Hæstiréttur íslands
Mál nr. 321/2004
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Skip
|
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2005. |
|
Nr. 321/2004. |
Lárus Hinriksson(Ólafur Sigurgeirsson hrl.) gegn Verði vátryggingafélagi hf. (Gústaf Þór Tryggvason hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Skip.
L krafði V um bætur samkvæmt vátryggingasamningi aðila þegar bátur í hans eigu sökk. Tekið var fram að engar ótvíræðar skýringar lægju fyrir í málinu um orsakir þess að báturinn sökk. Væri sú skýring lögð til grundvallar að svokölluð lensidæla hefði ekki starfað með eðlilegum hætti væri ljóst að tjóninu hefði mátt afstýra með viðhlítandi reglubundnu eftirliti með bátnum og þessum búnaði. Talið var að eins og málið lægi fyrir yrði L að bera hallann af skorti á sönnun um orsakir þess að báturinn sökk og óvissu hvort vanræksla hans við eftirlit með bátnum hefði þýðingu í því sambandi. Var V því sýknað af kröfum L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. nóvember 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lárus Hinriksson, greiði stefnda, Verði vátryggingafélagi hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2004.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 22. nóvember 2003 og dómtekið 20. apríl sl. Stefnandi er Lárus Hinriksson, Gránufélagsgötu 31, Akureyri. Stefndi er Vörður Vátryggingafélag hf., Skipagötu 9, Akureyri.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. nóvember 2002 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
I.
Málsatvik
Sumarið 2002 keypti stefnandi mb. Ólaf GK-33 sem er 36 tonna timburbátur smíðaður árið 1945, en bátnum hafði verið lagt og hann afskráður. Tilgangur stefnanda með kaupunum var að gera bátinn upp, hafa hann við bryggju og nota hann undir listagallerí og menningartengda ferðaþjónustu.
Samkvæmt skýrslu stefnanda fyrir dómi svo og skýrslum vitnanna Úlfars Eysteinssonar, Jóns Hafþórs Þórissonar og Elíasar Hákonarsonar voru nánari tildrög kaupanna þau að nefndur Elías hafði milligöngu um að finna hentugan bát fyrir stefnanda, en nefndur Elías rekur Borgarbílasöluna ehf. Eftir skoðun Elíasar á bátnum, sem lá í Fossvogi, keypti hann bátinn af Úlfari fyrir 500.000 krónur, en engin skrifleg gögn liggja fyrir í málinu um þau viðskipti. Með kaupsamningi 11. júní 2002 seldi Borgarbílasalan ehf., fyrirtæki Elíasar, stefnanda bátinn fyrir 2.000.000 krónur sem greiddar voru með inneign stefnanda á viðskiptaneti Interact Barter Exchange.
Í málinu liggur fyrir afsal dagsett 12. maí 2002, þar sem nefndur Úlfar afsalar stefnanda bátnum fyrir 1.000 krónur. Fyrir dómi skýrðu nefndir Elías og Úlfar þetta skjal svo að samkomulag hefði verið um að Úlfar afsalaði stefnanda bátnum. Hefði fjárhæð verið höfð til málamynda til þess að minnka kostnað við skráningu og þinglýsingu bátsins, ef til hennar kæmi síðar. Í aðilaskýrslu sinni kvað stefnandi umrætt skjal hafa verið til málamynda en gat engar skýringar gefið á því hver raunverulegur tilgangur þess átti að vera.
Þann 29. ágúst 2002 vátryggði stefnandi bátinn hjá stefnda. Samkvæmt vátryggingarskírteini var vátryggingarfjárhæð 2.500.000 krónur og skyldi tryggingin gilda til 31. desember sama árs. Í skírteininu er vísað til almennra vátryggingarskilmála fyrir lögmælta húftryggingu fiskiskipa sem nánar ræðir síðar. Í athugasemd við vátryggingarskírteinið í tölvukerfi stefnda segir orðrétt eftirfarandi: „Tryggt skv beiðni Lárusar. er að gera bátinn upp og er alltaf höfn eó“. Samkvæmt skýrslu stefnanda fyrir dómi skýrði hann starfsmanni stefnda, Eggerti Óskarssyni, frá því að báturinn lægi við festar á hafnarsvæði Kópavogshafnar auk þess að greina almennt frá ástandi bátsins. Samkvæmt skýrslu nefnds Eggerts upplýsti stefnandi um að báturinn væri gamall og ekki væri ætlunin að nota hann til róðra. Að hans sögn lá fyrir að ekkert mat væri til um verðmæti bátsins og hafi því vátryggingarfjárhæð verið samkomulagsatriði. Eggert gat ekki fullyrt um hvort hann hafi vitað um þá fyrirætlun stefnanda að flytja bátinn sjóleiðina til Akureyrar. Að sögn Eggerts skildi hann stefnanda þannig að báturinn væri bundinn við bryggju enda þótt hann gæti ekki fullyrt að stefnandi hefði tekið svo til orða.
Stefnandi hugðist láta draga bátinn til hafnar á Akureyri, eins og áður greinir, og hafði rætt við menn í því skyni. Áður en til þess kæmi að báturinn yrði dregin til Akureyrar sökk hann 7. október 2002, þar sem hann lá við festar í Fossvogi innan hafnarsvæðis Kópavogshafnar. Samkvæmt lögregluskýrslu um tjónsatburðinn hafði hafnarvörður ekki tekið eftir neinu óeðlilegu varðandi bátinn. Björgunarsveitarmenn sem fóru að bátnum tilkynntu um að hurð inni í stýrishúsi væri opin, tvær rúður í stýrishúsi brotnar, mannop á lestarlúgu opið sem og hurð niður í lúkar. Á þaki bátsins var sólarrafhlaða og að sögn björgunarsveitarmanna lá hún á hvolfi og var til lítils gagns. Þá virtist björgunarsveitarmönnum sem klippt hefði verið á rafmagnsþræði í plúspól rafgeymis. Í skýrslunni segir að lokum að talið hafi verið líklegt að lensidæla hafi hætt að virka og sjór því safnast fyrir í bátnum og hann að lokum sokkið. Þó hafi ekki komið fram í framburði manna fyrir lögreglu að báturinn hafi verið siginn áður en hann sökk. Samkvæmt vottorði Könnunar ehf. 13. desember 2002 var veður gott þegar báturinn sökk og sé ekki hægt að kenna því um. Einna líklegast sé að lensibúnaður hafi hætt að virka, sjór hafi safnast fyrir í bátnum og hann byrjað að síga. Ekki sé ósennilegt að báturinn hafi verið orðinn gisinn fyrir ofan sjólínu og hafi sjór tekið að streyma inn í hann þegar hann byrjaði að síga.
Samkvæmt því sem fram kom í skýrslu stefnanda fyrir dómi hafði Gunnar Guðmundsson eftirlit með bátnum fyrir stefnanda. Gunnar hafði hins vegar ekki yfir báti að ráða og takmarkaðist eftirlit hans við sjóneftirlit. Samkvæmt skýrslu nefnds Gunnars fyrir dómi bað hann Þorstein Garðarsson um að líta til með bátnum, en Þorsteinn réð yfir báti í Kópavogshöfn. Samkvæmt skýrslu nefnds Þorsteins fyrir dómi fór hann einu sinni um borð í bátinn og sýndist honum þá allt vera með felldu, meðal annars að ekki væri sérstaklega mikið kjölvatn í bátnum. Nefndur Þorsteinn tók þó fram að hann hefði ekki nauðsynlega kunnáttu til þess að meta hvort lensibúnaður starfaði með eðlilegum hætti. Sömu upplýsingar um ástand bátsins komu einnig fram í skýrslu Arnars Jenssonar sem fór um borð í bátinn þremur eða fjórum vikum áður en hann sökk.
Stefnandi krafði stefnda um vátryggingabætur í kjölfar þess að mb. Ólafur GK-33 sökk. Stefndi hafnaði því að bera ábyrgð á tjóni stefnanda með bréfi 9. október 2002. Stefndi kærði stefnanda til lögreglu fyrir ætluð fjársvik 17. desember 2002. Með bréfi sýslumannsins á Akureyri 1. júlí 2003 var stefnda tilkynnt að ákveðið hefði verið að aðhafast ekki í málinu, þar sem rannsóknargögn væru ekki nægileg eða líkleg til að ná fram sakfellingu.
Stefndi vísaði málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum 18. ágúst 2003. Samkvæmt áliti nefndarinnar 9. september 2003 var tjónið ekki bótaskylt samkvæmt 6. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, þar sem ekki voru gefnar réttar upplýsingar við tryggingu bátsins.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og Óli Þór Ástvaldsson, framkvæmdastjóri stefnda, aðilaskýrslur. Þá gáfu skýrslu sem vitni Úlfar Eysteinsson, Jón Hafþór Þórisson, Eggert Þór Óskarsson, Gunnar Guðmundsson, Arnar Jensson og Þorsteinn Garðarsson. Ekki er ástæða til að gera grein fyrir efni þessara skýrslna frekar en þegar hefur verið gert hér að framan.
II.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi gert gildan vátryggingarsamning við stefnda. Hann hafi gefið upp réttar upplýsingar við samningsgerðina um staðsetningu og ástand bátsins, meðal annars þær að skipið var ekki haffært. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að báturinn hafi verið innan hafnarsvæðis Kópavogshafnar og þannig „í höfn“ samkvæmt almennri málvenju, en það feli ekki nauðsynlega í sér að báturinn sé bundinn við bryggju. Stefnandi hafi talið verðmæti bátsins 2.500.000 krónur og hafi stefndi sætt sig við það mat, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954. Stefnandi mótmælir því að hann hafi ekki gætt eftirlitsskyldu sinnar gagnvart bátnum, sbr. 51. gr. laga nr. 20/1954.
Skilja verður greinargerð stefnda þannig að hann reisi varnir sínar annars vegar á því að stefnandi hafi gefið rangar upplýsingar við gerð vátryggingarsamningsins, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1954, en hins vegar hafi hann brugðist varúðarskyldu sinni samkvæmt 51. gr. sömu laga. Hvað varðar fyrra atriðið vísar stefndi til þess að stefnandi hafi gefið þær upplýsingar að hann væri að gera bátinn upp og hann væri alltaf í höfn. Hið rétta hafi hins vegar verið að hann lá við ból í Fossvogi. Auk þess hafi stefnandi vanrækt að upplýsa um að báturinn væri vélarlaus og hefði verið afskráður af Siglingastofnun átta árum áður. Stefndi gefur í skyn að stefnandi hafi útbúið kaupsamning dagsettan 11. júní 2002 eftir tjónsatburðinn, en raunverulegt kaupverð hafi verið 1.000 krónur, sbr. afsal Úlfars Eysteinssonar 12. maí sama árs. Hvað varðar varúðarskyldu stefnanda vísar stefndi til þess sem fram er komið í málinu um eftirlit með bátnum sem hann telur hafa verið ófullnægjandi.
III.
Niðurstaða
Samkvæmt yfirliti yfir reikning stefnanda frá fyrirtækinu Interact Barter Exchange dagsett 30. júní 2002 flutti stefnandi inneign að fjárhæð 2.000.000 krónur til Borgarbílasölunnar ehf. 11. sama mánaðar. Er þetta í samræmi við framburð stefnanda sjálfs og vitna fyrir dómi um að Elías Hákonarson, eigandi Borgarbílasölunnar ehf., hafi keypt mb. Ólaf GK-33 og síðan selt stefnanda hann fyrir 2.000.000 króna með kaupsamningi 11. júní 2002. Samkvæmt þessu telst sannað að stefnandi hafi keypt umræddan bát á 2.000.000 króna í júní 2002 og talið verðmæti hans svara til að minnsta kosti þeirrar fjárhæðar þegar hann óskaði eftir því við stefnda að hann vátryggði bátinn í ágúst 2002.
Þegar stefnandi óskaði eftir kaupum á vátryggingu fyrir mb. Ólaf GK-33 í ágúst 2002 var ekki fyrir hendi mat eða skoðun á bátnum með tilliti til vátryggingarverðs hans, sbr. 3. gr. vátryggingarskilmála stefnda fyrir dekkaða báta undir 100,49 brl. Eins og áður segir er vátryggingarfjárhæð bátsins tilgreind 2.500.000 krónur í vátryggingarskírteini og liggur ekki fyrir að af hálfu stefnda hafi verið gerður sérstakur fyrirvari um að þetta verð tæki mið af mati eða skoðun virðingarmanna. Með hliðsjón af kaupverði bátsins er það álit dómara að það vátryggingarverð sem aðilum samdist um með framangreindum hætti hafi ekki verið hærra en svo að eðlilegt hafi verið að telja það vátryggingaverð bátsins. Er umrædd verðákvörðun því skuldbindandi fyrir stefnda samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga nr. 20/1954.
Í málinu liggur fyrir að þegar stefnandi óskaði eftir því að stefndi vátryggði mb. Ólaf GK-33 gaf hann meðal annars þær upplýsingar að hann væri að gera bátinn upp og yrði báturinn alltaf í höfn. Jafnframt liggur fyrir að á þessum tíma lá mb. Ólafur GK-33 við stjóra á hafnarsvæði Kópavogshafnar í Fossvogi.
Í mæltu máli þýðir orðið „höfn“ tiltekið svæði á sjó, og raunar einnig landi, þar sem skip og bátar leggjast, eftir atvikum til lestunar og losunar, sbr. til hliðsjónar orðskýringu í 3. gr. hafnarlaga nr. 61/2003. Ekki verður fallist á þann skilning stefnda að með orðalaginu „í höfn“ felist nauðsynlega að bátur sé bundinn við bryggju eða viðlegukant. Er því ekki fram komið í málinu að stefnandi hafi gefið rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum um staðsetningu og umbúnað bátsins fyrir starfsmanni stefnda, sbr. 4. gr., 5. gr. eða 6. gr. laga nr. 20/1954. Þá verður það ekki metið stefnanda til stórkostlegs gáleysis að hafa ekki að eigin frumkvæði skýrt frá nákvæmri staðsetningu bátsins á hafnarsvæði Kópavogshafnar, sbr. 7. gr. laganna. Er það því álit dómara að stefnandi hafi ekki gefið stefnda rangar upplýsingar við gerð vátryggingarsamningsins 29. ágúst 2002. Með þessari niðurstöðu er þó engin afstaða tekin til þess hvort allt að einu beri að túlka vátryggingarsamning aðila á þá leið að hann hafi verið bundinn því skilyrði að umræddur bátur yrði bundinn við bryggju.
Við túlkun á umræddum samningi og þeirri óumdeildu forsendu samningsins að umræddur bátur yrði „í höfn“ verður að líta til þess að stefndi selur tryggingar í atvinnuskyni og hefur sérþekkingu á gerð vátryggingarsamninga. Að mati dómara stóð það stefnda nær að taka af tvímæli um að það væri forsenda hans fyrir samningnum að mb. Ólafur GK-33 væri ekki aðeins í höfn, heldur einnig bundinn við bryggju. Verður stefndi að bera hallann af skorti af sönnun um þetta atriði. Telur dómari ekki að stefnandi hafi brotið gegn efni samningsins með því að leggja bátnum við stjóra á umræddum stað í stað þess að binda hann við bryggju. Kemur því að lokum til athugunar hvort stefnandi hafi brotið gegn varúðarreglum vátryggingarsamnings aðila og þá hverju slíkt brot varði.
Samkvæmt 13. gr. vátryggingarsamnings aðila skal ganga tryggilega frá festum skips sem er í höfn eða lægi, en jafnframt ber vátryggðum að hafa reglubundið eftirlit með skipi. Í málinu liggur fyrir að sá maður sem stefnandi fékk til þess að hafa eftirlit með mb. Ólafi GK-33 hafði ekki möguleika á því að fara út í bátinn, þar sem hann hafði ekki yfir léttabáti eða öðrum sambærilegum farkosti að ráða. Frá því að stefnandi keypti bátinn þar til hann sökk virðist aðeins einu sinni hafa verið farið út í bátinn til eftirlits. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að reglubundnu eftirliti með bátnum hafi verið ábótavant af hálfu stefnanda. Leiðir þetta til þess að stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að vanræksla hans hafi engin áhrif haft á það að báturinn sökk, sbr. 13. gr. vátryggingarsamnings aðila, eins og greinin verður skýrð með hliðsjón af 51. gr. laga nr. 20/1954.
Að mati dómara liggja engar ótvíræðar skýringar fyrir í málinu um orsakir þess að mb. Ólafur GK-33 sökk 7. október 2002. Ein sú skýring sem til greina kemur er að lensidæla hafi ekki starfað með eðlilegum hætti með þeim afleiðingum að báturinn seig og þar með hafi sjór komist inn á milli borða sem venjulega voru fyrir ofan sjólínu og voru þar af leiðandi gisin. Sé þessi skýring lögð til grundvallar er ljóst að tjóninu hefði mátt afstýra með viðhlítandi reglubundnu eftirliti með bátnum og lensibúnaði hans. Eins og málið liggur fyrir verður stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun um orsakir þess að báturinn sökk og óvissu um hvort vanræksla hans við eftirlit með bátnum hafði þýðingu í því sambandi. Verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.
Við ákvörðun málskostnaðar telur dómari rétt að líta til þess að málsástæður stefnda um sviksamlega og ranga upplýsingagjöf stefnanda hafa reynst haldlausar. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Sigurgeirsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Gústaf Þór Tryggvason hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Vörður vátryggingafélag hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Lárusar Hinrikssonar.
Málskostnaður fellur niður.