Hæstiréttur íslands
Mál nr. 717/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Kröfulýsing
- Ábyrgð
- Frávísunarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2017 þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila við opinber skipti á varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skiptin verði viðurkennd krafa sín á hendur varnaraðila að fjárhæð 9.161.215 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði gekkst A á árunum 1997 til 2001 í sjálfskuldarábyrgð gagnvart sóknaraðila fyrir námslánum dóttur sinnar, B. Hann andaðist 10. febrúar 2016 og var bú hans tekið til opinberra skipta 28. nóvember sama ár. Með bréfi skiptastjóra 7. mars 2017 var héraðsdómi tilkynnt að farið yrði með skiptin samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Áður en það gerðist hafði sóknaraðili lýst kröfu við skiptin á grundvelli ábyrgðar A en þeirri kröfu hafði skiptastjóri hafnað og var leyst úr ágreiningi um það með hinum kærða úrskurði. Í málinu liggur ekki annað fyrir en að námslánin sem ábyrgðin tekur til séu í skilum.
Í kæru sóknaraðila segir að krafa hans sé háð því skilyrði að skuldabréf 30. desember 1997, upphaflega að fjárhæð 4.733.516 krónur, sem B gaf út fyrir námslánunum, falli í vanskil og verði ábyrðin aldrei hærri en því nemur. Varnaraðili heldur því fram að krafa sem sett er fram á þennan veg fullnægi ekki áskilnaði um skýrleika svo unnt sé að taka afstöðu til hennar. Málatilbúnaður sóknaraðila er reistur á því að krafa hans á hendur varnaraðila sé skilyrt. Lýsing á þessu felur með engu móti í sér að dómkrafa hans sé óglögg og verður kröfu um frávísun af þeirri ástæðu hafnað.
Með því að gangast í sjálfskuldarábyrgð gagnvart sóknaraðila fyrir námslánum dóttur sinnar stofnaði A til kröfu á hendur sér. Eftir efni sínu felur slík krafa í sér tryggingu fyrir efndum aðalskuldara. Af því leiðir að greiðsluskylda ábyrgðarmanns verður ekki virk fyrr en aðalskuldari hefur vanefnt skyldu sína, en það eitt nægir til að gengið verði að ábyrgðarmanni eftir sjálfskuldarábyrgð. Við andlát A tók dánarbú hans við skuldbindingu þessari, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa sóknaraðila um að krafan verði viðurkennd við skiptin í réttindaröð eftir 113. gr. laga nr. 21/1991. Verður miðað við fjárhæð kröfunnar þegar dánarbúið var tekið til opinberra skipta, sbr. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991, en þá nam hún 9.153.974 krónum eftir útreikningi sóknaraðila sem hefur ekki verið andmælt. Eftir atvikum ber síðan að haga skiptalokum í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 157. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 20/1991, um meðferð krafna sem háðar eru ókomnu skilyrði.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Krafa sóknaraðila, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að fjárhæð 9.153.974 krónur er viðurkennd við opinber skipti á varnaraðila, dánarbúi A, með stöðu í réttindaröð eftir 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 1. nóvember 2017
Mál þetta, sem barst dóminum 21. apríl 2017, með bréfi skiptastjóra dánarbús A, var tekið til úrskurðar 12. október sl.
Sóknaraðili er Lánasjóður íslenskra námsmanna.
Varnaraðili er dánarbú A.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 9.161.215 krónur verði viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun skiptastjóra um að hafna kröfu sóknaraðila í dánarbú A verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu með hliðsjón af framlagðri tímaskráningu.
I
Málavextir
Bú A var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2016 að kröfu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sama dag var Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. skipuð til að gegna starfi skiptastjóra við skiptin. A heitinn lést 10. febrúar 2016 og var síðast til heimilis að [...] í Reykjavík. Skiptastjóri birti innköllun vegna skiptanna í Lögbirtingablaði 16. og 23. desember 2016.
Sóknaraðili lýsti 16. janúar 2017 kröfu fyrir skiptastjóra að höfuðstólsfjárhæð 9.161.215 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Krafa sóknaraðila er til komin vegna sjálfskuldarábyrgða sem A heitinn gekkst í gagnvart sóknaraðila vegna námslána dóttur sinnar, B.
Skuldabréf vegna áðurnefndra námslána var gefið út 30. desember 1997. Það var upphaflega að höfuðstólsfjárhæð 4.733.516 krónur, verðtryggt með vísitölu neysluverðs (grunnvísitala 218,5). Gekkst A í sjálfskuldarábyrgð á námsláni B fyrir allt að 2.500.000 krónum en ábyrgðarhámarkið tók breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Á árunum 2000 og 2001 tókst A heitinn á hendur þrjár sjálfskuldarábyrgðir vegna umrædds námsláns til viðbótar fyrri ábyrgð, nánar tiltekið 14. mars 2000 fyrir allt að 500.000 krónum, 20. ágúst 2000 fyrir allt að 1.000.000 króna, og 18. janúar 2001 fyrir allt að 500.000 krónum. Í öllum tilvikum voru fjárhæðir bundnar vísitölu neysluverðs. Þegar sóknaraðili lýsti kröfu fyrir skiptastjóra varnaraðila í janúar 2017 námu eftirstöðvar námslánsins, sem og staða fyrrgreindra sjálfskuldarábyrgða, samtals 9.161.215 krónum, samkvæmt kröfulýsingu hans. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að höfuðstóll láns og ábyrgða sé uppreiknaður miðað við vísitöluna 438,4.
Á skiptafundi 25. janúar 2017 lýsti dóttir A, B, sem jafnframt var eini erfinginn, því yfir að hún tæki ekki ábyrgð á skuldum dánarbúsins. Með bréfi til héraðsdóms 7. mars 2017 beindi skiptastjóri varnaraðila tilkynningu til dómsins um að farið yrði með skipti varnaraðila samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í samræmi við 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Þá kom fram í bréfinu að fyrir lægi sú afstaða erfingja að taka ekki ábyrgð á skuldum búsins. Með bréfi sama dag tilkynnti skiptastjóri sóknaraðila að hún hefði móttekið kröfulýsingu hans innan kröfulýsingarfrests og að kröfunni væri lýst sem almennri kröfu á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá sagði að skiptastjóri hefði ákveðið að hafna kröfunni „að svo stöddu“. Var m.a. vísað til þess að engar upplýsingar væru í kröfulýsingunni sem bentu til þess að námslánið sem ábyrgðirnar tóku til hafi verið í vanskilum hjá greiðanda þess eða að skorað hefði verið á hinn látna að greiða gjaldfallna skuld. Með vísan til 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn fengist því ekki séð að sóknaraðili gæti innheimt meinta skuld sína.
Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu skiptastjóra með bréfi 10. mars 2017. Þar komu m.a. fram þau sjónarmið sóknaraðila að ábyrgðarkrafa væri skilyrt krafa sem nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, jafnvel þótt skilyrðið um að aðalkrafa væri í vanskilum væri ekki komið fram. Þá sagði að í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 væri kveðið á um hvernig fara skyldi með skilyrtar kröfur. Þar segði að taka skyldi frá fé sem nægði til greiðslu þeirra þegar skilyrðið væri komið fram.
Skiptastjóri hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi 28. mars 2017 í samræmi við fyrri afstöðu. Þar sagði að í kröfulýsingunni segði ekkert um rétthæð kröfunnar en henni væri lýst sem „Skuldabréf nr. [...] er vegna námslána B, sem A var ábyrgðarmaður á“. Þá væri gerð grein fyrir höfuðstólsfjárhæð og krafist dráttarvaxta til 18. nóvember 2016 ásamt kostnaði vegna kröfulýsingar. Jafnframt sagði að engin gögn staðfestu að vanskil væru hjá skuldara á umræddu láni hjá sóknaraðila eða að skorað hefði verið á ábyrgðarmanninn að greiða samkvæmt ábyrgðarskuldbindingu hans. Enn fremur kom fram að eini erfingi dánarbúsins hefði lýst því fyrir skiptastjóra að hún tæki ekki ábyrgð á skuldum hins látna. Búið væri því skuldafrágöngubú og í framhaldi af yfirlýsingu erfingjans hefði verið lýst eftir kröfum í dánarbúið. Skiptastjóri hefði tilkynnt 7. mars sl. til héraðsdóms að á grundvelli eigna búsins og þeirra krafna sem hefði verið lýst í búið yrði farið með skiptin samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3 mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Það færi því eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 hvernig kröfur í dánarbúið væru samþykktar. Í 109.-114. gr. laganna væri tiltekið hverjar kröfur kæmust að við skipti dánarbús. Hvergi væri gert ráð fyrir því að heimilt væri að samþykkja skilyrtar kröfur eins og þó væri heimilt í einstaka tilvikum þegar tekin væri ábyrgð á skuldum dánarbús eða þegar nægar eignir væru til staðar í dánarbúi til að greiða allar kröfur, eins og nánar greinir í bréfinu. Boðað var til skiptafundar vegna ágreiningsins 19. apríl 2017 og með bréfi sama dag mótmælti sóknaraðili afstöðu skiptastjóra.
Með bréfi, sem móttekið var í héraðsdómi 21. apríl 2017, óskaði skiptastjóri eftir úrlausn dómsins um ágreining við skiptin, með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 og 122. gr. laga nr. 20/1991. Í bréfinu er bréfaskiptum og framangreindum sjónarmiðum aðila lýst. Í niðurlagi bréfsins segir svo að krafa sóknaraðila um að viðurkennd verði krafa sjóðsins í dánarbú A sé hér með send dóminum til úrlausnar enda hafi ekki tekist að sætta sjónarmið dánarbúsins og kröfuhafa.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess að lýst krafa á hendur varnaraðila að fjárhæð 9.161.215 krónur, sem reist sé á sjálfskuldarábyrgðum varnaraðila á námsláni B, verði viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 sem gildi um skipti varnaraðila sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Fjárhæð dómkröfu sóknaraðila svari til eftirstöðva námsláns B samkvæmt skuldabréfi nr. [...] og um leið stöðu ábyrgðarkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila á kröfulýsingardegi 16. janúar 2017 að teknu tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs og dráttarvaxta til 18. nóvember 2016.
Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki bera brigður á grundvöll og fjárhæð kröfu hans. Á hinn bóginn sé henni mótmælt á þeim grunni að hún sé háð ókomnu skilyrði enda sé námslán B í skilum og ábyrgð varnaraðila sem krafa sóknaraðila sé reist á því ekki orðin virk. Slík skilyrt krafa komist ekki að við skipti varnaraðila enda sé um skuldafrágöngubú að ræða og krafan fái ekki stoð í 109.-114. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili kveðst hafna þessum mótbárum sem röngum sem og málatilbúnaði varnaraðila í heild.
Sóknaraðili kveður að í lögum nr. 21/1991 séu einmitt reglur um það hvernig fara skuli með kröfur sem háðar séu ókomnu skilyrði, líkt og hátti til um kröfu sóknaraðila. Samkvæmt 1. mgr. 156. gr. laganna skuli skiptastjóri, svo fljótt sem unnt er, efna þær kröfur á hendur búi sem hafa þegar hlotið viðurkenningu og fást efndar að fullu eftir stöðu sinni í skuldaröð. Þetta skuli þó ekki gert nema fé sé jafnframt tekið frá til fullrar greiðslu á skilyrtum og umdeildum kröfum sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð, en greiðsla þeirra skuli þá eftir atvikum innt af hendi um leið og skilyrði er komið fram eða ágreiningur til lykta leiddur. Í 2. mgr. segi að eftir greiðslur samkvæmt 1. mgr. megi skiptastjóri greiða öllum þeim sem næstir koma í skuldaröð upp í væntanlega úthlutun til þeirra, en þess skuli þá enn gætt að fé sé tekið frá fyrir skilyrtum eða umdeildum kröfum sem gætu notið sömu stöðu í skuldaröð.
Þá segi í 1. mgr. 157. gr. laga nr. 21/1991 að skiptastjóri geti ákveðið að ljúka skiptum þótt kröfu hafi verið lýst sem háð sé ókomnu skilyrði eða dómsmál er rekið um ef fyrirséð þykir að nokkur bið verði enn eftir málalokum. Fé skuli þá tekið frá til að efna slíkar kröfur eftir þeirri stöðu sem þær kynnu að njóta í skuldaröð en um varðveislu fjárins og endurupptöku skipta til úthlutunar á því fari eftir 163. gr. Í þeirri lagagrein segi að hafi skiptastjóri lokið skiptum en tekið frá fé til að mæta skilyrtri eða umdeildri kröfu skuli féð lagt á sérgreindan reikning við banka eða sparisjóð sem beri svo háa vexti sem kostur er. Skiptastjóri varðveiti skilríki fyrir slíkum reikningi. Þegar komið sé í ljós um skilyrði fyrir kröfu eða ágreiningur um hana til lykta leiddur skuli skiptastjóri taka skiptin upp á ný og greiða kröfuna hafi málalok orðið á þann veg. Nýtist féð sem tekið var frá með öllu til þeirra þarfa, skuli skiptastjóri tilkynna og auglýsa skiptalokin samkvæmt 162. gr. en standi eitthvað eftir af því skuli því ráðstafað eftir 164. gr. laganna.
Ábyrgðarkrafa sóknaraðila sé sem fyrr segir háð skilyrði í skilningi framangreindra ákvæða laga nr. 21/1991 að því leyti að hún verður virk er skilyrðið komi fram, þ.e. við vanskil skuldara. Ekki verði annað ráðið en að námslán B séu nú í skilum og sé skilyrði kröfu sóknaraðila því ókomið í skilningi umræddra ákvæða laga nr. 21/1991 eins og sakir standi. Það standi því þó ekki í vegi að krafan verði viðurkennd á hendur varnaraðila. Þvert á móti geri fyrrnefnd ákvæði laga nr. 21/1991 beinlínis ráð fyrir því að skilyrtar kröfur, líkt og krafa sóknaraðila, séu viðurkenndar við skipti enda þótt skilyrði sé enn ekki komið fram. Beri skiptastjóra þá að taka til hliðar fé til greiðslu slíkra krafna í samræmi við stöðu þeirra í réttindaröð og skal greiðslan innt af hendi um leið og skilyrðið er komið fram sbr. og nánar fyrrgreind ákvæði laga nr. 21/1991. Engu breyti um framangreinda lagaskyldu skiptastjóra þótt ekki liggi fyrir á viðkomandi tímamarki hvort og hvenær skilyrðið kunni að koma fram. Af framansögðu leiði, og með vísan til skýrra og ótvíræðra ákvæða laga nr. 21/1991 sem áður voru rakin og gilda fullum fetum um skipti varnaraðila, að hafna beri mótbárum varnaraðila er lúti að því að krafa sóknaraðila sé skilyrt og fái af þeim sökum ekki komist að við skipti varnaraðila. Beri þegar af þessum sökum að taka kröfu sóknaraðila til greina.
Loks kveðst sóknaraðili verða að hafna vísun varnaraðila til 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sem byggt hafi verið á í „bráðabirgðaafstöðu“ skiptastjóra frá 7. mars 2017 enda gildi sú lagagrein ekki um ábyrgðir varnaraðila sem stofnað var til fyrir gildistöku nefndra laga, sbr. 12. gr. þeirra. Hvað sem öðru líði verði ekki séð hvernig umrætt ákvæði 7. gr. laganna, jafnvel þótt því væri beitt um ábyrgðir varnaraðila, geti leitt til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila, og hafnar sóknaraðili þeirri röksemd varnaraðila sem haldlausri.
Sóknaraðili kveðst einkum byggja á almennum reglum um skuldbindingargildi samninga og vernd eignarréttinda, samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Um stöðu kröfu sóknaraðila í réttindaröð vísist til 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Jafnframt sé vísað til 156., 157., 163. og 164. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili er skuldafrágöngubú sbr. 53. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þar sem erfingi búsins hefur lýst því að hún taki ekki ábyrgð á skuldum hins látna. Þar sem skiptastjóri taldi óvíst að andvirði eigna búsins myndu duga til greiðslu lýstra krafna í búið tilkynnti hann um það til héraðsdóms eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt ákvæðinu skuli því við skipti búsins fylgja ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti án þess að frekari dómsúrskurðar, innköllunar, auglýsinga eða tilkynninga sé þörf.
Sóknaraðili hafi lýsti kröfu sinni með kröfulýsingu 16. janúar 2017. Í kröfulýsingunni sagði ekkert um það hvernig krafan var til komin eða á hvaða forsendum sóknaraðili byggði kröfu sína. Þá kom ekkert fram um að um skilyrta kröfu væri að ræða eða nokkuð annað. Engin gögn voru send með kröfulýsingu sem bentu til þess að umrætt skuldabréf væri í vanskilum. Sóknaraðili hafi þannig ekki gætt ákvæða 2. mgr. 117. gr. gjaldþrotalaga nr. 20/1991. Á forsendum kröfulýsingarinnar var hún afgreidd af skiptastjóra með bréfi dagsettu þann 7. mars 2017.
Í bréfi sóknaraðila til skiptastjóra þann 10. mars 2017 sé viðurkennt að umrætt skuldabréf sé í skilum en því haldið fram að um skilyrta kröfu sé að ræða sem njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar án þess að sú fullyrðing sé rökstudd frekar.
Frekari bréfaskipti hafi orðið milli skiptastjóra og sóknaraðila án þess að krafan væri rökstudd frekar eða gerð grein fyrir því hvernig kröfunni var raðað í réttindaröð gagnvart öðrum kröfum í dánarbúið. Í kröfulýsingu sóknaraðila er þess hins vegar óskað að fjárhæð kröfunnar sé greidd af eignum þrotabúsins í samræmi við úthlutun úr búinu án frekari rökstuðnings.
Krafa sóknaraðila á hendur dánarbúinu byggi, eins og fram komi í fylgiskjölum með kröfulýsingu, á ábyrgð hins látna á námslánum dóttur hans. Eins og skiptastjóri tilkynnti sóknaraðila með bréfi liggi engar upplýsingar fyrir um að umrætt lán sé í vanskilum hjá aðalskuldara eða að skorað hafi verið á hinn látna að greiða gjaldfallna skuld. Því skorti forsendur til að krafan sé greidd við úthlutun úr búinu.
Um ábyrgðarmenn gildi almennar reglur um kröfuábyrgð. Í því felist að ábyrgðarmaður skuldbindur sig persónulega til að tryggja efndir kröfu á hendur aðalskuldara. Slík ábyrgð geti ýmist verið einföld ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð. Í dómum Hæstaréttar komi ítrekað fram að lánveitandi geti ekki innheimt hjá ábyrgðarmanni nema fyrir liggi að ekki fáist greitt hjá skuldara lánsins. Þar sem það skilyrði sé ekki komið fram er ekki hægt að fallast á að stofnast hafi krafa á hendur varnaraðila með þeim hætti sem haldið er fram af hálfu sóknaraðila. Með öðrum orðum, þá getur tryggingarréttur sóknaraðila á hendur varnaraðila ekki jafngilt því að sóknaraðili eigi rétt til þess að fá greitt úr búi varnaraðila vegna ógjaldfallinnar kröfu. Ef ábyrgðin væri túlkuð þannig væri hinn látni ekki lengur ábyrgðarmaður heldur samskuldari að láni.
Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015 hafi verið um að ræða innheimtu á hendur dánarbúi ábyrgðarmanns að námsláni. Þar segi að með sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanns séu lánveitanda veitt tryggingarréttindi í formi persónulegrar skuldbindingar sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Aðstæður í því máli séu þó gjörólíkar því máli sem hér um ræði að því leyti, að þar hafði lánveitandi gjaldfellt kröfu vegna vanefnda lántaka. Í niðurstöðu héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti, er sérstaklega vikið að því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að stefndu hafi verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir umrædds láns áður en það var gjaldfellt. Með vísan til þessa voru stefndu í málinu einungis krafin um greiðslu gjaldfallins höfuðstóls skuldabréfsins ásamt dráttarvöxtum frá og með þingfestingardegi málsins til greiðsludags.
Það sé staðreynd að það lán sem hinn látni var ábyrgðarmaður að var ekki í vanskilum þegar sóknaraðili lýsti kröfu í dánarbúið. Því voru ekki komin fram nauðsynleg skilyrði til þess að unnt væri að innheimta kröfuna hjá varnaraðila.
Þegar um skuldafrágöngubú sé að ræða feli það í sér að þær kröfur sem komist að við skiptin eru taldar upp í 109.-114. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Í þeim ákvæðum er hvergi gert ráð fyrir að heimilt sé að samþykkja skilyrtar kröfur þar sem lausnarskilyrði eru ekki komin fram. Einungis sé að finna ákvæði um óvissar kröfur í 156. gr. gjaldþrotalaga en þar segi að verði skiptum ekki lokið skv. 154. eða 155. gr. skuli skiptastjóri, svo fljótt sem unnt er, efna þær kröfur á hendur búinu sem hafa þegar hlotið viðurkenningu og fást efndar að fullu eftir stöðu sinni í skuldaröð. Þetta skuli þó ekki gert nema fé sé jafnframt tekið frá til fullrar greiðslu á skilyrtum eða umdeildum kröfum sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð, en greiðsla þeirra skal þá eftir atvikum innt af hendi um leið og skilyrði er komið fram eða ágreiningur er til lykta leiddur. Í greinargerð sóknaraðila er vísað til 1. mgr. 156. gr. laga nr. 21/1991. Það ákvæði eigi þó ekki við um kröfu sóknaraðila eins og haldið sé fram í greinargerð hans og hafi sóknaraðili ekki leitt að því nægileg rök að svo sé enda fjalli ákvæðið með engu móti um það að kröfur sem ekki eru gjaldfallnar geti átt rétt.
Í greinargerð sóknaraðila komi fram að 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn geti ekki átt við um ábyrgð sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku laganna en algerlega sé óljóst hvað átt sé við. Í ákvæði 12. gr. laganna sé gildistökuákvæði. Þar sé tekið fram að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku laganna að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.
Í kröfulýsingu sóknaraðila sé gerð krafa um greiðslu dráttarvaxta á ógjaldfallna kröfu. Engin tilraun sé gerð til að rökstyðja þann hluta kröfunnar og því sé ekki unnt að verjast þeirri kröfu. Henni beri því að vísa sjálfkrafa frá dómi (ex officio).
Á grundvelli alls framangreinds er það krafa varnaraðila að kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra þar að lútandi.
Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og almennra reglna um kröfuábyrgð.
IV
Niðurstaða
Mál þetta barst dóminum 21. apríl 2017 með beiðni skiptastjóra dánarbús A um úrlausn ágreinings við opinber skipti með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti o.fl. Í bréfi skiptastjóra til dómsins er ágreiningurinn afmarkaður með þeim hætti að krafa sóknaraðila, um að viðurkennd verði krafa hans í dánarbú A, sé send dóminum til úrlausnar þar sem ekki hafi tekist að sætta sjónarmið búsins og kröfuhafa með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Lýtur ágreiningurinn í málinu því að því hvernig fara skuli við skiptin með kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila sem er til komin vegna sjálfskuldarábyrgðar hins látna, A, á námslánum dóttur sinnar, B.
Í málinu liggur fyrir að varnaraðili er skuldafrágöngubú, sbr. VII. kafla laga nr. 20/1991, þar sem eini erfingi hins látna, B, lýsti því yfir á skiptafundi 25. janúar sl. að hún tæki ekki ábyrgð á skuldum búsins. Þá liggur fyrir ákvörðun skiptastjóra um að fara skuli með búið samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. á grundvelli efnahags og eignastöðu búsins þar sem ljóst var, að mati skiptastjóra, að eignir búsins nægðu ekki fyrir lýstum kröfum.
Jafnframt liggur fyrir í málinu að sóknaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 9.164.523 krónur vegna áðurnefndrar sjálfskuldarábyrgðar A. Í kröfulýsingunni er ekki vísað skýrlega til þess hverrar stöðu sé krafist að krafan njóti í skuldaröð sbr. 117. gr. laga nr. 21/1991 en í undirtextanum Rétthæð kröfu og önnur rök segir: „Skuldabréf nr. [...] er vegna námslána B, sem A var ábyrgðarmaður á.“ Þá segir neðar að framangreind fjárhæð óskist greidd af eignum þrotabúsins á skrifstofu sóknaraðila, í samræmi við úthlutun úr búinu og lýsta réttarstöðu kröfunnar. Af áframhaldandi samskiptum sóknaraðila og skiptastjóra er ljóst að farið var með kröfuna sem almenna kröfu á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 og að kröfunni var hafnað sökum þess að umrætt lán var ekki í vanskilum hjá aðalskuldara og ekki hafði verið skorað á ábyrgðarmanninn að greiða gjaldfallna kröfu. Þóttu lög því ekki standa til þess að krafa sóknaraðila yrði samþykkt enda gæti sóknaraðili ekki innheimt kröfuna. Verður ekki séð að kröfunni hafi verið hafnað á þeim forsendum að kröfulýsing sóknaraðila væri haldin einhverjum annmörkum. Þá verður heldur ekki séð að úrlausnarefni það er sent var dóminum varði slíkt álitaefni, þ.e. annmarka á umræddri kröfulýsingu, sbr. bréf skiptastjóra til dómsins. Telur dómurinn því ekki efni til að fjalla um efni eða form kröfulýsingarinnar eða hugsanlega frávísun kröfu sóknaraðila frá dóminum af þeim sökum eins og varnaraðili virðist byggja á í greinargerð sinni.
Eins og fram er komið í málinu byggir sóknaraðili á því að viðurkenna beri kröfu hans á hendur varnaraðila vegna sjálfskuldarábyrgðar sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ágreiningurinn snúist um hvort lög nr. 21/1991, sem gilda um skipti varnaraðila sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991, standi til þess að sóknaraðili geti lýst skilyrtri kröfu í bú varnaraðila. Varnaraðili hefur byggt á því að skilyrtar kröfur, þar sem lausnarskilyrðið sé ekki komið fram, eigi sér ekki stoð í lögum nr. 21/1991 og verði ekki lýst við skiptameðferð bús varnaraðila sem sé skuldafrágöngubú. Óskiljanlegt sé hvernig skilyrt og ógjaldfallin krafa sóknaraðila geti fallið undir 156. gr. laga nr. 21/1991. Þá stofnist krafan ekki nema farið sé að lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Sóknaraðili hafnar þessu og vísar til þess að ákvæði laga nr. 21/1991 heimili skýrlega að skilyrtri kröfu sé lýst og þar sé kveðið á um hvernig beri að fara með slíkar kröfur við skipti. Krafa sóknaraðila sé tryggingarréttindi sem varin eru af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og geti ekki fallið brott við það eitt að erfingi gangist ekki við skuldum hins látna og búið lúti ákvæðum laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Kröfunni sé lýst svo hún verði viðurkennd sem skilyrt krafa. Þess sé þó ekki krafist að búið greiði kröfuna þegar í stað enda sé ábyrgðin óvirk og háð greiðslufalli skuldara. Þá geti efni laga um ábyrgðarmenn ekki haft þýðingu við úrlausn þessa máls.
Af gögnum málsins er ljóst að er krafa sóknaraðila var komin fram nægðu eignir búsins ekki fyrir lýstum kröfum og fór skiptastjóri því réttilega með skiptin undir ákvæði laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. laga nr. 20/1991 og virðist enginn ágreiningur með aðilum um þá ákvörðun. Lýtur ágreiningurinn á hinn bóginn að því hvernig fara beri með kröfu sóknaraðila við þessar aðstæður og í ljósi þeirrar staðreyndar að um skuldafrágöngubú er að ræða.
Krafa sóknaraðila er, eins og áður er fram komið, til komin vegna sjálfskuldarábyrgða sem A heitinn gekkst í gagnvart sóknaraðila vegna námslána dóttur sinnar, B. Sjálfskuldarábyrgð er ábyrgð sem gerir ábyrgðarmanni skylt að greiða skuld sem ábyrgð er fyrir strax og í ljós kemur að aðalskuldari hefur ekki staðið við skyldu sína. Í raun ábyrgist ábyrgðarmaður greiðslu skuldar sem hún væri hans eigin. Krafan er þó háð því skilyrði að vanskil aðalskuldara séu fyrir hendi og greiðsluskylda ábyrgðarmanns verður ekki virk fyrr en við vanskil þess fyrrnefnda. Þá er ljóst og óumdeilt að krafa sóknaraðila er tryggingarréttindi í formi persónulegrar skuldbindingar ábyrgðarmanns og því um að ræða eignarréttindi sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar sem fallið hafa á þessu sviði.
Ljóst er af ákvæðum 156. og 157. gr. laga nr. 21/1991 að ráðgert er í lögunum að skilyrtar kröfur séu samþykktar við skipti, eins og sóknaraðili hefur bent á, enda þótt skilyrðið sé ekki komið fram. Þá er ljóst að heimilt er að ljúka skiptum þótt sumar kröfur á hendur búinu séu umdeildar eða skilyrtar en þá er mælt fyrir um í áðurnefndum ákvæðum að taka skuli frá fé til greiðslu þeirra við úthlutun úr búinu. Gildir þá einu þótt ekki liggi fyrir hvenær það verði og marka lögin engan tímaramma í þeim efnum. Þá er samkvæmt 101. gr. laganna heimilt að skuldajafna skilyrtri kröfu við kröfu þrotabús þegar skilyrðið er uppfyllt.
Í máli þessu háttar svo til að skilyrðið um vanskil aðalskuldara er ókomið og greiðsluskylda ábyrgðarmanns því ekki til orðin. Verður því ekki séð hvernig lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn geti komið til álita á þessu stigi þar sem ábyrgðarskyldan er ekki fallin á ábyrgðarmanninn. Eðli málsins samkvæmt hefur því krafa ekki stofnast á hendur ábyrgðarmanni þar sem greiðslufall hefur ekki orðið af hálfu skuldara og skylda ábyrgðarmannsins því ekki orðin virk í þeim skilningi að unnt sé að ganga að honum til greiðslu skuldarinnar. Þrátt fyrir eðli þeirra réttinda sem um ræðir telur dómurinn, með vísan til framangreinds, ekki unnt að líta svo á að krafa sóknaraðila sé skilyrt krafa í skilningi ákvæða laga nr. 21/1991 þegar af þeirri ástæðu að krafan hefur ekki stofnast á hendur ábyrgðarmanni. Er ekki unnt að fallast á að sóknaraðila sé þannig fært að krefjast þess, á grundvelli 156. eða 157. gr. laga nr. 21/1991, að tekin sé frá fjárhæð honum til handa við skiptin komi einhvern tímann til þess að vanskil verði af hálfu lántakandans. Þá liggur fyrir að dánarbúið er skuldafrágöngubú, sbr. 53. gr. laga nr. 20/1991, og kemur því ekki til neinna álita að erfingi hafi ábyrgst skuldir búsins. Breytir engu þar um þótt eini erfingi búsins sé aðalskuldari umrædds námsláns. Jafnframt verður að líta til þess að samkvæmt ákvæði í upphaflegu skuldabréfi, sem A gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir, getur sóknaraðili við lát ábyrgðarmanns óskað eftir því að skuldari finni nýjan ábyrgðarmann eða sóknaraðili getur að öðrum kosti gjaldfellt skuldina gagnvart aðalskuldara. Með vísan til alls framangreinds verður kröfu sóknaraðila því hafnað.
Með hliðsjón af úrslitum málsins ber sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 23. júní 2017.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, dánarbúi A, 300.000 krónur í málskostnað.