Hæstiréttur íslands
Mál nr. 689/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Milliliðalaus málsmeðferð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2014. |
|
Nr. 689/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl. Agnar Þór Guðmundsson hdl.) (Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. og Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumenn) |
Kynferðisbrot. Börn. Milliliðalaus málsmeðferð. Skaðabætur.
X var annars vegar sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni með því að hafa haft samfarir við A sem þá var 13 ára og hins vegar nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa með ólögmæti nauðung látið B, sem þá var 13 ára, hafa við sig munnmök og við það nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni sökum aldurs- og þroskamunar auk þess sem hann hafði komið henni í aðstæður sem vöktu með henni ótta og bjargarleysi. Af nánar tilgreindum ástæðum var ekki fallist á með X að þar sem héraðsdómari sá sem tók skýrslu af B á rannsóknarstigi hefði ekki átt sæti við meðferð málsins fyrir héraðsdómi bæri að sýkna hann af sakargiftum samkvæmt þeim hluta ákæru. Var háttsemi X talin varða 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 3 ár auk þess sem honum var gert að greiða A og B miskabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. október 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af þeim sökum sem hann er borinn í 2. lið ákæru, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. júní 2010 til 24. júlí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að ákærða verði gert að greiða sér framangreinda fjárhæð með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.
B krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.
Eins rakið er í héraðsdómi tók dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur 14. desember 2012 skýrslu af brotþolanum B þar fyrir dómi, sbr. a. lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Mál þetta var síðan höfðað með ákæru ríkissaksóknara 10. júní 2013 fyrir Héraðsdómi Suðurlands og tók dómari sá, er tók framangreinda skýrslu af brotaþola, þá ekki sæti í dóminum. Við munnlegan málflutning í héraði 19. september sama ár komu fram athugasemdir við þessa málsmeðferð af hálfu ákærða og var vísað í því sambandi til 2. mgr. 112. gr. laga nr. 88/2008, en þar segir að sé skýrsla tekin fyrir dómi af sakborningi, brotaþola eða vitni áður en mál er höfðað samkvæmt 1. mgr. 59. gr. skuli það gert, ef því verður við komið, fyrir þeim dómara sem mun síðar fara með málið og kveða dóm upp í því ef til þess kemur. Af þessu tilefni var bókað í þingbók að sækjanda, verjanda ákærða og réttargæslumönnum brotaþola væri gerð grein fyrir því að óskað hafi verið eftir við dómarann við Héraðsdóm Reykjavíkur í júní 2013 að hann tæki sæti í dóminum. Hafi afstaða hans legið fyrir í lok ágúst og hann þá ekki séð sér það fært vegna anna. Dómendur í héraði hafi fjallað sérstaklega um þessa stöðu og eftir að hafa skoðað upptöku af skýrslugjöf brotaþolans hafi verið ákveðið að dómurinn yrði skipaður á þann veg sem raunin varð. Þá var bókað eftir sækjanda að málið hafi verið höfðað á heimilisvarnarþingi ákærða. Fyrir Hæstarétti er því haldið fram af hálfu ákærða að þessi ágalli á sönnunarfærslu í héraði sé þess eðlis að leiða eigi til sýknu af sakargiftum samkvæmt 2. lið ákæru.
Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er dómara heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað samkvæmt 59. gr. og 106. gr. Þó skuli skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til. Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að héraðsdómarar hafi kynnt sér ítarlega upptöku skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi, sem legið hafi fyrir í hljóði og mynd. Þá er óumdeilt að hvorki sækjandi né verjandi kröfðust þess að brotaþoli kæmi á ný fyrir dóm né töldu héraðsdómarar sérstaka ástæðu til þess. Að öllu þessu virtu er ekki hald í þeirri vörn ákærða að umrædd málsmeðferð í héraði eigi að leiða til þess að hann verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt 2. lið ákæru.
Að gættu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans um sakfellingu ákærða og refsingu.
Ákvæði héraðsdóms um frávísun dráttarvaxtakröfu brotaþolans A kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, enda var sú niðurstaða ekki kærð til réttarins.
Við ákvörðun miskabóta til brotaþolans B verður tekið tillit til þess að hún var í af framhaldi af broti ákærða gegn henni lögð inn á [...] Landspítalans þar sem hún dvaldi til meðferðar í rúman mánuð.
Að þessu virtu verður niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfur staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnað réttargæslumanns brotaþolans A, allt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 903.639 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur og Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanna, 188.250 krónur til hvorrar um sig, svo og útlagðan kostnað þeirrar fyrrnefndu, 31.080 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. október 2013.
Mál þetta, sem þingfest var þann 5. júlí 2013, og dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 19. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 10. júní 2013, á hendur ákærða, X, kennitala [...], [...], [...], nú refsifanga að [...].
Í fyrri lið ákæru er ákærða gefið að sök: „kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa aðfararnótt [sic] fimmtudagsins 17. júní 2010, í íbúð [...] að [...] á [..], haft samfarir við A sem þá var 13 ára.
Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Í síðari lið ákæru er ákærða gefið að sök: „nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa fimmtudaginn 15. nóvember 2012 á baðherbergi í íbúð á jarðhæð að [...] í [...], með ólögmætri nauðung látið B, sem þá var 13 ára, hafa við sig munnmök, en ákærði nýtti sér yfirburðarstöðu [sic] sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar og það að hann hafði komið henni í aðstæður sem vöktu með henni ótta og bjargarleysi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa C, f.h. ólögráða dóttur hennar A, en krafan er svohljóðandi:
„Af hálfu C, kennitala [...], f.h. ólögráða dóttur hennar, A [sic], kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.500.000 í miskabætur, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 17. júní 2010, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Auk þess er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.“
Í ákæru er einnig tekin upp einkaréttarkrafa D, f.h. ólögráða dóttur hans B, en krafan er svohljóðandi:
„Af hálfu D, kennitala [...], f.h. hönd [sic] ólögráða dóttur hans, B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2011, frá 15. nóvember 2012 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir.
Af hálfu bótakrefjenda eru gerðar sömu kröfur og í bótakröfum greinir.
Ákærði játaði sök við þingfestingu málsins samkvæmt fyrri lið ákæru. Kröfur ákærða hvað þann lið ákæru varðar eru aðallega að refsing verið látin niður falla, sbr. 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til vara að refsing verði lækkuð með vísan til sama lagaákvæðis, og til þrautarvara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins samkvæmt síðari lið ákæru. Kröfur ákærða hvað þann lið ákæru varðar eru aðallega sýkna en til vara að ákærði verði eingöngu dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Ákærði mótmælir einkaréttarkröfum, en verði fallist á kröfurnar er þess krafist að skaðabætur verði lækkaðar.
Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna og greiðslu ferðakostnaðar.
Meðan á rannsókn málsins stóð tók Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari skýrslu af brotaþolanum B þann 14. desember 2012 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómsformaður leitaði eftir því við héraðsdómarann að hann tæki sæti í dómnum en hann sá sér ekki fært að verða við því vegna anna.
Málsatvik
Fyrri liður ákæru
Þann 23. nóvember 2011 barst lögreglunni á [...] rannsóknarbeiðni frá barnaverndarnefnd [...] vegna meints kynferðisbrots sem brotaþolinn A greindi frá að hafa orðið fyrir af hálfu ákærða þann 17. júní 2010 á [...]dögum á [...]. Lögregluskýrsla var tekin af brotaþola þann 15. desember sama ár. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 6. júlí 2012. Ákærði hefur skýlaust viðurkennt brot það sem honum er gefið að sök í fyrri lið ákæru.
Í málinu liggur frammi vottorð E, sálfræðings í Barnahúsi, sem hefur haft umsjón með meðferð brotaþola í Barnahúsi. Í vottorði sálfræðingsins kemur fram að barnaverndarnefnd [...] hafi þann 10. janúar 2012 óskað eftir þjónustu Barnahúss fyrir brotaþola, þ.e. sérfræðilegri greiningu og meðferðarviðtölum. Fram kemur að brotaþoli hafi verið greind með athyglisbrest, mótþróaröskun og hegðunarerfiðleika. Í viðtölum við brotaþola, sem staðið hafi yfir með hléum frá 7. febrúar 2012 og sé ekki enn lokið, hafi komið fram að brotaþoli hafi glímt við margvísleg vandamál og erfiðleika í nokkurn tíma sem meðal annars hafi kallað á vistun á meðferðarheimilum. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að viðtöl hafi leitt í ljós að ætlað kynferðisbrot hafi valdið brotaþola mikilli vanlíðan og sett skugga á líf hennar. Í ljósi sögu brotaþola, fyrri erfiðleika og vanlíðunar hafi meint brot án efa haft mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd brotaþola, auk þess sem rannsóknir sýni að þolendur kynferðisbrota sýni marktækt meiri líkur á því að leiðast út í neyslu fíkniefna en aðrir. Brotaþoli glími enn við vanlíðan auk vonleysis og þunglyndis.
Síðari liður ákæru
Í skýrslu rannsakanda, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kemur fram að þann 26. nóvember 2012 hafi foreldrar brotaþolans B komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu í þeim tilgangi að kæra kynferðisbrot gegn dóttur þeirra. Í framhaldinu fór brotaþoli á neyðarmóttöku LSH þar sem rannsakandi ræddi við brotaþola og foreldra hennar. Samkvæmt skýrslu rannsakanda hafi ætlað brot átt sér stað fimmtudaginn 15. nóvember 2012 inni á baðherbergi á heimili F, vinar meints geranda, ákærða í máli þessu. Brotaþoli greindi m.a. frá aðstæðum á heimili F og því fólki sem þar var statt. Á neyðarmóttöku hafi G hjúkrunarfræðingur rætt við brotaþola. Samkvæmt ákvörðun læknis hafi ekki farið fram læknisskoðun á brotaþola, m.a. vegna þess að langt hefði verið um liðið frá ætluðu broti. Vegna ástands brotaþola hafi verið kallaður til geðlæknir frá [...] og var brotaþoli í framhaldinu lögð þar inn.
Á tímabilinu 27. nóvember 2012 til 4. janúar 2013 tók lögregla skýrslur af sex vitnum vegna þessa máls. Þá var skýrsla tekin af brotaþola fyrir dómi þann 14. desember 2012. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 28. nóvember 2012 og 4. janúar 2013. Fatnaður sem brotaþoli var í umræddan dag var myndaður og rannsakaður en engin lífsýni fundust nothæf til DNA greiningar. Einnig voru teknar myndir af ætluðum brotavettvangi, heimili F að [...] í [...]. Tölva brotaþola var rannsökuð og fundust fésbókarsamskipti dagana 28. september, 6., 8. og 18. nóvember 2012 milli brotaþola og ákærða. Þá fundust tengingar milli síma brotaþola og ákærða tímabilið 1. 28. nóvember 2012, en ekki var hægt að fá fram innihald smáskilaboða.
Skýrslutaka af brotaþola fyrir dómi
Eins og áður greinir tók Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari skýrslu af brotaþolanum B í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. desember 2012. Dómarar málsins horfðu og hlustuðu á myndbandsupptöku af skýrslutökunni sem liggur frammi í málinu, en þar kemur eftirfarandi fram.
Brotaþoli kvaðst hafa kynnst ákærða á árinu 2012 í gegnum vinkonu sína, H, en hún og ákærði séu frændsystkini. Brotaþola minnti að hún hefði hitt ákærða í Kringlunni. Í það skipti kvaðst brotaþoli hafa sagt við ákærða „þú veist að ég er 13 ára eða ég sagði að ég er 99 og hann bara já“. Brotaþoli kvað ákærða hafa vitað um aldur hennar enda hefði hann vitað að hún var besta vinkona og bekkjarsystir litlu frænku hans. Þá hefði ákærði sagt við hana áður en þau fóru inn í íbúðina að [...] í [...], „ef einhver spyr þig hvað þú ert gömul þá segir þú að þú sért 96 sem er fyrsta ár í framhaldskóla.“
Brotaþoli lýsti atvikum þann 15. nóvember 2012 með eftirfarandi hætti. Hún hafi fengið smáskilaboð í gegnum síma frá ákærða þegar hún var í skólanum og hann spurt hvort hún vildi hitta hann, og hvort hún vildi hitta hann einan. Taldi brotaþoli að ákærði hefði átt við að H væri ekki með þar sem hún, þ.e. H, geti verið með svolítið mikil læti, eins og brotaþoli orðaði það. Greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði hringt í sig og spurt hvar hún vildi hitta hann og kvaðst brotaþoli hafa sagt að sér væri alveg sama. Þá hafi hann sagt „okey, ég get komið og náð í þig.“ Síðan hafi silfurlituð bifreið, sem einhver stúlka hefði ekið, komið í skóla brotaþola rétt fyrir kl. 14:00 umræddan dag og kvaðst brotaþoli hafa sest inn í bifreiðina, en H vinkona hennar, sem komið hefði með henni að bifreiðinni, hefði faðmað stóra frænda sinn en ekki farið með þeim. Fram kom hjá brotaþola að hún hefði treyst ákærða, stóra frænda vinkonu sinnar, og þá lýsti brotaþoli því að ákærði hefði sagt að sér þætti ógeðslegt þegar jafnaldrar hans væru að reyna við stelpur á þeirra aldri. Þá kvaðst brotaþoli hafa haldið að kynferðislegt tal sem ákærði hefði viðhaft í samskiptum við hana fyrir umræddan dag hefði verið sagt í gríni. Í bifreiðinni hefði auk ökumanns verið annar strákur en umrætt fólk kvaðst brotaþoli ekki hafa þekkt. Hún hafi ekki vitað hvert ferðinni var heitið en ákærði hefði sagt „við ætlum að fara heim til vinar míns og ég þá sagt okey“. Síðan hafi verið ekið inn á bílastæði í [...] og farið inn í hús, eða íbúð sem brotaþoli hafði ekki áður komið inn í. Kom fram hjá brotaþola að þar hafi F búið og kvaðst brotaþoli hafa heyrt að hann væri stórhættulegur glæpamaður og í eiturlyfjum. Hún og ákærði hefðu farið inn í íbúðina þar sem eitthvað fólk var fyrir, m.a. F, stelpa sem hét I og einhver strákur.
Þegar inn kom hafi F spurt hana um nafn og hún sagt honum að hún héti B. Þá sagði brotaþoli orðrétt: „... og ég hafði rosa lítið fyrir mér út af því að ég var eiginlega svolítið hrædd að vera þarna, mér fannst þessi strákur ekki vera eitthvað, hann var svolítið hræðilegur líka af því að hann var með tattú í andlitinu og var eitthvað ber að ofan þarna og ég vissi bara ekki neitt hvað var í gangi og svo var hann alltaf að segja mér að setjast í stólinn sem var þarna og ég svaraði ekki og svo bað X mig um að koma inn á bað og ég gerði það.“ Aðspurð hvort einhvern tíma hefði verið rætt um það til hvers þau hefðu farið í [...], sagði brotaþoli. „Sko hann var búinn að tala um það en ég hélt að hann væri bara eitthvað að grínast út af því að hann var 18 ára og ég var 13 ára og ég var besta vinkona litlu frænku hans og ég vissi alveg að hann var húmoristi og hann var eitthvað fyrir löngu sko löngu, löngu og var eitthvað við ættum bara að hittast og ríða og ég bara já, já.“ Brotaþoli tók fram að hún hefði staðið í þeirri trú að hún væri eingöngu að fara til að hitta ákærða.
Atvikum inni á baðherberginu, sem brotaþoli sagði að hefði verið læst meðan hún og ákærði voru þar inni í um klukkustund, lýsti brotaþoli þannig. „Hann spurði hvort ég hefði tottað strák og ég sagði nei og svo sagði hann ekki og ég sagði nei og hann sagði ég ætla að gera þig að reyndustu stelpu sem finnst og ég eitthvað ha eða ég held að ég hafi ekki einu sinni sagt neitt. Svo sagði hann farðu á hnén og ég gerði ekki neitt og hann var eitthvað farðu á hnén og ég gerði það og nei fyrst tók hann af mér skólatöskuna og ég setti skólatöskuna við hliðina á sturtunni.“ Í framhaldi af því svaraði brotaþoli spurningu dómara um það hvort hún hefði tottað ákærða játandi. Einnig kom fram hjá brotaþola að ákærði hefði beðið hana um að totta sig í bifreiðinni á leiðinni. Henni hefði þá brugðið svo mikið að hún hafi ekki svarað og þá hefði hún verið við það að bresta í grát, „af því að ég vissi ekki neitt og mér brá svo.“ Fram kom að ákærði hefði haft sáðlát. Aðspurð hvað síðan hefði gerst sagði brotaþoli. „ Hann var alltaf að biðja má ég afmeyja þig, má ég afmeyja þig núna og ég bara nei,nei, en hann þá hafi ákærði sagt jú en brotaþoli sagt nei.“ Fram kom hjá brotaþola að þetta hefði ákærði sagt eftir að hún hafði tottað hann. Brotaþoli sagðist hafa sagt við ákærða „nei, nei, bara seinna, á eftir eða eitthvað en hann þá sagt þú veist að þú getur ekki frestað þessu hvort eð er til æviloka, þetta verður bara erfiðara fyrir þig þá þegar þú ert orðin eldri.“ Atvikum eftir að hún hafði tottað ákærða lýsti brotaþoli þannig. „Hann sagði mér að standa upp og ég gerði það ekki og þangað til að hann bara tók mig og lyfti mér, og ég bara hvað er núna í gangi, ég sagði ekki neitt allan tímann út af því að ég var svo ógeðslega hrædd nema þarna þá sagði hann mér að standa upp og sagði mér einhvern veginn að beygja mig yfir baðið og ég gerði það eða þú veist, hann lét mig gera það og svo ætlaði hann að gyrða niður um mig og ég bara snéri mér við og sagði nei, nei, nei og hann var eitthvað ha og ég bara nei og hann okey.“ Í framhaldi af þessu hafi ákærði sest niður sagt „þú verður þá bara að totta mig í klukkutíma lengur“ og látið hana gera það. Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa sýnt „voðalega litlar tilfinningar“ en sagðist halda að það hafi sést að hún hefði verið „ógeðslega hrædd“, eins og brotaþoli orðaði það. Þá hefði ákærði sagt við hana þegar þau fóru út af baðherberginu að þetta mætti ekki fréttast, það mætti ekki kæra hann því hann væri ekki barnanauðgari. Fram kom hjá brotaþola að hún hefði verið hrædd inni á baðherberginu og frammi eftir veruna inn á baðherberginu.
Aðstæðum í íbúðinni eftir að brotaþoli kom út úr baðherberginu lýsti hún þannig. „...svo fór ég út á eftir honum og allir þarna bara horfðu á okkur þegar við löbbuðum þarna út og ég vissi ekki neitt hvað ég átti að gera og um leið og löbbum út að þá hélt F á einhverju svona plasti og það var eitthvað svona hvítt ofan í, eins og flórsykur eða eitthvað og F eitthvað við X finndu lyktina af þessu og X eitthvað, og þá henti hann þessu upp í nefnið á honum og X bara allur hvítur og þá var X bara eitthvað svona djókreiður eins og maður verður stundum við vini sína. Ég var orðin svo hrædd þarna og F var að spila dúndrandi teknótónlist og F var byrjaður að kasta einhverjum hnífum í gólfið og stelpan þarna sem var ólétt, hún var reykjandi í sófanum og spurði mig er ekki allt í lagi og ég bara jú svo var F eitthvað æ ekki vera hrædd við mig, elskan mín, sestu í stólinn og ég bara nei og ég sagði ekki neitt og hann var eitthvað sestu í stólinn og svo tók X mig og lét mig setjast í stólinn og sagði ekki neitt og svo fór X að tala við strákinn sem var þroskaheftur eða ég held að hann hafi verið þroskaheftur, eitthvað inni á baði og svo fór hann fram og X eitthvað viltu fara heim og ég já og hann var eitthvað ekki vera hrædd og ég bara ókey og svo ertu hrædd og ég sagði já og svo kyssti hann mig bæ og svo keyrði þessi strákur mig heim til H og svo sendi X mér sms, eftir þetta, um kvöldið ætlar þú að hitta mig á morgun og ég held að ég hafi ekki einu sinni svarað.“
Brotaþoli kvaðst eingöngu hafa sagt H vinkonu sinni frá málinu og ekki nefnt önnur mök við hana en tott. Önnur mök hefðu ekki átt sér stað en ákærði hefði gert tilraun til þess þegar hann hefði látið hana beygja sig yfir baðkarið. Fram kom hjá brotaþola að baðherbergið hefði verið læst og ákærði verið með lykilinn, og fram kom að brotaþola minnti að lykillinn hefði verið á vaskinum.
Vottorð um meðferð í Barnahúsi
Í málinu liggur frammi vottorð J, uppeldis- og afbrotafræðings og forstöðumanns Barnahúss, sem hefur haft umsjón með meðferð brotaþola í Barnahúsi. Í vottorði sérfræðingsins kemur fram að barnavernd [...] hafi þann 14. desember 2012 óskað eftir þjónustu Barnahúss fyrir brotaþola, þ.e. sérfræðilegri greiningu og meðferðarviðtölum, í framhaldi af skýrslutöku fyrir dómi sem brotaþoli fór í framangreindan dag. Í vottorðinu kemur fram að sérfræðingurinn hafi hitt brotaþola 15 sinnum á tímabilinu 20. desember 2012 fram til ritunar vottorðsins þann 26. júní sl. Meðferðin byggi á áfallamiðuðum inngripum í hugrænni atferlismeðferð og felist í því að kenna leiðir og auka þekkingu í þeim tilgangi að börn læri að takast á við þau áföll sem þau hafi orðið fyrir og til að minnka streituvaldandi hugsanir, tilfinningar og hegðun og um leið að hjálpa einstaklingum að líða betur þrátt fyrir erfiða lífsreynslu. Í vottorðinu er vanlíðan brotaþola lýst, svo sem hræðslu, svefnerfiðleikum og sektarkennd og sjálfsásökun sem sé þekkt afleiðing kynferðisbrota bæði hjá börnum og unglingum. Fram kemur að andlegt ástand brotaþola hafi kallað á innlögn á [...] Landspítalans þar sem brotaþoli hafi dvalið í mánuð. Brotaþoli hafi verið greind með áfallastreitu, kvíða, þunglyndi en auk þess sé hún með áhættuhegðun og ADHD (ofvirkni og hvatvísi) og sé á lyfjum. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að brotaþoli hafi verið mjög hrædd og óttaslegin frá því ætlað brot átti sér stað og hafi líf hennar og fjölskyldu hennar mikið breyst í kjölfarið. Hún hafi farið í annan skóla og hafi einangrað sig mikið. Brotaþoli sýni sterklega öll einkenni þess sem hún hafi verið greind með, s.s. sterk einkenni til að forðast staði, hluti og fólk eins og ítarlega er rakið í vottorðinu. Þá hafi hún truflandi minningar um atvikið bæði í hugsunum og skynjunum og líkamleg streitueinkenni eins og erfiðleika með að sofna, aukna árverkni (stöðugt á varðbergi) og pirring/reiðiköst, allt einkenni sem hafi varað lengur en 7 mánuði. Þessi einkenni séu öll þekkt meðal þolenda kynferðisofbeldis en auk þess upplifi brotaþoli ógnina við þann heim sem brotaþoli telur að ætlaður gerandi lifi í.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði kvað fyrstu samskipti sín og brotaþolans B hafa verið í gegnum frænku ákærða, H, meðan ákærði var í afplánun en þá hefði brotaþoli haft samband við hann á „skype“ og líklega einnig á fésbókinni. Ákærði gat ekki gert nánari grein fyrir aðdraganda samskiptanna og taldi að hann hefði ekki hitt brotaþola fyrr en umræddan dag. Fram kom að ákærði hefði losnað úr fangelsi þann 21. september 2012. Ákærði kvaðst hafa átt frumkvæði að samskiptum við brotaþola umræddan dag og sent henni smáskilaboð í síma umræddan dag. Aðspurður hver hafi verið ástæða þess að hann setti sig í samband við stúlkuna sagðist ákærði ekki vita það, en hann hefði verið á fylleríi og tilgangurinn hefði verið að hafa við brotaþola samfarir og um það hefðu þau rætt sín í milli í framangreindum sms skilaboðum. Þegar ákærði var spurður nánar um samskipti þeirra umræddan dag kvaðst hann muna eftir að brotaþoli hefði beðið hann um að koma með sér heim til mömmu brotaþola, en það kvaðst ákærði ekki hafa viljað, enda hefði honum ekki verið vel tekið þar. Ákærði tók fram að brotaþoli hefði einnig sent sms en hann eytt þeim fljótlega úr símanum.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri trú að brotaþoli væri 15-16 ára og kvaðst hann aldrei hafa spurt brotaþola um aldur enda ekki þótt ástæða til þess. Ákærði kvaðst ekki vita hver sé lágmarksaldur á Íslandi til að stunda kynlíf en hélt að hann væri 14-15 ára. Ákærði kvaðst hafa vitað að brotaþoli væri vinkona H frænku hans en hvorki vitað um aldur hennar né hvort brotaþoli og H væru bekkjarsystur. Hann kvaðst hins vegar hafa gert ráð fyrir að þær væru jafnöldrur og staðið í þeirri trú að frænka hans væri fædd árið 1997 eins og önnur frænka hans sem búsett sé í [...]. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekkert verið að velta fyrir sér hvort útlit brotaþola samsvaraði aldri og ekki spurt brotaþola hvort hún væri í grunnskóla. Taldi hann sig ekki hafa sótt brotaþola í grunnskóla heldur í nágrenni skóla. Eftir að hafa verið kynntur framburður hans hjá lögreglu kvað ákærði það geta verið að hann hafi vitað að brotaþoli væri í grunnskóla.
Ákærði kvaðst ráma í að hafa gefið H frænku sinni afmælisgjöf en mundi ekki hvort hann hefði afhent henni gjöfina sjálfur. Þegar ákærði var upplýstur um að H sé fædd [...] staðfesti ákærði að hafa hitt H haustið 2012 og gefið henni afmælisgjöf. Eftir að hafa verið kynntur framburður hans hjá lögreglu hvað þetta varðar staðfesti ákærði að hafa fært H afmælisgjöf umrætt haust í [...]skóla. Ákærði kvað aldur brotaþola ekki hafa komið til tals í samskiptum þeirra í milli og hann hafi ekki spurt brotaþola um aldur enda í rugli á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hefði sagt brotaþola að segjast vera eldri en hún væri þegar í íbúðina kom. Ákærða minnti að eftir að brotaþoli yfirgaf íbúðina hefði I, kærasta F sem þar var stödd, spurt ákærða um aldur brotaþola og hann þá svarað að hún væri 15 ára. Fram kom hjá ákærða að hann hefði komist að aldri brotaþola stuttu síðar í gegnum bróður sinn K. Ákærði kannaðist ekki við þann framburð K hjá lögreglu að ákærði hefði vitað nákvæmlega um aldur H dóttur K. Ákærði kannaðist hins vegar við að K hefði beðið ákærða um að passa H og því oft sótt hana. Ákærði minnist þess að hafa sótt H frænku sína í Kringluna en mundi ekki hvort einhver stúlka hefði þá verið með H. Ákærði kannaðist ekki við að hafa sagt I, kærustu F, eftir að brotaþoli fór, að hún væri „1997, 1998 eða 1999 model“, en það kom fram í framburði I hjá lögreglu.
Ákærði kvaðst hafa farið upp í [...] og sótt brotaþola við eitthvert hringtorg, en mundi ekki hver hefði ekið honum þangað. Síðan hefðu þau farið heim til vinar ákærða í [...], F. Ákærði kvað þau hafa rætt um það á leiðinni hve graður ákærði væri. Ákærða minnti að áðurnefndur F hefði verið þar og þá hafi kærasta hans I verið þar og einhver annar karlmaður, e.t.v. sá sem ók honum upp í [...]. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta lýst ástandi F. Eftir að hafa setið stutta stund í sófanum kvaðst ákærði hafa spurt brotaþola hvort hún vildi koma inn á baðherbergið og hún samþykkt það og þar inni hefði hún síðan átt munnmök við ákærða. Nánar lýsti ákærði því þannig að brotaþoli hefði greint frá því að svona lagað hefði hún ekki gert áður og kvaðst hann því hafa sagt henni að byrja á því að fara niður á hnén, sem hún hafi gert, og síðan hefði eitt leitt af öðru. Aðspurð um hvernig brotaþoli hefði verið í hátt sagði ákærði að hún hefði ekki veitt mótspyrnu eða sýnt ótta. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hefði gengið úr skugga um vilja brotaþola. Ákærði mundi hvorki eftir því hvernig brotaþoli var klædd né hvort hún hefði verið með skólatösku. Aðspurður hvort hann hefði velt því fyrir sér hvernig brotaþola hefði liðið kvað ákærði svo ekki hafa verið en tók fram að hann hefði strax séð hefði hún verið hrædd enda ekki gert svona hluti ef svo hefði verið. Síðan kvaðst ákærði hafa spurt brotaþola hvort hún vildi ekki að hann riði henni á einhverjum skikkanlegri stað en á baðherbergi í [...] sem hún hefði samþykkt og í framhaldi af því hefði brotaþoli lokið við munnmökin. Eftir það hafi þau farið inn í stofu þar sem þau öll hefðu fengið sér smá spítt sem verið hefði á borðinu sem og áfengi. Þá kvaðst ákærði hafa séð að brotaþola hefði ekki litist á umhverfið og því spurt hana hvort hún vildi að einhver æki henni heim og minnti vitnið að brotþoli hefði svarað játandi og í framhaldinu hefði ákærði beðið félaga sinn um að aka henni heim. Umræddan dag kvaðst ákærði hafa neytt áfengis, tekið spítt, smá róandi og reykt en tók fram að hann hefði ekki verið „alveg grillaður“. Aðspurður um líðan brotaþola kvað ákærði hana hafa verið verið „alveg hressa“ en hún hefði verið „pínu feimin“ af því að hún var að hitta hann ein í fyrsta skipti. Brotaþoli hefði hins vegar ekki verið hrædd. Þegar inn í íbúðina kom hefði hún hins vegar ekki verið jafn hress og í bifreiðinni. Spurningu verjanda um hvort hann hefði einhvern tímann umræddan dag beitt brotaþola þvingunum eða hótað henni, svarði ákærði neitandi. Ákærði tók fram að hefði brotaþoli gefið til kynna að hún hefði ekki viljað þetta hefði hann strax hætt, hann tæki ekki áhættu í svona málum enda ekki einn þeirra sem þannig hagi sér. Þá tók ákærði fram að brotaþoli hefði haft samband við sig eftir atburðinn. Undarlegt þótti ákærða að brotaþoli hefði lagt fram kæru löngu síðar og eftir að brotaþoli og kærasta ákærða hefðu rætt saman.
Fram kom hjá ákærða að hann hafi lokið AA meðferð á [...] og í framhaldi fengið flutning að [...] fyrir um þremur vikum en þar dvelji aðeins þeir sem ekki séu í neyslu. Nú sé hann í grunnámi í [...] og stefni að því að breyta um lífsstíl, fara í vinnu og skóla og taka þátt í samfélaginu eins og venjulegt fólk.
Vitnið D, faðir brotaþola gaf skýrslu í gegnum síma. Vitnið kvaðst hafa fengið vitneskju um mál þetta frá konu sinni sem hafði þá stuttu áður tekið á móti móður og fósturmóður H, vinkonu dóttur sinnar, en þær hefðu greint henni frá því að brotaþola hefði verið nauðgað af eldri manni, þ.e. ákærða í máli þessu. Vitnið kvaðst hafa farið í lost. Á þessum tíma hefði dóttir hans verið stödd á heimili K, föður H, en móðir brotaþola hefði sótt hana þangað. Í framhaldi hefðu þau farið niður á lögreglustöð og verið vísað á neyðarmóttökuna í Fossvogi. Í framhaldi af því hefði dóttir hans verið lögð inn á [...] Landspítalans. Vitnið kvað brotaþola hafa lýst atvikum fyrir þeim foreldrum í grófum dráttum en þó engu í sambandi við kynferðisbrotið. Brotaþoli hefði greint vitninu frá því að ákærði hefði sótt hana í skólann og farið með hana inn á heimili F sem hefði verið þar með stóran hníf. Þar hefði verið dúndrandi tónlist á miðjum degi og allir í tómu rugli. Einnig hefði hún greint vitninu frá því að ákærði hefði sagt henni að ljúga til um aldur. Brotaþoli hefði að eigin sögn orðið algjörlega stjörf og hvorki getað hreyft sig né beðið um hjálp. Líðan brotaþola dagana eftir 15. nóvember 2012 fram að þeim tíma sem foreldrum hennar varð kunnugt um atburðinn sagði vitnið að eftir á séð hefðu þau foreldrarnir áttað sig á að breyting hefði orðið á brotaþola, t.d. hefði hún einangrað sig mikið auk þess sem hún hefði stundum verið undarleg í háttum og ekki sjálfri sér lík, svipað eins og slökkt hefði verið á henni. Aðspurður um líðan fjölskyldunnar sagði vitnið að mikið hefði breyst hjá þeim eftir umræddan dag enda áfallið, sem litað hefði allt fjölskyldulífið, verið mjög mikið. Brotaþoli hefði þurft að dvelja eftir þetta á [...] enda borið á sjálfskaðandi hegðun. Þá hefði brotaþoli þurft að skipta um skóla og átt í miklum félagslegum erfiðleikum. Aðspurður um líðan brotaþola í dag kom fram að hún sé langt frá því sama barn en þó sé dagamunur á líðan hennar. Vitnið lýsti því að brotaþoli sé enn hrædd og á tímabili hefði hún ekki þolað að hlusta á umfjöllun um kynferðisbrot í fjölmiðlum og geti ekki enn farið upp í [...]. Þá valdi það henni ótta að sjá fólk með tattú. Að mati vitnisins þurfi brotaþoli og fjölskyldan öll að skipta um umhverfi.
Vitnið greindi frá því að brotaþoli hefði fyrir atburðinn verið venjulegt barn, æft frjálsar íþróttir 4-5 sinnum í viku, gengið vel í skóla, dugleg og metnaðarfull. Hún hefði þó glímt við félagslega erfiðleika í skóla í tengslum við einelti sem vel hefði verið tekið á.
Vitnið L, móðir brotaþola, lýsti því hvernig henni hefði borist vitneskja um mál þetta með sama hætti og vitnið D sem og um fyrstu viðbrögð þeirra foreldra. Vitnið greindi frá að því að K faðir H, vinkonu brotaþola, hefði farið að heimili ákærða sem hefði játað fyrir honum verknaðinn. Vitnið kvað atburðinn hafa breytt lífi brotaþola og allrar fjölskyldunnar. Fram kom hjá vitninu að allt í lífi brotaþola hefði breyst eftir þetta. Brotaþoli hefði verið í meðferð á [...] frá [...] 2012 til [...] 2013. Hún eigi erfitt með að ræða um atburðinn en þó hefði hún sagt vitninu brot og brot af því sem gerðist. Enn í dag geti brotaþoli ekki farið upp í [...], hún hefði þurft að skipta um skóla og fjölskyldan upplifi öryggisleysi á eigin heimili. Aðspurð um hræðslu brotaþola sagði vitnið að brotaþoli, sem hefði hitt ákærða heima hjá vinkonu sinni, hefði staðið í þeirri trú að hún gæti treyst ákærða en faðir H hefði beðið ákærða um að passa upp á H. Brotaþoli hafi lýst skelfilegum aðstæðum í íbúðinni í [...]. Hún hefði orðið stjörf og ekki getað hreyft legg né lið. Brotaþoli hafi greint vitninu frá því að F, sem vitnið kvað þekktan úr fjölmiðlum, hefði verið með hnífa. Þarna hafi verið dúndrandi „sýru“ tónlist og barninu hefði verið boðið að fá sér „línu“.
Aðspurð um 15. nóvember 2012 sagði vitnið að umræddan dag hefði brotaþoli ekki komið heim eftir skóla eins og hún gerði venjulega heldur farið heim til H eftir atburðinn og ekki komið heim fyrr en 21 til 22 um kvöldið. Þar sem mikið hafi gengið á hjá fjölskyldu H fyrir þennan atburð, sem brotaþoli hefði haft áhyggjur af, hefði vitnið talið að vanlíðan brotaþola eftir 15. nóvember 2012 tengdist áhyggjum brotaþola af aðstæðum H. Næstu daga á eftir hefði brotaþoli verið undarleg í hátt, hún hefði einangrað sig, grátið og lokað sig af inni í herbergi og kvaðst vitnið hafa haft miklar áhyggjur af henni. Sem dæmi um hræðslu brotaþola tengt atburðinum lýsti vitnið því að maðurinn sem ók brotaþola heim til H eftir atburðinn hafi komið inn á veitingastað þar sem vitnið og brotaþoli voru staddar. Við það að sjá manninn hefði brotaþoli stífnað, fölnað upp, tárast og strax viljað fara út. Svipað atvik hefði átt sér stað þegar hún sá viðkomandi í strætó. Enn veki ákveðnar bíltegundir og menn með tattú ótta hjá brotaþola sem nú sé vinalaus og einangruð og eigi því langt í land. Um hagi brotaþola fyrir atburðinn bar vitnið um með sama hætti og vitnið B.
Vitnið H, vinkona brotaþola, kvað lítil samskipti hafa verið milli hennar og ákærða. Vitnið lýsti því að ákærði hefði komið til hennar í skólann á 13. ára afmælisdeginum hennar þann [...] 2012 og þá hefðu brotaþoli og ákærði hist. Þau hefðu einnig hist í Kringlunni viku eða hálfum mánuði áður. Vitnið greindi frá því að ákærði hefði óskað henni til hamingju með 13 ára afmælið á fésbókinni og bætt við „nú ert þú orðin táningur“. Aðspurð sagði vitnið að ákærða hefði verið kunnugt um aldur vitnisins og einnig aldur brotaþola enda spurt brotaþola um aldur. Kvaðst vitnið hafa séð smáskilaboð sem brotaþoli sendi ákærða þar sem hún hefði greint ákærða rétt frá aldri sínum, þ.e. að hún væri 13 ára. Aðspurð um smáskilaboða samskipti milli brotaþola og ákærða sagði vitnið að þau hefðu rætt um að hittast, en vitnið kvaðst ekki hafa séð smáskilaboð þeirra í milli sem fjallað hefðu um kynlíf og þess háttar, en þó kvaðst vitnið minnast þess að ákærði hefði spurt brotaþola hvort hún væri tilbúin að missa meydóminn sem brotaþoli hafi auðvitað ekki viljað. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér að hana langaði til að hitta ákærða sem vin en hún hefði ekki viljað stunda kynlíf með honum. Þá hefði brotaþoli sagt vitninu að ákærði hefði beðið brotaþola að segjast vera 16 eða 17 ára.
Aðspurð um atburðarásina 15. nóvember 2012 sagði vitnið ákærða hafa sent brotaþola smáskilaboð og brotaþoli svarað. Brotaþoli hafi síðan sagt vitninu að ákærði ætlaði að ná í hana og kvaðst vitnið ekki hafa gert neitt í því enda ekki vitað að ákærði væri „svona“ eins og vitnið orðaði það. Vitnið kvaðst hafa gengið með brotaþola að bifreiðinni, ákærði hefði boðið sér með en vitnið afþakkað en brotaþoli farið með honum. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hefði verið skjálfandi og gráti nær inni á salerni í skólanum áður en hún fór með ákærða. Vitnið kvaðst hafa hvatt brotaþola til að hringja í ákærða og segja honum að hún vildi ekki hitta hann en brotaþoli hefði ekki þorað að hætta við þar sem hún hefði hræðst reiði ákærða.
Vitnið kvað brotaþola hafa hringt í sig eftir að hafa verið í íbúðinni í [...] og síðan komið heim til hennar. Þá hefði brotaþoli sagt vitninu hvað gerst hefði. Hún hefði farið með ákærða á heimili vinar ákærða, F, þar sem kærasta F hafi einnig verið og hefði brotaþoli verið hrædd við fólkið. Þarna hefði ákærði pínt brotaþola til að gera alls konar hluti. Nánar greindi vitnið frá því að brotaþoli hefði sagt sér að ákærði hefði tekið hana í rassinn og stungið getnaðarlim sínum upp í brotaþola og pínt hana til þess. Vitnið kvað brotaþola hafa skolfið þegar hún kom til hennar og viljað fara að sofa og fara heim til sín og kvaðst vitnið aldrei hafa séð brotaþola í slíku ástandi. Aðspurð um líðan brotaþola næstu daga kom fram hjá vitinu að henni hefði ekki liðið vel eftir að hún áttaði sig á því að þetta væri ekki í lagi eins og ákærði hefði látið líta út. Vitnið kvað brotaþola hafa lýst atvikum þannig að hún og ákærði hefðu farið inn í baðherbergi og þar hefði ákærði pínt brotaþola til að gera alls konar hluti. Nánar aðspurð sagði vitnið að brotaþoli hefði sagt sér að að ákærði hefði tekið brotaþola í rassinn og stungið getnaðarlim sínum upp í hana.
Vitnið kvaðst fljótlega hafa sagt föður sínum frá þessum atburði og eftir það hafi móðir vitnisins og fósturmóðir greint móður brotaþola frá þessu. Fram kom hjá vitninu að hún og brotaþoli hefðu vitað aðgangsorð hvor annarrar á fésbókinni. Vitnið gat ekki skýrt frá ástæðu þess að sími brotaþola varð eftir á heimili vitnisins.
Vitnið K, hálfbróðir ákærða, kvað samskipti hans og ákærða hafa verið nokkur síðustu 4-5 árin. Þá hafi ákærði á sama tíma einnig verið í fésbókarsamskiptum við H, dóttur vitnisins, og hitt hana í fjölskylduboðum. Vitnið kvað engan vafa vera á að ákærði hefði vitað um aldur H og þá hefði vitnið beðið ákærða gagngert að fylgjast með H og brotaþola þegar honum varð ljóst að H hefði verið að tala við 17 ára strák á netinu.
Vitnið kvað dóttur sína hafa sagt sér frá máli þessu föstudagskvöld eitt þegar þau voru ein heima og kvaðst vitnið hafa staðið í þeirri trú að atburðurinn hefði átt sér stað daginn áður. Fram hafi komið hjá H að ákærði og brotaþoli hefðu talað saman á fésbókinni og í framhaldi af því hefði ákærði hringt í brotaþola í skólann og sagst vera að koma að ná í hana. Brotaþoli og H hefðu gengið að bifreiðinni og ákærði boðið þeim báðum að koma með en H hefði afþakkað boðið. Um atvik eftir það, sem vitnið kvað H og brotaþola hafa greint sér frá, bar vitnið á þann veg að fljótlega hefði ákærði byrjað að káfa á brotaþola sem hefði stífnað og orðið hrædd. Þá hafi ákærði sagt brotaþola að segjast vera 15 ára því rétti aldur hennar mætti ekki fréttast. Heima hjá F, sem vitnið kvaðst þekkja, hefði verið fólk í annarlegu ástandi. Ákærði hefði dregið brotaþola inn á baðherbergið og þar hefði hann haft við hana munnmök og endaþarmsmök. Vitnið ítrekaði að þetta sama hefði komið fram í samtali hans og brotaþola, en um það samtal upplýsti vitnið fyrst í skýrslutöku fyrir dómi. Þá hefði brotaþoli greint vitninu frá því að ákærði hefði viljað hafa samfarir við brotaþola en hún, þ.e. brotaþoli, ekki samþykkt það og þá hefði ákærði talað um að hann ætlaði að kenna brotaþola hvernig ætti að afgreiða stráka, þ.á m. munn- og endaþarmsmök, sem hefðu síðan átt sér stað.
Vitnið kvað ákærða hafa viðurkennt fyrir sér bæði munn- og endaþarmsmök en borið fyrir sig að allir vinir hans væru með ungum stúlkum. Í þessu samtali hefði ákærði ekki reynt að bera fyrir sig að brotaþoli væri eldri en hún í raun var enda vitað að slíkt þýddi ekki.
Í framburði vitnisins M kom fram að umræddan dag hefði hann verið staddur á heimili F þegar ákærði hefði komið þangað með unga stúlku. Í umrætt sinni hefðu F, I kærasta hans og vitnið verið að spjalla og hlusta á tónlist. Fram kom að tónlist sem F hlusti á sé litrík og hafi tónlistin verið hátt stillt umrætt sinn. Aðspurt um ástand F sagði vitnið að hann hefði verið ör. Þegar vitnið var spurt hvort F hefði verið með hnífa sagist vitnið hafa tekið eftir þremur hnífum nálægt eldhúsinu. Eins og venjulega hefði verið nokkur asi eða þeytingur á ákærða og kvaðst vitnið hafa þótt það smá skrýtið að sjá stelpuna þarna. Hvað vitnið ætti við með því kom fram að vitninu hefði þótt skrýtið að sjá stelpu með skólatösku á heimili F og einnig af því að ákærði hefði á þessum tíma ekki verið í skóla. Eftir um tíu mínútur hefði stúlkan tekið af sér skólatöskuna og lagt hana til hliðar. Stúlkan hefði virkað mjög feimin og hlédræg. Þau hefðu reynt að spjalla við stúlkuna og af því hún hefði virkað eitthvað hrædd hefðu þau spurt hana hvort allt væri í lagi og þá hefði stúlkan sagt að það væri allt í góðu. Þegar vitnið var spurt beint að því hvort brotaþoli hefði virkað hrædd sagði vitnið, „nei þú veist en alla vega spurðum við hvort hún væri hrædd“. Skömmu eftir þetta hefðu stúlkan og ákærði farið inn á baðherbergið þar sem þau hefðu verið, að því er vitnið hélt, í 20-30 mínútur. Aðspurt hvernig brotaþoli hefði verið í hátt þegar hún kom út af baðherberginu sagðist vitnið ekkert hafa „spáð í það.“ Aðspurt hvort brotaþoli hefði verið í uppnámi þegar hún kom út af baðherberginu sagði vitnið „nei en þú veist hún virkaði svona rosamikið að horfa til okkar en hún sagði ekki neitt og það voru engin viðbrögð, svona eins og hún væri með störu“. Aðspurt hvort stúlkan hefði borið þess merki að hafa grátið kvað vitnið svo ekki hafa verið. Líklega hefði stúlkan verið annan hálftíma í íbúðinni áður en ákærði bað vitnið um að aka stúlkunni heim og þá hefði hann reynt að halda uppi samræðum við hana á leiðinni heim en hún hefði enn virkað feimin og ekki virst hafa áhuga á að spjalla við hann. Hún hefði þó sagt vitninu að ákærði væri vinur vinkonu sinnar. Aðspurt kvað vitnið aldrei hafa komið til tals hvað stúlkan væri gömul og sagðist vitnið ekkert hafa velt aldri hennar fyrir sér en sagðist hafa giskað á að hún væri á aldur við ákærða.
Vitnið I kvaðst umræddan dag hafa verið í heimsókn á heimili kærasta síns F þegar ákærði hefði komið þangað með einhverja stelpu. Tók vitnið fram að það hafi verið mjög algengt að ákærði, sem vitnið kynntist í gegnum F og væri mjög góður vinur vitnisins, kæmi þangað með stelpur. Stúlkan hefði lítið sagt og stuttu eftir að þau komu hefðu þau farið inn á baðherbergið þar sem þau voru í einhvern tíma. Eftir það hafi stúlkan, sem hefði verið hlédræg og feimin, staðið og ekkert sagt. Kvaðst vitnið hafa skilgreint hegðun stúlkunnar á þann veg að hún væri feimin. Þar sem vitninu hefði fundist stúlkan eitthvað svo skrýtin kvaðst hún hafa sagt við stúlkuna „er allt í lagi“ og hefði hún svarað því játandi. Aðspurt af hverju vitninu hefði fundist stúlkan skrýtin sagði vitnið að á þessum tíma hefði F verið út úr ruglaður og kastandi hnífum upp í loftið og kvaðst vitnið hafa haldið að hún væri hrædd við það. Þegar vitnið var spurt beint hvort henni hefði fundist stúlkan vera hrædd, svaraði vitnið. „Nei mér fannst hún ekki hræðsluleg en mér fannst hún bara, þú veist, vera frekar feimin og stóð bara þarna og sagði ekkert og þá sagði ég við hana er allt í lagi og þá sagði hún já.“ Fram kom að ákærði og stúlkan hefðu farið inn á baðherbergið 10-15 mínútum eftir að þau komu og þar hefðu þau verið í um tíu mínútur en fljótlega eftir það hefði stúlkan farið. Aðspurð hvernig brotaþoli hefði verið í hátt þegar hún kom út af baðherberginu sagði vitnið „ekkert öðruvísi ég sá bara að þetta var lítil stelpa og sem átti ekki alveg heima þarna“. Aðspurð hvað vitnið ætti við með þessum orðum sagði vitnið. „Hún bara stóð bara þarna ég veit alveg að fólk sem ég hef verið í kringum hefði ekki staðið þarna hjá og hún var geðveikt feimin, hún var bara lítil og feimin eitthvað, ég var ekkert mikið meira að pæla í henni.“ Aðspurð hvort aldur stúlkunnar hefði komið til tals sagði vitnið það ekki hafa komið til tals. Vitnið kvaðst hafa vitað að stúlkan væri ung enda ákærði ekki gamall sjálfur. Vitnið kvaðst eiga 13 ára frænku en vitnið kvaðst ekki hafa álitið að brotaþoli væri á sama aldri og frænka vitnisins. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt um stúlkuna við ákærða, það eina sem hún hefði sagt við ákærða hefði verið „hvaða stelpa þetta hefði verið“ og ákærði svarað því til að þetta væri stelpa sem hann hefði verið í samskiptum við en aldur hennar hefði ekki komið til tals. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð hvort brotaþoli hefði verið með skólatösku. Vitnið var spurt hvort hún hefði orðið vör við það sem átti sér stað inni á baðherberginu. Vitnið kvaðst muna að hafa fundist þau vera búin að vera svolítinn tíma inni á baðherberginu e.t.v.10-15 mínútur, og þá hefði vitnið lagt eyrað við hurðina en ekkert heyrt. Vitnið kvaðst hafa heyrt að baðherbergishurðinni hefði verið læst eftir að ákærði og stúlkan fóru inn. Fram kom að hurðinni hefði ekki verið læst með lykli.
Eftirfarandi framburður vitnisins hjá lögreglu, sem gefinn var í gegnum síma í desember sl., var borinn undir vitnið „I fannst B virka lítil í sér þegar hún kom fram af baðherberginu og þess vegna hefði hún spurt hvort allt væri í lagi“ Varðandi þennan framburð sagði vitnið „hún var bara svona þú veist, hún kom bara fram hún var bara skrýtin skilur þú en samt hún virkaði ekkert hrædd hún var bara, þetta var bara einhver lítil stelpa, mér fannst hún ekkert eiga heima þarna, var bara eins og hún skammaðist sín eða eitthvað, ég veit ekki.“ Vitnið ítrekaði að hafa spurt brotaþola hvort allt væri í lagi eftir að brotaþoli kom út af baðherberginu. Eftirfarandi framburður vitnisins hjá lögreglu var einnig borinn undir vitnið „spurt hvort hún væri hrædd því þér hafi fundist B vera svo ung og þetta væri ekki staður fyrir svona unga stelpu sem ætti frekar að vera úti að leika sér.“ Vitnið sagði að sér hefði fundist stúlkan vera mjög ungleg en í dag myndi hún ekki þekkja hana aftur. Einnig var eftirfarandi framburður vitnisins hjá lögreglu borinn undir vitnið: „Eftir að B var farin hefði X sagt við þig að þessi stelpa væri 97 model og svo hafi hann sagt við þig að hún væri 97, 98 eða 99 model og hann hafi sagt við þig, ég hafði mig ekki í að ríða henni því hún var svo ung.“ Vitnið staðfesti að þetta hefði komið fram hjá ákærða. Um framburð sinn hjá lögreglu „en í huganum hefðir þú tengt aldurinn á stelpunni við 13 ára frænku þína sem er 99 model“ var einnig borinn undir vitnið sem kvað það vel geta verið rétt og sagði „ég man bara að þessi stelpa var ótrúlega ungleg“ og sagðist vitnið hafa talið brotaþola einu til tveimur árum eldri en umrædda frænku vitnisins.
Vitnið F kvaðst muna eftir að ákærði hefði komið með einhverja stúlku á heimili vitnisins, verið þar einhverja smá stund og farið með hana á baðherbergið og síðan hefði ákærði farið. Vitnið kvaðst þekkja ákærða mjög vel og á þessum tíma hefði ákærði verið með húslykla að íbúðinni og mátt vera þar eins og hann vildi. Vitnið tók fram að það hefði ekki verið neitt óeðlilegt þó ákærði kæmi heim með stelpur, hann hefði reglulega komið á heimili vitnisins með gesti. Vitnið kvaðst á umræddum tíma hafa verið í rugli, þ.e. neyslu. Aðspurður um aðstæður í íbúðinni þegar stúlkan kom kvað vitnið partý hafa verið í gangi, m.a. tónlist. Nánar kvaðst vitnið ekki geta lýst því. Aðspurt hvort hann hefði tekið eftir stúlkunni kvaðst vitnið ekkert hafa spáð í hana, eins og vitnið orðaði það, og ekki gert sér grein fyrir aldri hennar. Vitnið kvaðst hafa spurt stúlkuna þegar hún kom út af baðherberginu hvort ekki væri allt í lagi með hana og hún hafi svarað því játandi. Þegar vitnið var spurt af hverju það hefði spurt stúlkuna umræddrar spurningar sagði vitnið. „af því að hún var hálf vandræðaleg eitthvað“. Fram kom hjá ákærða að stúlkan hefði einnig verið vandræðaleg áður en hún fór inn á baðherbergið, hún hafi gengið inn og staðið þarna eitthvað skrýtin. Nánar aðspurður um hvernig brotaþoli hafi verið í hátt sagði vitnið stúlkuna ekki hafa verið þarna mjög lengi og ítrekaði að hann hefði ekki leitt hugann að henni. Hún og ákærði hefðu komið inn í stofu, stoppað þar í 2-3 mínútur og svo hafi hann farið með hana inn á baðherbergið. Eftir það hafi hún stoppað í 2 mínútur og svo hefði hún farið. Ítrekað aðspurður um ástand brotaþola eftir að hún kom út af baðherberginu sagði vitnið. „Ég held að hún hafi bara labbað inn í íbúð sem hún hefði ekki átt að labba inní ... þetta var ekki henni bjóðandi kannski ég áttaði mig bara á því eftir á.“ Aðspurt hvað hann eigi með því að þetta hefði ekki verið stúlkunni bjóðandi sagði vitnið. „Bara fólkið sem var heima og tónlistin og neyslan á borðinu og mér sýndist á henni að hún væri ekki vön þessu.“ Vitnið kvaðst aðspurt ekki muna eftir að hafa verið með hnífa. Vitnið ítrekaði að hafa ekkert velt fyrir sér aldri brotaþola og beinni spurningu um hvort brotaþoli hafi virst hrædd svaraði vitnið neitandi. Vitnið gat ekki sagt til um það hvort brotaþoli hefði verið með skólatösku þegar hún kom í íbúðina.
Eftirfarandi framburður vitnisins hjá lögreglu, sem gefinn var í gegnum síma í desember sl., var borinn undir vitnið: „Þú munir eftir því að þennan dag hafi X komið heim með litla dökkhærða unga stelpu sem virtist vera hrædd“. Vitnið svaraði með eftirfarandi hætti. „Ég held að hún hafi bara verið smeyk við aðstæðurnar sko.“ Ítrekað aðspurður hvort honum hafi fundist stúlkan hrædd sagði vitnið „hún var svona feimin og skrýtin og öll eitthvað svona bjöguð skilurðu, ekkert kannski hrædd við mig eða hrædd við hann, hún var bara komin í einhverjar aðstæður sem hún var ekki að meika það“. Eftirfarandi framburður vitnisins hjá lögreglu, sem gefinn var í gegnum síma í desember sl., var borinn undir vitnið: „þú hafir verið hnífasafnari og verið að leika þér að kasta hnífum í vegg“, sagði vitnið það geta vel verið en tók fram að hann myndi ekki eftir því núna.
Vitnið J, forstöðumaður Barnahúss og uppeldis- og afbrotafræðingur, kom fyrir dóm og staðfesti framlagt vottorð um brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa mætt í 20 viðtöl hjá sér, eitt á [...] og 19 í Barnahúsi, síðast miðvikudaginn 11. september sl., og sé meðferð enn í gangi og verði eitthvað áfram. Vitnið kvað framfarir hafa orðið hjá brotaþola þó hún eigi langt í land á mörgum sviðum. Brotaþoli sé þroskalega rétt stödd miðað við aldur, en hafi verið greind ofvirk og hvatvís. Þá sé hún áhættusækin og hafi vantað þroska til að skilja mun á réttu og röngu. Einnig hafi brotaþoli orðið fyrir einelti í skóla og sé því svolítið brotin, eigi ekki marga vini, og eftir atburðinn hefði hún slitið sambandi við einu vinkonu sína, H, og sé því mjög vinalaus. Staða brotaþola hafi farið mjög langt niður, hún hafi verið í sjálfsvígshættu og liðið gríðarlega illa. Markmið meðferðar sé að takast á við líðan og tilfinningar og upplifanir þannig að hún geti tekist á við daglegt líf. Þá hafi einnig verið unnið með fjölskyldu hennar, en líðan hennar hafi verið slæm. Foreldrar brotaþola hafi orðið mjög hræddir og brotaþoli ofsa hrædd, fyrst og fremst við ákærða og F, þá sem þeir þekkja og þann heim sem henni fannst hún hafa farið inn í og óttist hefndaraðgerðir og sama gildi um foreldra hennar. Brotaþola líði enn illa, eigi við svefnerfiðleika að stríða, vakni í svitakófi og sé föst í vanlíðunarhugsunum. Að hluta til sé brotaþoli kominn yfir ætlað brot gegn henni fyrir utan skömmina og sektarkenndina, eftir standi hræðsla við ákærða og þá sem honum tengist og hugsanir um hefndaraðgerðir þeirra sæki á hana. Kveikjur hjá brotaþola séu skólalóðin, bílaplanið, hverfið o.fl., og þær valdi henni vanlíðan. Brotaþoli sé í dag einangruð og vinnsla með líðan hennar muni taka nokkurn tíma enn. Fram hafi komið að brotaþoli hefði sagt vitninu að hún, þ.e. brotaþoli, hefði áður farið upp í bíl með ákærða og treyst honum og verið upp með sér að eiga svona vin, en þó hefði hún undir niðri verið hrædd. Brotaþoli hefði greint vitninu frá því að hafa orðið hrædd þegar ákærði byrjaði að strjúka henni um lærið í bifreiðinni. Brotaþoli hefði lítillega sagt vitninu frá aðstæðum í [...], um manninn sem hefði verið að kasta hnífum og að hann hefði spurt hana hvort hún væri hrædd. Nefndi vitnið sem dæmi að ótti brotaþola birtist í því að hún þori ekki að fara í gegnum [...]. Hún sé mjög kvíðin þrátt fyrir lyfjagjöf og þunglynd en samkvæmt upplýsingum frá móður hafi hún orðið kvíðin og þunglynd á unglingsárum enda fylgi það oft ADHD greiningu. Þá eigi brotaþoli að baki sögu um einelti. Að mati vitnisins hafi brotaþoli samsvarað sér í aldri þegar vitnið hitti hana fyrst stuttu eftir atburðinn. Hún samsvari sér einnig í aldri hvað varðar háttarlag og talanda. Þá hafi brotaþoli greint vitninu frá því í fyrstu viðtölum að ákærði hefði vitað um aldur hennar og að hann hafi viljað hafa við hana samfarir en hún sagt nei, en þá hefði hann sagt að hún yrði að totta hann í klukkutíma.
Niðurstaða
Fyrri liður ákæru
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 17. júní 2010, í íbúð [...] að [...] á [...], haft samfarir við A sem þá var 13 ára.
Eins og að framan er rakið játaði ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrri lið ákæru við þingfestingu málsins. Um málavexti er vísað til ákæru og er játning ákærða í samræmi við gögn málsins.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og öðrum gögnum málsins að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í fyrri lið ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.
Síðari liður ákæru
Ákærða er gefið að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa fimmtudaginn 15. nóvember 2012 inni á baðherbergi í íbúð á jarðhæð að [...] í [...], með ólögmætri nauðung látið B, sem þá var 13 ára, hafa við sig munnmök, og þannig nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar og með því að hafa komið henni í aðstæður sem vöktu með henni ótta og bjargarleysi. Ákærði neitar sök og vísar til þess að hann hafi hvorki vitað réttan aldur brotaþola né beitt hana ólögmætri nauðung í umrætt sinn.
Ákærði hefur alfarið neitað því að hafa verið kunnugt um aldur brotaþola, sem á umræddum tíma var 13 ára og rúmlega 5 mánaða, enda hafi aldur brotaþola aldrei komið til tals þeirra í milli og ákærði staðið í þeirri trú að brotaþoli væri 15 til 16 ára gömul. Ákærði kannaðist við að hafa vitað að brotaþoli væri vinkona H, frænku ákærða, en tók fram að hann hefði hvorki vitað aldur H né að hún og brotaþoli væru bekkjarsystur. Þá hafi hann staðið í þeirri trú að H væri fædd árið 1997 og tengt aldur hennar við aldur frænku sinnar sem búi í [...]. Ákærði kannaðist við að hafa vitað að brotaþoli hafi verið í grunnskóla og að hafa fært [...] afmælisgjöf þegar hún var í skólanum haustið 2012, stuttu fyrir atburð þann sem mál þetta fjallar um, en fyrir liggur að H er fædd [...] 1999. Ákærði kannaðist hvorki við að hafa sagt brotaþola að segjast vera eldri en hún í raun var þegar í [...] kom umræddan dag né þann framburð hálfbróður síns, vitnisins K, hjá lögreglu að hann, þ.e. ákærði, hefði vitað aldur H. Þá kannaðist ákærði ekki við framburð vitnisins I hjá lögreglu þess efnis að hann, þ.e. ákærði, hefði sagt við vitnið, eftir að brotaþoli yfirgaf [...], að brotaþoli væri fædd 1997, 1998 eða 1999. Í framburði brotaþola fyrir dómi kom fram að hún hefði greint ákærða frá aldri sínum eða fæðingarári og einnig hafi ákærða verið kunnugt um að hún væri besta vinkona og bekkjarsystir litlu frænku hans, þ.e. H. Þá hefði ákærði sagt brotaþola, áður en þau fór inn í íbúðina í [...], að segjast fædd árið 1996 ef hún yrði spurð um aldur. Vitnið H, bróðurdóttir ákærða, vinkona og bekkjarsystir brotaþola, sem brotaþoli sagði frá atvikum þeim sem mál þetta fjallar um síðdegis umræddan dag, kvað ákærða hafa spurt brotaþola um aldur og kvaðst vitnið hafa séð smáskilaboð í gegnum síma þar sem brotaþoli hafi sagt ákærða réttan aldur sinn. Þá hafði vitnið eftir brotaþola að ákærði hefði sagt brotaþola að segjast vera 16 eða 17 ára. Vitnið kvað ákærða einnig hafa vitað aldur sinn og nefndi sem dæmi að ákærði hefði gefið sér afmælisgjöf á 13 ára afmæli hennar þann [...] 2012, stuttu fyrir umræddan atburð. Einnig hefði ákærði óskað henni til hamingju með 13 ára afmælið á fésbókinni og bætt við að nú væri hún orðin táningur. Vitnið K, hálfbróðir ákærða og faðir vitnisins H, kvað samskipti hans og ákærða hafa verið nokkur síðustu 4-5 árin, t.d. í fjölskylduboðum, auk þess sem ákærði hefði á sama tíma verið í fésbókarsamskiptum við H. Vitnið kvað engan vafa vera á að ákærði hefði vitað um aldur H og þá hefði vitnið sérstaklega beðið ákærða um að fylgjast með H og brotaþola eftir að vitninu varð ljóst að H hefði verið að tala við 17 ára strák á netinu. Í framburði vitnisins J, uppeldis- og afbrotafræðings sem sinnt hefur meðferð brotaþola í Barnahúsi frá 20. desember 2012, kvað útlit, háttarlag og talanda brotaþola, þegar vitnið hitti brotaþola stuttu eftir umræddan atburð, hafa svarað til aldurs brotaþola.
Ákærði, sem umræddan dag var nýlega orðinn 18 ára, staðfesti fyrir dómi að hafa verið kunnugt um að brotaþoli var grunnskólanemi og er það í samræmi við framlögð gögn um fésbókarsamskipti ákærða og brotaþola umrætt haust og framburð vitna fyrir dómi. Þá liggur fyrir að ákærði kynntist brotaþola vegna vináttusambands hennar og frænku hans, H, sem ákærði óskaði til hamingju með 13 ára afmælið og færði afmælisgjöf stuttu fyrir umræddan atburð, eins og rakið er hér að framan. Dómarar málsins kynntu sér ítarlega upptöku af skýrslutöku yfir brotaþola fyrir dómi, en upptakan liggur frammi í hljóði og mynd. Að mati dómsins var framburður brotaþola að þessu leyti skýr og trúverðugur og fær hann stoð í framburði vitnisins H sem kvaðst hafa séð smáskilaboð um síma þar sem brotaþoli hefði upplýst ákærða um réttan aldur. Í ljósi alls þessa og framburðar hálfbróður ákærða, K, sem lýsti samskiptum ákærða við fjölskyldu vitnisins, þ.á m. við dóttur vitnisins sem er jafnaldra og bekkjarsystir brotaþola, þykir framburður ákærða um að hann hafi ekki vitað réttan aldur brotaþola ótrúverðugur. Þá telur dómurinn, eftir að hafa horft og hlustað á upptöku af skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi sem fram fór um mánuði eftir umræddan atburð, að útlit brotaþola á upptökunni svari til aldurs hennar. Er sú skoðun dómsins í samræmi við álit vitnisins J. Með vísan til alls þess sem rakið er hér að framan telur dómurinn sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að ákærða hafi verið fullkunnugt um að brotaþoli væri aðeins 13 ára umræddan dag.
Kemur þá til skoðunar hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna að kynmök þau sem lýst er í ákæru hafi farið fram með ólögmætri nauðung með þeim hætti sem nánar greinir í ákæru. Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að hann hefði átt frumkvæði að samskiptum við brotaþola fimmtudaginn 15. nóvember 2012 í þeim tilgangi að hafa við hana samfarir. Kvaðst ákærði hafa sótt brotaþola og á leiðinni upp í [...] hefði komið til tals hve graður hann væri. Þá greindi ákærði frá því að brotaþoli hefði beðið hann um að koma með sér heim til móður brotaþola, sem ákærði hafnaði. Umræddan dag kvaðst ákærði hafa neytt áfengis, tekið spítt, smá róandi og reykt en þó ekki verið „alveg grillaður“ eins og hann orðaði það. Að mati ákærða hefði brotaþoli verið hress en þó ekki jafn hress þegar inn á heimili vinar ákærða, F í [...], kom. Brotaþoli hefði verið feimin en ekki hrædd. Ákærði gat hvorki gert grein fyrir klæðnaði brotaþola umræddan dag né hvort hún hefði verið með skólatösku meðferðis. Brotaþoli hefði samþykkt að koma með ákærða inn á baðherbergið þar sem hún hefði veitt honum munnmök. Nánar lýsti ákærði atvikum þannig að hann hefði sagt brotaþola, sem hefði greint honum frá því að slíkt hefði hún ekki gert áður, að fara fyrst niður á hnén og síðan hefði eitt leitt af öðru. Ákærði neitaði því alfarið að hafa beitt brotaþola þvingunum eða hótunum, kvað brotaþola hvorki hafa sýnt hræðslu né veitt mótspyrnu en mundi ekki hvort hann hefði gengið úr skugga um vilja stúlkunnar. Eftir dvöl inni á baðherberginu kvaðst ákærði hafa séð að brotaþola hefði ekki litist á umhverfið og því hefði hann beðið vin sinn um að aka henni heim, sem brotaþoli hefði þegið.
Hér að framan hefur orðréttur framburður brotaþola fyrir dómi verið rakinn ítarlega. Þar kom fram að hún hefði staðið í þeirri trú að hún væri eingöngu að fara til að hitta ákærða, stóra frænda vinkonu hennar, sem hún hefði treyst. Þá hefði hún talið að kynferðislegt tal, sem ákærði hefði viðhaft í samskiptum við hana fyrir umræddan dag, hefði verið grín. Henni hefði brugðið mikið og verið við það að bresta í grát þegar ákærði hefði beðið hana um að totta sig á leiðinni í [...]. Aðstæðum á heimili F í [...] lýsti vitnið þannig að hún hefði heyrt að F væri stórhættulegur glæpamaður og í eiturlyfjum. Kvaðst hún hafa látið lítið fyrir sér fara þegar inn kom, verið svolítið hrædd og fundist F, sem var ber að ofan og með [...], vera svolítið hræðilegur og ekki svarað F þegar hann hefði ítrekað sagt henni að setjast. Í framhaldinu hefði ákærði beðið hana að koma inn á bað sem hún hefði gert. Inni á baðherberginu hefði ákærði, sem sagðist ætla að að gera hana að reyndustu stelpu í totti, í tvígang sagt henni að fara niður á hnén til að totta hann. Eftir þetta hefði hann sagt henni að standa upp. Það hefði hún ekki gert og kvaðst brotaþoli hafa orðið „ógeðslega hrædd“ eins og hún orðaði það. Þá hefði ákærði lyft henni upp og síðan sagt henni að beygja sig yfir baðkarið. Þegar ákærði hefði ætlað að gyrða niður um hana hefði hún snúið sér við og sagt nei, nei, nei og ákærði þá sest niður og sagt að þá yrði hún að totta hann klukkutíma lengur, sem hann hefði látið hana gera. Þá hefði ákærði sagt að þetta mætti ekki fréttast, það mætti ekki kæra hann því hann væri ekki barnanauðgari.
Þegar út af baðberberginu kom kvað brotaþoli þá sem í íbúðinni voru hafa horft á hana og ákærða. F og ákærði hefðu verið að fíflast með eitthvert hvítt duft, hávær tónlist hefði verið í gangi og F verið að kasta hnífum og kvaðst brotaþoli hafa verið mjög hrædd. Þá hefði ákærði beðið hana um að vera ekki hrædda og síðan beðið strák sem þar var að aka henni heim. Brotaþoli kvaðst eingöngu hafa sagt H vinkonu sinni frá umræddum munnmökum, annað hefði ekki átt sér stað.
Vitnin og vinir ákærða, M, I og F, sem eru á aldrinum 21-28 ára, voru stödd í íbúðinni að [...] umræddan dag. Þau voru sérstaklega spurð hvernig brotaþoli hefði komið þeim fyrir sjónir meðan hún dvaldi í íbúðinni. Vitninu M fannst „smá skrýtið“ að sjá stelpu með skólatösku á heimili F. Sagði hann brotaþola hafa verið mjög feimna og hlédræga. Þau hefðu reynt að ræða við hana og spurt hana hvort allt væri í góðu því hún hefði virkað eitthvað hrædd, eins og vitnið orðaði það. Síðar í yfirheyrslunni dró vitnið þó heldur í land með þetta atriði. Vitnið kvað brotaþola ekki hafa borið þess merki að hafa grátið þegar hún kom út af baðherberginu, en hún hefði verið með „störu“. Vitnið, sem ók brotaþola heim til H vinkonu hennar, kvaðst hafa reynt að halda upp samræðum við hana, en hún hefði enn verið feimin og ekki haft áhuga á að ræða við vitnið. Vitnið I kvaðst hafa skilgreint hegðun brotaþola, sem hefði verið hlédræg, sem feimni. Þar sem henni hefði þótt brotaþoli eitthvað skrýtin hefði hún spurt hana hvort allt væri í lagi. Tók vitnið fram að vegna þess að F hefði verið út úr ruglaður og kastandi hnífum upp í loftið hefði hún haldið að brotaþoli væri hrædd við F og tók fram að brotaþoli hefði ekki átt heima í þessum félagsskap. Vitnið F kvaðst hafa spurt brotaþola hvort allt væri í lagi með hana þegar hún kom út af baðherberginu, vegna þess að hún hefði verið hálf vandræðaleg, staðið og verið eitthvað skrýtin. Eftir á hefði hann áttað sig á því að aðstæður á heimilinu, fólkið sem þar var, tónlistin og neyslan hefðu ef til ekki verið brotaþola bjóðandi.
Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um atvik inni á baðherberginu en ákærði hefur viðurkennt að munnmök hafi átt sér stað en neitar því alfarið að þau hafi farið fram með þvingun og gegn vilja brotaþola. Framburður ákærða um það að hann hafi leiðbeint brotaþola hvernig standa skyldi að munnmökunum og síðan hefði eitt leitt af öðru, er að mati dómsins ótrúverðugur eins og aðstæður allar voru í máli þessu. Brotaþoli gaf hins vegar að mati dómsins trúverðuga lýsingu á atvikum sem varða sakarefnið beint og hafnar dómurinn því að ónákvæmni milli frumskýrslu rannsakanda frá 27. nóvember 2012 og skýrslu brotaþola fyrir dómi skipti máli. Framburður brotaþola um læsingarbúnað baðherbergisins, hvort einhver hefði haft upplýsingar um aðgangsorð hennar á fésbókinni og hvort hún hefði haft samband við ákærða eftir atburðinn, skipta engu að mati dómsins þegar lagt er mat á trúverðugleika framburðar hennar um það sem máli skiptir og snertir sjálft sakarmatið. Að mati dómsins rýrir það ekki trúverðugleika brotaþola þó svo vitnið H hafi lýst því að auk munnmaka hefði ákærði haft endaþarmsmök við brotaþola. Framburður brotaþola um það sem gerðist inni á baðherberginu var skýr og afdráttarlaus. Þegar brotaþoli var inntur eftir því hvort um hefði verið að ræða endaþarmsmök neitaði hún því en vísaði til þess að ákærði hefði, milli þess að hann lét hana hafa við sig munnmök, sagt henni að beygja sig yfir baðkarið og ætlað að gyrða niður um hana. Fær framburður brotaþola að þessu leyti stoð í framburði vitnisins I sem staðfesti fyrir dómi að ákærði hefði sagt við vitnið, eftir að brotaþoli yfirgaf íbúðina, að hann hefði ekki haft sig í að ríða brotaþola af því hún væri svo ung.
Á umræddum tíma var ákærði, sem var 18 ára eða tæpum fjórum árum eldri en brotaþoli, undir áhrifum áfengis, lyfja og fíkniefna. Ákærði átti frumkvæðið að samskiptum við brotaþola umræddan dag og fór ákærði ekki dult með að tilgangurinn hafi verið að hafa samfarir við brotaþola sem hann hafði lítið umgengist fram til þessa dags. Hins vegar treysti brotaþoli ákærða, stóra frænda bestu vinkonu hennar, og taldi að kynferðislegt tal hans fyrir þennan atburð hefði verið grín. Þykir sá framburðar ákærða, að brotaþoli hefði beðið hann um að fara heim til brotaþola í umrætt sinn, styðja framburð brotaþola um að tilgangur hennar hafi aðeins verið að hitta ákærða. Fyrir liggur að ákærði fór með brotaþola í íbúð vinar síns þar sem saman var komið mun eldra fólk en brotaþoli. Fram hefur komið að í íbúðinni var hávær tónlist, fíkniefni á borðum, og í það minnsta tveir, þ.e. ákærði og vinur hans F, undir áhrifum fíkniefna. Þá lýsti brotaþoli því sérstaklega að sér hafi staðið ógn af F og háttalagi hans, eins og rakið hefur verið hér að framan, og vitnið I staðfesti. Voru atvik því með þeim hætti að fyrir tilstilli ákærða var brotaþoli, 13 ára grunnskólanemi, kominn inn í heim sem var henni með öllu ókunnugur og var til þess fallinn að valda henni ótta og bjargarleysi. Vegna þeirra aðstæðna sem voru í íbúðinni gat ákærði, að mati dómsins, ekki litið svo á að með því að brotaþoli fylgdi honum inn á baðherbergið hefði brotaþoli samþykkt að eiga við hann kynferðisleg samskipti.
Brotaþoli greindi frá því að sér hefði brugðið og hún orðið hrædd í bifreiðinni á leiðinni í [...] þegar ákærði bað hana um að totta sig. Einnig lýsti brotaþoli því í sjálfstæðri frásögn að hafa orðið mjög hrædd inni á baðberberginu en sýnt litlar tilfinningar. Að mati dómsins fær framburður brotaþola að þessu leyti stoð í framburði vitnanna M, I og F, sem öll töldu ástæðu til að spyrja brotaþola um líðan hennar. Þá þykir frásögn vitnisins M, sem lýsti því að brotaþoli hefði verið með störu þegar hún kom út úr baðherberginu, samræmast lýsingum brotaþola á eigin ástandi. Sama gildir um framburð vitnisins H, sem brotaþoli fór til strax eftir atburðinn, en vitnið upplýsti að brotaþola hefði liðið illa áður en hún fór með ákærða í bifreiðinni en ekki þorað að hætta við. Þá lýsti vitnið ástandi brotaþola þegar hún kom heim til vitnisins þannig að brotaþoli hefði skolfið og viljað fara að sofa og kvaðst vitnið aldrei hafa séð brotaþola í slíku ástandi. Framburður H, foreldra brotaþola og J styður þá frásögn brotaþola að hún hafi orðið mjög hrædd bæði við ákærða og aðstæður í íbúðinni.
Það hvort aðstæður í máli þessu hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir verður að byggjast á heildarmati á öllum aðstæðum, þ.e. ferðinni frá [...] í [...], aðstæðum í íbúðinni að [...] og lýsingum ákærða og brotaþola á því sem fram fór inni á læstu baðherberginu. Að mati dómsins voru aðstæður þær sem ákærði kom brotaþola í umræddan dag þess eðlis að valda þrettán ára barni ótta og bjargarleysi. Vegna þessa og yfirburðastöðu ákærða vegna aldurs- og þroskamunar sem og trúverðugrar lýsingar brotaþola á því hvernig ákærði lét hana hafa við sig munnmök, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að aðstæður í máli þessu falli undir annars konar ólögmæta nauðung í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007. Að mati dómsins er því fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi beitt brotaþola ólögmætri nauðung þegar hann, gegn vilja brotaþola, lét brotaþola hafa við sig munnmök sem samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið skilgreint sem önnur kynferðisleg mök í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða í fyrsta og öðrum lið ákæru er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákvörðun refsingar
Ákærði á, þrátt fyrir ungan aldur, að baki nokkurn sakarferil. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tvívegis gengist undir sektargreiðslu vegna ölvunaraksturs og aksturs án réttinda, með sáttum lögreglustjóra þann 1. og 13. október 2010. Ákærði var dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot með dómi í desember 2011 og einnig gekkst ákærði undir sektargreiðslu hjá lögreglustjóra fyrir samskonar brot í september 2012. Með dómi Héraðsdóms [...] þann [...] 2010 var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákærði var 15 ára þegar hann framdi það brot. Með dómi Héraðsdóms [...] þann [...] 2011 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir frelsissviptingu, sem ákærði framdi þegar hann var 16 ára. Með því broti rauf ákærði skilorð dómsins frá [...] 2010 og var ákærða gerð refsing í einu lagi. Loks var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms [...] þann [...] 2011 fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, frelsisskerðingu og brennu. Var refsing ákærða ákveðin sem hegningarauki við dóminn frá [...] 2011.
Brot ákærða samkvæmt fyrri tölulið ákæru er hegningarauki við dómana frá [...] 2011 og [...] 2012. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði játaði skýlaust brot sitt samkvæmt fyrri lið ákæru, sem og ungs aldurs ákærða sem var tæplega 16 ára þegar hann framdi það brot. Þá þykir rétt að virða það ákærða til refsilækkunar að aldursmunur hans og brotaþola var um tvö ár. Vísast í því sambandi til 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þess sem fram kemur í í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 61/2007, um áhrif þess ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Segir í athugasemdum við frumvarpið að þeir séu á svipuðum aldri þegar á milli þeirra eru 2-3 ár hið mesta. Þá er einnig til þess að líta að langt er um liðið síðan brotið var framið. Rúmt ár leið frá broti þar til brotaþoli lagði fram kæru og þá leið aftur rúmt ár þar til ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins.
Við ákvörðun refsingar er einnig til þess að líta, að brot ákærða samkvæmt síðari lið ákæru, var gróft og beindist að barni við aðstæður sem voru mjög ógnvekjandi fyrir 13 ára barn. Með því braut ákærði gróflega gegn friðhelgi og kynfrelsi stúlku sem enn var á barnsaldri. Af gögnum málsins og framburði J liggur fyrir að brot ákærða hafði verulegar og alvarlegar afleiðingar fyrir andlega líðan stúlkunnar sem hefur í kjölfarið þurft á sjúkrahúsvist að halda. Verður því við refsimatið litið til 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, sem og til a. liðar 195. gr. sömu laga vegna þess að brotið beindist að barni yngra en 18 ára. Ákærði á sér engar málsbætur vegna þess brots sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í síðari lið ákæru. Með vísan til alls þessa og 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Einkaréttarkröfur
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþolans A, að fjárhæð 1.500.000 krónur, ásamt kröfu um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júní 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga til greiðsludags. Þá krefst réttargæslumaður brotaþola hæfilegrar þóknunar sér til handa úr ríkissjóði, sbr. 48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008. Í kröfunni segir að brotaþoli hafi verið mjög ung þegar atvik urðu og hafi ákærði valdið henni miklum miska. Brotaþoli, sem hafi átt mjög erfitt fyrir, hafi aðeins verið 13 ára gömul og enga reynslu haft af kynlífi. Þá hafi brotið valdið brotaþola mikilli vanlíðan. Með vísan til þessa sé á því byggt að ákærði hafi með háttsemi sinni valdið brotaþola miklum miska sem hann beri ábyrgð á samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í vottorði E, sálfræðings í Barnahúsi, frá 31. júlí 2013, kemur fram að að brotaþoli hafi glímt við margvísleg vandamál og erfiðleika í nokkurn tíma m.a. vegna hegðunarerfiðleika og neyslu vímuefna. Þá hafi hún lengi glímt við vanlíðan og kvíða. Viðtöl hafi leitt í ljós að mál þetta hafi valdið brotaþola mikilli vanlíðan og varpað skugga á flestar hliðar tilveru hennar, ekki síst vegna þeirra leiða sem hún hafi farið til að forðast að takast á við erfiðar tilfinningar og hugsanir tengdar broti ákærða. Í kjölfarið hafi hún aftur farið í neyslu og bæði neytt sterkari efna og meira magns. Segir að í ljósi sögu brotaþola sé ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvernig mál þetta hafi haft áhrif á sjálfsmynd hennar. Þá hafi rannsóknir sýnt að það séu marktækt meiri líkur á að þolendur kynferðisbrota leiðist út í neyslu fíkniefna en þeir sem ekki hafi orðið fyrir slíkum brotum. Fram kemur að brotaþoli glími enn við vanlíðan en því fylgi nú meira þunglyndi og vonleysi. Þá eigi brotaþoli langt í land með að vinna úr reynslu sinni og sé meðferð ekki lokið.
Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur ólögmæt meingerð ákærða gegn persónu brotaþola haft umtalsverð áhrif á hana að mati dómsins. Að því sögðu og þar sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot á brotaþoli rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þykja bætur A hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Vextir af kröfunni skulu reiknast samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. júní 2010 til greiðsludags. Þar sem upphafsdagur dráttarvaxta er ekki tilgreindur í dómkröfunni, er óhjákvæmilegt að vísa kröfu um dráttarvexti frá dómi, sbr. c. lið 2. mgr. 173. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í málinu liggur einnig fyrir skaðabótakrafa brotaþolans B, að fjárhæð 1.500.000 krónur, ásamt kröfu um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2012 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst réttargæslumaður brotaþola hæfilegrar þóknunar sér til handa úr ríkissjóði. Í kröfunni segir að háttsemi ákærða hafi haft verulega neikvæð áhrif á brotaþola sem hafi fyrst eftir atburðinn þurft á læknismeðferð að halda vegna þunglyndis og kvíða sem tengdist háttsemi ákærða gagnvart henni. Hafi vonleysi og sjálfsvígshugsanir leitað sterkt á brotaþola og haft með beinum hætti áhrif á námsframvindu hennar, en brotaþoli hafi þurft að skipta um skóla. Háttsemi ákærða hafi verið alvarlegt brot gegn persónu- og kynfrelsi brotaþola, sérstaklega sé hún alvarleg með tilliti til þess að ákærði hafi notfært sér ungan aldur brotaþola sem hún hafi treyst vegna frændsemi hans við vinkonu brotaþola. Sé brot ákærða sérstaklega ófyrirleitið þar sem ákærði hafi, þrátt fyrir vitneskju um aldur brotaþola haft ásetning til að misnota hana kynferðislega. Í ljósi aðstæðna brotaþola séu líkur fyrir að tjón það sem brotaþoli hafi orðið fyrir sé ekki að fullu komið fram. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í vottorði J, uppeldis- og afbrotafræðings og forstöðumanns Barnahúss, frá 26. júní 2013, kemur fram að brotaþoli hafi verið mjög hrædd og óttaslegin frá því brotið átti sér stað og hafi líf hennar og fjölskyldu hennar breyst mikið. Brotaþoli hafi þurft að skipta um skóla og sæki nú skóla fjarri heimili sínu og hafi brot ákærða leitt til vinslita hennar og bestu vinkonu hennar sem sé tengd ákærða fjölskylduböndum. Brotaþoli forðist ákveðna staði tengda brotavettvangi og nágrenni hans. Þá hefði brotaþoli einangrað sig og umgangist ekki jafnaldra utan skólatíma. Brotaþoli hefði farið í gegnum martraðir og átt við erfiðleika tengda svefni. Hún hafi truflandi minningar um atvikið bæði í hugsunum og skynjunum auk líkamlegra streitueinkenna, aukinnar árvekni og pirrings/reiði og hafi þessi einkenni varað lengur en sjö mánuði. Öll þessi einkenni séu þekkt meðal þolenda kynferðisofbeldis en auk þess upplifi brotaþoli ógnina við þann heim sem hún telur sjálf að ákærði lifi í.
Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur ólögmæt og alvarleg meingerð ákærða gegn persónu brotaþola haft mjög mikil áhrif á hana að mati dómsins. Að því sögðu og þar sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot á brotaþoli rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þykja bætur B hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Vextir af kröfunni skulu reiknast samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2012 til 20. júlí 2013, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 20. júlí 2013, en þann dag var liðinn mánuður frá birtingu bótakröfunnar, til greiðsludags.
Sakarkostnaður
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar héraðsdómslögmanns, vegna vinnu hans við rannsókn málsins og fyrir dómi sem ákvarðast 614.950 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 38.976 krónur í ferðakostnað. Ákærða ber einnig að greiða útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda, 135.920 krónur. Þóknun réttargæslumanns brotaþolans A, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, að teknu tilliti til vinnu á rannsóknarstigi, sem ákærða ber einnig að greiða, þykir hæfilega ákveðin 326.300 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaði, 32.540 krónur. Þóknun réttargæslumanns brotaþolans B, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns á rannsóknarstigi þykir hæfilega ákveðin 97.262 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun Ingu Lillýjar Baldursdóttur héraðsdómslögmanns við meðferð málsins fyrir dómi þykir hæfilega ákveðin 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Um þóknun réttargæslumanna vísast til 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari málið.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari, sem dómsformaður, og héraðsdómararnir Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, og Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kváðu upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákærði greiði C vegna A 800.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júní 2010 til greiðsludags.
Ákærði greiði D vegna B 1.500.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2012 til 20. júlí 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 20. júlí 2013 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 614.950 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, 38.976 í ferðakostnað og útlagaðan sakarkostnað, 135.920 krónur.
Ákærði greiði þóknun réttargæslumanna brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti, sem hér segir: Þóknun Arnbjargar Sigurðardóttur hdl., 326.300 krónur og ferðakostnað 32.540 krónur, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 97.262 krónur og Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 251.000 krónur.