Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2009


Lykilorð

  • Stjórnsýsla
  • Jafnræði
  • Skaðabætur


                                                        

Fimmtudaginn 11. mars 2010.

Nr. 370/2009.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Davor Davíð Purušić

(Benedikt Ólafsson hrl.)

og gagnsök

Stjórnsýsla. Jafnræði. Skaðabætur. Gjafsókn.

D sótti um að fá að þreyta inntökupróf í Lögregluskóla ríkisins vorið 2005, en var hafnað þar sem hann fullnægði ekki almennu skilyrði um hámarksaldur. Með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 13. febrúar 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að valnefnd hefði ekki gætt jafnræðis er hún með ólögmætum hætti hefði gert upp á milli D og annars umsækjanda við veitingu undanþágu frá þessu skilyrði. Var talið að Í bæri af þeim sökum bótaábyrgð á tjóni D sem af því kynni að hafa leitt, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðum um hámarksaldur var breytt og átti D þess því kost að sækja um skólavist ári síðar en gerði það ekki. Var því talið að ólögmæt synjun valnefndar á umsókn hans árið 2005 hefði hvað sem öðru liði ekki geta orðið þess valdandi að það drægist meira en eitt ár að hann gæti hafið störf innan lögreglunnar. Þegar litið væri til þess hversu lítill munur væri á mánaðartekjum í því starfi sem D gegndi og þeim störfum sem hann hugsanlega hefði átt kost á innan lögreglunnar á því ári sem um ræddi, sem og þess að engin gögn væru í málinu um hvaða vinnuframlag lægi að baki tekjum D var talið að honum hefði ekki tekist að sýna fram á að hann hefði orðið fyrir fjártjóni vegna synjunar valnefndar. Skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til greiðslu miskabóta var hins vegar talið fullnægt og voru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmdar fjárhæðir verði lækkaðar og málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn niður falla.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 7. september 2009. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 17.424.241 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. júlí 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

I

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir nánar auglýsti ríkislögreglustjóri vorið 2005 eftir nemum í Lögregluskóla ríkisins. Alls bárust 140 umsóknir og var gagnáfrýjandi meðal umsækjenda. Í a. til d. lið þágildandi ákvæðis 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 voru sett almenn skilyrði sem lögreglumannsefni skyldu fullnægja, en að auki þurftu umsækjendur samkvæmt e. lið málsgreinarinnar að standast inntökupróf. Alls fullnægðu 110 umsækjendur hinum almennu skilyrðum til að mega þreyta inntökuprófið. Meðal framangreindra almennra skilyrða var samkvæmt a. lið málsgreinarinnar að umsækjandi væri íslenskur ríkisborgari, 20 - 35 ára, en víkja mátti frá aldurhámarki við sérstakar aðstæður. Gagnáfrýjandi er fæddur í júlí 1966 og var því á 39. ári. Hann fullnægði því ekki almennu skilyrði um hámarksaldur og reyndi þá á framangreint undanþáguákvæði a. liðar. 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga. Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. lögreglulaga velur sérstök valnefnd nema í lögregluskólann úr hópi umsækjenda og kom það því í hlut nefndarinnar að fjalla um umsókn gagnáfrýjanda. Með bréfi 25. maí 2005 hafnaði valnefndin að veita gagnáfrýjanda undanþágu frá aldursskilyrðinu. Vísaði nefndin því til stuðnings meðal annars til mikils fjölda hæfra umsækjenda á tilskildum aldri, en ríkislögreglustjóri hafði á grundvelli 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga ákveðið að teknir yrðu að minnsta kosti 32 nýnemar inn í skólann í ársbyrjun 2006.

 Gagnáfrýjandi vildi ekki una niðurstöðu valnefndar og skaut málinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Er ferli þeirrar kæru nánar lýst í héraðsdómi en hún var endanlega afgreidd með úrskurði ráðuneytisins 13. febrúar 2007. Í ljós hafði komið að valnefnd Lögregluskóla ríkisins hafði veitt einum umsækjanda undanþágu frá skilyrðinu um hámarksaldur og taldi ráðuneytið í úrskurði sínum að nefndin hefði ekki gætt jafnræðis, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er hún synjaði gagnáfrýjanda um slíka undanþágu. Hafi nefndin því gert upp á milli umsækjenda á ólögmætan hátt. Var ákvörðun valnefndarinnar, sem tilkynnt hafði verið gagnáfrýjanda með bréfi 25. maí 2005, því felld úr gildi.

Framangreindu ákvæði a. liðar 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga um aldursskilyrði var breytt með 6. gr. laga nr. 46/2006 á þann hátt að áskilið var að lögreglumannsefni skyldu vera íslenskir ríkisborgarar á aldrinum 20 - 40 ára, en heimild til að víkja frá aldursskilyrðunum var felld niður. Þessi breyting öðlaðist gildi 16. júní 2006 og gilti fyrir þá sem hugðust hefja nám í lögregluskólanum næsta skólaár. Gagnáfrýjandi, sem eftir lagabreytinguna fullnægði almennum skilyrðum lögreglumannsefna, sótti ekki um skólavist 2006 en sagði lausu starfi sem hann hafði gegnt hjá sendiráði Bandaríkjanna og hóf nám í viðskiptalögfræði við háskólann á Bifröst í september 2006. Hefur hann nú lokið þaðan BS prófi og leggur stund á meistaranám.

II

Með úrskurði dóms- og kirkjumálráðuneytisins 13. febrúar 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að valnefnd Lögregluskóla ríkisins hefði ekki gætt jafnræðis, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, er hún með ólögmætum hætti hafi gert upp á milli gagnáfrýjanda og annars umsækjanda við veitingu undanþágu frá almennu skilyrði um hámarksaldur til að þreyta inntökupróf í Lögregluskólann. Verður sú niðurstaða lögð til grundvallar dómi í málinu og ber aðaláfrýjandi af þeim sökum bótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda sem af því kann að hafa leitt, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

 Að framan er rakið að gagnáfrýjandi fullnægði almennum skilyrðum lögreglumannsefna eftir þá breytingu sem gerð var á lögreglulögunum með lögum nr. 46/2006. Hann átti þess því kost að sækja um skólavist á árinu 2006. Ólögmæt synjun valnefndar á umsókn hans árið 2005 gat því, hvað sem öðru líður, ekki orðið þess valdandi að það drægist meira en eitt ár að hann gæti hafið störf innan lögreglunnar. Breytir engu í þeim efnum þótt gagnáfrýjandi hafi kosið að sækja ekki aftur um skólavist í Lögregluskóla ríkisins en hefja í þess stað langskólanám. Gagnáfrýjandi starfaði á árinu 2005 og fram til ágústmánaðar 2006 hjá sendiráði Bandríkjanna. Samkvæmt skattframtölum hans voru mánaðarlegar tekjur hans á þessu tímabili  tæplega 247.000 krónur. Á árinu 2006 námu mánaðartekjur lögreglunema að meðaltali tæplega 255.000 krónum, en mánaðartekjur nýliða í lögreglunni að meðaltali réttum 301.000 krónum að meðtalinni yfirvinnu og vaktaálagi, sem var rúmlega þriðjungur heildartekna. Þegar litið er til þess hversu lítill munur er á mánaðartekjum í því starfi sem gagnáfrýjandi gegndi og þeim störfum sem hann hugsanlega hefði átt kost á innan lögreglunnar á því ári sem hér um ræðir, sem og þess að engin gögn eru í málinu um hvaða vinnuframlag lá að baki tekjum gagnáfrýjanda hjá sendiráðinu verður ekki talið að honum hafi tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna synjunar valnefndar. Skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til greiðslu miskabóta til handa gagnáfrýjanda er fullnægt og eru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 300.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Davor Davíð Purušić, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. júlí 2007 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

DómurHéraðsdóms Reykjavíkur2. apríl 2009.

Mál þetta höfðaði Davor Davíð Purušić, kt. 060766-2669, Skaftahlíð 42, Reykjavík, með stefnu birtri 16. september 2008 á hendur dómsmálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.  Málið var dómtekið 5. mars sl. 

Stefnandi krefst  skaðabóta að fjárhæð 17.424.241 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 frá 6. júlí 2007 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. 

Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.  Til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

Stefnandi er fæddur og uppalinn í Sarajevó í Bosníu.  Hann flutti til Íslands 1993 og er íslenskur ríkisborgari.  Mál þetta varðar meðferð umsókna hans um nám í Lögreglu­skóla ríkisins. 

Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi gerði hann stuttlega grein fyrir náms- og starfsferli sínum.  Er þá lýsingu einnig að finna í bréfi hans til valnefndar Lögregluskólans er síðar verður vikið að.  Stefnandi lauk námi sambærilegu við menntaskóla í Bosníu.  Hann gegndi síðan herþjónustu og fór síðan í lögregluskóla.  Var hann þar í níu mánuði, en vegna þess að hann hafði lokið framhaldsskóla var námstíminn skemmri en ella.  Hann var í öryggisdeild lögreglunnar og starfaði sem lífvörður.  Hann fluttist til Íslands 1993 eins og áður segir, en þá var hann slasaður eftir átök er urðu er serbneski herinn réðst inn í Bosníu. 

Hér á landi hóf hann fljótlega störf hjá öryggisgæslufyrirtækinu Securitas og starfaði hjá því um árabil.  Síðan fluttist hann til starfa hjá bandaríska sendiráðinu.  Hann er kvæntur og á tvö börn. 

Stefnandi sótti fyrst um í Lögregluskólanum 2002 til að hefja nám á árinu 2003.  Hann þreytti inntökupróf, en féll.  Stefnandi kvaðst í skýrslu sinni telja að um hafi verið að kenna mistökum í framkvæmd prófsins.  Er ekki nauðsynlegt að fjalla nánar um það atriði þar sem kröfur eru ekki á þessu reistar. 

Hann sótti um á ný árið eftir.  Þreytti hann inntökupróf og stóðst það.  Hann var hins vegar ekki tekinn í skólann og var tilkynnt um þá ákvörðun valnefndar skólans með bréfi 23. september 2003.  Þar segir:  „Því miður getum við ekki orðið við umsókn þinni um skólavist að þessu sinni.  Þú hefur uppfyllt öll skilyrði til inngöngu í skólann en þegar öll atriði í umsókn þinni, og framlögð gögn eru metin í samanburði við aðra umsækjendur, reynslu þeirra og niðurstöðu í prófum og viðtölum er niðurstaðan þessi.  Að þessu sinni voru valdir 40 úr hópi umsækjenda og fimm til vara.“ 

Stefnandi sótti um enn á ný á árinu 2004.  Með bréfi valnefndar skólans, dags. 16. ágúst 2004, var honum tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað.  Í bréfinu segir:  „Þar sem þú ert yfir eldri aldursmörkum sem nefndinni ber að fara eftir, nema í undantekningartilvikum þegar um mjög sérstaka menntun eða færni er að ræða, og vegna hins mikla fjölda hæfra umsækjenda sem eru á tilskildum aldri, getur nefndin ekki gert undanþágu í þínu tilviki og verður, því miður, að hafna umsókn þinni.“ 

Frammi liggur afrit bréf Umboðsmanns Alþingis, dags. 27. október 2004, þar sem dómsmálaráðuneytið er krafið um gögn í tilefni af kæru stefnanda á úrskurði ráðuneytisins 21. september sama ár.  Segir í bréfinu að staðfest hafi verið ákvörðun val­nefndar Lögregluskólans. 

Enn sótti stefnandi um inngöngu í skólann vorið 2005.  Með bréfi valnefndar 25. maí þ.á. var honum tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað.  Var rökstuðningur fyrir ákvörðuninni í bréfinu samhljóða rökstuðningnum í áðurgreindu bréfi frá 16. ágúst 2004.  Er jafnframt vísað til þess bréfs. 

Í lok bréfsins er stefnanda gefinn kostur á að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar og leggja fram frekari gögn.  Svaraði stefnandi með bréfi því sem að framan er getið og er ódagsett, þar sem hann gerir grein fyrir ferli sínum og lýsir óánægju sinni með ákvörðun valnefndarinnar.  Valnefndin svaraði með bréfi dags. 27. júní 2005.  Þar segir:  „... tekið umsókn þína fyrir og hafnað henni þar sem þú uppfyllir ekki aldurs­skilyrði.  Skoðað hefur verið hvort undanþágumöguleikar séu fyrir hendi.  Valnefnd hefur metið það svo að í ljósi mikils fjölda hæfra umsækjenda sem uppfylla hin almennu skilyrði 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga, sé ekki unnt að beita undantekningarheimildum í tilfelli umsóknar þinnar.  Þær sérstöku aðstæður sem heimildin áskilur eru ekki fyrir hendi að mati valnefndar.  Heimild ákvæðis a-liðar 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga, um að víkja megi frá almennu aldursskilyrði lögreglumanna er almennt bundin við þá nemendur sem hafa ákjósanlega reynslu til starfa sem lögreglumenn og hafa sinnt afleysingastörfum í íslenskri lögreglu með góðum árangri.“

Stefnandi kærði synjun valnefndarinnar til dómsmálaráðherra með bréfi dagsettu 14. júlí 2005.  Lauk hann bréfi sínu með þeirri kröfu að ákvörðun valnefndar um að synja honum um undanþágu frá aldursskilyrði til að þreyta inntökupróf, yrði felld úr gildi.  Jafnframt að nefndinni yrði gert að taka tillit til reynslu hans og þekkingar, þó að hann hafi ekki öðlast hana hér á landi. 

Ráðuneytið óskaði eftir viðhorfi valnefndarinnar og að hún upplýsti hvernig litið væri til reynslu af lögreglustörfum erlendis, þegar metið væri hvort gera ætti undantekningu frá aldursskilyrði laganna.  Valnefndin svaraði með bréfi dags. 2. október 2005.  Af bréfinu virðist mega ráða að stefnandi hafi ekki náð inntökuprófi 2003, en þó er það óskýrt.  Síðan segir:  „Í reglum valnefndar segir um a-lið 2.mgr. 38. gr. lögreglulaga að tilgangur með undanþáguákvæðinu sé að gefa mönnum kost á skólavist sem eru í óvenju góðu formi eða hafi eitthvað það til að bera sem eftirsóknarvert kunni að vera fyrir lögregluna. 

Aðalatriði málsins er að frammistaða Davors í prófum og viðtölum gaf ekki til kynna að hann uppfyllti þessi skilyrði.  Þegar litið er til hins mikla fjölda hæfra um­sækjenda þykir nefndinni sýnt að nefndur umsækjandi standi þeim langt að baki og hafi, þess vegna, ekki þótt ástæða til að veita undanþágu frá nefndu aldursákvæði.  Á fundi val­nefndar 24. maí 2005 var umsókn Davors hafnað.  Það er skoðun nefndarinnar að ekki sé ástæða til að veita slíka undanþágu, sem um er rætt, oftar en einu sinni.“

Stefnandi gerði nokkrar athugasemdir við bréf valnefndarinnar.  Var kveðinn upp úrskurður í ráðuneytinu þann 24. október 2005 þar sem ákvörðun valnefndarinnar var staðfest.

Stefnandi kvartaði því næst til Umboðsmanns Alþingis.  Leitaði Umboðsmaður eftir afstöðu ráðuneytisins með bréfi dags. 17. febrúar 2006.  Svarbréf ráðuneytisins barst Umboðsmanni og stefnandi nýtti tækifæri sitt til andsvara.  Loks hætti Umboðsmaður umfjöllun um málefnið eftir að ráðuneytið tilkynnti að nýjar upplýsingar hefðu komið fram við málsmeðferð hjá Umboðsmanni og því hefði verið tekin ákvörðun um að taka upphaflega kæru stefnanda til meðferðar að nýju.  Lauk þeirri meðferð með úrskurði 6. febrúar 2007, þar sem synjun valnefndarinnar um að veita stefnanda undanþágu frá aldursskilyrði til að þreyta inntökupróf var felld úr gildi.  Í úrskurðinum segir að ekki verði séð að valnefndin hafi gætt jafnræðis við veitingu undanþágu frá aldursskilyrðinu í umrætt sinn.  Orðrétt segir:  „... og hafi gert upp á milli umsækjenda á ólögmætan hátt.  Fyrst valnefndin veitti undanþágu frá aldursskilyrðunum á grundvelli þess að nemendur hafi ákjósanlega reynslu til starfa sem lögreglumenn og hafi sinnt afleysingastörfum í íslenskri lögreglu með góðum árangri, þá hefði kærandi einnig átt að fá undanþágu með vísan til sinnar menntunar og reynslu í lögreglu í Bosníu eins og gert hafði verið áður.“ 

Í kjölfar þessa krafði stefnandi ráðherra um skaðabætur með bréfi dags. 6. júní 2007.  Þeirri kröfu var hafnað með bréfi ríkislögmanns 13. ágúst sama ár. 

Gunnlaugur V. Snævarr, yfirlögregluþjónn og formaður valnefndarinnar, gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.  Hann sagði að stefnanda hefði ekki verið mismunað vegna þjóðernis.  Þá hefði nefndin haft allar upplýsingar um starfsreynslu hans bæði í Bosníu og hér á landi.  Hann sagði að í nefndinni hefði verið talið að reynsla af lögreglustörfum í allt öðru lagaumhverfi gagnaðist ekki hér á landi.  Þá hefðu komið fram efasemdir í nefndinni vegna íslenskukunnáttu stefnanda. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst hafa víðtæka reynslu sem lögreglumaður.  Hann hafi m.a. starfað sem slíkur í lífvarðadeild bosnísku lögreglunnar um árabil.  Hann uppfylli öll almenn skilyrði til inngöngu í Lögregluskóla ríkisins.  Þrátt fyrir það hafi honum verið synjað um að taka inntökupróf og þá jafnframt um skólavist.  Í síðustu þrjú skiptin hafi það verið gert á þeim forsendum að hann væri yfir eldri aldursmörkum sem sett væru. 

Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir miska og verulegu fjárhagstjóni vegna ólögmætra aðgerða og mismununar af hálfu valnefndar Lögregluskólans og dómsmála­ráðuneytisins.  Hann segir að reglur um málefnalegar forsendur stjórnarathafna hafi verið brotnar.  Þá hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin á sér, líklega vegna þjóðernis hans, sem séu ómálefnaleg sjónarmið.  Telur stefnandi að íslenska ríkið beri skaðabóta­ábyrgð á tjóni því sem hann hafi orðið fyrir. 

Stefnandi kveðst hafa verulegra hagmuna að gæta hér.  Hann hafi víðtæka þekkingu og reynslu af lögreglustörfum erlendis.  Komið hafi verið í veg fyrir það með ólögmætum hætti að gæti sinnt þeim störfum hér á landi.  Hann hafi nú í þrjú ár setið á skólabekk til að afla sér menntunar til annarra starfa, til að eiga möguleika á að framfæra fjölskyldu sína á sambærilegan hátt eins og væri hann starfandi lögreglumaður.  Hann hafi lokið B.A. námi í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst í september 2008 og hafi nú byrjað mastersnám í þeim fræðum á sama stað. 

Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir beinu fjártjóni og miska vegna framanlýstra aðgerða stefnda.  Fjárkrafa hans skiptist í tvennt.  Annars vegar krefst hann bóta vegna tekjutaps í þrjú ár, 14.924.241 krónu.  Miðar hann þar við meðaltal heildarlauna lögreglu­manna á Íslandi árið 2006 skv. upplýsingum kjararannsóknarnefndar opinberra starfs­manna um laun lögreglumanna.  Þá krefst hann miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur.  Miskabótanna krefst hann vegna þeirrar hneisu og smánar sem hann hafi sætt og þurft að þola í samskiptum sínum við íslenska ríkið vegna umsókna sinna.  Viðmót stefnda hafi markast af fordómum vegna þjóðernis stefnanda og hafi það aukið enn á vanlíðan hans og hneisu.

Stefnandi vísar til lögfestra og ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar en jafnframt styður hann kröfur sínar við reglur skaðabótaréttar um greiðslu skaðabóta fyrir fjártjón.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda um að ákvörðun valnefndar Lögreglu­skólans hafi markast af fordómum.  Segir hann að það hafi verið eftirsótt að fá íslenska ríkisborgara af erlendu bergi brotna í lögregluna.  Hafi m.a. verið fellt niður skilyrði um gott vald á einu Norðurlandamáli til að auðvelda fleiri umsækjendum að komast í skólann.  Umsækjendur sem séu af erlendu bergi brotnir séu í engu lakar settir þegar komi að inntökuferlinu.  Frá 2002 hafi sex slíkir umsækjendur útskrifast úr skólanum og tveir til viðbótar séu við nám eða um það bil að hefja nám.  Stefnandi hafi ekki verið látinn gjalda þjóðernis síns. 

Stefnandi hafi ekki verið metinn einn af þeim hæfustu við val í skólann fyrir árið 2004 eftir umsókn 2003.  Valnefnd hafi ekki talið fært vegna mikils fjölda hæfra umsækjenda vorið 2004 að veita stefnanda undanþágu frá aldursskilyrði.  Vorið 2005 hafi stefnanda enn verið hafnað vegna aldursskilyrðisins.  Þá höfnun hafi stefnandi kært til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti hana 24. október 2005.  Beindi stefnandi þá kvörtun til Umboðsmanns Alþingis.  Í desember 2006 ákvað ráðuneytið að taka kæru stefnanda til meðferðar að nýju og með úrskurði 13. febrúar 2007 var ákvörðun valnefndarinnar um að synja stefnanda um undanþágu frá aldursskilyrði til að þreyta inntökupróf felld úr gildi.  Féllst ráðuneytið í úrskurði sínum á að umsækjendum hafi verið mismunað á ólögmætan hátt. 

Stefndi mótmælir því að synjun valnefndarinnar um að veita stefnanda undanþágu frá aldursskilyrðinu vorið 2005 hafi valdið stefnanda tjóni eða miska er varðað geti bótaskyldu.  Stefnandi hafi ekki orðið fyrir hneisu eða smán.  Það feli ekki í sér ólögmæta meingerð að hafna stefnanda vegna mikils fjölda hæfra umsækjenda á tilskildum aldri.  Þá hafi málsmeðferð ráðuneytisins ekki valdið tjóni eða miska. 

Stefndi segir að ekki sé orsakasamband milli þeirrar ákvörðunar að synja um undanþágu frá aldursskilyrði og ætlaðs tjóns stefnanda.  Stefnandi hafi verið í fullu starfi hjá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og hafi ekki tapað neinum launum.  Sú ákvörðun stefnanda að hefja nám í viðskiptalögfræði geti ekki verið tengd synjun valnefndarinnar. 

Stefndi mótmælir forsendum þeim sem stefnandi byggi á.  Hann gefi sér að hann hefði sjálfkrafa komist inn í skólann hefði aldursundanþága verið veitt og hann þá lokið námi á árinu 2006.  Hér bendir stefndi á að 110 umsóknir hafi uppfyllt almenn inntöku­skilyrði áður en til inntökuprófs kom.  Þá hafi stefnandi ekki sótt um skólavist 2006 þegar aldurshámarkið hafði með lögum verið hækkað í 40 ár. 

Stefndi mótmælir þeirri aðferð stefnanda að miða við meðallaun allra lögreglu­manna á landinu.  Í þeim hópi séu yfirmenn og lögreglumenn með langan starfsaldur.  Laun nema og nýútskrifaðra lögreglumanna séu mun lægri.  

Stefndi mótmælir því að hann verði gerður ábyrgur fyrir ætluðu tjóni eftir að stefnandi hóf nám á Bifröst.  Stefnandi hafi ekki sótt um skólavist á árinu 2006 vegna skólaársins 2007 og kveðst stefndi því mótmæla kröfum er miði við tekjutap frá og með árinu 2007.  Þá krefst stefnandi þess að tekjur stefnanda komi til frádráttar. 

Stefndi segir að staðhæfingar stefnanda um ætlað tjón séu ekki studdar neinum haldbærum gögnum.  Miskabótakröfu segir stefndi vera allt of háa.  Þá sé krafa um bætur fyrir fjártjón einnig of há.  Loks mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð stefnanda og krefst þess að þeir miðist við dómsuppsögu. 

Forsendur og niðurstaða

Um Lögregluskóla ríkisins er fjallað í VIII. kafla laga nr. 90/1996.  Skilja verður málatilbúnað stefnanda svo að hann telji hafa verið á sér brotið við afgreiðslu umsóknar hans vorið 2005, en sú meðferð var felld úr gildi með úrskurði dómsmálaráðuneytisins 6. febrúar 2007. 

Þegar fjallað var um þessa umsókn stefnanda var í a-lið 2. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 49/2000, sagt að lögreglumannsefni skyldu vera á aldrinum 20-35 ára, en þó mætti víkja frá aldurshámarkinu við sérstakar aðstæður.  Vorið 2005 var stefnandi að verða 39 ára. 

Á þessum tíma hafði núgildandi 5. mgr. 38. gr. laganna ekki öðlast gildi, en hún var lögfest með lögum nr. 46/2006.  Þar er valnefndinni heimilað að setja sér verklags­reglur.  Upplýsingar um viðmið nefndarinnar fram að því eru af skornum skammti í gögnum málsins og slíkar verklagsreglur hafa ekki verið lagðar fram í málinu. 

Upplýst er að einum umsækjanda sem var eldri en 35 ára var veitt undanþága til að gangast undir inntökupróf.  Telur ráðuneytið í úrskurði sínum að veita hefði átt stefnanda slíka undanþágu.  Dómurinn er sammála því.  Augljóst er að stefnandi býr yfir mikilli reynslu sem kæmi honum að notum í starfi sem lögreglumaður.  Er það rétt mat hjá ráðuneytinu að ekki verði á því byggt að sú reynsla sé fengin í öðru lagaumhverfi.  Íslensk lög og reglur eru meðal þess sem hann hefði lesið í skólanum, hefði hann fengið inngöngu.  Þá er ekki byggt á því í málflutningi stefnda að íslenskukunnátta stefnanda væri ekki næg.  Liggur heldur ekki fyrir neitt marktækt mat í því efni, en upplýst er að hann hefur lokið sem svarar til grunnskólaprófs í íslensku.  Önnur atriði sem nefnd eru í bréfum valnefndarinnar eru ekki nægileg til að breyta þeirri niðurstöðu að hin sérstaka reynsla stefnanda hefði mátt vera næg ástæða til að honum yrði veitt undanþága frá aldursskilyrði laganna til að þreyta inntökupróf.  Er niðurstaða í aðra veru með öllu órökstudd og blasir við að málefnaleg sjónarmið hafa ekki ráðið niðurstöðu val­nefndarinnar. 

Málsvörn ríkisins er einkum sú að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni eða miska vegna þessarar synjunar.  Miða verður við að stefnandi hefði átt jafna möguleika til að hljóta skólavist og verður að reikna með því að fjárhagslegt tjón hafi hlotist af synjuninni.  Hins vegar er nær útilokað að meta það með nokkurri nákvæmni, en stefnandi hefur tekið aðra stefnu um atvinnu og tekjuöflun eftir að hann komst ekki inn í Lögregluskólann.  Er ekki unnt að sýkna stefnda með þeim orðum að tjón sé ósannað, en meta verður að álitum hæfilegar bætur.  Með hliðsjón af upplýsingum sem aðilar hafa aflað um annars vegar meðaltekjur lögreglumanna og hins vegar tekjur byrjenda, er hæfilegt að ákveða að stefnanda skuli greiddar 1.800.000 krónur í bætur fyrir fjártjón. 

Stefnandi styður miskabótakröfu sína ekki skýrlega við ákveðna lagaheimild.  Með lýsingu málsástæðna má þó telja að fram sé komin skírskotun til þess að unnin hafi verið meingerð gegn æru og persónu stefnanda, svo sem um ræðir í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Samkvæmt því er óhjákvæmilegt að dæma stefnanda miska­bætur.  Eru þær hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. 

Stefnandi krafðist bóta með bréfi 6. júní 2007 og verður því fallist á að dæma dráttarvexti eins og hann krefst frá 6. júlí 2007. 

Þar sem stefnandi hefur gjafsókn verður gjafsóknarkostnaður hans ákveðinn og skal greiddur úr ríkissjóði.  Er þóknun lögmanns hans ákveðin 1.100.000 krónur, er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.  Ekki er unnt að leggja þá skyldu á stefnda að greiða sjálfum sér málskostnað og verður því mælt svo fyrir í dómsorði að hann skuli falla niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, dómsmálaráðherra f.h. ríkisins, greiði stefnanda, Davor Davíð Purušić, 2.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. júlí 2007 til greiðsludags. 

Málskostnaður fellur niður. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.