Hæstiréttur íslands
Mál nr. 299/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
- Neyðarvörn
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2011. |
|
Nr. 299/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Neyðarvörn. Skilorð.
X var ákærður fyrir að slegið A með bjórglasi í höfuð og slegið eða skorið hann í háls með glerbroti. Ekki var deilt um að X hefði veitt A þá áverka sem lýst var í ákæru. Atlaga X þótti hafa verið mjög hættuleg en áverkarnir sem af henni hlutust voru að áliti lækna ekki lífshættulegir. Ekki þótti unnt að slá því föstu að X hlyti að hafa verið ljóst að langlíklegast væri að A biði bana af atlögu hans. X var því dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing X var ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en einkum með hliðsjón af ungum aldri og hreinum sakaferli hans þótti mega fresta fullnustu 15 mánaða af refsingunni í þrjú ár. X var gert að greiða A 400.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2011. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.
I
Ákærða er gefin að sök tilraun til manndráps, en til vara sérstaklega hættuleg líkamsárás, með því að hafa árla morguns 20. mars 2010, að [...], slegið A með bjórglasi í höfuð og slegið eða skorið hann í háls með glerbroti. Af atlögunni hafi A hlotið skurð á enni og dreifða, krosslaga skurði á hálsi, sem náð hafi 15-20 cm þvert yfir hálsinn í gegnum húð, undirhúðfitu, vöðva og æðar. Var þetta talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
Í málinu er ekki ágreiningur um að ákærði hafi veitt brotaþola þá áverka sem lýst er í ákæru. Á hinn bóginn er um það deilt hvort verknaður ákærða hafi verið unninn í nauðvörn og hvort brot hans verði heimfært undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
Af ummerkjum á vettvangi, hrufli á andliti og þrota á hálsi ákærða má ráða að hann og brotaþoli hafi verið í stympingum eða átökum umrætt sinn. Þá bendir blóðblettarannsókn lögreglu til þess að blóð hafi dropið niður á bol ákærða, sem rennir stoðum undir að brotaþoli hafi verið ofan á ákærða eftir að sá fyrrnefndi fékk skurði á enni, en áður en ákærði veitti honum áverka á háls með glerbrotinu. Ekki er á hinn bóginn upplýst hvernig ákærði lagði til brotaþola með glerbrotinu og einnig er á huldu hvernig afstaða mannanna var hvor til annars á þeirri stundu. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæðis og að ákærði hafi ekki sýnt fram á að verknaður hans hafi verið honum refsilaus vegna neyðarvarnar.
II
Ákærði veitti brotaþola mikla áverka framanvert á hálsi með stóru glerbroti og var sá verknaður hans stórháskalegur. Ákærði hefur frá upphafi máls þessa haldið því fram að brotaþoli hafi verið ögrandi í framkomu og gortað sig af því að vera glæpamaður. Þessi framkoma, þótt sönn væri, gat ekki réttlætt þennan verknað ákærða. Á hinn bóginn verður að líta til þess við ákvörðun refsingar hans að hvorugan mannanna rekur minni til hver var aðdragandi þess að ákærði sló brotaþola í höfuðið og sló eða skar hann í hálsinn með glerbrotinu. Ákærði var tvítugur að aldri er hann framdi brotið og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Refsing hans er ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en einkum með hliðsjón af ungum aldri og hreinum sakaferli hans þykir mega fresta fullnustu 15 mánaða af refsingunni á þann hátt sem segir í dómsorði. Til frádráttar henni komi gæluvarðhald hans frá 20. mars 2010 til 25. sama mánaðar.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald hans 20. mars 2010 til 25. sama mánaðar.
Ákvæði héraðsdóms um bætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 453.134 krónur, þar með talin málsvarnalaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2011.
Ár 2011, mánudaginn 11. apríl, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1001/2010: Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 31. mars. sl., að aflokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 23. mars sl. á hendur ákærða, X, kt. [...][...], [...], „fyrir tilraun til manndráps, en til vara sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa árla morguns laugardaginn 20. mars 2010, að [...] í [...], slegið A með bjórglasi í höfuð og slegið eða skorið hann í háls með glerbroti. Af atlögunni hlaut A skurð á enni og dreifða, krosslaga skurði á hálsi sem náðu 15-20 sm þvert yfir hálsinn í gegnum húð, undirhúðsfitu, vöðva og æðar.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá því mánuður er liðinn frá því að krafa þessi er kynnt sakborningi til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi sakbornings að mati réttarins ásamt lögmæltum virðisaukaskatti. Jafnframt er þess krafist að dráttarvextir leggist á höfuðstól dómkröfu á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.“
Af hálfu bótakrefjandans var því lýst yfir í málflutningi að höfuðstóll bótakröfunnar væri lækkaður í 1.000.000 króna.
Ákærði neitaði sök að því er tekur til tilraunar til manndráps við þingfestingu málsins. Hann kannaðist við að hafa veitt manninum áverkana en bar því við að hafa gert það í sjálfsvörn.
Málavextir
Fyrir liggur að laugardagsmorguninn 20. mars í fyrra hringdi til lögreglu A heiman frá sér á [...] og sagðist hafa verið skorinn á háls. Samkvæmt staðfestri lögreglu skýrslu B komu lögregla og sjúkralið á vettvang kl. 6.59 og lá A á grúfu á gólfi íbúðarinnar og hafði greinilega blætt nokkuð úr sári framan á hálsi mannsins. Var hann ber að ofan en íklæddur gallabuxum. Samkvæmt skýrslunni var hann með meðvitund og nokkuð æstur. Haft er eftir honum á ensku: „I will kill him.“ Maðurinn var fluttur á slysadeild þar sem gert var að sárum hans. Þar mun hann hafa sagt að hann hefði hitt mann, sem hann gat ekki sagt deili á, og þeir farið á bar. Eftir það hefðu þeir farið heim til kærandans en þar hefði maðurinn ráðist á hann og skorið hann með glerbroti. Í þessum svifum hringdi stúlka í lögregluna og tilkynnti um að kærasti hennar, ákærði í þessu máli, hefði hringt til hennar og sagt að hann hefði drepið mann og ætlaði að ganga í sjóinn. Klukkan 7:19 tilkynntu lögreglumenn að þeir hefðu ekið fram á ákærða þar sem hann kom sjóblautur upp úr fjörunni við gatnamót Sæbrautar og Snorrabrautar. Var hann fluttur á lögreglustöð og settur í fangageymslu.
Samkvæmt staðfestri vettvangsskýrslu C, rannsóknarlögreglumanns, er íbúðin sem um ræðir í bílskúr sem stúkaður hefur verið í tvennt, stofu og eldhúskrók fremst en svefnherbergi inn af. Þá kemur fram í skýrslunni og af ljósmyndum, sem teknar voru þar inni, að íbúðin hafi borið merki um átök, húsmunir á hliðinni, brotin bjórkrús úr gleri á gólfinu og talsverðar blóðlifrar þar einnig.
Gert var að sárum A á slysadeild. Í staðfestu vottorði D, sérfræðilæknis á háls-, nef- og eyrnadeild, segir að maðurinn hafi verið með stóran, óreglulegan og tætingslegan skurð framan á hálsinum og blæddi mikið úr skurðinum. Skurður þessi eða skurðir reyndust vera grynnri en óttast var í fyrstu. Voru þeir stjörnu- eða krosslaga og náðu í gegn um húðina, fitulag og hálsflatningsvöðva (platysma) svo og beinu hálsvöðvana. Barkinn var rispaður en ekki var á honum gat. Engar stóræðar voru í sundur. Aftur á móti höfðu nokkrar smáæðar skorist í sundur og var þeim lokað. Sárin voru hreinsuð og vöðvar saumaðir saman og sárin löguð og að lokum heft saman. Af ljósmyndum, sem teknar voru af manninum á slysadeild, sést að auk áverkans á hálsinum hafði hann einnig skorist á enni svo að blæddi úr.
Í málinu er einnig staðfest vottorð E, yfirlæknis á æðaskurðdeild. Þar segir að A hafi verið með mikinn áverka framan á hálsi, 20 cm þverlægan skurð í hæð við barkann og hafi sést í afskorna vöðva. Talsvert hafi blætt úr skurðinum, bæði slag- og bláæðablóði. Annar skurður neðan við og hliðlægt við þennan skurð hafi verið annar skurður, 5 cm á lengd. Maðurinn hafi verið með meðvitund og virst ölvaður. Í blóði hans mældust 2,05 o/oo af vínanda. Fram kemur í vottorðinu að sárin hafi gróið vel. Loks segir að áverkarnir hafi verið alvarlegir og að þeir hefðu hæglega getað haft verri afleiðingar en raun varð á.
Ákærði sætti líkamsrannsókn á lögreglustöðinni þennan sama dag. Af gögnum um hana kemur fram að hann var lítillega hruflaður í andliti, með rispu á vinstra eyrnasnepli og lítillega skorinn á vinstri hendi, lófamegin. Þá var einnig að sjá rispur í hægri lófa og úlnlið. Loks ber að geta um roða á hálsi ákærða. Ákærða var tekið blóð til alkóhólrannsóknar og reyndist það innihalda 1,85 o/oo af vínanda.
Hald var lagt á föt og skó sem ákærði var í þegar hann var handtekinn. Fór fram rannsókn á þessum munum í tæknideild lögreglunnar. Í ljós kom að á þeim voru víða blóðblettir, mest á jakkakraga, á skyrtu og á nærbol, en athyglinni verður hér einkum beint að skyrtunni og nærbolnum. Blóðsýni úr flíkum og skóm ákærða voru send til Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping í Svíðjóð þar sem erfðaefni blóðsins var rannsakað í samanburði við blóðsýni úr báðum mönnunum. Sá sem rannsóknina framkvæmdi, F hefur skrifað skýrslu um hana og fylgir hún gögnum málsins.
Jakkinn er úr blöndu af bómull og pólýester og voru á honum margir blóðblettir, aðallega á kraga og framan á hægri öxl. Erfðaefni úr blóðbletti hægra megin á kraga reyndist vera úr A, enn fremur erfðaefni úr bletti á baki við öxl.
Skyrta ákærða er með venjulegu sniði, úr smáköflóttu bómullarefni og hneppt að framan upp í háls. Framan á henni er talsvert blóð, líkast kámi, mest á kraga, ermum og efst á boðungi en einstakir blóðblettir voru útþynntir sem talið er benda til þess að þeir hafi komist í snertingu við vatn, eftir því sem segir um rannsóknina í skýrslu sérfræðings lögreglunnar, G. Þá kemur fram í skýrslunni og myndum af henni að 3,2 cm löng rifa er við fjórðu tölu, talið ofanfrá. Af ljósmyndum af skyrtunni óhnepptri má ráða að bekkur sá eða ræma, sem tölurnar eru festar á, er nánast laus við blóðkám, a.m.k. frá og með 3. tölu að ofan talið, en á hinn bóginn er ræman með hnappagötunum með áberandi blóðkámi eða -blettum. Þá vekur athygli á ljósmyndunum af skyrtunni að stærsti blóðflekkurinn á ræmunni er í sömu hæð og helsti blóðbletturinn hægra megin á skyrtubrjóstinu. Má ætla af myndunum að blettir þessir yrðu nálægt hvor öðrum, yrði skyrtunni hneppt aftur. Blóðsýni sem tekin voru af báðum ermalíningum voru rannsökuð með tilliti til erfðaefnis og var sýnið á vinstri líningunni rakið til ákærða en ekki tókst að greina erfðaefni hins sýnisins. Tekið var sýni úr blóðkámi vinstra megin á skyrtubrjóstinu. Reyndist það innihalda erfðaefni úr A.
Nærbolurinn er venjulegur hvítur stuttermabolur. Á honum framanverðum eru átta greinilegir blóðblettir, sex þeirra ofarlega, allir nokkuð útþynntir að sjá og taumar frá þeim niður bolinn. Úr þessum blettum voru ekki tekin sýni til erfðarannsóknar.
Meðal gagna málsins er staðfest skýrsla um framhaldsrannsókn á skyrtunni og bolnum sem þeir G og H rannsóknarlögreglumaður gerðu eftir að aðalmeðferð málsins var byrjuð. Þar segir um blóðblettina í skyrtunni að ekki hafi verið unnt að sjá neinar útlínur þeirra og því ekki hægt að mæla stærð þeirra. Sé því ekki unnt að segja til um það hvort um sé að ræða kám eða blóð sem dropið hafi eða slest á skyrtuna. Um blettina á bolnum segir í skýrslunni að fimm efstu blettirnir séu allir sjáanlegir á innanverðri hlið efnisins og blóð hafi því smitast í gegn um það. Útlit blettanna bendi til þess að þeir hafi allir myndast við það að blóð hafi dropið niður á bolinn og ólíklegt að um blóðslettur sé að ræða. Áfallshorn fjögurra efstu blettanna var rannsakað og mældist það vera á bilinu 38° - 51°. Stefna allra blettanna reyndist vera sú sama, samsíða lengd bolsins. Þá segir að samsvarandi blettir hafi ekki verið sjáanlegir á skyrtunni og því ljóst að skyrtan hafi verið fráhneppt þegar blóðið draup á bolinn. Um neðri blettina er sagt að þeir hafi ekki náð í gegn um efnið og bendi það til þess að um kám sé að ræða. Samsvarandi bletti sé ekki að finna á skyrtunni. Að lokum segir þetta í niðurstöðukafla skýrslunnar:
„Óskað var eftir að lagt yrði mat á hvort hægt væri að segja til um hvernig blóðblettir á skyrtu og bol hefðu myndast. Við rannsóknina var það sameiginlegt mat okkar að þar sem ekki var hægt að greina ákveðnar útlinur bletta á skyrtunni, auk þess hve blettir í henni voru útþynntir, er slíkt mat ekki raunhæft á blettum í skyrtunni.
Á efri hluta bolsins voru fimm blettir þar sem ákveðnar útlínur voru greinanlegar. Fjórir blettir voru mældir, staðsetning fimmta blettsins (í saumnum i hálsmáli) hefur afmyndað hann og var hann því ekki lagður til grundvallar í rannsókninni.
Útlit blettanna bendir til að þeir hafi myndast við að blóð féll niður á bolinn. Vegna stærðar þeirra er ólíklegt að þeir hafi myndast við að blóð slettist á þá og þeir voru vel greinanlegir á innanverðri hlið bolsins og því ekki um yfirborðskám að ræða. Stærð blettanna var mæld og áfallshorn þeirra reiknað og sýndu þeir útreikningar að tveir blettanna áttu uppruna sinn úr sama áfallshorni, en hinir tveir komu úr annarri hæð. Stefna blettanna var hins vegar alls staðar sú sama, þ.e. samsíða lengd bolsins.
Það að blettirnir hafa myndast við að blóð dropi ofan á bolinn sýnir að hinn grunaði, sem klæddist bolnum, hefur legið undir brotaþola þegar blóð féll á bolinn, b.e. staðsetning hins grunaða er neðan við það sár sem blóðið kom úr. Mismunandi áfallshorn blettanna sýnir að annarhvor aðilanna, eða báðir, hafa verið á hreyfingu þegar blettirnir mynduðust, þó ekki mikilli þar sem dreifing blettanna er ekki mikil. Það hvað blettirnir eru fáir, og á afmörkuðu svæði, bendir einnig til þess að ólíklegt er að blæðing sú sem orsakaði blettina sé úr jafnstóru sári og sást á hálsi brotaþola.“
Glerkannan sem fannst brotin á gólfinu heima hjá A var rannsökuð í tæknideild lögreglunnar og gerð ítarleg skýrsla um rannsóknina, sem staðfest hefur verið fyrir dómi. Skýrslunni fylgja margar ljósmyndir til skýringar. Kanna þessi er úr 7,5 cm þykku gleri, 17 cm á hæð og 7,5 cm að þvermáli, innanan vert. Heildarþyngd brotanna var rúm 876 grömm. Megin- og neðri hluti könnunnar var í heili lagi og með höldunni áfastri. Ekki var að finna blóð á þeim hluta. Aftur á móti var blóð á fjórum brotum úr könnunni og voru tvö sýni af því blóði send til erfðarannsóknar hjá Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping. Samkvæmt skýrslu F reyndust þau bæði innihalda erfðaefni úr A. Brotunum var raðað saman og þau fest með límbandi og mátti þá sjá að höggið sem brotið hafði könnuna hafði komið á barminn, aðeins til hliðar við hölduna. Rannsókn á stærstu brotunum leiddi í ljós að blóð var í brotsárum og brúnum þeirra og er það í skýrslunni talið benda til þess að blóðið hafi komið á þau eftir að kannan brotnaði.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu sama dag að viðstöddum verjanda. Kvaðst hann muna eftir sér í leigubíl ásamt manni, sem héti A og hann kannaðist við frá því að hann vann á „Sportbarnum“ í Hafnarfirði. Hefðu þeir farið heim til mannsins. Þegar þangað var komið hefði maðurinn verið ber að ofan, sýnt tattóveringu á baki sér og gortað af því að vera glæpamaður. Hefði hann verið ógnandi í hegðun, staðið þétt upp að sér og verið ögrandi. Átök hefðu orðið og myndi hann eftir því að hafa legið á bakinu á gólfinu með manninn ofan á sér. Næst myndi hann eftir sér á gangi á Sæbraut og blóðugur og skorinn á hendi. Hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn eftir drykkju með kunningjum sínum á skemmtistöðum í miðbænum.
Ákærði var yfirheyrður að nýju 24. mars og bar í meginatriðum á sömu lund. Hann sagði þá hafa verið stadda í setustofu mannsins en auk hennar hefði verið svefnherbergi inn af. Hann hefði setið í sófa en maðurinn verið mikið á ferðinni eða staðið og talað og sýnt á sér tattóveringuna. Hann kvaðst muna eftir að hafa haldið um hálsinn á manninum og að maðurinn hefði verið rauður í framan, eins og af áreynslu eða ákafa. Þá kvaðst hann halda að hann myndi eftir glerbrotum. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa veitt manninum áverka en vefengdi ekki að hann hefði gert það. Engir aðrir hefðu verið með þeim. Hann kvaðst muna eftir að hafa haldið á einhverju sem var brotið og líktist botni á íláti. Þegar honum var sýnd mynd af brotnu bjórkönnunni kvað hann sig ráma óljóst í glerbrotin. Verður að skilja frásögn hans svo að hann myndi eftir því að hafa einnig verið með glerbrot í hendi sem var minna en botninn.
Skýrsla var tekin af A tveim dögum eftir atburðinn. Gat hann þá lítið sem ekkert sagt frá atvikum. Hann kvaðst muna að maður var staddur hjá honum og að þeir sátu andspænis hvor öðrum. Þá myndi hann eftir því að þegar hann teygði sig í bjór hefði hann fengið þungt högg á höfuðið og þegar hann rankaði við sér eftir það hefði hann fundið að blóð lak úr hálsi hans. Hann gat engin deili sagt á manni þessum, önnur en að hann hefði verið dökkhærður. Hann kannaðist við að hafa verið undir áhrifum áfengis.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði kveðst í umrætt sinn hafa verið ofurölvi eftir samfellda drykkju og gleðskap með félögum sínum. Um samskiptin við A muni hann það að þeir hafi verið í íbúð hans og hann hafi legið þar undir brotaþola en ekki muni hann tildrög þess að maðurinn var ofan á honum. Áður hefði maðurinn verið að sýna á sér tattóveringu. Þetta sé þó allt óljóst í minningunni. Hann muni þó eftir að hafa setið en maðurinn staðið og „verið með einhverjar yfirlýsingar“. Þá hafi hann verið orðinn ber að ofan og farið að sýna á sér húðflúrið og tala um það að hann væri glæpamaður. Hann muni eftir því að maðurinn hafi verið eldrauður í framan, komið þétt upp að sér, verið ofaní sér og beygt sig yfir hann. Kveðst hann minnast þess að hafa verið logandi hræddur. Átök hafi orðið þarna en hann muni ekki nánar eftir þeim. Hann kveðst ekki muna eftir því að hafa slegið manninn með glasi í höfuð eða að hafa skorið hann. Hann muni þó eftir dreifðum glerbrotum þarna í kring um þá. Hann kveðst ekki vefengja að maðurinn hafi hlotið áverkana af sínum völdum. Hann segist muna eftir því, „í enda kvöldsins“ að hafa séð blóð á hendi sér. Hann muni eftir sér niðri í fjöru við [...] í [...] og að hafa séð lögreglubíl sem hann hafi kallað í og einnig muni hann eftir sér í lögreglubílnum. Hann segist muna eftir því að hafa talað í símann en ekki muna við hvern, þótt hann viti það nú. Hafi hann orðið var við blóðið á hendi sér þegar hann var að tala í símann. Hann kveðst ekki muna hvernig hann sjálfur hafi fengið áverkana sem hann var með nema að hann getur sér þess til að roðinn sem hann var með á hálsinum sé eftir það að maðurinn geti hafa tekið hann kverkataki. Hann segir aðspurður um viðbáruna að hann hafi veitt manninum áverkana í sjálfsvörn að hún sé byggð á því sem fram hafi komið í rannsókninni, að hann hljóti að hafa veitt þá í mikilli hræðslu þegar maðurinn hafði hann undir á gólfinu.
A, sem kveðst hafa búið hér í 4-5 ár og unnið við kjötskurð, hefur skýrt frá því fyrir dómi að hann muni afar lítið eftir þessum atvikum. Þó minni hann að hann, eða einhver annar, hafi talað um að hringja á leigubíl. Hann muni ekki eftir þessu fólki. Sé þetta allt fyrir honum eins og svart hol og geti hann ekki rifjað neitt upp. Þannig geti hann ekki munað hvar hann hitti manninn og kveðst ekki hafa þekkt hann af myndum heldur. Þá muni hann ekki eftir neinum átökum. Næst muni hann eftir því að hann raknaði við og hringdi sjálfur á sjúkrabíl. Hann segist hafa verið ölvaður þegar þetta gerðist. Hann segist muna eftir sér á Danska barnum en eftir það viti hann ekki hvað gerðist. Hann segist hafa náð sér eftir þetta, enda hafi sárin gróið. Hann beri þó ljót ör eftir þetta en engin andleg eftirköst hafi orðið af þessu, þótt hann hafi fundið fyrir nokkrum tilfinningum vegna þessa. Vitnið kannast við að vera með húðflúr, þar á meðal á baki. Hann kveðst ekki muna eftir því að hafa sýnt þetta, eins og ákærði hefur borið. Þá kannast hann ekki við það sem ákærði hefur sagt um að hann hafi misnotað ungar stúlkur, eins og vitni hafa eftir ákærða. Hann kveðst hafa átt glas eins og það sem kemur við sögu í málinu.
I hefur sagt frá því að ákærði, kærasti hennar, hafi hringt í hana umræddan morgun og sagst hafa drepið mann. Sumt af því sem hann sagði í símann hafi hún ekki skilið en hann hafi verið mjög miður sín. Hafi hún reynt að spyrja hann út í þetta og þá komið fram hjá honum að hann hefði ekki vitað hvernig á því stóð að hann lenti í þessu húsi. Hann hafi sagst hafa skorið mann á háls eða stungið hann í hálsinn og héldi hann að maðurinn væri dáinn. Þá hafi hann sagt að maðurinn hefði verið barnaníðingur og stært sig af því. Hann hefði ekki getað hlustað á þetta meir og þá gert eitthvað. Hafi hann svo sagst ætla að ganga í sjóinn og slitið símtalinu. Hún kveðst ekki minnast þess að ákærði hafi talað um átök við manninn eða að hann hafi verið hræddur eða þá reiður.
J, faðir ákærða, hefur skýrt frá því að ákærði hafi hringt þennan morgun á bilinu sjö til átta og sagst hafa slegið mann og héldi að maðurinn væri dáinn. Ekki hafi hann sagt af hverju hann sló manninn en maðurinn hefði ætt í hann eða ætlað í hann, eða eitthvað í þá veru. Kveðst hann hafa skilið ákærða þannig að þetta hefði gerst úti á götu. Hafi hann sagt að þetta væri viðbjóðslegur maður sem væri að misnota ungar stelpur. Hann segist svo hafa rétt konu sinni símann og klætt sig. Vitnið segir vera rétt eftir því haft í lögregluskýrslu að ákærði hefði sagt „hann ætlaði í mig þessi viðbjóðslegi perri“.
Móðir ákærða, K, hefur skýrt frá því að ákærði hafi hringt þennan morgun og verið í miklu uppnámi. Hafi hann sagt að hann hefði lent einhvers staðar með manni og þeir lent í miklum slag og kvaðst hann hafa verið mjög hræddur. Hefði maðurinn verið að stæra sig af því að hafa misnotað litlar stelpur. Hefðu þeir slegist og ákærði sagst hafa slegið manninn sem hann héldi að væri að deyja. Hafi hann talað eins og hann væri að kveðja þau. Hafi hún heyrt öldunið í símann.
L leigubílstjóri kveðst minnast þess að hafa ekið tveimur mönnum úr Aðalstræti upp á [...] snemma umræddan morgun. Þeir hafi ekki skorið sig úr fólki sem er á ferð á þessum tíma dags, að hann heldur. Í lögregluskýrslu er aftur á móti haft eftir honum að þeir hafi verið í mjög annarlegu ástandi og segir hann að hann muni hafa munað þetta betur þegar lögregla talaði við hann. Þá minni hann að yngri maðurinn hafi fyrst viljað láta aka sér til [...]. Hann kveðst ekki muna eftir því, sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu, að mennirnir hafi verið óttalegir bullukollar og honum létt þegar hann losnaði við þá.
B lögreglumaður hefur skýrt frá því að maður hafi legið inni í íbúðinni ber að ofan og með áverka á hálsi þegar komið hafi verið á [...]. Þar hafi einnig verið blóð á gólfinu og brotin glerkanna. Einnig hafi mátt sjá að þarna hefðu orðið átök. Sjúkralið hafi komið á vettvang í þessum svifum og hafi flutt manninn á sjúkrahús. Maðurinn hafi verið í æstu skapi og sagst á ensku ætla að drepa einhvern.
C lögreglumaður, sem staðfest hefur skýrslu sína, hefur jafnframt sagt að blóð á einu glerbrotanna hafi borið þess merki að hafa verið beitt sem vopni eftir að það brotnaði úr glasinu. Sé blóðið á báðum hliðum þess en ekkert blóð sé á þeim glerbrotum sem hafi verið næst því þegar kannan brotnaði. Blóð á öðrum glerbrotum sé hægt að skýra með því að það hafi dropið á þau eða slest.
E læknir hefur skýrt frá því að þau hafi verið tvö læknarnir sem gerðu að sári A. Hafi skurðurinn náð í gegnum húð og vöðva inn að barkakýli þar sem sumir vöðvar sem festir séu við það hafi verið í sundur. Auk þess muni hafa verið djúpur skurður í skávöðva á hálsi. Áverkinn hafi í sjálfu sér ekki verið lífshættulegur en skurðurinn hafi þó náð talsvert nærri stórum hálsæðum. Hafi skurðurinn borið með sér að hafa verið gerður af offorsi með skörpu áhaldi og mesta mildi og hending að æðarnar skárust ekki. Kveðst hún ekki geta sagt hvort atlagan hafi verið ein eða fleiri.
D læknir hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að skurðurinn hafi farið nærri stórum hálsæðum og áverkinn því ekki verið eins mikill og fyrst leit út fyrir. Hann segir útilokað að segja hversu margar atlögur hafi valdið hálsáverkanum, þegar ekki sé vitað um hversu mörg horn eða skurðfletir séu á glerbrotinu. Sennilega hafi atlögurnar verið fleiri en ein. Maðurinn hefði verið í lífshættu ef skorist hefði í stórar æðar en hann áætlar að um einn cm hafi vantað á að skurðurinn næði að þeim. Hefði því hæglega getað farið mun verr fyrir manninum.
G, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar, hefur komið fyrir dóm og staðfest skýrslu sína, sem fyrr er nefnd. Hann segir að blóðsýni úr bolnum hafi ekki verið send í DNA-rannsókn en við rannsóknina hafi verið gengið út frá því að það hafi verið úr brotaþolanum. Um blóð í skyrtunni sé það að segja að það hafi verið svo útþynnt að ekki sé hægt að segja hvernið það hafi komið í skyrtuna, hvort um sé að ræða slettur eða kám. Öðru máli gegni um bolinn því á honum megi sjá að blóð hafi dropið ofan á hann. Hann segist álíta það vera mjög ólíklegt að blettirnir í bolnum séu úr hálsáverkanum og hefðu þeir þá átt að vera útbreiddari en raun var.
H rannsóknarlögreglumaður, sem vann að blóðferlarannsókninni með G, hefur komið fyrir dóm og staðfest niðurstöðu skýrslunnar um rannsókn þeirra. Hann segir það vera sláandi að blóðið á skyrtunni hafi verið útþynnt og máð, ólíkt því sem sé um bolinn en þar séu skýrir blóðblettir. Gefi þetta til kynna að skyrtan hafi verið fráhneppt og þeir blóðblettir verið til komnir af öðru atviki. Hann segist telja það vera útilokað að blettirnir á bolnum séu komnir úr jafnmiklu sári og var á hálsi mannsins. Líklegra sé að þeir séu úr ennissárinu. Hafi þeir dropið ofan á ákærða en jafnframt sjáist að mennirnir hafi verið á einhverri hreyfingu þegar þetta gerðist. Um skyrtuna sé það að segja að ekki sé unnt að segja til um hvernig blóð hafi komið á hana. Sé blóðið of útþynnt á henni og án skýrra bletta til þess að það sé mögulegt.
Niðurstaða
Ákærði og A hafa, ölvunar vegna, litlu ljósi getað varpað á atburðinn á [...] eða tildrögum hans við rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi. Aftur á móti liggur það fyrir samkvæmt embættisvottorði og öðrum rannsóknargögnum að blóð úr A var á fatnaði ákærða. Allt annað sem komið hefur fram í málinu styður það jafnframt að ákærði hafi farið heim með honum í leigubíl úr miðbænum og verið þar þegar sá síðarnefndi hlaut áverkana. Verður þetta talið sannað í málinu. A sagðist hjá lögreglu muna eftir því að hann hefði setið heima hjá sér ásamt öðrum manni og að hafa þá fengið þungt höfuðhögg. Hann hefði svo rankað við sér með svöðusárið á hálsinum. Dóminum þykir þessi framburður hans ásamt vettvangsrannsókninni, rannsókn á brotinni glerkönnu og á blóðinu sem var á brotunum úr henni, svo og ljósmyndum af áverkum á brotaþola og læknisfræðilegum gögnum um þá, veita óræka vísbendingu um það að A hafi fyrst verið sleginn með glerkönnunni í ennið svo að hún brotnaði og síðan skorinn á háls með broti úr henni. Foreldrar ákærða og kærasta hans bera um símtöl við ákærða við þau umræddan morgun og hafa það eftir honum að hann ýmist hefði skorið mann á háls eða slegið hann. Framburður ákærða, þótt óljós sé, hnígur í sömu átt. Engin vísbending er í málinu um að annar eða aðrir en þeir tveir hafi verið í íbúðinni og jafnframt liggur fyrir að ákærði var skorinn á hendi. Þykir þetta allt veita sönnur fyrir því að það hafi verið ákærði sem sló A í ennið með glerkönnunni og skar hann síðan á háls með broti úr henni með þeim afleiðingum sem lýst hefur verið. Áverki þessi var að áliti lækna ekki lífshættulegur og ekki er heldur unnt að slá því föstu að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að maðurinn biði bana af atlögu hans. Verður því ekki talið að 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eigi við um verknað ákærða. Atlaga hans að A var hins vegar mjög hættuleg vegna aðferðarinnar sem hann viðhafði og telst hún vera líkamsárás í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði ber því við að hann hafi veitt áverkana í sjálfsvörn. Vísbendingar hafa ekki komið fram í málinu um það að ákærði hafi verið í lífshættu eða að velferð hans væri stefnt í slíka hættu að það réttlætti stórhættulega atlögu hans að A. Verður því ekki fallist á þessa vörn ákærða í málinu.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Fram er komið að A var nakinn að ofan þegar lögreglan kom að honum bjargarlausum á gólfinu heima hjá honum. Þá er það staðfest að hann er með húðflúr á bakinu. Bæði þessi atriði, svo og það sem vitnin þrjú hafa eftir ákærða í símtölunum, þykja styrkja frásögn hans um framferði A gagnvart honum áður en til átaka kom með þeim. Þá eru hrufl og roði á höfði og hálsi ákærða vísbending um að stimpingar eða fangbrögð hafi orðið með þeim tveimur. Rifuna við skyrtutöluna má skýra með ýmsum hætti og ekki er unnt að styðjast við hana í málinu. Það er hins vegar þýðingarmikið atriði í málinu að blóðferlarannsóknin bendir til þess að blóðblettirnir á nærbol ákærða séu þannig til komnir að blóð hafi dropið á bolinn ofan frá. Rennir þetta stoðum undir það, sem ákærði hefur borið, að A hafi setið ofan á honum á gólfinu og verður byggja á því í málinu. Þá verður einnig byggja á þeirri niðurstöðu blóðferlarannsóknarinnar, að skyrta ákærða hafi verið fráhneppt þegar blóð draup ofan á nærbolinn. Aftur á móti þykja dóminum ljósmyndir af skyrtunni benda svo eindregið til þess að hún hafi verið hneppt vel upp á bringu, þegar blóð makaðist eða blæddi á hana, að á því verði einnig að byggja. Því verður ekki slegið föstu hvort ákærði sló A með könnunni í ennið áður eða eftir að sá síðarnefndi hafði hann undir á gólfinu, ekki frekar en því hvort skyrtunni var hneppt frá áður en ákærði varð undir manninum eða eftir það. Athygli vekur hins vegar að áberandi blóðflekkur er á skyrtunni (án þess þó að fara í gegnum skyrtuefnið) á svipuðum stað og stærstu blettirnir í bolnum, sem bent gæti til þess að innbyrðis afstaða mannanna hafi verið svipuð bæði fyrir og eftir að skyrtunni var hneppt frá. Loks verður að byggja á því áliti sérfræðinga lögreglunnar að blóðið á skyrtu og bol ákærða stafi ekki frá sárinu á hálsi A.
Þegar alls þess er gætt sem hér var rakið verður ekki útilokað að ákærði hafi veitt A hálsáverkann í mikilli geðshræringu eða reiði yfir framferði hans í sinn garð. Refsing ákærða, sem var tvítugur að aldri þegar hann framdi brotið, þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Rétt þykir að fresta því að framkvæma 12 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Frá refsingunni ber jafnframt að draga sex daga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti undir rannsókn málsins.
Dæma ber ákærða til þess að greiða A 400.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 21. ágúst 2010 til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl, 522.525 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.
Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða réttargæslumanni brotaþola, Brynjólfi Eyvindssyni hdl., 180.000 krónur í réttargæsluþóknun. Þóknunin dæmist með virðisaukaskatti.
Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða annan sakarkostnað, 42.912 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði. Frestað er því að framkvæma 12 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Frá refsingunni dregst sex daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði greiði A 400.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum frá 21. ágúst 2010 að telja til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl, 522.525 krónur í málsvarnarlaun og réttargæslumanni brotaþola, Brynjólfi Eyvindssyni hdl., 180.000 krónur í réttargæsluþóknun.
Ákærði greiði í 42.912 krónur annan sakarkostnað.