Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                            

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 52/2016.

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. febrúar 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til þriðjudagsins 16. febrúar 2016 klukkan 16.                                                                                                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2016.

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að  að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. febrúar nk. kl. 16:00. 

Í greinargerð kemur fram að tvö mál sem varði ætluð brot kærða, X, hafi borist héraðssaksóknara til ákærumeðferðar frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 15. janúar sl. Kærði sé grunaður um að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. desember 2015 veitt tveimur konum eftirför og veist að þeim með ofbeldi í þeim tilgangi að nauðga þeim.

Lögreglu hafi borist tilkynningar um tvær nauðgunartilraunir í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt 13. desember 2015 með um fimm mínútna millibili. Fyrri árásin hafi átt sér stað á Tjarnargötu og sú síðari í Þingholtsstræti. Brotaþolar og vitni hafi lýst árásarmanninum með sambærilegum hætti, þ.e. að hann væri dökkhærður, dökkskeggjaður og fremur lágvaxinn.

Brotaþoli sem hafi orðið fyrir árás á Tjarnargötu, A, hafi verið í miklu uppnámi þegar lögregla hafi komið á vettvang, setið í snjónum í rifnum buxum og grátið. Hafi hún sagst hafa verið að ganga heim úr miðbænum þar sem hún hafi verið að skemmta sér. Þegar hún hafi gengið Tjarnargötuna hafi hún tekið eftir manni sem hafi gengið fyrir aftan hana. Hafi hann gengið svo nálægt henni að hefði hún stoppað hefði hann rekist á hana. Hún hafi orðið hrædd og viljað losna við manninn og því vikið aðeins til hliðar og látið hann ganga fram úr sér. Hafi hann gert það en svo stöðvað för sína við Tjarnargötu [...]. Til þess að komast heim til sín hafi hún orðið að ganga áfram og því ákveðið að halda för sinni áfram. Hafi hún talað við vin sinn í síma um leið. Þegar hún hafi svo gengið fram hjá manninum hafi hann gripið í hana, reynt að taka símann af henni og kallað hana „bitch“. Hafi hún þá hent símanum frá sér til þess að hann gæti ekki tekið hann. Þá hafi hann gripið um munninn á henni, ýtt henni að húsinu, rifið buxurnar hennar og reynt að hneppa frá sínum buxum. Við þetta hafi hún öskrað eins hátt og hún hafi getað og sparkað í hann en þá hafi hann orðið ennþá harkalegri við hana og ýtt höfði hennar upp að húsinu. Brotaþoli hafi sagst hafa verið viss um að hann ætlaði að nauðga sér og hafi hún öskrað aftur. Þá hafi komið fólk að og hann hlaupið í burtu.

Á vettvangi árásarinnar í Þingholtsstræti hafi lögregla hitt brotaþola, B, sem hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Hafi hún sagst hafa verið ein á gangi upp Bankastrætið þegar karlmaður hafi komið aftan að henni og lagt hönd sína yfir axlir hennar. Maðurinn hefði svo gripið fastar og fastar utan um hana. Hún hafi reynt að losa sig en hann hafi þá gripið um munn hennar og gengið ákveðið með hana inn Þingholtsstrætið. Þau hafi ekki verið komin langt inn þá götu þegar hann hafi kastað henni utan í bifreið sem hafi verið þar kyrrstæð og mannlaus í bifreiðarstæði. Því næst hafi hann reynt að setjast klofvega ofan á hana og henni hafi liðið allan tíman eins og hann hafi ætlað að nauðga henni. Síðan hafi líklega einhver komið að því allt í einu hafi hann hlaupið í burtu. Hafi hann ekkert sagt við hana. Hafi hún sagst finna til í vinstra kinnbeini eftir að henni hafi verið kastað á bifreiðina og einnig í fingrunum því hún hafi haldið svo fast í jakkann hans og hann hafi svo rifið sig lausan. Hún hafi klórað hann á öðru hvoru handarbakinu og bitið hann í einn fingur.

Lögregla hafi einnig rætt við önnur vitni á vettvangi árásanna. Brotaþolarnir og vitnin hafi gefið skýrslur við rannsókn málsins.

Við rannsókn málsins hafi lögregla aflað upptaka úr öryggismyndavélum í miðbænum. Við skoðun þeirra hafi komið í ljós að um sama árásarmann hafi verið að ræða í báðum tilvikum og hafi ferðir hans verið raktar með upptökum frá fyrri brotavettvangi til þess síðari auk þess sem síðari árásin hafi öll verið til á upptöku.  Birtar hafi verið myndir af árásarmanninum úr framangreindum upptökum í fjölmiðlum þann 16. desember sl. og óskað eftir upplýsingum um hann og hann beðinn um að setja sig í samband við lögreglu. Fjöldi ábendinga hafi borist lögreglu um að maðurinn væri kærði og hafi hann jafnframt sjálfur haft samband við lögreglu og sagst þekkja sig á myndunum.

Tekin hafi verið skýrsla af vitninu C, leigubílstjóra, eftir að lögregla hafi fengið upplýsingar frá leigubifreiðafyrirtækinu Hreyfli um að bíll, sem hann aki fyrir fyrirtækið, hafi ekið frá Hverfisgötu að heimili kærða, [...], nóttina sem árásirnar hafi átt sér stað, aðeins örfáum mínútum eftir árásirnar. Hafi vitnið lýst því að umræddur farþegi hafi komið móður og í flýti inn í leigubifreiðina neðarlega á Hverfisgötunni. Lýsing vitnisins á útliti farþegans svari til útlits kærða.

Kærði neiti sök. Hann hafi í skýrslutöku játað að hann þekkti sig á myndum sem birtust í fjölmiðlum en dregið úr því við lok skýrslutökunnar. Hafi hann sagst hafa verið að skemmta sér í miðbænum umrætt kvöld og hafa verið mjög ölvaður, Hafi hann tekið leigubíl heim til sín milli kl. 2 og 3.

Að mati héraðssaksóknara sé ljóst af upptökum úr eftirlitsmyndavélum og lýsingum vitna og brotaþola á útliti og klæðnaði að um sama árásarmann hafi verið að ræða í báðum framangreindum tilvikum og séu ferðir hans raktar með upptökum frá fyrri vettvangi að síðari vettvangi. Síðari árásin sé þar að auki öll til á upptöku. Útlit kærða komi heim og saman við útlit árásarmannsins sem sjáist á upptökunum og af framburði leigubílstjórans og upplýsingum frá Hreyfli sé ljóst að kærði hafi komið móður og í flýti inn í leigubifreið rétt eftir að seinni árásinni hafi lokið. Kærði hafi játað  í skýrslutöku að þekkja sig á myndunum sem birst hafi í fjölmiðlum en dregið síðar úr því.

Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé kærði að mati héraðssaksóknara undir sterkum grun um að hafa framið ofangreind brot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. desember sl., með nokkurra mínútna millibili, ráðist fyrirvaralaust með ofbeldi á tvær konur í miðborg Reykjavíkur og gert tilraun til að nauðga þeim. Það hafi orðið þeim til bjargar í bæði skiptin skv. framburðum brotaþola og vitna að kærði hafi orðið  fyrir utanaðkomandi truflun svo hann hafi hlaupið á brott. Um sérlega ófyrirleitnar, fólskulegar og hættulegar atlögur hafi verið að ræða þar sem kærði skeytti engu. Héraðssaksóknari telji ætluð brot kærða varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en refsing fyrir brot gegn ákvæðinu geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 18. desember sl. Fyrst hafi hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, þ. e. a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-419/2015 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 848/2015. Frá 23. desember sl. hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, þ. e. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-424/2015 en úrskurðurinn hafi verið staðfestur af Hæstarétti með dómi í máli nr. 854/2015, þann sama dag.

Málin séu nú til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnanna og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldinu og eftir atvikum dómstólum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Með vísan til greinargerðar Héraðssaksóknara og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar allt að 16 ára fangelsi. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. desember sl., fyrst á grundvell rannsóknarhagsmuna en frá 23. desember á grundvelli almannahagsmuna. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 854/2015, hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að ákærði sæti gæsluvarðhaldi, þar á meðal því að brot sé þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ekkert er fram komið sem breytir þessu mati réttarins. Málin eru nú til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður fallist á með Héraðssaksóknara að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt og ekki eru því efni til að fallast á kröfur verjanda. Er krafa um áframhaldandi gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

  Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

                X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæslu­varð­haldi allt til þriðjudagsins 16. febrúar nk. kl. 16:00.