Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2016

A (Þórdís Bjarnadóttir hrl.)
gegn
fjölskyldusviði Garðabæjar (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. apríl 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 11. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi í 21 sólarhring. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns,  vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. apríl 2016.

Með beiðni, dags. 11. apríl 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 12. sama mánaðar, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 11. apríl 2016 um að samþykkja nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi.

Varnaraðili er fjölskyldusvið Garðabæjar, kt. [...], Garðatorgi 7, Garðabæ, sem krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 11. apríl sl. um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.

Í beiðni sóknaraðila segir að hún sé byggð á 1. og 2. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Einnig að sóknaraðili telji að skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. séu ekki fyrir hendi og því beri að fella áðurgreinda ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu úr gildi.

Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess með beiðni, dags. 11. apríl 2016, að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu heimilaði nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi með heimild í 19. gr., sbr. 20. og 21. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Í beiðninni segir að sóknaraðili hafi verið lögð inn á bráðgeðdeild geðsviðs Landspítala 8. apríl sl., en þangað hafi hún komið í lögreglufylgd eftir að heimilislæknir hafði vitjað sóknaraðila og metið ástand hennar. Sóknaraðili hafi að sögn dætra hennar verið með ranghugmyndir og ofsóknarhugmyndir síðastliðin tvö ár, en þær hafi farið mjög vaxandi undanfarið. Sóknaraðili hafi verið metin í geðrofi við komu á sjúkrahús og verið nauðungarvistuð að ákvörðun læknis í 72 klukkustundir.

Með beiðni um nauðungarvistun sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B geðlæknis á deild 32C á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, en þar segir að talið sé að sóknaraðili hafi verið með aðsóknarhugmyndir í tvö til fjögur ár, en á sama tíma hafi hún einangrað sig. Við skoðun hafi sóknaraðili greinilega verið í geðrofi og með virkar fjölþættar aðsóknarhugmyndir, m.a. um að nafngreindur ráðherra vildi koma sér fyrir kattarnef og segði það í viðtölum í fjölmiðlum undir rós. Þá hafi hún talið að nágrannar trufluðu sig á skipulagðan hátt með hurðaskellum og væri þess fullviss að stöðugt væri fylgst með sér af erlendum aðilum í verndarskyni. Hún væri því stöðugt í beinni útsendingu. Þá hafi sóknaraðili talið að skotið hefði verið á hana fyrir tæpum tveimur árum þegar hún var við [...] í [...]. Hún telji sig stöðugt vera í lífshættu og upplifi sig í stofufangelsi. Þá hafi hún sagst vera pólitískur geðsjúklingur og að fjöldi ungs fólks stundaði skipulögð morði, bæði á spítalanum og erlendis. Innlögn sín núna tengdist komandi forsetakosningum og til þess ætluð að koma í veg fyrir að hún gæti boðið sig fram. Í vottorðinu segir að sóknaraðili hafi ekkert sjúkdómsinnsæi. Hún sé með alvarlegan geðsjúkdóm, ótilgreint óvefrænt geðrof. Niðurstaða læknisins var sú að vegna sjúkdóms og geðrofsástands sóknaraðila væri nauðungarvistun sóknaraðila nauðsynleg.

B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti áðurgreint vottorð sitt. Hann sagði að sitt mat hefði verið að lokinni skoðun á sóknaraðila að óhjákvæmilegt væri að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi. Þá gaf símaskýrslu fyrir dóminum C geðlæknir og núverandi meðferðarlæknir sóknaraðila. Hún sagði að sóknaraðili væri með miklar aðsóknar- og ranghugmyndir, sem talið væri að að hún hefði haft allt frá árinu 2012. Hún kvað nauðungarvistun sóknaraðila nauðsynlega svo að unnt væri að greina sjúkdóm sóknaraðila og veita henni viðeigandi meðferð.

Í ljósi framlagðra gagna og þess sem að framan hefur verið rakið telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi og því beri að staðfesta ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar um frá 11. apríl 2016.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 11. apríl 2016 um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistuð á sjúkrahúsi.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.