Hæstiréttur íslands

Mál nr. 523/2013


Lykilorð

  • Lán
  • Gjalddagi


 

Fimmtudaginn 16. janúar 2014.

Nr. 523/2013.

B ehf.

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

A

(Árni Pálsson hrl.)

og gagnsök

 

Lán. Gjalddagi.

A höfðaði mál gegn B ehf. og krafðist tiltekinnar fjárhæðar úr hendi félagsins vegna greiðslna sem óumdeilt var að runnið höfðu af bankareikningi A inn á bankareikning þess. Byggði A á því að um lán hafi verið að ræða sem ætlast hafi verið til að yrði endurgreitt er hún krefðist þess síðar. B ehf. taldi A enga kröfu hafa eignast á hendur félaginu. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að færslurnar hafi falið í sér lánveitingu A til B ehf. umrætt sinn. Bæri B ehf., sem ekki reisti kröfur sínar á því að um örlætisgerning hafi verið að ræða, sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að lánið skyldi ekki endurgreitt og hefði félaginu ekki tekist slík sönnun. Ágreiningslaust væri að ekki hefði verið samið um gjalddaga lánsins og gilti þá sú óskráða meginregla kröfuréttar að lánið bæri að endurgreiða þá krafist er. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu B ehf.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2013. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 27. september 2013. Hún krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómi að færsla á 7.500.000 krónum af bankareikningum gagnáfrýjanda inn á reikning aðaláfrýjanda 20. febrúar 2008 hafi falið í sér lánveitingu hennar til aðaláfrýjanda umrætt sinn. Ber aðaláfrýjandi, sem ekki reisir kröfur sínar á því að um örlætisgerning hafi verið að ræða, sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að lánið skyldi ekki endurgreitt. Hefur honum ekki lánast slík sönnun. Ágreiningslaust er að ekki var samið um gjalddaga lánsins og gildir þá sú óskráða meginregla kröfuréttar að lánið ber að endurgreiða þegar krafist er. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda og fyrrum eiginmaður gagnáfrýjanda viðurkennt að hún hafi krafist endurgreiðslu lánsins allt frá janúar 2010 og féll lánið þá í gjalddaga samkvæmt framansögðu. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að aðaláfrýjanda sé ekki hald í þeim málsástæðum sem hann teflir fram til brottfalls eða lækkunar kröfu gagnáfrýjanda á hendur sér. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um greiðsluskyldu aðaláfrýjanda og upphafstíma dráttarvaxta.

Eftir þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, B ehf., greiði gagnáfrýjanda, A, 7.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2010 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 2. maí 2013.

                Mál þetta sem dómtekið var 8. mars 2013 höfðaði A, [...], [...] hinn 10. maí 2012 á hendur B ehf., [...], [...].

                Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda 7.500.000 krónur, auk dráttavaxta skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. febrúar 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Skilja verður varakröfu stefnda svo að krafist sé lækkunar dómkrafna. Þá er krafist málskostnaðar.

I

                Málavextir eru þeir að stefnandi og C, fyrirsvarsmaður stefnda, sem voru í hjúskap, skildu að borði og sæng í [...] 2007. Gerðu þau með sér skilnaðarsamning, dags. [...].[...] 2007 og lögðu fram hjá sýslumanni [...]. s.m. Samkvæmt samningnum fékk C í sinn hlut fasteign þeirra hjóna að [...] og alla hluti í hinu stefnda einkahlutafélagi, sem er félag í rekstri [...]- og [...], gegn því að taka að sér áhvílandi íbúðarlán og allar skuldbindingar tengdar félaginu, auk þess sem hann skuldbatt sig til að greiða stefnanda samtals 18 milljónir króna. Liggur fyrir að C greiddi þá fjárhæð í þremur greiðslum inn á bankareikning stefnanda í október 2007, þ.e. 2.000.000 króna þann 17. þ.m., 11.750.000 krónur þann 23. þ.m. og 4.250.000 krónur þann 29. þ.m. og kom síðasta greiðslan af reikningi hins stefnda einkahlutafélags.

                Hjónin tóku saman að nýju áður en til lögskilnaðar kom, eða nálægt áramótum 2007-2008.

                Hinn 20. febrúar 2008 lét stefnandi millifæra alls 7,5 milljónir króna, sem svarar til stefnufjárhæðarinnar, af tveimur bankareikningum sínum inn á bankareikning hins stefnda einkahlutafélags. Er óumdeilt að þessi greiðsla hafi átt sér stað að ósk fyrirsvarsmanns stefnda vegna slakrar fjárhagsstöðu félagsins.

                Aftur urðu samvistarslit með hjónunum í [...] 2010 og kom þá að nýju til þess að þau undirrituðu skilnaðarsamning, sem dagsettur er [...].[...] 2010 og var lagður fram hjá sýslumanni [...] s.m., sem veitti leyfi til lögskilnaðar. Liggur fyrir að í aðdraganda þeirrar samningsgerðar kom framangreind greiðsla stefnanda til hins stefnda einkahlutafélags til umræðu, m.a. í tölvubréfum þeirra á milli. Meðal málsgagna er einnig bréf sem lögmaður ritaði af hálfu C til stefnanda, dags. 28. apríl 2010, þar sem vísað er til ágreinings hjónanna um kröfu stefnanda til endurgreiðslu framangreindrar fjárhæðar. Kemur þar fram sú afstaða að kröfu um endurgreiðslu fjárins beri að beina að hinu stefnda einkahlutafélagi og sé hún fyrirsvarsmanni þess óviðkomandi.

                Samkvæmt hinum síðari skilnaðarsamningi voru helstu eignir sem komu til skipta að mestu leyti hinar sömu og í fyrri samningi, þ.e. fasteignin [...], hlutafé í hinu stefnda einkahlutafélagi, innbú og bankainnistæður, en að auki fasteignin [...] og ýmsar bifreiðir. Fékk maðurinn í sinn hlut fasteignina [...] en konan fasteignina [...] og tók hvort fyrir sig að sér greiðslu áhvílandi lána af hvorri fasteign. Þá fékk maðurinn í sinn hlut alla hluti í hinu stefnda einkahlutafélagi og tók um leið á sig allar skuldbindingar tengdar félaginu, en tekið er fram líkt og í fyrri samningi að ekki sé þörf á nafnbreytingum í þessu skyni. Hvor aðili skyldi halda þeim bifreiðum sem á hann væru skráðar. Í því sambandi er tilgreint að maðurinn sé skráður fyrir bifreiðinni [...] sem hann hafi keypt af konunni og yfirtekið lán [...] á hennar nafni í maí 2010, auk þess sem hann greiði konunni eina milljón króna fyrir bifreiðina sem greiðast skyldu með afborgunum á tilteknum gjalddögum. Í niðurlagi samningsins er tekið fram að við efndir samningsins sé fjárskiptum milli mannsins og konunnar lokið og að hvorugt þeirra eigi þá kröfu á hendur hinu.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefnandi og fyrirsvarsmaður hins stefnda einkahlutafélags.

II

                Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu þeirra 7.500.000 króna sem hann hafi lánað hinu stefnda félagi að ósk stjórnarformanns þess. Stefnandi hafi ekki upplýsingar um hvernig féð hafi verið nýtt en ætla megi að það hafi verið nýtt jafnóðum í þágu félagsins. Stefnandi hafi ekkert haft með nýtingu lánsfjárins að gera enda ekki lengur verið eigandi félagsins eða setið í stjórn þess. Þrátt fyrir að ekki hafi verið rætt um greiðsludag hafi stefnandi búist við því að fá greiðslu í síðasta lagi eftir sumarið [2008], þegar staða félagsins hefði batnað, þar sem fénu hafi verið ætlað að mæta tímabundinni skuldastöðu félagsins, sem starfi í [...] og hafi mestar tekjur sínar yfir sumartímann. Stefnandi hafi lagt féð inn á reikning stefnda án þess að til kæmi nokkurt endurgjald og hafi öllum aðilum verið ljóst að um lán væri að ræða sem bæri að endurgreiða. Ljóst sé af meginreglum kröfu- og samningaréttar að endurgreiða beri lánsfé. Enginn grundvöllur sé fyrir því að stefnda hafi ekki borið að endurgreiða féð. Til marks um að lán hafi verið að ræða þá hafi stefnandi ekki eignast hluti í félaginu eða verið gert samkomulag um að annað endurgjald skyldi koma fyrir. Hljóti því öllum aðilum að hafa vera ljóst að endurgreiða bæri lánið.

                Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti kveðst stefnandi styðja við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í stefnu er upphafsdagur dráttarvaxta miðaður við 15. maí 2008 en við munnlegan málflutning dró stefnandi úr dráttarvaxtakröfu sinni þannig að krafist er dráttarvaxta frá 1. febrúar 2010. Kröfu um málskostnað kveðst stefnandi styðja við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

III

                Stefndi kveðst í fyrsta lagi byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi með bindandi hætti fallið frá öllum öðrum kröfum á hendur stefnda og fyrirsvarsmanni stefnda en þeim sem fram komi í skilnaðarsamningi, dags. [...] [...] 2010. Eins og þar komi fram þá hafi fyrirsvarsmaður stefnda losað stefnanda undan ábyrgðum á skuldum stefnda og hafi stefnandi og stefndi eftir það tímamark hvorugt átt kröfu á hitt. Sérstaklega sé á því byggt að með kaupum á bifreiðinni [...] og yfirtöku láns vegna hennar hafi fyrirsvarsmaður stefnda orðið við beiðni stefnanda, sem jafnframt hafi látið þau orð falla að gegn þeim kaupum myndi hún enga kröfu gera vegna greiðslna til stefnda sem mál þetta snúist um. Þó stefndi hafi ekki verið aðili að skilnaðarsamninginum þá verði ekki fram hjá þessum ráðstöfunum stefnanda á sakarefninu litið.

                Í öðru lagi sé á því byggt að stefnandi hafi skuldað stefnda 4.550.000 krónur, samkvæmt framlögðu yfirliti úr bókhaldi stefnda yfir greiðslur til stefnanda árið 2007. Þar séu greiðslur sagðar nema 4.680.000 krónum en greiðsla vegna launa sé hér ekki tekin með í skuld stefnanda. Með vísan til 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi sú krafa borið 16% vexti frá 29. október 2007 til 1. desember 2007 og 16,5% frá þeim tíma til 1. maí 2008 og 18,5% vexti frá þeim tíma til þess tíma sem stefnandi segi marka upphafsdag dráttarvaxtakröfu sinnar, 15. maí 2008. Bætist því vextir við kröfuna sem hér segi:

                Fyrir tímabilið 29. október 2007 til 1. desember 2007:             kr.                62.689

                Fyrir tímabilið 1. desember 2007 til 1. maí 2008:                      kr.              312.812

                Fyrir tímabilið 1. maí 2008 til 15. maí 2008:                              kr.                34.592

                Höfuðstóll kröfu stefnda á stefnanda:                                         kr.           4.550.000

                Samtals                                                                                                               kr.           4.960.093

                Sé hér með lýst yfir skuldajöfnuði vegna þessarar kröfu stefnda á hendur stefnanda. Einnig sé lýst yfir skuldajöfnuði vegna eftirtalinna greiðslna frá stefnda til stefnanda:

Dagsetning

Fjárhæð

5.10.2010

200.000

8.9.2010

200.000

4.8.2010

200.000

5.7.2010

50.000

12.3.2010

40.000

Samtals

690.000

                Samtals sé hér því lýst yfir skuldajöfnuði að fjárhæð 4.960.093 + 690.000 = 5.640.093 krónur. Áskildi stefndi sér í greinargerð rétt til að leggja fram undir rekstri málsins kvittanir vegna þessara millifærslna.

                Stefndi kveður að fyrir liggi að við skilnað fyrirsvarsmanns stefnda og stefnanda [...] 2007 hafi verið samið um greiðslur frá fyrirsvarsmanni stefnda til stefnanda að fjárhæð 18 milljónir króna. Þegar þau hafi aftur tekið upp sambúð og haldið henni við hafi ákvæði 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 orðið virk. Stefnandi hafi þó eingöngu skilað litlum hluta þeirra fjármuna. Á því sé byggt af hálfu stefnda að þar sem stefnda hafi sárlega vantað rekstrarfé þá hafi stefnandi skilað þeim hluta fjármunanna sem sé mismunur á kröfu stefnda á stefnanda og því sem hún hafi innt af hendi aftur til fyrirsvarsmanns stefnda. Til hægðarauka hafi sú greiðsla skilað sér inn á reikning stefnda í stað þess að millilenda á reikningi fyrirsvarsmanns stefnda, enda hafi stefnda vantað fjármuni. Því sé ekki um kröfu stefnanda að ræða. Einnig sé sjálfstætt byggt á því að það sem út af standi þegar skuldajöfnuður hafi verið framkvæmdur hafi fallið niður þegar stefnandi hafi verið losuð undan ábyrgðum á skuldum stefnda.

                Í þriðja lagi sé á því byggt að krafan sé niður fallin fyrir tómlæti. Stefnandi hafi gefið fyrirsvarsmanni stefnda tilefni til að ætla að með skilnaðarsamningnum, dags. [...].[...] 2010, væri að fullu lokið þeirra lögskiptum og að stefnandi ætti engar frekari kröfur á stefnda eða fyrirsvarsmann stefnda.

                Í fjórða lagi sé á því byggt að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir fyrningu, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Sé fallist á kröfu stefnanda þá liggi fyrir að hún hafi verið niður fallin 20. febrúar 2012 fyrir fyrningu.

                Í fimmta lagi sé á því byggt að verði talið að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda þá beri eftir sem áður að sýkna stefnda, á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem það sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að krefjast efnda í ljósi lögskipta hennar við stefnda og fyrirsvarsmann stefnda, stöðu málsaðila og þeirra áhrifa sem slík niðurstaða myndi hafa á stöðu fyrirsvarsmanns stefnda. Þá verði að líta til þeirra atvika við meinta samningsgerð sem falist hafi í óhagstæðum ytri aðstæðum hjá stefnda og síðari atvikum, einkum ytri þróunar og yfirlýsinga stefnanda og atferlis við skilnað hennar og fyrirsvarsmanns stefnda. Líta verði til þeirrar staðreyndar að þó stefnandi hafi skilað hluta þeirra fjármuna sem hún hafi fengið frá fyrirsvarsmanni stefnda við fyrri skilnað, þá sé hún mun betur stödd en hún væri ef síðari skilnaðarsamningur hefði verið gerður með eðlilegum hætti, þ.e. allar eignir og allar skuldir hefðu komið að nýju til skipta og stefnandi hefði þannig raunverulega þurft að sæta sömu skerðingu eigna og stefndi og fyrirsvarsmaður stefnda vegna bankahrunsins. Sé í þessum efnum vísað til ársreikninga stefnda sem sýni að [...].

                Stefndi kveðst byggja varakröfu sína á því að krafa stefnanda geti ekki numið hærri fjárhæð en 7.500.000 - 5.640.093 = 1.859.907 krónur, þ.e. stefnufjárhæðinni að frádreginni þeirri kröfu stefnda sem rakin sé í umfjöllun hér að framan um aðalkröfu hans.

                Varðandi kröfu um málskostnað kveðst stefndi vísa til almennra reglna, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Í máli þessu deila aðilar um það hvort stefnandi eigi kröfu á hendur hinu stefnda einkahlutafélagi vegna greiðslna sem óumdeilt er að runnu af bankareikningum stefnanda 20. febrúar 2008 inn á bankareikning stefnda, samtals að fjárhæð 7.500.000 krónur.

                Stefnandi byggir á því að um lán hafi verið að ræða sem ætlast hafi verið til að yrði endurgreitt er hún krefðist þess síðar og hefur lagt málið upp eins og um einfalt innheimtumál sé að ræða þótt bersýnilegt sé að greiðslan tengist fremur hjónaskilnaði hennar og fyrirsvarsmanns stefnda en því að hún hafi staðið í viðskiptasambandi við hið stefnda einkahlutafélag. Af hálfu stefnda hefur því á hinn bóginn ekki verið borið við að málið sé höfðað gegn röngum aðila, þótt málsástæður stefnda lúti meira eða minna að lögskiptum hjónanna.

                Við munnlegan málflutning kom fram að stefndi byggi aðallega á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi aldrei eignast neina kröfu á hendur félaginu, enda hafi hún með framangreindum greiðslum sínum verið að „skila“ hluta þeirra 18 milljóna króna sem hún hafi fengið greiddar á grundvelli fjárskiptasamnings hennar og fyrirsvarsmanns stefnda við skilnað þeirra að borði og sæng í [...] 2007. Sé á því byggt að réttaráhrif þess fjárskiptasamnings hafi fallið niður er hjónin tóku upp samvistir að nýju. Mótmælti stefnandi þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Þótt framsetning þessarar málsástæðu hefði að ósekju mátt vera skýrari í greinargerð stefnda á hún sér þar fullnægjandi stoð. Verður mótmælum stefnanda því hafnað.

                Skilja verður málatilbúnað stefnda svo að byggt sé á því að á stefnanda hafi hvílt skylda til þess að endurgreiða þá fjármuni sem hún hafði fengið í sinn hlut við fjárskipti þeirra hjóna í [...] 2007 eftir að þau tóku upp samvistir að nýju. Án þess að hér verði tekin sérstök afstaða til þess hvort réttaráhrif fjárskiptasamnings hjónanna hafi fallið niður í samræmi við ákvæði síðari málsliðar 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þá verður ekki séð að í því ákvæði felist fyrirmæli um að eignum sem skipt hafi um hendur vegna fjárskipta hjóna skuli „skilað“, heldur verður að líta svo á að hvort hjóna fari með forræði á þeirri eign sem það flytur í búið að nýju, sbr. 4. gr. hjúskaparlaga og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 5. maí 2006 í máli nr. 216/2006, þar sem við túlkun 111. gr. laganna var talið að leggja yrði endurnýjaða sambúð hjóna að jöfnu við stofnun hjúskapar. Verður því ekki séð að á stefnanda hafi hvílt nein skylda á grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis til að „skila“ því fé sem hún hafði fengið í sinn hlut við fjárskipti þeirra hjóna, hvorki til eiginmanns síns né til hins stefnda einkahlutafélags, þaðan sem hluti af greiðslum til stefnanda samkvæmt fyrri fjárskiptasamningi hjónanna kom eins og rakið er í málavaxtalýsingu í kafla I.

                Ekki er á því byggt af hálfu stefnda að um örlætisgerning hafi verið að ræða. Þótt óumdeilt sé að ekki hafi verið samið um það hvenær féð skyldi endurgreitt, hefur stefndi ekki sýnt fram á að endurgreiðslu hafi ekki verið vænst síðar. Samkvæmt framanrituðu verður fallist á það með stefnanda að greiðsla hennar á 7,5 milljónum króna þann 20. febrúar 2008 inn á bankareikning hins stefnda einkahlutafélags hafi falið í sér lán. Er viðurkennt af hálfu fyrirsvarsmanns stefnda að allt frá samvistarslitum þeirra hjóna í janúar 2010 hafi stefnandi ítrekað gert kröfu um endurgreiðslu fjárins og verður að miða við að krafan hafi verið orðin gjaldkræf.

                Víkur þá að þeirri málsástæðu stefnda að stefnandi hafi með bindandi hætti fallið frá öllum öðrum kröfum á hendur hinu stefnda einkahlutafélagi og fyrirsvarsmanni þess en þeim sem fram komi í skilnaðarsamningi hennar og fyrirsvarsmannsins, dags. [...].[...] 2010. Við skýrslugjöf fyrir dómi kom fram að stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda nutu ekki lögfræðilegrar ráðgjafar við gerð síðara skilnaðarsamningsins heldur byggðu á hinum eldri samningi sem saminn hafði verið af lögmanni. Í framburði stefnanda kom fram að krafa hennar hafi verið til umræðu í aðdraganda undirritunar samningsins en hún hafnaði því alfarið að hafa fallið frá kröfunni við gerð skilnaðarsamningsins. Af hálfu stefnda er aftur á móti bent á að tölvubréf sem gengu milli hjónanna í aðdraganda undirritunar síðari skilnaðarsamnings þeirra og lögð hafa verið fram, styðji staðhæfingar hans um að stefnandi hafi fallið frá kröfu sinni gegn því að fyrirsvarsmaður stefnda keypti af stefnanda bifreiðina [...], eins og greinir í d-lið 8. gr. samningsins. Fyrir þeirri staðhæfingu ber stefndi sönnunarbyrði. Þótt ljóst megi vera af framlögðum tölvupóstsamskiptum á tímabilinu mars—júní 2010 að krafa stefnanda um endurgreiðslu umræddra 7,5 milljóna króna hafi komið til umræðu í aðdraganda gerðar skilnaðarsamningsins, er jafn ljóst að hvergi er í samningnum minnst á þessa kröfu. Þá liggur fyrir að í aðdraganda undirritunar samningsins barst stefnanda bréf frá lögmanni eiginmanns síns, dags. 28. apríl 2010, þar sem fram kom að henni bæri að beina kröfu sinni að hinu stefnda einkahlutafélagi, enda væri hún fyrirsvarsmanni þess óviðkomandi. Að framanrituðu virtu þykir gegn mótmælum stefnanda ósannað að stefnandi hafi með bindandi hætti fallið frá kröfu sinni á hendur hinu stefnda félagi við gerð skilnaðarsamnings hennar við fyrirsvarsmann stefnda á árinu 2010 og verður þeirri málsástæðu stefnda hafnað.

                Sýknukrafa stefnda og varakrafa hans um lækkun á dómkröfu stefnanda er ennfremur reist á yfirlýsingu hans um skuldajöfnuð vegna kröfu sem stefndi kveðst eiga á hendur stefnanda, samtals að fjárhæð 5.640.093 krónur, sem nánar er sundurliðuð í kafla III hér að framan. Við munnlegan málflutning var því mótmælt af hálfu stefnanda að sýnt hafi verið fram á nokkra skuld stefnanda við hið stefnda einkahlutafélag, þótt því væri ekki mótmælt að inn á reikning stefnanda hafi borist greiðslur frá hinu stefnda einkahlutafélagi að því marki sem gögn sýni fram á það.

                Þótt gögn málsins styðji að nokkru leyti að fjárhæðir sem tilgreindar eru í greinargerð stefnda hafi runnið af bankareikningi stefnda inn á bankareikning stefnanda á tilgreindum dagsetningum, þá er alls óljóst af málatilbúnaði stefnda á hvaða grundvelli byggt er á því að stefnandi standi í skuld við stefnda vegna þeirra greiðslna, sem og að stefndi eigi rétt til almennra vaxta eins og krafist er.

                Á yfirliti sem stefndi hefur lagt fram og sagt er vera samkvæmt bókhaldi hans er að finna sundurliðun á þeim 4.550.000 krónum sem stefndi byggir á að stefnandi hafi skuldað honum frá hausti 2007. Til skýringar á þeirri fjárhæð kemur fram á yfirlitinu að um sé að ræða „viðskiptaskuldir eigendur“, þótt einn liðanna sé jafnframt merktur „Gr. laun A“, en skuldajafnaðarkrafan nær ekki til þess liðar. Stærsti liðurinn á yfirlitinu er liðurinn „millif. A“, dags. 29. október 2007, að fjárhæð 4.250.000 krónur. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi kom fram að nefnd greiðsla hafi verið liður í uppgjöri hans og stefnanda vegna skilnaðar þeirra að borði og sæng, þ.e. hluti af greiðslu hans samkvæmt fyrri skilnaðarsamningi á alls 18 milljónum króna. Jafnframt kom fram að stefnandi hafi aldrei fengið fé að láni hjá félaginu. Verður að leggja þennan framburð fyrirsvarsmanns stefnda til grundvallar við úrlausn málsins.

                Hvað varðar þær greiðslur á árinu 2010, alls að fjárhæð 690.000 krónur, sem skuldajafnaðarkrafa stefnda tekur til hefur stefndi ekki lagt nein gögn fram til stuðnings því að þessar greiðslur hafi yfirhöfuð runnið frá honum til stefnanda. Stefnandi lagði aftur á móti fram yfirlit frá [...]. yfir millifærslur á bankareikning hennar frá hinu stefnda einkahlutafélagi á tímabilinu 1. janúar 2007 til 26. október 2010, þar sem greiðslur samkvæmt sundurliðun í greinargerð stefnda eiga sér ekki samsvörun, nema hvað varðar greiðslu á 200.000 krónum þann 4. ágúst 2010. Í skýringu við þá greiðslu kemur fram „v/[...]“ og má því ætla að þar sé um að ræða greiðslu sem fyrirsvarsmanni stefnda bar persónulega að greiða samkvæmt skilnaðarsamningi aðila frá júlímánuði 2010.

                Með vísan til framanritaðs hefur stefndi ekki, gegn mótmælum stefnanda, sýnt fram á að hann eigi neina kröfu sem skuldajafna megi á móti dómkröfu stefnanda og verður þeirri málsástæðu hafnað.

                Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af kröfum stefnanda jafnframt á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísar stefndi í þeim efnum einkum til lögskipta stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda, þ.e. fjárskipta þeirra vegna skilnaðar á árinu 2010 og þeirra áhrifa sem það hefði á stöðu fyrirsvarsmanns stefnda ef fallist yrði á kröfu stefnanda. Við mat um það hvort atvik séu með þeim hætti að til greina komi að víkja til hliðar endurgreiðsluskyldu stefnda samkvæmt þeim óskráða löggerningi sem lá til grundvallar láni stefnandi á 7,5 milljónum króna til félagsins verður fyrirsvarsmanni stefnda og hinu stefnda einkahlutafélagi ekki jafnað saman. Verður ekki á það fallist að atvik sem lúta að lögskiptum stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda í tengslum við skilnað þeirra feli í sér viðhlítandi rök fyrir því að víkja beri til hliðar endurgreiðsluskyldu hins stefnda einkahlutafélags, heldur verði að leysa úr ágreiningi um þau lögskipti á öðrum vettvangi. Verður framangreindri málsástæðu stefnda því hafnað.

                Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að líta verði á þær greiðslur sem stefnandi krefst endurgreiðslu á sem lán til hins stefnda einkahlutafélags, sem fyrst hafi orðið gjaldkræft á árinu 2010. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, verður að hafna þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd.

                Stefndi byggir ennfremur á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar. Eins og fyrr sagði er óumdeilt að stefnandi hafði uppi kröfu um endurgreiðslu lánsins í kjölfar samvistarslita hjónanna í janúar 2010 og liggur fyrir að til svars þeirri kröfu barst stefnanda bréf lögmanns fyrirsvarsmanns stefnda, dags. 28. apríl 2010, þar sem fram kemur að kröfunni skyldi beint að félaginu en jafnframt að félagið væri yfirskuldsett og í raun gjaldþrota. Innheimtu kröfunnar var síðan haldið áfram með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 26. mars 2012. Eins og hér stendur á verður ekki fallist á það að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti um innheimtu kröfunnar.

                 Samkvæmt framanrituðu hefur öllum málsstæðum fyrir aðal- og varakröfu stefnda verið hafnað. Verður því að fallast á dómkröfu stefnanda um greiðslu að fjárhæð 7.500.000 krónur úr hendi stefnda.

                Við munnlegan flutning málsins dró stefnandi úr dráttarvaxtakröfu sinni þannig að upphafstímamark dráttarvaxtakröfu hans miðast við 1. febrúar 2010 í stað fyrra tímamarks samkvæmt stefnu. Er á því byggt að við þetta tímamark hafi stefnandi verið búinn að krefja stefnda með réttu um greiðslu. Upphafstímamarki dráttarvaxta hefur ekki verið mótmælt með rökstuddum hætti af hálfu stefnda. Verður því fallist á kröfu stefnanda um dráttarvexti af dæmdri fjárhæð, þó þannig að miðað sé við að upphafstími dráttarvaxta sé mánuði eftir framangreint tímamark, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

                Stefndi, B ehf., greiði stefnanda, A, 7.500.000 krónur, auk dráttavaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. mars 2010 til greiðsludags.

                Málskostnaður fellur niður.