Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Lausafé
- Kaupleiga
- Lánssamningur
|
|
Fimmtudaginn 10. júlí 2014. |
|
Nr. 438/2014. |
Fjarðargrjót ehf. (Einar Þór Sverrisson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Lausafé. Kaupleiga. Lánssamningur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem L hf. var heimilað að fá nánar tilgreind tæki tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum F ehf. og fengin sér, en F ehf. hafði ekki staðið í skilum með greiðslur samkvæmt kaupleigusamningi aðilanna um fyrrgreind tæki.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2014, þar sem varnaraðila var heimilað að fá nánar tilgreind tæki tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengin sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er óumdeilt með aðilum að þeir kaupleigusamningar sem málið tekur til hafi verið lánssamningar með ólögmætum ákvæðum um að fjárhæð skuldar tæki breytingum í samræmi við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Á hinn bóginn deila þeir um hvernig fara eigi með vexti fyrir liðna tíð við endurútreikning á greiðslum samkvæmt samningunum, sbr. dóm Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og dómaframkvæmd í kjölfar hans. Sóknaraðili hefur átt þess kost að gera varnaraðila grein fyrir afstöðu sinni um hvaða greiðslur hann teldi sig eiga að inna af hendi á grundvelli samninganna og bjóða þær fram. Þetta hefur hann ekki gert og hefur hann ekki staðið skil á greiðslum frá því í maí 2011. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Fjarðargrjót ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, fimmtudaginn 12. júní 2014.
I.
Aðfararbeiðni sóknaraðila barst Héraðsdómi Reykjaness 17. maí 2013. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 30. maí 2014.
Sóknaraðili er Lýsing hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík.
Varnaraðili er Fjarðargrjót ehf., kt. [...], Furuhlíð 4, Hafnarfirði.
Sóknaraðili krefst þess að eftirtaldir leigumunir verði teknir með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengnir sóknaraðila:
-CAT M316C hjólagrafa, skráningarnúmer EA-0415, árgerð 2006.
-Toyota Land Cruiser 120, skráningarnúmer LY-877, árgerð 2004.
-Lamborghini Grand Prix 4x4, skráningarnúmer MU-047, árgerð 2004.
-Langendorf SKS 20/28 malarvagn, skráningarnúmer SA-967, árgerð 2007.
-Hitachi ZX140W-3 hjólagrafa, skráningarnúmer EA0543, árgerð 2008 ásamt neðangreindum fylgihlutum skv. reikningi:
- Smurstöð 2pcs. boom (vörunúmer F176698)
- Rotor 40 ZX130w/S60 (vörunúmer 4200014)
- 1200mm gómskófla S-60 (vörunúmer IS13SC/1200)
- 600mm gómskófla S-60 (vörunúmer IS13SC/600S)
- 2200mm Spaði ZX 130 (vörunúmer IS184/78S6)
-Moeslein T3 eftirvagn, skráningarnúmer IB-108, raðnúmer W09TZ33305SM39755, árgerð 2005.
-Komatsu hjólagrafa PW140-7, skráningarnúmer EA-0554, árgerð 2008 ásamt neðangreindum fylgihlut:
- Engcon ENG EC15 Rotortilt PUP65A ss9 (PW140) (vörunúmer ENG EC15), raðnúmer M33315, árgerð 2008.
-Volvo FH 16 540 6x4T dráttarbíll, skráningarnúmer KT-T61, árgerð 2008.
-Hinowa HP1500 beltavagn, skráningarnúmer IM-1615, árgerð 2008.
-Fleygur F 70, raðnúmer F70LN.
-Hitachi ZX 140W hjólagrafa, skráningarnúmer EA-0536, árgerð 2008.
-Komatsu D16PX-15 jarðýta, skráningarnúmer GB-0686, árgerð 2007.
-CAT 325D beltagrafa, skráningarnúmer EB-1260, árgerð 2007.
-Iveco Tracker AT340 T45, skráningarnúmer LU-A83, árgerð 2008.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess jafnframt, verði fallist á kröfur sóknaraðila, að réttaráhrifum úrskurðar verði frestað þar til dómur um ágreininginn hefur gengið í Hæstarétti.
II.
Aðfararbeiðnin byggist á 11 kaupleigusamningum, sem gerðir voru á tímabilinu 5. september 2006 til 24. september 2008. Er samningunum lýst á eftirfarandi hátt af gerðarbeiðanda:
- Kaupleigusamningur nr. 810198-199, dags. 5. september 2006.
Leigumunur: CAT M316C hjólagrafa, skráningarnúmer EA-0415, árgerð 2006.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og 50% CHF.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821122.
- Kaupleigusamningur nr. 811547-548, dags. 13. mars 2007.
Leigumunir: Toyota Land Cruiser 120, skráningarnúmer LY-877, árgerð 2004 og Lamborghini Grand Prix 4x4, skráningarnúmer MU-047, árgerð 2004, sbr. samninga um leigumunaskipti, dags. 27. apríl 2010 og 17. janúar 2011.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821368.
- Kaupleigusamningur nr. 814607-608, dags. 26. maí 2008.
Leigumunur: Langendorf SKS 20/28 malarvagn, skráningarnúmer SA-967, árgerð 2007, sbr. samning um leigumunaskipti, dags. 15. apríl 2010.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821316.
- Kaupleigusamningur nr. 814943-948, dags. 16. júlí 2008.
Leigumunir: Hitachi ZX 140W-3, skráningarnúmer EA-0543, árgerð 2008 ásamt fylgihlutum.
Leigumunur: Moeslein T3 eftirvagn, skráningarnúmer IB-10, árgerð 2005.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821445.
- Kaupleigusamningur nr. 815309-310, dags. 12. september 2008.
Leigumunir: Komatsu hjólagrafa PW140-7, skráningarnúmer EA-0554, árgerð 2008, ásamt rotortilt.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821565.
- Kaupleigusamningur nr. 815323-324, dags. 12. september 2008.
Leigumunur: Volvo FH 16 540 6x4T dráttarbíll, skráningarnúmer KT-T61, árgerð 2008, sbr. samning um leigumunaskipti, dags. 15. apríl 2010.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821573.
- Kaupleigusamningur nr. 815461-462, dags. 24. september 2008.
Leigumunur: Hinowa HP1500 beltavagn, skráningarnúmer IM-1615, árgerð 2008.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821599.
- Kaupleigusamningur nr. 809098-101, dags. 9. júní 2006.
Leigumunur: Fleygur F 70, raðnúmer F70LN.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 820812.
- Kaupleigusamningur nr. 815307-308, dags. 12. september 2008.
Leigumunir: Hitachi ZX 140W, skráningarnúmer EA-0536, árgerð 2008, og Komatsu D16PX-15 jarðýta, skráningarnúmer GB-0686, árgerð 2007, sbr. samninga um leigumunaskipti, dags. 15. apríl 2010 og 7. febrúar 2011.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 815307-308.
- Kaupleigusamningur nr. 812233-234, dags. 18. júní 2007.
Leigumunur: CAT 325D beltagrafa, skráningarnúmer EB-1260, árgerð 2007.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821521.
- Kaupleigusamningur nr. 813075-076, dags. 10. október 2007.
Leigumunur: Iveco Tracker AT340 T45 vörubifreið, skráningarnúmer LU-A83, árgerð 2008, sbr. samning um leigumunaskipti, dags. 15. apríl 2010.
Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50%.
Við endurútreikning samningsins 14. apríl 2011 fékk samningurinn númerið 821767.
Framangreindir samningar voru upphaflega á milli Lýsingar hf. og Fjarðargrjóts ehf., kt. 601299-5189, sem síðar hlaut nafnið B3 ehf. Varnaraðili, Fjarðargrjót ehf., kt. 700191-1179, tók yfir réttindi og skyldur B3 ehf. samkvæmt fyrrnefndum samningum með skriflegu samkomulagi, dagsettu 2. og 4. mars 2010.
Samkvæmt kaupleigusamningunum átti forveri varnaraðila að greiða sóknaraðila ákveðið leigugjald mánaðarlega fyrir tækin í tiltekinn tíma. Samkvæmt 2. gr. samninganna voru svokallaðir leigugrunnar samninganna samsettir af myntkörfum og voru fjárhæðir samninganna bundnar erlendum myntum í þeim hlutföllum sem að framan greinir.
Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands 16. júní og 16. september 2010 í málum nr. 153/2010 og 471/2010 og setningu laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl. kveðst sóknaraðili hafa endurreiknað alla gengistryggða kaupleigusamninga, þ.m.t. áðurgreinda samninga á milli aðila þessa máls. Niðurstaða endurútreikningsins hafi í kjölfarið verið send varnaraðila.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa vanrækt að greiða sóknaraðila leigugjald af ofangreindum kaupleigusamningum. Elstu vanskil varnaraðila séu frá maí 2011. Þá hafi varnaraðili vanrækt að greiða bifreiðagjöld vegna bifreiðarinnar KT-T61 og vinnueftirlitsgjald vegna beltagröfunnar EB-1260 og hafi kostnaður vegna þess fallið á sóknaraðila.
Varnaraðili hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna og hafi því farið svo að sóknaraðili hafi rift samningunum 8. október 2012 samkvæmt heimild í 28. gr. samninganna. Hafi vanskil á riftunardegi numið 64.499.031 krónu.
Hinn 16. apríl 2013 hafi heildarvanskil varnaraðila vegna áðurnefndra samninga numið 86.711.085 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þó án lögfræðikostnaðar.
Varnaraðili kveður sóknaraðila og forvera varnaraðila hafa átt í umfangsmiklum viðskiptum en sóknaraðili hafi fjármagnað kaup forvera varnaraðila á vinnuvélum og tækjum, en bæði varnaraðili og forveri hans séu og hafi verið alhliða verktakafyrirtæki. Varnaraðili kveður að tildrög þess að hann yfirtók áðurgreinda samninga hafi verið þau að B3 ehf. hafi stefnt í gjaldþrot. Við yfirtökuna hafi eftirstöðvar samninganna verið um 150.000.000 króna yfir markaðsvirði þeirra vegna gengisfalls íslensku krónunnar. Þrátt fyrir þá staðreynd hafi varnaraðili ákveðið að yfirtaka samningana enda hafi sóknaraðili lofað varnaraðila að eftirstöðvar samninganna yrðu lækkaðar að markaðsvirði þeirra. Við það loforð hafi sóknaraðili ekki staðið. Þessari fullyrðingu varnaraðila var mótmælt af hálfu sóknaraðila með bókun sem lögð var fram í málinu 17. september 2013.
Varnaraðili kveðst ítrekað hafa mótmælt endurútreikningi sóknaraðila á lánum félagsins, sem gerður hafi verið 14. apríl 2011, m.a. með bréfi 28. nóvember 2011. Þar hafi verið vísað til þess að lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 gætu ekki haft afturvirk áhrif á réttarstöðu varnaraðila þegar tekin væri afstaða til þess hvort fyrirvaralausar kvittanir fyrir vaxtagreiðslum fælu í sér lokauppgjör á vaxtakröfum fyrir viðkomandi vaxtatímabil, þ.e. áður en lögin höfðu tekið gildi. Með bréfi 30. nóvember 2011 hafi varnaraðili jafnframt bent á að hvorki í dómi Hæstaréttar í máli nr. 153/2010 né í dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi verið tekin afstaða til álitaefna um vexti vegna liðins tíma.
Hinn 8. febrúar 2012 hafi tekist samkomulag milli aðila um afborganir meðan leyst væri úr réttaróvissu um forsendur endurreiknings gengistryggðra lána.
Með dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 hafi Hæstiréttur fallist á áðurgreind sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana og afturvirkni laga nr. 151/2010. Í kjölfar dómsins kveðst varnaraðili hafa tilkynnt sóknaraðila að í ljósi niðurstöðunnar myndi hann stöðva frekari greiðslur vegna lánssamninga málsaðila þar til mál skýrðust. Hafi sóknaraðili í tölvupósti til varnaraðila fallist á að sýna varnaraðila biðlund í málinu.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 hafi sóknaraðili sent frá sér tilkynningu þar sem fram hafi komið að dómurinn veitti leiðbeiningu um tiltekin atriði og að sóknaraðili hefði ákveðið að hefja undirbúning að endurútreikningi sambærilegra samninga. Þrátt fyrir framangreinda yfirlýsingu sóknaraðila hafi lán varnaraðila ekki verið leiðrétt til samræmis við framangreinda dóma Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana og bann við afturvirkni vaxta.
Fram kemur í framlagðri yfirlýsingu sóknaraðila, dags. 17. október 2011, að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2010 hafi bú B3 ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að lánssamningar þeir, sem um ræðir í máli þessu, hafi verið endurreiknaðir og að niðurstaðan hafi verið sú að inneign vegna kaupleigusamninganna væri að fjárhæð 93.636.880 krónur. Þá segir enn fremur að eftir að endurútreikningurinn hafi legið fyrir hafi skiptastjóri í þrotabúi B3 ehf. krafist þess að sóknaraðili greiddi þrotabúinu fjármunina. Sóknaraðili hafi hins vegar talið að vegna sérstöðu málsins bæri félaginu ekki að ráðstafa fjármununum til þrotabúsins heldur væri réttara að ráðstafa þeim inn á eftirstöðvar samninga hjá hinum nýja leigutaka, þ.e. varnaraðila máls þessa. Samkvæmt framlagðri greiðslukvittun var áðurgreindri inneign að fjárhæð 93.636.878 krónur ráðstafað inn á eftirstöðvar kaupleigusamninga varnaraðila hinn 17. október 2011. Í kvittuninni kemur fram að útistandandi ógreiddar kröfur eftir greiðslu hafi verið að fjárhæð 4.136.639 krónur.
Einnig hefur verið lagt fram í málinu samkomulag á milli sóknaraðila og þrotabús B3 ehf., dags. 3. nóvember 2011, þar sem m.a. er rakið að vegna framangreindrar afstöðu sóknaraðila um ráðstöfun inneignar vegna kaupleigusamninganna hafi kröfuhafar í þrotabúi B3 ehf. samþykkt að hefja málsókn á hendur sóknaraðila vegna málsins. Í kjölfarið hafi orðið að samkomulagi með sóknaraðila og þrotabúinu að sóknaraðili greiddi búinu 10.000.000 króna eingreiðslu til að leiða ágreininginn til lykta. Tekið er fram í samkomulaginu að varnaraðili máls þessa sé á engan hátt bundinn af samkomulaginu.
III.
Gerðarbeiðandi byggir á því að þar sem gerðarþoli hafi ekki staðið í skilum samkvæmt áðurgreindum samningum og neitað að afhenda gerðarbeiðanda eignir sínar sé krafist umráða yfir tækjunum með tilvísun í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili kveðst styðja kröfu sína um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Við munnlegan málflutning var á það bent af hálfu sóknaraðila að varnaraðili hefði aðeins greitt eina afborgun af kaupleigusamningunum eftir yfirtöku þeirra, þ.e. afborgun hinn 20. apríl 2010. Að öðru leyti hefði aðeins verið greidd ívilnandi greiðsla inn á samningana að fjárhæð 93.636.878 krónur í tengslum við áðurgreint samkomulag sóknaraðila og þrotabús B3 ehf.
Í 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu væri kveðið á um að þegar orðið hefðu aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi, þar sem um væri að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu, skyldi hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim, sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Jafnframt að réttindi og skyldur hvers og eins aðila skyldu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings.
Þá var á það bent af hálfu sóknaraðila að ef út í það væri farið ættu dómafordæmi Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana ekki við í málinu þar sem ekki hefði verið komin festa á framkvæmd lánssamninga aðila. Gögn málsins sýndu að afborganir af samningunum hefðu oft verið inntar of seint af hendi og þá hefði margoft verið samið um breytingar á greiðsluskilmálum samninganna þannig að lánstíminn hefði verið lengdur og vextir aðeins greiddir.
Jafnframt var á það bent að varnaraðili hefði vanrækt að greiða bifreiðagjöld og önnur opinber gjöld vegna tækjanna og það eitt og sér hefði heimilað riftun samninganna samkvæmt ákvæði 28. gr. samninganna, sbr. 26. gr. þeirra.
Loks benti sóknaraðili á að varnaraðili hefði ekki lagt fram neina útreikninga af sinni hálfu um eftirstöðvar lánssamninganna við riftun, en það hefði verið honum í lófa lagið að gera. Varnaraðili bæri sönnunarbyrðina um að hann hefði ekki verið í vanskilum þegar sóknaraðili lýsti yfir riftun lánssamninganna. Þá benti sóknaraðili á að mál þetta snerist eingöngu um umráðarétt sóknaraðila yfir tækjum þeim, sem krafist væri afhendingar á, en ekki um fjárhæð kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Samkvæmt 30. gr. samninganna færi fram uppgjör á milli samningsaðila við skil á leigumununum og þar væri hægt að koma að sjónarmiðum um uppgjör kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila.
Loks var á það bent af hálfu sóknaraðila að skráning eignarheimildar í ökutækjaskrá og vinnuvélaskrá væri ígildi þinglýstrar eignarheimildar samkvæmt 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 3. mgr. 47. gr. sömu laga.
IV.
Varnaraðili kveðst byggja á því að endurútreikningur sá, sem sóknaraðili hafi lagt til grundvallar riftun samninganna, hafi verið ólögmætur, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010, 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013.
Hinir umþrættu samningar hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum, sem brjóti gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
Varnaraðili kveðst byggja á því að lán félagsins hafi ekki verið endurreiknuð til samræmis við dóma Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana. Forsendur endurútreiknings á lánssamningum málsaðila séu að mati varnaraðila rangar, þ.e.a.s. að sóknaraðili hafi endurreiknað lánin miðað við þá forsendu að þau hafi borið almenna vexti frá upphafi, þrátt fyrir skilmála lánanna um tilgreinda LIBOR-vexti. Slíkur endurútreikningur feli í raun í sér mjög háa viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð. Um þetta kveðst varnaraðili vísa til fordæma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013. Á sama hátt og í þessum fordæmismálum hafi varnaraðili greitt aðra og lægri vexti samkvæmt greiðsluseðlum sóknaraðila og teljist þannig hafa fyrirvaralausa fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta fyrir viðkomandi tímabil.
Varnaraðili kveðst telja að ákvæði laga nr. 151/2010, sem breytt hafi lögum nr. 38/2001, eigi ekki að koma til skoðunar í málinu, enda sé ekki með almennum lögum unnt að hrófla, svo að íþyngjandi sé með afturvirkum hætti, við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilt hafi þegar til þeirra hafi verið stofnað og af þeim greitt, sbr. fyrrnefnda dóma Hæstaréttar.
Varnaraðili kveðst mótmæla því harðlega að sóknaraðili hafi rift kaupleigusamningunum með riftunarskeyti, dagsettu 8. október 2012. Kveðst varnaraðili benda á að með bréfi, dagsettu 16. október 2012, hafi hann mótmælt riftuninni og endurútreikningi sóknaraðila.
Þrátt fyrir yfirlýsingu um riftun og mótmæli varnaraðila við henni hafi sóknaraðili haldið áfram innheimtu „leigugreiðslna“ eftir að riftun eigi að hafa farið fram. Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að gerðir sóknaraðila samrýmist ekki því að hann hafi haldið til streitu kröfu sinni á grundvelli riftunaryfirlýsingarinnar eins og staðfest hafi verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Varnaraðili hafi verið í góðri trú um að sóknaraðili hefði fallið frá riftuninni enda athafnir sóknaraðila í samræmi við þá staðreynd að samningarnir milli aðila séu enn í gildi.
Þá sé einnig á því byggt að í samningunum sé kveðið á um hvernig uppgjöri milli aðila skuli háttað ef til riftunar kemur. Ekkert slíkt uppgjör hafi farið fram milli aðila, en það sé ótvíræð sönnun þess að engin riftun hafi farið fram á grundvelli umþrættra samninga.
Samkvæmt útreikningum varnaraðila, sem taki mið af dómafordæmum Hæstaréttar um ólögmæta gengistryggingu, gildi fullnaðarkvittana og meginreglum kröfuréttar, hafi félagið ekki verið í skuld við sóknaraðila 8. október 2012 þegar sóknaraðili lýsti yfir riftun vegna vanskila að fjárhæð 64.499.031 króna. Sóknaraðila hafi því verið óheimilt að lýsa yfir riftun þeirra með vísan til 28. gr. samninganna. Þá verði að horfa til stöðu hvers samnings við mat á því hvort til staðar hafi verið skuld samkvæmt honum eða ekki, en ekki heildarskuldar eins og riftunarkrafa sóknaraðila sé sett fram.
Varnaraðili kveðst telja að vegna óvissu um skuldastöðu varnaraðila séu ekki uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 til að fallast á hina umbeðnu aðfarargerð. Í öllu falli verði að teljast mjög varhugavert í skilningi 3. mgr. 83. gr. laganna að láta gerðina fara fram. Kveðst varnaraðili byggja á því að hann hafi hinn 8. október 2012 verið búinn að ofgreiða sóknaraðila samkvæmt umþrættum kaupleigusamningum eftir að lán félagsins hafa verið leiðrétt til samræmis við lög og dómafordæmi Hæstaréttar. Skilyrði til riftunar hafi því ekki verið fyrir hendi.
Varnaraðili kveðst ítrekað hafa óskað eftir viðræðum við sóknaraðila um stöðu lána félagsins. Þá hafi varnaraðili ítrekað boðið fram greiðslur meðan leyst yrði úr réttaróvissu um endurreikning lána fyrir dómstólum. Sóknaraðili hafi hins vegar gert varnaraðila þetta ókleift þar sem sóknaraðili hafi ítrekað neitað frekari endurútreikningi á lánunum.
Að mati varnaraðila verði athafnaleysi sóknaraðila við að endurreikna lán varnaraðila að hafa afleiðingar. Sóknaraðili eigi ekki að komast hjá samnings- og lögbundnu uppgjöri við varnaraðila með því að draga endurútreikning lána félagsins og ætla að nota sér það réttafarshagræði að krefjast beinnar aðfarargerðar án þess að ljúka endurútreikningi lána. Kveðst varnaraðili byggja á því með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 að víkja beri riftunarákvæðum samninganna til hliðar. Þegar litið sé til athafnaleysis sóknaraðila við endurútreikning lánanna verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af sóknaraðila að bera ákvæðið fyrir sig og krefjast aðfarar á grundvelli þess ákvæðis.
Varnaraðili kveðst vekja athygli á að Lamborghini Grand Prix 4x4, skráningarnúmer MU-047, sem krafist sé að tekin verði með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila, sé ekki í vörslum varnaraðila.
Varnaraðili kveðst jafnframt krefjast þess, verði fallist á kröfu sóknaraðila, að réttaráhrifum úrskurðar verði frestað þar til dómur um ágreininginn hefur gengið í Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.
Um málskostnaðarkröfu vísar varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989.
V.
Óumdeilt er að kaupleigusamningar þeir, sem um er fjallað í málinu, eru lánssamningar með ólögmætri gengistryggingu, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010 og 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Þá liggur fyrir að sóknaraðili endurreiknaði umrædda lánssamninga í apríl 2011 í samræmi við áðurgreinda dóma Hæstaréttar og lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl. Gagnvart varnaraðila tók endurútreikningurinn til tímabilsins frá yfirtöku samninganna í mars 2010 til apríl 2011, en gagnvart þrotabúi B3 ehf. frá stofndegi samninganna til þess dags er varnaraðili yfirtók samningana, allt í samræmi við 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010. Einnig liggur fyrir að niðurstaða endurútreiknings lánssamninganna gagnvart B3 ehf., þ.e. frá stofndegi til yfirtökudags, var sú að inneign að fjárhæð 93.636.880 krónur myndaðist vegna kaupleigusamninganna. Óumdeilt er að þeirri fjárhæð var ráðstafað inn á eftirstöðvar hinna yfirteknu kaupleigusamninga varnaraðila. Loks er óumdeilt að endurútreikningur sóknaraðila tekur ekki mið af dómafordæmum Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana að því er varðar vexti fyrir liðna tíð og afturvirkni laga nr. 151/2010, sbr. dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013.
Fyrir liggur að varnaraðili hefur ekki staðið skil á leigugreiðslum samkvæmt umræddum kaupleigusamningum frá því í maí 2011. Þá liggur fyrir að sóknaraðili greiddi ekki bifreiðagjöld vegna bifreiðarinnar KT-T61 og vinnueftirlitsgjald vegna beltagröfunnar EB-12160, en gjöld þessi gjaldféllu í ágúst og september 2012 og féll kostnaður vegna þeirra á sóknaraðila. Samkvæmt framlögðum gögnum námu vanskil varnaraðila á riftunardegi hinn 8. október 2012 alls 64.499.031 krónu.
Varnaraðili heldur því fram að samkvæmt útreikningum, sem taki mið af áðurgreindum dómafordæmum Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana, hafi varnaraðili ekki verið í skuld við sóknaraðila þegar sóknaraðili lýsti yfir riftun vegna vanskila hinn 8. október 2012. Þvert á móti hafi varnaraðili verið búinn að ofgreiða sóknaraðila samkvæmt umþrættum kaupleigusamningum. Skilyrði til riftunar hafi því ekki verið fyrir hendi.
Varnaraðili hefur ekki lagt fram útreikninga til stuðnings þeirri fullyrðingu sinn að hann hafi ekki verið í vanskilum þegar riftun var lýst yfir, en telja verður að honum hafi verið í lófa lagið að leggja slíka útreikninga fram. Þá bera gögn málsins hvorki með sér að hann hafi kynnt sóknaraðila eigin útreikninga né boðið fram greiðslu á grundvelli þeirra. Samkvæmt gögnum málsins er og ljóst að varnaraðili hafði á þeim tíma sem hér um ræðir vanrækt að greiða opinber gjöld vegna tveggja tækja, sem hann var með á leigu. Með hliðsjón af öllu framangreindu var sóknaraðila því rétt að lýsa yfir riftun samninganna með heimild í 28. gr., sbr. 26. gr., þeirra.
Ekki er fallist á með varnaraðila að líta beri svo á að sóknaraðili hafi fallið frá yfirlýsingu sinni um riftun þar sem greiðsluseðlar vegna hinna umþrættu samninga hafi verið sendir út áfram eftir að riftun átti sér stað. Þá er ljóst að uppgjör vegna viðskiptanna gat ekki farið fram fyrr en leigumununum hafði verið skilað, sbr. 30. gr. kaupleigusamninganna.
Í máli þessu er einungis til umfjöllunar hvort sóknaraðila sé heimilt að fá áðurgreind tæki afhent, en uppgjör vegna samninga málsaðila er hér ekki til úrlausnar. Kemur því ekki til skoðunar í máli þessu hvort víkja beri riftunarákvæðum samninganna til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 vegna þess athafnaleysis sóknaraðila að endurreikna ekki kröfur sínar á grundvelli samninganna, eins og varnaraðili heldur fram.
Varnaraðili heldur því fram að hafna beri kröfu sóknaraðila um afhendingu á ökutæki af gerðinni Lamborghini, skráningarnúmer MU-047, þar sem tækið sé ekki lengur í umráðum varnaraðila og honum sé því ómögulegt að afhenda það.
Ljóst er að varnaraðili tók umrætt tæki á leigu samkvæmt samningi um skipti á leigumun í kaupleigusamningi nr. 811547, sem síðar fékk númerið 821368. Liggur ekki annað fyrir en að varnaraðili sé enn með tækið á leigu. Í máli þessu er aðeins til úrlausnar hvort skilyrði séu til að veita sóknaraðila heimild til að leita atbeina sýslumanns til að taka munina, sem beiðni hans snýr að, úr vörslum varnaraðila. Að veittri slíkri heimild verður á það að reyna við framkvæmd innsetningargerðar hvort varnaraðila sé ómögulegt að afhenda sóknaraðila áðurgreint tæki, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 31. mars 2014 í máli nr. 205/2014.
Samkvæmt kaupleigusamningum aðila og skráningum í ökutækja- og vinnuvélaskrá er sóknaraðili sannanlega eigandi þeirra tækja sem um ræðir í málinu.
Áðurgreindur ágreiningur aðila um endurútreikning samkvæmt samningum aðila og skuldastöðu varnaraðila haggar ekki, eins hér á stendur, rétti sóknaraðila til að krefjast þess að hin umbeðna gerð fari fram, enda verður ekki talið varhugavert að hún nái fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu. Að öllu framansögðu virtu verður ekki annað lagt til grundvallar en að sóknaraðili hafi fært þær sönnur fyrir umráðum sínum yfir umræddum lausafjármunum að talið verði að skilyrðum beinnar aðfarargerðar á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 sé fullnægt.
Ekki þykja efni til að fallast á kröfu varnaraðila um að málskot úrskurðar til Hæstaréttar fresti aðfarargerð.
Eftir úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Máli þessu var frestað ítrekað að beiðni beggja málsaðila í því skyni að leita sátta í málinu. Í ljósi þess þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hin umbeðna aðfarargerð má fara fram.
Varnaraðili, Fjarðargrjót ehf., greiði sóknaraðila, Lýsingu hf., 300.000 krónur í málskostnað.