé í rannsókn og verði rannsókn hraðað. Kærði hafi neitað þar sakargiftum, en málið verði sent Ríkissaksóknara á næstu vikum. Ætlað sakarefni varði við 194. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði sé einnig grunaður um eftirgreind brot á umferðalögum vegna fíkniefnaaksturs og annarra umferðar- og fíkniefnalagbrota á árinu 2013:
Mál nr. 007-2013-34467, 2. júlí sl., ekið bifreiðinni [...] við gatnamót [...] og [...] í Reykjavík undir áhrifum fíkniefna á rauðu ljósi án þess að hafa öðlast ökuréttindi, með þeim afleiðingum að bifreiðin hafi lent í árekstri við bifreiðina [...]. Kærði hafi slasast, sem og bílstjóri í bifreiðinni [...]. Þegar sjúkraflutningamenn og læknir hafi komið á vettvang hafi kærði reynt að kýla lækninn, en í bifreiðinni hafi fundist fíkniefni. Í blóði hans hafi mælst fíkniefni.
Mál nr. 007-2013-30806, 12. júní sl., ekið bifreiðinni [...] norður Sæbraut í Reykjavík undir áhrifum fíkniefna og áfengis óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, og án þess að hafa öðlast ökuréttindi á 98 km. hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 60 km. klst. og eigi sinnt fyrirmælum lögreglu. En kærði hafi verið handtekinn í [...]. Í útöndunarlofti hafi mælst 0,55 mg/l og fíkniefni hafi mælst í blóði. Kærði hafi neitað sök.
Kærði sé nú undir rökstuddum grun um alvarlegar líkamsárásir, frelsissviptingu og/eða ólögmæta nauðung og nauðgun þar sem þung fangelsisrefsing liggi við brotunum eða allt að 16 ára fangelsi og eftir atvikum ævilangt fangelsi. Eftir sé að taka skýrslur af meðkærðu, vitnum og brotaþolum og frekari skýrslur af kærða, en rannsókn sé á frumstigi. Þykir því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málanna með því að hafa áhrif á aðra samseka, vitni og brotaþola fái hann að fara frjáls ferða sinna. Þá liggi fyrir að brotaþoli hafi farið af landi brott vegna hótana og hræðslu við kærða og meðkærðu. Þar sem um sé að ræða ætluð alvarleg brot telji lögregla að miklir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Kærði hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og sé í mikilli neyslu eins og dómur í máli S-[...] frá [...] beri með sér. Kærði hafi nú áfrýjað þeim dómi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga laga 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Eins og rakið er að framan er kærði grunaður um aðild að frelsissviptingu, líkamsárás, ólögmætri nauðung og nauðgun í fjórum málum, auk brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málanna er ekki lokið og að sögn lögreglustjóra á frumstigi í sumum tilvikum. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur. sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki þykir eins og á stendur að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði til að mæla fyrir um vistun kærða á sjúkrahúsi, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. júlí 2013 kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.